Látum hann falla, falla

Mótmælafundurinn á Austurvelli í dag endaði á söng um staurinn sem er svo fúinn að ef allir leggjast á eitt, ungir sem gamlir og kynslóð eftir kynslóð ef með þarf þá fellur staurinn eins og Oslójólatréð. Viðlagið er "Látum hann falla, falla, falla".

Hér fyrir ofan er 8. mín upptaka af söngnum á Austurvelli í dag, fyrst ættjarðarljóð og síðan söngurinn um staurinn. Staurinn er íslensk þýðing á  L'estaca sem  ort var að katalónska skáldinu  Lluís Llach árið 1968. Hér er Youtube vídeó af katalónsku útgáfunn og texti Þorvaldar.

Ég gerði tilraun með að setja inn"annotations" þ.e. texta með lögunum sem eru sungin. Þetta er nýr fídus á youtube. Þetta getur komið sér vel í kennslu t.d. í kennslu tungumála.

STAURINN

Við Siset einn morgun sátum
saman við töluðum lágt.
Bílana greint við gátum
geysast í hver sína átt.

Sérðu ekki staurinn sagð'ann
sem allir hlekkjast nú við
Fyrr en við fáum hann lagðan
við frelsið við göngum á snið.

Ef allir toga steypist hann.
Nú innan skamms hann velta kann
látum hann falla, falla, falla.
Fúi nær gegnum staurinn þann.
Ef að þú tekur fastar í
þá mun ég taka fastar í.
Þá skal hann falla, falla, falla
og loks við verðum frjáls og frí

Við erfiði ævin líður.
Ekki er tíminn kyrr.
í sárum á höndum svíður.
En samur er staurinn sem fyrr.

Staurinn er staður og þungur
og stendur þó fast togum við.
Þú sem ennþá ert ungur
ættir að leggj' okkur lið.


Ef allir toga steypist hann o.s.frv.


Nú rödd hans er hætt að hljóma
og heyrist ei lengur hans mál.
Við finnum það enduróma
hið innra og magnast í bál.
Þann söng sem að Siset forðum
söng bæði morgun og kvöld.
ég syng með hans eigin orðum
og undir tekur nú fjöld.


Ef allir toga steypist hann o.s.frv.


Höf.: Lluís Llach

þýð.: Þorvaldur Þorvaldsson


mbl.is Bjarni staðfestir framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Salvör

Stundum er blogg klúrt, stundum ósvífið og stundum óviðeigandi. Ef við ætlum okkur að breyta þessu samfélagi þurfum við leiðtoga til starfa, en leiðtoginn er sá sem notar lýðræðið og vinnur með fólki. Því miður hefur ákveðin undirlægja háð íslenskri pólitík, forystuhollusta. Síðan kom til öfgastefnur sem lögðu áherslu á að allt eftirlit með atvinnulífinu, allar reglur væru af hinu slæma. Þessi sama stefna gerði lítið úr samhjálp. Þegar Bjarni kom inn í pólitíkina kom strax í ljós að hann tilheyrði ekki þessari undirlægju. Hann vildi meira lýðræði og hann valdi önnur gildi. Í ljósi þessa  að blogga þetta við framboð Bjarna Benediktssonar er ekki klúrt en í hæsta máta óvíðeigandi og ósvífið. Þú verður að leita þér nær til þess að blogga svona ósvinnu.

Sigurður Þorsteinsson, 1.2.2009 kl. 08:16

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég lít á bloggskrif eins og list og reyni að skapa hughrif.

Ef þér finnst blogg sem fjallar um einstaklega fallegt baráttuljóð frá Katalóníu og myndskeið af mótmælendum að syngja ættjarðarsöngva og þetta sama baráttuljóð, ljóð um samtakamátt fólks sem saman reyndir að fella kerfi sem er feyskið og morkið vera "klúrt, ósvífið  eða óviðeigandi" þegar það er sett í samhengi við framboð Bjarna Benediktssonar til formanns Sjálfstæðisflokksins þá hefur mér tekist að skapa einhver hughrif. 

Þó það sé ekki sagt með berum orðum í blogginu að staurinn sé það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt upp og Bjarni Benediktsson sé holdtekja hans þá hefur þú lesið það út úr mínu bloggi.

Þú mátt kalla þetta klúrt, ósvífið og óviðeigandi.

Ég kalla þetta list.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 1.2.2009 kl. 16:58

3 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæl Salvör

Ég held að það þurfi nú ekki djúpan lesara til þess að skilja að í bloggi þínu að staurinn sé það kerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi byggt upp, þá átti Framsóknarflokkurinn sinn stóra þátt í því kerfi. Þegar Bjarni kom til þings, hafði frjálshyggjan tröllriðið alla ákvarðanatöku. Eftirlitsstofnanir voru veiktar eða lagðar af. Postulinn kom úr Kópavoginum. Lýðræðið var illa séð, og óttinn innleiddur. Þegar almenningur kom á Austurvöll, kallaði hann Davíð burt. Stjórn Seðlabankans burt. Almenningur kallaði ekki Bjarna Benediksson burt. Bjarni fékk strax orð á að fara eftir egin samvisku, óttalaus.

Nú skaltu fara yfir stjórnarmennina í Seðlabankanum og finna strákinn úr Kópavoginum, sem ber mikla ábyrgð hvernig komið er fyrir þjóðinni. Þegar hann verður settur af er alveg viðeigandi að tengja við Látum, hann falla, falla.

Blogg getur sannarlega verið list, en stundum getur list verið dómgreindarlaus. Þú verður að tengja ábyrgðina við þá sem hana áttu að bera. Það var sérlega óheppilegt hér, þar sem þú ættir það þekkja þá sem bera ábyrgð á skemmdarverkastarfseminni.

Sigurður Þorsteinsson, 1.2.2009 kl. 17:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband