Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Bifrastarmálið - þrjú atriði til umhugsunar: umboð, nafnlaus skrif, ástarsambönd nemenda/kennara

Rektor Háskólans á Bifröst hefur sagt starfi sínu lausu.  Það er örugglega besta lausnin eins og málin virðast hafa þróast.  En það eru þrjú atriði í sambandi við þetta mál sem vöktu mig til umhugsunar og sem mér finnst margir gætu lært af.

1. Í umboði hvers?

Það er í fyrsta lagi hvernig rektor brást við nafnlausum skrifum. Ég veit ekki annað en það sem hefur komið fram í fjölmiðlaumræðu. Rektor sendir kærubréfið í fjöldasendingu til allra nemenda og boðar fund á Bifröst. Eftir fundinn lét rektor greiða atkvæði og munu 218 hafa greidd atkvæði og þar af  og 70 % lýst stuðningi við rektor en háskólasamfélagið er 600 manns og munu skv. Rúv flestir ef ekki allir kennarar hafa yfirgefið fundinn áður en til atkvæðagreiðslu kom.  Samt segir rektor eftir fundinn við fjölmiðla (spilað í frétt Rúv): "... niðurstaðan er skýr. ég hef umboð til áframhaldandi starfa hér á Bifröst, ég hef umboð til að halda áfram uppbyggingu hér...". 

 Það getur ekki verið eðlilegur farvegur til að kveða á um hvort yfirmaður stofnunar hefur umboð að leggja það fyrir í atkvæðagreiðslu á fundi sem boðað er til að því virðist í skyndingu  og stýrt af málsaðila sem hefur verulegra hagsmuna að gæta. 

2. Nafnlaus skrif

Það var viðtal við formann háskólastjórnar á Bifröst  og hann sagði þar að háskólastjórn gæti ekki tekið mark á nafnlausum skrifum.  Ég hef ekki séð þessi skrif en ef þarna voru settar fram alvarlegar ásakanir sem studdar eru rökum og ef til vill sönnunum er það þá réttlætanlegt að kanna ekki málið frekar og taka ekki mark á erindi bara vegna þess að það er nafnlaust? Það kunna að koma upp þannig aðstæður að "whistleblower" getur ekki sagt til nafns m.a. vegna þess að starf eða aðstæður viðkomandi verða óbærilegar ef nafns er getið.  Það ætti ekki að vera sjálfgefið að nafnlaus skrif séu eitthvað sem ekkert mark er takandi á.  Það hvernig yfirvöld (og þá sérstaklega rektor sem nú hefur sagt af sér) tóku á þessu máli sýnir að það var alls ekki hættandi fyrir nokkurn mann að skrifa nafn sitt undir svona bréf til siðanefndar. Það hefði í öllum tilvikum átt að vera trúnaðarmál og alls ekki að hafa verið sent út í fjölpósti á rafrænan hátt. Það eitt sér er sennilega lögbrot þ.e. brot á upplýsingalögum. 

3. Ástarsamband nemanda og kennara.

það stendur þessi setning í frétt á Rúv frá því í gær:

"Um ástarsamband við einn nemenda sagði Runólfur að það hefði aldrei verið neitt leyndarmál og ekkert rangt við það enda báðir aðilar fullorðið fólk. "

Ég veit ekkert um þetta einstaka mál á Bifröst og vil snúa umræðunni frá því en út úr þessum orðum má lesa  það viðhorf að slíkt samband sé í lagi svo framarlega sem báðir aðilar séu fullorðið fólk.  Ég stundaði nám í fjölmennum bandarískum háskóla og þar var í skólablaðinu á hverri önn heilsíðuauglýsing frá háskólayfirvöldum um hver stefna þeirra væri varðandi "discrimination" og "sexual harassment" og hvernig ætti að snúa sér með slíkar ásakanir/kærur og hvernig gætu kært og/eða verið aðilar að málum.  Það kom m.a. fram að það væri litið á það sem "sexual discrimination" að kennari ætti í ástarsambandi við nemanda sinn og sú mismunun beindist ekki aðeins gagnvart þeim nemanda sem væri í sambandinu heldur gætu aðrir nemendur á  námskeiðum kært  með vísan til að þeim væri mismunað t.d. varðandi einkunnagjöf. Ég held ekki endilega að það sé heppilegt fyrir okkur að fara í sama púritaníska fasa og Bandaríkjamenn en það er kominn tími til að taka á þessum málum með skýrari hætti t.d. að setja skýrari reglur um hvað teljist kynferðisleg mismunun.

í sumum tilvikum getur kynferðissamband/ástarsamband samband kennara og nemenda verið einn angi af kynferðislegri mismunun bæði gagnvart viðkomandi nema og eins gagnvart öðrum nemendum.


mbl.is Runólfur Ágústsson rektor segir upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Runólfur á Bifröst, Árni í Eyjum og Arnar í Rannsóknarlögreglu

Ég held ég hafi undanfarnar nokkrar vikur varla fylgst nokkuð með fjölmiðlaumræðunni á Íslandi. Annað hvort er ekkert að gerast eða ég er bara eitthvað fráhverf íslenskum þjóðmálum þessa daganna. Ég tek eftir að þær fréttir sem ég les með mestri athygli eru tæknifréttir á digg.com og svo tæknifréttir á hefðbundnari miðlum eins og mbl.is og news.bbc.co.uk.

En ég horfði á sjónvarpið núna í gær miðvikudagskvöld og mér fannst umræðan mjög áhugaverð. Sérstaklega fannst mér fréttin um fundinn sem rektorinn á Bifröst hélt og gagnrýni formanns nemendafélagsins á hana og svo gagnrýni/ályklun ungra sjálfstæðismanna á ummæli Árna Johnsen í sjónvarpinu.  Þessi mál eru dáldið skyld þegar grannt er skoðað, það er þungur ásökunartónn ungs fólks í garð þeirra sem eru í forsvari yfir vinnubrögðum - annars vegar er það gagnrýni á afar undarlega orðræðu fyrrum og tilvonandi þingsmanns sem stefnir ótrauður á að setjast á löggjafarsamkomu Íslendinga þrátt fyrir að hafa orðið uppvís að alvarlegum svikum og lögbrotum og hins vegar gagnrýni á hvern hátt rektor á Bifröst virðist hafa brugðist við alvarlegum ásökunum um starfshætti sína. Þessi fundur er stórundarlegur og það getur ekki verið eðlilegur farvegur og eðlileg vinnubrögð í háskóla að atkvæðagreiðsla á slíkum fundi sé  einhvers konar kviðdómur eða dómstól um starfshætti rektors.  

Svo var í Kastljósinu viðtal við Arnar rannsóknarlögreglumann þar sem hann bar fjölmiðla og áhrifamenn í íslenskum viðskiptaheimi þungum sökum og sagði fjölmiðla handbendi áhrifafólks í viðskiptum og að  markvisst hefði verið svert æra hans og annarra sem hafa komið að rannsókn efnahagsbrota.  

Allar þessar fréttir glöddu mig og mér finnst þær vísbending um að það sé opin og gagnrýnin  umræða um íslensk þjóðmál. Ég hef töluverðar áhyggjur af því hvernig þróunin verði á næstu árum, sérstaklega varðandi Netumræðu. Margir halda að það sé sjálfkrafa ávísun á opnari umræðu og lýðræðislegri að fólk tjái sig í umræðukerfum og bloggi eða einhvers konar netsamfélögum. Vissulega eru það fleiri sem tjá sig og umræðan verður öðru vísi. Netumræðan grefur farvegi sem grafa undan og breyta þeim undirstöðum og þeim farvegum sem valdið hefur flætt eftir. En það er tilhneiging víða að þessi umgjörð sé að færast á fárra hendur og ef til vill verða netsamfélög þannig að það eru bara raddir einhverra fárra sem ná að heyrast - og það séu þá raddir sem enduróma það sem valdhöfum og eigendum miðlanna kemur best. Hér á ég við það að fjölmiðlarisar kaupa upp netsamfélög t.d. Myspace og stórfyrirtæki eins og Google kaupa upp hverja netþjonustuna/netsamfélagið á fætur öðru. Ég er að skrifa þetta blogg í kerfi sem Morgunblaðið hefur sett upp, væntanlega til að styðja við það fjölmiðlaveldi sem það byggir á. Hvaða tryggingu hef ég fyrir því að þessu bloggi sé ekki lokað eða það gert óaðgengilegt ef mér myndi detta í hug að tjá mig hérna um eitthvað sem því fjölmiðlaveldi kæmi illa?

Enga.

 

 


mbl.is Formaður nemendafélagsins á Bifröst lýsir óánægju með fund rektors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband