Vinaþjóðin Færeyingar og óvinirnir sem koma innan frá og utan

Ég er nú hrærð yfir stuðningnum sem við fáum frá okkar nágrönnum, þjóð sem veit alveg hvernig það er að verða leiksoppur í bankakreppu.  Það væri gaman að fá söguna rifjaða upp um bankakreppuna í Færeyjum, hvernig kom hún til? Var hún venjulegum íbúum í Færeyjum að kenna?

Var hún þeim að kenna á sama hátt og ég vaknaði upp einn daginn og var sagt að nú skuldaði ég stórfé, svo háar fjárhæðir að ég skynja varla stærð þeirra og svo háar að ég gæti aldrei borgað þær til baka, dætur mínar yrðu að hneppast í skuldaþrældóm og kannski myndi taka margar kynslóðir að borga þetta til baka. Hugsanlega væri eina leið okkar að flytjast frá eyjunni þar sem við höfum búið allt okkar líf. 

Ég vaknaði líka upp einn daginn við að ýmsir halda því fram að ég hafi verið að eyða og spenna og lifa um efni fram, meira segja mennirnir sem gengu berserksgang í útlöndum við að kaupa einhverjar alþjóðlegar verslunarkeðjur, þeir koma í sjónvarpið og nota orðið "Við" um það. Átti ég eitthvað í þessum verslunarkeðjum? Vissi ég af þessum Icesave reikningum, vissi ég að íslenska ríkið væri á einhvern hátt ábyrgt fyrir bankainnistæðum Breta í einhverjum netbönkum? Hvernig getur það verið að ég sem hef engin lán tekið síðan í kringum 1988 og hef í marga áratugi verið að borga upp skuldir mínar skuli núna vera orðin stórskuldug og ekki geta sofið á næturna vegna áhyggna á hvernig takist að semja um skuldir mínar í einhverjum Icesave reikningum?

Voru það svona tilfinningar sem bærust með venjulegum íbúum Færeyinga þegar bankakreppa þeirra skall á?  Hvers vegna eigum við íbúar heimsins að sætta okkur við að vera leiksoppar í hráskinnaleik einhverja auðjöfra sem halda að hamingja okkar, lífsöryggi, lífsviðurværi og heimkynni sé eitthvað sem hægt er að setja verðmiða á og þessir verðmiðar geti svona runnið hömlulaust um heiminn og kippt í einu vettvangi undir okkur fótunum?

Við Íslendingar eigum núna að vera orðin stórskuldug. Brást aflinn? Er fólk hætt að kaupa fisk? Erum við í stríði og allir vopnfærir menn að berjast með ærnum tilkostnaði einhvers staðar?  Nei. Við erum þvert á móti á stað í heiminum þar sem allt bendir til að auðlindir verði miklu verðmætari á næstu áratugum. 

Hvað gerðist? Var það ef til vill svo alvarlegt, svo meðvitað að það var ekki annað en landráð?

Ég held að þó að Færeyingar hafi  þolað ömurlega bankakreppu þá hafi ekki skollið yfir þá á sama tíma sú hvassa milliríkjadeila sem Ísland sogaðist í og það var enginn sem beitti hryðjuverkalögum á Færeyinga.  Ég held ég jafni mig aldrei á því þegar ég sá Gordon Brown í sjónvarpinu, mér leið eins og almenningi í Írak hefur liðið þegar Bush réttlætti að hernaðarinnrás í Írak til að leita að kjarnorkusprengjum. Ég hugsaði að þessi maður með sína spinndoktora honum yrði ekki skotaskuld úr að búa til þjófa úr Íslendingum og réttlæta innrás inn í Ísland af því "við skulduðum þeim svo mikið". 

Ég skil ekki hvernig ég er í ábyrgð fyrir einhverjum bankareikningum í Bretlandi og ég tel að ýmsir aðilar á Íslandi hafi brugðist mér og öðrum Íslendingum heiftarlega. En kaldar kveðjur Gordon Brown til Íslendinga skildu eftir sig djúpt sár á sál minni, að vera ógnað á þessum tíma af þjóðhöfðingja vinsamlegs grannríkis á stund neyðarinnar.  Einmitt á sama tíma þá bárust hlý orð frá yfirvöldum í Færeyingum.

Íslenska þjóðin sér í þrengingum sínum hverjir eru vinir í raun.  En pössum okkur á því að búa ekki til björgunarhetjur úr brennuvörgunum sem í mörg ár komu sér fyrir í íslensku þjóðfélagi, sköpuðu sér völd og aðstöðu til að ráðskast með og höndla með  fjöregg Íslendinga og búa til kerfi þar sem því var breytt í pappíra og verðmiða sem þeir og þeirra líka gátu togað á milli sín og sogað til sín í misstórum ræmum .

Og fyrir alla muni látum ekki sömu mistökin henda aftur og aftur.  Við sem höfðum stjórn sem gaf  fiskimiðin til hinna ríku, við sem höfðum stjórn sem gaf bankanna og peningagerðarvaldið til hinna voldugu, verum á verði fyrir stjórn sem nú vill gefa auðlindirnar frá þjóðinni. Látum ekki blekkjast af fagurgalanum, þeim sem tala um "sjóð handa komandi kynslóðum" eða að þetta sé bara spurning um að leigja virkjanir, eftir sem áður muni þjóðin eiga þær. Já. einmitt. Það stendur í lögum að fiskimiðin séu sameign Íslendinga. Já einmitt. Þau lög eru bara grátbrosleg í dag, hvar eru þeir og hverjir eru þeir sem hafa núna leyfi til að veiða fisk við Ísland?

Lögin sem yfir sextíu Íslendingar taka þátt í að semja og samþykkja eru líka fagurgali, lagasamkundan Alþingi er stofnun sem ver mestum tíma sínum í að stimpla lög sem koma tilbúin frá Brussel og svo einhverjum hluta í að blekkja  okkur og fela lög sem eru smán saman að taka af okkur allt sem við eigum og selja það í hendur einhverjum einkaaðilum sem geta svo selt þetta aftur til baka til einhverja olígarka í Rússlandi eða auðfursta í Austurlöndum eða útrásarvíkinga sem hafa núna flutt bækistöðvar sínar til Tortila eyja.

Þessi kreppa ætti að kenna okkur að þekkja hverjir eru vinir í raun en líka hverjir eru hvæsandi óvinir utan að eins og Gordon Brown en vonandi kennir hún okkur líka að þekkja þræði þeirra óvina sem éta upp íslenska þjóð innan frá.

Færeyingar eru vinir okkar.
Grein mánaðarins á færeysku wikipedia er núna greinin um Ísland.


mbl.is Mikill drengskapur Færeyinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hér eru slóðir þar sem hægt er að þakka Færeyingum

Netfangið hjá Dimmalætting er: redaktion@dimma.fo og hjá Lögþinginu: logting@logting.fo

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.10.2008 kl. 16:24

2 identicon

Þakka þennan pistil og áminninguna um að þakka nú fyrir sig.

Hvað varðar hina hvæsandi óvini utan og síétandi óvini innan frá, hvernig var það nú með sögurnar um sauðina og hafrana og úlfana í sauðagærunni? Þegar öllu er á botninn hvolft þá erum það við, almenningur sem með aðgerðaleysi og lítilli þátttöku í innra starfi stjórnmálaflokkana látum þeim frekustu eftir stjórnartaumana.

Kannski það sé kominn tími til að reiður almenningur mæti á fundi í þeim flokkum sem þeim hugnast best að vinna í, og afla þeirri hugmynd, þeirri einföldu hugmynd fylgis, að fella þá í næsta prófkjöri sem sváfu fastast og mökuðu krókana.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 29.10.2008 kl. 16:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband