Boxhanski ríkisstjórnarinnar

boxhanski_854590.jpgÞað er svindlkerfi í gangi á Íslandi í dag. Það er svindlkerfi sem safnar saman högginu af fjármálahruni Íslands í boxhanska  sem ríkisstjórnin setur upp og notar til að berja linnulaust á sama fólkinu, á atvinnulausu fólki og á fólki sem skuldar. Ríkisstjórnin gengur erinda fjármagnseigenda, eggjuð áfram af AGS og "erlendum kröfuhöfum" og erlendum ríkisstjórnum sem trampa á íslenskri þjóð og setja okkur undir hryðjuverkalög.

 

konguloarvefur.jpgHvers vegna hefur íslensk ríkisstjórn meiri áhuga á því að gæta hagsmuna erlendra fjármagnseigenda, fjármagnseigenda sem lánuðu hér áhættufjármagn í óhemjuvitleysu til fjárglæframanna og dældu hingað fjármagni í einhverju "carry trade" hringekju fáránleikans heldur en að gæta hagsmuna íslensks almennings, hagsmuna sem ekki eru fólgnir í að  festa fólk á Íslandi í kóngulóarvef ævarandi skuldafjötra, kóngulóarvef sem kallaður eru "skjaldborg utan um heimilin".

Það varð kerfishrun á Íslandi en það varð líka kerfishrun í heiminum og það gengur samdráttarbylgja yfir heiminn og ríkisstjórnin bregst við þessum aðstæðum með því  að látast ekki taka eftir þeim og í fyrsta lagi að viðurkenna ekki að kerfið sem hrundi virkar ekki og það er engin ástæða til að láta eins og það virki og það sé "business as usual", það er ekki hægt að sópa kerfishruni undir teppið og láta eins og ekkert sé, það kallar bara á ennþá stærra og alvarlegra samfélagshrun - og í öðru lagi með því að  virka ekki eins og höggdeyfir fyrir almenning með því að  deyfa og jafna út höggin heldur að breyta sér í magnara sem magnar upp höggið þannig að það safnist saman og skelli bara á skuldurum, bara á atvinnulausum, bara á ungu fólki, bara á þeim sem unnu hjá eða ráku einkafyrirtæki sem nú eru komin í þrot.

Það er skynsamlegast og affarasælast við þær aðstæður sem eru núna að jafna aðstæður sem mest, ekki búa til kerfi handahófskenndra tilfærslna á fjármunum og atvinnutækjum með brunaútsölum og hrossakaupum bak við luktar dyr. Það að jafna kjör og deila byrðum er líka að deila skuldum og áhættu.

Það er ævarandi skammarblettur á íslenskum stjórnvöldum ef það er látið viðgangast að í Hruninu á Íslandi fái eigendur fés sem var í   peningasjóðum eins og Glitnissjóðnum nánast allt sitt til baka, úr sjóði sem fólk átti að vita að var áhættusjóður sem fylgdi einhverri fjárfestingarstefnu og að margir háttsettir bankamann m.a. eiginmenn ráðherra  þurfti ekki að borga skuldir sem þeir höfðu stofnað til vegna gífurlega áhættusamra hlutafjárkaupa - að fjármagnseigendur og glæframenn í fjármálum séu vafðir inn í bómull á meðan þeir sem tóku venjuleg lán til að kaupa sér húsnæði eða í tengslum við atvinnulíf þurfi að bera gríðarlegar byrðar vegna þess að lánakjör voru miðuð við aðstæður sem alls ekkert gerðu ráð fyrir þessu kerfishruni. 

Það er líka liður í að jafna byrðarnar að deila niður vinnunni í samfélaginu, við búum í samfélagi þar sem samfélagsstaða er skilgreind í gegnum vinnu og samfélagsgerð okkar er þannig að ýmis konar aðstaða og fríðindi koma gegnum launavinnu. Það er ömurlegt samfélag sem hefur þá skipan að sumir vinni mikið en aðrir séu vinnulausir og á bótakerfi ríkisstjórnarinnar. 

Það er ennþá ömurlegra að helsta ráðið virðist núna að setja fleiri í nám sem þeir geta tekið námslán fyrir. Svoleiðis nám er oft ekki annað en dulbúið atvinnuleysi, fólk hefur enga úrkosti aðra en fara í nám eða halda áfram í námi og taka verðtryggð námslán til framfærslu sinnar. Ennþá nöturlegra er svo ef það eru helst ríkisstyrktir einkaskólar sem bjóða slíkt nám og fólk neyðist til að taka líka styrki til greiðslu skólagjalda.

Það er mjög gott í atvinnuleysi að bjóða fólki upp á nám. Það er skynsamlegt að takast á við vandann með því að auka menntunarstig þjóðarinnar á markvissan hátt. En það er ömurlegt ef það er eini valkosturinn, þá er það ekki valkostur, það er dulbúið atvinnuleysi þar sem sá atvinnulausi þarf að borga fyrir að vera atvinnulaus með að taka lán til framfærslu sinnar.

Það örlar ekki mikið á aðgerðum gegn atvinnuleysi, helstu aðgerðirnar virðast vera að byggja glanshús við hafnarbakkann í Reykjavík, tónlistar- og ráðstefnuhús sem er glanshús sem ekkert virðist vera miðað við íslenskar aðstæður, þetta er hús sem hugsað fyrir einhvers konar  elítutúrisma sem fólk sá í hillingum og bygging þessa húss skapaði ekkert mikla vinnu fyrir Íslendinga því  lenskan í dag eru starfsmannaleigur sem margar hverjar virðast bjóða erlendu farandverkafólki afarkjör og það er ekkert sem skilið er eftir í samfélaginu ef öll vinna er unnin af fólki sem bara kemur og fer. Það byggist ekki einu sinni upp verkþekking. 

Eftir Hrunið breyttist tónlistarhúsið í táknmynd kreppunnar, eins konar líkhús þeirrar hugmyndafræði sem hrundi yfir okkur. Það er því nöturlegt að einmitt áframhaldandi bygging þessa húss virðist vera stærsta "atvinnusköpunarverkefni" í Reykjavík núna. Það er líka nöturlegt að að byggingarsaga þessa líkhúss kreppunnar heldur áfram að sýna brestina í íslensku samfélagi, brestina þegar byrjað  er að Svindla á svindlkerfinu. Það er því miður þannig að kerfið mun bresta nema við höfum traust á því og það traust fáum við ekki nema við höldum að unnið sé fyrir heildina og byrðunum sé deilt jafnt og af réttsýni og skynsemi.

Það þarf að deila vinnunni og það þarf að deila skuldunum sem komu til út af Hruninu. Það þarf að deila vinnunni milli þeirra sem nú hafa vinnu og þeirra sem nú eru án vinnu og það þarf að deila skuldunum, það þarf að jafna högginu á skuldara og lánadrottna. Það er óþolandi að ríkisstjórnin gangi núna bara erinda  lánardrottna og tali eins og fulltrúi þeirra og það er líka óþolandi að ríkisstjórnin tali núna eins og hún sé bara að gæta hagsmuna og kjara þeirra sem nú hafa vinnu. 

Ég get ekki sagt að ég sé aðdáandi tónlistarhússins, ég hef skrifað nokkur blogg um þetta nýja  tákn Reykjavíkur , tákn sem er bæði tákn um kerfi sem hrundi og tákn um hvernig stjórnvöld bregðast við kerfishruninu, þau láta eins og það hafi aldrei gerst og það eigi að halda áfram að byggja elítuhús. Bara kalla þau "fjölnota menningarhús" og finna einhver fín orð, já svona svipað eins og kóngulóarvefurinn sem almenningur í Íslandi er núna veiddur í er kallaður "skjaldborg utan um heimilin"

En hér eru nokkur af mínum fyrri skrifum um stásshús bæjarins:

Betri stofur með útsýni út á Esjuna

yfir 13 milljarðar í glanshús

 Klakahöllin

Hallir nútímans eru óperuhús

 Háskólastúdentar réttlausir í kreppunni

 


mbl.is Tillaga um niðurfellingu lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl.

Þetta er snildarleg greining á stöðunni og hrollvekjandi á sama tíma.

Synd að stjórnvöld eru svo upptekin að þau vita ekkert hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Samstarf SF og VG endar með ósköpum í haust og vetur þegar þau hrökklast úr valdastólunum rúin trausti og fyrirlitin líkt og ríkisstjórn Geirs Haarde.

NN (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 13:48

2 identicon

Sæl Salvör.

Fín færsla og ég er sammála þér í greiningu þinni á ástandinu.  Það er með hreinum ólíkindum nú tæpum 8 mánuðum frá hruni bankanna.  Ríkisstjórnin leggur allt kapp á að verja hagsmuni fjármagnseigenda á kostnað lántakenda.  Hér hafa engar skjaldborgir né velferðarbrýr verið byggðar...

Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 28.5.2009 kl. 18:22

3 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Þetta er snilldar grein sem segir allt sem segja þarf

Marteinn Unnar Heiðarsson, 28.5.2009 kl. 21:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband