Háskólastúdentar réttlausir í kreppunni

Það er gott að háskólastúdentar bendi á hvað það er gríðarlega erfitt ástand og hvað það bitnar hrikalega illa á þeim. Aðstæður eru þannig á Íslandi að framhaldsskólanemar og háskólanemar eru eins og farandverkafólk sem kemur inn á vinnumarkaðinn þrjá til fjóra mánuði á ári, yfir sumarmánuðinn.

Einu sinni var þetta hið besta mál, það var ómögulegt að hafa unga fólkið bundið í skólum yfir hábjargræðistímann og skólahald var enda í sveitaskólunum hagrætt þannig að krakkarnir gætu hjálpar til við bústörfin og væru ekki tepptir í skólum þegar sauðburður hæfist á vorin. Í flestum löndum byrjaði og endaði skólahald í takti við uppskerustörfin, það þurfti að passa að mannskapur væri til að setja niður kartöflur á vorin og taka upp uppskeruna að hausti.

Síðustu áratugina hefur þetta samband skólans og taktsins í matvælaframleiðslu í heimabyggð rofnað, atvinnulífið er orðið svo vélvætt og tölvuknúið að sveitakrakkarnir eru kannski mest inn í bæ að horfa á vídeó og sörfa á Netinu, það er ekki lengur þörf fyrir vinnuafl þeirra við framleiðsluna. Krakkarnir í sjávarplássunum eru ekki lengur mikilvægt vinnuafl því vinnslan hefur flust annað, núna er aflinn unninn út á sjó  og keyrður á milli  staða.

Vegna spennunnar og þenslunnar sem hefur verið í íslensku atvinnulífi yfir sumartímann þá erum við núna illa undir það búin að það sé mikið af fólki sem ekki er þörf fyrir við frumframleiðslu eða byggingarstörf. En við skulum ekki gleyma að það var einmitt  undirstaða þeirrar heimsmenningar sem við búum við að það þurftu ekki allir að vera að strita fyrir hinu daglega brauði, það var svo mikil framleiðni í samfélaginu að einungis hluti þurfti að vinna við framleiðsluna.

Núna stöndum við frammi fyrir því að margir skólanemar fá ekki vinnu og aðstæður eru þannig á Íslandi að  námslánakerfið tekur ekki mið af því og skólakerfið tekur ekki mið af því að þessar aðstæður geti komið upp. 

það er gríðarlega mikilvægt að aðhafast eitthvað af stjórnvöldum til að mæta þessum aðstæðum. Margir háskólastúdentar eru í hugvísindum og félagsvísindum og kennslufræðum, laganámi eða viðskiptagreinum eða heimspeki og tungumálum. Í þessum greinum er ekki um að ræða rándýr tilraunatæki og mikla og dýra aðstöðu til að skapa vinnu eða nám fyrir nemendur. það er því tiltölulega einfalt, fljótlegt og kostar lítið að búa til aðstöðu og það er vel hægt að sinna ýmis konar þróunarstörfum sem hingað til hafa setið á hakanum með því að fá stúdenta í vinnu.

Það er afar einkennilegt ef málið er þannig núna að eina sem býðst háskólanemum fyrsta sumarið sem kreppan stendur yfir að skrá sig í sumarnámskeið í dýran einkaskóla (háskólann í Reykjavík) og borga há skólagjöld  til þess eins að eiga til hnífs og skeiðar í kreppunni.

Er ekki einkennilegt að háskólanemar þurfi að borga með sér í kreppunni og hafi enga aðra úrkosti til að bregðast við þessum aðstæðum nema skrá sig í dýrt sumarnám hjá einkaháskóla til að eiga kost á því að fá námslán  til framfærslu og til að borga skólagjöld?

Er þetta virkilega sá valkostur  sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-Grænna ætlar að bjóða íslenskum háskólastúdentum upp á í ár? Það er ansi nöturlegt að þegar allt hefur farið á hliðina á Íslandi í einhvers konar einkavæðingaræði þá sé eini valkosturinn að bjóða atvinnulausum háskólanemum sem ekki hafa rétt til atvinnuleysisbóta og ekki hafa rétt til námslána nema vera í skráðu námi - upp á þann eina valkost að skrá sig í sumarnám með dýrum skólagjöldum - sumarnám í einkaháskólum sem þó eru nánast að öllu leyti kostaðir af ríkisfé.

Er það þannig að þegar einkavæðingin hefur mistekist á öllum sviðum og íslenska ríkið nánast gjaldþrota og þúsundir ungs fólks hefur ekki annan valkost en vera í skólum þá sé því sagt að borga bara fyrir sig sjálft með að taka lán til framfærslu og skólagjalda í einkaháskólum?

Það er eitthvað ekki í lagi í íslensku samfélagi, það hefur engin umræða farið fram um einkavæðingaræðið sem teygði sig inn í skólakerfið.

Aðstæður eru þannig núna að þegar háskólanemar sem núna eru við að ljúka námi koma út á vinnumarkað þá er mjög ólíklegt að þeir geti fengið vinnu. Það er því ekki mjög gott að vera með miklan skuldabagga á herðum.

Í nágrannalöndum okkar þá er hluti af því sem námsmenn fá styrkur sem öllum þegnum í háskólanámi býðst í nokkur ár. Hér eru öll námslánin vísitölutryggt lán sem bera vexti. 


mbl.is Námsmenn örvænta um sumarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér sýnist þú benda á brotalöm sem nær dýpra en núverandi ríkisstjórn. Eins gott og það getur verið að hafa fjölbreytni á skólamarkaðinum þá varð núverandi skóli til á meðan að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru á vakt. Hinir flokkarnir bera vissulega einnig ábyrgð en eins og sakir standa. Ætli megi ekki segja sem svo að stjórnmálamenn eru arfaslakir í kreppu, óháð því hvaða flokki þeir tilheyra?

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 3.4.2009 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband