Konungsbók og eineygður köttur

Á mánudaginn fór ég í bæjarferð, ég fór í heimsókn í gamla vinnustaðinn minn á Hverfisgötu 6. Ég held það séu margir mánuðir síðan ég kom í miðbæ Reykjavíkur. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er vont veður alltaf þarna við Arnarhól, ískaldur vindstrengur næðir um allt. Það er annað veðurbelti þarna en hérna í Sigtúni það sem er skjöl úr öllum áttum og ylur að neðan úr iðrum jarðar. Eða það er bara svo kalt núna um allt Ísland að hvergi er skjól. Síðustu daga hef ég velt fyrir mér af hverju maður er eiginlega að búa hérna á þessi rokskeri í  Atlantshafinu, það hljóta að vera vera aðrir betri kostir til að verja þessari takmörkuðu jarðvist á. Ég held nú reyndar að Ísland gerist ekki napurra en núna, ískuldi og stormur og svo hellist skammdegið yfir  þyngra og drungalegra með hverjum degi.

Það er einmitt á þessum árstíma sem þörfin fyrir drauma og sögur er mest. Núna eru líka jólabækurnar að koma út. Á mánudaginn eftir heimsóknina í stjórnarráðið þá fór ég á Súfistann og sat þar góða stund (lesist  margar klukkustundir) og drakk kaffi og las konungsbók eftir Arnald og eineygða köttinn eftir Hugleik Dagsson. Ég valdi þessar bækur vegna þess að núna hafa bæst á listannn yfir framtíðarplön mín að skrifa sakamálasögu og gerast skrípamyndahöfundur og ég er að stúdera "tricks of the trade" hjá meisturum.  Konungsbók byrjaði vel, gaman að lesa svona kunnugleg íslensk minni í bland við hefðbundnar hryllingssagnasenur, rigningu og nótt og grafarrask. Söguhetjurnar tvær eru líka skemmtilegir karakterar, sérstaklega sögumaðurinn sem kann manna best að ráða í letur og lesa merkingu úr gömlum skræðum. Ég var spennt þegar minnst var á Jón Sigurðsson (sómi Íslands, sverð og skjöldur) og vonandi að hann yrði einhver sögupersóna en það þannig var það nú ekki. Ég hafði nefnilega hugsað mér að hann yrði ein af sögupersónum í minni sögu, hinn ungi og iðni og alvörugefni og nákvæmni Jón Sigurðsson sem fær vinnu í Kaupmannahöfn hjá Finni Magnússyni leyndarskjalaverði við að búa til prentunar hið mikla ritverk Finns um rúnirnar.  Mín saga myndi heldur ekki fjalla um Konungsbók heldur um rúnabókina hans Finns.  Ég fékk margar góðar hugmyndir úr Konungsbók en ég missti þráðinn í bókinni eftir fyrstu kaflanna þegar þetta fór að verða eltingaleikur út um allar trissur svona í anda Da Vinci lykilsins. En svo endaði ég með að glugga í eineygða köttinn eftir Hugleik og ákvað strax á fyrstu blaðsíðunum að kaupa hana til að gefa í jólagjöf.  Sekúndu seinna snerist mér hugur og ég hætti við að gefa hana í jólagjöf, ég tími því alls ekki. Þetta er bók sem ég verð að eiga sjálf. Það þótt að ég sé löngu hætt að safna teiknimyndasögum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband