Klakahöllin

portus-group.jpgFokhelda ráðstefnu- og tónlistarhúsið gnæfir yfir Reykjavík og er orðið táknmynd kreppunnar og líka táknmynd þeirrar heimssýndar sem hér ríkti fyrir hrunið. Svona Versalir Íslands.  Annars... það er áhugavert að skoða hvaða myndir við drögum upp í huganum af því sem gerðist.  Við köllum það hrun, við köllum það kreppu, við líkjum því við strand, tölum um  skip á strandstað.

Myndin sem við drögum upp litar svo hvernig við lítum á aðstæður og hvaða úrræði við sjáum. Heimspressan dregur upp mynd af ástandinu á Íslandi sem tákni um það sem er að gerast alls staðar - allt er frosið fast. Stjórnvöld alls staðar reynda að bræða einhverja hreyfingu í kerfið en jafnframt loka þau fyrir alla strauma sem þau geta. Það verða þau að gera vegna þess að það er krafa frá almenningi, krafa sem á Íslandi endurspeglast í því að kaupa innlendar vörur og tryggja fólki hér atvinnu. En til þess að við getum selt ál og fisk þá verður fólk í útlöndum að geta keypt ál og fisk. Og það gerir það ekki nema einhver kaupi af því þær vörur sem þar eru framleiddar.

Viðskiptakerfi heimsins var stórgallað en það var samt kerfi sem var miklu betur búið til að tryggja flæði heldur en  stjórnsýslukerfi og stjórnvöld sem hafa haft meira hlutverk hingað til í því að hefta flæði.

Hinn risavaxni kreppuminnisvarði sem nú er kallað Tónlistar- og  ráðstefnuhúsið mun sennilega alltaf hafa merkingu í huga Reykvíkinga sem tengist því ástandi og umróti sem er núna.  Húsið mun örugglega fá nafn sem minnir á þessa tíma, ekki opinbert nafn heldur nafn sem allir þekkja húsið af. Mér finnst að við ættum að  leggja í púkk hugmyndir um nöfn, ég sting sjálf upp á því að húsið verði kallað Klakahöllin og er nafnið sótt í fræga sögu eftir Tarjei Vesaas.

Mér finnst Klakahöllin svo fallegt nafn, minnir á tímann þar sem allt fraus fast og á það völundarhús frostheima sem við villtumst í og svo finnst mér glerhjúpurinn frá Kína vera eins og  frostið sem lagðist yfir Ísland, eins konar álög.  Ég vona að þessi glerhjúpur verði settur upp, hann er mikið listaverk og merking hans hefur breyst, nú er hann frostið sem við finnum inn í okkur. Ég er hins vegar nokkuð sannfærð um að glerhjúpurinn verður skotspónn þeirra sem ekki eru sáttir við þessa byggingu  og á þeim tímum sem núna eru á Íslandi myndi ég ekki setja upp neinn glerhjúp utan á umdeilt hús nema úr  gleri sem þolir steinkast og að vera lamið  að utan.  hér er kynning á glerhjúpnum

Ég er ekki viss um að þetta hús verði notað undir það sem upphaflega er ætlunin. En þannig er um mörg hús. Stjórnarráð Íslands er í húsi sem var byggt sem fangelsi, listasafn Reykjavíkur er í hafnarhúsi sem var pakkhús við höfnina, listasafn Íslands er í húsi sem var byggt við Tjörnina til að sækja ís til að frysta fisk. Það að auki þá finnst mér áformuð notkun á þessu húsi, þau not sem eru kynnt á vefnum portusgroup.is vera þannig að þetta hús verður ekki hús alþýðunnar, þetta verður hús elítunnar þar sem almenningur hefur ekkert erindi og verður kannski ekki velkominn. Ef ráðist verður í að halda áfram með þetta hús þá vildi ég sjá að þetta væri hús sem venjulegt fólk á Íslandi ætti erindi í og gæti notið þessarar frábæru staðsetningar. Reyndar hentar þetta hús best sem eins konar musteri. Það var reyndar byggt sem musteri og minnisvarði um eina heimssýn, það er byggt til að horfa út á sjó, það er byggt á útrásardraumum. Það er byggt á sömu heimssýn og lagið sem öllum íslenskum börnum er kennt eins og dýr fjársjóður og menningarverðmæti,lagið um soninn sem telur sig eiga að fá skaffaðar góðar græjur til að geta haldið út í heiminn og slátrað fólki sem er fyrir honum.  Svona hljómar sá söngur:

það mælti mín móðir
að mér skyldi gefa
fley og fagrar árar
Standa fyrir stafni
stýra dýrum knerri
halda svo til hafnar
höggva mann og annan.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Mér líst vel á það að nefna húsið Klakahöllina. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 19.2.2009 kl. 02:33

2 Smámynd: Viðar Eggertsson

Fallegt nafn, Klakahöllin, lýsandi og viðeigandi, hvort sem það er kreppa eður ei.

Viðar Eggertsson, 19.2.2009 kl. 18:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband