Er líf eftir Frontpage?

Kennarar hafa sumir spurt mig ráða um hvaða vefsmíðaverkfæri þeir eiga að nota með nemendum núna þegar Frontpage hefur loksins verið lagt af Microsoft. Það er núna hætt framþróun á Frontpage. Þetta var fínt og einfalt vefsmíðaverkfæri á sínum tíma og einn kostur er hversu vel það vinnur með öðrum Microsoft forritum. Frontpage vefir sem þegar eru til munu örugglega vera á vefnum í mörg ár í viðbót. En Frontpage er barn síns tíma og það fylgir ekki nógu vel stöðlum og þessi "themes" sem einkenna marga frontpage vefi eru oft til trafala - ekki síst ef flytja á efnið inn í annars konar vefi.  Svo er Frontpage ekki ókeypis forrit.

En hvernig verkfæri á að nota til vefsmíða?

Mikið af vefsmíði er komið inn í alls konar vefumsjónarkerfi eða útgáfukerfi  (content management systems) þar sem skilið er á milli inntaksins og útlits. Bloggkerfi eru dæmi um það en einnig opinn hugbúnaður eins og Joomla. 

Það er líka mikil framþróun núna í wikikerfum og það er oft besta lausnin fyrir verkefni sem eru unnin í samvinnu margra. Ég bjó til wikikennslupakka fyrir kennara og kennaranema, sjá http://wiki.khi.is  Ég myndi nú ráðleggja öllum sem áhuga hafa á wiki að búa sér til wiki á wikispaces.com

Svo er það þannig að við  vinnum alltaf meira og meira  beint á vefnum og viljum nota vefþjónustur þar sem skrifað er beint inn á vefsvæði og auðvelt er að líma alls konar dót á vefsíður svo sem reiknivélar, vídeóklipp, hljóðskrár o.fl.  og vefsíðurnar eru settar seman úr einingum sem við færum bara þar sem við viljum.  Hér nefni ég dæmi um tvenns konar kerfi þar sem við getum búið til svoleiðis vefsíður. Annars vegar er það googlepages.com þeir sem eru með gmail geta fengið þar ókeypis vefsvæði með alls konar fídusum, ég setti upp til prufu http://salvor.googlepages.com/  og hins vegar weebly.com en þar setti ég til prufu tvo vefi  http://christmas.weebly.com/  og http://salvor.weebly.com/ en það má í bæði googlepages og weebly velja úr fjölda uppsetninga fyrir vefsíður og reyndar líka hanna sína eigin. Það er sniðugt fyrir alla sem vilja fylgjast með þróun í vefsmíði að skoða slík kerfi, svona umhverfi þar sem maður dregur og límir einingar inn á vefsíður er líklegt til að verða vinsælt. Þetta minnir nú reyndar á ýmis netsamfélög ala Myspace en er nú lengra þróað.

Ef ég ætti að velja vefsmíðaverkfæri til að nota með nemendum þá myndi ég í fyrsta lagi skoða hvort til væri opinn hugbúnaður,það er til einfalt kerfi sem heitir Nvu, sjá hérna http://www.nvu.com/index.php  sem er einmitt sett til höfuðs Frontpage og Dreamweaver.

 Í öðru lagi myndi ég hafa í huga að nota kerfi sem tengdist öðru sem nemendur vinna með, ef þeir vinna mest með Office pakkann þá má benda á að það þarf ekki endilega að nota Frontpage, það er líka hægt að vista á vef  í ýmsum kerfum Office 2003 bæði úr word skjölum og gera vefi í publisher, það verður eflaust einfaldara og auðveldara í Office 2007.

það mætti alveg hugsa sér að nemendur unnu líka sín verkefni í office kerfum og settu inn í verkmöppur sem væru misaðgengilegar á vef svona eins og ELGG námslandslagið.

Reyndar lofa kerfi eins og jotspot sem google var að kaupa mjög góðu - það er svona wikikerfi og bloggkerfi og stundaskrá og ýmislegt annað þ.e. notendur geta tengt saman blogg og wiki o.fl. Ég er mjög hrifin af jotspot, sérstaklega vegna þess að það er hægt að stjórna aðgangi að einstökum síðum, ég get haft einstakar wikisíður lokaðar en sumar opnar. Wikispaces er líka hægt að hafa opið eða lokað en það gildir um allt svæðið en ekki einstakar síður. Hér er mitt prufusvæði á jotspot: http://salvor.jot.com/WikiHome

Sennilega er það svoleiðis kerfi sem við eigum eftir að vinna með í nánustu framtíð.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valur Óskarsson

Takk!

Það er gaman að fá svona fróðleik. 

Valur Óskarsson, 20.11.2006 kl. 14:06

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Vonandi gagnast þetta einhverjum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.11.2006 kl. 07:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband