Karlar sem hata konur

IMG_2884

Í sakamálasögunni Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson er sagan sögð gegnum augu  sporrekjandi rannsóknarblaðamanns og   tölvuhakkara  sem heita Blomkvist og Salander. Alveg eins og Salka Valka Halldórs Laxness er bók um saltfiskinn þá er bókin Karlar sem hata konur bók um fjórða valdið, bók um rannsóknarblaðamennsku  og rannsóknarnetmennsku Internetsins, bók um hvernig spor eru rakin og mynd og saga teiknuð upp og röðuð  smám saman úr táknum sem safnað er í gegnum tíma og rúm, úr því að  lesa í misgamlar myndir sem vísa á aðrar myndir og tákn, með því að ráða í slitrur af minningum. Hún er líka bók um hvernig rannsókn á glæpnum er líka leit að því hver er glæpamaðurinn og hver setur reglurnar og hverjum þær þjóna. Blomkvist er sakamaður, hann situr í fangelsi stóran hluta bókarinnar og Salander fremur tölvuglæpi og er á flótta undan kerfinu, sama kerfi og hún er að rannsaka.

IMG_2880

Af hverju dettur mér í hug þessi sakamálasaga í sambandi við mótmælin á Austurvelli?

Ég veit það ekki, kannski út af því að sagan karlar sem hata konur er um baráttu við sams konar samfélag og við erum að mótmæla og reyna að afhjúpa á Austurvelli á hverjum laugardegi. Þetta er saga um morkið ættarveldi og viðskiptaveldi og hvernig það er afhjúpað og hvernig ofboðsleg kvennakúgun og kynferðisofbeldi er partur af því feðgaveldi. Kannski af því að sagan er samfélagssaga sem fjallar um það sem hefur verið að gerast fyrir framan augun á okkur í mörgum vestrænum samfélögum, samfélögum sem eru á yfirborðinu norræn velferðarsamfélög sem hlúa að þegnum sínum en á sama tíma hafa stjórnvöld horft framhjá  mannréttindabrotum og ofbeldi og svæsnasta birtingarmyndin hefur verið kynbundið ofbeldi og ofbeldi þar sem landlaust og réttindalaust fólk sem sumt er í felum er notað sem einnota og réttlausir vinnuþrælar. IMG_2878

Sakamálasagan er bókmenntaform núsins og sumir sakamálahöfundar eins og Stieg Larsson og Lisa Marklund nota það form til þjóðfélagsrýnis,  til að segja sögu af sjúku samfélagi. En hvað er  sönn saga? Og hver trúir þeim sem segir söguna? Núna er einmitt að koma út bók um meint skrök Lisu Marklunds. Hvernig er hægt að skrökva í bókum sem eru skáldsögur? Eru skáldsögur ekki alltaf skrök?

island-eyjaSagan í sakamálasögunni Karlar sem hata konur byrjar á atburði í samfélagi  þar sem brúin yfir í umheiminn lokast  snögglega og samfélagið verður um tíma eins og eyja og á þessum tíma hverfur stúlka og rannsóknin miðar að því að finna hana. Þetta minnir mig líka á Ísland haustið 2008. Við bankahrunið varð Ísland að eyju og fjarlægðin við umheiminn varð meiri.

Ég veit vel að Ísland hefur alltaf verið eyja, það stendur í landafræðibókum en ég einhvern veginn var hætt að hugsa um eyjuna, ef til vill leit ég aldrei á Ísland sem eyju - bara stað þar sem samgöngur við umheiminn færu fram með flugi.  Samt fór ég í fyrsta skipti frá Íslandi þegar ég var 25 ára. 

En ég er ekki ein um að finnast Ísland eftir hrunið verða einangruð eyja. Eyja sem ekki varð til fyrr en við hrunið öll orðræða um kreppuna og fjármálahrunið notað svoleiðis orð, orð sem ekki voru áður notuð um staðsetningu Íslands. Ég veit líka að landakort eru hugarkort og það er sameiginlegt landakort heimsins sem teiknar upp línur og landamæri, býr til þjóðir og flytur fjöll inn í ríki.

IMG_2883

Í sögunni Karlar sem hata konur þá hefst rannsóknin á því að skoða gamlar götumyndir frá atburð og fjöldasamkomu sem gerðist fyrir mörgum áratugum. Rannsóknarblaðamaðurinn fer yfir myndirnar og reynir að ráða í hvað gerðist, hann reynir að finna stúlkuna sem hvarf.  Lykillinn að lausninni liggur líka í myndunum, hvernig myndirnar vísa hver á aðra og hvernig svipbrigði einnar persónu á einni mynd á fjöldasamkomu segir sögu af því sem hún sá eða skynjaði og hvernig ein mynd kallar á aðra mynd.

Það er líka þessi galdur myndanna sem tengir samkomurnar á Austurvelli við bókina Karlar sem hata konur, ég tek myndir af því sem þar fer fram. Skráset eitthvað sem ég veit ekki alveg hvað ég er að skrásetja og í hvaða tilgangi. Ef til vill mun einhver eftir marga áratugi nota mínar myndir af mótmælunum 27. desember sem kveikju til að ráða í hvað gerðist og er að gerast og sjá sögu sem mér er núna hulin.
Eða til að búa til nýja sögu.


mbl.is „Friðsamleg og málefnaleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Mikið rosalega tengir þú þetta flott.  Var að lesa bókina fyrir jól og var að bera núverandi ástand saman við hana en rétt svona snuddaði við það.

Hittir algjörlega í mark.
Takk kærlega fyrir mig.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.12.2008 kl. 14:35

2 identicon

Flottur póstur. Takk fyrir mig.

linda (IP-tala skráð) 28.12.2008 kl. 21:11

3 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Karlar sem hata konur - ég sökk djúpt í þessa sögu um jólin - er á endasprettinum. Þvílík lesning, það er langt síðan ég hef lesið sögu sem grípur mig þvílíkum heljartökum.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 29.12.2008 kl. 09:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband