Kostun kostar

Ég er að lesa ritsmíð Jóns Daníelssonar og Gylfa Zoega "Hagkerfi bíður skipsbrot". Mér finnst  verulega mikið vanta í  greiningu þeirra á því sem gerðist á Íslandi og þeir að sumu leyti blindaðir af pólitískri sýn þeirra sem skima eftir sökudólg og líta yfir sviðið frá sjónarhóli vestrænna markaðshagkerfa og loka augunum fyrir því að þessi hagkerfi sem virkuðu vel á einum tíma eru að molna niður og sú molnun verður ekki skýrð með hliðsjón af vestrænni markaðshagfræði eingöngu. 

Það verður fróðlegt að sjá hvernig hagfræðingar heimsins meta hvað gerðist á Íslandi þegar lengra er liðið frá hruninu hérna og þegar ljóst verður hvernig þjóðir heimsins koma undan þeim kreppuvetri sem núna gefur engum grið. Ef til vill munu stærri hagkerfi en hið íslenska  liðast í sundur og ef til vill munu ríki og ríkjasambönd sem núna eru öflug brotna niður.

Í ritsmíð Jóns og Gylfa er horft á Ísland með bresku auga og dregin upp mynd af því sem gerðist. Sýn þeirra fylgir  tískustraumum dagsins í dag. Þannig er Ísland og íslenskar aðstæður núna teiknaðar upp í heimspressunni, þannig vill umheimurinn sjá Ísland núna, þannig sögu vill hann heyra, svona Einu sinni var... ævintýri um  uppgang og hnignun konungsríkis hins fávísa Bubba kóngs. Svona sögur eru öðrum þræði  huggunarsögur fyrir hræddan umheiminn því í þeim felst sú vissa - já og hugsanlega sú blekking - að það sé ekkert bogið við það lottóhagkerfi sem við búum við, það sé bara eitthvað að litlum og fávísum spilurum sem ekki hafi lært leikreglurnar nógu vel.

Þó ég sé með þessu að benda á að þessi ritsmíð er skrifuð fyrir enskan markað og fyrir auga umheimsins þá eru margt athyglisvert og gott í henni. Það er enginn vafi á því að við höfum verið blekkt og sá blekkingarvefur sem var búinn til á Íslandi var víðfeðmur og í honum festust flestir þeir sem hefðu átt að vara okkur við.  Það er sorglegra en tárum taki að skoða hvernig eignatengsl  flestallra fjölmiðla voru á Íslandi. Margir skeleggustu fjölmiðlamenn þjóðarinnar voru á mála hjá útrásarvíkingum, ef ekki beint þá óbeint á þann hátt að þeir unnu hjá fjölmiðlum í þeirra eigu og fengu að vera krítískir á allt annað en þá sem borguðu launin þeirra.

Það var ekki bara pressan sem var á mála hjá útrásarliðinu, það voru þónokkrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar með einum eða öðrum hætti tengdir  þeim og áttu eitthvað undir þeim bæði með beinum framlögum í kosningabaráttu og með því að hampa ákveðnum aðilum í fjölmiðlum í eigu útrásarmanna og svo hefur verið bent á mjög skrýtin tengsl milli banka og stjórnvalda og hvernig t.d. margir sjálfstæðismenn fengu vinnu og stjórnunarstöður í einkavæddu bönkunum  - að því er virðist gegnum pólitísk tengsl.

bubbi-glitnir.jpgÁ gróðæristímanum þá var mikið um það sem kallast kostun. Flestir menningarviðburðir voru að einhverju leyti í boði bankanna eða útrásarfyrirtækja. Þannig mætti Bubbi Mortens sem nú kyrjar mótmælasöngva dekoreraður í bak og fyrir glitrandi af Glitnis lógóum. Það efast enginn um að Bubbi er einlægur, hann er í peningakröggum núna eins og flestir Íslendingar en hann sem einu sinni söng um hlutskipti farandverkamanna spilaði á einum tíma með í því lottósamfélagi sem glitraði fyrir framan okkur en við vitum núna að það var glópagull.

Fjölmiðlarnir, stjórnmálamennirnir og listamennirnir sungu með útrásarvíkingunum.

Við lifum í þekkingarsamfélagi og lykilstofnanir í þannig samfélagi eru háskólarnir. Þar verður ný þekking til og þaðan er henni miðlað til samfélagsins. Háskólasamfélagið var á gróðæristímanum líka í klóm útrásarvíkinga og auðjöfra, það sveif sá andi yfir vötnum að vísindi ættu að vera kostuð og háskólamenn voru og eru hvattir til að leita að kostunaraðilum. 

En það eru augljós varnaðarmerki um þetta samspil vísinda og kostunar einkaaðila. Þannig má benda á erlend dæmi sem tengjast lyfjaiðnaði og tóbaksframleiðendum. Það eru augljós hagsmunatengsl ef fyrirtæki kostar rannsóknir á gæði þeirrar framleiðsluvöru sem það framleiðir t.d. ef rannsókn um heilsufar Íslendinga er kostuð af lýsisframleiðendum og mjólkurframleiðendum.

Það var að sjálfsögðu mikilvægt fyrir banka í útrás að hafa öfluga talsmenn innan fræðasamfélags háskóla, fræðimenn sem skrifuðu jákvæðar greinar um íslenska bankaundrið.

Í ritsmíð Jóns og Gylfa er getið um tvo sem skrifuðu jákvætt um bankaundrið. Þar stendur:

En ekki voru allir neikvæðir. Aðrir hagfræðingar urðu til þess að benda á styrk íslenska bankakerfisins og fjármálakerfisins. Tvær skýrslur voru skrifaðar af þeim Tryggva Þór Herbertssyni og Frederic Mishkin (2006) og Friðrik Má Baldurssyni og Richard Portes (2007). Í báðum tilfellum er dregin upp fögur mynd af íslenska bankakerfinu og íslenska hagkerfinu.

Þess má geta að Friðrik Már var í prófessorsstöðu sem kostuð var af Kaupþingi og Tryggvi Þór sem var háskólakennari  áður  starfaði fyrir Geir Haarde og var hans aðalráðgjafi í efnahagsmálum en var áður forstjóri (bankastjóri) forstjóra Askar Capital sem var eitt af þessum trylltu fjármálafyrirtækjum sem átti m.a. lúxusíbúðir í Hong Cong.

Í stuttu máli þá var blekkingarvefurinn sem lagðist yfir Ísland spunninn af fjölmiðlum, stjórnmálamönnum, listamönnum og fræðimönnum ásamt auðvitað af sjáfum gerendunum, sjálfum áhættuspilurunum sem sukku í fen skuldsettra yfirtakna og peningafroðu.

Það er dýrt að missa sjónar á sannleikanum og það er sérstaklega dýrt ef þeir sem eiga að skapa þekkingu skapa fyrst og fremst blekkingu.

 

Viðbót:

Að gefnu tilefni vil ég koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum sem mér hafa borist:

Friðrik Már Baldursson var deildarforseti viðskipta og hagfræðideildar HÍ. Er hann tók við var deildin í 30 milljón króna halla og stefndi í 50 milljónir. Samningar við bankana sem höfðu verið við deildina um árabil voru að renna út. Friðrik hafði samband við þá til að athuga með mögulega endurnýjun. Hann bauð Kaupþingi að ein staða í deildinni yrði nefnd í Fulltingi Kaupþings og var það samþykkt á deildarfundum. Slíkt fyrirkomulag er alsiða við marga erlenda háskóla. Styrkurinn fékkst og Friðrik tók að sér að tengja nafn sitt við þetta starf. Hans launakjör breyttust ekki á neinn hátt og þetta fé eins og allt annað fé sem komið hefur til HÍ frá fyrirtækjum fór til skólans og í þessu tilviki til að styrkja stöðu deildarinnar.


mbl.is Veðjuðu á endurlífgun hagkerfisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ísland var og er einn allsherjar kraumandi "spaghettípottur" þar sem sauð upp úr og eftir stendur klesst og klístrað spaghettí samfélag rétt eins og aðeins sunnar í álfunni.

ag (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 12:50

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Þakka þér fyrir góðan pistil, Salvör. Það er afskaplega gott, eftir hraglandann og fúkyrðin sem birtast alltof víða á bloggsíðum, að koma inn á síðuna þína og renna hér í gegnum "sívilíseraða" umræðu. Ég geri mér enga rellu út af hugsanlegum eða meintum "preferönsum" þínum hvað flokka eða fylkingar varðar, skrifin þín eru ævinlega hófstillt og rökföst.

Flosi Kristjánsson, 11.2.2009 kl. 21:58

3 identicon

Góð grein.

Auðvitað er ekkert skrítið að fréttaumræðan hafi ekkert breyst, þegar ástandið á fjölmiðlunum hefur ekkert breyst. Það er eins og það megi ekki viðurkenna og tala um eignarhaldið vegna þess að það var jú Davíð sem setti sig á móti þessu á sínum tíma, og það bara má alls ekki vera sammála honum um eitt né neitt.... Fólk er bara ekki þroskaðara en svo.

Fjölmiðlar eru ekkert að fara birta greiningar á ástandinu þar sem horft er hlutlaust á málið, allar greiningar miða að því að beina athyglinni frá útrásarvíkingum og bankamönnum þeirra enda eru fjölmiðlarnir ennþá í eigu þeirra.

Þrátt fyrir að mótmælendur hafi fundið fyrir því greinilega hvernig fjölmiðlunum var beitt gegn þeim, t.d. með því að ljúga til um fjölda manna á mótmælum og svo ýkja og ljúga til um meint ofbeldi, þá er samt ekki ennþá talað um eignarhaldið á meðal "mótmælenda".....

Ég er farinn að halda að það sé of erfitt fyrir fólk sem barðist með Baugi á móti frumvarpinu um fjölmiðla að horfast í augu við það að það var platað og tekið í ra........... af Auðvaldinu. Fólk getur ekki horfst í augu við sannleikann, það er of erfitt að gera það, og svo er alltof gaman að Davíð sé Grýlan og ljóti karlinn í einum pakka.......

Held að í dag séu nú margir, kannski ekki flestir, farnir að sjá að það VERÐUR að tryggja frjálsa fjölmiðla ef hér á eitthvað að breytast, en samt er engin umræða um nýtt fjölmiðlafrumvarp.....

Skyldi það vera vegna þess að fjölmiðlarnir sjálfir (eigendurnir) vilja það ekki og þar með er engin umfjöllun á þann veg í fjölmiðlum...og fólk lætur sömu fjölmiðla ennþá stjórna sér?

Auðvitað heldur kjaftæðið áfram...

magus (IP-tala skráð) 11.2.2009 kl. 23:58

4 identicon

Beint í mark, rökréttur og vel skrifaður pistill.

EE (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband