Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Móðuharðindi bernskunnar

Bernska mín er sveipuð móðu  úr filterlausum kamelsígarettum. Bernskuminningin úr eldhúsinu á Laugarnesvegi 100 er konur í Hagkaupssloppum, drekkandi kaffi, reykjandi kamel og ræðandi fréttir dagsins. Sunnudagsbíltúrar í sveitina voru martröð, foreldrar mínir keðjureyktu og úti fyrir þyrlaðist upp moldarský af ómalbikuðum vegum. Ég hét því að reykja aldrei. Ég stóð ekki við það. Ég byrjaði að reykja 14 ára  og reykti meira en pakka á dag í mörg ár.

Margir af kynslóð foreldra minni væru ennþá á lífi ef þeir hefðu ekki reykt, þeir hafa dáið úr reykingatengdum sjúkdómum, úr lungnakrabbameini og öðrum krabbameinum tengdum öndunarvegi. 

Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk getur talið það hluta af frelsi að hafa frelsi til að fara sér að voða, hvaða frelsi er það að fá að eyðileggja heilsuna og  menga fyrir öðrum með stórhættulegum eiturefnum?  


mbl.is 10% unglinga í tíunda bekk reykja daglega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er Fons?

Hvað er þetta Fons sem núna á 14,85% af 365 miðlum? Það eru frekar fátæklegar upplýsingar um það á vefsíðu fons. Þar stendur þetta eitt:

Fons er alþjóðlegt fjárfestingarfélag sem sérhæfir sig í fjárfestingum á fyrirtækjum með mikla framtíðarmöguleika til vaxtar og hagræðingar. Félagið kemur inn í fyrirtæki sem virkur eigandi og hjálpar til við ná hámarksárangri út úr rekstri fyrirtækja.

Mér finnst að fyrirtæki sem svona mikill völlur er á og stór spilari á íslenskum fjölmiðlamarkaði  gæti nú spanderað einhverju meira í upplýsingar á vefsíðu sinni.

Fons á Iceland Express og slatta af flugfélögum.

Fons á sænsku ferðaskrifstofuna Ticket 

 

 

 


mbl.is Straumur Burðarás selur allan sinn hlut í 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingalög, Myspace og kynferðisafbrotamenn

Félagslíf barna og unglinga er að flytjast yfir á Netið. Mikil gróska er í netsamfélögum eins og Myspace. Samkvæmt Alexa.com er Myspace fjórða mest sótta vefsvæðið í heiminum, næst á eftir Yahoo, MSN og Google. Í fimmta sæti er svo Youtube.  Flestir notendur Myspace eru ungir að árum. Mikil umræða hefur verið í bandarískum fjölmiðlum um Myspace og er aðgangur að því netsamfélagi víða bannaður í skólum. Hér er vefsíða sem ég tók saman um Myspace.

Samkvæmt frétt á Mbl.is í dag mun Myspace nú áforma að setja upp einhvers konar gagnagrunn og samkeyra upplýsingar til að  finna kynferðisafbrotamenn og koma í veg fyrir að þeir noti netsamfélagið.  Fyrir þá sem þekkja hvernig Myspace vinnur þá eru þetta vægast sagt undarlegar fréttir, það er afar ólíklegt að dæmdir kynferðisafbrotamenn með einbeittan brotavilja gefi upp persónugreinanlegar upplýsingar um sig nema þeir séu sérstaklega heimskir. Það er langlíklegast að þeir sigli undir fölsku flaggi, ljúgi til um aldur og  önnur atriði sem þarf að skrá þegar Myspace reikningur er stofnaður. 

Þetta síðasta útspil Myspace er sennilega til að slá ryki í augun á almenningi sem ekki veit hvernig svona netsamfélög virka og  viðhalda þeirri blekkingu að þarna sé virkt eftirlit. En það er annar flötur á þessu máli. Þetta er ógnvekjandi út frá persónuverndarsjónarmiðum. Það er nauðsynlegt að vera á verði gagnvart því að ekki sé þrengt að borgurum heimsins í vefrýmum  undir því yfirskini að hafa þurfi hendur í hári  misyndismanna. Eftirlit með netrýmum er sérstaklega réttlætt með ótta við kynferðisafbrotamenn og hryðjuverkamenn. 

Hér mjög skrýtin frétt á ensku þar sem stendur að Myspace berjist í USA fyrir lögum um að netföng kynferðisafbrotamanna verði skráð í sérstakan gagnabanka. Þetta er nú meiri skrípaleikurinn. Það er auðveldara en drekka vatn að verða sér út um netfang og ólíklegt þrátt fyrir að slík lög yrðu samþykkt að kynferðisafbrotamenn skráðu sig inn á Myspace undir sérstöku perranetfangi sem myndi draga athygli að þeim.  

Hér er hluti af fréttinni á ensku: 

Sentinel Tech Holding Corp. will build a searchable database containing information on sex offenders in the U.S. who are registered with various federal and state law enforcement agencies. The database, which will be frequently updated, will include details such as name, age, physical appearance and distinguishing features like tattoos and scars.

MySpace staff will monitor the site 24-hours-a-day for sex offenders who are on the list. They'll remove any matching profiles that they find.

MySpace has been lobbying for new legislation that could help it take the program one step further. The company wants a law that requires sex offenders to register their e-mail addresses in a national sex-offender database. The law would stipulate that the use of an unregistered e-mail constitutes a parole or probation violation, forcing offenders back to jail. If such a law is passed, MySpace can more easily identify sex offenders that have profiles on its site, the company said IT world
 


mbl.is Kynferðisafbrotamenn útilokaðir frá MySpace
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Offita barna mest í Breiðholti

Offita barna mest í BreiðholtiÞað er áhugavert að skoða forsíðu Fréttablaðsins í dag og spá í  hvaða heimsmynd birtist okkur. Það eru þrjár fyrirsagnir á forsíðu Fréttablaðsins í dag.

Fyrsta fyrirsögnin er "Offita barna mest í Breiðholti" Í þeirri grein er teiknað upp aðstöðukort af Reykjavík eftir þyngdarstuðli barna. Í greininni stendur: "Niðurstöðurnar eru byggðar á sextán þúsund mælingum á þyngd barna sem framkvæmdar hafa verið af heilsugæslunni í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu síðastliðin tvö ár. Þyngd barnanna var mæld í 1., 4., 7. og 9. bekk. Tölurnar voru greindar út frá sérstökum líkamsþyngdarstuðli og voru mælingarnar skráðar í rafrænt forrit"

Ég efast ekki um að þessar tölur séu réttar og þetta séu vandaðar mælingar og tölfræði. En hverjum glymur bjallan? Í greininn segir: "Ragnheiður segir að ef félagsleg staða foreldra barnanna sé borin saman eftir póstnúmerum, kemur fram að hlutfall offitu og ofþyngdar er hærra í hverfum þar sem menntunarstig er lægra."

Hvers vegna er búseta og þyngd barna tekin saman? Hvers vegna er menntunarstig foreldra og þyngd barna tekin saman? 

Svarið er sennilega að þetta eru upplýsingar sem eru aðgengilegar og auðvelt að samkeyra, það er vitað í hvaða póstnúmeri börn búa og það er væntanlega í skólabókhandi upplýsingar um menntun foreldra.  En fyrir mér sem les þessa frétt þá  virkar hún eins og kortlagning fjölmiðla og rannsakenda (vegna þess hvaða breytur þeir kjósa að bera saman) á því  hvaða börn  eru úti í kuldanum  í íslensku samfélagi. Það eru börn yfir kjörþyngd sem búa í ákveðnum hverfum og eiga foreldra sem ekki eru háskólagengin.  Almenningur treystir könnunum og tölfræði og spyr ógjarnan spurninga um hvers vegna ákveðin  framsetning eða nálgun er valin og hvað hún gerir fyrir þá hópa sem standa höllum fæti.  

 Önnur fyrirsögnin er "Gaf 21 milljón til bágstaddra" og þar er mynd af Jóhannesi í Bónus að afhenda gjöf og m.a. þessi texti: "Samtals hljóðar aðstoðin upp á 21 milljón. Jóhannes segir að upphæðin hafi verið ákveðin til að minna á 21 milljónar króna aukafjárveitingu sem dómsmálaráðuneytið fékk í haust til að ráða sérstakan saksóknara í Baugsmálinu svokallaða." Þessi frétt er nú dáldið mikið yfir markið og á dansar á milli þess að vera fyndin eða nöturlegur vitnisburður um hverjir hafa rödd og aðstöðu  í íslenskum fjölmiðlum og íslensku athafnalífi.  Þetta er frétt um bjargvættinn og góða manninn í íslensku samfélagi en við fáum jafnfram að vita af því að gæska hans er háð því hvernig honum tekst til við íslensk stjórnvöld. Ég velti því fyrir mér hvort þessi frétt hefði ratað á forsíðu ef Jóhannes ætti ekki fjölmiðilinn sem fréttin birtist í.

 Þriðja fyrirsögn "Verra en þegar Saddan ríkti" segir okkur frá óöld í fjarlægum löndum. Þar er ekki góði maðurinn að gefa fátækum eins og Jóhannes hér heima heldur er ástandið orðið verra en í helvíti, hvað getur verið verra en sjálfur Saddan. 

Sem sagt, sá veruleiki sem birtist á forsíðu Fréttablaðsins í dag er kortlagning á félagslegu landslagi í Reykjavík, greining á hetjunni og bjargvættinum í íslensku samfélagi og frásögn á hve slæmt ástandið er utan Íslands. 


Siðblindir á meðal vor

Heilastarfsemin er öðru vísi í siðblindu fólki segir í þýddri frétt í Mogganum. En þetta er villandi frétt. Það segir: "Siðblinda einkennist af árásarhneigð og andfélagslegum persónueinkennum, og skorti á hluttekningu. Þeir sem haldnir eru siðblindu sýna engin merki iðrunar eða sektarkenndar þótt þeir fremji voðaverk eins og morð eða nauðganir."

Ég trúði þessu heldur ekki og fletti beint upp á greininni í BBC. Þar stendum skýrum stöfum:

"Criminal psychopaths are people with aggressive and anti-social personalities who lack emotional empathy.They can commit hideous crimes, such as rape or murder, yet show no signs of remorse or guilt."

Ég skil ekki af hverju þýðandi greinarinnar sleppir orði sem hefur gífurlega þýðingu. Það er afar mikill munur á því að vera siðblindur glæpamaður og að vera bara siðblindur. Það er eflaust líklegra að siðblint fólk komist í kast við lögin en fólk sem sér muninn á réttu og röngu. En það eru margir siðblindir sem ekki eru árásargjarnir og andfélagslegir, reyndar eru margir hættulegir siðblindir menn þannig að það kjaftar á þeim hver tuska og þeir ljúga sig í gegnum lífið  og slá ryki í augu samferðamanna sinna með því að gera sér upp tilfinningar.  Stundum glyttir reyndar í tóm sálarinnar, sérstaklega ef  siðblint fólk gerir sér upp tilfinningar og persónueiginleika sem það telur að séu eftirsóknarverðir en vegna þess að það býr ekki yfir þeim þá ofleikur fólk. 

Það er nú reyndar líka nærtækt dæmi búið að vera í fjölmiðlum nýlega  um þekktan siðblindan Íslending sem dæmdur var í fangelsi en hann er hvorki andfélagslegur né haldinn árásarhneigð, hann er þvert á móti hrókur alls fagnaðar og þekktur fyrir söng og  skemmtileg prakkarastrik. Hann kann hins vegar ekki að iðrast og heppnast mjög illa þegar hann reynir að réttlæta gerðir sínar. Seinheppin ummæli hans um tæknileg mistök eru orðin orðatiltæki.

Það eru margir siðblindir á meðal vor og þeir eru fæstir hverjir árásargjarnir glæpamenn. Í sumum störfum þá er meira segja betra að vera siðblindur og finna ekki til iðrunar og samvisku og að geta alltaf logið sig út úr aðstæðum og svífast einskis í hvaða meðölum er beitt. Þar má nefna heim fjármála og stjórnmála. Líka fíkniefnabransann.


mbl.is Heilastarfsemin frábrugðin í siðblindum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn Margrétar

Góður pistill  hjá Sveini Hirti þar sem hann hvetur Margréti Sverrisdóttur til að ganga í Framsóknarflokkinn. Ég tek undir það. Sá flokkur sem hefur svona öfluga konu eins og Margréti í forustu er vel settur.  Ég vona hins vegar að Margrét láti sverfa til stáls í sínum flokki og bjóði sig þar fram til formanns og meti svo stöðuna eftir því hver útkoman verður. Það mun ekki skorta boð frá öðrum stjórnmálaflokkum að fá Margréti til liðs við sig.  

Það er nú samt ekki rétt í pistlinum hjá Sveini Hirti að í Framsóknarflokknum séu engir karlaklúbbar. Það er alls ekki tekið vel á móti konum í því Framsóknarfélagi sem ég tilheyri en það er Framsóknarfélagið í Reykjavík Norður og þar hafa stjórnarhættir verið undarlegir.  En ég held að það félag sé undantekning og alls ekki sama staðan annars staðar í Framsóknarflokknum.  Framsóknarflokkurinn er flokkur þar sem konur hafa komist til áhrifa og það hafa náð að vaxa þar upp sterkar stjórnmálakonur.  Tölurnar tala, helmingur þingflokks og helmingur ráðherra Framsóknarflokksins eru konur. 


Ekki frétt dagsins - Coldplay semur ný lög

Vá, hljómsveitin Coldplay mun flytja ný lög á hljómleikaferð sinni í Suður-Ameríku. Mogginn færir okkur þessa mögnuðu frétt.  Ásamt því að ástandið í Írak sé verra en borgarastyrjöld.  Ég geri góðlátlegt grín að Mogganum fyrir heimóttarlegar fréttir en ég vil miklu frekar búa í heimi þar sem það er helst í fréttum að skapandi  tónlistamenn haldi áfram að vera skapandi tónlistamenn og miðli list sinni heldur en að umsátursástand um óbreytta borgara, ringulreið og ótti sé meiri en orðaforði okkar þekur. Hvað kallast ástand sem er verra en borgarastyrjöld?
mbl.is Coldplay flytur ný lög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslynt nýtt afl - Einhvers staðar verða vondir að vera

Þetta er nú meiri skrípaleikurinn hjá Frjálslynda flokknum, ég sárvorkenni liðsmönnum þeirrar hreyfingar. Ég myndi vera með hauspoka núna ef ég hefði slysast til að ganga í þann flokk á sínum tíma. Er þetta að breytast í einhverja rustalega fylkingu rasískra karla? Ég fatta ekki þetta upphlaup gegn Margréti Sverrrisdóttur sem er nú ein mesta prýðin á Frjálslynda flokknum. 

En það er ágætt fyrir kjósendur að hafa skýrar línur í kosningum. Frjálslyndi flokkurinn er útlendingahatursflokkurinn og karlaflokkurinn á Íslandi. Þar er konum bolað í burtu. En það er bara gott að rasistar eigi athvarf í einhverjum flokki. Lýðræðið er líka fyrir fólk sem aðhyllist aðrar skoðanir en ég. Það er nú líka eins satt núna og á dögum Guðmundar góða að einhvers staðar verða vondir að vera.


Fínir kandidatar hjá Vinstri Grænum

Mér líst bara vel á úrslitin hjá Vinstri grænum. Það verður fínt fólk í efstu sætunum.  Verst að ég gat ekki kosið því ég er ekki í Vinstri Grænum  og gæti nú samvisku minnar ekki gengið í þann flokk bara til að kjósa inn félaga mína úr Femínistafélaginu.  Ég læt mér nægja að vera samviska Framsóknarflokksins. 

Ég hefði kosið Kolbrúnu, Andreu og Kristínu og Guðfríði Lilju og Ögmund, Katrínu og Árna Þór.  Ég hef fylgst með störfum þeirra allra og treysti þeim vel í stjórnmálastarfi. Andrea og Kristín voru nú ekki í baráttunni um toppsætin en þær eiga framtíðina fyrir sér í stjórnmálum. Það kom mér reyndar á óvart að Árna Þór skuli ekki hafa gengið betur. En ætla vinstri grænir ekki að vera með fléttulista, þá myndi hann komast ofar út af kynjakvóta. Það myndi reyndar vera dáldið skemmtilegt í ljósi þess hvernig Vinstri Grænir skipuðu sinn lista í borgarstjórn. Það var virkilega flott að vera þá einir með konu í fyrsta sæti og átti Árni Þór sinn þátt í að stuðla að því.

Ég hef nú ekki gert formlega könnun en ég held að Vinstri Grænir séu meiri bloggarar en aðrir. Reyndar held ég að því fjær sem stjórnmálaöfl séu valdinu þeim mun líklegri eru þau til að nota nýjar aðferðir í miðlun.  Nafnarnir  Björn Ingi og Björn Bjarnason eru nú undantekningar í  stjórnmálaflokkum við stjórnvölinn en ég held að það stafi út af því að þeir eru báðir með bakgrunn úr blaðamennsku og átta sig því betur á þessum nýja miðli sem bloggið er. Blogg þeirra er partur af stjórmálaumræðu. Siv áttar sig líka vel á hve öflugur miðill bloggið er en hún notað það á annan hátt til að miðla upplýsingum um störf sín til fólks sem ekki er líklegt til að lesa pólitíska langhunda. Sá hópur er nú meirihlutinn af kjósendum. Siv notar markvisst myndir til að miðla upplýsingum um störf sín og ná til fólks. Fáir stjórnmálamenn hafa ennþá skilning á því hve mikilvægt það er. Ég var að skoða vefsíðu Katrínar Jakobs áðan. Ég nennti ekkert að lesa langhunda um pólitík, smellti bara beint á tengill þar sem stóð Myndir og varð fyrir vonbrigðum þegar bara birtist ein pínkulítil óskýr og óspennandi mynd. Katrín á langt í land með að ná Siv í þessu.


mbl.is Ögmundur, Katrín og Kolbrún efst í prófkjöri VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagsbrún var einu sinni verkalýðsfélag...

.... en núna er Dagsbrún ekkert tengd íslenskri verkalýðsbaráttu nema kannski til að sækja einhverja ímynd í nafnið meðal íslenskt almennings. Það er eilífur skopparaleikur með nöfn á þessum félögum sem eru að sameinast og sundrast örar en ég get fylgst með. Stundum held ég að þessi nafnaleikur sé einhver hluti af plottinu svona til að rugla okkur litlu hluthafana. Þetta segi ég nú bara út af beiskju vegna þess að ég strengdi þess heit á sínum tíma þegar útgerðarmönnum var fenginn í hendur kvótinn á íslenskum fiskimiðum að ég skyldi reyna að eiga minn skerf í miðunum og aflaheimildunum og einsetti mér að kaupa parta í íslenskum hlutafélögum sem ættu aflaheimildir þangað til ég væri komin upp í einn þrjúhundruðþúsundasta hluta af aflaheimildum landsins. Ég keypti hlutabréf í Eimskip sem þá hafði lengi, lengi keypt upp fiskveiðifyrirtæki og mér virtist það vera góð leið til að eiga minn part í fiskistofnum á miðunum, já þessum sömu og stendur í lögum að eigi að vera sameign íslensku þjóðarinnar.  Mér fannst líka svo flott að treysta Eimskip, var það kannski ekki óskabarn þjóðarinnar og sjálfstæðistákn. Svo gufaði Eimskip einhvern veginn upp og splundraðist í önnur félög  og málað var yfir merki félagsins í fyrrum húsi þess í miðbænum.  Nú er eitthvað annað félag  með útlensku nafni Avion Group sem er að taka yfir nafnið Eimskip og ég held að það sé eins skylt Eimskipafélaginu gamla og hin nýja Dagsbrún er skyld verkalýðshreyfingunni.

En ég verð bara pirruð þegar ég les viðskiptafréttir eins og þessar frá Dagsbrún: "Gjaldfært virðisrýrnunartap vegna viðskiptavildar, kostnaður vegna endurskipulagningar félagsins og gjaldfærður stofnkostnaður vegna 365 Media vegur þyngst á uppgjörstímabilinu (fyrstu níu mánuði ársins) eða um 3.691 milljónum króna."

Ég verð pirruð vegna þess að mér finnst þessi frétt sem núna er á mbl.is ekki vera á mannamáli. Ég geri ráð fyrir að þetta sé beint úr fréttatilkynningu félagsins en er virkilega hægt að ætlast til að almenningur skilji svona orðalag?  Eða er það einmitt tilgangurinn með þessum viðskiptafréttum að gera þær svo flóknar og fagmálslegar að engir skilji og botni í hringiðu viðskiptalífsins og þess ferlis sem núna stjórnar öllu flæði peninga og gæða um Ísland?


mbl.is Afkoma Dagsbrúnar versnar um 5.232 milljónir milli ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband