Klikkað Kastljós

Annað hvort er ég skrýtin eða það er eitthvað verulega undarlegt við Kastljós-Kompás stríðið.  Núna treysti ég hvorki íslenskum læknum eða lögreglumönnum. Ég skil ekki hvernig læknir getur komið í sjónvarp og vitnað um lyfjasögu sjúklinga sinna og sérdeilis ekki læknir sem hefur harma að hefna gagnvart Kompási. Þessi læknir var alls ekki trúverðugur í þessum þætti og ég trúi ekki að þetta sé í samræmi við siðareglur lækna. Það kom alveg fram í þessum þætti um hvaða sjúklinga var um að ræða og það hafa margir fylgst með umfjöllun Kompás og fundið til með baráttu þessa fólks við fíkn sína. 

Svo kom seinna einhvers konar vitnaleiðsla yfir mann sem mér skildist að væri í lögreglunni og hann virtist alveg upptendrast í einhverjum nornaveiðum móður sem hafði þóst vera unglingur og vélað karl með strípihneigð til að bera sig, búið til powerpointsjov og sent út um allan bæ. Fulltrúi lögreglu tók alveg undir það að það gæti nú verið að löggan þyrfti að koma sér upp tálbeitum og gera eins og mamman. Þetta  var viðbjóður.  Trú mín á bæði læknum og lögreglu hefur minnkað stórum eftir þennan þátt. Ég hélt í einfeldni minni að aðalatriði hjá  læknum í svona málum væri að vernda sjúklinga sína en ekki nota þá sem skotspæni í sínu stríði við fjölmiðlamenn og ég hélt að lögregla gætti að því að grunaður er ekki sama og sekur og talandi um þetta powerpoint show þá má spyrja hver glæpurinn sé. Ef maðurinn beraði sig við fullorðna konu sem þóttist vera barn þá hefur hann klárlega ekki framið neitt sem flokkast undir perraskap við börn þrátt fyrir að allt bendi til að hann hafi haft fullan hug á því en það er bara  þannig  að fólk er ekki dæmt fyrir hugrenningasyndir, saknæmt athæfi þarf að hafa átt sér stað. Það er hins vegar klárlega saknæmt að senda þessar myndir um Netið.

Forstöðumaður Byrgisins kom vel fyrir og skýrði mál sitt á sannfærandi hátt. Orð stendur þar andspænis orði og myndir og tölvupóstar líka.  Það má minna á telja á fólk saklaust þar til sekt hefur verið sönnuð fyrir dómsstólum,

Er það ég sem er eitthvað skrýtin eða er þessi umfjöllun lögreglu og læknis í Kastljósi verulega klikkuð?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: TómasHa

Þetta var einmitt ótrúlegt að þessi læknir hafi nánast getað nafngreint einstakling og upplýst um samskipti sín við viðkomandi.  Ég veit nú ekki hvort trú mín á læknum yfir höfuð hafi minnkað við þetta. Það er misjafn sauður í mörgu fé.

TómasHa, 19.12.2006 kl. 20:53

2 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæl Salvör

Jú það er rétt að manni finnst skrítið að læknar geti komið fram með svona upplýsingar í sjónvarpi og hélt að þeir ættu að vera bundnir trúnaði. Reyndar minnist ég ekki þess að hann hafi sagt nöfn á sjúklingum sem um ræddi.

Varðandi hitt málið sem þú virðist afar hneyksluð yfir, þá mun ég alltaf í slíkum málum láta börnin njóta vafans. Jú vissulega var það mamman sem sendi póstinn áfram út á netið og kona spyr sig hvort það er vegna vantrausts á kerfið og dómstóla í slíkum málum. Það sem kemur fram í póstinum er hins vegar það að maðurinn er að tala við 14 ára barn að því er hann best veit. Það er dóttirin sem er með manninn sem tengill inn í msn-inu sínu að því er virðist.  Réttast er auðvitað að tilkynna slíkt til lögreglu og það gerði ég þegar ég fékk þennan póst. Myndi maður ætla að lögreglan ætti að hafa möguleika á að rannsaka málið, því slíkt hlýtur að gefa þeim ástæðu til rannsóknar á málinu þó ekki sé nema það.

Lögreglumaðurinn talaði aldrei um að maðurinn væri sekur, en málið var til umfjöllunar á overall basis eða til að vekja umræðu á því hvað hægt er að gera í slíkum málum og að tilkynna beri slíkt til lögreglu til að hægt sé að rannsaka. Það finnst mér algerlega réttmæt umfjöllun og með öllu nauðsynleg í okkar samfélagi þar sem barnamisnotkun er nokkuð algeng (skv. rannsóknum. ). Hvort nauðsynlegt var að sýna myndirnar er síðan aftur spursmál. En umræðan og vakning foreldra á þessum málum er með öllu nauðsynleg.

Af hverju er það viðbjóður að lögreglan viðurkenni að mögulega sé það nauðsynlegt að nota tálbeitur eða svona aðferðir við að ná kynferðisafbrötamönnum? Ég sé ekkert athugavert við að nota tálbeitur til þess rétt eins og gert er í eiturlyfjamálum og öðru. Það er algerlega nauðsynlegt að lögreglan hafi einhverja miðla eða tæki til að ná slíkum mönnum á netinu. Með því var ekki verið að sakfella þennan einstaka mann, heldur benda á nauðsyn þess í öllum slíkum málum þar sem grunur leikur á misnotkun, eða yfirvofandi misnotkun. 

Í svona málum er hins vegar alveg augljóst að fólk hefur ekki trú á kerfinu og dómstólum enda ekkert skrítið miðað við hvernig dómar eru í kynferðisbrotum gegn börnum.

Með þessu er ekki verið að dæma mannin sekan, heldur vekja athygli á slíku athæfi og vara við og einnig koma til skila að fólki ber að tilkynna slíkt ef grunur leikur á um misnotkun á börnum. Það er absolut samfélagsleg skylda að tilkynna slíkt og er bundið í lög. Það þarf ekki að vera meira en grunur, það þarf ekki að vera sannað eða að fólk hafi orðið vitni... það þarf eingöngu að vera grunur um misnotkun til að tilkynna slíkt til rannsóknar.

Andrea J. Ólafsdóttir, 19.12.2006 kl. 22:45

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Andrea, það er viðbjóður að lögreglan kói með í einhvers konar sýndarréttarhöldum í sjónvarpi þar sem maður er sakfelldur. Í þessu tilviki var ekki einu sinni víst að afbrot hefði verið framið. Samt  er maðurinn  gerður ærulaus. Jafnvel þó ásetningur þessa manns hafi verið að bera sig fyrir framan unglinga þá þarf ekki einu sinni að vera að það hafi verið um annað að ræða. Hugsanlega er þetta maður sem gengur ekki heill til skógar svona svipað og maður sem kallaður var Leibbi dóni og gekk um bæinn á mínum unglingsárum. Svona á  framkvæmd laga og dómskerfi ekki að virka, grunaðir menn og sakborningar eiga að njóta einhvers konar verndar, það er nauðsynlegt til að mál þeirra fái sanngjarna umfjöllun.

Ef lögreglu grunar að eitthvað ólöglegt athæfi eigi sér stað þá væntanlega hefur hún einhvers konar eftirlit í vefrýmum og væntanlega auglýsir ekki að viðkomandi sé lögreglumaður heldur þykist vera t.d. unglingsstelpa. En sú staða getur komið upp í netheimum að stjórnvöld reyni að hlera og fylgjast með þegnunum í skjóli þess að það sé glíma við terrorista og perra. Ég bendi á hleranamálin frá kaldastríðinu. Það er sama að gerast núna, það er vaxandi tortryggni stjórnvalda við ákveðna þegna (t.d. nægir að vera þegn af arabískum uppruna og hafa sérstakan áhuga á efnafræði til að þú þykir grunsamlegur) og það er nauðsynlegt að sporna við því að stjórnvöld taki ekki fegins hendi vinsalar ástæður eins og leit að barnaperrum og noti það sem skálkaskjól til að fjötra okkur og fylgjast með okkur. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.12.2006 kl. 01:09

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Tómas, þetta er rétt. Það má ekki dæma alla lækna á landinu út frá þessu eina tilviki. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.12.2006 kl. 01:13

5 identicon

Ég er þér sammála um lækninn, enda gengur hann eflaust ekki heill til skógar..

en mér finnst mjög skrítið hvers vegna þú tekur upp hanskann bæði fyrir kallinn sem vildi láta 14 ára stelpu horfa á tillann á sér.. og forstöðumanni Byrgisins sem krafsar í bakkann með afsökunum og neitunum sem hvorki standast innbyrðis né passa fullorðnum manni..

báðar þessar umræður finnast mér eiga fyllilega rétt á sér og þar sem þú minnir óspart á að menn eigi að fá að vera saklausir þar til sekt þeirra sé sönnuð þá er hlutverk fjölmiðla einnig að vera vettvangur lýðræðislegrar umræðu og fyrir almenning.

ég er þakklát fyrir að vera minnt á viðbjóðinn sem þrífst í þjóðfélaginu og dettur ekki í hug í eina mínútu að krefjast þess að hann eigi að njóta einhvers konar verndar.. 

..eitt annað.. ertu að gera lítið úr því sem menn eins og Leibbi dóni gera? 

Bríet Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 05:58

6 Smámynd: halkatla

forstöðumaðurinn kom einum of vel fyrir, manni langar svo að trúa honum...

ég hef aldrei haft jafn mikið traust á lögreglunni einsog núna, eftir að hafa séð þessa vinalegu kastljós löggu. Ég hef heyrt lögreglumenn, bæði í útvarpi og sjónvarpi, gera mjög lítið úr nauðgunarfórnarlömbum og tala af virðingarleysi um ofbeldi gegn börnum og þessi maður var kærkomin tilbreyting frá því. Hann kom ótrúlega vel fyrir að mínu mati. Þessi maður á myndbandinu taldi sig hafa framið ákveðið ofbeldi gagnvart barni/ungling, allavega á fullorðnu fólki ekki að leyfast að þröngva sínum kynfærum uppá þau, hvorki á netinu né annarsstaðar. Túlka má viðvaranir mömmunnar um að hún sé bara 14 ára,  sem veglegt tækifæri fyrir manninn til að bakka með sínar hvatir. Hún hegðaði sér ekki einsog tálbeyta heldur gerði hún einmitt það sem foreldrar eiga að gera, kynnti sér málið með því að fara á msn og tala við fólkið sem er þar inni í lífi dóttur hennar. Persónulega finnst mér það ekki glæpur að hún hafi sent þetta um netið, þessar myndir og þessi sena af manninum eru jú eftir alltsaman hennar eign... hann sendi henni þetta og hún má gera það sem hún vill við það. Þeir sem eru að sýna sig nakta á msn verða bara að þola hitann sem er í eldhúsinu. Mér finnst þessi móðir alger snillingur og þótt þetta sé harkalegt réttlæti þá er það samt mjög eðlilegt miðað við það sem við vitum að á sér stað í samskiptum fullorðinna og barna á netinu. Ef eitthvað getur orðið til þess að vernda börn og virkja réttindi þeirra þá á það rétt á sér, ef löggan notar ekki tálbeitur þá eykst möguleikinn á því að fólk útí samfélaginu fari að taka slíkt upp. Það er um að ræða einhverja harðsvíruðustu og hættulegustu glæpamenn í heimi...

halkatla, 20.12.2006 kl. 08:29

7 Smámynd: Andrea J. Ólafsdóttir

Sæl aftur Salvör

Mér sýnist þú misskilja pínulítið umræðuna ... eða ég veit það ekki... en þú segir hér að ofan 

"það er viðbjóður að lögreglan kói með í einhvers konar sýndarréttarhöldum í sjónvarpi þar sem maður er sakfelldur. Í þessu tilviki var ekki einu sinni víst að afbrot hefði verið framið. Samt  er maðurinn  gerður ærulaus." 

Vissulega væri það leiðinlegt ef það sem þú segir hér væri rétt. Það sem hins vegar gerðist í Kastljósinu voru hvorki sýndarréttarhöld né sakfelling og hvað þá að maðurinn hafi verið gerður ærulaus, því hvorki birtist af andliti mannsins mynd né heldur var tekið fram nafn hans.

Ég get bara ekki séð þetta með þeim hætti. Umræðan snerist jú um þetta atvik, en að mínu mati snerist hún meira um svona atvik í fleirtölu og hvað beri að gera við því í okkar samfélagi og hvernig kerfið geti tæklað það. Ég held að ekki sé hægt að gera manninn ærulausan nema ef birt hefði verið mynd af honum eða talað um hann með réttu nafni. Það var hreinlega ekkert í umræðunni sem bendir til þess að hann hafi verið sakfelldur, heldur frekar vakin athygli á svona málum yfir höfuð. Ég lít í það minnsta svo á að okkur beri að ræða um þessa hluti og einnig hvaða lausnir hægt er að bjóða upp á í slíkum málum. 

En ég get þó tekið fyllilega undir með þér að auðvitað ber að varast að detta í eins konar drullupitt persónunjósna og það þarf virkilega að fara varlega í svona málum. Þetta eru þó það alvarleg brot þegar og ef þeir gerast brotlegir við börn fyrir alvöru að það ber að skoða dóma og réttarkerfið með tilliti til þess hversu alvarleg þessi brot eru. Það er því miður ekki reyndin í dag.

Ég kannast sjálf ansi vel við þessa hræðslu við njósnir af hálfu ríkisvaldisins og ég veit að fólk innan náttúruverndarbaráttunnar sem aldrei hefur brotið neitt af sér hefur grun um að það sé hlerað. Fleiri en einn og fleiri en tveir. Semsagt "óvinir ríkisins" af því þau eru á öndverðri skoðun við ríkisvaldið og hleranir, eða grunur um hleranir heyra ekki bara fortíðinni til og sögu kalda stríðsins. Það er hins vegar gífurlega erfitt fyrir almenning að færa sönnur fyrir því að ríkisvaldið eða lögreglan hleri það eða njósni um það og því líka erfitt að ákæra fyrir það. Þannig að ég get svo sannarlega verið algerlega sammála þér í því að það ber að fara varlega í slíkt og almenningur verður líka að hafa tæki til þess að komast að því hvort um það sé njósnað og ákært fyrir það ef það telur sig vera ranglega grunað um eitthvað misferli.

En þegar um svona atferli er að ræða ber jú að sjálfsögðu að kanna hvort um lögbrot er að ræða og að sjálfsögðu á lögreglan að sjá um að kafa betur ofan í málið og jafnvel rannsaka tölvu mannsins til að athuga hvort þar sé barnaklám ef þetta þykir nægileg "probable cause" eða ef þeir telja að grunur leiki á því. Í þessu einstaka tilfelli mun sennilega ekki vera hægt að rannsaka það, því skjalið náði jú að dreifast til heimabæjar hans og hann sennilega fengið viðvörun. Fram kom að hann hefði gefið sig fram við lögreglu sjálfur, á sama degi og skjalið fór eins og eldur í sinu um heimabæ hans og þá hefur hann jú haft tækifæri til að eyða öllum gögnum af tölvunni sinni áður ef einhver hafa verið. 

Þú hlýtur hins vegar að sjá það að í fjölmiðlum átti sér engin sakfelling, sýndarréttarhöld, né heldur ærumeiðing stað því enginn gat séð hvaða maður þetta var í sjónvarpinu. Annað gildir auðvitað um dreifingu tölvubréfsins. 

Andrea J. Ólafsdóttir, 20.12.2006 kl. 13:11

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Andrea,

ég horfði aftur á þetta atriði á Netinu, það er á þessari slóð:

http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4301679/3

Viðmælandi Kastljóss er yfirlögregluþjónn í Reykjavík.  Viðtalið endar með því að Kastljósið spyr hann hvort löggan þurfi ekki að fara að beita tálbeitum. Yfirlögregluþjónninn segir jú, jú ef þetta sé svona útbreitt þá verði að beita öllum tiltækum ráðum og aðferðum ekki ósvipuðum aðferð konunnar sem útbjó þetta glærusjóv því að svona athæfi þrífist í skjóli nafnleyndar.

Ef svona orðræða hjá yfirlögregluþjóni í Reykjavík klingir ekki aðvörunarbjöllum hjá fólki þá veit ég sannarlega ekki hvað gerir það.  Vill fólk búa í harðsvíruðu lögregluríki þar sem aðferðir löggæslu eru eitthvað í takt við það sem móðirin gerir.  

Það er vissulega rétt að maðurinn þekktist ekki í þessu sjónvarpsblörri en hann þekkist auðveldlega á því glærusjóvi sem gengið hefur meðal fólks og móðirin sendi um Netið (aðferð sem yfirlögregluþjóninum í Reykjavík hugnast ágætlega) og þú hefur sjálf upplýst að hann kemur úr litlu plássi á Íslandi og var með þér í skóla. Ég geri ráð fyrir að allt nærsamfélag mannsins viti nú við hvern er átt og hann er ærulaus. Hann á kannski skilið að vera ærulaus en hann hefur verið settur á gapastokk af dómstóli götunnar (lesist íslenskra bloggara, netverja og  Rúv) án þess að nokkuð hafi verið réttað í hans máli og yfirlögregluþjóni virðist ekki finnast neitt athugavert við þannig vinnubrögð, þvert á móti þá tekur hann vel í að taka þau upp sjálfur.

Það er þannig með mannréttindi að þau eru líka fyrir bófa og afbrotamenn og sakborninga.  Með því er ekki verið að afsaka afbrot.  

Það er aukaatriði í þessu máli en ég er ekki viss um að þessi maður þó hann hafi strípað sig á þennan hátt sé neitt sérstaklega hættulegur unglingum. Ég er reyndar ekki neitt menntuð í sálfræði en ég hef samt lesið að strípihneigð sé eitt og svo barnagirnd annað. Það er líka auðvelt að kenna unglingum að vara sig á svona mönnum. Þau kynferðisafbrot gagnvart börnum sem gerst hafa í netheimum á Íslandi og ég hef lesið um hafa verið með öðrum hætti og miklu lævísari. Þá hefur perrinn villt á sér heimildir, þóst vera á sama aldri og viðkomandi unglingur  þóst vera af öðru kyni (þóst vera stelpa til að tæla til sín stráka).

Það má líka gjarnan vera á verði gagnvart því að svona glærusjóv geta verið fölsuð. Fólk er auðtrúa gagnvart svona, heldur að þetta hljóti að vera skjámyndir beint af netinu.  Það er samt minnsta mál í heimi að skella inn mynd af einhverjum manni og búa til svona samtal.  

Svo var enginn glæpur framinn nema að því ég held blygðunarbrot gagnvart fullorðinni konu. Reyndar sennilega mjög erfitt fyrir hana (móðurina sem þóttist vera 14 ára) að sanna að athæfið hafi sært blygðunarkennd hennar. Þvert á móti virðist hún hafa ýtt undir að maðurinn beraði sig.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.12.2006 kl. 14:51

9 identicon

þetta eru spennandi rökræður hjá andreu og salvör, ótrúlegustu víddir í þessu máli koma fram....

strípihneygð og ofbeldi gegn konum og veikburða er tengt, meiraðsegja mjög tengt. fyrra atriðið er mjög oft hluti af þróun og einhverju öðru, það er mjög erfitt að tala um "krúttlegan" pervertisma sem beinist á einhvern hátt að afbrigðilegum kynlífshugsunum um konur. Mjög oft endar það í einum alvarlegum glæp, stundum mörgum. Þetta er nokkuð virðukennd staðreynd í kynferðisglæpum, þótt ekkert sé nokkurntíman algilt. Þessi íslenski maður er með strípihneygð sem beinist að börnum, hann æstist ábyggilega við það að konan sagðist vera 14 ára. það er ekki útí bláinn að vilja fylgjast með honum en það er samt ekki neitt hughreystandi heldur að löggur séu um allt að njósna. Mamman gerði bara það sem slatti af barnaníðingum á Íslandi gerir hvern einasta dag. Hún er því ekkert sekari en hver annar maður og ég hef alltaf haldið að það sem fólk sendir mér í tölvunni beint frá sér, t.d myndir, séu þá mín eign, þannig að mamman á réttinn á slide showinu en maðurinn getur kannski kært hana fyrir að nota andlit sitt á kvikyndislegan hátt í einhverskonar listsköpun? Það er ekkert falsað þarna og ekkert logið svo ég sé ekki alveg fyrir hvað hann ætti að stefna henni.

Það má vel vera að löggan hafi tekið of vel í þetta tálbeitumál, ég held hann hafi bara verið dottinn inní einhvern "ég ætla að bjarga heiminum" draum í lokin á viðtalinu og fattaði ekki að tálbeitur eru ekki næsta skref á dagskrá í bættri þjónustu lögreglunnar. Hann meinti bara vel. 

Annars er ég bara mjög fegin að hafa ekki séð þetta slide show og ekki fengið það sent. 

Anna (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 19:21

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er ágætt að rifja upp nokkur ákvæði úr mannréttindasáttmála Evrópu. Það verður líka að rifja upp að mannréttindi eru líka fyrir óþokka, bófa og þá sem við vildum helst reka úr landi eða loka inni og henda lyklinum.

Mannréttindasáttmáli Evrópu er á þessari slóð:

http://www.althingi.is/lagas/nuna/1994062.html
 

6. grein fjallar um  rétt  til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi.

Hún er svona: 

1. Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
 2. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.
3. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal eigi njóta minni réttar en hér greinir:
   a. Hann fái án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.
   b. Hann fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.
   c. Hann fái að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skal hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
   d. Hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.


 8. gr.  fjallar um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu.
Hún er svona:

1. Sérhver maður á rétt til friðhelgi einkalífs síns, fjölskyldu, heimilis og bréfaskipta.
2. Opinber stjórnvöld skulu eigi ganga á rétt þennan nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis, almannaheilla eða efnalegrar farsældar þjóðarinnar, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu manna eða siðgæði eða réttindum og frelsi annarra.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.12.2006 kl. 21:03

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er mjög skammt um liðið síðan maður framdi sjálfsmorð vegna óvægilegrar DV vegna meintra kynferðisafbrota hans sem þá voru í rannsókn en ákæra hafði ekki verið gefin út. Í kjölfarið á því máli reis um mikil múgæsing og reiði í garð DV og skrifin voru yfirgengileg. Það voru pottþétt mistök hjá DV að skrifa með þessum hætti en mér virðist fréttamennskan og bloggumræðan og netsendingar vera nákvæmlega af þessum toga.

Ég hef skrifað um svona málefni áður

Þorpið 

http://www.ismennt.is/not/salvor/meinhorn/2003_12_01_eldri1.htm#107149198664775632

skrifaði líka helling um DV málið en finn það ekki í augnablikinu. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.12.2006 kl. 21:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband