Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Skrauthnappar - lítil listaverk

Prickie.com hnappar

Ég pantaði mér skrauthnappa frá Prickie.com, ég keypti  10 hnappa og samtals kostuðu þeir um 2100 kr íslenskar. Hér er mynd af sex af hnöppunum sem ég valdi.  

Mér finnst svona hnappar vera fallegir skartgripir og ég vona að einhvern tíma í framtíðinni verði svona hönnun vinsæl. Flestir tengja  hnappa og barmmerki við baráttu stjórnmálafélaga og alls konar félagsskapa, þar sem fólk gefur til kynna samstöðu með einhverjum málstað sem tengist  trú, stjórnmálaskoðunum eða lífsstíl. En barmmerki geta bara verið listaverk í sjálfu sér eins og þessir skrauthnappar. Listamenn geta hlaðið inn sinni hönnun og byrjað að selja. 

Svona vefþjónustur spretta upp , þetta er andstæðan við verksmiðjuframleiðslu, það er samband milli hönnuðar og kaupanda og hluturinn er ekki fjöldaframleiddur heldur framleiddur beint eftir óskum viðskiptavinar. Viðskiptavinurinn getur annað hvort keypt hönnun annarra eða sjálfur orðið hönnuður. Ef þetta virkar vel þá ætla ég að hanna mín eigin barmmerki til að selja á prickie.com 


Allir á móti hlerunum... nema þegar það kemur þeim sjálfum vel

Ég var að lesa grein Ólafs Hannibalssonar um símhleranir í Morgunblaðinu í dag og skinhelgi stjórnmálamanna gagnvart þeim. Halldór Baldursson túlkar þetta að vanda frábærlega með skopmynd sinni af stjórnmálamanninum með gloppótta minnið. En það er einkennileg fortíðarþrá í Mogganum í dag, það er eins og tíminn hafi staðið kyrr og síminn sé ennþá aðalgaldratólið og samskiptatækið. Ólafur Hannibalsson endar sinn mikla ritbálk með þessum orðum:

"Ég heiti á alla alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, að ganga nú svo frá þessum málum að fullljóst sé hverjum gegnum þjóðfélagsþegni, hver réttindi borgaranna eru í þessum efnum gagnvart snuðrunaráráttu ríkisvaldsins og setja með því ríkisvaldinu þær skorður í eitt skipti fyrir öll sem það getur ekki farið yfir í samskiptum sínum við borgara landsins, án þess að handhafar þess verði "uppvísir afbrotamenn".

Sameinist nú allir um kröfu sjálfstæðismanna frá 1936 um sérstaka rannsóknarnefnd í símanjósnunum samkvæmt 39. grein stjórnarskrárinnar, með umboði til að fara ofan í saumana í þessum álum frá upphafi til þessa dags." 

Símalína frá 1910

Ritbálkur Ólafs er góður og tímabær en ég vildi óska þess að fleiri en ég sæu að það eru breyttir tímar núna. Það hefur markvisst verið stefnt að því að leysa upp þjóðríkið á síðustu áratugum og það er ekki lengur til ríkisvald sem rekur símakerfi fyrir einstaklinga.  Það eru hins vegar til alþjóðleg stórfyrirtæki sem kaupa upp símafyrirtæki og samskiptaþjónustur víða um lönd. Flestar viðkvæmar upplýsingar um þegnanna sem líklegt er að einhver vilji hlera  fara um hendur ýmissa einkafyrirtækja svo sem Skýrr og Reiknistofu bankanna og Internetþjónustuaðila. Framtíð okkar og nútíð okkar er stafræn og möguleikar til hlerana eru óendanlega miklu meiri í stafrænum heimi heldur en voru á tímum Kalda stríðsins.  Það skiptir miklu  fyrir okkur að skoða hverjir það eru  það eru sem eiga samskiptamiðlana, upplýsingaveiturnar og sem stjórna hinum stafrænu samskiptum okkar og hvaða möguleika þeir hafa til að njósna um samskipti okkar og athafnir. Og hvernig á að passa almenna borgara fyrir að þeir misnoti ekki aðstöðu sína.

Þeir sem áhuga hafa á þessum málum ættu að lesa sér til um Carnivore og  annars konar hlerunarbúnað lögregluyfirvalda.


Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

Ég gleðst yfir áfangasigri bróður míns en ég held að það sé varhugavert að fagna of snemma. Mér sýnist hver ný niðurstaða í þessum málaflækjum sem  nú eru lenskan í ísl-ensku samfélagi  hvort sem það eru Baugsmál eða málaflækjur um málfrelsi Hannesar kalli á ný málaferli og í svoleiðis aðstæðum þá vinnur sá að endingu sem hefur mest fjárráð og mest þol til að standa í svona stappi.  Dómur sögunnar þarf hins vegar ekki að fara saman við niðurstöður dómsmála og ég hugsa að hvernig sem málin fara að endingu þá muni tíminn vinna með Hannesi.  En ég vona að Hannes verði eini maðurinn á Íslandi sem missir húsið sitt vegna þess að hann kunni ekki að uppfæra heimasíðuna sína sjálfur. Ég veit að hann vildi taka út ummælin um Jón á sínum tíma en það fórst fyrir vegna þess að það þurfti að fara í gegnum  milliliði. Ég vildi hann hefði talað við mig.

Ég rifja hér upp það sem ég hef áður skrifað um þetta mál undir titlinum "Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika? 

Blogg frá 7.10.05 á gamla blogginu mínu Metamorphoses:

"Þegar ég kom heim til Íslands var nýtt mál bróður míns í algleymingi, mál sem ég vissi ekki að væri til. Það virðast öll spjót standa á honum þessa dagana. Öll blöð og ljósvakamiðlar fjölluðu um að hann hefði verið dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði, fyrir að láta að því liggja að íslenskur athafnamaður hafði komið undir sig fótunum á eiturlyfjasölu. Þetta munu vera ummæli sem sögð voru á fjölmiðlaráðstefnu á Íslandi fyrir nokkrum árum og sem voru á íslenskri heimasíðu. Það mun vera til einhver samþykkt(Lugano samningur) sem Ísland er aðili að, sem kveður á um að dómar sem kveðnir eru upp í einu landi séu aðfararhæfir á Íslandi. Það er raunar eðlilegt í fjölþjóðasamfélagi, viðskiptahagsmunir eru ekki bara bundnir við ákveðið landssvæði. En mér finnst skrýtið og bein og harkaleg aðför að tjáningarfrelsi hér á Íslandi ef breskur dómstóll getur ákveðið hvað má segja á Íslandi.

Geta Íslendingar geta ekki gagnrýnt einhvern sem er atkvæðamikill í íslensku samfélagi og lýst íslenskum veruleika án þess að eiga á hættu að á þá falli dómur í Bretlandi? Ég hef hingað til alltaf haldið að það sem við segjum hérna á Íslandi og á íslenskum vettvangi sé eitthvað sem við þurfum að vera tilbúin til að verja fyrir íslenskum lögum. Ég hef kynnt mér íslensk lög og reyni að passa hvað ég segi miðað við þau. Ég hef engin tök á að kynna mér ensk lög og haga því sem ég segi eftir breskum reglum og ég geri ráð fyrir að það eigi við um velflesta Íslendinga.

Bróðir minn mun hafa látið að því liggja að þekktur og valdamikill íslenskur athafnamaður sem hefur núna dvalarleyfi í London muni hafa auðgast á eiturlyfjasölu. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við dópsalalistann hans Björns, ég sá í fjölmiðlum að nýlega hafa tveir lögreglumenn sem nafngreindir voru á listanum hafið málaferli og krefjast fébóta af Birni. Það mál er rekið á Íslandi. Í báðum þessum tilvikum eru menn ásakaðir um eiturlyfjasölu, menn sem augljóst er að skaðast af því að vera bendlaðir við slíka iðju og í báðum tilvikum eru það gögn á vefsíðu sem er það saknæma - annars vegar gögn á vefsíðu sem er vistuð á Íslandi og hins vegar gögn á vefsíðu sem vistuð er á blogspot.

Þessi mál eru mjög áhugaverð út frá tjáningarfrelsi, hver er lögsaga Internetsins, nær íslensk lögsaga yfir það sem skrifað er á blogspot og nær bresk lögsaga yfir það sem er skrifað í íslenskum vefrýmum? Er alveg sama hvar við vistum gögn okkar og upplýsingar, er hægt að sækja okkur til saka hvar sem er í heiminum? Eða getum við fengið okkur vefsvæði í Malasíu eða einhverju landi sem ekki er aðili að milliríkjasamningum, skráð okkur undir dulnefni og þannig verið hrópendur í útlegð og tjáð okkur hömlulaust um íslenskt samfélag? Það eru reyndar til nokkur íslensk netsamfélög þar sem flestir virðast undir dulnefni og vettvangurinn er vistaður erlendis s.s. malefnin.com og hugsjon.com

Ég get ekki séð að það sé með nokkru móti mögulegt að koma böndum á Internetið og ritstýra orðræðu þar með meiðyrðalöggjöf, það er vissulega hægt að elta uppi þá sem skrifa undir nafni og þá sem skrifa í vefrýmum sem vistuð eru á Íslandi. En ef miklar hömlur og viðurlög eru við að fólk tjái sig undir nafni þá mun sennilega flest svona tjáning fara fram nafnlaus og með hætti þar sem ekki er hægt að rekja.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga. Tjáningarfrelsi er ekki bara að verja rétt þeirra sem eru sammála okkur og tjá sig á þann hátt sem við viljum, tjáningarfrelsið er líka fyrir óvini okkar, óvinsælar skoðanir og upplýsingar og gögn sem okkur finnst að ætti ekki að tjá sig um. Tjáningarfrelsi er líka fyrir rógburð og illmælgi. Fólk verður hins vegar að vera tilbúin til að verja mál sitt og sýna fram á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem það hefur fram að færa og sæta refsiábyrgð ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti eða eru upplýsingar sem ekki má birta t.d. sem varða einkahagi og persónuvernd.

Það er réttlætismál að sem minnstar hömlur séu á tjáningarfrelsi, í mörgum tilvikum er það eina vopn hins smáða og réttlausa að hafa rödd og geta tjáð sig um kúgunina. Þannig er hins vegar að samfélög eru oft skipulögð þannig að eina röddin sem heyrist og bergmálar í samfélaginu eru rödd þeirra sem hafa þegar völd og áhrif - og það eru í gangi alls konar mekanismar til að þagga niður raddir jaðarsettra hópa. Heimspekingurinn Voiltaire sagði :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" og ég vil geta sagt það sama. Það skiptir ekki máli hversu vel okkur geðjast að því sem einhver segir, það mikilvægasta er að það séu sem minnstar hömlur lagðar á tjáningarfrelsi viðkomandi.

Einn liður í kúgun er að maður sé dæmdur eftir leikreglum sem maður þekkir ekki og sem maður hefur enga möguleika á að hafa áhrif á. Við Íslendingar getum fylgst vel með íslenskum lögum og ef okkur finnst þau ósanngjörn þá getum við barist fyrir breytingum á þeim. Við höfum hins vegar enga möguleika á að hafa áhrif á bresk lög og fæst okkar vita einu sinni hvaða lög og reglur gilda í Bretlandi - ég geri ráð fyrir að fæst okkar hafi leitt hugað að því að þau gætu þurft að hlíta dómi í útlöndum yfir það sem við segjum hérna.

Það hvernig við tjáum okkur um íslenskan veruleika er hluti af íslenskri menningu. En hérna er tjáningin oft svo hömlulaus og tillitslaus við menn og málefni að það er þörf á nýjum vinnureglum. Hérlendis eru gífurlega margir sem tjá sig í netrýmum og þeir tjá sig oft alveg eins og þeir væru að tjá sig við vinahóp sinn í einkasamkvæmi. Það hefur komið sumum bloggurum illa að hafa ekki viðhaft nógu mikla varúð í umtali. Í ágúst síðastliðnum missti fjölmiðlamaður á RÚV vinnuna vegna þess að hann fór mjög óvægnum orðum um nafngreinda Íslendinga á bloggsíðu sinni. Það var umræða um þetta mál og bloggfrelsi á málefnavefnum og ég skrifa þar 26. ágúst svohljóðandi hugleiðingu:

".......
Það eru því miður margir Íslendingar sem tjá sig svona á bloggsíðum, sérstaklega er margt ungt fólk sem finnst svona tjáningarmáti bara vera eðlilegur. Ég veit að margt af því fólki er ágætt sem einstaklingar en það kann sér bara ekki hófs í opinberri orðræðu. Það er líka þannig með íslenskt samfélag að til skamms tíma hefur verið hér mjög einleitur hópur Íslendinga sem allir hugsa mjög svipað og við höfum ekki kippt okkur neitt verulega upp við ruddalegt orðfæri, vegna nálægðarinnar þá þekkjum við einstaklingana á bak við og vitum hvaða meining býr að baki. Í öðrum samfélögum þar sem fjölbreytileikinn er meiri og fjöldinn meiri þá hefur þetta aldrei liðist. Það myndi strax vera farið í málaferli ef fólk leyfði sér sumt af því orðfæri sem ég hef séð á íslenskum bloggsíðum.

Ég hef oft óskað þess að einhver sem orðið hefur illa fyrir barðinu á umræðu á bloggsíðum fari í mál og það mál yrði til umræðu í fjölmiðlum, ég held að það væri einn liður í því að bloggarar lærðu mörkin milli þess sem þeir mega segja. Ég er viss um að fólk gætir orða sinna betur ef það kostar það mörg hundruð þúsund að svívirða aðra.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að bróðir minn lagði fram útprent af bloggsíðu í málaferlum sem hann er sakborningur í núna, þ.e. þessu gæsalappamáli. Þar hafði bloggari sem tengdur er fjölskyldu Halldórs Laxness ráðist á bróður minn af fullkominni heift og orðið sjálfum sér til skammar með níðskrifum. Þessi skrif bloggarans lýstu líka djúpstæðum fordómum hans á samkynhneigðu fólki, fordómum sem hann gerði sér ábyggilega ekki grein fyrir sjálfur.

Þessi bloggari er listamaður sem ég dái og ég hef oft gaman af að lesa þetta blogg og skoða verk hans, ekki síst vegna þess að í bæði orðum hans og myndum býr kraftur. Svona svipað eins og í bloggi dr. Gunna sem er geysiskemmtilegur bloggari sem þó á það til að vera óvæginn og kjarnyrtur þegar hann talar um menn og málefni. En mér finnst aðalatriðið að dæma ekki fólk af því sem það gerir verst og hafa hugann við að bloggið og svona tjáning almennings er nýr miðill og það eru einnþá bernskubrek þar, fólk er ekki búið að læra á hvernig að umgangast svona miðla..."

Þegar ég les þetta yfir þá finnst mér lífið skrýtið, ég hef oft óskað þess að einhver hefji málaferli til að lækka rostann í netverjum og kenna þeim mannasiði en svo hefur það gerst að Jón Ólafsson sem er ekki vammlausasti maður Íslandssögunnar (smáníð til að prófa hvað margar milljónir ég þarf að borga fyrir þetta :-) hefur gerst sá krossfari og bróðir minn orðið sá sem var sakborinn.

Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu annarra og reynslu bróður míns og vera viðbúin því við verðum sótt til saka bæði fyrir að tala ógætilega um menn og málefni og fyrir brot á höfundarrétti. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt í þeim miklu hræringum sem eru í samskiptamunstri okkar þegar við hringsnúumst inn í netsamfélagið - þær venjur og þau lög og þær reglur sem gilda um orðræðu og hver má tala og hvenær og hvernig og hver á orð og hugsanir og hver má nota orð og hugsanir og hin hefðbundnu lög um tjáningarfrelsi og eignarrétt á hugverkum eru engan veginn í takt við hin nýja netsamfélag.

Ég geri ráð fyrir að bróðir minn hafi vel verið meðvitaður um áhættu á málaferlum sem hann tók með þessari orðræðu en hafi búist við því að það yrði málaferli á Íslandi miðað við þá mildu meiðyrðalöggjöf og refsingar sem hér tíðast. Það hefði líka verið líklegt að það neikvæða kastljós sem myndi þá beinast að Jóni Ólafssyni þar sem fortíð hans yrði gerð tortryggileg yrði til að málaferlin sköðuðu Jón mest sjálfan. Sumir bloggarar tala á mjög rætinn hátt um þekkta einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst stjórnmálamenn, eiginlega stundum í ofurdrambi þeirra sem halda að þeir séu óhultir vegna þess að stjórnmálamenn eða fyrirtæki sem þurfa að varðveita ímynd vilja með engu móti vera í umræðunni baðaðir í neikvæðu ljósi, skotspænir gróusagna og niðrandi kjaftasagna.

Bróðir minn vera á góðri leið með að verða píslarvottur og ég vona að hann haldi uppi öflugri málsvörn, ég vona að á orðræða á Íslandi verði í framtíðinni þannig að hann og aðrir Íslendingar geti gagnrýnt miskunnarlaust þá sem með völdin fara - hvort sem það eru fjármálaleg eða stjórnmálaleg völd - og að allir Íslendingar hafi aðgang að upplýsingum og gögnum en þau séu ekki lokuð inn fyrir útvalda og ég vona að einhvern tíma komi skilningur á því að við erum að fara inn í remix tíma þar sem ekkert er að því að endurnýta og endurvinna upp úr verkum annarra.

Mér finnst þær sakir sem á hann hafa verið bornar í tveimur óskyldum málaferlum vera öðrum þræði spurning um hver má lýsa íslenskum veruleika og hver má skrá íslenska sögu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á verk hans eða hann verði að standa fyrir máli sínu en sú aðför sem er að honum núna er svo heiftúðug að það nálgast vitfirringu."


mbl.is Yfirréttur ógilti dóm sem kveðinn hafði verið upp yfir Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýla Ómars Ragnarssonar

Grýla Ómars Ragnarssonar á heima við Kárahnjúka og ef hún greiðir á sér hárið þá er það reitt og rifið eins og ryðgað víradrasl. Ég náði að festa á mynd Kárahnjúkagrýluna þar sem hún er á ferð í einum af trukkum sínum fullum af grjóthnullungum sem hún er núna að bryðja niður í sinni stóru og miklu steypuhrærivél.

karahnjukagrjotbill
Salvör teiknaði Grýlu á mynd Friðriks Dýrfjörð af grjótflutningsbíl við Kárahnjúka

 

Hér er það sem ég skrifaði um Grýlu Ómars árið 1996:

Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar

Í næstelsta kvæðinu, Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar býr Grýla stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli? 

Brot úr Grýlukvæði eftir Ómar Ragnarsson:

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

Orð dagsins er seiðmagnað

Til bókmenntaverðlauna eru tilnefndar bækur eftir  fágæta höfunda sem skapa seiðmagnað andrúmsloft og seiðmagnaðar bækur þar sem meginstefin eru sterkustu öflin í mannlegri tilveru.  Þetta er nú bara orðalag sem útgefandi hinna seiðmögnuðu sendir frá sér til að lýsa vörunni.  Ég vona alla vega að bækur Braga og Ólafs séu ekki eins bragðdaufar og  þessar seiðmögnuðu lýsingar. 

 En ég spái í hvort söguhetjurnar  Sturla Jón og Gísella Dal hafi einhvern sameiginlegan þráð, eitthvað sem bendir á tíðarandann og núið og núningsfletina á Íslandi.

 Þessa fann ég um Sendiherrann eftir Braga Ólafsson,
"Sagan af íslenska ljóðskáldinu Sturlu Jóni Jónssyni lýsir glímu hans við hinn miður ljóðræna raunveruleika, en einnig baráttu hans við glæpamanninn sem býr í okkur öllum. Hinn menningarlegi sendiherra lands síns þarf að bregðast við óvæntum áföllum á erlendri grund, en einnig gleðilegum eins og kynnunum af skáldkonunni Liliyu Boguinskaia, og hann þarf að kljást við þá ógn sem hans eigin sköpun hefur í för með sér - þau þungu sannindi að til að vera við sjálf þurfum við að stela frá öðrum. "

Þetta fann ég um Tryggðarpant Auðar Jónsdóttur
"Gísella Dal lifir fullkomnu lífi. Hún býr í stórri íbúð, er fastagestur á fínustu snyrtistofum, drekkur eðalvín og borðar exótískan mat, á milli þess sem hún skrifar stöku grein í tímarit, meira til gamans. En dag einn fær Gísella þær fréttir að ríkulegur arfur ömmu hennar sé uppurinn og að hugsanlega þurfi hún að fórna öllum sínum lífsstíl og fara að vinna fyrir sér. Þar til henni hugkvæmist að fá sér leigjendur ..."

Ég las líka ritdóminn sem Soffía Auður Birgisdóttir skrifaði um Tryggðapant í dag.

Alla vega er það sameiginlegt að bæði Sturla og Gísella eru ekki bændur eða vinna í fiski  ala Bjartur og Salka Valka  og virðist vera einhvers konar afætur og   sögur af þeim fjalla um Ísland og alþjóðavæðinguna. Sögusviðið er ekki sjávarþorpið eða bóndabærinn, núningurinn er ekki milli borgar og sveitar heldur milli Íslands og útlanda. 

Guðlausir menn er sennilega aðeins nýrri tónn í bókmenntum. Um þá ljóðabók segir: "Ljóðmælandi svo persónulegur að oft er eins og verið sé að lesa upp úr bloggsíðu, þar sem bloggað er í skjóli nafnleysis og persónuleg vandamál og holskeflur þær sem steypast yfir fólk eru gerðar opinberar. ". 

Blogg eru ekki endilega persónuleg en blogg eru saga sögð frá sjónarhóli og vitund þess sem skrifar. Það er fróðlegt að sjá hvernig bloggskrifmenning heldur innreið sína í bókmenntir. Sennilegt er að þeir rithöfundar sem munu vaxa upp á næsta áratug fái sína fyrstu skrifreynslu á bloggi. Bloggskrifmenning seitlar hægt og síast inn í bókmenntir, Hallgrímur Helgason gerði tilraun í fyrra með bloggandi sögupersónu.


mbl.is Tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna kynntar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðrún Halldórs opnar dyr

Guðrún Halldórs áritar bókÉg fór á laugardaginn í Vinabæ en þar var fagnað útkomu á bók um ævi Guðrúnar Halldórsdóttur sem var lengi skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur. Guðrúnu hef ég þekkt frá því ég byrjaði að kenna, hún kom oft í heimsókn í Ármúlaskóla því hún var vinkona margra  kennara þar, þau höfðu unnið  saman í Lindagötuskólanum.  Svo kynntist ég Guðrúnu betur í Kvennalistanum. Ég fór með Guðrúnu í vinnustaðaheimsókn í þvottahús ríkisspítalanna fyrir einar kosningar. Allir þekktu Guðrúnu og tóku henni eins og vini og velgjörðarmanni og glöddust yfir komu okkar og sýndu okkur vinnuferlið. Guðrún flutti  stutta  tölu í matsalnum, ég man að hún talaði um ólæsi, hún talaði um námsörðugleika og hún sagði frá fólki sem alltaf hefði týnt gleraugunum sínum þegar til stæði að lesa eitthvað.

Guðrún var alla sína tíð með púlsinn á því hvar þörfin var mest og hverjir þyrftu mest á menntun að halda. Einu sinni voru það konur í láglaunastörfum og atvinnulausar konur en seinustu árin hafa það verið útlendingar sem koma til landsins til að vinna láglaunastörf og störf þar sem ekki þarf að tala málið. Guðrún er ein af mestu kvenskörungum á Íslandi. 

Myndin er af Guðrúnu þegar hún áritaði bók sína og Myako Þórðarson  sem er prestur heyrnalausra. Myako er ættuð frá  Japan.


Mynd mín af Hallgrími Péturssyni

Ég ætlaði á sýninguna í Hallgrímskirkju á laugardaginn þar sem margir listamenn sýna myndir sínar af Hallgrími Péturssyni en ég fór dagavillt. Ég skóp því mína eigin mynd af Hallgrími Péturssyni í þann efnivið sem ég þekki. Þemað er holdsveiki og trú, líkami og sál.

Hér er myndin:

Myndin af Hallgrími

Myndin er  er remix mitt úr þremur myndum sem ég fann á Wikimedia Commons. Þema myndarinnar er innblásin trú, mót austurs og vesturs, þeir sem eru utan gátta, veikir afskæmdir og útskúfaðir.  Bakgrunnurinn er mynd úr kórani Al Andalus frá 11. öld og mynd af holdsveikrakapellu í Cambridge. Í forgrunni er máluð mynd af íslenskri holdsveikri konu úr Íslandsleiðangri fyrri tíma.  


Móðuharðindi bernskunnar

Bernska mín er sveipuð móðu  úr filterlausum kamelsígarettum. Bernskuminningin úr eldhúsinu á Laugarnesvegi 100 er konur í Hagkaupssloppum, drekkandi kaffi, reykjandi kamel og ræðandi fréttir dagsins. Sunnudagsbíltúrar í sveitina voru martröð, foreldrar mínir keðjureyktu og úti fyrir þyrlaðist upp moldarský af ómalbikuðum vegum. Ég hét því að reykja aldrei. Ég stóð ekki við það. Ég byrjaði að reykja 14 ára  og reykti meira en pakka á dag í mörg ár.

Margir af kynslóð foreldra minni væru ennþá á lífi ef þeir hefðu ekki reykt, þeir hafa dáið úr reykingatengdum sjúkdómum, úr lungnakrabbameini og öðrum krabbameinum tengdum öndunarvegi. 

Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk getur talið það hluta af frelsi að hafa frelsi til að fara sér að voða, hvaða frelsi er það að fá að eyðileggja heilsuna og  menga fyrir öðrum með stórhættulegum eiturefnum?  


mbl.is 10% unglinga í tíunda bekk reykja daglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olíumálverk - Snerting, sjón og tjáning

Þrjár kisur

Einhvern tíma geri ég kannski flóknari olíumálverk en þetta er sem sagt mynd af þremur málverkum eftir mig sem ég var að klára.  Fyrsta myndin er um snertingu, næsta mynd um það sem maður sér og þriðja myndir er um tjáningu. Ég rúllaði bláa grunninn með lítilli málningarrúllu. Það kemur bara vel út, liturinn verður þynnri en ella.


Austurstræti, ys og læti...fálkaæti

Alltaf missi ég af öllu fjörinu. Fálki í Austurstræti. Haförninn sloppinn úr Húsdýragarðinum og floginn út á Grundarfjörð. Og mig sem vantar svo mikið betri ljósmyndir af fálka og erni á Íslandi. Ég skrifaði grein á íslensku Wikipedia um fálka og um haförn en það eru ekki nógu góðar myndir við greinarnar. Ég verð að halda mig við myndir sem til eru á Wikimedia Commons eða hlaða sjálf inn myndum.  Mig vantar líka myndir af fálkum, haförnum og rjúpum til að nota  í wikibók.


mbl.is Ungur fálki að snæðingi í Austurstræti; lét fjölmiðla ekki raska ró sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband