Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006
23.11.2006 | 17:45
Fyrrverandi ljóska
Dóttirin er núna komin með dökkt hár. Ljóskutímabilinu er lokið. Hér pósar hún með stærðfræðibók og svo er hér mynd af ljóskunni á 17 ára afmælisdeginum.
23.11.2006 | 14:48
Víkindainnrásin og West Ham
The Vikings are coming er grein núna á BBC fréttavefnum. Extrabladet í Danmörku hefur líka sýnt Íslandi sérstaka athygli að undanförnu. Það kitlar náttúrulega hégómagirnd okkar Íslendinga að vera svona í sviðsljósinu hjá grannþjóðum. En umfjöllunin er ólíkt vinsamlegri á BBC og skýringarnar á velgengni íslenskra fyrirtækja þar raktar til umgjörðar athafnalífs á Íslandi :"The invasion by Icelandic businesses and entrepreneurs is the result of recent financial reforms." En Ekstrabladet er ekkert á því róli og þar eru greinar eins og þessar:
Money laundering and corruption
Putin's minister received million doller bribe
Víkingainnrásin" vekur furðu BBC | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2006 | 06:57
Orð dagsins er Pískirís
"Tá eg smelti mars røri eg altíð við pískirísi, so sleppi eg undan klumpum."
Það er ótrúlega gaman að lesa færeysku, svo myndrænt og öðruvísi mál. Ég hélt að pískirís væri sjálfspyndingatól svona eins og ég hef séð í útlenskum fréttaskotum þar sem píslarvottar og einsetumenn berja sig með svipum við hátíðlegar athafnir við skrúðgöngur í kringum föstudaginn langa svona til að sameinast Jesús síðusári.
Svona sjálfspyntingarlosti er líka oft leiðarstefið í sögum kvenna sem ganga út á fórnarlund og kvöl og eru svona leiðbeiningar um hvernig á að kóa með ölkum og lifa lífinu í gegnum augu annarra.
Já færeyskan er stórkostlegt tungumál. Það þarf ekki annað en að lesa setningarbrot úr matreiðsluuppskrift á færeysku um hvernig maður bræðir marens og hrærir í á meðan til að það hlaupi ekki allt í kekki til að lyfta andanum í æðstu hæðir og fara að pæla í bókmenntun og kvöl heimsins og frelsarans og kvöl konunnar.
22.11.2006 | 13:39
Kortakvart
Pirrandi frétt um að Landmælingar séu að hætta útgáfu landakorta og sölu þeirra á almennum markaði og til standi að selja útgáfurétt af fimm helstu ferðakortunum seldur. Markmiðið mun vera að draga Landmælingar út úr samkeppni við einkafyrirtæki sem sinna kortaútgáfu.
Það eru svona fréttir sem koma mér í vont skap og fylla mig vonleysi. Er enginn þarna úti sem hefur sömu sýn og ég? Þá sýn að upplýsingar sem aflað er af almannafé eigi að vera ókeypis og svona upplýsingar eins og kort eiga að vera hverjum manni og hverri stofnun aðgengileg. Þá sýn að upplýsingar eiga almennt að vera ókeypis. Það að selja kort af Íslandi það er alveg eins og hérna fyrir nokkrum árum þegar Hæstaréttardómar voru seldir á geisladiskum og aðeins vel fjáðar lögfræðistofur gátu keypt svoleiðis diska. Á einhverjum tíma þá var svona markaðskerfi gæða það sem virkaði best en í því samfélagi sem við erum að fara inn í núna þá er þannig kerfi bara til trafala og býr til þröskulda og eykur á mismunun og kyrkir nýsköpun.
Ég hef unnið töluvert við íslensku Wikipedía orðabókina og þar meðal annars teiknað nokkur kort. Þau kort hef ég að sjálfsögðu teiknað eftir öðrum kortum vegna þess að það er nú einu sinni þannig að það er mikilvægt að kort séu frekar nákvæm. Ég hef gætt þess að geta heimilda og vona að ég sé alveg á réttu róli hvað höfundarrétt varðar. Ég hef hins vegar teiknað þessi kort til að aðrir geti tekið þau og gert hvað sem þeim þóknast við þau. Kortin teikna ég í vektorteikniforritinu Inkscape sem er ókeypis og open source hugbúnaður en ég reyni að nota svoleiðis hugbúnað ef það er mögulegt.
Hér er dæmii um síðu sem er með kort sem ég teiknaði af fjörðum á Íslandi en.wikipedia.org/wiki/Breiðafjörður
Sem dæmi um hvernig vinnubrögð hægt er að hafa þegar öll kort eru aðgengileg öllum má nefna að ég teiknaði líka kort af hverfum í Reykjavík og svo tók annar wikiverji það kort og breytti til hins betra og vann áfram í þetta hverfakort
Það myndi létta okkur mjög lífið sem erum að vinna í því í sjálfboðaliðsvinnu að setja inn upplýsingar í íslensku wikipedia ef við hefðum aðgang að vektorkortum sem við mættum setja inn í commons.wikimedia.org og breyta og nota í wikiverkefnum. Flest kort sem ég geri tengjast reyndar sjónum og hafstraumum enda reyni ég að einbeita mér að því að skrifa inn greinar sem tengjast lífríki sjávar. En það er ekki bara verkefni eins og Wikipedia sem myndi græða á því að þessi kort væru ókeypis og öllum aðgengileg, það er sennilegt hjálpa heilmikið öllum í ferðaþjónustu sem er nú sívaxandi atvinnugrein á Íslandi. Í því sambandi má benda á að Wikipedia er ein öflugasta heimildin varðandi fjarlægar slóðir og margir sem koma hingað til lands eru búnir að fletta heilmikið þar upp.
Hætta útgáfu landakorta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 13:16
Að verja hagsmuni sína... fyrir sjálfum sér
Fyndin frétt um meint höfundarréttarbrot EJS sem Landsteinar (LS) ásaka það fyrirtæki um. Það er ekki nóg með að það séu gífurlegar málaflækjur vegna höfundarréttar núna heldur er svo komið að fyrirtæki í eigu sömu aðila eru farin að slást hvert við annað. Það kallast að verja hagsmuni sína.
"Athygli vekur að LS grípi til aðgerða af þessu tagi gagnvart EJS, en fyrirtækin eru að hluta til í eigu sömu aðila......Gunnlaugur hjá LS segir að þótt fyrirtæki séu að hluta í eiga sömu aðila séu það eðlilegir stjórnunarhættir að láta þau verja sína hagsmuni, og það sé gert í þessu tilviki."
Hvernig liti þetta mál út ef hugbúnaðurinn sem um ræðir hefði verið "open source"
Ég fann myndina hérna til hliðar með að leita í CreativeCommons.org, slá inn leitarorðið gasoline og fann þá þessa mynd og ég skar hana til í imagecrop.com
Það er sniðug leið til að finna myndir á blogg.
Leitað vegna ætlaðra brota á höfundarrétti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2006 | 01:38
Kanahúsin á floti
Það er alveg sárgrætilegt að sjá skemmdirnar í kanablokkunum sem sýndar voru í sjónvarpinu. Eitthvað pínlegt líka við að sjá þessar miklu fasteignir grotna svona ofboðslega hratt niður í höndum Íslendinga. Með sama áframhaldi má víst bara rífa allt hverfið eftir veturinn. Maður getur ekki annað hugsað en hvort Íslendingar séu líka svona andvaralausir með varnir landsins - nú úr því að við höfum ekki fyrirhyggju til að verja hús fyrir frosthörkum sem þó eru algengar og fyrirsjáanlegar, hvernig í ósköpunum getum við þá planað varnir þessa lands fyrir utanaðkomandi ógnum?
Það er líka táknrænt að það var gæsla á svæðinu. Gæslan beindist hins vegar bara gagnvart mannaferðum, gagnvart því að tryggja að ekkert fólk kæmist inn á svæðið. Hvað hefði það fólk svo sem átt að gera? Sprengja upp húsin? Setjast að í mannlausum húsunum? Það sem er táknrænt við þetta er hversu lítt nösk stjórnvöld eru á að greina ógnina í umhverfinu. Helsta ógnin á Íslandi stafar ekki af fólkinu í landinu heldur af náttúruhamförum og vetrarhörkum, í þessu tilviki voru skemmdarverkin ekki unnin af spellvirkjum sem sprengdu upp hús heldur af vatni sem fraus í pípum og sprengdi upp leiðslur.
Ég hef reynt að fylgjast með hvaða plön eða hugmyndir eru um notkun þessara eigna en ég hef ekki séð neitt ennþá. Mér finnst það furðulegt, það eru margir mánuðir síðan ljóst var að herinn færi og af hverju hafa engar hugmyndir verið ræddar? Eða hef ég misst af einhverju? Eina sem ég hef tekið eftir er að það virðist tregða við að setja þessar eignir í sölu, það er að hluta til eðlilegt vegna þess að það þarf náttúrulega að skipuleggja svæðið sem íslenskt íbúðarsvæði. En ég hef grun um að það séu hagsmunir iðnaðarmanna og íbúðareigenda sérstaklega á Suðurnesjum sem ráða því að ekki er í umræðunni að selja þessar eignir á almennum markaði. Það er hræðsla og hún er alveg skiljanleg við að ef svona margar íbúðir koma í einu inn á almennan markað á þessu svæði annað hvort í sölu eða leigu þá muni húsnæðismarkaður hrynja á svæðinu og byggingariðnaðurinn stoppa. Það segir sig sjálft að ef framboð eykst verulega á ódýru húsnæði til kaups eða leigu þá lækkar bæði húsnæðisverð og húsaleiga.
En það er ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt við þessar eignir. Það getur ekki verið eðlilegt að taka ekki ákvörðun út frá skynsemissjónarmiði vegna þess að það stangast á við segjum byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Það er skrýtið að í landi þar sem heilu fiskiþorpin eru í auðn vegna þess að það má selja kvótann burt úr plássunum að ekki megi selja fáeinar kanablokkir með hraði.
Annars er ég hrædd um að ákvarðanir um nýtingu þessarra eigna verði teknar á miðstýrðan hátt af fámennum hóp og án þess að leitað sé eftir hugmyndum almennings. Það er of mikil hefð fyrir slíkum vinnubrögðum í jafn opinberri stjórnsýslu sem og viðskiptalífi. Það eru hins vegar ekki sniðugustu vinnubrögðin og ég vildi óska þess að við svona verkefni þá væri reynt að fara einhverjar aðrar leiðir.
Hér er annars mínar hugmyndir um nýtingu þessarra íbúðarhúsa sem ég myndi setja inn í hugmyndabanka ef þess væri leitað
* Best að koma sem mestu úr ríkisumsjá sem fyrst
* Selja almenningi stóran hluta þessarra eigna en gera það í áföngum og binda ákveðnum skilyrðum. Gera sem fyrst söluáætlun.
* Hafa í huga við söluna að selja eignirnar þannig að það komi sem minnst við húsnæðismarkað á Suðurnesjum.
* Ein leið til að losna við þessar íbúðir eða hluta þeirra án þess að hafa verulega áhrif á íbúðarmarkaðinn er að bjóða fólki á landsbyggðinni eða sveitafélögum eða aðilum þar þær til kaups á mjög lágu verði sem aukahúsnæði (alveg eins og fólk í þéttbýli kaupir sumarhús út á landi þar sem það er nokkrar nætur á ári þá getur fólk á landsbyggðinni viljað eiga aðsetur á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðir sínar til borgarinnar). Það væri reyndar snilldarlausn til lengri tíma að fá sem flesta á landbyggðinni, sérstaklega frá svæðum sem núna er flogið til í innanlandsflugi til að eiga íbúð í Reykjanesbæ svona upp á hugsanlegan flutning flugvallarins seinna meir. Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir til einhverra aðila með takmörkunum um afnot t.d. að ekki megi leigja þær á almennum markaði.
* Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir eða afnotarétt af þeim amk þann hluta þeirra sem hugsanlega verður rifinn til fjölskyldna sem eru í húsnæðisþröng sem gætu notað þær þangað til að því kemur. Það verður sennilega seint eftirspurn eftir þessu húsnæði til varanlegrar búsetu meðal Íslendinga og það er líklegt að það verði fyrst og fremst fólk erlendis frá sem flyst til Íslands sem hefur áhuga á búsetu þarna rétt eftir að það kemur til landsins. En það yrði nú eins konar endurtekning á braggahverfunum. Það er kannski mest ábyrgð stjórnvalda að reyna að passa að þetta hverfi verði ekki fátækrahverfi með niðurníddum húsum. En það er kannski ennþá verra að hverfið verði bara hverfi með mannlausum niðurníddum húsum.
Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2006 | 18:23
Ævisaga Hannesar
Í Fréttablaðinu í dag (bls. 46) þá er umfjöllun um ævisögu Hannesar fyrsta bindi og er fátítt að bækur óþekkra ævisagnaritara eins og þetta ritverk Óttar Martins Norðfjörð fái svo mikla umfjöllun. Virðist umfjöllunin álíka mikil að vöxtum og stærð og bókin sjálf. Þetta er náttúrulega líka meira í anda þeirra tískustrauma sem hafa verið í ævisagnaritun undanfarin ár, það eru miklu fleiri sem lesa og grufla í alls konar heimildarvinnu varðandi verkin og spá í hver sagði hvað og hver mátti afla upplýsinga um hvað og hver mátti vitna í hvað hver sagði við hvern og hvernig má hafa eftir orð annarra og hver ætti bara að halda kjafti.
Verk Óttars er sennilega listrænn gjörningur hans og óska ég honum alls hins besta á skáldbrautinni, hann hefur samið einnar blaðsíðu sögu og mun eflaust sækja um skáldalaun í opinbera sjóði til frekarri afreka á næstu árum.
En ég vona að þessi umfjöllun í Fréttablaðinu sé ekki einhvers konar liður í því að klekkja frekar á Hannesi, mér sýnist það vera nóg komið og æði ójafn leikur. Auðmenn á Íslandi hafa möguleika á að tryggja að umfjöllun um sig og fjölskyldu sína sé þeim þóknanleg og það hefur meira segja komið fram í fjölmiðlum að þeir hafa reynt að kaupa upp dagblöð beinlínis til að leggja þau niður vegna þess að þeir firrtust vegna umfjöllunar um fjölskyldusögu.
Eins hafa fjölskyldur þjóðþekktra rithöfunda sem stóran hluta af sínum starfsferli voru styrktir til skrifa sinna af almennafé gefið þjóðinni skjalasöfn þeirra við hátíðlega athöfn en svo hefur komið á daginn að þessi þjóð var bara þeir sem fjölskyldan hafði velþóknun á og þetta var bara gjöf til fárra útvalinna.
Það hefur reyndar engin bók undanfarin ár fengið jafnmikla umfjöllun og fyrsta bindið af ævisögunni sem Hannes skrifaði um Halldór Laxness. Eftir einhverja áratugi verður þessi umræða eflaust notuð sem dæmi um tíðarandann á Íslandi rétt eftir árþúsundamótin.
Myndin hér til hliðar er skjámynd af frétt Fréttablaðsins bls. 46 í dag 21. nóvember 2006. Um rétt minn (eða réttleysi) til að birta þessa mynd og vitna í þessa umræðu Fréttablaðsins þá má benda fólki á að lesa um höfundarétt á Internetinu
Bækur | Breytt s.d. kl. 18:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.11.2006 | 06:38
Myspace,netsamfélög og höfundarréttur
Það er ágætt að spila Dont download this song með Weirdal á meðal maður les fréttir af málaferlum eins og þessum frá Universal Music á hendur Myspace. Skrýtið ef Myspace væri dæmt fyrir "...leyfa almenningi að sækja myndbönd með ólöglegum hætti og veita aðgang að tækni sem gerir notendum kleift að skiptast á slíkum skrám..". Er það ólöglegt að veita aðgang að tækni? Fyrir mér hljómar það eins og einhver færi í mál við vegagerðina út af því að ökumaður keyrði drukkinn. Með því að hafa vegina opna þá skapast sú hætta að einhverjir ökumenn keyri drukknir. Er það á ábyrgð þess sem býr til og heldur við vegakerfinu?
Það er viðkvæmt ástand í höfundarréttarmálum í heiminum í dag. Höfundarréttarlög eru snarbrotin á vinsælum vefsvæðum þar sem inntakið kemur frá notendum. Það er einmitt eðli "web 2.0" vefsamfélaga að efnið kemur frá notendum.
Síðustu misseri hefur Myspace verið að breytast úr innantómum stefnumótavef og söluapparati í mjög áhugavert tónlistarsamfélag. Sennilega er nauðsynlegt fyrir alla unga tónlistarmenn í dag að hafa síðu á Myspace, þó ekki sé nema til að fylgjast með hvað aðrir eru að gera.
Hér er vefsíða sem ég tók saman um Myspace:
http://fyrirlestrar.khi.is/salvor/myspace/
Það er er ein leið greiðfærari en önnur fyrir skóla og aðila sem vilja og eiga að virða lög en vilja samt vinna með og fjölfalda margmiðlunarefni. Sú leið er að sleppa því alveg að nota efni sem varið er með hefðbundnum höfundarrétti og nota eingöngu efni sem er heimagert eða sem sem má fjölfalda og vinna áfram með eftir settum reglum. Hér á ég við efni sem er sett á vefinn með höfundarréttarleyfi CreativeCommons.
Universal Music stefnir MySpace | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 07:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.11.2006 | 11:58
Er líf eftir Frontpage?
Kennarar hafa sumir spurt mig ráða um hvaða vefsmíðaverkfæri þeir eiga að nota með nemendum núna þegar Frontpage hefur loksins verið lagt af Microsoft. Það er núna hætt framþróun á Frontpage. Þetta var fínt og einfalt vefsmíðaverkfæri á sínum tíma og einn kostur er hversu vel það vinnur með öðrum Microsoft forritum. Frontpage vefir sem þegar eru til munu örugglega vera á vefnum í mörg ár í viðbót. En Frontpage er barn síns tíma og það fylgir ekki nógu vel stöðlum og þessi "themes" sem einkenna marga frontpage vefi eru oft til trafala - ekki síst ef flytja á efnið inn í annars konar vefi. Svo er Frontpage ekki ókeypis forrit.
En hvernig verkfæri á að nota til vefsmíða?
Mikið af vefsmíði er komið inn í alls konar vefumsjónarkerfi eða útgáfukerfi (content management systems) þar sem skilið er á milli inntaksins og útlits. Bloggkerfi eru dæmi um það en einnig opinn hugbúnaður eins og Joomla.
Það er líka mikil framþróun núna í wikikerfum og það er oft besta lausnin fyrir verkefni sem eru unnin í samvinnu margra. Ég bjó til wikikennslupakka fyrir kennara og kennaranema, sjá http://wiki.khi.is Ég myndi nú ráðleggja öllum sem áhuga hafa á wiki að búa sér til wiki á wikispaces.com
Svo er það þannig að við vinnum alltaf meira og meira beint á vefnum og viljum nota vefþjónustur þar sem skrifað er beint inn á vefsvæði og auðvelt er að líma alls konar dót á vefsíður svo sem reiknivélar, vídeóklipp, hljóðskrár o.fl. og vefsíðurnar eru settar seman úr einingum sem við færum bara þar sem við viljum. Hér nefni ég dæmi um tvenns konar kerfi þar sem við getum búið til svoleiðis vefsíður. Annars vegar er það googlepages.com þeir sem eru með gmail geta fengið þar ókeypis vefsvæði með alls konar fídusum, ég setti upp til prufu http://salvor.googlepages.com/ og hins vegar weebly.com en þar setti ég til prufu tvo vefi http://christmas.weebly.com/ og http://salvor.weebly.com/ en það má í bæði googlepages og weebly velja úr fjölda uppsetninga fyrir vefsíður og reyndar líka hanna sína eigin. Það er sniðugt fyrir alla sem vilja fylgjast með þróun í vefsmíði að skoða slík kerfi, svona umhverfi þar sem maður dregur og límir einingar inn á vefsíður er líklegt til að verða vinsælt. Þetta minnir nú reyndar á ýmis netsamfélög ala Myspace en er nú lengra þróað.
Ef ég ætti að velja vefsmíðaverkfæri til að nota með nemendum þá myndi ég í fyrsta lagi skoða hvort til væri opinn hugbúnaður,það er til einfalt kerfi sem heitir Nvu, sjá hérna http://www.nvu.com/index.php sem er einmitt sett til höfuðs Frontpage og Dreamweaver.
Í öðru lagi myndi ég hafa í huga að nota kerfi sem tengdist öðru sem nemendur vinna með, ef þeir vinna mest með Office pakkann þá má benda á að það þarf ekki endilega að nota Frontpage, það er líka hægt að vista á vef í ýmsum kerfum Office 2003 bæði úr word skjölum og gera vefi í publisher, það verður eflaust einfaldara og auðveldara í Office 2007.
það mætti alveg hugsa sér að nemendur unnu líka sín verkefni í office kerfum og settu inn í verkmöppur sem væru misaðgengilegar á vef svona eins og ELGG námslandslagið.
Reyndar lofa kerfi eins og jotspot sem google var að kaupa mjög góðu - það er svona wikikerfi og bloggkerfi og stundaskrá og ýmislegt annað þ.e. notendur geta tengt saman blogg og wiki o.fl. Ég er mjög hrifin af jotspot, sérstaklega vegna þess að það er hægt að stjórna aðgangi að einstökum síðum, ég get haft einstakar wikisíður lokaðar en sumar opnar. Wikispaces er líka hægt að hafa opið eða lokað en það gildir um allt svæðið en ekki einstakar síður. Hér er mitt prufusvæði á jotspot: http://salvor.jot.com/WikiHome
Sennilega er það svoleiðis kerfi sem við eigum eftir að vinna með í nánustu framtíð.
19.11.2006 | 02:43
Sturla, Einar, Einar
Það kemur alltaf jafnmikið á óvart hver kynjahlutföllin eru í prófkjörum hjá Sjálfstæðisflokknum og hve einsleitan bakgrunn sá hópur hefur sem velst þar til forustu. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur fjölbreytileikans. Það er eitthvað í grasrót Sjálfstæðisflokkins sem kyrkir konur. Það virðist helst vera að konur hafi séns sem hafa látið til sín taka utan Sjálfstæðisflokksins og sem hafa verið fengnar til að fara þar í framboð eins og Guðfinna í Reykjavík.
Annars ber að fagna því að prófkjörið virðist hafa farið vel fram, ekki verið sama klúðrið og tæknilegu mistökin og urðu fyrir fjórum árum hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu kjördæmi. Þá skrifaði Andri Óttarsson þessa frásögn af gangi mála á Akranesi:
"Rétt er að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að tala um neitt smávægilegt kosningasvindl einstakra manna heldur stórfellt kosningamisferli sem einræðisherrar í harðræðisríkjum hefðu verið fullsæmdir af. Það er ljóst að hópur manna á Akranesi og nágrenni fór um bæinn eins og eldur í sinu með kjörkassa og kjörgögn. Farið var heim til fólks, á vinnustaði, í skip, á rúntinn og á alla mögulega og ómögulega staði með kjörgögn til að láta fólk kjósa. Til dæmis má nefna að samkvæmt heimildum sem pistlahöfundur hefur ástæðu til að treysta þá var kjörkassi staðsettur við hliðina á lottóvél í sjoppu á Akranesi og fólki boðið upp á að kjósa sína menn á meðan þeir fylltu út lottóseðilinn! "
Sturla efstur á lista Sjálfstæðisflokks í NV-kjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |