Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hannibal hleraður

stjupaÞað er minna en tveir áratugir síðan síðustu sveitasímarnir voru lagðir niður í sumum sveitum á Íslandi. Það vissu allir að öll sveitin lá á línunni ef hringt var í einhvern þó enginn viðurkenndi að hlusta. Fólkið sem bjó í sveitinni vildi ekki að ættingjarnir á mölinni ræddu um viðkvæm persónuleg mál í símann. Þessi sveitahlerun hafði nú vissan sjarma, kona sem ég þekki sagði mér frá því að hún hefði verið að ræða í síma við tengdamóður sína sem bjó í sveitinni, þær voru báðar ákafir garðyrkjumenn og  hún hafði ætlað að útvega tengdamóður sinni fræ af sumarblómum en ekki tekist það og gamla konan var leið yfir að geta ekki byrjað að sá fræum og  fagna sumrinu og gróandanum. Svo lauk símtalinu og stuttu seinna kom kona í sveitinni til tengdamóðurinnar og gaf henni sumarblómafræ.

Það er hins vegar dáldið mikill munur á þeirri fréttamiðlun sem sveitasímarnir voru og þeim símhlerunum sem stjórnvöld virðast hafa stundað á dögum Kalda stríðsins. Í fyrsta lagi þá voru það bara stjórnvöld sem gátu stundað þessar hleranir og þannig fylgst með þegnunum. Í öðru lagi þá vissu þegnarnir ekki að fylgst væri með þeim. Í þriðja lagi þá var annarlegur tilgangur með þessum hlerunum. Í orði kveðnu var tilgangurinn að gæta öryggis ríkisins og hugsanlega hafa þáverandi stjórnvöld trúað því sjálf,  fólk hefur ótrúlega mikið og frjótt ímyndunarafl þegar kemur að því að spinna upp sögur og  búa til veruleika sem réttlætir gjörðir þess. En þegar sviðið er skoðað mörgum áratugum seinna þá sést að tilgangur hlerana er sá sami og er megintilgangur allra stjórnhafa fyrr og síðar í sögunni og það er að halda völdunum og bæla sem mest niður allt sem getur orðið til þess að völd þeirra minnki. 

Það að síminn hjá  Hannibal Valdimarssyni forseta Alþýðusambands Íslands hafi verið hleraður sýnir hvernig staðan var á tímum Kalda stríðsins. Ég vona að það verði sem mest umræða um þessi hlerunarmál, ekki af því það breyti einhverju um fortíðina heldur fyrst og fremst vegna þess að við erum í nútíma þar sem hleranir eru miklu, miklu auðveldari og stjórnvöld sem vakta þegna sína til að safna upplýsingum með leynd eru miklu skæðari ógn en var í Kalda stríðinu. Það er ekkert hættulegra en stjórnvöld sem fara að líta á þegnana í eigin ríki sem helstu óvini sína.

Halldór Baldursson gerir bráðskemmtilega mynd af ástandinu.

Kaldastríðsnostalgía (Halldór Baldursson)


mbl.is Heimild veitt til að hlera síma Hannibals Valdimarssonar árið 1961
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastyrjöld í Írak og ábyrgð hinna viljugu þjóða

Í mars á næsta ári eru fjögur ár liðin frá því að Bandaríkjamenn réðust inn í Írak. Það er ágætt að rifja núna upp söguna, framvindu stríðsins og aðkomu Íslendinga að þessu stríði. Það er eins og vanalega einna best að leita í  ensku Wikipedíu, hér er yfirlitsgrein um stríðið í Írak

Ég finn því miður enga svona hlutlausa frásögn eða yfirlitsgrein yfir hvernig Íslendingar komu að þessu stríði og hvernig  stjórnmálahreyfingar   og þjóðmálaumræðan var á Íslandi. Ég vildi óska þess að einhver tæki sig til og skrifaði yfirlitsgrein um það.  Það er líka ágætis tími núna eftir tæp fjögur ár að taka stöðuna og velta fyrir sér hvort vel hafi verið staðið að málum og hvort rétt hafi verið að styðja Bandaríkjamenn og hvort allar forsendur hafi verið réttar. Það hefur Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins gert  sb. þessa frétt:

"...Í ræðu sinni á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær fjallaði Jón um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrás bandaríkjamanna í Írak. Jón sagði að ákvarðanirnar hafi byggst á röngum upplýsingum. Forsendur hafi verið rangar og ákvörðunarferlinu ábótavant. Ákvarðanirnar voru því rangar eða mistök, sagði Jón. Hann bætti við að listi um staðfastar þjóðir hafi verið einhliða framsetning Bandaríkjastjórnar. Loks sagði Jón að ákvarðanir um öryggismál og alþjóðaverkefni beri ævinlega að taka eftir vandaðasta undirbúning og eftir trúnaðarsamráð við lögmætar stofnanir eins og utanríkismálanefnd alþingis." (úr frétt Rúv 26. nóv) 

Það er hverjum manni ljóst að þetta stríð hefur breyst í skálmöld og martröð  og sumt af því sem upp á yfirborðið hefur komið er hneisa fyrir allar siðaðar lýðræðisþjóðir að bendla sig við. Þar má nefna fangaflutningana og fangabúðir eins og  Abu Graigh.  

Annars fann ég tvær greinar til umhugsunar, annars vegar umfjöllun um "Ekki í okkar nafni" auglýsinguna og hins vegar blogg hjá Binna um  ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins 2003 um Írakstríðið. Þessar greinar vöktu mig til umhugsunar um hver hefur umboð til að binda Íslendinga í stríð eða auglýsa skoðanir Íslendinga og hvort Sjálfstæðisflokkurinn ætli ekki líka að taka núna aftur púlsinn á stöðunni og meta málið upp á nýtt. Varðandi það fyrra þá er það alveg glerljóst í mínum huga að löglega kjörin íslensk stjórnvöld hafa umboð til að gera eitthvað sem er í nafni íslensku þjóðarinnar en það hefur þjóðarhreyfingin ekki.  Það er hins vegar eðli góðra stjórnvalda að ana ekki í blindni út í eitthvað forað og átta sig fljótt á merkjum um að tekin hafi verið röng ákvörðun á einhverjum tíma og það væri vel ef stjórnvöld bara viðurkenndu það.


mbl.is Kofi Annan segir Írak ramba á barmi borgarastyrjaldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanir kosta meira en peninga og heiðalönd

Ég ætlaði áðan að velja mér frétt á mbl.is til að blogga um, mér finnst það svo sniðugur fídus að blogga um fréttir og það er náttúrulega sennilega einn aðaltilgangur þessa fína bloggkerfis blog.is að tengja samfélagsumræðuna við Morgunblaðsmiðlunina.  En gallinn var bara sá að ég fann enga skemmtilega frétt sem ég vildi blogga um.

Það voru krassandi fyrirsagnir eins og "Gekk berserksgang á hóteli", "Vingsaði hnífi og ógnaði fólki", "Hópslagsmál í Kópavogi" en það var bara ein sorgleg frétt sem snart mig. Það var fréttin  um slysin við Kárahnjúkavirkjun en þar hafa fjögur banaslys orðið frá því framkvæmdir hófust. En ég veit bara ekki hvað ég á að segja um þá frétt. Hún snertir mig meira en  fréttir af því að  varplönd heiðargæsa tapist. Það hafa líka orðið alvarleg slys við Hellisheiðarvirkjun


mbl.is Rann fjörutíu til fimmtíu metra niður stífluvegginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupum ekkert dagurinn á 66 norður

Kauptu ekkert dagurinnÉg held upp á kauptu ekkert daginn í dag eins og ég hef gert undanfarin ár. Kaupi ekkert og  hugleiði stöðu mála í okkar heimshluta hérna á Norðurslóðum nálægt Íshafinu þar sem jöklarnir eru að bráðna og aðrar siglingarleiðir  í sjónmáli. Hér ríkir sú trú ríkir að gangvirki mannlegra samfélaga  sé  skiptimiðakerfi  fjármagns  og peninga og að  óhindrað  flæði peninga um heiminn  muni eins og  ósýnileg  hönd verða til þess að lífskjör jafnist og allir græði. 

Ég er á því að sem mest  frelsi upplýstra einstaklinga til athafna og orða sé sennilega  affarasælast fyrir flesta, einstaklingar sem hafa aðgang að  sem mestum upplýsingum og hafa úr sem flestum valkostum að velja eru sennilega færari en miðstýrt fjarlægt vald til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína og þess nærsamfélags sem þeir lifa í. Allra skynsamlegast virðist mér að haga samfélagsgerð þannig að einstaklingar kunni að vinna saman og búa til samfélag þar sem samlegðaráhrifin eru ekki bara fólginn í fjöldanum heldur líka fjölbreytninni og því að margir ólíkir einstaklingar með mismunandi hugmyndir og orku geta lagt í púkk og myndað kerfi þar sem allir græða og það þarf ekki endilega að vera kerfi sem byggir á borgun eða peningum.  Til þess að ólíkir einstaklingar vinni saman þá þarf að vera umburðarlyndi fyrir þeim sem eru öðruvísi og það þarf líka að vera einhvers konar samkennd eða samhygð þannig að einstaklingar taki ekki ákvarðanir eingöngu út frá eigin hagsmunum.

Það frelsi sem ríkir í okkar heimshluta gengur  mjög á misvíxl. Á sama tíma og það er  mikið  frelsi í hvernig peningar mega flæða um heiminn þá er frelsi fólks til að flytja sig um set lítið.  Það er núna að ég held afar erfitt fyrir fólk frá Asíulöndum að setjast að á Íslandi en það er hins vegar alveg í fínu lagi að  flytja þaðan vörur og staðsetja verksmiðjur  þar.

Ég er með Fréttablaðið í dag fyrir framan mig á opnuviðtali við Sigurjón Sighvatsson sem núna hefur keypt 66 norður. Einu sinni var 66 norður sjóklæðagerð en núna framleiðir fyrirtækið útivistarvörur. Í opnuviðtalinu er oft rætt um ímynd Íslands og það tengt við vörur frá 66 norður  og það er talað um hönnunina, hönnuðir fyrirtækisins hafi svo góða tilfinningu fyrir hvað 66 norður stendur fyrir. 

En hvað stendur 66 norður fyrir?
Hvað standa önnur íslensk fyrirtæki í útrás fyrir?
Það er langt síðan öll fataframleiðsla 66 Norður á Íslandi var lögð niður. Núna er þessi fatnaður saumaður í Austur-Evrópu og efnin sennilega koma ennþá austar að. 


Víkindainnrásin og West Ham

The Vikings are coming er grein núna á BBC fréttavefnum.  Extrabladet í Danmörku hefur líka sýnt Íslandi sérstaka athygli að undanförnu. Það kitlar náttúrulega hégómagirnd okkar Íslendinga að vera svona í sviðsljósinu  hjá grannþjóðum.  En umfjöllunin er ólíkt vinsamlegri á BBC og skýringarnar á velgengni íslenskra fyrirtækja þar raktar til umgjörðar athafnalífs á Íslandi :"The invasion by Icelandic businesses and entrepreneurs is the result of recent financial reforms."  En Ekstrabladet er ekkert á því róli og þar eru greinar eins og þessar:

 The silent Icelanders

 Money laundering and corruption

Putin's minister received million doller bribe

Icelandic Tricks 


mbl.is „Víkingainnrásin" vekur furðu BBC
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að verja hagsmuni sína... fyrir sjálfum sér

BensíndælaFyndin frétt um meint höfundarréttarbrot  EJS sem  Landsteinar (LS) ásaka það fyrirtæki um. Það er ekki nóg með að það séu gífurlegar málaflækjur  vegna höfundarréttar núna heldur er svo komið að fyrirtæki í eigu sömu aðila eru farin að slást hvert við annað. Það kallast að verja hagsmuni sína.

"Athygli vekur að LS grípi til aðgerða af þessu tagi gagnvart EJS, en fyrirtækin eru að hluta til í eigu sömu aðila......Gunnlaugur hjá LS segir að þótt fyrirtæki séu að hluta í eiga sömu aðila séu það eðlilegir stjórnunarhættir að láta þau verja sína hagsmuni, og það sé gert í þessu tilviki."

Hvernig liti þetta mál út ef hugbúnaðurinn sem um ræðir hefði verið "open source"

Ég fann myndina hérna til hliðar með að leita í CreativeCommons.org, slá inn leitarorðið gasoline og fann þá þessa mynd  og ég skar hana til í imagecrop.com 

Það er sniðug leið til að finna myndir á blogg. 

 


mbl.is Leitað vegna ætlaðra brota á höfundarrétti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kanahúsin á floti

Það er alveg sárgrætilegt að sjá skemmdirnar í kanablokkunum sem sýndar voru í sjónvarpinu. Eitthvað pínlegt líka við að sjá  þessar miklu fasteignir grotna svona ofboðslega hratt niður í höndum Íslendinga. Með sama áframhaldi má víst bara rífa allt hverfið eftir veturinn. Maður getur ekki annað hugsað en hvort Íslendingar séu líka svona andvaralausir með varnir landsins - nú úr því að við höfum ekki fyrirhyggju til að verja hús fyrir frosthörkum sem þó eru algengar og fyrirsjáanlegar, hvernig í ósköpunum getum við þá planað varnir þessa lands fyrir utanaðkomandi ógnum?

Það er líka táknrænt að það var gæsla á svæðinu. Gæslan beindist hins vegar bara gagnvart mannaferðum, gagnvart því að tryggja að ekkert fólk kæmist inn á svæðið. Hvað hefði það fólk svo sem átt að gera? Sprengja upp húsin? Setjast að í mannlausum húsunum? Það sem er táknrænt við þetta er hversu lítt nösk stjórnvöld eru á að greina ógnina í umhverfinu. Helsta ógnin á Íslandi stafar ekki af fólkinu í landinu  heldur af náttúruhamförum og vetrarhörkum, í þessu tilviki voru skemmdarverkin ekki unnin af spellvirkjum sem sprengdu upp hús heldur af vatni sem fraus í pípum og sprengdi upp leiðslur.

Ég hef reynt að fylgjast með hvaða plön eða hugmyndir eru um notkun þessara eigna en ég hef ekki séð neitt ennþá. Mér finnst það furðulegt, það eru margir mánuðir síðan ljóst var að herinn færi og af hverju hafa engar hugmyndir verið ræddar? Eða hef ég misst af einhverju? Eina sem ég hef tekið eftir er að það virðist tregða við að setja þessar eignir í sölu, það er að hluta til eðlilegt vegna þess að það þarf náttúrulega að skipuleggja svæðið sem íslenskt íbúðarsvæði. En ég hef grun um að það séu hagsmunir iðnaðarmanna og íbúðareigenda sérstaklega á Suðurnesjum sem ráða því að ekki er í umræðunni að selja þessar eignir á almennum markaði. Það er hræðsla og hún er alveg skiljanleg við að ef svona margar íbúðir koma í einu inn á almennan markað á þessu svæði annað hvort í sölu eða leigu þá muni húsnæðismarkaður hrynja á svæðinu og byggingariðnaðurinn stoppa. Það segir sig sjálft að ef framboð eykst verulega á ódýru húsnæði til kaups eða leigu þá lækkar bæði húsnæðisverð og húsaleiga.

En það er ekki forsvaranlegt að gera ekki neitt við þessar eignir. Það getur ekki verið eðlilegt að taka ekki ákvörðun út frá skynsemissjónarmiði vegna þess að það stangast á við segjum byggingariðnaðinn á Suðurnesjum. Það er skrýtið að í landi þar sem heilu fiskiþorpin eru í auðn vegna þess að það má selja kvótann burt úr plássunum að ekki megi selja fáeinar kanablokkir með hraði. 

Annars er ég hrædd um að ákvarðanir um nýtingu þessarra eigna verði teknar á miðstýrðan hátt af fámennum hóp og án þess að  leitað sé eftir hugmyndum almennings. Það er of mikil hefð fyrir slíkum vinnubrögðum í jafn opinberri stjórnsýslu sem og viðskiptalífi. Það eru hins vegar ekki sniðugustu vinnubrögðin og ég vildi óska þess að við svona verkefni þá væri reynt að fara einhverjar aðrar leiðir. 

Hér er annars mínar hugmyndir um nýtingu þessarra íbúðarhúsa sem ég myndi setja inn í hugmyndabanka ef þess væri leitað

* Best að  koma sem mestu úr ríkisumsjá sem fyrst

* Selja almenningi stóran hluta þessarra eigna en gera það í áföngum og binda ákveðnum skilyrðum. Gera sem fyrst söluáætlun. 

* Hafa í huga við söluna að  selja eignirnar þannig að það komi sem minnst við húsnæðismarkað á Suðurnesjum. 

* Ein leið til að losna við þessar íbúðir eða hluta þeirra án þess að hafa verulega áhrif á íbúðarmarkaðinn er að bjóða fólki á landsbyggðinni eða sveitafélögum eða aðilum þar  þær til kaups á mjög lágu verði sem aukahúsnæði (alveg eins og fólk í þéttbýli kaupir sumarhús út á landi þar sem það er nokkrar nætur á ári þá getur fólk á landsbyggðinni viljað eiga aðsetur á höfuðborgarsvæðinu fyrir ferðir sínar til borgarinnar). Það væri reyndar snilldarlausn til lengri tíma að fá sem flesta á landbyggðinni, sérstaklega frá svæðum sem núna er flogið til í innanlandsflugi til að eiga íbúð í Reykjanesbæ svona upp á hugsanlegan flutning flugvallarins seinna meir.  Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir til einhverra aðila með takmörkunum um afnot t.d. að ekki megi leigja þær á almennum markaði.

* Sennilega er bara sniðugast að gefa þessar íbúðir  eða afnotarétt af þeim amk þann hluta þeirra sem hugsanlega verður rifinn til fjölskyldna sem eru í húsnæðisþröng sem gætu notað þær þangað til að því kemur. Það verður sennilega seint eftirspurn eftir þessu húsnæði til varanlegrar búsetu meðal Íslendinga og það er líklegt að það verði fyrst og fremst fólk erlendis frá sem flyst til Íslands sem hefur áhuga á búsetu þarna rétt eftir að það kemur til landsins. En það yrði nú eins konar endurtekning á braggahverfunum. Það er kannski mest ábyrgð stjórnvalda að reyna að passa að þetta hverfi verði ekki fátækrahverfi með niðurníddum húsum. En það er kannski ennþá verra að hverfið verði bara hverfi með mannlausum niðurníddum húsum.


mbl.is Baðst afsökunar á því að skemmdir hefðu orðið á byggingum á Keflavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myspace,netsamfélög og höfundarréttur

Það er ágætt að spila  Dont download this song  með Weirdal á meðal  maður les fréttir af málaferlum  eins og þessum frá Universal Music á hendur Myspace. Skrýtið ef Myspace væri dæmt fyrir "...leyfa almenningi að sækja myndbönd með ólöglegum hætti og veita aðgang að tækni sem gerir notendum kleift að skiptast á slíkum skrám..". Er það ólöglegt að veita aðgang að tækni? Fyrir mér hljómar það eins og einhver færi í mál við vegagerðina út af því að ökumaður keyrði drukkinn. Með því að hafa vegina opna þá skapast sú hætta að einhverjir ökumenn keyri drukknir. Er það á ábyrgð þess sem býr til og heldur við vegakerfinu?

Það er  viðkvæmt ástand í höfundarréttarmálum í heiminum í dag. Höfundarréttarlög eru snarbrotin á  vinsælum vefsvæðum þar sem inntakið kemur frá notendum. Það er einmitt eðli "web 2.0" vefsamfélaga að efnið kemur frá notendum.

Síðustu misseri hefur Myspace verið að breytast úr innantómum stefnumótavef og söluapparati í mjög áhugavert tónlistarsamfélag. Sennilega er nauðsynlegt fyrir alla unga tónlistarmenn í dag að hafa síðu á Myspace, þó ekki sé nema til að fylgjast með hvað aðrir eru að gera.

Hér er vefsíða sem ég tók saman um Myspace:

http://fyrirlestrar.khi.is/salvor/myspace/

Það er er ein leið greiðfærari en önnur fyrir skóla og aðila sem vilja og eiga að virða lög en vilja samt vinna með og fjölfalda margmiðlunarefni. Sú leið er að sleppa því alveg að nota efni sem varið er með hefðbundnum höfundarrétti og nota eingöngu efni  sem er heimagert eða sem sem má fjölfalda og vinna áfram með eftir settum reglum. Hér á ég við efni sem er sett á vefinn með höfundarréttarleyfi CreativeCommons.


mbl.is Universal Music stefnir MySpace
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sturla, Einar, Einar

Það kemur alltaf jafnmikið á óvart hver kynjahlutföllin eru í prófkjörum hjá Sjálfstæðisflokknum og hve einsleitan bakgrunn sá hópur hefur sem velst þar til forustu. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki flokkur fjölbreytileikans. Það er eitthvað  í grasrót Sjálfstæðisflokkins sem kyrkir konur. Það virðist helst vera að konur hafi séns sem hafa látið til sín taka utan Sjálfstæðisflokksins og sem hafa verið fengnar til að fara þar í framboð eins og Guðfinna í Reykjavík. 

Annars ber að fagna því að prófkjörið virðist hafa farið vel fram, ekki verið sama klúðrið og tæknilegu mistökin og urðu  fyrir fjórum árum hjá Sjálfstæðisflokknum í þessu kjördæmi. Þá skrifaði Andri Óttarsson þessa frásögn af gangi mála á Akranesi:

"Rétt er að gera sér grein fyrir því að við erum ekki að tala um neitt smávægilegt kosningasvindl einstakra manna heldur stórfellt kosningamisferli sem einræðisherrar í harðræðisríkjum hefðu verið fullsæmdir af. Það er ljóst að hópur manna á Akranesi og nágrenni fór um bæinn eins og eldur í sinu með kjörkassa og kjörgögn. Farið var heim til fólks, á vinnustaði, í skip, á rúntinn og á alla mögulega og ómögulega staði með kjörgögn til að láta fólk kjósa. Til dæmis má nefna að samkvæmt heimildum sem pistlahöfundur hefur ástæðu til að treysta þá var kjörkassi staðsettur við hliðina á lottóvél í sjoppu á Akranesi og fólki boðið upp á að kjósa sína menn á meðan þeir fylltu út lottóseðilinn! "


mbl.is Sturla efstur á lista Sjálfstæðisflokks í NV-kjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stafrófskverið - flott framtak hjá bókasöfnunum

Það er frábært framtak hjá bókasöfnunum að gefa börnum í Reykjavík, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ stafrófskver. Vonandi er þetta byrjun á einhverju meiru í þessa veru.  Það eru ekki nema rúm fjögur þúsund börn í hverjum árangri á Íslandi og vonandi er öllum ljóst hverju miklu máli skiptir fyrir framtíðarsamfélag á Íslandi að börn fái gott veganesti út í lífið hvað menntun varðar. 

Umferðarskólinn hefur verið til fyrirmyndar undanfarin ár, sent ungum börnum bæklinga og kassettur. Ég man þegar dóttir mín sem núna er sautján ára og einmitt nýbúin að taka bílpróf og orðinn fullgildur ökumaður á Íslandi fékk kasettur og bæklinga frá Umferðarfræðslunni þegar hún var að mig minnir fjögurra ára þá var hún mjög spennt og ánægð og geymdi þetta eins og mikil djásn og var alltaf að hlusta á kassetturnar og maður þurfti endalaust að lesa upphátt fyrir hana  einhverjar sögur um Ella andarunga eða aðra sem voru að fara yfir götu og þurftu að læra umferðarreglurnar. Ég man hvað ég óskaði mér oft að menntakerfið á Íslandi væri eins vel skipulagt og umferðarskólinn og teldi það sitt hlutverk að senda börnum öðru hvoru einhvern glaðning og fræðsluefni.

Talandi um svona gjafir til barna og barnafjölskyldna þá bíð ég spennt eftir að íslenska ríkið  taki upp sama sið og Finnar og fagni hverjum nýjum Íslendingi með að senda þeim veglega sængurgjöf. Þetta hafa Finnar gert í mörg ár og það kemur stóreflis pakki með mörgu sem ungbörn þurfa fyrstu mánuði í lífi sínu og meðal foreldra ríkir spenningur yfir hvernig hönnunin verði í ár en mér skilst að það sé á hverju ári hannaður nýr sængurgjafapakki þ.e. mismunandi útlit á göllum og öðru. 

Ég átti yngri dóttur mína á háskólasjúkrahúsi í Ameríku og í því ríki markaðshyggjunnar þá fór ég klyfjuð út af spítalanum af alls konar vörum, stóru fyrirtækin sem selja ungbarnavörur gáfu gjafir eða sýnishorn af vörum sínum og spítalinn gaf sjálfur  ýmsar gjafir svo sem  sett með ýmsum nauðsynjahlutum og ýmis konar fræðsluefni fyrir nýbakaða foreldra.  Það var líka grannt fylgst með því að foreldrar hefðu komið sér upp ýmsum hlutum fyrir barnið svo sem barnabílstól og ég held að spítalinn hafi útvegað slíkt ef ég hefði ekki átt það fyrir.  

Í því ríki ofgnóttar sem við búum við núna þá finnst mörgum það eflaust óþarfi að fylgjast með nýjum foreldrum og gefa nýburum gjafir. En það er táknrænt að taka á móti nýjum þegnum með gjöf og það að allir fái sama pakkann (ný hönnun reyndar á hverju ári) er líka táknrænt - það segir meira en mörg orð um hvernig þetta samfélag ætlar að reynast þegnum sínum  og að sá andi svífi yfir vötnum að það eigi það sama yfir alla að ganga. 


mbl.is Börn á fjórða ári fá stafrófskver að gjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband