Offita barna mest í Breiðholti

Offita barna mest í BreiðholtiÞað er áhugavert að skoða forsíðu Fréttablaðsins í dag og spá í  hvaða heimsmynd birtist okkur. Það eru þrjár fyrirsagnir á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Fyrsta fyrirsögnin er "Offita barna mest í Breiðholti" Í þeirri grein er teiknað upp aðstöðukort af Reykjavík eftir þyngdarstuðli barna. Í greininni stendur: "Niðurstöðurnar eru byggðar á sextán þúsund mælingum á þyngd barna sem framkvæmdar hafa verið af heilsugæslunni í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin tvö ár. Þyngd barnanna var mæld í 1., 4., 7. og 9. bekk. Tölurnar voru greindar út frá sérstökum líkamsþyngdarstuðli og voru mælingarnar skráðar í rafrænt forrit"

Ég efast ekki um að þessar tölur séu réttar og þetta séu vandaðar mælingar og tölfræði. En hverjum glymur bjallan? Í greininn segir: "Ragnheiður segir að ef félagsleg staða foreldra barnanna sé borin saman eftir póstnúmerum, kemur fram að hlutfall offitu og ofþyngdar er hærra í hverfum þar sem menntunarstig er lægra."

Hvers vegna er búseta og þyngd barna tekin saman? Hvers vegna er menntunarstig foreldra og þyngd barna tekin saman? 

Svarið er sennilega að þetta eru upplýsingar sem eru aðgengilegar og auðvelt að samkeyra, það er vitað í hvaða póstnúmeri börn búa og það er væntanlega í skólabókhandi upplýsingar um menntun foreldra.  En fyrir mér sem les þessa frétt þá  virkar hún eins og kortlagning fjölmiðla og rannsakenda (vegna þess hvaða breytur þeir kjósa að bera saman) á því  hvaða börn  eru úti í kuldanum  í íslensku samfélagi. Það eru börn yfir kjörþyngd sem búa í ákveðnum hverfum og eiga foreldra sem ekki eru háskólagengin.  Almenningur treystir könnunum og tölfræði og spyr ógjarnan spurninga um hvers vegna ákveðin  framsetning eða nálgun er valin og hvað hún gerir fyrir þá hópa sem standa höllum fæti.  

 Önnur fyrirsögnin er "Gaf 21 milljón til bágstaddra" og þar er mynd af Jóhannesi í Bónus að afhenda gjöf og m.a. þessi texti: "Samtals hljóðar aðstoðin upp á 21 milljón. Jóhannes segir að upphæðin hafi verið ákveðin til að minna á 21 milljónar króna aukafjárveitingu sem dómsmálaráðuneytið fékk í haust til að ráða sérstakan saksóknara í Baugsmálinu svokallaða." Þessi frétt er nú dáldið mikið yfir markið og á dansar á milli þess að vera fyndin eða nöturlegur vitnisburður um hverjir hafa rödd og aðstöðu  í íslenskum fjölmiðlum og íslensku athafnalífi.  Þetta er frétt um bjargvættinn og góða manninn í íslensku samfélagi en við fáum jafnfram að vita af því að gæska hans er háð því hvernig honum tekst til við íslensk stjórnvöld. Ég velti því fyrir mér hvort þessi frétt hefði ratað á forsíðu ef Jóhannes ætti ekki fjölmiðilinn sem fréttin birtist í.

 Þriðja fyrirsögn "Verra en þegar Saddan ríkti" segir okkur frá óöld í fjarlægum löndum. Þar er ekki góði maðurinn að gefa fátækum eins og Jóhannes hér heima heldur er ástandið orðið verra en í helvíti, hvað getur verið verra en sjálfur Saddan. 

Sem sagt, sá veruleiki sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag er kortlagning á félagslegu landslagi í Reykjavík, greining á hetjunni og bjargvættinum í íslensku samfélagi og frásögn á hve slæmt ástandið er utan Íslands. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband