Hefði ný hundraðdaga stjórn orðið betri?

Ég vildi svo gjarna að félagshyggjuöflin hefðu náð saman í borginni, Framsókn á miklu meiri samleið með öðrum félagshyggjuflokkum heldur en stjórnmálaöflum sem trúa að peningar og gróðasjónarmið séu gangverk og  goð mannlegs samfélags. Mér finnst Dagur Eggertsson frábær borgarstjóri og það hefði verið flott fyrir Framsóknarflokkinn að vinna undir hans stjórn enda gekk það samstarf afar vel þá 100 daga sem Óskar tók þátt í því.

Hins vegar hef ég ekki ástæðu til að ætla annað en Hanna Birna verði líka góður borgarstjóri.  Það var veruleg stjórnarkreppa í borginni og það var allt í óefni. Það er ekki hægt að mynda meirihluta félagshyggjuafla nema  með brotthvarfi  Ólafs Magnússonar. Þó það spyrjist út núna að Ólafur Magnússon hafi viljað segja af sér þá er Ólafur frekar óútreiknanlegur og hefði getað umhvolfst á morgun enda er það afar skrýtið ef hann segði af sér bara til að klekkja sem  mest á fyrri samstarfsaðilum.  Það er satt að segja borgarbúum fyrir bestu að þessi stjórnarskipti verði sem minnst röskun. Alla vega væri það algjört upplausnarástand ef núna væri aftur skipt út og stokkað upp í öllum nefndum og ráðum. Hmmm... hins vegar man ég núna að Ólafur var nú með lítið sem ekkert af nefndarsætum fyrir sitt stjórnmálaafl, hann hafði víst fáa samstarfsmenn og þeim fækkaði óðfluga. Ólafur mun hafa lagt áherslu á borgarstjórastólinn. Það er vonandi ekki það eina sem Framsókn fær út úr þessu að Óskar verði forseti borgarráðs.  Sennilega er nú eitthvað af nefndasætum sem Gísli Marteinn skilur eftir sig núna í boði fyrir Framsókn.

Ef það er eitthvað sem þarf í þessari borg núna þá er það einhver festa í stjórnsýsluna. Ég met þá stöðu sem nú er komin upp að það sé betra fyrir borgarbúa að Óskar komi í staðinn fyrir Ólaf og Hanna Birna verði strax borgarstjóri. Það virðist vera besta tryggingin fyrir því að festa verði út kjörtímabilið og Óskar mun alveg ábyggilega ekki krefjast þess að keyptir verði húskofar fyrir milljarð. Óskar hefur sýnt að hann getur unnið vel með öðru fólki. 

Þó tjarnarkvartettinn hefði tekið nú aftur við völdum þá hefði getað komið brestir í það samstarf þegar líða tekur að kosningum og t.d. vinstri-grænir hefðu búið sig undir kosningabaráttuna. Reynslan hefur sýnt að einn stór liður og hefð í kosningaundirbúningi þeirra er að sparka í Framsóknarflokkinn.  En ég leyni því ekki að ég vil miklu frekar sjá Framsókn halla sér til vinstri en hægri, ekki endilega með nýrri hundraðdaga stjórn heldur með því að svoleiðis meirihluti hefði verið myndaður strax að loknum kosningum og allra helst hefði ég viljað að Reykjavíkurlistinn hefði boðið fram aftur. Það voru hins vegar ekki Framsóknarmenn sem tvístruðu því samstarfi. 

Sagan á eftir að meta hverjir voru mestu gerendur í stjórnmálum í Reykjavík á þessu kjörtímabili og ýmislegt getur gerst ennþá því langt er til kosningar. Hins vegar er ekki hægt að segja annað en Ólafur Magnússon hafi leikið stórt hlutverk, eiginlega byrjaði hann að leika það þegar ljóst var að hann færi í eigið framboð. Þá var fótunum sjálfkippt undir Reykjavíkurlistaframboði því allir nema náttúrulega Samfylkingin vildu lenda í þeirri oddaaðstöðu að geta ráðið hver væri við stjórn í Reykjavík. Ólafi hefur ekki spilast sérlega vel út úr sinni oddaaðstöðu, hann hefur verið svikinn tvisvar og ég hugsa að hann taki það mjög nærri sér. Hins vegar hafa fulltrúar Framsóknarflokksins spilað stór hlutverk bæði Björn Ingi og Óskar. Svandís var líka frábær þegar hún gætti hagsmuna Reykvíkinga í stjórn orkuveitunnar.

Þessi stjórnarkreppa og hvernig úr henni greiðist sýnir vel mikilvægi svona miðjuflokka eins og Framsóknarflokksins og hve mikið vægi þeir hafa í  hinu pólitíska rými. Sá sem getur unnið með öllum hefur meiri möguleika á að komast til valda. Ég vona að núna sé tími bakstungna og plotta liðinn í Reykjavík og það verði ekki fleiri  uppákomur með borgarfulltrúum með jarðarfararsvip í kringum foringja sem þó er enginn foringi. Ólafur naut aldrei trausts sem borgarstjóri og Vilhjálmur naut ekki trausts eftir að REI málið kom upp á yfirborðið. Báðir eru þeir þó vandaðir menn sem lögðu sig fram og höfðu hagsmuni Reykjavíkur að leiðarljósi. Þeir bara þekktu ekki sinn vitjunartíma.


mbl.is Ólafur vildi Tjarnarkvartett
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband