Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Aumastir allra - Ólafía og vændiskonurnar

Ég hlakka til að lesa bók Sigríðar Dúnu um Ólafíu Jóhannsdóttur. Ólafía er ein af kvenhetjum okkar og hún barðist fyrir þá smáðu og hráðu í samfélaginu.  Stundum finnst mér heimurinn ekkert hafa breyst frá dögum Ólafíu. Alla vega eru þeir sömu aumastir allra og það eru vændiskonur og fíklar og ennþá eru þeir valdalausustu konur og ennþá fæðast og alast mörg börn upp á heimilum þar sem foreldrarnir eru fíklar og alkar. Hin hroðalegu morð  á vændiskonum í Ipswich eru í fréttum sögð eins og spennandi sakamálasaga og hryllingssaga þar sem framvindan er rakin í fréttum af morðum en jafnvel þó að fótum troðið fólk og verksumerki eftir ofbeldi sem það sætir út af því í hvaða stöðu það er í lífinu séu flennifyrirsagnir í dagblöðum þá  snýst kastljósið ekki að neyð fíkla og þeirra sem selja aðgang að líkama sínum heldur að því hversu kænn ofbeldismaðurinn er og hversu vel  og hversu lengi hann kann að dyljast og hversu snörp lögreglan er í að elta hann uppi.

Það er líka gengið út frá því að morðinginn sé einn maður en þannig þarf það ekki að vera þó að ofbeldið sé framið á líkan hátt í öllum morðunum. Það ofbeldi sem vændiskonurnar sem voru myrtar sættu í lífi sínu var ekki ofbeldi frá einum manni heldur frá fjölmörgum mönnum yfir langan tíma í samfélagi sem snýr blindu auga að neyðarvændi sem er ein  hryllilegasta birtingarmynd kynbundins ofbeldis.  

Ég skrifaði á blogg fyrir tveimur árum þennan pistil um Ólafíu: 

Aumastir allra
er nafnið á einu riti Ólafíu Jóhannsdóttur sem í öðru riti lýsti upp leiðina frá myrkri til ljóss. Hvað hefði Ólafía gert í Reykjavík nútímans, hún sem fyrir meira en öld stóð á peysufötunum fyrir utan rónastaðinn Svínastíuna og talaði um fyrir rónunum. Hún sem bjó meðal vændiskvenna og djúpt sokkinna fíkla í Kristjaníu og er núna kölluð Ólafía - Nordens Mor Theresa "den ulykkeliges ven".
Væri Ólafía ekki á fullu núna að trampa á viðskiptahugmyndum Geira í Maxims og hefði hún ekki norpað fyrir utan Kjallara Keisarans og Skipper á sínum tíma og væri núna að reyna snúa honum Bjössa og kúnnunum hans í Kaffi Austurstræti til betri vegar? Væri hún væri ekki að fylgjast með dílerunum á Netinu og vísitera e-pilluhallirnar í úthverfunum?

Mér finnst mikið til Ólafíu koma. Ekki bara af því að hún líknaði bágstöddum. Frekar út af því að hún gerði eitthvað til að breyta ástandinu.


mbl.is Ein vændiskvennanna sem myrt var í Ipswich var barnshafandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tóm steypa hjá Orðinu á götunni

Bloggið Orðið á götunni er orðið þreytt á amstrinu sem fylgir því að vera að skúbba og skúra á hvurjum degi alla ranghalana í íslensku þjóðlífi. Sennilega bara komið í jólastuð og ætlar að fara að föndra og baka með börnunum eins og allir hinir. 

Það er hins vegar tóm steypa sem stendur á útgöngublogginu hjá þeim:

" Ólíkt því sem var þegar Orðinu á götunni var hleypt af stokkunum í byrjun júní síðastliðnum er nú hægt að velja milli fjölmargra góðra bloggsíðna þar sem fjallað er óstaðfestar fréttir, orðróm og lesið á milli línanna í fréttum hefðbundinna fjölmiðla. Það er mjög góð þróun og stuðlar að öflugri þjóðfélagsumræðu.
Mikið af því sem áður var aðeins rætt á göngum og í hinum frægu reykfylltu bakherbergjum er nú um leið komið út á netið og því er orðið erfiðara en áður fyrir menn að reyna að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa. Hún öðlast þvert á móti sjálfstætt líf. Stjórnmálamenn og forystumenn í viðskiptalífi hafa ekki lengur efni á tjá sig ekki um erfið mál og hið sígilda áhyggjuefni um að hægt sé að misnota völd yfir fjölmiðlum er ekki jafn aðkallandi."

Í fyrsta lagi þá hefur árum saman verið nóg af slúðri og óstaðfestum fréttum og orðróm á Netinu. Það hefur jafnt verið á bloggi sem og á spjallvefjum s.s. malefnin.com.

Í öðru lagi þá er ekkert erfiðara nú en áður "að stýra umræðunni í þann farveg sem þeir kjósa". Það er blekking að bloggheimur bjóði upp á einhvers konar óhefta tjáningu það sem einhverjir óskilgreindir þeir geta ekki stýrt umræðunni.  Sá sem ræður leikreglunum og á eða hefur einhver áhrif á virkni miðsins getur alveg stýrt umræðunni.  Einmitt þessi fjörugi samfélagsvettvangur sem nú er að myndast hérna á moggablogginu er alveg undir hælnum á Morgunblaðsveldinu og það er hægur leikur að stýra umræðunni þar og beina kastljósi að ákveðnum bloggurum eða passa að ekkert kastljós beinist að öðrum. Það hefur farið fram fjörug umræða á femistapóstlistanum einmitt um moggabloggið og hvernig það beinir kastljósinu að ákveðnum aðilum sem flestir hafa það sér til ágætis að vera karlkyns. 

Í þriðja lagi þá er Bloggið á götunni bara hvítvoðungur í bloggheimum og það er bara krúttlega barnalegt hjá því að segja allt hafi breyst frá því að þeir byrjuðu að blogga núna í sumar. Það hefur ekki mikið breyst síðan þá og ef þeir skynja það ekki þá hafa þeir bara einfaldlega ekki fylgst vel með nógu lengi. Og það er alveg eins hægt að misnota vald yfir fjölmiðlum, ný miðlunarform eins og blogg raska vissulega valdahlutföllum með tíð og tíma en það er engin trygging fyrir því að völd yfir fjölmiðlum verði ekki misnotuð. Þvert á móti er þróunin sú alls staðar í heiminum að það er tilhneiging til að vefþjónustur og netsamfélög þjappist í stórveldi með alls konar fjölmiðlum, dæmi um það er Google  og Yahoo sem núna kaupa upp hverja vefþjónustuna á fætur annarri og fjölmiðlaveldi Murdochs sem keypti Myspace og íslenska útgáfan af netsamfélagi/fjölmiðlaveldi þar sem moggablogg er einn þáttur.

En ég ráðlegg öllum sem hafa áhuga á því að hinir nýju miðlar endurspegli þann margbreytileika sem er í samfélaginu og þar hljómi líka rödd þeirra sem sæta kúgun og þöggun og hafa litla möguleika til að tjá sig í þjóðmálum í dag að fylgjast vel með alþýðlegri fréttamennsku og þá sérstaklega að fylgjast með Dan Gillmor sem er gúrúinn á þessu sviði. Ég sótti eins dags óráðstefnu (unconference er tískan í þessum geira) sem hann stýrði í Boston í ágúst síðastliðnum. Hér er smávídeóklipp sem ég tók þar:



Annars var þessi bloggpistill tilraun hjá mér til að blogga eins inntakslaust og ég gæti svona blogg um frétt um að blogg væri hætt að blogga. Ég leit yfir fréttir á moggabloggi og valdi mér frétt til að blogga um og valið stóð á milli þess að blogga um fréttina að bloggið Orðið á götunni væri hætt að blogga eða fréttina að það væri bara ein lyfta um helgina opin í Bláfjöllum. Mér fannst sú frétt afar áhugaverð en hætti mér ekki út í mjög langt blogg um það vegna þess að ég veit ekkert um skíðaíþróttir og einhver myndi kannski fatta það. Það hefði nú kannski verið sniðugt að blogga um það.
mbl.is Bloggsíðan Orðið á götunni í tímabundið frí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Cult Shaker kúltúr á Íslandi

Það er viðbjóðslegt að sjá lævísa, siðlausa, villandi og niðurlægjandi markaðssetningu á áfengi til unglinga á Íslandi. Ég var að skoða vefsvæðin pose.is og superman.is sem virðast sérstaklega vera beint til nemenda í framhaldsskólum á Íslandi, að mér virðist eingöngu í þeim tilgangi að fá krakkana til að drekka áfengi og bjór og þá sérstaklega drykkinn Cult Shaker.

Hér er skjámynd um hvernig efni er á þessum vefsíðum núna. Ég get ekki séð betur en þetta sé klárt lögbrot (brot á áfengisvarnarlögum) og auk þess verulega niðurlægjandi fyrir konur. 

cultshaker1
vefsíðan superman.is 15. des. 2006

Þessir vefir tengjast vefjum sem börn sækja og útvarpsstöðvum eða eins og stendur á síðu pose.is: 

" dag er Pose.is í góðu samstarfi með útvarpsstöðinni FM957, D3 og fleirum. Hún er ört  vaxandi og virðist engan enda taka fyrir því. Þessi síða  er rekin ásamt tveimur öðrum (www.leikjaland.is &
www.69.is) undir formerkjum 2 Global ehf."

Er enginn sem tengist forvarnarstarfi, æskulýðsstarfi og áfengisvarnarráði að skoða hvað er að gerast og vinna í að stemma stigu við þessari lágkúru?

Ég fletti upp á vefnum áðan og ég sé að í Danmörku (þaðan sem Cult Shaker er ættað) þá hefur fyrirtækið verið kært vegna þess að þessi markaðssetning stangast á við áfengislög og sýnir konur á niðrandi hátt. Það er mjög augljóst kynferðisleg myndmál í þessum auglýsingum, Cult Shaker flaskan er sýnt eins og reistur limur, sams konar myndmál hefur verið notað til að markaðssetja annars konar fíkniefni til unglinga m.a. camel sígarettuauglýsingar.

cultshaker4

 

Það er ömurlegt að lesa hvernig íslensk ungmenni ánetjast þessum lágkúrulega Cult Shaker kúltúr. Hér eru dæmi sem ég fann úr bloggum íslensks stráks og stelpu (tók út nöfn):

Strákur

"Ég og X fórum bara upp. Ég stoppaði á CULT-barnum og keypti mér eitt stykki CULT Shaker. Djöfull er hann góður.  Svo fékk ég svona "tattoo" hjá CULT-stelpunni. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að setja þetta á mig þannig hún aðstoðaði mig við það. Svo fórum við X bara á dansgólfið.
..... Svo var bara þambað á barnum og dottið rækilega í það. Ég sem ætlaði ekki einu sinni að drekka. Aðeins of seint, orðinn blindfullur!

Eftir að ég og X vorum orðnir blindfullir ákváðum við bara að skella okkur heim. Ég gat varla labbað ég var svo fullur en ég náði samt að bjarga mér. "

Stelpa:

cultshaker2

 Svona er auglýst eftir Cult stelpum á Íslandi til að selja áfengi

cultshaker6

Sjá nánar þessar dönsku skýrslur

 Skýrsla  2003 og skýrsla 2005

Hér er kafli úr skýrslunni um markaðsetningu 

"Promotion af både energidrik og alkoholsodavand
Under sloganet ”Cult Shaker Crewet kigger forbi” møder promotionsteams op overalt i Danmark, hvor unge går i byen. Især de landsdækkende diskotekskæder Crazy Daisy og Buddy Holly er  repræsenteret på hjemmesidens eventkalender. Hertil kommer diverse barer, værtshuse, gymnasiefester, mv. ”Shakerpigerne sørger for Shaker med lime og masser af feststemning”, lyder et andet reklameslogan. Iklædt røde cowboyhatte og sorte nedringede toppe med det røde logo
fyrer de op under festen. Man kan se dem i nærkontakt med unge berusede værtshus-
gæster på de såkaldte Partyshots. Disse fotos fremstår som en del af festlighederne, men er også et led i markedsføringen, og lægges ud på Cults hjemmeside(www.cult.dk). Shakerpigerne  medbringer en køledisk fyldt med alkoholsodavanden, Cult Shaker, der i aftens anledning sælges til tilbudspris, samt energidrikken, Cult. Igen sker der en sammenblanding af markedsføring af energidrik og alkoholsodavand. Pigerne kaldes i ind imellem også for ”Cult piger” i stedet for Shakerpiger. Det siger noget om hvor glidende overgangen er mellem energidrik og alkoholsodavand i Cult Scandinavias markedsføring. "

Þessi skjámynd hér fyrir neðan (frá 69.is)er dæmigerð fyrir efnistök á þessum vefjum og þá klámfengnu kvenhatursýn samfara hvatningu til fíkniefnaneyslu sem þar ríkir.  Í myndunum er undir titlinum blautar íslenskar stelpur mynd af fáklæddum stelpum að kynna áfengi og sem eitt vinsælt skemmtiefni á þessum vef er vísað í viðtal við mann sem hefur verið sakfelldur og ákærður fyrir að nauðga íslenskum stúlkubörnum.

cultshaker9


Kona ársins

Dorrit forsetafrú  var útnefnd kona ársins af Nýju lífi. Í rökstuðningnum segir: "Glæsilegur fulltrúi lands og þjóðar hvar sem hún komi" ....hmmmm... Er glæsileiki eingöngu fólginn í hvernig fötum þú klæðist og hvaða skart þú berð? Ég get ekki sagt að Dorrit Moussaieff hafi verið Íslandi til sóma þegar birt var upptaka sem sýndi viðmót hennar við embættismenn í Ísrael í maí 2006. Viðtal sem tekið var við hana hér á Íslandi  út af því máli bar ekki með sér að hún hefði neinn snerfill af stjórnvisku. 

Mér hefði fundist mjög lítið við hæfi hjá Nýju lífi að velja sem konu ársins konu sem hefur aðallega gert það að koma skrautbúin fram við hlið mannsins síns og sem hefur alla sína vegsemd og frægð vegna þess að hún er eiginkona manns í hárri stöðu og mér finnst afar, afar sérkennilegt að rökstyðja þetta val með því að segja að hún sé glæsilegur fulltrúi Islands. Hún var það ekki í þessu eina dæmi. 

Mér er ekki ljóst hvað Dorrit Moussaieff hefur gert sem verðskuldar að hún sé útnefnd kona ársins. Það hefur alveg farið fram hjá mér hvað hún hefur gert.  

Til uppriflunar þá skrifaði ég inn á malefnin.com 11. maí 2006 

"Þetta er nokkuð einkennilegt mál og kemur ekki vel út fyrir Dorrit forsetafrú. Eftir því sem stendur í Morgunblaðinu í dag þá mun hún hafa verið viðbúin því að eitthvað vesen yrði þegar hún færi úr landi. Það er því einkennilegt að hún skuli hafa misst stjórn á skapi sínu og orð hennar eru einkar óheppileg.

Það kemur líka fram í Morgunblaðsgreininni að Dorrit mun hafa vitað að það eru landslög í Ísrael að fólk sem er fædd þar verður að bera ísraelsk skilríki. Frá mínum sjónarhóli er málið þannig:
* Forsetafrúin er í einkaerindum í ríki sem Ísland hefur viðurkennt sem fullvalda ríki. Hún fer ekki eftir lögum í því ríki og þegar henni er bent á það þá bregst hún illa við og úthúðar öllum þegnum þess ríkis og viðhefur móðgandi ummæli um Gyðinga. Þetta er tekið upp á myndband sem m.a. var sýnt í sjónvarpinu.
Degi seinna þegar forsetafrúin er komin til Íslands þá tekur sjónvarpið viðtal við hana.

Forsetafrúin var í einkaerindum í Ísrael og það má segja að okkur komi lítið við hvað hún gerði þar nema náttúrulega það sé beinlínis skaðlegt fyrir hagsmuni Íslands og grafi undan virðingu á forseta Íslands. En það er ekkert vafamál að þegar hún var í viðtali við íslenska sjónvarpið í gærkvöldi þá var hún þar í í hlutverki opinberrar persónu, það er tekið viðtal við hana sem forsetafrú á Íslandi.

Það kom mér því á óvart að forsetafrúin hélt áfram að móðga Ísraelsmenn með miður ígrunduðum skoðunum. Hún lýsti þeirri skoðun sinni að ein borg í Ísrael ætti ekki að lúta stjórn Ísraels heldur vera svæði undir stjórn Sameinuðu þjóðanna og hún gagnrýndi harðlega hvaða fánar blöktu við Grátmúrinn.

Ég geri ekki ráð fyrir að Ísraelsmenn taki þessu vel, setjum okkur í spor þeirra og ímyndum okkur að kona sem fædd og uppalin væri á Íslandi kæmi til landsins löngu seinna og bryti íslensk lög, heimtaði og ætlaðist til einhverrar sérafgreiðslu fyrir sig vegna þess að hún væri rík og gift einhverjum áhrifamanni í Suður Ameríku eða frá öðrum fjarlægum slóðum og brygðist þannig við ef för hennar væri heft af landamæravörðum að hún myndi úthúða allri íslensku þjóðinni, segja okkur að það væri ekki nema von að öllum væri illa við okkur Íslendinga. Og svo myndi hún kóróna allt með að lýsa því yfir að Þingvellir ættu að vera alþjóðlegt svæði undir umsjá Sameinuðu þjóðanna og heimta að flaggað væri við Stjórnarráðið og víðar með fána þess ríkis sem hún hefði gifst inn í. Ég hugsa að við myndum fyrtast við.
"
.......
Orð Dorritar eru ákaflega heimskuleg sérstaklega þegar haft er í hug að hér talar forsetafrú Evrópuríkis sem daginn áður missti stjórn á skapi sínu og móðgaði heila þjóð með orðum sínum. Það hefði verið klókt og diplómatískt í hennar stöðu að viðurkenna bara mistök sín og biðja Ísraelsmenn afsökunar. Allir eru mannlegir og allir geta misst stjórn á skapi sínu. En það er fáránlegt að forsetafrú tjái sig svona á viðkvæmum tímum í heimsmálunum."


mbl.is Dorrit Moussaieff valin kona ársins 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drepa konu

Á forsíðu Morgunblaðsins í dag er rætt við Gísla H. Guðjónsson réttarsálfræðing  um morð vændiskvenna í  London. Hann segir þar það sem  flestir vissu áður: "Sumir fá útrás með því að drepa konu, það losar um bældar tilfinningar". 

En losar það um bældar tilfinningar alls samfélagsins að horfa á afþreyingarefni um pyntingar og slátranir á konum?  Af hverju er samfélag okkar þannig að sviðsettar pyntingar, morð og limlestingar á konum eru vinsælt skemmtiefni og raunar hápunkturinn í mörgu af því skemmtiefni sem fyrir okkur er borinn í sjónvarpi, kvikmyndum og bókum sem sem lögreglusögur, sakamálasögur, spennusögur? 

Af hverju stafar þetta hatur á konum? Hvaða bældar tilfinningar ráða því að þetta er vinsælt afþreyingarefni?

Það eru mörg morð og ódæðisverk framin í heiminum í dag sem "copycat" eða eftirhermur af öðrum verkum og þá stundum sviðsettum verkum úr sögum. Þannig eru uppi getgátur um að brottnám austurísku stúlkunnar Natascha Kampusch  af Priklopil  hafi verið eftirherma af sögu úr bók John Fowles um fiðrildasafnara. En fyrir þá sem ætla að pynta og myrða konur þá er svo sannarlega úr nógum fyrirmyndum að moða - stór hluti af afþreyingaefni sem fyrir okkur er borinn er nokkurs konar uppskriftabækur í því hvernig skuli farið að því. 

Hér er pistill sem ég skrifaði á malefnin.com 30. janúar  2005 í umræðu um pyntingar:

"Það er örugglega engin vestræn þjóð með það í stjórnarskrá sinni að pyntingar skuli vera leyfðar. En ég vil benda á að í nafni frelsis þá eru leyfðar sviðsettar pyntingar gagnvart ákveðnum hópi og í skjóli heimila fara sums staðar fram raunverulegar pyntingar á fólki.

Margt af því klámefni sem flýtur um allt á Internetinu er ekki annað en sviðsettar pyntingar þar sem sá sem er pyntaður og smáður er nánast alltaf konur. Margir hafa bent á hve pyntingar fanga í Abu Grah eru líkir aðferðum í klámiðnaði.

En það er ekki bara í efni sem markaðsett er sem rúnkfóður fyrir karlmenn þar sem pyntingar á konum eru sviðsettar. Margir sakamálaþættir og annað afþreyingarefni er þannig - það nægir að skipta um stund milli rásanna á breiðbandinu, stundum hef ég séð á nokkrum stöðvum í röð á sama tíma svona sviðsettar pyntingar á konum.

En það er líka haldið hlífiskildi yfir þeim sem pynta konur raunverulega í okkar samfélagi. Það er kallað heimilisofbeldi. Amnesty skilgreinir heimilisofbeldi sem pyntingar. Amnesty telur að ofbeldi gegn konum og stúlkubörnum sé eitt algengasta og alvarlegasta ofbeldið sem á sér stað í heiminum í dag.

Það eru líka sumir sem verja rétt fólks til að borga fyrir að pynta og smána annað fólk á kynferðislegan hátt. Það er kallað að vera fylgjandi vændi. "


mbl.is 2.000 Bretar hafa hringt í lögreglu vegna morða á vændiskonum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með jólalögum skal land byggja

Lögreglan á samúð mína þessa daganna. Það varð alvarlegt umferðarslys í fyrradag á Vesturlandsvegi og veginum lokað um tíma og munu einhverjir ökumenn hafa veist að lögreglu og sagt henni að hunskast burtu. Svo hefur lögreglu verið hótað margoft vegna þess að maður sem lögreglan handtók fékk hjartastopp og lést. Í viðtali nýlega við rannsóknarlögreglumann og fjölmiðlaumfjöllun þá gat ég ekki  skilið umfjöllun öðruvísi en að rannsóknarlögreglumenn í ákveðnum málum teldu að þeir væru lagðir vísvitandi í einelti í fjölmiðlum og vegið að æru þeirra. Svo hafa náttúrulega njósna- og hlerunarmálin á kaldastríðstímanum verið mál málanna síðustu daga og þar hefur lögregla einnig orðið skotspónn.

 En með jólalögum skal land byggja þessa núna í desember og því er jólalag dagsins tileinkað þeim sem framfylgja lögunum en það er  Jólalöggan með hljómsveitinni Ælu. Hugljúft og jólalegt lag þrátt fyrir nafnið á hljómsveitinni. 


mbl.is Ráðstafanir gerðar vegna hótana í garð lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitur í listsköpun

Pólóníum  og prins póló eiga það sameiginlegt að nöfnin koma frá Póllandi. Nafn þessa geislavirka efnis er komið frá Marie Curie og manni hennar en dóttir þeirra Irene Curie mun hafa verið fyrsta manneskjan sem dó af pólóníum eitrun.  Marie Curie gaf pólóníum nafnið, það mun hafa verið fyrsta efnið sem fékk nafn í pólitískum tilgangi en nafngiftin mun hafa fólgið í sér von um sjálfstæði Póllands.

Ég vildi óska að meira af orku heimsins færi í listsköpun og föndur og minna í að eitra hvert fyrir öðru.  Ég var áðan að skoða myndir ef verkum kanadísks leirlistamanns en hann er einmitt líka sérfræðingur í  eitrunaráhrifum efna sem notuð eru í leirgerð og hefur skrifað  bók um það, Hann notar kunnáttu sína í efnafræði og mengandi efnum til að breyta efnaúrgangi úr verksmiðjum í hráefni eða glerunga fyrir listaverk sín. 

 

 

 

 

 


mbl.is Geislavirka efnið sem fannst í Hamborg „að öllum líkindum“ pólóníum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir á móti hlerunum... nema þegar það kemur þeim sjálfum vel

Ég var að lesa grein Ólafs Hannibalssonar um símhleranir í Morgunblaðinu í dag og skinhelgi stjórnmálamanna gagnvart þeim. Halldór Baldursson túlkar þetta að vanda frábærlega með skopmynd sinni af stjórnmálamanninum með gloppótta minnið. En það er einkennileg fortíðarþrá í Mogganum í dag, það er eins og tíminn hafi staðið kyrr og síminn sé ennþá aðalgaldratólið og samskiptatækið. Ólafur Hannibalsson endar sinn mikla ritbálk með þessum orðum:

"Ég heiti á alla alþingismenn, hvar í flokki sem þeir standa, að ganga nú svo frá þessum málum að fullljóst sé hverjum gegnum þjóðfélagsþegni, hver réttindi borgaranna eru í þessum efnum gagnvart snuðrunaráráttu ríkisvaldsins og setja með því ríkisvaldinu þær skorður í eitt skipti fyrir öll sem það getur ekki farið yfir í samskiptum sínum við borgara landsins, án þess að handhafar þess verði "uppvísir afbrotamenn".

Sameinist nú allir um kröfu sjálfstæðismanna frá 1936 um sérstaka rannsóknarnefnd í símanjósnunum samkvæmt 39. grein stjórnarskrárinnar, með umboði til að fara ofan í saumana í þessum álum frá upphafi til þessa dags." 

Símalína frá 1910

Ritbálkur Ólafs er góður og tímabær en ég vildi óska þess að fleiri en ég sæu að það eru breyttir tímar núna. Það hefur markvisst verið stefnt að því að leysa upp þjóðríkið á síðustu áratugum og það er ekki lengur til ríkisvald sem rekur símakerfi fyrir einstaklinga.  Það eru hins vegar til alþjóðleg stórfyrirtæki sem kaupa upp símafyrirtæki og samskiptaþjónustur víða um lönd. Flestar viðkvæmar upplýsingar um þegnanna sem líklegt er að einhver vilji hlera  fara um hendur ýmissa einkafyrirtækja svo sem Skýrr og Reiknistofu bankanna og Internetþjónustuaðila. Framtíð okkar og nútíð okkar er stafræn og möguleikar til hlerana eru óendanlega miklu meiri í stafrænum heimi heldur en voru á tímum Kalda stríðsins.  Það skiptir miklu  fyrir okkur að skoða hverjir það eru  það eru sem eiga samskiptamiðlana, upplýsingaveiturnar og sem stjórna hinum stafrænu samskiptum okkar og hvaða möguleika þeir hafa til að njósna um samskipti okkar og athafnir. Og hvernig á að passa almenna borgara fyrir að þeir misnoti ekki aðstöðu sína.

Þeir sem áhuga hafa á þessum málum ættu að lesa sér til um Carnivore og  annars konar hlerunarbúnað lögregluyfirvalda.


Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika?

Ég gleðst yfir áfangasigri bróður míns en ég held að það sé varhugavert að fagna of snemma. Mér sýnist hver ný niðurstaða í þessum málaflækjum sem  nú eru lenskan í ísl-ensku samfélagi  hvort sem það eru Baugsmál eða málaflækjur um málfrelsi Hannesar kalli á ný málaferli og í svoleiðis aðstæðum þá vinnur sá að endingu sem hefur mest fjárráð og mest þol til að standa í svona stappi.  Dómur sögunnar þarf hins vegar ekki að fara saman við niðurstöður dómsmála og ég hugsa að hvernig sem málin fara að endingu þá muni tíminn vinna með Hannesi.  En ég vona að Hannes verði eini maðurinn á Íslandi sem missir húsið sitt vegna þess að hann kunni ekki að uppfæra heimasíðuna sína sjálfur. Ég veit að hann vildi taka út ummælin um Jón á sínum tíma en það fórst fyrir vegna þess að það þurfti að fara í gegnum  milliliði. Ég vildi hann hefði talað við mig.

Ég rifja hér upp það sem ég hef áður skrifað um þetta mál undir titlinum "Tjáningarfrelsi - Hver má lýsa íslenskum veruleika? 

Blogg frá 7.10.05 á gamla blogginu mínu Metamorphoses:

"Þegar ég kom heim til Íslands var nýtt mál bróður míns í algleymingi, mál sem ég vissi ekki að væri til. Það virðast öll spjót standa á honum þessa dagana. Öll blöð og ljósvakamiðlar fjölluðu um að hann hefði verið dæmdur í Bretlandi fyrir meiðyrði, fyrir að láta að því liggja að íslenskur athafnamaður hafði komið undir sig fótunum á eiturlyfjasölu. Þetta munu vera ummæli sem sögð voru á fjölmiðlaráðstefnu á Íslandi fyrir nokkrum árum og sem voru á íslenskri heimasíðu. Það mun vera til einhver samþykkt(Lugano samningur) sem Ísland er aðili að, sem kveður á um að dómar sem kveðnir eru upp í einu landi séu aðfararhæfir á Íslandi. Það er raunar eðlilegt í fjölþjóðasamfélagi, viðskiptahagsmunir eru ekki bara bundnir við ákveðið landssvæði. En mér finnst skrýtið og bein og harkaleg aðför að tjáningarfrelsi hér á Íslandi ef breskur dómstóll getur ákveðið hvað má segja á Íslandi.

Geta Íslendingar geta ekki gagnrýnt einhvern sem er atkvæðamikill í íslensku samfélagi og lýst íslenskum veruleika án þess að eiga á hættu að á þá falli dómur í Bretlandi? Ég hef hingað til alltaf haldið að það sem við segjum hérna á Íslandi og á íslenskum vettvangi sé eitthvað sem við þurfum að vera tilbúin til að verja fyrir íslenskum lögum. Ég hef kynnt mér íslensk lög og reyni að passa hvað ég segi miðað við þau. Ég hef engin tök á að kynna mér ensk lög og haga því sem ég segi eftir breskum reglum og ég geri ráð fyrir að það eigi við um velflesta Íslendinga.

Bróðir minn mun hafa látið að því liggja að þekktur og valdamikill íslenskur athafnamaður sem hefur núna dvalarleyfi í London muni hafa auðgast á eiturlyfjasölu. Það er fróðlegt að bera þetta mál saman við dópsalalistann hans Björns, ég sá í fjölmiðlum að nýlega hafa tveir lögreglumenn sem nafngreindir voru á listanum hafið málaferli og krefjast fébóta af Birni. Það mál er rekið á Íslandi. Í báðum þessum tilvikum eru menn ásakaðir um eiturlyfjasölu, menn sem augljóst er að skaðast af því að vera bendlaðir við slíka iðju og í báðum tilvikum eru það gögn á vefsíðu sem er það saknæma - annars vegar gögn á vefsíðu sem er vistuð á Íslandi og hins vegar gögn á vefsíðu sem vistuð er á blogspot.

Þessi mál eru mjög áhugaverð út frá tjáningarfrelsi, hver er lögsaga Internetsins, nær íslensk lögsaga yfir það sem skrifað er á blogspot og nær bresk lögsaga yfir það sem er skrifað í íslenskum vefrýmum? Er alveg sama hvar við vistum gögn okkar og upplýsingar, er hægt að sækja okkur til saka hvar sem er í heiminum? Eða getum við fengið okkur vefsvæði í Malasíu eða einhverju landi sem ekki er aðili að milliríkjasamningum, skráð okkur undir dulnefni og þannig verið hrópendur í útlegð og tjáð okkur hömlulaust um íslenskt samfélag? Það eru reyndar til nokkur íslensk netsamfélög þar sem flestir virðast undir dulnefni og vettvangurinn er vistaður erlendis s.s. malefnin.com og hugsjon.com

Ég get ekki séð að það sé með nokkru móti mögulegt að koma böndum á Internetið og ritstýra orðræðu þar með meiðyrðalöggjöf, það er vissulega hægt að elta uppi þá sem skrifa undir nafni og þá sem skrifa í vefrýmum sem vistuð eru á Íslandi. En ef miklar hömlur og viðurlög eru við að fólk tjái sig undir nafni þá mun sennilega flest svona tjáning fara fram nafnlaus og með hætti þar sem ekki er hægt að rekja.

Tjáningarfrelsi er hornsteinn lýðræðissamfélaga. Tjáningarfrelsi er ekki bara að verja rétt þeirra sem eru sammála okkur og tjá sig á þann hátt sem við viljum, tjáningarfrelsið er líka fyrir óvini okkar, óvinsælar skoðanir og upplýsingar og gögn sem okkur finnst að ætti ekki að tjá sig um. Tjáningarfrelsi er líka fyrir rógburð og illmælgi. Fólk verður hins vegar að vera tilbúin til að verja mál sitt og sýna fram á sannleiksgildi þeirra upplýsinga sem það hefur fram að færa og sæta refsiábyrgð ef upplýsingarnar eru fengnar með ólögmætum hætti eða eru upplýsingar sem ekki má birta t.d. sem varða einkahagi og persónuvernd.

Það er réttlætismál að sem minnstar hömlur séu á tjáningarfrelsi, í mörgum tilvikum er það eina vopn hins smáða og réttlausa að hafa rödd og geta tjáð sig um kúgunina. Þannig er hins vegar að samfélög eru oft skipulögð þannig að eina röddin sem heyrist og bergmálar í samfélaginu eru rödd þeirra sem hafa þegar völd og áhrif - og það eru í gangi alls konar mekanismar til að þagga niður raddir jaðarsettra hópa. Heimspekingurinn Voiltaire sagði :"I disapprove of what you say, but I will defend to the death your right to say it" og ég vil geta sagt það sama. Það skiptir ekki máli hversu vel okkur geðjast að því sem einhver segir, það mikilvægasta er að það séu sem minnstar hömlur lagðar á tjáningarfrelsi viðkomandi.

Einn liður í kúgun er að maður sé dæmdur eftir leikreglum sem maður þekkir ekki og sem maður hefur enga möguleika á að hafa áhrif á. Við Íslendingar getum fylgst vel með íslenskum lögum og ef okkur finnst þau ósanngjörn þá getum við barist fyrir breytingum á þeim. Við höfum hins vegar enga möguleika á að hafa áhrif á bresk lög og fæst okkar vita einu sinni hvaða lög og reglur gilda í Bretlandi - ég geri ráð fyrir að fæst okkar hafi leitt hugað að því að þau gætu þurft að hlíta dómi í útlöndum yfir það sem við segjum hérna.

Það hvernig við tjáum okkur um íslenskan veruleika er hluti af íslenskri menningu. En hérna er tjáningin oft svo hömlulaus og tillitslaus við menn og málefni að það er þörf á nýjum vinnureglum. Hérlendis eru gífurlega margir sem tjá sig í netrýmum og þeir tjá sig oft alveg eins og þeir væru að tjá sig við vinahóp sinn í einkasamkvæmi. Það hefur komið sumum bloggurum illa að hafa ekki viðhaft nógu mikla varúð í umtali. Í ágúst síðastliðnum missti fjölmiðlamaður á RÚV vinnuna vegna þess að hann fór mjög óvægnum orðum um nafngreinda Íslendinga á bloggsíðu sinni. Það var umræða um þetta mál og bloggfrelsi á málefnavefnum og ég skrifa þar 26. ágúst svohljóðandi hugleiðingu:

".......
Það eru því miður margir Íslendingar sem tjá sig svona á bloggsíðum, sérstaklega er margt ungt fólk sem finnst svona tjáningarmáti bara vera eðlilegur. Ég veit að margt af því fólki er ágætt sem einstaklingar en það kann sér bara ekki hófs í opinberri orðræðu. Það er líka þannig með íslenskt samfélag að til skamms tíma hefur verið hér mjög einleitur hópur Íslendinga sem allir hugsa mjög svipað og við höfum ekki kippt okkur neitt verulega upp við ruddalegt orðfæri, vegna nálægðarinnar þá þekkjum við einstaklingana á bak við og vitum hvaða meining býr að baki. Í öðrum samfélögum þar sem fjölbreytileikinn er meiri og fjöldinn meiri þá hefur þetta aldrei liðist. Það myndi strax vera farið í málaferli ef fólk leyfði sér sumt af því orðfæri sem ég hef séð á íslenskum bloggsíðum.

Ég hef oft óskað þess að einhver sem orðið hefur illa fyrir barðinu á umræðu á bloggsíðum fari í mál og það mál yrði til umræðu í fjölmiðlum, ég held að það væri einn liður í því að bloggarar lærðu mörkin milli þess sem þeir mega segja. Ég er viss um að fólk gætir orða sinna betur ef það kostar það mörg hundruð þúsund að svívirða aðra.

Reyndar rifjast það upp fyrir mér núna að bróðir minn lagði fram útprent af bloggsíðu í málaferlum sem hann er sakborningur í núna, þ.e. þessu gæsalappamáli. Þar hafði bloggari sem tengdur er fjölskyldu Halldórs Laxness ráðist á bróður minn af fullkominni heift og orðið sjálfum sér til skammar með níðskrifum. Þessi skrif bloggarans lýstu líka djúpstæðum fordómum hans á samkynhneigðu fólki, fordómum sem hann gerði sér ábyggilega ekki grein fyrir sjálfur.

Þessi bloggari er listamaður sem ég dái og ég hef oft gaman af að lesa þetta blogg og skoða verk hans, ekki síst vegna þess að í bæði orðum hans og myndum býr kraftur. Svona svipað eins og í bloggi dr. Gunna sem er geysiskemmtilegur bloggari sem þó á það til að vera óvæginn og kjarnyrtur þegar hann talar um menn og málefni. En mér finnst aðalatriðið að dæma ekki fólk af því sem það gerir verst og hafa hugann við að bloggið og svona tjáning almennings er nýr miðill og það eru einnþá bernskubrek þar, fólk er ekki búið að læra á hvernig að umgangast svona miðla..."

Þegar ég les þetta yfir þá finnst mér lífið skrýtið, ég hef oft óskað þess að einhver hefji málaferli til að lækka rostann í netverjum og kenna þeim mannasiði en svo hefur það gerst að Jón Ólafsson sem er ekki vammlausasti maður Íslandssögunnar (smáníð til að prófa hvað margar milljónir ég þarf að borga fyrir þetta :-) hefur gerst sá krossfari og bróðir minn orðið sá sem var sakborinn.

Ég held að við ættum að reyna að læra af reynslu annarra og reynslu bróður míns og vera viðbúin því við verðum sótt til saka bæði fyrir að tala ógætilega um menn og málefni og fyrir brot á höfundarrétti. Hvort tveggja er óhjákvæmilegt í þeim miklu hræringum sem eru í samskiptamunstri okkar þegar við hringsnúumst inn í netsamfélagið - þær venjur og þau lög og þær reglur sem gilda um orðræðu og hver má tala og hvenær og hvernig og hver á orð og hugsanir og hver má nota orð og hugsanir og hin hefðbundnu lög um tjáningarfrelsi og eignarrétt á hugverkum eru engan veginn í takt við hin nýja netsamfélag.

Ég geri ráð fyrir að bróðir minn hafi vel verið meðvitaður um áhættu á málaferlum sem hann tók með þessari orðræðu en hafi búist við því að það yrði málaferli á Íslandi miðað við þá mildu meiðyrðalöggjöf og refsingar sem hér tíðast. Það hefði líka verið líklegt að það neikvæða kastljós sem myndi þá beinast að Jóni Ólafssyni þar sem fortíð hans yrði gerð tortryggileg yrði til að málaferlin sköðuðu Jón mest sjálfan. Sumir bloggarar tala á mjög rætinn hátt um þekkta einstaklinga og fyrirtæki, ekki síst stjórnmálamenn, eiginlega stundum í ofurdrambi þeirra sem halda að þeir séu óhultir vegna þess að stjórnmálamenn eða fyrirtæki sem þurfa að varðveita ímynd vilja með engu móti vera í umræðunni baðaðir í neikvæðu ljósi, skotspænir gróusagna og niðrandi kjaftasagna.

Bróðir minn vera á góðri leið með að verða píslarvottur og ég vona að hann haldi uppi öflugri málsvörn, ég vona að á orðræða á Íslandi verði í framtíðinni þannig að hann og aðrir Íslendingar geti gagnrýnt miskunnarlaust þá sem með völdin fara - hvort sem það eru fjármálaleg eða stjórnmálaleg völd - og að allir Íslendingar hafi aðgang að upplýsingum og gögnum en þau séu ekki lokuð inn fyrir útvalda og ég vona að einhvern tíma komi skilningur á því að við erum að fara inn í remix tíma þar sem ekkert er að því að endurnýta og endurvinna upp úr verkum annarra.

Mér finnst þær sakir sem á hann hafa verið bornar í tveimur óskyldum málaferlum vera öðrum þræði spurning um hver má lýsa íslenskum veruleika og hver má skrá íslenska sögu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr réttmætri gagnrýni á verk hans eða hann verði að standa fyrir máli sínu en sú aðför sem er að honum núna er svo heiftúðug að það nálgast vitfirringu."


mbl.is Yfirréttur ógilti dóm sem kveðinn hafði verið upp yfir Hannesi Hólmsteini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýla Ómars Ragnarssonar

Grýla Ómars Ragnarssonar á heima við Kárahnjúka og ef hún greiðir á sér hárið þá er það reitt og rifið eins og ryðgað víradrasl. Ég náði að festa á mynd Kárahnjúkagrýluna þar sem hún er á ferð í einum af trukkum sínum fullum af grjóthnullungum sem hún er núna að bryðja niður í sinni stóru og miklu steypuhrærivél.

karahnjukagrjotbill
Salvör teiknaði Grýlu á mynd Friðriks Dýrfjörð af grjótflutningsbíl við Kárahnjúka

 

Hér er það sem ég skrifaði um Grýlu Ómars árið 1996:

Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar

Í næstelsta kvæðinu, Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar býr Grýla stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli? 

Brot úr Grýlukvæði eftir Ómar Ragnarsson:

Já matseldin hjá Grýlu greyi
er geysimikið streð.
Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.
Ó Grýla, ó Grýla, ó Grýla
í gamla hellinum.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband