Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

Ég gleðst yfir áfangasigri bróður míns en ég held að það sé varhugavert að fagna of snemma. Mér sýnist hver ný niðurstaða í þessum málaflækjum sem  nú eru lenskan í ísl-ensku samfélagi  hvort sem það eru Baugsmál eða málaflækjur um málfrelsi Hannesar kalli á ný málaferli og í svoleiðis aðstæðum þá vinnur sá að endingu sem hefur mest fjárráð og mest þol til að standa í svona stappi.  Dómur sögunnar þarf hins vegar ekki að fara saman við niðurstöður dómsmála og ég hugsa að hvernig sem málin fara að endingu þá muni tíminn vinna með Hannesi.  En ég vona að Hannes verði eini maðurinn á Íslandi sem missir húsið sitt vegna þess að hann kunni ekki að uppfæra heimasíðuna sína sjálfur. Ég veit að hann vildi taka út ummælin um Jón á sínum tíma en það fórst fyrir vegna þess að það þurfti að fara í gegnum  milliliði. Ég vildi hann hefði talað við mig.

Ég rifja hér upp það sem ég hef áður skrifað um þetta mál undir titlinum "Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika? 

Blogg frá 7.10.05 á gamla blogginu mínu Metamorphoses:

"Þegar ég kom heim til Íslands var nýtt mál bróður míns í algleymingi, mál sem ég vissi ekki að væri til. Það virðast öll spjót standa á honum þessa dagana. Öll blöð og ljósvakamiðlar fjölluðu um að hann hefði verið dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði, fyrir að láta að því liggja að íslenskur athafnamaður hafði komið undir sig fótunum á eiturlyfjasölu. Þetta munu vera ummæli sem sögð voru á fjölmiðlaráðstefnu á Íslandi fyrir nokkrum árum og sem voru á íslenskri heimasíðu. Það mun vera til einhver samþykkt(Lugano samningur) sem Ísland er aðili að, sem kveður á um að dómar sem kveðnir eru upp í einu landi séu aðfararhæfir á Íslandi. Það er raunar eðlilegt í fjölþjóðasamfélagi, viðskiptahagsmunir eru ekki bara bundnir við ákveðið landssvæði. En mér finnst skrýtið og bein og harkaleg aðför að tjáningarfrelsi hér á Íslandi ef breskur dómstóll getur ákveðið hvað má segja á Íslandi.

Geta Íslendingar geta ekki gagnrýnt einhvern sem er atkvæðamikill í íslensku samfélagi og lýst íslenskum veruleika án þess að eiga á hættu að á þá falli dómur í Bretlandi? Ég hef hingað til alltaf haldið að það sem við segjum hérna á Íslandi og á íslenskum vettvangi sé eitthvað sem við þurfum að vera tilbúin til að verja fyrir íslenskum lögum. Ég hef kynnt mér íslensk lög og reyni að passa hvað ég segi miðað við þau. Ég hef engin tök á að kynna mér ensk lög og haga því sem ég segi eftir breskum reglum og ég geri ráð fyrir að það eigi við um velflesta Íslendinga.

Bróðir minn mun hafa látið að því liggja að þekktur og valdamikill íslenskur athafnamaður sem hefur núna dvalarleyfi í London muni hafa auðgast á eiturlyfjasölu. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við dópsalalistann hans Björns, ég sá í fjölmiðlum að nýlega hafa tveir lögreglumenn sem nafngreindir voru á listanum hafið málaferli og krefjast fébóta af Birni. Það mál er rekið á Íslandi. Í báðum þessum tilvikum eru menn ásakaðir um eiturlyfjasölu, menn sem augljóst er að skaðast af því að vera bendlaðir við slíka iðju og í báðum tilvikum eru það gögn á vefsíðu sem er það saknæma - annars vegar gögn á vefsíðu sem er vistuð á Íslandi og hins vegar gögn á vefsíðu sem vistuð er á blogspot.

Þessi mál eru mjög áhugaverð út frá tjáningarfrelsi, hver er lögsaga Internetsins, nær íslensk lögsaga yfir það sem skrifað er á blogspot og nær bresk lögsaga yfir það sem er skrifað í íslenskum vefrýmum? Er alveg sama hvar við vistum gögn okkar og upplýsingar, er hægt að sækja okkur til saka hvar sem er í heiminum? Eða getum við fengið okkur vefsvæði í Malasíu eða einhverju landi sem ekki er aðili að milliríkjasamningum, skráð okkur undir dulnefni og þannig verið hrópendur í útlegð og tjáð okkur hömlulaust um íslenskt samfélag? Það eru reyndar til nokkur íslensk netsamfélög þar sem flestir virðast undir dulnefni og vettvangurinn er vistaður erlendis s.s. malefnin.com og hugsjon.com

Ég get ekki séð að það sé með nokkru móti mögulegt að koma böndum á Internetið og ritstýra orðræðu þar með meiðyrðalöggjöf, það er vissulega hægt að elta uppi þá sem skrifa undir nafni og þá sem skrifa í vefrýmum sem vistuð eru á Íslandi. En ef miklar hömlur og viðurlög eru við að fólk tjái sig undir nafni þá mun sennilega flest svona tjáning fara fram nafnlaus og með hætti þar sem ekki er hægt að rekja.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga. Tjáningarfrelsi er ekki bara að verja rétt þeirra sem eru sammála okkur og tjá sig á þann hátt sem við viljum, tjáningarfrelsið er líka fyrir óvini okkar, óvinsælar skoðanir og upplýsingar og gögn sem okkur finnst að ætti ekki að tjá sig um. Tjáningarfrelsi er líka fyrir rógburð og illmælgi. Fólk verður hins vegar að vera tilbúin til að verja mál sitt og sýna fram á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem það hefur fram að færa og sæta refsiábyrgð ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti eða eru upplýsingar sem ekki má birta t.d. sem varða einkahagi og persónuvernd.

Það er réttlætismál að sem minnstar hömlur séu á tjáningarfrelsi, í mörgum tilvikum er það eina vopn hins smáða og réttlausa að hafa rödd og geta tjáð sig um kúgunina. Þannig er hins vegar að samfélög eru oft skipulögð þannig að eina röddin sem heyrist og bergmálar í samfélaginu eru rödd þeirra sem hafa þegar völd og áhrif - og það eru í gangi alls konar mekanismar til að þagga niður raddir jaðarsettra hópa. Heimspekingurinn Voiltaire sagði :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" og ég vil geta sagt það sama. Það skiptir ekki máli hversu vel okkur geðjast að því sem einhver segir, það mikilvægasta er að það séu sem minnstar hömlur lagðar á tjáningarfrelsi viðkomandi.

Einn liður í kúgun er að maður sé dæmdur eftir leikreglum sem maður þekkir ekki og sem maður hefur enga möguleika á að hafa áhrif á. Við Íslendingar getum fylgst vel með íslenskum lögum og ef okkur finnst þau ósanngjörn þá getum við barist fyrir breytingum á þeim. Við höfum hins vegar enga möguleika á að hafa áhrif á bresk lög og fæst okkar vita einu sinni hvaða lög og reglur gilda í Bretlandi - ég geri ráð fyrir að fæst okkar hafi leitt hugað að því að þau gætu þurft að hlíta dómi í útlöndum yfir það sem við segjum hérna.

Það hvernig við tjáum okkur um íslenskan veruleika er hluti af íslenskri menningu. En hérna er tjáningin oft svo hömlulaus og tillitslaus við menn og málefni að það er þörf á nýjum vinnureglum. Hérlendis eru gífurlega margir sem tjá sig í netrýmum og þeir tjá sig oft alveg eins og þeir væru að tjá sig við vinahóp sinn í einkasamkvæmi. Það hefur komið sumum bloggurum illa að hafa ekki viðhaft nógu mikla varúð í umtali. Í ágúst síðastliðnum missti fjölmiðlamaður á RÚV vinnuna vegna þess að hann fór mjög óvægnum orðum um nafngreinda Íslendinga á bloggsíðu sinni. Það var umræða um þetta mál og bloggfrelsi á málefnavefnum og ég skrifa þar 26. ágúst svohljóðandi hugleiðingu:

".......
Það eru því miður margir Íslendingar sem tjá sig svona á bloggsíðum, sérstaklega er margt ungt fólk sem finnst svona tjáningarmáti bara vera eðlilegur. Ég veit að margt af því fólki er ágætt sem einstaklingar en það kann sér bara ekki hófs í opinberri orðræðu. Það er líka þannig með íslenskt samfélag að til skamms tíma hefur verið hér mjög einleitur hópur Íslendinga sem allir hugsa mjög svipað og við höfum ekki kippt okkur neitt verulega upp við ruddalegt orðfæri, vegna nálægðarinnar þá þekkjum við einstaklingana á bak við og vitum hvaða meining býr að baki. Í öðrum samfélögum þar sem fjölbreytileikinn er meiri og fjöldinn meiri þá hefur þetta aldrei liðist. Það myndi strax vera farið í málaferli ef fólk leyfði sér sumt af því orðfæri sem ég hef séð á íslenskum bloggsíðum.

Ég hef oft óskað þess að einhver sem orðið hefur illa fyrir barðinu á umræðu á bloggsíðum fari í mál og það mál yrði til umræðu í fjölmiðlum, ég held að það væri einn liður í því að bloggarar lærðu mörkin milli þess sem þeir mega segja. Ég er viss um að fólk gætir orða sinna betur ef það kostar það mörg hundruð þúsund að svívirða aðra.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að bróðir minn lagði fram útprent af bloggsíðu í málaferlum sem hann er sakborningur í núna, þ.e. þessu gæsalappamáli. Þar hafði bloggari sem tengdur er fjölskyldu Halldórs Laxness ráðist á bróður minn af fullkominni heift og orðið sjálfum sér til skammar með níðskrifum. Þessi skrif bloggarans lýstu líka djúpstæðum fordómum hans á samkynhneigðu fólki, fordómum sem hann gerði sér ábyggilega ekki grein fyrir sjálfur.

Þessi bloggari er listamaður sem ég dái og ég hef oft gaman af að lesa þetta blogg og skoða verk hans, ekki síst vegna þess að í bæði orðum hans og myndum býr kraftur. Svona svipað eins og í bloggi dr. Gunna sem er geysiskemmtilegur bloggari sem þó á það til að vera óvæginn og kjarnyrtur þegar hann talar um menn og málefni. En mér finnst aðalatriðið að dæma ekki fólk af því sem það gerir verst og hafa hugann við að bloggið og svona tjáning almennings er nýr miðill og það eru einnþá bernskubrek þar, fólk er ekki búið að læra á hvernig að umgangast svona miðla..."

Þegar ég les þetta yfir þá finnst mér lífið skrýtið, ég hef oft óskað þess að einhver hefji málaferli til að lækka rostann í netverjum og kenna þeim mannasiði en svo hefur það gerst að Jón Ólafsson sem er ekki vammlausasti maður Íslandssögunnar (smáníð til að prófa hvað margar milljónir ég þarf að borga fyrir þetta :-) hefur gerst sá krossfari og bróðir minn orðið sá sem var sakborinn.

Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu annarra og reynslu bróður míns og vera viðbúin því við verðum sótt til saka bæði fyrir að tala ógætilega um menn og málefni og fyrir brot á höfundarrétti. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt í þeim miklu hræringum sem eru í samskiptamunstri okkar þegar við hringsnúumst inn í netsamfélagið - þær venjur og þau lög og þær reglur sem gilda um orðræðu og hver má tala og hvenær og hvernig og hver á orð og hugsanir og hver má nota orð og hugsanir og hin hefðbundnu lög um tjáningarfrelsi og eignarrétt á hugverkum eru engan veginn í takt við hin nýja netsamfélag.

Ég geri ráð fyrir að bróðir minn hafi vel verið meðvitaður um áhættu á málaferlum sem hann tók með þessari orðræðu en hafi búist við því að það yrði málaferli á Íslandi miðað við þá mildu meiðyrðalöggjöf og refsingar sem hér tíðast. Það hefði líka verið líklegt að það neikvæða kastljós sem myndi þá beinast að Jóni Ólafssyni þar sem fortíð hans yrði gerð tortryggileg yrði til að málaferlin sköðuðu Jón mest sjálfan. Sumir bloggarar tala á mjög rætinn hátt um þekkta einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst stjórnmálamenn, eiginlega stundum í ofurdrambi þeirra sem halda að þeir séu óhultir vegna þess að stjórnmálamenn eða fyrirtæki sem þurfa að varðveita ímynd vilja með engu móti vera í umræðunni baðaðir í neikvæðu ljósi, skotspænir gróusagna og niðrandi kjaftasagna.

Bróðir minn vera á góðri leið með að verða píslarvottur og ég vona að hann haldi uppi öflugri málsvörn, ég vona að á orðræða á Íslandi verði í framtíðinni þannig að hann og aðrir Íslendingar geti gagnrýnt miskunnarlaust þá sem með völdin fara - hvort sem það eru fjármálaleg eða stjórnmálaleg völd - og að allir Íslendingar hafi aðgang að upplýsingum og gögnum en þau séu ekki lokuð inn fyrir útvalda og ég vona að einhvern tíma komi skilningur á því að við erum að fara inn í remix tíma þar sem ekkert er að því að endurnýta og endurvinna upp úr verkum annarra.

Mér finnst þær sakir sem á hann hafa verið bornar í tveimur óskyldum málaferlum vera öðrum þræði spurning um hver má lýsa íslenskum veruleika og hver má skrá íslenska sögu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á verk hans eða hann verði að standa fyrir máli sínu en sú aðför sem er að honum núna er svo heiftúðug að það nálgast vitfirringu."


mbl.is Yfirréttur ógilti dóm sem kveðinn hafði verið upp yfir Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband