Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Reykjavík og Ísland - Dubai Norðursins?

Kalifornia er nær gjaldþrota, mörg ríki sem áður höfðu mikið fé eru núna í kröggum. Allir þekkja hvernig ástandið er á Íslandi. 

Dorritt forsetafrú vill að Ísland verði svalari útgáfa af Dubai

Hún var í viðtali við Sunday Times nýlega og þetta var haft eftir henni þar:

Blaðið segir að hún vonist eftir að unnt verði gera landið að sælureit fyrir viðskiptavini sem eru góðu vanir, eilítið svalari útgáfu af Dubai, með fisk og hveri í stað sandsins. Fram kemur að hún hafi rekist á yfirgefinn flugvöll hér og vonist til að geta breytt honum í geymslur fyrir listasöfn sem fólk gæti komið og skoðað. Hún er sögð vera að vinna að þessum áformum í félagi við góða vinkonu sína, Francesca von Habsburg.

Ég er ekki sammála forsetafrúnni um Dubai, ég vil ekki að Reykjavík verði svalari útgáfa af Dubai

Það er engin hugfró í að öðrum gangi verr en Íslendingum en það má draga af því lærdóm og reyna að skilja hvað er að gerast. Ástandið er mjög alvarlegt víða í Bandaríkjunum, sérstaklega í Kaliforníu þar sem heilt fylki er að fara á hausinn. 

Ástandið er að sögn skelfilegt núna í Dubai, fólk yfirgefur borginni með því að keyra bílana sína út á flugvöll og skilja þá eftir með bíllyklinum í, þetta er stundum gert í ofboði því fólk af erlendum uppruna vill ekki taka áhættu að lenda í skuldafangelsi heimamanna.

Hér er ansi harðorð grein frá goodbye dubai ( smashing telly!) sem lýsir Dubai sem holum og hjáróma gerviheimi, eins konar ríkramanna time-share þar sem fólki er selt líferni eins og verið sé að selja því steikarhnífa.

Dubai is a place for the shallow and fickle. Tabloid celebrities and worn out sports stars are sponsored by swollen faced, botox injected, perma-tanned European property developers to encourage the type of people who are impressed by fame itself, rather than what originated it, to inhabit pastiche Mediterranean villas on fake islands. Its a grotesquely leveraged version of time-share where people are sold a life in the same way as being peddled a set of steak knives. Funny shaped towers smatter empty neighborhoods, based on designs with unsubtle, eye-catching envelopes but bland floor plans and churned out by the dozen by anonymous minions in brand name architects offices and signed by the boss, unseen, as they fly through the door. This architecture, a three dimensional solidified version of a synthesized musical jingle, consists of ever more preposterous gimmickry - an underwater, revolving, white leather fuck pad or a marina skyscraper with a product placement name that would normally only appeal to teenage boys, such as the preposterous Michael Schumacher World Champion Tower.

But if there is one problem with the shallow and the fickle, its that they are shallow and fickle, they won’t put down deep roots and they won’t remain loyal to Dubai.

mbl.is Kalifornía nær gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alkul er nýja kreppuorðið

Það er sárt fyrir okkur Íslendinga að hafa núllast niður í ekki neitt eftir að kasínókapítalisminn hrundi á Vesturlöndum og allt fraus fast. Hvergi fraus það fastar en hér á eyjunni - staðnum Íslandi sem skyndilega varð meiri eyja og færðist fjær öllum meginlöndum með hruninu. En við hinir hrímugu klakabúar erum vel sjóuð og vel snjóug og eins og fröken Snilla  í bókinni Lesið í snjóinn eftir  Peter Høeg kann 19 orð yfir snjó þá kunnum við vel að fela núllpunktinn undir snjóalögum.


Alkul er á öðrum tungumálum Absolute zero, orð sem er notað fyrir algjört núll.

Alkul á nokkrum tungumálum:

Alkul

Absolut nulpunkt

Absoluter Nullpunkt

Absolute zero

Zéro absolu

Zero assoluto

Zero bezwzględne

Det absolutte nullpunkt

 

Bókin um fröken Smillu sem kunni svo vel að lesa í snjóinn hefur líka mismunandi titil eftir tungumálum. Hér eru nokkrir.

Smilla's Sense of Snow

Fröken Smillas känsla för snö 

FRÖKEN SMILLAS FORNEMMELSE FOR SNE

Lesið í snjóinn

Fräulein Smillas Gespür für Schnee

Sakamálasagan er bókmenntir nútímans og ef til vill er samfélagsrýni sú sem þar er meira nærri lagi en sú sem við fáum úr pressunni og ljósvakamiðlum sem sjá ekki vatnið sem þeir synda í- vatn sem kannski er ekkert vatn heldur helkuldi og íshella sem drepur allt kvikt. Sakamálasagan um glæpinn mikla spinnst áfram á Íslandi en það er samt ekki ljóst hver glæpurinn er þaðan af síður hverjir sökudólgarnir eru. Ef til vill mun það ekki koma í ljós fyrr en þessarri manngerðu ísöld linnir og  einhverjir sérfræðingar munu í framtíðinni ráða í teiknin sem koma í ljós þegar jökullinn hopar.

En það eru átta ár síðan ég skrifaði blogg um snjólestur fröken Smillu, ritdóm um bók sem ég las aldrei, bara byrjaði á. Ef til vill er lausnin á gátunni í þeirri bók líka sakbending fyrir Ísland og hrunið hérna, alveg eins og bókin Karlar sem hata konur

Hér er bloggið um bókina sem ég las aldrei:

 

19.7.01
      ( 12:21 PM ) Salvor Gissurardottir  

Lesið í snjóinn í júlí


smillassenseofsnow1dk_f.jpgNýtt tímabil er hafið í lífi mínu. Tímabil það sem allt er í röð og reglu, hlutirnir á sínum stað og ég skila bókum á bókasöfn. Þetta hófst allt með því að ég skilaði hljóðbókum á Blindrabókasafnið. Þær bækur hef ég haft undir höndum í næstum eitt ár og voru þó ekki teknar út í mínu nafni. Ég ætlaði bara alltaf að hlusta á sögurnar til enda áður en ég skilaði. Önnur hljóðbókin var Atburðir við vatn og hin var sakamálasagan Lesið í snjóinn eftir danska höfundinn Peter Høeg. Um þá bók segir:

"...mens civilisationskritikken i samtidsromanen Frøken Smillas fornemmelse for sne (1992) kredser om forskellen mellem verdensbilleder. Ved at udstyre sin centrale figur med en dobbelt kulturel baggrund skildrer Høeg Danmark som et administrations- og overvågningssamfund."

Ég hef margoft reynt að halda áfram að hlusta á söguna af ferð hinnar grænlensku Smillu út á heimskautaísinn þar sem ég endaði í september síðastliðnum en það gengur ekki. Úr því að ég get ekki hugsað til þess að hlusta á þessa sögu án þess að yfir mig hellist myrkur, skelfing og ískuldi þótt um hásumar sé þá verð ég víst bara að lifa með því að vita ekki hvað beið hennar á landinu kalda. Atburðir við vatn verða líka alltaf bara kyrralífsmynd í huga mínum, ekki saga. Skrýtið samt að ég skuli hafa byrjað að hlusta á tvær sakamálasögur á þessum tíma og báðar bera þær titil sem sóttur er til vatns - held reyndar að sakamálasögur og sú hugfróun sem menn sækja í þær sé tengd hinni eilífu og vonlausu baráttu mannanna við að sigrast á dauðanum - að þeir geti með tækni sinni, ráðkænsku og snilld fundið lykilinn að lífinu.


mbl.is Alkul í bílasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 þúsund atvinnulausir en aðrir að drukkna í yfirvinnu

Í nútímasamfélagi fer stór hluti af sjálfsmynd margra eftir starfi. Við tökum ef til vill ekki eftir því nema þegar við skiptum um starf. Flestir hafa undanfarin ár verið í því hlutskipti að þegar þeir skipta um starf þá er farið í betra starf, starf sem þeir fengu vegna þess að þeir stóðu sig vel í fyrra starfi og öfluðu sér starfsreynslu. Það er hins vegar einn hópur sem hefur fundið fyrir því hvernig er að hverfa úr starfi með þeirri breytingu á ímynd sem það hefur í för með sér. Það eru þeir sem láta af störfum vegna aldurs.  Núna stefnir hins vegar allt í fjöldaatvinnuleysi, miklu verra ástand en nú er og það eru margir atvinnulausir og án vonar um atvinnu í bráð.

Þau úrræði sem samfélagið hefur passa ekki við þetta ástand. Það passar ekki að bjóða atvinnulausum núna upp á einhver úrræði sem fela í sér að þetta sé tímabundið ástand.  Það er verið að kýla niður stóran hóp fólks og segja við það með beinum og óbeinum hætti. Þetta er fáránlegt ástand í svona litlu samfélagi. Það er eina vitræna, skynsamlega og manneskjulega leiðin að deila vinnunni og minnka gjána sem núna er milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem hafa ekki vinnu.

 Það eru nokkrar aðferðir til að  dreifa þeirri vinnu sem nú er unnin í samfélaginu. Stór hluti af þessari vinnu er unnin hjá opinberum stofnunum, starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga eða aðilum sem vinna fyrir þau. Það ættu því að vera hæg heimatökin fyrir opinbera aðila að koma að þessu máli og gera tillögur og reyna að hrinda í framkvæmd einhverri áætlun.

Ein skynsamlegasta leiðin er stytting vinnuvikunnar - eða alla vega bjóða starfsfólki upp á það. Önnur aðferð er að bjóða þeim sem eru að nálgast starfslokaaldur upp á rýmkun á reglum þ.e. svo þeir geti dregið úr vinnu eða hætt fyrr að vinna. Ennþá önnur aðferð er að bjóða ófaglærðu fólki námsleyfi, það er aðferð sem hefur t.d. verið reynt íSvíþjóð, þar bauðst starfsfólki að sækja um ársleyfi til endurmenntunar og starfsmenntunar gegn því að maður á atvinnuleysisskrá leysti það af.

það hefur verið við lýði vinnualkasamfélag á Íslandi. Fólk er ekki búið að taka við sér og sjá hvað það kerfi passar ömurlega illa við þær aðstæður sem við erum í í dag, við verðum að deila vinnunni og afkomunni. Það er eina skynsamlega leiðin. Það er líka betra út frá velferð fjölskyldna og það sem er almikilvægast er að ef einum hópi er stillt upp við vegg og hann er útskúfaður frá þátttöku í samfélaginu, þeirri þátttöku sem þú færð gegnum að vera í starfi á vinnumarkaði þá er hætta á mikilli ólgu og ringulreið.

Ef hins vegar allir skynja og skilja að það er vilji þeirra sem með völdin fara að jafna byrðarnar og deila gæðum samfélagsins  - á réttlátan hátt og þar með að deila vinnunni og búa ekki til vinnandi stétt og ekki-vinnandi-stétt þá munu samtvinnaðir kraftar samfélagsins vinna að því að bæta ástandið, ekki gera það verra.

 


mbl.is Sjálfstæðið tekið af mér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Próf í geldingum og grjóti

Ég hvet alla  jarðfræðinga og dýralækna landsins sem ekki hafa vinnu til að sækja um  draumaembættið að vera forstjóri fjármálaeftirlitsins. Þetta embætti heyrir undir fjármálaráðuneytið. það þarf háskólapróf og  svo þarf "að búa yfir víðtækri þekkingu og starfsreynslu á fjármálamarkaði". Þetta síðasta  getur fólk bara túlkað eins og það vill t.d. sagst hafa haft bankareikning sjálft í mörg ár og séð um eigin netbankaviðskipti. Þá skilji  maður alveg út á hvað Icesave gengur og hverjar skuldbindingar Íslendinga eru gagnvart því dæmi. Þetta hlýtur að nægja um starfsreynsluna, það eru mörg fordæmi fyrir að svoleiðis starfsreynslu hafi fleytt mönnum langt í íslenskri stjórnsýslu, var t.d. ekki einn prestlærður maður einu sinni dubbaður upp sem útvarpsstjóri og ef ég man rétt þá hafði hann þá starfsreynslu helsta í sambandi við ljósvakamiðla að hann "hlustaði mikið á útvarpið".

Annars er skondið að núna iðar allt af lífi á hinu háa Alþingi, þar eru snarpar umræður og þingmenn tala sig hása um hvaða prófgráður framtíðarseðlabankastjóri eigi að hafa, hvort hann þurfi nokkuð meistarapróf í hagfræði. Hér má minna á að það var algjörlega möglunarlaust hjá Alþingi að samþykkja lög um kennaramenntun þar sem allir leikskólakennarar og grunnskólakennarar hér eftir verða að hafa meistarapróf. það er nú bara gaman að búa í samfélagi sem gerir meiri kröfur til menntunar grunnskólakennara en seðlabankastjóra. 

En varðandi embætti forstjóra fjármálaeftirlitsins þá verður að segja að það er alveg out  núna að hafa próf í geldingum eins og fyrri fjármálaráðherra. Það er svooooo 2007. Núna eftir hrunið er allt svo steinrunnið í íslensku samfélagi að núna þarf steinafræðinga.  Jarðfræðingar hafa núna meiri séns í forstjórastarf FME enda hafa þeir meiri skilning á hamförum og það hjálpar til að skilja í hvaða stöðu Ísland er núna að hafa sérstaklega kynnt sér fyrirbæri eins og möttulstrókinn undir Íslandi og vita að það er þessi möttulstrókur úr iðrum jarðar sem bjó til Ísland, já reyndar líka bjó til þá þau landssvæði sem nú eru kölluð Bandaríkin og Evrópa.

Svo er byltingunni lokið og búsáhöldin eru komin upp í skáp.Henry túlkar þetta listilega í þessari teiknimyndasögu:

skripo_040209_db1ef23321514836ba7452327bd02c9a

 

 


mbl.is Staða forstjóra FME auglýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum upp fjögurra daga vinnuviku

Það er eitthvað absúrd við verkalýðsbaráttu núna sem gengur út á að hækka kaup. Það er jafn lítil jarðtenging hjá verkalýðsforingjum sem einblína á það eins og hjá þessum fulltrúum verkalýðsfélaga sem tóku þátt í bankaundrinu mikla og spreðuðu samansöfnuðum lífeyrissparnaði félagsmanna sinna í að púkka undir skuldsettar yfirtökur og lánafyllerí.

Af hverju krefjast verkalýðsfélög þess ekki að fá að vita umbúðalaust hver staðan er? Átta forustumenn verkalýðsfélaga sig ekki á því risastóra vandamáli heils samfélags sem við stöndum frammi fyrir núna? Ennþá er ég að hitta fólk sem segir hróðugt að það hafi ekkert orðið vart við þessa kreppu, hvort þetta sé ekki mest í fjölmiðlum, ennþá séu bílar á götunum, ennþá séu steikur á borðum, ennþá hafi fólk í umönnunarstörfum og afleiddum störfum vinnu, ennþá hafi enginn sem það þekkir misst vinnuna. Ég hef heyrt fólk utan höfuðborgarsvæðisins halda því fram að þetta sé Reykjavíkurkreppa, það sé engin kreppa annars staðar, þar hafi ekki verið neinn uppgangur í þeirra byggðalagi og það geti  því ekkert farið þar niður.

En málið er þannig að sveiflur eru lengi að fara í gegnum hagkerfið og reyndar eru sveiflur lengi að berast um hagkerfi heimsins en bylgja sem rís  á einum stað skellur niður einhvern tíma seinna á öðrum stað. Því miður er ástandið þannig að allt bendir til þess að ástandið muni halda áfram að versna. Fólk hérna á Íslandi heldur að hér sé kreppan dýpst og víst er fallið hátt hérna en á sumum svæðum í Bandaríkjunum er ástandið ömurlegt, þar er ekki það velferðarkerfi samtryggingar sem við teljum okkur búa við - teljum okkur búa við - ég nota það orðalag með vilja því það getur farið svo að velferðarkerfið brotni undan þunganum ef allt of mikið reynir á það.

Eins og er þá er ekkert í stöðunni annað en búa sig undir langvinnt kreppuástand, það er mælt í nokkrum árum. Það getur verið að hagkerfið brotni svo mikið saman að við séum eins og á striðstímum og verðum að stunda sjálfþurftarbúskapur og vöruskipti og búa við skömmtunarkerfi.

Það eru margir sem þurfa næstu mánuði að lifa á atvinnuleysisbótum og það er afar mikilvægt að þeirri vinnu sem er í samfélaginu sé skipt á sem réttlátastan og jafnastan hátt.


mbl.is Staðið verði við launahækkanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostun kostar

Ég er að lesa ritsmíð Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega "Hagkerfi bíður skipsbrot". Mér finnst  verulega mikið vanta í  greiningu þeirra á því sem gerðist á Íslandi og þeir að sumu leyti blindaðir af pólitískri sýn þeirra sem skima eftir sökudólg og líta yfir sviðið frá sjónarhóli vestrænna markaðshagkerfa og loka augunum fyrir því að þessi hagkerfi sem virkuðu vel á einum tíma eru að molna niður og sú molnun verður ekki skýrð með hliðsjón af vestrænni markaðshagfræði eingöngu. 

Það verður fróðlegt að sjá hvernig hagfræðingar heimsins meta hvað gerðist á Íslandi þegar lengra er liðið frá hruninu hérna og þegar ljóst verður hvernig þjóðir heimsins koma undan þeim kreppuvetri sem núna gefur engum grið. Ef til vill munu stærri hagkerfi en hið íslenska  liðast í sundur og ef til vill munu ríki og ríkjasambönd sem núna eru öflug brotna niður.

Í ritsmíð Jóns og Gylfa er horft á Ísland með bresku auga og dregin upp mynd af því sem gerðist. Sýn þeirra fylgir  tískustraumum dagsins í dag. Þannig er Ísland og íslenskar aðstæður núna teiknaðar upp í heimspressunni, þannig vill umheimurinn sjá Ísland núna, þannig sögu vill hann heyra, svona Einu sinni var... ævintýri um  uppgang og hnignun konungsríkis hins fávísa Bubba kóngs. Svona sögur eru öðrum þræði  huggunarsögur fyrir hræddan umheiminn því í þeim felst sú vissa - já og hugsanlega sú blekking - að það sé ekkert bogið við það lottóhagkerfi sem við búum við, það sé bara eitthvað að litlum og fávísum spilurum sem ekki hafi lært leikreglurnar nógu vel.

Þó ég sé með þessu að benda á að þessi ritsmíð er skrifuð fyrir enskan markað og fyrir auga umheimsins þá eru margt athyglisvert og gott í henni. Það er enginn vafi á því að við höfum verið blekkt og sá blekkingarvefur sem var búinn til á Íslandi var víðfeðmur og í honum festust flestir þeir sem hefðu átt að vara okkur við.  Það er sorglegra en tárum taki að skoða hvernig eignatengsl  flestallra fjölmiðla voru á Íslandi. Margir skeleggustu fjölmiðlamenn þjóðarinnar voru á mála hjá útrásarvíkingum, ef ekki beint þá óbeint á þann hátt að þeir unnu hjá fjölmiðlum í þeirra eigu og fengu að vera krítískir á allt annað en þá sem borguðu launin þeirra.

Það var ekki bara pressan sem var á mála hjá útrásarliðinu, það voru þónokkrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar með einum eða öðrum hætti tengdir  þeim og áttu eitthvað undir þeim bæði með beinum framlögum í kosningabaráttu og með því að hampa ákveðnum aðilum í fjölmiðlum í eigu útrásarmanna og svo hefur verið bent á mjög skrýtin tengsl milli banka og stjórnvalda og hvernig t.d. margir sjálfstæðismenn fengu vinnu og stjórnunarstöður í einkavæddu bönkunum  - að því er virðist gegnum pólitísk tengsl.

bubbi-glitnir.jpgÁ gróðæristímanum þá var mikið um það sem kallast kostun. Flestir menningarviðburðir voru að einhverju leyti í boði bankanna eða útrásarfyrirtækja. Þannig mætti Bubbi Mortens sem nú kyrjar mótmælasöngva dekoreraður í bak og fyrir glitrandi af Glitnis lógóum. Það efast enginn um að Bubbi er einlægur, hann er í peningakröggum núna eins og flestir Íslendingar en hann sem einu sinni söng um hlutskipti farandverkamanna spilaði á einum tíma með í því lottósamfélagi sem glitraði fyrir framan okkur en við vitum núna að það var glópagull.

Fjölmiðlarnir, stjórnmálamennirnir og listamennirnir sungu með útrásarvíkingunum.

Við lifum í þekkingarsamfélagi og lykilstofnanir í þannig samfélagi eru háskólarnir. Þar verður ný þekking til og þaðan er henni miðlað til samfélagsins. Háskólasamfélagið var á gróðæristímanum líka í klóm útrásarvíkinga og auðjöfra, það sveif sá andi yfir vötnum að vísindi ættu að vera kostuð og háskólamenn voru og eru hvattir til að leita að kostunaraðilum. 

En það eru augljós varnaðarmerki um þetta samspil vísinda og kostunar einkaaðila. Þannig má benda á erlend dæmi sem tengjast lyfjaiðnaði og tóbaksframleiðendum. Það eru augljós hagsmunatengsl ef fyrirtæki kostar rannsóknir á gæði þeirrar framleiðsluvöru sem það framleiðir t.d. ef rannsókn um heilsufar Íslendinga er kostuð af lýsisframleiðendum og mjólkurframleiðendum.

Það var að sjálfsögðu mikilvægt fyrir banka í útrás að hafa öfluga talsmenn innan fræðasamfélags háskóla, fræðimenn sem skrifuðu jákvæðar greinar um íslenska bankaundrið.

Í ritsmíð Jóns og Gylfa er getið um tvo sem skrifuðu jákvætt um bankaundrið. Þar stendur:

En ekki voru allir neikvæðir. Aðrir hagfræðingar urðu til þess að benda á styrk íslenska bankakerfisins og fjármálakerfisins. Tvær skýrslur voru skrifaðar af þeim Tryggva Þór Herbertssyni og Frederic Mishkin (2006) og Friðrik Má Baldurssyni og Richard Portes (2007). Í báðum tilfellum er dregin upp fögur mynd af íslenska bankakerfinu og íslenska hagkerfinu.

Þess má geta að Friðrik Már var í prófessorsstöðu sem kostuð var af Kaupþingi og Tryggvi Þór sem var háskólakennari  áður  starfaði fyrir Geir Haarde og var hans aðalráðgjafi í efnahagsmálum en var áður forstjóri (bankastjóri) forstjóra Askar Capital sem var eitt af þessum trylltu fjármálafyrirtækjum sem átti m.a. lúxusíbúðir í Hong Cong.

Í stuttu máli þá var blekkingarvefurinn sem lagðist yfir Ísland spunninn af fjölmiðlum, stjórnmálamönnum, listamönnum og fræðimönnum ásamt auðvitað af sjáfum gerendunum, sjálfum áhættuspilurunum sem sukku í fen skuldsettra yfirtakna og peningafroðu.

Það er dýrt að missa sjónar á sannleikanum og það er sérstaklega dýrt ef þeir sem eiga að skapa þekkingu skapa fyrst og fremst blekkingu.

 

Viðbót:

Að gefnu tilefni vil ég koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum sem mér hafa borist:

Friðrik Már Baldursson var deildarforseti viðskipta og hagfræðideildar HÍ. Er hann tók við var deildin í 30 milljón króna halla og stefndi í 50 milljónir. Samningar við bankana sem höfðu verið við deildina um árabil voru að renna út. Friðrik hafði samband við þá til að athuga með mögulega endurnýjun. Hann bauð Kaupþingi að ein staða í deildinni yrði nefnd í Fulltingi Kaupþings og var það samþykkt á deildarfundum. Slíkt fyrirkomulag er alsiða við marga erlenda háskóla. Styrkurinn fékkst og Friðrik tók að sér að tengja nafn sitt við þetta starf. Hans launakjör breyttust ekki á neinn hátt og þetta fé eins og allt annað fé sem komið hefur til HÍ frá fyrirtækjum fór til skólans og í þessu tilviki til að styrkja stöðu deildarinnar.


mbl.is Veðjuðu á endurlífgun hagkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fræ og bíll - Netsala er óhjákvæmileg þróun

Núna í kjölfar hrunsins þá held ég  að við munum sjá miklu meira af því að verslanir flytja sig nú inn í netheima. Það er miklu meira sýningarrými þar og margar vörur eru þannig að það er hægt að sýna þær alveg eins vel á Netinu. Margir nota núna Netið sem einn lið í að versla sér vörur þó þeir geri sér ferð í verslunina. Við höfum sennilega flest fyrst skoðað vörulista hjá verslunum áður en við förum t.d. í Ikea og skoðum sjálfar vörurnar.

Fyrstu netkaup mín voru fyrir mörgum árum, ábyggilega fyrir árþúsundamótin. Ég verslaði fræ, ég keypti fræ af áhugamanni um fræsöfnun sem safnaði fræum úr grasagörðum og seldi bæði til einstaklinga og grasagarða. Hann var lögreglumaður á eftirlaunum og þetta var hans tómstundagaman. Fræið fékk ég svo sent í pósti frá Bretlandi.

 raudur-bill.jpgSíðustu netkaupin mín voru rétt eftir hrunið. Ég verslaði mér bíl. Ég keypti bíl óséðan á uppboði hjá bilauppbod.is og ég bauð í bílinn og fékk hann á mjög góðu verði. Nú er ég búin að eiga þenna bíl í meira en tvo mánuði og hann reynist vel. Sumum finnst þetta hafa verið mikið áhætta að kaupa bílinn óséðan og óprófaðan en mér fannst það nú ekki. Það voru fullt af myndum af bílnum á uppboðsvefnum og  það voru upplýsingar um bílinn og ég bauð miðað við verð sem ég sá að svipaðir bílar voru á bílasölum þ.e. ég bauð töluvert lægra en það. 

Svo held ég að við flest kaupum farseðla í flug í gegnum Netið.

Talandi um fræ, þá er áhugavert að skoða fræframboðið af trjáfræum á breska ebay.


mbl.is Verslunareigendur loka búðunum og selja á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur Ernir sá ljósið - Startaði hann búsáhaldabyltingunni?

Það er gaman að fylgjast með hvað margir fá núna vitranir um að þeir eigi að stjórna Íslandi. Til að fá að stjórna Íslandi þá þarf maður að fá umboð í kosningum. Til að fá umboð í kosningum þarf maður að bjóða sig fram.  Þessir sem hafa fengið köllun geta auðvitað stofnað sérstakan stjórnmálaflokk í kringum sjálfan sig. Gallinn er bara sá að það hefur ekki virkað neitt sérstaklega veð. Sjáið þið bara Ómar Ragnarrsson ástmög íslensku þjóðarinnar. Öll þjóðin gekk með honum niður Laugaveg og fékk heilmikla bakþanka og pældi í "við hefðum ekki átt að fara svona geyst í þessar virkjanir, við hefðum átt að hlusta á Ómar". En kaus hann ekki. Sjáið bara Pétur Guðjónsson og flokk mannsins. Hmmmm... þýðir ekkert að taka það dæmi... enginn man eftir Pétri lengur, Pétri sem fékk vitrun á einhverju útlensku fjalli.  Best að taka nærtækara dæmi. Sjáið þið bara Ástþór, ekkert gengur honum að fá fólk til að kjósa sig.  Reyndar þegar ég hugsa um þetta þá er ein undantekning og það er Jóhanna. Er ekki rétt að hún hafi stofnað Þjóðvaka af því að hún tapaði í formannskjöri við Jón Baldvin? Reyndar var svo stofnun Þjóðvaka eins og múrbrot sem braut upp flokkakerfið á Íslandi. Svo má ekki gleyma litríkum stjórnmálamönnum eins og Vilmundi  Gylfasyni

 

 Hann fékk fyrst sína fremd í gegnum pabbaflokkinn, flokkinn þar sem pabbi hans var formaður og ráðherra eins lengi og elstu menn muna  og var Vilmundur vonarstjarna þar. Svo þegar hann tapaði í varaformannskjöri bara með 12 atkvæða mun þá skráði hann sig úr flokknum og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna. Fáir kusu það hins vegar.

Sigmundur Ernir fékk köllun og hann þurfti bæði að velja sér flokk og kjördæmi. Hann fór troðnar slóðir í að velja sér flokk - fattaði að þeir sem skrifa bækur um Framsóknarleiðtoga og teyga þannig í sig framsóknarhugsjónir hafa bestu möguleikanna í Samfylkingunni. Sjáið bara Dag Eggertsson, skrifaði hann kannski ekki bók um Steingrím Hermannsson og varð svo leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík og hundraðshöfðingi, var hann kannski ekki borgarstjóri í 100 daga? Sigmundur Ernir fetar í fótspor Dags og ætlar sér örugglega mikinn frama í Samfylkingunni, sennilega stefnir hann að formennsku enda Sigmundur mjög foringjalegt nafn og fyrrum fréttamenn með kraftmikil nöfn og góðan skjáþokka virðast bruna rakleitt í foringjasætin núna.

Annars óska ég Samfylkingunni til hamingju með nýja liðsmanninn og foringjaefnið Sigmund Ernir. Það veitir ekki af hjá Samfylkingunni þessa daganna að fagna öllum nýjum liðsmönnum, það er svo mikið um brottfall hjá þeim núna, enginn vill vera bendlaður við þessa undarlegu stjórn sem hrökklaðist nýlega frá störfum.

Það er samt alveg metfyndið hvað einn maður getur kúvent á skömmum tíma. Það væri gaman að spila aftur og birta það sem Sigmundur Ernir sagði um mótmælendur sem trufluðu Kryddsíldina sem hann stjórnaði á Gamlársdag. Núna talar Sigmundur Ernir alveg eins og hann hafi aldrei látið sig vanta á Austurvöll, allur að berjast fyrir hag fjölskyldna í landinu og talar fjálglega um búsáhaldabyltinguna. Maður gæti haldið að hann hefði startað henni eins og hann talar núna.


Dósagerðin árið 1972

Ég vann í Dósagerðinni um tíma þegar ég var í menntaskóla. Mig minnir að það hafi verið haustið 1972, það var auglýst eftir verkafólki á sérstakar aukavaktir milli klukkan fimm og tíu á kvöldin.  Við  konurnar á aukavaktinni hittum ekki dagvinnufólkið og vissum ekkert um það, það fór heim áður við mættum. Þetta voru vondar vinnuaðstæður, einar þær verstu sem ég hef unnið í um daganna. Það var oft nístandi kalt þar sem ég vann en stundum vann ég inn í salnum þar sem dósirnar voru settar saman  en þar var dynjandi hávaði og ekki heyrðist mannsins mál.

Þegar ég vann inn í salnum þá skemmdust öll fötin mín í gneistaflóði, þau brunnu í sundur út af einhvers konar logsuðuvél sem var staðsett við hliðina á mér og ég sneri baki í  og sem gneistaði af og neistarnir  stungu min í bakið og ég var hrædd allan tímann, hrædd um að sá sem stýrði gneistavélinni bak við mig missti stjórn á henni og hrædd um að ég myndi stimpla vitlaust á vélinni sem ég var á, það var einhvers konar dósaloksvél, mig minnir að hún hafi annað hvort gert lítið lok eða límt saman eða formað litlar dósir. Ég var alla vega alltaf hrædd um að stimpla eitthvað vitlaust og missa fingur.

Oftast vann ég þó á einni vél sem staðsett var fyrir framan salinn og við vorum tvær á vélinni. Okkar hlutverk var að fóðra vélina með stórum málmplötum. Vélin skar málminn í nokkrar þynnur og var önnur í að passa þynnurnar þegar þær spýttust úr vélinni, það þurfti að passa að þær færu niður rétt fals, ef það var ekki gert þá spýttust þynnurnar út og böggluðust og skemmdust.

Við kepptumst við alla vaktinni. Eina tilbreytingin var að við skiptumst á,ég var stundum að fóðra vélina á málmplötum og stundum að passa að nýskornar og flugbeittar þynnur færu í rétt hólf. Það var erfitt og það var hættulegt því þegar maður var laga einhverja þynnu þá gat maður átt von á að sá sem var hinum megin á vélinni hefði fóðrað vélina með nýrri málmplötu og það þeyttust að manni fljúgandi nýskornar flugbeittar málmþynnur. Stundum geriðst það og ég slasaðist einu sinni illa og ber ævilangt ör á handlegg eftir málmþynnu sem skaust að mér og lenti djúpt í handleggnum. Ég fór á slysavarðstofuna og mig minnir að það hafi verið saumað.

Ég man ekki eftir að hafa orðið vör við eigendur fyrirtækisins eða starfsfólk á skrifstofu. Nema einu sinni, þá man ég eftir að stúlka sem vann á skrifstofunni og var eitthvað  með launaútreikninga benti mér á að ég ætti rétt samkvæmt samningum á að fá slysakostnað greiddan, ég man ekki núna hver hann var en mig munaði alla vega um það og ég var henni þakklát. 

Svo kom við upphaf hverrar vaktar einhver kall í jakkafötum að okkur á vélinni. Hann talaði aldrei við okkur, hann bara kom í upphafi hverrar vaktar og skrifaði hjá sér einhverjar tölur sem hann las af teljara á vélinni. 

Svo fór hann og við upplifðum okkur alltaf í einhvers konar akkorði og reyndum alltaf að lesa af svipbrigðum kallsins hvort við værum að standa okkur nógu vel og við hömuðumt á vélinni og fóðruðum hana með plötum alla vaktina. Kallinn talaði meira segja ekki við okkur þegar  okkur var sagt  upp. Einn daginn var okkur sagt upp, sagt að það þyrfti ekki aukavakt lengur, við ættum ekki að mæta daginn eftir. Það var skrifstofustúlkan sem kom með þau tíðindi.

Hvers vegna er ég að rifja upp þessa sögu? Kannski af því þetta er eina skiptið sem ég hef unnið í verksmiðju. Fyrir utan vinnu í frystihúsi. Þetta var líka lífsreynsla, verksmiðjan var myndræn og falleg, hún var ekki lí litum, hún var í grátónum, allar þessar silfurlituðu dósir sem runnu eftir færiböndum, allur þessi dynjandi hávaði, hvítt gneistaflugið  og vélarnar og vélaskruðningurinn. Allur þessi hiti og allur þessi kuldi. Hnífbeittar málmþynnur sem spýttust úr dósaskurðarvélinni og ég reyndi að forðast mér undan minna mig alltaf á senu úr vélveruhryllingsmyndum, eins og einhver vopn eða sprengjur eða hnífar sem kastað er að óvininum.

Ég er líka að rifja upp þessa sögu núna vegna þess að ég sé í Dagblaðinu í dag, í greininni "Björgólfur þáði stolnar milljónir úr Landsbankanum", ég sé í þessari grein minnst á Dósagerðina og nú veit ég hver eigandi hennar var á þessum tíma. Í greininni stendur:

"Sem deildarstjóri ábyrgðardeildar Landsbankans hafði Haukur Heiðar um sjö ára skeið, frá 1970 til 1977, dregið að sér rúmar 50 milljónir króna með skjalafalsi. Í flestum tilfellum notaði Haukur Heiðar féð sem hann dró sér til þess að borga ábyrgðarskuldir fyrirtækja Björgólfs Guðmundssonar, Dósagerðarinnar og Bláskóga, eða kom fénu úr landi og inn á bankareikning í Sviss."

 

 

 


mbl.is Erfitt að rannsaka skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólafur fyrrum er ósáttur við bloggið mitt

Tími Jóhönnu er kominn en tími Ólafs fyrrverandi borgarstjóra er liðinn. Það voru góð umskipti fyrir borgarbúa í Reykjavík þegar Ólafur fór frá völdum.  Aðstæður eru þannig í íslensku þjóðfélagi í dag að við Framsóknarmenn tryggjum stöðugleika og vinnufrið bæði hjá ríkisstjórn undir forustu Jóhönnu og hjá borgarstjórn undir forustu Hönnu Birnu.

Landið var stjórnlaust þegar Framsóknarflokkurinn tók af skarið og bauðst til að verja minnihlutastjórn vantrausti og höfuðborgin Reykjavík var í uppnámi þegar Framsóknarflokkurinn tók þann eina kost sem var fær til að tryggja vinnufrið í borginni og mynda starfhæfan meirihluta. Ólafur sjálfur hefur aðra skoðun á sinni stjórnartíð en ég og virðist sjálfur ekki telja að hann hafi verið vondur borgarstjóri. Ólafur er líka ósáttur við að aðrir telji hann vondan borgarstjóra og Ólafur er ósáttur við að moggabloggarar eins og ég skulum dirfast að fella dóm um hans frammistöðu  þar að hann mun eftir því sem mér hefur verið tjáð hafa gert blogg mitt að umtalsefni á borgarstjórnarfundi í gær.

Þetta er auðvitað nokkur upphefð fyrir mig, nú hefur bloggið mitt bæði ratað inn á Alþingi og inn í borgarstjórn. Það eru tvö ár síðan það var vitnað í bloggið mitt á Alþingi, sjá hérn  Blogglestur á Alþingi

Það var í umfjöllun um Breiðavíkurmálið, Magnús Þór Hafsteinsson las þessar setningar upp af blogginu mínu: 

„Ég vona samt að sú stund komi ekki í framtíðinni að ég og aðrir sem stöndum nærri börnum sem eiga erfitt með að fóta sig þurfum að horfast í augu við fortíðina og finna sök okkar.“

 Hér er tilvitnun í ræðu Magnúsar

Þegar ég skrifaði þetta blogg sem Magnús vitnaði í fyrir tveimur árum þá var ég með í huga þau börn sem ég hef fylgst með í gegnum lífið og sem eiga í erfiðleikum, ég var að hugsa um hvort ég og aðrir aðstandendur hefðum brugðist rétt við og gert nóg. Því miður er oft auðveldasta leiðin farin, sú að loka augum fyrir vandamálum annarra barna en manns eigin og láta eins og þau komi manni ekki við. 

En þetta "kemur mér ekki við" og "ég á nóg með mín vandamál og bæti ekki á mig vandamálum annarra" kemur okkur í koll seinna ef uppeldi og umönnun barna brestur gersamlega vegna þess að samfélagið lokar augunum fyrir aðstæðum þeirra í bernsku og þannig ástand skapast að þegar þau verða fullorðin þá verða þau óhamingjusamt ógæfufólk og  hugsanlega þungur baggi á samfélaginu. 

Það er mun affarasælla ef allir láta sig varða hag barna, líka barna sem ekki eru beinlínis á manns eigin ábyrgð. Núna meira en tveim árum seinna  þá hafa málin skipast þannig að ég sit núna í barnaverndarnefnd í Reykjavík sem fulltrúi Framsóknarflokksins. Ég hef því oft hugsað upp á síðkastið á sömu nótum og í þessu bloggi sem Magnús vitnaði í.

Það var vitnað í bloggið mitt á mjög vinsamlegan hátt af Magnúsi á Alþingi en mér skilst að þannig hafi það ekki verið þegar Ólafur gerði bloggið mitt að umtalsefni á borgarstjórnarfundi í gær. Ólafur er mjög upptekinn af umfjöllun um hann sjálfan og raunar virðist það oft yfirskyggja sýn hans á málefni. Þannig mun Ólafur ekki vera sáttur við að ég hafi talið hann slæman borgarstjóra.

Ég fer nú ekki ofan af því að Ólafur Magnússon var arfaslæmur borgarstjóri en hann er góður maður og fínn borgarfulltrúi sem talar af tilfinningaþunga og hugsjón fyrir sjónarmiðum þar sem hann á samleið með mörgum borgarbúum. Það er því mikilvægt að rödd öflugs málafylgjumanns sem hans heyrist í borgarkerfinu en sem borgarstjóri var hann alltaf afleitur kostur og skömm Sjálfstæðismanna er mikil að hafa vélað hann til að taka að sér þetta embætti.

Svona til að búa mig undir hugsanlegan slag við Ólaf Magnússon þá rifja ég upp allt sem ég hef sagt um hann á bloggi. Þegar ég lít yfir það þá finnst mér ég ekki hafa sagt neitt sem  ég get ekki staðið við. Ólafur var borgarstjóri og sem slíkur þá hlýtur almenningur eins og ég að hafa leyfi til að gagnrýna störf hans. 

Mér finnst nú reyndar nokkuð undarlegt að hann hafi gert blogg mitt að umtalsefni en ætla nú ekki að tjá mig um það fyrr en ég veit hvað Ólafur sagði.

En hér eru til upprifjunar þau blogg sem ég fann þar sem ég hef eitthvað fjallað um  Ólaf Magnússon:

 

Varaborgarfulltrúarnir Marsibil og Margrét

Það er einkennilegt að sama flækjan virðist hafa komið upp núna milli Óskars borgarfulltrúa og Marsibil varamanns hans og hjá Ólafi og Margréti Sverris við síðustu valdabyltingu í Ráðhúsinu. Marsibil tjáir sig um þetta í Fréttablaðinu í dag og sjá einnig á vísir.is:  Sama staða og hjá fráfarandi meirihluta

Það er auðvitað viðfangsefni oddvita flokka í borgarstjórn að taka þátt í svona viðræðum og eðli málsins samkvæmt þurfa svona viðræður stundum að fara leynt, sérstaklega ef það eru nú bara óformlegar þreifingar en það er örugglega affarasælast að baklandið sé sem best innan flokksins.

Svona eftir á að hyggja þá hugsa ég að það hafi verið algjörlega meðvitað hjá Sjálfstæðismönnum að slíta stjórninni núna við Ólaf á meðan hann var ennþá borgarstjóri. Þetta er alveg ótrúlega veik stjórn sem byggir á einum manni sem er þar að auki frekar óútreiknanlegur og lítt samstarfslipur.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að nýi meirihlutinn núna var byggður upp með trausti forustu flokkanna sem standa að þessu samstarfi, sjá þessa frétt:  Formennirnir voru kjölfestan og það er góðs viti fyrir stöðugleika þessa nýja samstarfs. En það er ekki gott að varamaður Óskars Marsibil styðji ekki þennan nýja meirihluta.  Eftir henni er haft: "Marsibil segist þó áfram starfa sem varaborgarfulltrúi en óráðið sé hvort það verði fyrir Framsóknarflokkinn eða ekki." Vonandi tekst Óskari að ná samkomulagi við Marsibil. 

Margrét Sverris var á sínum tíma afar ósátt við að Ólafur sprengdi 100 daga stjórn Tjarnarkvartettsins. Það er nú samt um margt ólíku saman að jafna, það var fyrir samheldin stjórn sem Ólafur var þátttakandi í en hann var vélaður yfir með húskofamilljarði og borgarstjórakeðju og stóli.  Það hefur hins vegar varla farið fram hjá fólki að það var allt í óefni í borginni, Ólafur er ekki mannasættir og maður málamiðlana.  Úr því sem komið var þá er núverandi stjórnarform það stöðugasta í Reykjavík út þetta kjörtímabil.

 Varðandi nýja stjórn Tjarnarkvartettsins svonefnda sem fram kemur að Marsibil hafi viljað fremur en núverandi þá er það vægast sagt afar undarlegt að boð Ólafs um að segja af sér og koma Margréti til valda kemur ekki til Margétar sjálfrar heldur koma fulltrúar Vinstri grænna með það inn á fund minnihlutans sem tilboð og virðast þannig hafa breyst í einhvers konar umboðsmenn fyrir Ólaf Magnússon. Margrét Sverris sem þó var skiptimyntin virðist ekkert hafa verið höfð með í ráðum þar, eftir henni er haft í fjölmiðlum að hún telji afar ólíklegt að Ólafur hafi ætlað að segja af sér til að hún komist að.

Það er bara því miður alls ekkert mark takandi á svona tilboðum þar sem fulltrúar Vinstri grænna í umboði Ólafs Magnússonar bjóða fram Margréti. Og það lætur enginn heilvita maður sér annað koma til hugar en að Sjálfstæðismenn hafi haft Plan B ef Óskar hikaði á ögurstundu. Og augljósasti kosturinn fyrir plan B er að  Sjálfstæðismenn hefðu hafið samstarf við Vinstri Græna. Ég gat ekki betur heyrt á Degi Eggertssyni í sjónvarpi í gær annað en hann hintaði að slíku. 

Dagur Eggertsson stendur sig vel að vanda í svona orrahríð. Hann talar prúðmannlega og fyrir heiðarleika og góðum vinnubrögðum í stjórnmálum. Vonandi er tíma plotta og bakrýtingsstungna nú liðinn í borginni. Þetta er eiginlega bara búið að vera skálmöld.

 

4.8.2008 | 18:47

Ólafur á um sárt að binda

Það hefur komið fram að það er ekki rétt að Ólafur hafi boðist til að segja af sér í morgun. Það er því ljóst að endurnýjun Tjarnarkvartettsins var ekki í stöðunni. (sjá Ólafur ætlaði aldrei að hætta )

Hins vegar ættu allir sem fylgst hafa með gangi mála undanfarin ár í borginni að átta sig á því að Ólafur er mjög viðkvæmur maður og ekki í góðu jafnvægi og hann mun telja núna að Sjálfstæðismenn hafi svikið hann öðru sinni. Ólafur mun hafa tekið mjög nærri sér þessa uppákomu á sínum tíma rétt eftir kosningar þegar hann var að þinga með félagshyggjuöflunum en var líka að plottast eitthvað með Vilhjálmi og hélt að hann hefði öll spjót í hendi en síðan kom á daginn það þetta var feik og fyrirsláttur og Sjálfstæðismenn höfðu samið vð Björn Inga. 

Það þarft stáltaugar til að standa í pólitík eins og hún er orðin á Íslandi í dag og það hefur mætt mikið á borgarfulltrúum í Reykjavík þetta kjörtímabil.  Vonandi átta fjölmiðlamenn og menn í kringum Ólaf í stjórnmálum sig á því að Ólafur skynjar ekki atburðarásina eins og þeir og líklegt er að hann telji það að hann sé settur af sem borgarstjóri nokkrum mánuðum fyrr en áformað var  vera eitraða hnífsstungu í bakið. Agli Helgasyni finnst líka Ólafur hafa verið svikinn og spyr: Hvað gerði Ólafur af sér?

Það var illa gert hjá Sjálfstæðismönnum að etja Ólafi út í þetta fen á sínum tíma. Það var alveg ljóst af forsögu hans í stjórnmálum að hann var  afar illa fallinn til að vera borgarstjóri í Reykjavík og það getur ekki komið neinum á óvart hvernig það gekk eftir. 

Það er sorglegt vegna þess að Ólafur er einlægur hugsjónamaður og margt af því sem hann segir eru hlutir sem mjög mikilvægt er að eigi sér málsvara í borgarstjórn. Það er bara ekki sama og geta stýrt borginni.

 

Hefði ný hundraðdaga stjórn orðið betri?

Ég vildi svo gjarna að félagshyggjuöflin hefðu náð saman í borginni, Framsókn á miklu meiri samleið með öðrum félagshyggjuflokkum heldur en stjórnmálaöflum sem trúa að peningar og gróðasjónarmið séu gangverk og  goð mannlegs samfélags. Mér finnst Dagur Eggertsson frábær borgarstjóri og það hefði verið flott fyrir Framsóknarflokkinn að vinna undir hans stjórn enda gekk það samstarf afar vel þá 100 daga sem Óskar tók þátt í því.

Hins vegar hef ég ekki ástæðu til að ætla annað en Hanna Birna verði líka góður borgarstjóri.  Það var veruleg stjórnarkreppa í borginni og það var allt í óefni. Það er ekki hægt að mynda meirihluta félagshyggjuafla nema  með brotthvarfi  Ólafs Magnússonar. Þó það spyrjist út núna að Ólafur Magnússon hafi viljað segja af sér þá er Ólafur frekar óútreiknanlegur og hefði getað umhvolfst á morgun enda er það afar skrýtið ef hann segði af sér bara til að klekkja sem  mest á fyrri samstarfsaðilum.  Það er satt að segja borgarbúum fyrir bestu að þessi stjórnarskipti verði sem minnst röskun. Alla vega væri það algjört upplausnarástand ef núna væri aftur skipt út og stokkað upp í öllum nefndum og ráðum. Hmmm... hins vegar man ég núna að Ólafur var nú með lítið sem ekkert af nefndarsætum fyrir sitt stjórnmálaafl, hann hafði víst fáa samstarfsmenn og þeim fækkaði óðfluga. Ólafur mun hafa lagt áherslu á borgarstjórastólinn. Það er vonandi ekki það eina sem Framsókn fær út úr þessu að Óskar verði forseti borgarráðs.  Sennilega er nú eitthvað af nefndasætum sem Gísli Marteinn skilur eftir sig núna í boði fyrir Framsókn.

Ef það er eitthvað sem þarf í þessari borg núna þá er það einhver festa í stjórnsýsluna. Ég met þá stöðu sem nú er komin upp að það sé betra fyrir borgarbúa að Óskar komi í staðinn fyrir Ólaf og Hanna Birna verði strax borgarstjóri. Það virðist vera besta tryggingin fyrir því að festa verði út kjörtímabilið og Óskar mun alveg ábyggilega ekki krefjast þess að keyptir verði húskofar fyrir milljarð. Óskar hefur sýnt að hann getur unnið vel með öðru fólki. 

Þó tjarnarkvartettinn hefði tekið nú aftur við völdum þá hefði getað komið brestir í það samstarf þegar líða tekur að kosningum og t.d. vinstri-grænir hefðu búið sig undir kosningabaráttuna. Reynslan hefur sýnt að einn stór liður og hefð í kosningaundirbúningi þeirra er að sparka í Framsóknarflokkinn.  En ég leyni því ekki að ég vil miklu frekar sjá Framsókn halla sér til vinstri en hægri, ekki endilega með nýrri hundraðdaga stjórn heldur með því að svoleiðis meirihluti hefði verið myndaður strax að loknum kosningum og allra helst hefði ég viljað að Reykjavíkurlistinn hefði boðið fram aftur. Það voru hins vegar ekki Framsóknarmenn sem tvístruðu því samstarfi. 

Sagan á eftir að meta hverjir voru mestu gerendur í stjórnmálum í Reykjavík á þessu kjörtímabili og ýmislegt getur gerst ennþá því langt er til kosningar. Hins vegar er ekki hægt að segja annað en Ólafur Magnússon hafi leikið stórt hlutverk, eiginlega byrjaði hann að leika það þegar ljóst var að hann færi í eigið framboð. Þá var fótunum sjálfkippt undir Reykjavíkurlistaframboði því allir nema náttúrulega Samfylkingin vildu lenda í þeirri oddaaðstöðu að geta ráðið hver væri við stjórn í Reykjavík. Ólafi hefur ekki spilast sérlega vel út úr sinni oddaaðstöðu, hann hefur verið svikinn tvisvar og ég hugsa að hann taki það mjög nærri sér. Hins vegar hafa fulltrúar Framsóknarflokksins spilað stór hlutverk bæði Björn Ingi og Óskar. Svandís var líka frábær þegar hún gætti hagsmuna Reykvíkinga í stjórn orkuveitunnar.

Þessi stjórnarkreppa og hvernig úr henni greiðist sýnir vel mikilvægi svona miðjuflokka eins og Framsóknarflokksins og hve mikið vægi þeir hafa í  hinu pólitíska rými. Sá sem getur unnið með öllum hefur meiri möguleika á að komast til valda. Ég vona að núna sé tími bakstungna og plotta liðinn í Reykjavík og það verði ekki fleiri  uppákomur með borgarfulltrúum með jarðarfararsvip í kringum foringja sem þó er enginn foringi. Ólafur naut aldrei trausts sem borgarstjóri og Vilhjálmur naut ekki trausts eftir að REI málið kom upp á yfirborðið. Báðir eru þeir þó vandaðir menn sem lögðu sig fram og höfðu hagsmuni Reykjavíkur að leiðarljósi. Þeir bara þekktu ekki sinn vitjunartíma.

Síðasta flopp Villa

Ennþá einn dagurinn þar sem við borgarbúar bíðum eftir stólaleik í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Það bendir flest til þess að Sjálfstæðismenn séu búnir að gefast upp á Ólafi Magnússyni, manninum sem þeir sjálfir studdu til að verða borgarstjóra þrátt fyrir að þeim og flestum öðrum sé vel ljóst að hann er lítt til þess fallinn. Ég held að það  hafi í og með verið einhvers konar plott hjá Vilhjálmi fyrrum borgarstjóra, í þeim tilgangi að fá einhverja uppreisn æru og fara út úr stjórnmálum með reisn með því að plotta Sjálfstæðismenn aftur inn í meirihluta eftir að hafa sjálfur hrakist frá völdum á lítt glæsilegan hátt. En það hefur komið á daginn að þetta var mikið feilspor og flopp og hefur svo sannarlega ekki kastað  frægðarljóma yfir Sjálfstæðismenn í Reykjavík. Þetta hefðu allir átt að sjá fyrir. Ég skrifaði bloggið  Til í allt með Villa  28.1.2008 og sagði þá mína skoðun á hversu gæfulegt þetta síðasta flopp Villa var. Ég rifja hér upp hluta af því:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu skýr skilaboð út í samfélagið þegar þau leyfðu tveimur mönnum þ.e.  Vilhjálmi fyrrum borgarstjóra og Kjartani Magnússyni 4 manni á lista Sjálfstæðismanna að  ginna Ólaf F. Magnússon til samstarfs  og bjóða honum borgarstjórastól í Reykjavík og bjóða kúvendingar Sjálfstæðismanna í ýmsum málum og  veita af rausn nokkur hundruð milljónum af fé borgarbúa í uppkaup á gömlum húsum til að liðka til fyrir plottinu. Þau opinberuðu fyrir okkur borgarbúum ábyrgðarleysi sitt  í fjármálum borgarinnar og þau sýndu líka ábyrgðarleysi sitt og dómgreindarleysi  í stjórnsýslu borgarinnar með því að leggja blessun sína yfir að Ólafur F. Magnússon yrði borgarstjóri. Þau sýndu líka siðleysi með því að notfæra sér aðstæður Ólafs og samþykkja hann sem borgarstjóra í Reykjavík þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hann sé hæfur og góður kanditat í það  embætti.............. Það þarf hins vegar ekki annað en skoða framgöngu Ólafs F. í stjórnmálum undanfarin ár og skoða hve bakland hans meðal eigin fylgismanna og nánustu samherja er veikt til að sannfærast um að hann hefur ekki til að bera þá  stjórnvisku, elju, dómgreind, samvinnulipurð og  hæfileika til að sjá aðalatriði í málum sem borgarstjóri þarf. Ólafur F. er viðkvæmur hugsjónamaður og hugmyndir hans eru sumar góðar og framsýnar en hann hefur með verkjum sínum undanfarin ár sýnt að hann rekst ekki vel í stjórnmálasamvinnu og hann er ekki maður málamiðlana.

Það eru frekar undarlegar allar þessar erjur sem borgarstjóri á í við samstarfsmenn sína og fjölmiðla. En það er nú samt ekki það alvarlegasta í stöðunni því það er ekki að kosta borgarbúa milljarða. Hins vegar kostaði húskofauppkaupið um milljarð og eftir því sem ég man best það er þegar búið að kosta milljarð í að undirbúa Bitruvirkjun. Þar er alveg stórundarlegur hringlandaháttur í fulltrúum Sjálfstæðismanna ef þeir greiða atkvæði með eða móti einu í dag en samþykkja svo eitthvað rugl á morgun og kasta milljörðum af fé borgarbúa í eitthvað rugl. Óskar Bergsson fulltrúi okkar Framsóknarmanna er ekki af þessari sort, hann hefur staðið fast á því að gagnrýna húskofaruglið og Björn Ingi greiddi atkvæði á móti því ásamt Sjálfstæðismönnum náttúrulega - en þeir kúventust svo allir sem einn þegar þeir studdu Ólaf til að vera borgarstjóra og borguðu milljarð í meðlag með þeirri gjörð. 

Það er víst alveg öruggt mál að það þarf að taka tillit til umhverfissjónarmiða og flýta sér hægt í virkjunum á Íslandi. En það er ekki hægt að slá svona framkvæmdaáætlanir út af borðinu á þann hátt sem Ólafur borgarstjóri og reyndar stjórn Orkuveitunnar gerir. (Sjá hérna Misvísandi yfirlýsingar innan meirihlutans í Reykjavík um Bitruvirkjun ) Óskar fulltrúi okkar Framsóknarmanna hefur harðlega gagnrýnt þessar undarlegu aðfarir varðandi Bitruvirkjun.  

Ég velti nú fyrir mér hvort jarðvarmavirkjunin við Bláa lónið hefði verið reist í dag ef þeir aðilar sem stóðu að þeirri virkjun hefðu verið eins hverfulir og núverandi borgarstjóri.  Hefði kannski staðið í umhverfismati fyrir þá virkjun að hún hefði neikvæð áhrif á túrisma á svæðinu?

Það er nú alltaf jafnfyndið að það svæði  Bláa lónið  sem flestir útlendingar sjá og tengja við sérstaka náttúru Íslands sé byggt á úrgangi vegna jarðvarmavirkjunar. 

Ég hef skrifað t.d. þetta um Ólaf borgarstjóra

Dónalegur borgarstjóri

 Að brjóta niður fólk

 

 

 

Nítjándu aldar götumyndin

Ég er nýkomin frá Kóngsins Kaupmannahöfn en þar  reikaði ég um götur í Nørrebro og Østerbro í vikutíma til að komast í snertingu við minn innri Dana og finna æðasláttinn frá íslenskri og danskri sögu sem ófst saman og sló í takt á árunum 1400 til 1944. Ég hafði sérstakan áhuga á fyrri hluta nítjándu aldar, tímanum þar sem Finnur Magnússon  og Grímur Thorkelín voru leyndarráð og rýndu íog túlkuðu fornrit og rúnir.  Ég spáði í  hvaða afleiðingar atburðir eins og gjaldþrot danska ríkisbankans árið 1813 hafði á Íslandi, hvaða áhrif hafði stríðsrekstur Dana eins og Napóleonstríðinsprengjuárás á höfuðborgina Kaupmannahöfn árið 1807 og hvaða áhrif hafði það á íslenska Hafnarstúdenta að Kaupmannahöfn var á þessum tíma mikið  fúafen með læstum borgarhliðum  og fólkið stráféll af sjúkdómum eins og í kólerufaraldri árið 1853. Var það kannski út af þeim faraldri sem borgarvirkin voru rifin nokkrum árum seinna? og hvaða áhrif hafði það á Íslandi þegar gerð var

Það er svo sannarlega hægt að skoða nítjándu aldar götumynd á  Nørrebro og Østerbro enda tóku þau hverfi að byggjast þegar borgarhliðin voru rifin og fólk fór að setjast að í nágrenni gömlu miðborgarinnar. Hverfin byggðust í fyrstu nokkuð óskipulega upp, göturnar voru í einkaeigu og ekkert  gott skipulag á aðveitu og fráveitumálum. Svo hafa þessi hverfi  verið á tímabilum  í niðurníðslu. Það er núna ansi líflegt í þessum hverfum, sérstaklega í Nørrebro. Núna er verið að leggja metró í kringum gömlu borgarbrúarhverfin og verða þessi hverfi vel í sveit sett árið 2018 þegar það verður tilbúið. Metrókerfið í Kaupmannahöfn er nú alveg frábært, metróvagnarnir ómannaðir og næstum hljóðlausir og fara á nokkurra mínútna fresti beint frá flugvellinum á Amager niður í miðbæ og svo um alla Kaupmannahöfn þegar tímar líða fram. Það er nú einhver munur en hérna á Íslandi þegar maður þarf að dröslast upp í rútu hjá Kynnisferðum í Keflavík og bíða þar til henni þóknast að fara á stað og svo fá Reykvíkingar ekki að fara úr rútunni nema á BSÍ og fyrir þetta erum við rukkuð um 1500 krónur sem er um fjórfalt meira en ferðin kostar inn í miðbæ Kaupmannahafnar. 

Það er óskiljanlegt að ekki skuli vera meiri umræða og þrýstingur hér á Íslandi um metró frá Keflavíkurflugvelli,  sennilega notar ekkert af háttsettum pólitíkusum og embættismönnum rútuferðirnar suður á völl og átta sig ekki á því hvað þetta er stirðnað og fáránlegt samgöngukerfi sem flestir ferðamenn og margir Íslendingar þurfa að búa við. Jafnfáránlegt og úr takt við tímann og  lokuðu borgarhliðin voru í Kaupmannahöfn. Það er ekki bara hagsmunir Reykvíkinga heldur líka allra Suðurnesjabúa  og raunar allra  að samgöngurnar höfuðborgarsvæðisins séu greiðari við alþjóðaflugvöllinn og það kostar alveg gífurlega fjármuni og undirbúning að setja upp svona mannvirki. Jafnvel þó byrjað væri að plana í dag þá eru það mælt í áratugum hvenær svona lestarkerfi getur byrjað að starfa. Það var eitt helsta baráttumál móður minnar að rafmagnsjárnbraut kæmi frá Keflavík. Það er nú þannig ástand í dag að margir vinna erlendis og pendla á milli Íslands og vinnustaðarins. Vinnan eða skuldbindingar fólks eru ekki þannig í dag að fólk þurfi alltaf að mæta í vinnuna á sama tíma á hverjum morgni en það þarf oft að mæta á fundi.  Það kom fram í fréttum í dag að Gísli Marteinn er að fara í nám í Edinborg en ætlar að mæta á borgarráðsfundi með því að fljúga heim þegar þeir eru.  það eru margir í þessum sporum og það mikilvægasta fyrir áframhaldandi vöxt Reykjavíkursvæðisins - og þá á ég við allt höfuðborgarsvæðið og svæðin frá Borgarnesi til Selfoss og Suðurnesin öll - er gott og öruggt og hraðvirkt og ódýrt netsamband við útlönd og auðveldar samgöngur milli Íslands og umheimsins. 

Það er algjörlega út í hött að hafa innanlandsflugvöll annars staðar en á stað þar sem samgöngumannvirki geta verið samnýtt með millilandaflugvelli.  Það mun kosta svo mikið að leggja samgönguæðar frá flugvelli ef það verður svona metrókerfi.  

Er verið að pæla í svona hlutum í Reykjavík í dag? Eru kjörnir leiðtogar fólksins að vinna baki brotnu til að sjá framtíðarsýn fyrir Reykjavík og átta sig á stóru málunum? 

 

Nei aldeilis ekki. Hérna eru ráðamenn í Reykjavík núna stökk í  Nítjándu aldar götumynd götumynd sem aldrei var til og er ekkert einkenni á reykvískri byggingarlist.  Ef eitthvað einkennir reykvíska byggingarlist þá er það einmitt óreiðan og hvernig það úir og grúir af alls konar stílum við eina götu og hvert húsið er öðru skrautlegra í litavali og allt öðru vísi en hin. Reykvísku byggingarlistin er eins og steinbæirnir, steinhús byggð eins og torfkofar í tjasl og spottastíl. Bara bæta við einu bíslagi eða hækka risið  ef með þar.  Menn þurfa að læra að meta þessa sundurgerð og átta sig á því að hún er einkenni Reykjavíkur og hún er líka merki um líf, það er svona umhverfi sem listin blómstrar í og þar sem breytingar geta orðið. Nýja hugmyndin um listaháskólann er alveg fínt dæmi um það. Annars er ég líka orðin svona meðvituð um þennan sundurgerðarfjársjóð Reykjavíkur að mér finnst Morgunblaðshúsið gamla mjög glæsilegt. Er ég ein um þá skoðun að ég held. 

Borgarstjórinn sem Sjálfstæðismenn púkkuðu upp á í þessa stöðu hefur engin sjáanleg baráttumál önnur en að varðveita gömul hús og hindra alla blómgun í miðbænum auk heldur að vilja hafa flugvöll á stað sem er alveg arfavitlaust að hafa flugvöll á. Svo virðist hann hvorki geta haldið frið við samherja né neina aðra og jafnvel núna í mestu gúrkunni þá sé ég á blöðum sem komu út meðan við vorum öll í sumarfríum að hann hefur klúðrað mörgu í viðbót, rekið sinn nánasta samstarfsmann hana Ólöfu og rifist við fjölmiðlafólk. Er þetta lítt til að auka vinsældir hans sem mældust þó aðeins 1% fyrir síðustu klúður.

 Það er svona sem stjórnsýslan er í Reykjavík í dag, mér virðist hún algjörlega lömuð og það er allt of miklu púðri varið í fáránleg valdaplott og  hallarbyltingar og fjölmiðlasjóv sem reyndar hefur snúist upp í að verða fjölmiðlaskrípaleikur.  Jafnvel Sjálfstæðismenn eru búnir að fá sig fullsadda og vilja ekki grafa dýpri holu

Það hlýtur að vera eðlileg krafa okkar borgaranna í Reykjavík að hér sé fólk sem hugsar af framsýni um hag Reykjavíkur og hvernig hér eigi að tryggja blómlega byggð og menningu en eyði ekki allri orku sinni í alls konar plott og vitleysisgang. Það er líka mikilvægt að koma í veg fyrir að Reykjavíkurborg sé rúin eignum sínum þ.e. orkuveitunni og það er mikilvægt að þeir sem koma að stjórnmálum í Reykjavík átti sig á því að það er Reykjavík sem er vettvangur sviðsins. Það er alls ekki rétt að fara í einhverja fyrirtækjaútrás í önnur lönd sb Rei málið nema einhverjir augljósir hagsmunir Reykvíkinga séu þar hafðir að leiðarljósi. 

Ruglið í honum Ólafi

Mikið er nú gott að Hanna Birna sé tekin við stjórnartaumum í Reykjavík og Ólafur farinn frá. Hans embættisrekstur var vægast sagt undarlegur og spurning hvort Sjálfstæðismenn geti einhvern tíma fengið borgarbúa til að gleyma því að það voru Sjáfstæðismenn sem  studdu Ólaf til að verða borgarstjóri þó öllum væri ljóst að styrkleiki hans liggur nú ekki á því sviði.

 En vonandi verða borgarbúar ekki eins gleymnir eins og Ólafur er orðinn núna. Hann hefur umhverfst og hefur nú gleymt öllum sínum borgarstjóragloríum. Var það kannski ekki Ólafur sjálfur sem  réði Jakob Frímann bara fyrir nokkrum mánuðum  á ofurlaun, Jakob mun hafa átt að fá 861.700 á mánuði sem framkvæmdastjórni miðborgarmála á skrifstofu borgarstjóra og fyrir að sitja í nokkrum nefndum.

Sjá þessa grein frá 7. maí í ár:

Eyjan » Jakob Frímann fær um 861.700 króna laun frá borginni

Það er nú líka afar furðulegt að fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur heimti einhverjar opinberar nafnabirtingar starfsfólks borgarinnar eftir tekjum. Eeinhverjir  eru ábyrgir fyrir hvernig launakjör borgarstarfsmanna eru, sá sem ber þar mesta ábyrgð er einmitt borgarstjórinn. En borgarstjórn ber líka að vernda starfsfólk borgarinnar þannig að það fái vinnufrið. Það er allt í fína að birta opinberlega hve há laun eru fyrir eitthvað ákveðið embætti eða nefndarsetu en það er alveg á móti öllum manneskjulegum sjónarmiðum að birta lista yfir fólk. Það sennilega varðar við persónuverndarlög að vinnuveitandi birti opinberlega einhverja háðungar- og aftökulista um starfsmenn sína. En það er sjálfsögð skylda borgarstjóra að gæta þess að launakjör þeirra hæstsettu séu ekki út úr öllu korti. Það virðist nú Ólafur ekkert hafa gert á sinni embættistíð.

 

 

Er Jakob þriggja manna maki? Þrjár svipmyndir af Reykjavík

Reykjavíkurborg er ævintýra illa stjórnað þessa daganna. Fyrst eru keyptir húskofar á milljarð og var það gjaldið sem Sjálfstæðismenn í borginni borguðu af fé borgarbúa til að véla Ólaf Magnússon til fylgilags við sig. Svo er Jakob Frímann Magnússon ráðinn til að peppa upp slömmlordaparadísina Reykjavík og fyrir það þá fær hann þreföld venjuleg laun.

Jakob Frímann er hugmyndaríkur maður og er ágætur í svona starf. En það er illa staðið að ráðningu hans og ófagmannlega. Á það hafa margir bent, sjá t.d. hérna:

Jakob Frímann fær um 861.700 króna laun frá borginni 

Borgarstjóri í febrúar: Mikilvægt að sýna ráðdeild í fjármálum borgar

Það er reyndar illa staðið að flestum málum í Reykjavík í dag. Hér eru þrjár svipmyndir af Reykjavík, borginni þar sem engin veður eru lengur og þar sem ekkert  vor kemur lengur. Eina sem merkir veðrið er þegar plastpokarnir fjúka á milli runnanna og trjánna og eina sem merkir vorið er þegar plastpokarnir byrja að blómstra á trjánum.  

Myndirnar eru af plastpokatrjánum í Reykjavík og af slömmlordahúsunum í miðbæ Reykjavíkur og af nýju flísalögðu glæsibyggingunum við Skúlagötu þar sem flísar nýlímdu detta af húsunum og þau fara að líkjast slömmi áður en fólkið flytur í þau. Svona er Reykjavík í dag.

Brunahani í Skipholti

028

Slömmhús á Baldursgötu

IMG_3977

Flísar sem falla
Nýtt glæsihýsi við Skúlagötu

IMG_4008

Þannig er uppbyggingin í Reykjavík í dag.

 

 

 9.3.2008 | 10:17

Dónalegur borgarstjóri

Óskar Bergsson borgarfulltrúi okkar Framsóknarmanna hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á  vinnubrögð núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sérstaklega hvernig óheyrilega var bruðlað með almannafé við uppkaup á húsum og kastað fyrir róða öllum vinnubrögðum góðrar stjórnsýslu þegar Sjálfstæðismenn notuðu fé borgarbúa eins og spilapeninga þegar Ólafur Magnússon var ginntur til liðs við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna. 

Ólafur borgarstjóri tekur hins vegar málefnalegri gagnrýni og spurningum Óskars  ekki vel. Hann sýndi Óskari dónaskap og yfirgang í orðum en hefur nú sem betur fer séð að sér og dregið til baka ummæli sín. Ólafur Magnússon er góður maður og enginn efast um hugsjónir hans að vernda minjar um sögu Reykjavíkur.  Það er vissulega mikilvægt fyrir okkur öll að farið sé að gát við  umhverfismál og að ekki sé brotið allt og bramlað sem minnir á forna tíð. En Reykjavík er ekki eingöngu minjasafn um forna tíð heldur athafnasetur og höfuðborg ríkis sem á mikið undir samskiptum sínum við aðrar þjóðir og að infrastrúktúr hérna sé svo góður að fólk vilji búa hérna og starfa. Ólafur Magnússon er ekki góður borgarstjóri þegar litið er til stóru málanna  sem munu skipta máli um hvort Reykjavík verður kraftmikið athafnasvæði og þekkingarsetur.

Það er bara sorglegt að í forsvari í Reykjavíkurborg sé maður sem hefur svona þrönga sýn og einstrengingslega sýn á hlutverk borgar eins og Ólafur og sem getur ekki  tekið þátt í fundum án þess að sýna þeim sem tala af einhverri skynsemi dónaskap. 

Sjá hérna: 

 Ólafur neitar að svara

Vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef

 frá hrifla.is:

18. mars 2008 Borgarstjórnarflokkur framsóknarmanna

Borgarstjóri dregur til baka ummæli sín um borgarfulltrúa Framsóknarflokksins

Í upphafi borgarstjórnarfundar í dag kvað Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, sér hljóðs og dró til baka fyrri ummæli sín um Óskar Bergsson borgarfulltrúa Framsóknarflokksins frá síðasta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ummæli þessi féllu eftir að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins beindi fyrirspurnum til borgarstjóra varðandi aðkomu aðstoðarmanns hans að deiliskipulagsvinnu við Laugaveg, og voru ummælin á þann veg að borgarstjórn setti niður með nærveru Óskars.
 
Í ræðu borgarstjóra í dag segir að fyrirspurnin hafi komið honum á óvart, orðaskiptin í kjölfarið hafi verið nokkuð hvöss og þar hafi fallið orð sem hefðu betur verið látin ósögð. Einnig að í þeim hafi falist yfirlýsingar sem borgarstjóri hefði ekki viljað láta falla um persónu annars borgarfulltrúa.

 

 

Birkiland og ég

Ég sendi náttúrulega út mína eigin sjónvarpsrás með fjölmiðlasirkus dagsins. Ég reyni að tjá pólitískan veruleika dagsins í Reykjavíkurlögum  Megasar á Loftmynd við undirleik Vilhjálms fyrrverandi og framtíðarborgarstjóra. Svo nota ég ljóð og lagið Birkiland og ég til að fjalla um REI málið.  Jóhannes Birkiland sem varð Megasi að yrkisefni var ekki sérlega lítillátur né raunsær maður. Hann sagði um örlög sín og hvers vegna líf sitt væri harmsaga:

„Á síðustu árum hafa ýmsir menn látið í ljós við mig furðu sína varðandi þá staðreynd að ég hefi orðið draumórum og auðnuleysi að bráð. Því verður leitast við að svara í þessu riti.
En mér hefur nú loksins tekist að brjótast út úr öllum mínum ævilöngum draumórum og kaldur veruleikinn blasir við mér eins og hann er. Í því sambandi ætla ég að fullyrða af fullkominni sjálfs-gagnrýni, að ef einhver sem les þessar línur, hefði boðið mér að veita stóru verzlunar- eða iðnfyrirtæki, forstöðu, myndi það hafa valdið straumhvörfum í lífi mínu. Ég hefi að mínum dómi ástæðu til að ætla að ég hafi haft hæfni til slíks. En vantraust Íslendinga á hæfileikum mínum varð þessa valdandi að mín dýrlega þrá að verða forstjóri gat ekki rætzt. Það var ógurleg yfirsjón af Íslendingum að gefa mér ekki kost á því að veita stóru verzlunar- eða iðnfyrirtæki forstöðu. Íslendingar hafa misst af því tækifæri að vita með hvílíkum ágætum ég hefði getað framkvæmt ábyrgðarmikil störf. Í stað forstjóra er ég mesta olnbogabarn hinnar íslenzku þjóðar."

En hér er semsagt þessi tilraun mín á sviði vefútsendingar. Þetta er 20 mínútur. Ég vil taka fram að það má ekki taka hugverk annarra listamanna eða aðrar upptökur sem eru höfundarréttarvarin og birta. Ég tek hins vegar brot úr lögum Megasar hérna í því augnamiði að kynna hann sem tónlistarmann. Það háir mér hins vegar verulega sem remix listamanni þetta hrikalega umhverfi höfundarréttar sem við lifum við. Ég bendi á að fá má þennan frábæra geisladisk Loftmynd t.d. hjá tónlist.is

 

Þetta er 20 mínútur og er dáldið viðvaningslegt enda mín fyrsta tilraun með svona tónlistarþátt.

 

 

Höndin á Ástu

Þessi farsi sem nú er í borgarstjórnarmálum í Reykjavík  hefur líka skoplegar hliðar.  Það eð fyndið að halda allri íslenskru pressunni í spennitreyju í margar klukkustundir og halda blaðamannafund um akkúrat ekki neinar fréttir. Móðga meira segja í leiðinni helling af fjölmiðlafólki vegna þess að það fékk ekki að vera nógu nærri miðju ekki-fréttanna í Valhöll. Svo finnst mér alltaf jafnfyndið að heyra Svandísi nota orðalagið "ekki stjórntækur" á Sjálfstæðisflokkinn, þetta var nefnilega einmitt það sem allir notuðu um Vinstrigræna fyrir kosningar. Svona geta orð verið eins og ástralskur búmerang og flott að varpa þeim til baka, til föðurhúsanna. Hver er stjórntækur og hver ekki? 
 
Alla vega hefur stjórnviska Sjálfstæðismanna síðustu misserin ekki heillað mig svo mikið að ég klappi neitt fyrir þeim eða hylli þá eitthvað með handauppréttingum. Það gera víst fáir.  
 
Þeim eru æði mislagðar hendur í borgarstjórninni þessa daganna. Skemmtilegasta frétt dagsins var í Fréttablaðinu í dag og fjallar um hve höndin á Ástu Þorleifsdóttur hreyfðist löturhægt þegar hún var kúskuð undir spýtukallahandauppréttingarkerfi Sjálfstæðismanna: 
 
Meirihlutinn féll á fyrstu kosningunni
Óvænt tillaga um varaformann umhverfis- og samgönguráðs var ekki samþykkt í fyrstu í gær. Ásta Þorleifsdóttir féllst svo á að greiða atkvæði með meirihluta. Sjálfstæðismenn töldu ekki með sinn eigin fulltrúa. "Krúttað," segir Ásta.
Reykjavík Segja má að nýr meirihluti sjálfstæðismanna og F-lista í umhverfis- og samgönguráði hafi fallið á sinni fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi ráðsins í gær.

Reykjavík Segja má að nýr meirihluti sjálfstæðismanna og F-lista í umhverfis- og samgönguráði hafi fallið á sinni fyrstu atkvæðagreiðslu á fundi ráðsins í gær.

Þegar Gísli Marteinn Baldursson, formaður ráðsins, bar upp þá tillögu að Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir yrði varaformaður, stakk Þorleifur Gunnlaugsson úr VG upp á Ástu Þorleifsdóttur af F-lista á móti, enda kom tillaga Gísla minnihlutanum á óvart; gert hafði verið ráð fyrir Ástu í varaformennskuna.

Því þurfti að ganga til kosninga um varaformanninn og kom í ljós að Ásta sjálf hafði einnig reiknað með embættinu. Studdi hún því ekki Þorbjörgu, heldur sat hjá.

Féllu atkvæðin jafnt. Þrjú gegn þremur, en sjö eru í ráðinu. Tillaga formanns var því ekki samþykkt.

Þá munu Gísli og Ásta hafa rætt málin sín á milli og var kosið í annað sinn. Þá lyftist höndin á Ástu afar hægt og alls ekki hátt, að sögn eins fundargests.

"Já, þetta var nú bara krúttað!" segir Ásta. "Í upphafi höfðum við gert samkomulag um að ef F-listi hefði tvo menn í ráði, þá fengi D-listi varaformanninn.

Þau í Sjálfstæðisflokknum höfðu talið hana Helgu Jóhannesdóttur til F-listans af því að eiginmaður hennar, Ómar, er formaður Íslandshreyfingarinnar! En Helga hefur alltaf verið í Sjálfstæðisflokknum. Þannig að þetta var krúttlegur misskilningur og verður leiðréttur á næsta fundi. En það var ljúft að finna að maður hefur svona mikinn stuðning meðal minnihlutans," segir Ásta og skellir upp úr.

Ekki náðist í Gísla Martein Baldursson borgarfulltrúa vegna málsins.

klemens

@frettabladid.is

Svona eiga stjórnmál að vera. Svona krúttaraleg og sýna okkur í hvernig stjórnmálamennirnir vinna - alveg eins og spýtukallar þar sem einhver togar í spottana og allir sem eru samtengdir rétta upp hendi alveg eftir pöntun. 

 

 

Umburðarlyndi og Íslam með afslætti

Skopmynd af Ólafi og Vilhjálmi (skopmyndin hafði birst í Mogganum, þetta blogg fjallaði um Þórarinn skopteiknara og meinta fordóma hans)

Til í allt með Villa

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sendu skýr skilaboð út í samfélagið þegar þau leyfðu tveimur mönnum þ.e.  Vilhjálmi fyrrum borgarstjóra og Kjartani Magnússyni 4 manni á lista Sjálfstæðismanna að  ginna Ólaf F. Magnússon til samstarfs  og bjóða honum borgarstjórastól í Reykjavík og bjóða kúvendingar Sjálfstæðismanna í ýmsum málum og  veita af rausn nokkur hundruð milljónum af fé borgarbúa í uppkaup á gömlum húsum til að liðka til fyrir plottinu. Þau opinberuðu fyrir okkur borgarbúum ábyrgðarleysi sitt  í fjármálum borgarinnar og þau sýndu líka ábyrgðarleysi sitt og dómgreindarleysi  í stjórnsýslu borgarinnar með því að leggja blessun sína yfir að Ólafur F. Magnússon yrði borgarstjóri. Þau sýndu líka siðleysi með því að notfæra sér aðstæður Ólafs og samþykkja hann sem borgarstjóra í Reykjavík þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að hann sé hæfur og góður kanditat í það  embætti.

Það er ekki það að Ólafur F. Magnússon sé fulltrúi lítils hluta kjósenda sem skiptir máli, svona samstarf hefur oft lukkast vel þó að fulltrúi lítils stjórnmálaafls sé í leiðtogasæti, það má minna á aðstæður í Kópavogi, þar var Sigurður Geirdal  í mörg kjörtímabil bæjarstjóri í farsælu samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, hann var fyrsta kjörtímabilið eini Framsóknarfulltrúinn.  Það þarf hins vegar ekki annað en skoða framgöngu Ólafs F. í stjórnmálum undanfarin ár og skoða hve bakland hans meðal eigin fylgismanna og nánustu samherja er veikt til að sannfærast um að hann hefur ekki til að bera þá  stjórnvisku, elju, dómgreind, samvinnulipurð og  hæfileika til að sjá aðalatriði í málum sem borgarstjóri þarf. Ólafur F. er viðkvæmur hugsjónamaður og hugmyndir hans eru sumar góðar og framsýnar en hann hefur með verkjum sínum undanfarin ár sýnt að hann rekst ekki vel í stjórnmálasamvinnu og hann er ekki maður málamiðlana.

Hvernig getum við borgarbúar treyst því að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins  taki málefnalega afstöðu og gæti hagsmuna borgarbúa þegar þau eru tilbúin til að nota borgarstjórastólinn sem skiptimynt í hrossakaupum og hvernig getum við treyst því að þau taki málefnalega afstöðu þegar þau eru tilbúin að skipta um skoðanir eins og vindhanar sem snúast í roki. Varðandi húsin sem þau samþykktu núna í vikunni að borga um 550 milljónir fyrir þá má rifja upp að 4. september síðastliðinn lögðu borgarfulltrúar F-lista og VG lögðu fram svohljóðandi tillögu:

"Borgarstjórn samþykkir að fela borgarstjóra að leita leiða til þess að borgin festi kaup á húsunum við Laugaveg 4-6 í því skyni að varðveita þau í því sem næst upprunalegri mynd."

Hvernig fór atkvæðagreiðslan?
Hún fór svona:

Já sögðu: Árni Þór Sigurðsson, Margrét K. Sverrisdóttir, Oddný Sturludóttir og Svandís Svavarsdóttir.

Nei sögðu: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Björn Ingi Hrafnsson, Gísli Marteinn Baldursson, Jórunn Frímannsdóttir, Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon og Hanna Birna Kristjánsdóttir.

Sátu hjá: Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson og Sigrún Elsa Smáradóttir.

Tillagan var því felld með 8 atkvæðum gegn 4.

Núna er tími jakkafata og hnífasetta í íslenskum borgarmálum. Það væri gaman að reikna út hve mörg jakkaföt er hægt að kaupa fyrir þær nokkur hundruð milljónir sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja núna spreða í hús sem þau voru alfarið á móti að kaupa fyrir fjórum mánuðum. 

Það er líka ansi skrýtið hve ósýnileg Hanna Birna og Gísli Marteinn eru í þessu nýja borgarstjórnarplotti. Getur verið að þau hafi ekki verið höfð með í ráðum? Getur verið að þetta sé eitthvað einkaplott Vilhjálms og Kjartans sem er 4. maður á lista Sjálfstæðismanna? Það verður að segjast eins og er, við borgarbúar erum að upplifa þau sem þó ættu að vera í oddvitahlutverki sem undarlega valdalaus í eigin flokki. Það skilur ekki nokkur maður hvernig í ósköpunum hægt er að semja upp á þá kosti að Vilhjálmur verði aftur borgarstjóri. Er Hanna Birna virkilega sátt við það? Eða er verið að blekka borgarana og búið að semja um eitthvað annað undir borðið?

Það er gott að hafa til hliðsjónar hver þau eru borgarfulltrúar Sjálfstæðismanna og í hvaða röð. Þau sem núna virðast vera til í allt með Villa og án þess að hafa neinn sjálfstæðan vilja: 

  1. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 
  2. Hanna Birna Kristjánsdóttir 
  3. Gísli Marteinn Baldursson 
  4. Kjartan Magnússon 
  5. Júlíus Vífill Ingvarsson 
  6. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir 
  7. Jórunn Ósk Frímannsdóttir

Tenglar í önnur Til í allt með Villa blogg

Orðið á götunni: Til í allt með Villa 

 

25.1.2008 

Að brjóta niður fólk

að er stundum  örmjó markalína milli þess að  vera friðsamleg mótmæli og þess að vera skrílslæti. Það sem ég sá í fréttum frá mótmælum á áhorfendapöllum Ráðhússins og heyrði í beinni útvarpsútsendingu þaðan var hins vegar bara eitt, þetta var langt frá markalínunni - þetta voru skrílslæti. Þetta voru ekki friðsamleg mótmæli. Þetta segi ég þó ég sé svarinn andstæðingur þeirrar stjórnar sem tók við í dag, stjórnar undir forustu manna sem hafa ekkert traust, stjórnar sem er svo veik að borgarstjórinn nýtur ekki einu sinni trausts sinna næstu manna á lista og á í erfiðleikum með að úthluta þeim nefndarsætum sem í hluta hans stjórnmálaafls koma vegna þess að hans nánustu samherjar og næstu menn á listum vilja ekki taka þátt í þessari stjórn. En mér vitanlega höfðu þeir menn sem nú mynduðu stjórn fulla heimild til þess og við verðum að virða leikreglur lýðræðisins jafnvel þó við höfum ímugust á þeim sem veljast í stjórn.

En það var annað sem mér fannst sárt að horfa á í dag. Það var að horfa á kát og glöð ungmennin sem hrópuðu ókvæðisorð á pöllum Ráðhússins án þess að átta sig á því að verknaður þeirra var ennþá einn liður í að grafa undan lýðræði í þessu landi og liður í að  búa til meiri skrípaleik úr þessu máli. Sá grunur læddist einnig að mér að ef til vill væri þessi mótmæli skipulögð  og samstillt af eldri og reyndari fólki með aðallega einn tilgang í huga. Þann tilgang að koma Ólafi F Magnússyni aftur í veikindafrí. 

 

Jarðarfararsvipur 2

Ég er ekki að skynja neina gleði  úr svipnum á borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins yfir hinum nýja borgarstjórnarmeirihluta. Nema auðvitað hjá Vilhjálmi, hann hefur allt að vinna en engu að tapa því að hann er rúinn æru og trausti og ekki er líklegt að framtíð hans verði löng í stjórnmálum úr þessu. Það var mikilvægt fyrir hann að ná fram einhverri betri stöðu en hann er í núna og þetta var leið til þess. Mér finnst vera svipaður jarðarfararsvipur og var fyrir rúmum hundrað dögum en þá skrifaði ég bloggið Jarðarfararsvipur

villan3 Ég held að hinir borgarfulltrúarnir átti sig á hve hálum ís þeir eru á og hvað þetta nýja kúpp getur komið í bakið á þeim. Þeim mun verða kennt um það að eilífu ef Ólafi farnast illa af því að vera leiksoppur í höndum þeirra. Það trúir því reyndar ekki nokkur maður að Vilhjálmur verði borgarstjóri aftur, það hefði Hanna Birna og hinni borgarfulltrúarnir tæplega sætt sig við. Það er hins vegar allt í lagi að halda því á lofti núna svo Vilhjálmur haldi andlitinu. Ég hugsa að það hafi verið samið um að hún taki við eftir Ólafsdaganna, það hefur alltaf verið gott púst inn í kosningabaráttu í Reykjavík að hafa verið borgarstjóri.

Sú var tíðin að Sjálfstæðismenn hlógu að Ólafi og tillögum hans. Sú var líka tíðin að þeir hikuðu ekki við að svíkja hann. Nú þurfa þeir á honum að halda.

Ólafur var í Sjálfstæðisflokknum en sagði sig úr honum í desember 2001.

Ólafur sagðist þá knúinn til þess að hætta í flokknum og sagði hann í viðtali við Morgunblaðið að teningunum hafi verið kastað á landsfundi Sjálfstæðisflokksins það ár en þá bar hann upp sáttatillögu í virkjanamálum sem var tekið fálega og raunar var beinlínis hlegið að tillögum hans.............................

Í síðustu kosningum fékk flokkur Ólafs um tíu prósent atkvæða og rekja margir þá góðu útkomu til eindregnar afstöðu Ólafs í flugvallarmálinu en hann var eini stjórnmálamaðurinn sem lýsti því yfir að flugvöllur ætti að vera í Vatnsmýri um aldur og eilífð.Eftir þá góðu útkomu héldu sumir, þar á meðal Ólafur sjálfur, að meirihluti yrði myndaður með þáttöku sjálfstæðismanna og Ólafs. Annað kom á daginn og sjálfstæðismenn náðu samkomulagi við Björn Inga Hrafnsson, framsóknarflokki.

Á þeim tíma var Ólafur afar ósáttur við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og taldi hann hafa svikið sig þegar hann náði samkomulagi við Björn Inga á sama tíma og hann hélt Ólafi heitum.

Haustið 2006 tók Ólafur sér frí frá borgarmálunum vegna veikinda sem hann hefur aldrei tjáð sig um á opinberum vettvangi. (sjá Hver er þessi Ólafur F. Magnússon?

Þetta er ekki gæfuleg stjórn í Reykjavík. Fram hefur komið að Ólafur sem þó er eini fulltrúi sinnar stjórnmálahreyfingar nýtur ekki einu sinni stuðnings síns varafulltrúar. Fram hefur líka komið að innan raða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er gífurleg óánægja með stjórnarhætti Vilhjálms. Það er alveg óhætt að fullyrða að Vilhjálmur nýtir ekki stuðnings Reykvíkinga. Dagur Eggertsson gerði það hins vegar og allt benti til þess að stjórnin sem núna fer frá hafi verið að vinna í sátt að uppbyggingarstarfi í Reykjavík og stefnumótun í orkumálum.

 

Ég sendi út beint frá Villa vitleysunni

Ég sendi út beint frá skrifstofu minni

 
*** Útsendingunni er lokið ***

þetta er reyndar ekki  neitt sérlega myndrænt, bara ég alltaf í mynd en ég var að æfa mig að svissa á milli hljóðupptöku, stundum er ég að tala og lýsa því sem ég heyri í útvarpinu og stundum tengi ég beint yfir á útsendinguna  á Rás 2.

*** tók þetta út því þetta byrjaði að spila um leið ég fór á bloggið, það var allt of mikið. **

ég notaði kerfið ustream.tv en hver sem er getur búið sér til rás í því kerfi og sent út á netið (streymimiðlun).

 

Svartur mánudagur

 Vísir  heldur að Ólafur sprengi til að komast í kompaní með Vilhjálmi. Ég vona að ekkert sé satt í þessu, þetta er vísir á óstjórn í Reykjavík. Það er margt ágætis fólk í borgarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn en Vilhjálmur nýtur ekki trausts lengur og vandséð að það komi nokkurn tíma aftur.  Það er hroðalegt að hafa stjórn í Reykjavík sem bara lafir og sem nýtur ekki trausts. Ólafur er ágætur en það er ekki gott að hafa borgarstjóra sem er fulltrúi svona fárra Reykvíkinga. Ólafur er  margra hluta vegna ekki heppilegt borgarstjóraefni.

Það er ferlegt að hafa bara eins manns meirihluta. Ég held að svona sviptingar geri ekki annað en veikja stjórn borgarinnar. Ég er ágætlega sátt við það stjórnarmynstur sem núna er í ríkisstjórn þó ég styðji hvorugar flokkinn. Úrslit kosninganna voru hins vegar þannig að þetta eru stærstu flokkarnir, þeir hafa góðan meirihluta og liðstyrkur þeirra og áhrif þeirra í stjórnsýslunni endurspegla vilja landsmanna. Það er lýðræðislegt.

En það var nú reyndar ljóst að Sjálfstæðismenn myndu róa að því öllum árum að komast aftur til valda. Mér hefði fundist samt fundist skynsamlegra hjá þeim að skipta út oddvita sínum fyrst.

Nýr meirihluti boðar blaðamannafund klukkan 19:00

Fundað stíft um nýjan borgarstjórnarmeirihluta

En ég hef meiri áhyggjur af öðru... Allt er á fallanda fæti í peningaheiminum 

Eignamenn sem og launþegar sem fá borgað í íslenskum krónum eru að tapa stórt þessa daganna. Við munum öll finna fyrir því.  Kaupið okkar dugar skemur þegar gengið hefur á smátíma fallið um meira en 10% og núna er biksvart á hlutabréfamarkaðnum hérlendis sem og erlendis. Þetta er versti dagurinn  frá 11. september 2001 fyrir FTSE100 vísitöluna. 

Hér er yfirlit yfir stærstu dýfur þeirrar vísitölu

20/10/87 down 12.2%
19/10/87 down 10.8%
26/10/87 down 6.2%
11/09/01 down 5.7%
22/10/87 down 5.7%
 
Alls staðar í heiminum fellur gengi hlutabréfa. Hlutabréf endurspegla væntingar og trú á framtíðina. Hlutabréfamarkaðir eru lokaðir í Bandaríkjunum í dag vegna fría og það verður spennandi að sjá hvað gerist þegar þeir opna á morgun. Það er bölsýni í lofti og fjárfestar hafa ekki trú á að áætlanir Bandarískra stjórnvalda bæti ástandið.
 
Sennilega er góðærið liðið hérna á Íslandi. Kannski stoppar allt í byggingu, svipað og gerðist með Rimahverfið á sínum tíma. Það var skrýtið að sjá þar heilu blokkirnar sem voru í byggingu og enginn vann lengur í því að engir keyptu. Smán saman fóru nýbyggingarnar sem aldrei neinn hafði flutt inn í að líkjast rústum. 
 
 

BBC - Global shares tumble on US fears

CNNMoney: Stocks fall sharply worldwide

 

 


mbl.is „Þau sögðu mig búna að vera og eiga enga von“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband