Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2006

Stafrófskverið - flott framtak hjá bókasöfnunum

Það er frábært framtak hjá bókasöfnunum að gefa börnum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ stafrófskver. Vonandi er þetta byrjun á einhverju meiru í þessa veru.  Það eru ekki nema rúm fjögur þúsund börn í hverjum árangri á Íslandi og vonandi er öllum ljóst hverju miklu máli skiptir fyrir framtíðarsamfélag á Íslandi að börn fái gott veganesti út í lífið hvað menntun varðar. 

Umferðarskólinn hefur verið til fyrirmyndar undanfarin ár, sent ungum börnum bæklinga og kassettur. Ég man þegar dóttir mín sem núna er sautján ára og einmitt nýbúin að taka bílpróf og orðinn fullgildur ökumaður á Íslandi fékk kasettur og bæklinga frá Umferðarfræðslunni þegar hún var að mig minnir fjögurra ára þá var hún mjög spennt og ánægð og geymdi þetta eins og mikil djásn og var alltaf að hlusta á kassetturnar og maður þurfti endalaust að lesa upphátt fyrir hana  einhverjar sögur um Ella andarunga eða aðra sem voru að fara yfir götu og þurftu að læra umferðarreglurnar. Ég man hvað ég óskaði mér oft að menntakerfið á Íslandi væri eins vel skipulagt og umferðarskólinn og teldi það sitt hlutverk að senda börnum öðru hvoru einhvern glaðning og fræðsluefni.

Talandi um svona gjafir til barna og barnafjölskyldna þá bíð ég spennt eftir að íslenska ríkið  taki upp sama sið og Finnar og fagni hverjum nýjum Íslendingi með að senda þeim veglega sængurgjöf. Þetta hafa Finnar gert í mörg ár og það kemur stóreflis pakki með mörgu sem ungbörn þurfa fyrstu mánuði í lífi sínu og meðal foreldra ríkir spenningur yfir hvernig hönnunin verði í ár en mér skilst að það sé á hverju ári hannaður nýr sængurgjafapakki þ.e. mismunandi útlit á göllum og öðru. 

Ég átti yngri dóttur mína á háskólasjúkrahúsi í Ameríku og í því ríki markaðshyggjunnar þá fór ég klyfjuð út af spítalanum af alls konar vörum, stóru fyrirtækin sem selja ungbarnavörur gáfu gjafir eða sýnishorn af vörum sínum og spítalinn gaf sjálfur  ýmsar gjafir svo sem  sett með ýmsum nauðsynjahlutum og ýmis konar fræðsluefni fyrir nýbakaða foreldra.  Það var líka grannt fylgst með því að foreldrar hefðu komið sér upp ýmsum hlutum fyrir barnið svo sem barnabílstól og ég held að spítalinn hafi útvegað slíkt ef ég hefði ekki átt það fyrir.  

Í því ríki ofgnóttar sem við búum við núna þá finnst mörgum það eflaust óþarfi að fylgjast með nýjum foreldrum og gefa nýburum gjafir. En það er táknrænt að taka á móti nýjum þegnum með gjöf og það að allir fái sama pakkann (ný hönnun reyndar á hverju ári) er líka táknrænt - það segir meira en mörg orð um hvernig þetta samfélag ætlar að reynast þegnum sínum  og að sá andi svífi yfir vötnum að það eigi það sama yfir alla að ganga. 


mbl.is Börn á fjórða ári fá stafrófskver að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konungsbók og eineygður köttur

Á mánudaginn fór ég í bæjarferð, ég fór í heimsókn í gamla vinnustaðinn minn á Hverfisgötu 6. Ég held það séu margir mánuðir síðan ég kom í miðbæ Reykjavíkur. Ég var alveg búin að gleyma hvað það er vont veður alltaf þarna við Arnarhól, ískaldur vindstrengur næðir um allt. Það er annað veðurbelti þarna en hérna í Sigtúni það sem er skjöl úr öllum áttum og ylur að neðan úr iðrum jarðar. Eða það er bara svo kalt núna um allt Ísland að hvergi er skjól. Síðustu daga hef ég velt fyrir mér af hverju maður er eiginlega að búa hérna á þessi rokskeri í  Atlantshafinu, það hljóta að vera vera aðrir betri kostir til að verja þessari takmörkuðu jarðvist á. Ég held nú reyndar að Ísland gerist ekki napurra en núna, ískuldi og stormur og svo hellist skammdegið yfir  þyngra og drungalegra með hverjum degi.

Það er einmitt á þessum árstíma sem þörfin fyrir drauma og sögur er mest. Núna eru líka jólabækurnar að koma út. Á mánudaginn eftir heimsóknina í stjórnarráðið þá fór ég á Súfistann og sat þar góða stund (lesist  margar klukkustundir) og drakk kaffi og las konungsbók eftir Arnald og eineygða köttinn eftir Hugleik Dagsson. Ég valdi þessar bækur vegna þess að núna hafa bæst á listannn yfir framtíðarplön mín að skrifa sakamálasögu og gerast skrípamyndahöfundur og ég er að stúdera "tricks of the trade" hjá meisturum.  Konungsbók byrjaði vel, gaman að lesa svona kunnugleg íslensk minni í bland við hefðbundnar hryllingssagnasenur, rigningu og nótt og grafarrask. Söguhetjurnar tvær eru líka skemmtilegir karakterar, sérstaklega sögumaðurinn sem kann manna best að ráða í letur og lesa merkingu úr gömlum skræðum. Ég var spennt þegar minnst var á Jón Sigurðsson (sómi Íslands, sverð og skjöldur) og vonandi að hann yrði einhver sögupersóna en það þannig var það nú ekki. Ég hafði nefnilega hugsað mér að hann yrði ein af sögupersónum í minni sögu, hinn ungi og iðni og alvörugefni og nákvæmni Jón Sigurðsson sem fær vinnu í Kaupmannahöfn hjá Finni Magnússyni leyndarskjalaverði við að búa til prentunar hið mikla ritverk Finns um rúnirnar.  Mín saga myndi heldur ekki fjalla um Konungsbók heldur um rúnabókina hans Finns.  Ég fékk margar góðar hugmyndir úr Konungsbók en ég missti þráðinn í bókinni eftir fyrstu kaflanna þegar þetta fór að verða eltingaleikur út um allar trissur svona í anda Da Vinci lykilsins. En svo endaði ég með að glugga í eineygða köttinn eftir Hugleik og ákvað strax á fyrstu blaðsíðunum að kaupa hana til að gefa í jólagjöf.  Sekúndu seinna snerist mér hugur og ég hætti við að gefa hana í jólagjöf, ég tími því alls ekki. Þetta er bók sem ég verð að eiga sjálf. Það þótt að ég sé löngu hætt að safna teiknimyndasögum. 

 


Bifrastarmálið - þrjú atriði til umhugsunar: umboð, nafnlaus skrif, ástarsambönd nemenda/kennara

Rektor Háskólans á Bifröst hefur sagt starfi sínu lausu.  Það er örugglega besta lausnin eins og málin virðast hafa þróast.  En það eru þrjú atriði í sambandi við þetta mál sem vöktu mig til umhugsunar og sem mér finnst margir gætu lært af.

1. Í umboði hvers?

Það er í fyrsta lagi hvernig rektor brást við nafnlausum skrifum. Ég veit ekki annað en það sem hefur komið fram í fjölmiðlaumræðu. Rektor sendir kærubréfið í fjöldasendingu til allra nemenda og boðar fund á Bifröst. Eftir fundinn lét rektor greiða atkvæði og munu 218 hafa greidd atkvæði og þar af  og 70 % lýst stuðningi við rektor en háskólasamfélagið er 600 manns og munu skv. Rúv flestir ef ekki allir kennarar hafa yfirgefið fundinn áður en til atkvæðagreiðslu kom.  Samt segir rektor eftir fundinn við fjölmiðla (spilað í frétt Rúv): "... niðurstaðan er skýr. ég hef umboð til áframhaldandi starfa hér á Bifröst, ég hef umboð til að halda áfram uppbyggingu hér...". 

 Það getur ekki verið eðlilegur farvegur til að kveða á um hvort yfirmaður stofnunar hefur umboð að leggja það fyrir í atkvæðagreiðslu á fundi sem boðað er til að því virðist í skyndingu  og stýrt af málsaðila sem hefur verulegra hagsmuna að gæta. 

2. Nafnlaus skrif

Það var viðtal við formann háskólastjórnar á Bifröst  og hann sagði þar að háskólastjórn gæti ekki tekið mark á nafnlausum skrifum.  Ég hef ekki séð þessi skrif en ef þarna voru settar fram alvarlegar ásakanir sem studdar eru rökum og ef til vill sönnunum er það þá réttlætanlegt að kanna ekki málið frekar og taka ekki mark á erindi bara vegna þess að það er nafnlaust? Það kunna að koma upp þannig aðstæður að "whistleblower" getur ekki sagt til nafns m.a. vegna þess að starf eða aðstæður viðkomandi verða óbærilegar ef nafns er getið.  Það ætti ekki að vera sjálfgefið að nafnlaus skrif séu eitthvað sem ekkert mark er takandi á.  Það hvernig yfirvöld (og þá sérstaklega rektor sem nú hefur sagt af sér) tóku á þessu máli sýnir að það var alls ekki hættandi fyrir nokkurn mann að skrifa nafn sitt undir svona bréf til siðanefndar. Það hefði í öllum tilvikum átt að vera trúnaðarmál og alls ekki að hafa verið sent út í fjölpósti á rafrænan hátt. Það eitt sér er sennilega lögbrot þ.e. brot á upplýsingalögum. 

3. Ástarsamband nemanda og kennara.

það stendur þessi setning í frétt á Rúv frá því í gær:

"Um ástarsamband við einn nemenda sagði Runólfur að það hefði aldrei verið neitt leyndarmál og ekkert rangt við það enda báðir aðilar fullorðið fólk. "

Ég veit ekkert um þetta einstaka mál á Bifröst og vil snúa umræðunni frá því en út úr þessum orðum má lesa  það viðhorf að slíkt samband sé í lagi svo framarlega sem báðir aðilar séu fullorðið fólk.  Ég stundaði nám í fjölmennum bandarískum háskóla og þar var í skólablaðinu á hverri önn heilsíðuauglýsing frá háskólayfirvöldum um hver stefna þeirra væri varðandi "discrimination" og "sexual harassment" og hvernig ætti að snúa sér með slíkar ásakanir/kærur og hvernig gætu kært og/eða verið aðilar að málum.  Það kom m.a. fram að það væri litið á það sem "sexual discrimination" að kennari ætti í ástarsambandi við nemanda sinn og sú mismunun beindist ekki aðeins gagnvart þeim nemanda sem væri í sambandinu heldur gætu aðrir nemendur á  námskeiðum kært  með vísan til að þeim væri mismunað t.d. varðandi einkunnagjöf. Ég held ekki endilega að það sé heppilegt fyrir okkur að fara í sama púritaníska fasa og Bandaríkjamenn en það er kominn tími til að taka á þessum málum með skýrari hætti t.d. að setja skýrari reglur um hvað teljist kynferðisleg mismunun.

í sumum tilvikum getur kynferðissamband/ástarsamband samband kennara og nemenda verið einn angi af kynferðislegri mismunun bæði gagnvart viðkomandi nema og eins gagnvart öðrum nemendum.


mbl.is Runólfur Ágústsson rektor segir upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

í augsýn er nú frelsið...

Teiknimyndin um kiwifuglinn er bara þrjár mínútur og hún er um fugl sem getur ekki flogið en er allt lífið að basla við að láta drauminn um flugið rætast.  Kiwifuglinn reynir að skapa þá blekkingu að hann fljúgi yfir skóg þegar hann hrapar til bana frá fjallstindi.  Það eru tvær milljónir sem hafa séð hinsta flug kiwifuglsins og þetta er vinsælasta vídeóklippið í augnablikinu.  Hér er hægt að spila það:

 

 


Runólfur á Bifröst, Árni í Eyjum og Arnar í Rannsóknarlögreglu

Ég held ég hafi undanfarnar nokkrar vikur varla fylgst nokkuð með fjölmiðlaumræðunni á Íslandi. Annað hvort er ekkert að gerast eða ég er bara eitthvað fráhverf íslenskum þjóðmálum þessa daganna. Ég tek eftir að þær fréttir sem ég les með mestri athygli eru tæknifréttir á digg.com og svo tæknifréttir á hefðbundnari miðlum eins og mbl.is og news.bbc.co.uk.

En ég horfði á sjónvarpið núna í gær miðvikudagskvöld og mér fannst umræðan mjög áhugaverð. Sérstaklega fannst mér fréttin um fundinn sem rektorinn á Bifröst hélt og gagnrýni formanns nemendafélagsins á hana og svo gagnrýni/ályklun ungra sjálfstæðismanna á ummæli Árna Johnsen í sjónvarpinu.  Þessi mál eru dáldið skyld þegar grannt er skoðað, það er þungur ásökunartónn ungs fólks í garð þeirra sem eru í forsvari yfir vinnubrögðum - annars vegar er það gagnrýni á afar undarlega orðræðu fyrrum og tilvonandi þingsmanns sem stefnir ótrauður á að setjast á löggjafarsamkomu Íslendinga þrátt fyrir að hafa orðið uppvís að alvarlegum svikum og lögbrotum og hins vegar gagnrýni á hvern hátt rektor á Bifröst virðist hafa brugðist við alvarlegum ásökunum um starfshætti sína. Þessi fundur er stórundarlegur og það getur ekki verið eðlilegur farvegur og eðlileg vinnubrögð í háskóla að atkvæðagreiðsla á slíkum fundi sé  einhvers konar kviðdómur eða dómstól um starfshætti rektors.  

Svo var í Kastljósinu viðtal við Arnar rannsóknarlögreglumann þar sem hann bar fjölmiðla og áhrifamenn í íslenskum viðskiptaheimi þungum sökum og sagði fjölmiðla handbendi áhrifafólks í viðskiptum og að  markvisst hefði verið svert æra hans og annarra sem hafa komið að rannsókn efnahagsbrota.  

Allar þessar fréttir glöddu mig og mér finnst þær vísbending um að það sé opin og gagnrýnin  umræða um íslensk þjóðmál. Ég hef töluverðar áhyggjur af því hvernig þróunin verði á næstu árum, sérstaklega varðandi Netumræðu. Margir halda að það sé sjálfkrafa ávísun á opnari umræðu og lýðræðislegri að fólk tjái sig í umræðukerfum og bloggi eða einhvers konar netsamfélögum. Vissulega eru það fleiri sem tjá sig og umræðan verður öðru vísi. Netumræðan grefur farvegi sem grafa undan og breyta þeim undirstöðum og þeim farvegum sem valdið hefur flætt eftir. En það er tilhneiging víða að þessi umgjörð sé að færast á fárra hendur og ef til vill verða netsamfélög þannig að það eru bara raddir einhverra fárra sem ná að heyrast - og það séu þá raddir sem enduróma það sem valdhöfum og eigendum miðlanna kemur best. Hér á ég við það að fjölmiðlarisar kaupa upp netsamfélög t.d. Myspace og stórfyrirtæki eins og Google kaupa upp hverja netþjonustuna/netsamfélagið á fætur öðru. Ég er að skrifa þetta blogg í kerfi sem Morgunblaðið hefur sett upp, væntanlega til að styðja við það fjölmiðlaveldi sem það byggir á. Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að þessu bloggi sé ekki lokað eða það gert óaðgengilegt ef mér myndi detta í hug að tjá mig hérna um eitthvað sem því fjölmiðlaveldi kæmi illa?

Enga.

 

 


mbl.is Formaður nemendafélagsins á Bifröst lýsir óánægju með fund rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Labpixies

Mér finnst svo gaman að líma alls konar dót inn á blogg. Ég fann vefsetrið labpixies.com  með súperflottum reiknivélum sem maður gat haft í alls konar litum og ég valdi auðvitað femínistableikt. Svona reiknivélar verða femínistar að hafa til að reikna út launamun kynjanna:

 


Youtube uppfinning ársins samkvæmt Time

Youtube er í tísku núna. Ég er búin að vera þar notandi nánast frá því að það opnaði og heilmikið unnið í að sjá til þess að stóru risarnir gleyptu ekki það vefsetur. Ég hef sett inn um fimmtíu stuttmyndir sem ég hef sjálf gerð inn á Youtube. Hér er listi yfir mínar stuttmyndir

Reyndar er það sem ég geri mikið svokallað skjávarp (screencast) þannig að ég er að taka upp það sem gerist á tölvuskjánum en ég hef líka tekið myndir af götunni t.d. af betlarabörnum og götuvændi í Barcelona. Sumar af stuttmyndunum mínum hafa verið skoðaðar mörg þúsund sinnum, önnur stuttmyndin af götuvændi í Barcelona hefur verið skoðuð yfir 20 þúsund sinnum. 

 En flestir það eru miklu fleiri sem skoða efni á youtube heldur en sem setja inn efni þar.  Ég reyni að setja flestar mínar stuttmyndir á youtube vegna þess að þá er svo auðvelt að líma þær inn á blogg og þess háttar.

Hér er myndin mín af betlarabörnum og mæðrum þeirra. Hún hefur nú verið skoðuð um 2300 sinnum.

 

 

Þessi frétt er núna á mbl.is : 

Time velur YouTube uppfinningu ársins

Vefsetrið YouTube, þar sem notendur geta deilt myndskeiðum með öðrum, hefur verið valið uppfinning ársins af tímaritinu Time, og sló þar með við uppgötvun á bóluefni gegn kynsjúkdómi er veldur krabbameini, og skyrtu sem líkir eftir faðmlagi.

Segir Time að umfang og skyndilegar vinsældir YouTube hafi valdið gerbreytingu á dreifingu upplýsinga á netinu. Samkvæmt mælingum Nielsen NetRatings voru gestir á YouTube í september 27,6 milljónir.

 


Wikispaces fyrir kennara - skjákennsla

Um þessar mundir býður vefþjónustan wikispaces.com kennurum og nemendum  upp á ókeypis wiki án auglýsinga. Hægt að láta þessi wikisvæði vera lokuð fyrir aðra en áskrifendur eða alveg galopin. Þetta er mjög gott wikikerfi og  ágætt fyrir kennara  og kennaranema að prófa að skrifa inn í svona kerfi.  Ég skráði t.d. svæðið nkn.wikispaces.com og bjó til skjákennslu sem sýnir hvernig maður býr til síðu og setur inn texta, tengingar og myndir.

þetta er innan við þrjár mínútur.

Skrifað á veggi í Barcelona

Í fyrrasumar tók ég nokkur vídeóklipp af því sem fyrir augun bar. Ég nota bara lítla stafrænu ljósmyndavélina mína. Hérna er 2 mín. stuttmynd sem ég setti saman úr vídeóklippum og ljósmyndum sem ég tók sjálf og svo fann ég tónlist á Creativecommons.org til að halda mig aðeins við efni sem ég má fjölfalda og nota. Ég gerði líka nokkrar tilraunir með titilglærur. 

 Vídeóið er frá hverfinu Raval í Barcelona, þar er slatti af húsum sem nú er verið að rífa og rétt áður þá blómstra göturnar þegar graffitilistamennirnir skreyta rústirnar.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband