Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Hávær umræða um hleranir

"Í kjölfar brottfarar varnarliðsins hafi verið hávær umræða um að svar við hryðjuverkaógn væri að auka innra öryggi ríkisins." Þetta er haft eftir íslenskum ráðherra. Hvaða háværa umræða er þetta? Á að réttlæta og leyfa hleranir og eftirlit með almennum borgurum undir því yfirskini að það sé allt krökkt af hryðjuverkamönnum? Hvað er langt í að það þyki sjálfsagt að njósna um tölvupóst og ferðir fólks á Netinu?  Annars veit ég ekki hvað er hávær umræða en ég hrópa hér á þessu bloggi eins hátt og ég get VARÚÐ, VARÚÐ, passið ykkur á að  takmarka ekki frelsi og tjáningu fólks og frelsi í netrýmum undir því yfirskini að verið sé að þjarma að netperrum og terroristum

Vonandi kallar einhvern tíma einhver bloggumræðuna "háværa umræðu". Ég stækkaði letrið til að gera umræðuna hjá mér háværari. 


mbl.is Telur ekki rétt að banna símhleranir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Fons?

Hvað er þetta Fons sem núna á 14,85% af 365 miðlum? Það eru frekar fátæklegar upplýsingar um það á vefsíðu fons. Þar stendur þetta eitt:

Fons er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig í fjárfestingum á fyrirtækjum með mikla framtíðarmöguleika til vaxtar og hagræðingar. Félagið kemur inn í fyrirtæki sem virkur eigandi og hjálpar til við ná hámarksárangri út úr rekstri fyrirtækja.

Mér finnst að fyrirtæki sem svona mikill völlur er á og stór spilari á íslenskum fjölmiðlamarkaði  gæti nú spanderað einhverju meira í upplýsingar á vefsíðu sinni.

Fons á Iceland Express og slatta af flugfélögum.

Fons á sænsku ferðaskrifstofuna Ticket 

 

 

 


mbl.is Straumur Burðarás selur allan sinn hlut í 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingalög, Myspace og kynferðisafbrotamenn

Félagslíf barna og unglinga er að flytjast yfir á Netið. Mikil gróska er í netsamfélögum eins og Myspace. Samkvæmt Alexa.com er Myspace fjórða mest sótta vefsvæðið í heiminum, næst á eftir Yahoo, MSN og Google. Í fimmta sæti er svo Youtube.  Flestir notendur Myspace eru ungir að árum. Mikil umræða hefur verið í bandarískum fjölmiðlum um Myspace og er aðgangur að því netsamfélagi víða bannaður í skólum. Hér er vefsíða sem ég tók saman um Myspace.

Samkvæmt frétt á Mbl.is í dag mun Myspace nú áforma að setja upp einhvers konar gagnagrunn og samkeyra upplýsingar til að  finna kynferðisafbrotamenn og koma í veg fyrir að þeir noti netsamfélagið.  Fyrir þá sem þekkja hvernig Myspace vinnur þá eru þetta vægast sagt undarlegar fréttir, það er afar ólíklegt að dæmdir kynferðisafbrotamenn með einbeittan brotavilja gefi upp persónugreinanlegar upplýsingar um sig nema þeir séu sérstaklega heimskir. Það er langlíklegast að þeir sigli undir fölsku flaggi, ljúgi til um aldur og  önnur atriði sem þarf að skrá þegar Myspace reikningur er stofnaður. 

Þetta síðasta útspil Myspace er sennilega til að slá ryki í augun á almenningi sem ekki veit hvernig svona netsamfélög virka og  viðhalda þeirri blekkingu að þarna sé virkt eftirlit. En það er annar flötur á þessu máli. Þetta er ógnvekjandi út frá persónuverndarsjónarmiðum. Það er nauðsynlegt að vera á verði gagnvart því að ekki sé þrengt að borgurum heimsins í vefrýmum  undir því yfirskini að hafa þurfi hendur í hári  misyndismanna. Eftirlit með netrýmum er sérstaklega réttlætt með ótta við kynferðisafbrotamenn og hryðjuverkamenn. 

Hér mjög skrýtin frétt á ensku þar sem stendur að Myspace berjist í USA fyrir lögum um að netföng kynferðisafbrotamanna verði skráð í sérstakan gagnabanka. Þetta er nú meiri skrípaleikurinn. Það er auðveldara en drekka vatn að verða sér út um netfang og ólíklegt þrátt fyrir að slík lög yrðu samþykkt að kynferðisafbrotamenn skráðu sig inn á Myspace undir sérstöku perranetfangi sem myndi draga athygli að þeim.  

Hér er hluti af fréttinni á ensku: 

Sentinel Tech Holding Corp. will build a searchable database containing information on sex offenders in the U.S. who are registered with various federal and state law enforcement agencies. The database, which will be frequently updated, will include details such as name, age, physical appearance and distinguishing features like tattoos and scars.

MySpace staff will monitor the site 24-hours-a-day for sex offenders who are on the list. They'll remove any matching profiles that they find.

MySpace has been lobbying for new legislation that could help it take the program one step further. The company wants a law that requires sex offenders to register their e-mail addresses in a national sex-offender database. The law would stipulate that the use of an unregistered e-mail constitutes a parole or probation violation, forcing offenders back to jail. If such a law is passed, MySpace can more easily identify sex offenders that have profiles on its site, the company said IT world
 


mbl.is Kynferðisafbrotamenn útilokaðir frá MySpace
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíumálun - fyrsta myndin

Olíumálverk 1Hérna er fyrsta málverkið sem ég klára í vetur. Ég er á námskeiði hjá Jóni Reykdal. Ég hef ekki snert á olíumálun í fimmtán ár og það var fyrst erfitt að opna túpurnar aftur. Það tók líka tíma að læra á miðilinn og ég mála margoft ofan í sömu myndirnar.  En hér er semsagt fyrsta myndin sem ég ætla ekki að mála ofan í einu sinni enn. Alla vega ekki í bili.

 Ég er ekki búin að velja titil á myndina og veit reyndar ekki af hverju hún er. Bara tvær manneskjur sem horfa út í bláinn. 

 

 


Offita barna mest í Breiðholti

Offita barna mest í BreiðholtiÞað er áhugavert að skoða forsíðu Fréttablaðsins í dag og spá í  hvaða heimsmynd birtist okkur. Það eru þrjár fyrirsagnir á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Fyrsta fyrirsögnin er "Offita barna mest í Breiðholti" Í þeirri grein er teiknað upp aðstöðukort af Reykjavík eftir þyngdarstuðli barna. Í greininni stendur: "Niðurstöðurnar eru byggðar á sextán þúsund mælingum á þyngd barna sem framkvæmdar hafa verið af heilsugæslunni í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin tvö ár. Þyngd barnanna var mæld í 1., 4., 7. og 9. bekk. Tölurnar voru greindar út frá sérstökum líkamsþyngdarstuðli og voru mælingarnar skráðar í rafrænt forrit"

Ég efast ekki um að þessar tölur séu réttar og þetta séu vandaðar mælingar og tölfræði. En hverjum glymur bjallan? Í greininn segir: "Ragnheiður segir að ef félagsleg staða foreldra barnanna sé borin saman eftir póstnúmerum, kemur fram að hlutfall offitu og ofþyngdar er hærra í hverfum þar sem menntunarstig er lægra."

Hvers vegna er búseta og þyngd barna tekin saman? Hvers vegna er menntunarstig foreldra og þyngd barna tekin saman? 

Svarið er sennilega að þetta eru upplýsingar sem eru aðgengilegar og auðvelt að samkeyra, það er vitað í hvaða póstnúmeri börn búa og það er væntanlega í skólabókhandi upplýsingar um menntun foreldra.  En fyrir mér sem les þessa frétt þá  virkar hún eins og kortlagning fjölmiðla og rannsakenda (vegna þess hvaða breytur þeir kjósa að bera saman) á því  hvaða börn  eru úti í kuldanum  í íslensku samfélagi. Það eru börn yfir kjörþyngd sem búa í ákveðnum hverfum og eiga foreldra sem ekki eru háskólagengin.  Almenningur treystir könnunum og tölfræði og spyr ógjarnan spurninga um hvers vegna ákveðin  framsetning eða nálgun er valin og hvað hún gerir fyrir þá hópa sem standa höllum fæti.  

 Önnur fyrirsögnin er "Gaf 21 milljón til bágstaddra" og þar er mynd af Jóhannesi í Bónus að afhenda gjöf og m.a. þessi texti: "Samtals hljóðar aðstoðin upp á 21 milljón. Jóhannes segir að upphæðin hafi verið ákveðin til að minna á 21 milljónar króna aukafjárveitingu sem dómsmálaráðuneytið fékk í haust til að ráða sérstakan saksóknara í Baugsmálinu svokallaða." Þessi frétt er nú dáldið mikið yfir markið og á dansar á milli þess að vera fyndin eða nöturlegur vitnisburður um hverjir hafa rödd og aðstöðu  í íslenskum fjölmiðlum og íslensku athafnalífi.  Þetta er frétt um bjargvættinn og góða manninn í íslensku samfélagi en við fáum jafnfram að vita af því að gæska hans er háð því hvernig honum tekst til við íslensk stjórnvöld. Ég velti því fyrir mér hvort þessi frétt hefði ratað á forsíðu ef Jóhannes ætti ekki fjölmiðilinn sem fréttin birtist í.

 Þriðja fyrirsögn "Verra en þegar Saddan ríkti" segir okkur frá óöld í fjarlægum löndum. Þar er ekki góði maðurinn að gefa fátækum eins og Jóhannes hér heima heldur er ástandið orðið verra en í helvíti, hvað getur verið verra en sjálfur Saddan. 

Sem sagt, sá veruleiki sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag er kortlagning á félagslegu landslagi í Reykjavík, greining á hetjunni og bjargvættinum í íslensku samfélagi og frásögn á hve slæmt ástandið er utan Íslands. 


Siðblindir á meðal vor

Heilastarfsemin er öðru vísi í siðblindu fólki segir í þýddri frétt í Mogganum. En þetta er villandi frétt. Það segir: "Siðblinda einkennist af árásarhneigð og andfélagslegum persónueinkennum, og skorti á hluttekningu. Þeir sem haldnir eru siðblindu sýna engin merki iðrunar eða sektarkenndar þótt þeir fremji voðaverk eins og morð eða nauðganir."

Ég trúði þessu heldur ekki og fletti beint upp á greininni í BBC. Þar stendum skýrum stöfum:

"Criminal psychopaths are people with aggressive and anti-social personalities who lack emotional empathy.They can commit hideous crimes, such as rape or murder, yet show no signs of remorse or guilt."

Ég skil ekki af hverju þýðandi greinarinnar sleppir orði sem hefur gífurlega þýðingu. Það er afar mikill munur á því að vera siðblindur glæpamaður og að vera bara siðblindur. Það er eflaust líklegra að siðblint fólk komist í kast við lögin en fólk sem sér muninn á réttu og röngu. En það eru margir siðblindir sem ekki eru árásargjarnir og andfélagslegir, reyndar eru margir hættulegir siðblindir menn þannig að það kjaftar á þeim hver tuska og þeir ljúga sig í gegnum lífið  og slá ryki í augu samferðamanna sinna með því að gera sér upp tilfinningar.  Stundum glyttir reyndar í tóm sálarinnar, sérstaklega ef  siðblint fólk gerir sér upp tilfinningar og persónueiginleika sem það telur að séu eftirsóknarverðir en vegna þess að það býr ekki yfir þeim þá ofleikur fólk. 

Það er nú reyndar líka nærtækt dæmi búið að vera í fjölmiðlum nýlega  um þekktan siðblindan Íslending sem dæmdur var í fangelsi en hann er hvorki andfélagslegur né haldinn árásarhneigð, hann er þvert á móti hrókur alls fagnaðar og þekktur fyrir söng og  skemmtileg prakkarastrik. Hann kann hins vegar ekki að iðrast og heppnast mjög illa þegar hann reynir að réttlæta gerðir sínar. Seinheppin ummæli hans um tæknileg mistök eru orðin orðatiltæki.

Það eru margir siðblindir á meðal vor og þeir eru fæstir hverjir árásargjarnir glæpamenn. Í sumum störfum þá er meira segja betra að vera siðblindur og finna ekki til iðrunar og samvisku og að geta alltaf logið sig út úr aðstæðum og svífast einskis í hvaða meðölum er beitt. Þar má nefna heim fjármála og stjórnmála. Líka fíkniefnabransann.


mbl.is Heilastarfsemin frábrugðin í siðblindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskulínan,Tröð , Alexander mikli, bílar og fílar

Ég skrapp áðan niður í bæ með dóttur minni. Nánar tiltekið í KB banka þar sem dóttirin tók út alla sína peninga af æskulínureikningnum. Hún hyggur á bílakaup og hefur stefnt að því frá því hún var níu ára. Þetta er allt búið að vera planað, fyrir mörgum árum kom hún með samning með sér úr skólanum sem við skrifuðum undir að við myndum borga fyrir hana bílpróf og ökutíma með því skilyrði að hún byrjaði ekki að reykja. Jafnframt hefur hún í mörg ár reynt að komast að samkomulagi um að við tækjum frekari þátt í kostnaði við bílaeignina svo sem bensíni og tryggingum. Samningatækni hennar er mikil og höfum við ekki roð við henni.

Í KB banka gæddi ég mér á kaffi og piparkökum, smart hjá þeim að bjóða upp á piparkökur með þrykktu merki bankans. Þetta merki myndi nú koma vel út í leir.

Við kíktum líka aðeins inn í Eymundsson, mig langaði til að sjá nýja bókakaffihúsið þar. Það er dáldil nostalgía í sambandi við það því að þegar ég var á sama aldri og dóttirin núna þá var á annarri hæðinni rekið kaffihúsið Tröð sem mig minnir nú að hafi verið ásamt Hressó og Mokka einu kaffihúsin sem ungmenni hengu á. Eða voru það kannski bara einu kaffihúsin í Reykjavík á þeim tíma. Tröð var langvinsælast meðal Kvennaskólastúlkna og síðar MR-inga og þar átti maður athvarf ef maður skrópað í tíma. Ég  sagði nú ekkert um skrópið við dótturina enda reyni ég í lengstu lög að halda í þá ímynd að ég hafa verið sílærandi á unglingsárunum og ekkert farið nema á bókasafnið. 

Ég fell alltaf fyrir tilboðum og þess vegna keypti ég bókina  Alexander mikla, sonur guðanna. Bók var líka ansi billeg, kostaði ekki nema 398 krónur í fjölþjóðlegu samprenti með fullt af litmyndum og kortum.  Ég benti dótturinni á að þetta væri eiguleg bók ef hún væri að leita að jólagjöfum fyrir vini sína. Hún taldi svo ekki vera.  Þannig er lífið bara, æskulýður þessa lands hefur meiri áhuga á bílum og spilastokkum en sögnum af Alexander og fílum hans. En ég fíla Alexander vegna þess að hann var lærdómsmaður og landkönnuður jafnframt því að vera kænn hermaður og stjórnmálamaður og konungur.


Framsókn Margrétar

Góður pistill  hjá Sveini Hirti þar sem hann hvetur Margréti Sverrisdóttur til að ganga í Framsóknarflokkinn. Ég tek undir það. Sá flokkur sem hefur svona öfluga konu eins og Margréti í forustu er vel settur.  Ég vona hins vegar að Margrét láti sverfa til stáls í sínum flokki og bjóði sig þar fram til formanns og meti svo stöðuna eftir því hver útkoman verður. Það mun ekki skorta boð frá öðrum stjórnmálaflokkum að fá Margréti til liðs við sig.  

Það er nú samt ekki rétt í pistlinum hjá Sveini Hirti að í Framsóknarflokknum séu engir karlaklúbbar. Það er alls ekki tekið vel á móti konum í því Framsóknarfélagi sem ég tilheyri en það er Framsóknarfélagið í Reykjavík Norður og þar hafa stjórnarhættir verið undarlegir.  En ég held að það félag sé undantekning og alls ekki sama staðan annars staðar í Framsóknarflokknum.  Framsóknarflokkurinn er flokkur þar sem konur hafa komist til áhrifa og það hafa náð að vaxa þar upp sterkar stjórnmálakonur.  Tölurnar tala, helmingur þingflokks og helmingur ráðherra Framsóknarflokksins eru konur. 


Ekki frétt dagsins - Coldplay semur ný lög

Vá, hljómsveitin Coldplay mun flytja ný lög á hljómleikaferð sinni í Suður-Ameríku. Mogginn færir okkur þessa mögnuðu frétt.  Ásamt því að ástandið í Írak sé verra en borgarastyrjöld.  Ég geri góðlátlegt grín að Mogganum fyrir heimóttarlegar fréttir en ég vil miklu frekar búa í heimi þar sem það er helst í fréttum að skapandi  tónlistamenn haldi áfram að vera skapandi tónlistamenn og miðli list sinni heldur en að umsátursástand um óbreytta borgara, ringulreið og ótti sé meiri en orðaforði okkar þekur. Hvað kallast ástand sem er verra en borgarastyrjöld?
mbl.is Coldplay flytur ný lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynt nýtt afl - Einhvers staðar verða vondir að vera

Þetta er nú meiri skrípaleikurinn hjá Frjálslynda flokknum, ég sárvorkenni liðsmönnum þeirrar hreyfingar. Ég myndi vera með hauspoka núna ef ég hefði slysast til að ganga í þann flokk á sínum tíma. Er þetta að breytast í einhverja rustalega fylkingu rasískra karla? Ég fatta ekki þetta upphlaup gegn Margréti Sverrrisdóttur sem er nú ein mesta prýðin á Frjálslynda flokknum. 

En það er ágætt fyrir kjósendur að hafa skýrar línur í kosningum. Frjálslyndi flokkurinn er útlendingahatursflokkurinn og karlaflokkurinn á Íslandi. Þar er konum bolað í burtu. En það er bara gott að rasistar eigi athvarf í einhverjum flokki. Lýðræðið er líka fyrir fólk sem aðhyllist aðrar skoðanir en ég. Það er nú líka eins satt núna og á dögum Guðmundar góða að einhvers staðar verða vondir að vera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband