Orð dagsins er seiðmagnað

Til bókmenntaverðlauna eru tilnefndar bækur eftir  fágæta höfunda sem skapa seiðmagnað andrúmsloft og seiðmagnaðar bækur þar sem meginstefin eru sterkustu öflin í mannlegri tilveru.  Þetta er nú bara orðalag sem útgefandi hinna seiðmögnuðu sendir frá sér til að lýsa vörunni.  Ég vona alla vega að bækur Braga og Ólafs séu ekki eins bragðdaufar og  þessar seiðmögnuðu lýsingar. 

 En ég spái í hvort söguhetjurnar  Sturla Jón og Gísella Dal hafi einhvern sameiginlegan þráð, eitthvað sem bendir á tíðarandann og núið og núningsfletina á Íslandi.

 Þessa fann ég um Sendiherrann eftir Braga Ólafsson,
"Sagan af íslenska ljóðskáldinu Sturlu Jóni Jónssyni lýsir glímu hans við hinn miður ljóðræna raunveruleika, en einnig baráttu hans við glæpamanninn sem býr í okkur öllum. Hinn menningarlegi sendiherra lands síns þarf að bregðast við óvæntum áföllum á erlendri grund, en einnig gleðilegum eins og kynnunum af skáldkonunni Liliyu Boguinskaia, og hann þarf að kljást við þá ógn sem hans eigin sköpun hefur í för með sér - þau þungu sannindi að til að vera við sjálf þurfum við að stela frá öðrum. "

Þetta fann ég um Tryggðarpant Auðar Jónsdóttur
"Gísella Dal lifir fullkomnu lífi. Hún býr í stórri íbúð, er fastagestur á fínustu snyrtistofum, drekkur eðalvín og borðar exótískan mat, á milli þess sem hún skrifar stöku grein í tímarit, meira til gamans. En dag einn fær Gísella þær fréttir að ríkulegur arfur ömmu hennar sé uppurinn og að hugsanlega þurfi hún að fórna öllum sínum lífsstíl og fara að vinna fyrir sér. Þar til henni hugkvæmist að fá sér leigjendur ..."

Ég las líka ritdóminn sem Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði um Tryggðapant í dag.

Alla vega er það sameiginlegt að bæði Sturla og Gísella eru ekki bændur eða vinna í fiski  ala Bjartur og Salka Valka  og virðist vera einhvers konar afætur og   sögur af þeim fjalla um Ísland og alþjóðavæðinguna. Sögusviðið er ekki sjávarþorpið eða bóndabærinn, núningurinn er ekki milli borgar og sveitar heldur milli Íslands og útlanda. 

Guðlausir menn er sennilega aðeins nýrri tónn í bókmenntum. Um þá ljóðabók segir: "Ljóðmælandi svo persónulegur að oft er eins og verið sé að lesa upp úr bloggsíðu, þar sem bloggað er í skjóli nafnleysis og persónuleg vandamál og holskeflur þær sem steypast yfir fólk eru gerðar opinberar. ". 

Blogg eru ekki endilega persónuleg en blogg eru saga sögð frá sjónarhóli og vitund þess sem skrifar. Það er fróðlegt að sjá hvernig bloggskrifmenning heldur innreið sína í bókmenntir. Sennilegt er að þeir rithöfundar sem munu vaxa upp á næsta áratug fái sína fyrstu skrifreynslu á bloggi. Bloggskrifmenning seitlar hægt og síast inn í bókmenntir, Hallgrímur Helgason gerði tilraun í fyrra með bloggandi sögupersónu.


mbl.is Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband