Varaborgarfulltrúarnir Marsibil og Margrét

Það er einkennilegt að sama flækjan virðist hafa komið upp núna milli Óskars borgarfulltrúa og Marsibil varamanns hans og hjá Ólafi og Margréti Sverris við síðustu valdabyltingu í Ráðhúsinu. Marsibil tjáir sig um þetta í Fréttablaðinu í dag og sjá einnig á vísir.is:  Sama staða og hjá fráfarandi meirihluta

Það er auðvitað viðfangsefni oddvita flokka í borgarstjórn að taka þátt í svona viðræðum og eðli málsins samkvæmt þurfa svona viðræður stundum að fara leynt, sérstaklega ef það eru nú bara óformlegar þreifingar en það er örugglega affarasælast að baklandið sé sem best innan flokksins.

Svona eftir á að hyggja þá hugsa ég að það hafi verið algjörlega meðvitað hjá Sjálfstæðismönnum að slíta stjórninni núna við Ólaf á meðan hann var ennþá borgarstjóri. Þetta er alveg ótrúlega veik stjórn sem byggir á einum manni sem er þar að auki frekar óútreiknanlegur og lítt samstarfslipur.

Það hefur komið fram í fjölmiðlum að nýi meirihlutinn núna var byggður upp með trausti forustu flokkanna sem standa að þessu samstarfi, sjá þessa frétt:  Formennirnir voru kjölfestan og það er góðs viti fyrir stöðugleika þessa nýja samstarfs. En það er ekki gott að varamaður Óskars Marsibil styðji ekki þennan nýja meirihluta.  Eftir henni er haft: "Marsibil segist þó áfram starfa sem varaborgarfulltrúi en óráðið sé hvort það verði fyrir Framsóknarflokkinn eða ekki." Vonandi tekst Óskari að ná samkomulagi við Marsibil. 

Margrét Sverris var á sínum tíma afar ósátt við að Ólafur sprengdi 100 daga stjórn Tjarnarkvartettsins. Það er nú samt um margt ólíku saman að jafna, það var fyrir samheldin stjórn sem Ólafur var þátttakandi í en hann var vélaður yfir með húskofamilljarði og borgarstjórakeðju og stóli.  Það hefur hins vegar varla farið fram hjá fólki að það var allt í óefni í borginni, Ólafur er ekki mannasættir og maður málamiðlana.  Úr því sem komið var þá er núverandi stjórnarform það stöðugasta í Reykjavík út þetta kjörtímabil.

 Varðandi nýja stjórn Tjarnarkvartettsins svonefnda sem fram kemur að Marsibil hafi viljað fremur en núverandi þá er það vægast sagt afar undarlegt að boð Ólafs um að segja af sér og koma Margréti til valda kemur ekki til Margétar sjálfrar heldur koma fulltrúar Vinstri grænna með það inn á fund minnihlutans sem tilboð og virðast þannig hafa breyst í einhvers konar umboðsmenn fyrir Ólaf Magnússon. Margrét Sverris sem þó var skiptimyntin virðist ekkert hafa verið höfð með í ráðum þar, eftir henni er haft í fjölmiðlum að hún telji afar ólíklegt að Ólafur hafi ætlað að segja af sér til að hún komist að.

Það er bara því miður alls ekkert mark takandi á svona tilboðum þar sem fulltrúar Vinstri grænna í umboði Ólafs Magnússonar bjóða fram Margréti. Og það lætur enginn heilvita maður sér annað koma til hugar en að Sjálfstæðismenn hafi haft Plan B ef Óskar hikaði á ögurstundu. Og augljósasti kosturinn fyrir plan B er að  Sjálfstæðismenn hefðu hafið samstarf við Vinstri Græna. Ég gat ekki betur heyrt á Degi Eggertssyni í sjónvarpi í gær annað en hann hintaði að slíku. 

Dagur Eggertsson stendur sig vel að vanda í svona orrahríð. Hann talar prúðmannlega og fyrir heiðarleika og góðum vinnubrögðum í stjórnmálum. Vonandi er tíma plotta og bakrýtingsstungna nú liðinn í borginni. Þetta er eiginlega bara búið að vera skálmöld.

 


mbl.is Marsibil styður ekki nýjan meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Salvör:

Þú kommentaðir á blogg í gær að þú hefðir ekki farið á fund og það væri rangt að framsóknarfélögin í Reykjavík væru að funda um nýtt samstarf framsóknar og sjálfstæðisflokk.

Var virkilega ekkert samráð haft við framsóknarfélögin?

Karma (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 11:02

2 identicon

Það er alveg ótrúleg afstaða sem Marsibil tekur í þessu máli, Framsóknarflokkurinn hefur mælst á stöðugri niðurleið eftir að hann tók þátt í tjarnarkvartettinum, og er við það að þurrkast út. Ég sé ekki betur em Marsibil sé þegar gengin til liðs við annann flokk en hún var kosinn fyrir. Auðvitað má hverjum manni vera ljóst að ef Framsókn hefði ekki gengið til samstarfs með Sjálfstæðisflokknum þá hefðu vinstri grænir gert það. Tjarnarkvartettinn sprakk og hann er fortíðin, sem betur fer.

Ómar Sigurðsson (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 11:28

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kom eitthvað boð frá Ólafi til Vinstri grænna?  Þú átt ekki að vera svona auðtrúa. Tjarnarkvartettinn hafði allt aðrar áherslur en Ólafur varðandi Miðbæinn, flugvöllinn, græn svæði og Bitruvirkjun, svo dæmi séu nefnd.

Sigurður Þórðarson, 15.8.2008 kl. 11:35

4 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Ég held að þessi atburðarás marki ákveðin þáttaskil. Við viljum ekki glundroða eða afarkosti örflokka sem selja sig ýmist til hægri og vinstri. Það er nauðsynlegt að mynda hefðir um samstarf flokka eins og á Norðurlöndunum.

Guðmundur Jónas Kristjánsson skilgreinir Framsóknarflokkinn sem borgaralegan flokk náskyldan íhaldinu. Hinsvegar held ég að það liggi í loftinu að það liggi ljóst fyrir að Samfylking og Vinstri grænir muni vinna saman í jafnaðarsinnuðum meirihluta fái þeir umboð til þess.

Sá tími er liðinn að Sjálfstæðisflokkurinn muni ná meirihluta í Reykjavík. Því mun hann þurfa samstarfsaðila. Tími Reykjavíkurlista er líka liðinn. Þannig verðum við að koma okkur upp vinnulagi. Smáflokkar sem að eru opnir í báða enda munu verða enn smærri og deyja út. Því geta verið sóknarfæri fyrir Framsókn að fara inn á akra íhaldsins.

En margt bendir til að Marsibil Sæmundsdóttir vilji frekar áherslur rómantískrar jafnaðarstefnu heldur en borgaralegrar íhaldsstefnu. Hún metur það svo að hún gæti þurft að skipta um flokk. Trúi því að það sé rétt mat.

Gunnlaugur B Ólafsson, 15.8.2008 kl. 23:48

5 Smámynd: Anna Karlsdóttir

Æi ég er orðin svo þreytt á átökum í borginni og valdagræðgi einstakra persóna að ég er farin að hallast að því að mótmæla því að borga útsvarið mitt - til að halda uppi borgarstjórn á mörgum borgarstjóralaunum. Ég veit ekki, sá flokksómagi sem ég er, mér er nákvæmlega sama orðið hvaða höfuð Reykjavík ber..ef að málefnin fá að hafa sinn gang. Mér sýnist því miður ekki að það sé í stöðunni...en vonandi. Leyfum nýjum meirihluta (eins skeptísk og ég er) að sanna sig.

Anna Karlsdóttir, 16.8.2008 kl. 01:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband