Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Heggur sá er hlífa skyldi

Það verður að  taka mjög alvarlega ásakanir á hendur trúarleiðtoga Byrgisins. Þetta eru ekki lengur skot úr launsátri og nafnlausar ásakanir. Ung kona kom fram undir nafni í Íslandi í dag og frásögn hennar af viðkynningu við trúarleiðtoga og forstöðumann Byrgisins er samhljóða því sem haldið var fram af öðrum konum í Kompásþættinum. Ef það er satt sem  haldið hefur verið fram í Kompás og sem frásögn konunnar studdi  þá er það reiðarslag fyrir ekki bara Byrgið heldur fyrir alla aðila sem reka meðferðarheimili byggð á trúarlegum grunni.

 


mbl.is Segist hafa átt í sambandi við Guðmund Jónsson í Byrginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljós fangavarðanna

Í Kastljósinu í kvöld var fjallað um fangelsið á Litla Hrauni. Ég kom seinast að fangelsinu  fyrir einu og hálfu ári  á jónsmessunótt en þá er hátíð á Eyrarbakka. Kona sem ég hitti þá sagði mér frá því að hún hefði oft  heimsótt son sinn í fangelsið, hann sat þar vegna fíkniefnadóms eins og raunar stór hluti af þeim sem eru í fangelsum á Íslandi. Sonur hennar er látinn. Hann dó kornungur og hann dó af völdum læknadópsins  Kontalgin

Kastljósið í kvöld var kastljós fangavarðanna. Umfjöllunin var mest um aðstöðu þeirra og umkvartanir.  Það var líka viðtal við fangann Þór Sigurðsson. Ég held að afbrot hans sé tengt fíkniefnaneyslu, hann braust inn í fyrrum vinnustað sinn í vímu til að fjármagna fíkniefnaneyslu og hann framdi voðaverk.

 

 


Klikkað Kastljós

Annað hvort er ég skrýtin eða það er eitthvað verulega undarlegt við Kastljós-Kompás stríðið.  Núna treysti ég hvorki íslenskum læknum eða lögreglumönnum. Ég skil ekki hvernig læknir getur komið í sjónvarp og vitnað um lyfjasögu sjúklinga sinna og sérdeilis ekki læknir sem hefur harma að hefna gagnvart Kompási. Þessi læknir var alls ekki trúverðugur í þessum þætti og ég trúi ekki að þetta sé í samræmi við siðareglur lækna. Það kom alveg fram í þessum þætti um hvaða sjúklinga var um að ræða og það hafa margir fylgst með umfjöllun Kompás og fundið til með baráttu þessa fólks við fíkn sína. 

Svo kom seinna einhvers konar vitnaleiðsla yfir mann sem mér skildist að væri í lögreglunni og hann virtist alveg upptendrast í einhverjum nornaveiðum móður sem hafði þóst vera unglingur og vélað karl með strípihneigð til að bera sig, búið til powerpointsjov og sent út um allan bæ. Fulltrúi lögreglu tók alveg undir það að það gæti nú verið að löggan þyrfti að koma sér upp tálbeitum og gera eins og mamman. Þetta  var viðbjóður.  Trú mín á bæði læknum og lögreglu hefur minnkað stórum eftir þennan þátt. Ég hélt í einfeldni minni að aðalatriði hjá  læknum í svona málum væri að vernda sjúklinga sína en ekki nota þá sem skotspæni í sínu stríði við fjölmiðlamenn og ég hélt að lögregla gætti að því að grunaður er ekki sama og sekur og talandi um þetta powerpoint show þá má spyrja hver glæpurinn sé. Ef maðurinn beraði sig við fullorðna konu sem þóttist vera barn þá hefur hann klárlega ekki framið neitt sem flokkast undir perraskap við börn þrátt fyrir að allt bendi til að hann hafi haft fullan hug á því en það er bara  þannig  að fólk er ekki dæmt fyrir hugrenningasyndir, saknæmt athæfi þarf að hafa átt sér stað. Það er hins vegar klárlega saknæmt að senda þessar myndir um Netið.

Forstöðumaður Byrgisins kom vel fyrir og skýrði mál sitt á sannfærandi hátt. Orð stendur þar andspænis orði og myndir og tölvupóstar líka.  Það má minna á telja á fólk saklaust þar til sekt hefur verið sönnuð fyrir dómsstólum,

Er það ég sem er eitthvað skrýtin eða er þessi umfjöllun lögreglu og læknis í Kastljósi verulega klikkuð?


Siðferði á Netinu - Að skjóta fólk

Ég var í morgun á skemmtilegum hugflæðisfundi um siðferði á Netinu.  Akkúrat núna þá finnst mér mikilvægast í því samhengi vera hversu óvarðir margir netverjar - ekki síst börn og unglingar - eru fyrir alls konar aðilum sem nálgast þau af annarlegum hvötum. Þá á ég ekki eingöngu við einhverja netperra, ég á alveg eins við aðila sem eru að selja einhverja vöru eða þjónustu eða ánetja unglinga einhverri neyslu og gera það á lævísan og siðspilltan hátt eins og áfengisauglýsingarnar á pose.is og 69.is og einnig aðila sem selja kynlífsþjónustu eða beinlínis gera út á svik og pretti m.a. með því að búa til falska prófíla á myspace og þykjast vera manneskjur sem vilja vingast við einhverja en eru bara að reyna að selja sína vöru. Reyndar virkar þetta í báðar áttir, hljómlistarmenn á Myspace eru að reyna að kynna sig og selja tónlistina sína og  búa til aðdáendahópa og það er allt í lagi svo fremi sem tilgangur þeirra sé augljós og markaðssetningin heiðarleg.  

Það voru nokkrir bloggarar á fundinum og einn þeirra notaði góða líkingu um hvernig nú hinn almenni borgari hefur aðgang að sínum eigin fjölmiðli, sínu eigin bloggi og það fylgdi þessu vald , við höfum öll heyrt talað um fjölmiðla sem fjórða valdið og það mætti líkja þessu valdi við byssu og það væri ekki víst að sá sem hefði byssuna kynni að nota hana, það væri ekki víst að viðkomandi vissi og skildi að það er ljótt að skjóta fólk.

Það var líka umræða um það villta vesturs siðferði sem þessa daganna ríkir í netheimum á Íslandi. Svona siðferði þar sem almenningur veltir þeim  upp úr tjöru og fiðri sem hann dæmir þrjóta og hengir þá upp í gálga.  Ég sá á bloggi í morgun umfjöllun og vísun í powerpoint show sem ég veit að hefur gengið á Netinu. Þar eru nokkrar myndir af fullorðnum manni í ýmsum stellingum, andlitið er auðþekkjanlegt og með fylgir umræða sem sögð er hafa átt sér stað milli  unglingsstúlku og viðkomandi manns og sagt er að sendandi sé móðir hennar.  Þessi sena er sláandi lík þeirri gsm símasenu sem birt var í síðasta Kompás þætti.  Ég er ekki fylgjandi neinni linkind við þá sem fremja auvirðilegan verknað og mér finnst að brot þeirra sem fremja alvarlega glæpi ættu að vera vel auglýst og allt í lagi að birta nöfn og myndir af dæmdum sakamönnum ef telja má að það hindri einhverja glæpi í framtíðinni. Í þessu tilviki var ekki um það að ræða að  og ekki einu sinni víst að athæfi mannsins teljist saknæmt skv. íslenskum lögum.  Sá sem dreifir  þessu powerpoint showi eða birtir það á Netinu er eins og barn sem hefur fengið hríðskotabyssu og veit ekki og skilur ekki að það má ekki skjóta fólk.


Óskar og ofsóttir Framsóknarmenn

Flott hjá Óskari að biðja um að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir sé rift. Óskar tekur með þessu af allan vafa um að hann vill vera heiðarlegur stjórnmálamaður og vinna þar sem friður og sátt ríkir.  Ég hef engan sérstakan áhuga á að tjá mig um Kastljósviðtalið Björn Ingi versus Dagur en ég ætla samt að gera það til að vekja athygli á moggabloggspammara sem hefur ofsótt mig undanfarið með eftirfarandi athugasemd sem hefur verið skrifuð amk þrisvar sinnum í athugasemdir hjá mér á þessu bloggi. 

Svona er spammið: 

Mér finnst einkennileg þögn þín, Salvör, um atburði undanfarinna daga. Þeir aðilar sem þú hefur kappkostað að mæra í gegnum tíðina reynast vera spillingargæjar af verstu tegund. Síðan þegar reynt er að fá þá til að gangast við barninu byrjar ballið. Það er ekki gengist við einu né neinu og allt öðrum að kenna.

Það kemur líka fram í grein hjá Guðm Steingríms að téður Óskar Bergsson hefur orðið uppvís áður að þvílíkri spillingu. Nú sitja þessir menn við kjötkatlana og ausa úr þeim yfir vini og samflokksmenn. Fjármuni almennings.

Vertu nú sjálfri þér samkvæmt og láttu okkur vita hvað þér finnst!!!!

Óskráður (Alla)

Svar mitt til þessa óskráða moggabloggspammara Alla er þetta:

Í fyrsta lagi þá skrifa ég um það sem ég vil á þessu bloggi og vel sjálf umræðuefni og kappkosta að vera engum háð og mér bara finnst þetta efni ekki nógu áhugavert. Mér finnst hins vegar áhugavert að taka fyrir hvernig spammarar eins og þú og ýmis konar ómálefnaleg níðskrif í bloggum og athugasemdum við blogg ná að eyðileggja umræðuvettvanga á Netinu og það er ástæðan fyrir að ég svara þessu nú.

Í öðru lagi þá er ég enginn sérstakur skipaður verjandi borgarmálaarms Framsóknarflokksins og ég beini til þín að snúa þér beint til oddvita flokksins Björns Inga með athugasemdir.  Það að snúa sér til mín sem ekki einu sinni var á listanum né gegni neinum nefndarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík er alveg eins og þú bæðir mig að verja bramboltið með Hummerjeppann í kosningabaráttunni.

Í þriðja lagi þá hef ég einbeitt mér að málum sem mér þykja mun alvarlegri  en þetta  innan Framsóknarfélagsins í Reykjavík Norður undanfarið ár enda gekk ég í Framsóknarflokkinn til að vinna þar að siðbót og kvenréttindum og ég reyni að hafa það alltaf að leiðarljósi. Ég hef líka reynt að vinna að breytingum innan frá undanfarin ár og eitthvað þokast áfram þó ég sé nú ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn. En ef maður ætlar að breyta stjórnmálaflokkum þá má maður ekki gefast upp þó hlutirnir gangi hægt. 

Í fjórða lagi þá er það svo að þú verður ekki sjálfkrafa gerspilltur við að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn og það sem Framsóknarflokkurinn aðhefst er ekki sjálfkrafa dæmi um spillingu bara út af því að það er runnið frá Framsóknarflokknum. Það að koma sínum sjónarmiðum og sinni stefnu að í Reykjavík  m.a. með því að láta gera úttektir á og vinna að framgangi á hönnun/handverki og kvikmyndaiðnaði og fá til þess fólk sem hefur starfað ötullega í flokknum er ekki dæmi um spillingu. Það er vel skiljanleg gremja annarra yfir því hversu mikil völd Framsóknarflokkurinn hefur um þessar mundir bæði í ríkisstjórn og borgarstjórn en það er ekki dæmi um spillingu að stjórnmálaafl noti þau völd sem það hefur til að ná fram stefnuskrá sinni. Þvert á móti þá ætlast kjósendur til að það sé gert.

Það er heldur ekki partur af spillingu að Framsóknarflokkurinn hafi þessi völd nema fólk telji það lýðræðisskipulag og kjördæmaskipulag sem leiddi til þessarar niðurstöðu í kosningum spillingu. Það eina sem mér fannst orka tvímælis af því sem fram kom í fréttum var verktakasamningur Óskars sem hann hefur nú óskað sjálfur að rifta. Hann sýnir með því að hann vill verja heiður sinn sem stjórnmálamanns og tekur mark á gagnrýni. Það er ekki skynsamlegt að búa til þær aðstæður að einhver sitji hugsanlega beggja vegna borðs. Annars skoðaði ég þetta blogg sem þú nefnir hjá Guðmundi þessum  Steingríms og athugasemdir þar. Það er bara sorglegt og svona málflutningur dæmir sig sjálfur. Þetta eru níðskrif af versta tagi og vegið ruddalega og með dylgjum bæði að Birni Inga og Óskari. Það er sorglegt dæmi um íslensk stjórnmál ef það er svona málflutningur sem menn vilja hafa í stjórnmálum

Hér er dæmi úr bloggi Guðmundar undir titlinum Brúnn Ingi sem ég hugsa að sé einhvers konar uppnefni á Birni Inga. Titilinn slær strax tóninn um hvers eðlis inntakið er. En hér er dæmi um orðræðuna:

"Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn. ...Siðleysið er yfirgengilegt ....Ég hef reyndar traustar heimildir fyrir því að sá listi sem þar birtist sé ekki tæmandi.... tti Björn skítadreifarann á fullt og dreifði í allar áttir og varð vitaskuld, eins og svo oft vill verða með þá aðferð, skítugastur sjálfur. Þarna birtist okkur smám saman réttnefndur Brúnn Ingi. Drullugur upp fyrir haus....nú lítur Björn Ingi greinlega svo á að hann sé kominn að kjötkötlunum og geti iðkað þessar aðferðir, að raða sínu fólki í stjórnsýslun...Björn Ingi Hrafnsson puðaðist inn í borgarstjórn á fullkomnum lágmarksfjölda atkvæða. Hann er sex prósent maðurinn í íslenskri pólitík. Er hann virkilega svo veruleikafirrtur og virðingarlaus gagnvart lýðræðinu...Ein skítapillan lenti á...Í lokin kom svo skítapilla ársins frá drullugum Brúni Inga upp fyrir haus...þennan skammarlega málflutning nafna síns um að sú stofnun sem hún veitti forstöðu hafi staðið í mútumálum....En þannig eru örlög skítadreifara í pólitík. Það er aldrei hægt að segja hvar skíturinn lendir."

Hér eru dæmi úr athugasemdunum:

"þetta lýsir framsóknarmönnum algerlega skítlegir upp til hópa. framsóknarflokkurinn er krabbamein í íslenskri pólitík og því þarf að útrýma......... ... Það er ótrúlegt hverju örfylgi getur skilað. Þar sem tveir Framsóknarmenn hittast þar er spegill.... skítlegt fés Björns Inga fékk mig til að skipta um rás....er það nú varla málið að taka af lífi eða meiða líkamlega framsóknarmenn. Hinsvegar mætti draga þá niður á Lækjartorg á meðan skíturinn á þeim er enn blautur, og velta þeim upp úr fiðri...Mannfýlan (BIH) er náttúrlega bara gerspilltur og siðlaus, valdasjúkur kjáni sem skeit svo langt upp á bak í yfirgenglegum málfllutningi sínum....já hversu mikið krabbamein Framsókn er í íslenskri pólitík! ...ar dónalegur frekjuhundur sem romsaði út úr sér eins mikilli vitleysu og hægt var.....Haha... 80 framsóknarmenn? Þeir hljóta að hafa fengið nokkra óháða lánaða...trúi ekki að til séu 80 Reykvíkingar sem skrifa undir þetta bull....Bingi er greinilega siðspilltasti stjórnmálamaðurinn sem við eigum í dag. Hann er samferðamaður  hinna ógeðfelldu stjórnmálamanna sem málefnin skipta engu...Þetta eru feitir kjötkatlar fyrir spillta stjórnmálamenn, Framsóknarmennina Björn Inga og Óskar Bergsson."

Ég spyr aftur. Er þetta málefnaleg umræða?
Er það svona sem menn vilja hafa umræðu um íslensk stjórnmál?
Er allt í lagi að kalla fylgjendur eins stjórnmálaflokks krabbamein og nota mjög niðrandi orðfæri um þá  og lítt dulbúnar hótanir um hvað væri réttast að gera við þá. Menn ættu næst þegar slík orðræða er notuð um Framsóknarmenn að prófa að setja önnur frjáls félagasamtök í staðinn og reyna þannig að skilja hve afkáraleg og afskæmandi svona orðræða er fyrir þann sem mælir fram svona níð.

Að lokum vil ég taka fram að ég fagna því að stjórnarandstaðan í borginni sé á vaktinni yfir það sem betur má fara í stjórnsýslunni. Ég harma að það var ekki vilji til að halda áfram því góða starfi sem R-listinn stóð að og sem Framsóknarflokkurinn stóð heilshugar á bak við. Því miður vildu Vinstri Grænir ekki halda því samstarfi áfram og töldu aðra kosti betri fyrir sinn málstað. Því varð til sú staða sem nú er í borgarstjórn. Svo vil ég líka taka fram að mér finnst ekki hægt að tengja Dag og einhverja kennslu hans í HR við lóðaúthlutun háskólans í Vatnsmýrinni, það var hart barist um staðsetningu HR og Reykjavík bauð fram svo góðan kost að HR gat ekki hafnað því.  Það vita þeir sem fylgdust með því máli.

Hins vegar fannst mér ágætis athugasemd hjá Birni Inga að benda á að Helgi Seljan hafi verið ráðinn í Kastljósið án auglýsingar. Það er ágætt að beina kastljósinu að Kastljósinu og öðrum þáttum sem útvarp allra landsmanna kostað af almennafé varpar út. Það er mjög einkennilegt hvernig fólk er ráðið á þá miðla og hverjir fá tækifæri inn í fréttamennsku og þáttagerð.  Þar má nefna kynjasjónarmið en það má líka nefna hversu ofurbláir margir fréttamenn eru og hafa verið síðan elstu menn muna.

Guðmundur Steingríms segir um Helga Seljan í Kastljósinu "Helgi Seljan var vissulega ráðinn auglýsingalaust. En um það snýst ekki debattið.... Einnig liggur munurinn vitaskuld í því Helgi var ráðinn vegna hæfileika sinna, mats á þeim, og ekki vegna neins annars."

Hvaða sérstaka hæfileika hefur Helgi Seljan og hver mat þá?
mbl.is Óskar biður um að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferð og skutl

Ég var að hlusta á Kastljós áðan. Þar var viðtal við Sigmund Ernir. Hann er traustur og trúverðugur fréttamaður og ég hef fulla trú á því að Kompás hafi unnið eins vel og hann lýsir umfjöllunina um meðferðina sem breytist í martröð. Ég horfði  áðan á  Kompásþáttinn á Netinu. Ég horfði líka áðan á viðtalið við Tom Stephens sem hefur nú verið handtekinn og er grunaður um morð á vændiskonum í  Ipswich.

Það er eitthvað líkt með þessari fjölmiðlaumfjöllun hér heima á Íslandi og í Bretlandi um þessi tvo ólíku mál og það er eitthvað líkt með þessum málum.  Málið í Bretlandi er auðvitað sýnu alvarlegra og ég er ekki að bera þessi mál saman til að sverta mannorð einhvers með að bera saman bandingjaleiki og morð heldur til að benda á hve kynferðisleg smánun og misþyrmingar á konum er  vinsælt yrkisefni  fjölmiðla og reyndar líka aðalþemað í mörgu af því skemmtiefni sem okkur er boðið upp á.  Ef til vill eru þetta galdrabrennur og ofsóknir nútímans, í báðum tilvikum er um grunaða en ekki sakfellda að ræða og á einhvern hátt er þetta fréttaefni eins konar fréttaklám, fréttagildið og athyglin sem málin fá eru tengt því að hér er kynbundið ofbeldi, afbrigðilegt kynlíf sem byggir á valdi eins og valdaleysi annarra,  niðurlæging og  smánun á konum og sögur af varnarlausum konum króuðum af í vonlausri aðstöðu. Sögur af bráð og veiðimanni. Sögur af ófreskjum og því sem þær éta.  

Í báðum málum eru konurnar illa haldnir eiturlyfjasjúklingar. Það er líka líkt að í báðum tilvikum hafa fréttamenn tekið viðtöl við hina grunuðu og þeir eru lýstir upp sem persónur í "profiling" eins og í sakamálasögum.  Tom Stephens virðist hafa notið þess að skutla vændiskonunum sem voru myrtar milli staða og var að eigin sögn í einhvers konar trúnaðarsambandi við þær. Hann segir: ""They'd quite often want a lift to get their drugs and I would give them a lift and it was better for me like that and that's how it developed into a friendship with a number of the girls." 
 

Reyndar sé ég að umræðan á BBC er að einhverju leyti um vændi  og hvernig eigi að vernda vændiskonur. Það er áætlað að 80 þúsund manns vinni við vændi á Bretlandseyjum og þar af séu 4 af hverjum 5 konur. Það er hins vegar til marks um á hvaða stigi umræðan er að aðallausnin er talið að koma upp viðurkenndum vændishverfum.  Það er nú hins vegar kannski þannig að vændiskonur eru í mestri hættu að vera drepnar af þeim sem skutla þeim milli staða.


mbl.is Guðmundur lætur tímabundið af störfum fyrir Byrgið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrgið, Konukot, Vogur, brauðfætur og kvalalosti

Félagar mínir í Femínistafélaginu stóðu á sínum tíma mörg að söfnun vegna Konukots sem er afdrep fyrir heimilislausar konur sem nánast alltaf eru líka í bullandi óreglu eða alvarlega veikar á geði. Þegar undirbúningur að því afdrepi stóð yfir þá spurði ég "Hvers vegna í ósköpunum þarf sérstakan samastað fyrir konur, er ekki sams konar ógæfa að vera maður og kona við þannig aðstæður?"  Þau sögðu mér þá að þannig væri það ekki, konur í óreglu væru útsettar fyrir alls konar kynbundið ofbeldi á stöðum fyrir heimilislausa af karlmönnum sem þá staði sækja sem annað hvort nýttu sér ástand og úrræðaleysi kvenna til að svala kynfýsnum sínum eða sem hefðu hagmuni af því að konan héldist  áfram á götunni í neyðarvændi sem framfleytti þeim. 

í gærkvöldi var sýndur í sjónvarpi þáttur um stjórnanda trúfélags sem rekur meðferðarheimili fyrir mjög langt leidda fíkla og þar var eftir því sem ég best veit (ég hef ekki séð þáttinn, eingöngu umfjöllun í fréttum og á bloggi) haldið fram að viðkomandi hefði verið í kynferðissambandi við nokkrar konur sem á þeim tíma hefðu verið í meðferð á þessum stað. Þetta var tengt við umræðu um kvalalosta.

Ég veit lítið um þetta einstaka mál nema það sem ég sé á skrifum annarra og vona að fólk dæmi ekki aðra nema fyrir liggi sekt þeirra af þeim aðilum sem eiga að segja til um sekt eða sýknu. Það að vera ásakaður í fjölmiðli um eitthvað er ekki sama og að vera fundinn sekur fyrir dómstólum. 

En það getur verið að það séu engin lagaákvæði og engar vinnureglur meðferðarstofnana sem taka á  eða leggja bann við því að meðferðaraðili  sem ekki tilheyrir þeim starfstéttum sem hafa siðareglur sé í kynferðissambandi við þann sem er í meðferð. Það eru siðareglur meðal lækna og sálfræðinga og fleiri fagstétta sem taka á svona málum og ég hef fylgst með að einn liður  í menntun umönnunarstétta er að kenna þeim að vera vakandi fyrir ýmis konar mögulegri misneytingu þeirra sem njóta umönnunar og vita hvað á að gera ef grunur vaknar um slíkt.  Það ætti að vera skilyrði til að fá fé frá opinberum aðilum að þar sé eftirlit og völd fengin fagfólki sem fylgir siðareglum og sem hefur sérstaka skólun í að taka á málum sem þessum  og reyna að fyrirbyggja mögulega misnotkun starfsmanna á skjólstæðingum.

Það er hins vegar þannig að þeir sem sjálfir hafa verið djúpt sokknir og hafa frelsast á einhvern hátt ná stundum betur til þeirra sem eru á kafi í   óreglu, skilja betur aðstæður fíkla því þeir hafa verið þar sjálfir og trúarsannfæring getur oft smitað út frá sér og kærleiksríkt  trúfélagið veitt skjól þeim sem hefur verið útskúfað af öllum. Það skjól og það samfélag er ekki síður mikilvægt eftir að meðferð lýkur og ég reyndar held að það sé ein ástæðan fyrir því að slík meðferð er oft árangurríkari en að fara bara inn á Vog og eiga svo að standa á eigin fótum eftir að út er komið. Þeir eigin fætur eru því miður oftast brauðfætur.

Kona sem ég þekki sagði mér frá föður sínum sem var gífurlegur alkóhólisti og allir hans bræður að hún hefði einu sinni keyrt föður sinn á Vog í einni af ótal ferðum hans þangað og þau fóru yfir Hellisheiðina og henni tókst ekki að halda honum þurrum á leiðinni, hann sagðist ekki geta farið inn á Vog nema drekka í sig kjark og hún hafði ekkert val, hún varð að horfa upp á hann þamba bjór í bílnum á leiðinni yfir heiðina eða hann hefði hlaupið út í óbyggðirnar. Hún keyrði hann beint á Vog og við tók  nokkurra vikna meðferð á Vogi þar sem allt gekk vel og vonir kviknuðu eins og þær gera alltaf hjá aðstandendum og honum sjálfum um að nú myndi hann hafa það. Þegar meðferðinni var lokið þá hringdi hann til dóttur sinnar og ætlaði að koma beint til hennar. Hann féll á leiðinni. Einhverra hluta vegna gat hún ekki náð í hann og  og hann fékk ekki annað far svo hann tók leigubíl. Hún er sannfærð um að hann ætlaði að standa sig og þegar hann hringdi í hana og þegar hann lagði af stað út frá Vogi en eitthvað gerðist, bíltúrinn sem átti bara að vera beint frá Vogi og nokkkurra mínútu leið heim til hennar í leigubíl varð ennþá ein hrösunin. Hann lét leigubílinn koma við í Ríkinu og hann sást ekki í einhverja sólarhringa. 

Það hafa margir sem allir hafa afskrifað náð að fóta sig aftur í lífinu með aðstoð af samblandi af trú og meðferð og það þarf að skoða líka hvað er gott gert og virkar í meðferðinni hjá Byrginu sem og öðrum trúfélögum sem taka við þeim fíklum sem verst eru settir.  

En það er þörf þjóðfélagsumræða að beina kastljósinu að því hve útbreitt og algengt kynbundið ofbeldi er - líka á stöðum þar sem megintilgangurinn er að veita einhvers konar skjól og umönnun og betrunarvist.  Það er svo sannarlega gróft kynbundið ofbeldi ef stjórnandi meðferðarstofnunar stundar kynlíf sem einkennist af kvalalosta með konum sem eru í meðferð á stofnun sem viðkomandi stýrir. Ég hef fylgst með bloggumræðunni um þetta mál og bloggpistill Ómars Valdimarssonar vakti mig til umhugsunar um hvernig sama orðræða er notuð til að réttlæta vændi og réttlæta kynbundið ofbeldi eins og hugsanlegt er að átt hafi sér stað. Ómar segir m.a.:

"Engum kemur við, hvað  X gerir í svefnherberginu sínu, svo framarlega sem hann gerir það með lögráða einstaklingum, sem eru fúsir til verka."

Það kemur okkur bara víst við hvernig framkoma er í meðferðarúrræðum við fótum troðið fólk og langt leidda fíkla og það er óhugnanlegt og hryllilegt ef fólk í slíkri aðstöðu er notað sem kynlífsleikföng. Ennþá hryllilegri mynd er ef kynbundið ofbeldi inn á slíkum stofnunum einkennist af sams konar kvalalosta og samband viðskiptavinar og vændiskonu í neyðarvændi.


Trú, víma og umburðarlyndi

Ég fann eftirfarandi pistil sem ég skrifaði fyrir tveimur árum inn á malefnin.com en þar var þá mikil umræða um Byrgið.  Í kjölfar Kompásþáttarins sem sýndur var í kvöld þá geri ég ráð fyrir að fari í gang mikil umræða í samfélaginu um  meðferðarheimili sem trúfélög reka

 Einn málverji beindi til mín þessari spurningu:

Kannski er betra að vera í trú en vímu.  En er það lífsins ómöulega hægt að þurrka upp fólk án þess að dæla í það öfgatrú?

Finnst þér það bara allt í lagi ef mamma þín yrði hare krishna liði, vottur eða mormóni svo lengi sem það gerir hana þurra?  Þætti þér ekki betra að hún yrði bara þurr og héldi síðan áfram sínu lífi?

Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima... finnst þér það hið besta mál?

Ég svaraði svona:

Mér hefði fundist allt í fína þó mamma mín hefði verði í hare krishna liðinu - hefði reyndar verið  ótrúlega stolt af því - og ein mágkona mín er vottur og önnur sennilega ennþá innskráð ásamt sínum börnum í Klettinn. En því miður var mamma mín ekki í neinum sérstrúarsöfnuði nema Framsóknarflokknum og faðir minn trúði meira á sæluríki kommúnista en Guð.

Þú segir: "Öfgasamtök reka meðferðarstofnanir til að afla sér meðlima..". Þessi orð þín bera vott um mikinn hroka og lítinn skilning á lífinu. Trúfélög sem trúa á eitthvað sem þú trúir ekki á og þar sem safnaðarmeðlimir kjósa að hegða lífi sínu öðru vísi en þú eru ekki öfgasamtök. Bara öðruvísi.

Og það er ekki til að afla fleiri meðlima sem trúarstofnanir reka meðferðarheimili. Það er frekar vegna þess að margt trúað fólk hefur samlíðan með öðru fólki og vill bjarga því frá glötun - ekki bara líkamanum heldur líka sálinni.

Ég held að fólk sem hefur ekki þörf fyrir trú og sem hefur ekki skilning á trúarþörf annarra sé eins farið og litlum börnum sem hafa ekki náð þroska - á vissu stigi (nokkurra mánaða) eru öll börn þannig að það sem er ekki fyrir framan augun á þeim er ekki til - jafnvel þó þau horfi á þegar maður tekur einhvern hlut og hylur hann - þá dettur þeim ekki í hug að leita að hlutinum þar sem hann er hulinn sjónum - hann er ekki til af því þau sjá hann ekki.

Ég held líka að fólk sem er ófært um að hafa samlíðan með öðru fólki eða skilning á að aðrir láti sig örlög samferðafólks varða hafi ekki náð þroska og dýpt sem manneskjur. Ef maður horfir á ógæfu annarra bara til að spegla sjálfan sig í henni og sér ekkert annað en að þar séu aumingjar sem hafi staðið sig illa, breytt rangt og eigi skilið að hafa ratað í raunir - þá er maður að horfa á aðstæður bara út frá sjálfum sér og eins og að hlakka yfir óförum annarra og dáðst að sjálfum sér fyrir að hafa ratað beina og breiða veginn.

Ég er ekki viss um að allir nái þeim þroska í lífinu að hafa samlíðan með öðrum eða skilning á því að það er eitthvað til æðra en þeirra eigin vitund. En ég held að umburðarlyndi og trú - alls konar trú - hjálpi fólki til þess þroska.


Föndur dagsins - Framsóknarlokkar

Föndur - framsóknarlokkarFyrsta föndur dagsins er þessir eksótísku eyrnalokkar. Ég náði mér í tvo barmmerki á nítíuára afmælinu í gær og svo keypti ég festingarnar í föndurbúð neðarlega á Skólavörðustíg. Það tók innan við mínútu að föndra þetta og kostnaðurinn við festingarnar var hverfandi.  

Ég er að skrifa manifesto fyrir bloggföndrið mitt en það á að vera í diy anda, nota hluti sem eru auðfáanlegir, kosta lítið eða gefnir og nota þá alls ekki á þann hátt sem til var ætlast heldur búa til eitthvað nýtt sem hefur einhverja nýja merkingu eða boðskap.

Núna næstu mánuði muni föndrarar hafa mikinn aðgang að alls konar pólitísku hráefni, barmmerkjum, blöðrum, pappírsdóti og þess háttar og það er upplagt að föndra eitthvað nýtt úr þessu, jafnvel setja saman merki frá mismunandi stjórnmálaöflum í hálsfestar eða eðar list sem maður ber á sér eða klippimyndir  eftir því hvernig stjórnarmynstur  föndrarinn vill sjá eftir kosningar.

 


Fagnað með Framsókn

Framsókn hélt upp á 90 ára afmælið í dag og ber aldurinn vel. Hér eru myndir sem ég tók.

Sæunn og Jón

Utanríkisráðherra á afmælishátíð

Framsóknarafmæli

Framsóknarafmæli


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband