Óskar og ofsóttir Framsóknarmenn

Flott hjá Óskari að biðja um að verktakasamningi hans við Faxaflóahafnir sé rift. Óskar tekur með þessu af allan vafa um að hann vill vera heiðarlegur stjórnmálamaður og vinna þar sem friður og sátt ríkir.  Ég hef engan sérstakan áhuga á að tjá mig um Kastljósviðtalið Björn Ingi versus Dagur en ég ætla samt að gera það til að vekja athygli á moggabloggspammara sem hefur ofsótt mig undanfarið með eftirfarandi athugasemd sem hefur verið skrifuð amk þrisvar sinnum í athugasemdir hjá mér á þessu bloggi. 

Svona er spammið: 

Mér finnst einkennileg þögn þín, Salvör, um atburði undanfarinna daga. Þeir aðilar sem þú hefur kappkostað að mæra í gegnum tíðina reynast vera spillingargæjar af verstu tegund. Síðan þegar reynt er að fá þá til að gangast við barninu byrjar ballið. Það er ekki gengist við einu né neinu og allt öðrum að kenna.

Það kemur líka fram í grein hjá Guðm Steingríms að téður Óskar Bergsson hefur orðið uppvís áður að þvílíkri spillingu. Nú sitja þessir menn við kjötkatlana og ausa úr þeim yfir vini og samflokksmenn. Fjármuni almennings.

Vertu nú sjálfri þér samkvæmt og láttu okkur vita hvað þér finnst!!!!

Óskráður (Alla)

Svar mitt til þessa óskráða moggabloggspammara Alla er þetta:

Í fyrsta lagi þá skrifa ég um það sem ég vil á þessu bloggi og vel sjálf umræðuefni og kappkosta að vera engum háð og mér bara finnst þetta efni ekki nógu áhugavert. Mér finnst hins vegar áhugavert að taka fyrir hvernig spammarar eins og þú og ýmis konar ómálefnaleg níðskrif í bloggum og athugasemdum við blogg ná að eyðileggja umræðuvettvanga á Netinu og það er ástæðan fyrir að ég svara þessu nú.

Í öðru lagi þá er ég enginn sérstakur skipaður verjandi borgarmálaarms Framsóknarflokksins og ég beini til þín að snúa þér beint til oddvita flokksins Björns Inga með athugasemdir.  Það að snúa sér til mín sem ekki einu sinni var á listanum né gegni neinum nefndarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík er alveg eins og þú bæðir mig að verja bramboltið með Hummerjeppann í kosningabaráttunni.

Í þriðja lagi þá hef ég einbeitt mér að málum sem mér þykja mun alvarlegri  en þetta  innan Framsóknarfélagsins í Reykjavík Norður undanfarið ár enda gekk ég í Framsóknarflokkinn til að vinna þar að siðbót og kvenréttindum og ég reyni að hafa það alltaf að leiðarljósi. Ég hef líka reynt að vinna að breytingum innan frá undanfarin ár og eitthvað þokast áfram þó ég sé nú ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn. En ef maður ætlar að breyta stjórnmálaflokkum þá má maður ekki gefast upp þó hlutirnir gangi hægt. 

Í fjórða lagi þá er það svo að þú verður ekki sjálfkrafa gerspilltur við að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn og það sem Framsóknarflokkurinn aðhefst er ekki sjálfkrafa dæmi um spillingu bara út af því að það er runnið frá Framsóknarflokknum. Það að koma sínum sjónarmiðum og sinni stefnu að í Reykjavík  m.a. með því að láta gera úttektir á og vinna að framgangi á hönnun/handverki og kvikmyndaiðnaði og fá til þess fólk sem hefur starfað ötullega í flokknum er ekki dæmi um spillingu. Það er vel skiljanleg gremja annarra yfir því hversu mikil völd Framsóknarflokkurinn hefur um þessar mundir bæði í ríkisstjórn og borgarstjórn en það er ekki dæmi um spillingu að stjórnmálaafl noti þau völd sem það hefur til að ná fram stefnuskrá sinni. Þvert á móti þá ætlast kjósendur til að það sé gert.

Það er heldur ekki partur af spillingu að Framsóknarflokkurinn hafi þessi völd nema fólk telji það lýðræðisskipulag og kjördæmaskipulag sem leiddi til þessarar niðurstöðu í kosningum spillingu. Það eina sem mér fannst orka tvímælis af því sem fram kom í fréttum var verktakasamningur Óskars sem hann hefur nú óskað sjálfur að rifta. Hann sýnir með því að hann vill verja heiður sinn sem stjórnmálamanns og tekur mark á gagnrýni. Það er ekki skynsamlegt að búa til þær aðstæður að einhver sitji hugsanlega beggja vegna borðs. Annars skoðaði ég þetta blogg sem þú nefnir hjá Guðmundi þessum  Steingríms og athugasemdir þar. Það er bara sorglegt og svona málflutningur dæmir sig sjálfur. Þetta eru níðskrif af versta tagi og vegið ruddalega og með dylgjum bæði að Birni Inga og Óskari. Það er sorglegt dæmi um íslensk stjórnmál ef það er svona málflutningur sem menn vilja hafa í stjórnmálum

Hér er dæmi úr bloggi Guðmundar undir titlinum Brúnn Ingi sem ég hugsa að sé einhvers konar uppnefni á Birni Inga. Titilinn slær strax tóninn um hvers eðlis inntakið er. En hér er dæmi um orðræðuna:

"Aldrei hefur jafnaugljóslega verið reynt að maka krókinn. ...Siðleysið er yfirgengilegt ....Ég hef reyndar traustar heimildir fyrir því að sá listi sem þar birtist sé ekki tæmandi.... tti Björn skítadreifarann á fullt og dreifði í allar áttir og varð vitaskuld, eins og svo oft vill verða með þá aðferð, skítugastur sjálfur. Þarna birtist okkur smám saman réttnefndur Brúnn Ingi. Drullugur upp fyrir haus....nú lítur Björn Ingi greinlega svo á að hann sé kominn að kjötkötlunum og geti iðkað þessar aðferðir, að raða sínu fólki í stjórnsýslun...Björn Ingi Hrafnsson puðaðist inn í borgarstjórn á fullkomnum lágmarksfjölda atkvæða. Hann er sex prósent maðurinn í íslenskri pólitík. Er hann virkilega svo veruleikafirrtur og virðingarlaus gagnvart lýðræðinu...Ein skítapillan lenti á...Í lokin kom svo skítapilla ársins frá drullugum Brúni Inga upp fyrir haus...þennan skammarlega málflutning nafna síns um að sú stofnun sem hún veitti forstöðu hafi staðið í mútumálum....En þannig eru örlög skítadreifara í pólitík. Það er aldrei hægt að segja hvar skíturinn lendir."

Hér eru dæmi úr athugasemdunum:

"þetta lýsir framsóknarmönnum algerlega skítlegir upp til hópa. framsóknarflokkurinn er krabbamein í íslenskri pólitík og því þarf að útrýma......... ... Það er ótrúlegt hverju örfylgi getur skilað. Þar sem tveir Framsóknarmenn hittast þar er spegill.... skítlegt fés Björns Inga fékk mig til að skipta um rás....er það nú varla málið að taka af lífi eða meiða líkamlega framsóknarmenn. Hinsvegar mætti draga þá niður á Lækjartorg á meðan skíturinn á þeim er enn blautur, og velta þeim upp úr fiðri...Mannfýlan (BIH) er náttúrlega bara gerspilltur og siðlaus, valdasjúkur kjáni sem skeit svo langt upp á bak í yfirgenglegum málfllutningi sínum....já hversu mikið krabbamein Framsókn er í íslenskri pólitík! ...ar dónalegur frekjuhundur sem romsaði út úr sér eins mikilli vitleysu og hægt var.....Haha... 80 framsóknarmenn? Þeir hljóta að hafa fengið nokkra óháða lánaða...trúi ekki að til séu 80 Reykvíkingar sem skrifa undir þetta bull....Bingi er greinilega siðspilltasti stjórnmálamaðurinn sem við eigum í dag. Hann er samferðamaður  hinna ógeðfelldu stjórnmálamanna sem málefnin skipta engu...Þetta eru feitir kjötkatlar fyrir spillta stjórnmálamenn, Framsóknarmennina Björn Inga og Óskar Bergsson."

Ég spyr aftur. Er þetta málefnaleg umræða?
Er það svona sem menn vilja hafa umræðu um íslensk stjórnmál?
Er allt í lagi að kalla fylgjendur eins stjórnmálaflokks krabbamein og nota mjög niðrandi orðfæri um þá  og lítt dulbúnar hótanir um hvað væri réttast að gera við þá. Menn ættu næst þegar slík orðræða er notuð um Framsóknarmenn að prófa að setja önnur frjáls félagasamtök í staðinn og reyna þannig að skilja hve afkáraleg og afskæmandi svona orðræða er fyrir þann sem mælir fram svona níð.

Að lokum vil ég taka fram að ég fagna því að stjórnarandstaðan í borginni sé á vaktinni yfir það sem betur má fara í stjórnsýslunni. Ég harma að það var ekki vilji til að halda áfram því góða starfi sem R-listinn stóð að og sem Framsóknarflokkurinn stóð heilshugar á bak við. Því miður vildu Vinstri Grænir ekki halda því samstarfi áfram og töldu aðra kosti betri fyrir sinn málstað. Því varð til sú staða sem nú er í borgarstjórn. Svo vil ég líka taka fram að mér finnst ekki hægt að tengja Dag og einhverja kennslu hans í HR við lóðaúthlutun háskólans í Vatnsmýrinni, það var hart barist um staðsetningu HR og Reykjavík bauð fram svo góðan kost að HR gat ekki hafnað því.  Það vita þeir sem fylgdust með því máli.

Hins vegar fannst mér ágætis athugasemd hjá Birni Inga að benda á að Helgi Seljan hafi verið ráðinn í Kastljósið án auglýsingar. Það er ágætt að beina kastljósinu að Kastljósinu og öðrum þáttum sem útvarp allra landsmanna kostað af almennafé varpar út. Það er mjög einkennilegt hvernig fólk er ráðið á þá miðla og hverjir fá tækifæri inn í fréttamennsku og þáttagerð.  Þar má nefna kynjasjónarmið en það má líka nefna hversu ofurbláir margir fréttamenn eru og hafa verið síðan elstu menn muna.

Guðmundur Steingríms segir um Helga Seljan í Kastljósinu "Helgi Seljan var vissulega ráðinn auglýsingalaust. En um það snýst ekki debattið.... Einnig liggur munurinn vitaskuld í því Helgi var ráðinn vegna hæfileika sinna, mats á þeim, og ekki vegna neins annars."

Hvaða sérstaka hæfileika hefur Helgi Seljan og hver mat þá?
mbl.is Óskar biður um að samningi hans við Faxaflóahafnir verði rift
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Til minnis:
Spammarinn Alla skrifaði strax og ég hafði póstað þetta blogg inn ruddalega athugasemd með orðalagi eins og "þið framsóknarhyskið..". Viðkomandi á bágt en ég er orðin leið á svona fólki eftir viðkomu á malefnin.com og ég notfæri mér fídus á moggablogginu um að fela athugasemdir. 

Það verður að koma í ljós hvort það virkar að hafa athugasemdir opnar hérna. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2006 kl. 17:42

2 identicon

Sæl Salvör,

Mér finnst þetta góður pistill hjá þér. Ég hef einmitt sjálfur tekið eftir því hvað mikið skítkast leyfist í orðræðunni þegar kemur að gagnrýni á Framsóknarflokkinn og sér í lagi einstakt framsóknarfólk. Auðvitað verða flokksmenn að taka þessa gagnrýni alvarlega og skoða ástæður hennar, en hegðun ákveðinna fulltrúa flokksins afsakar ekki hvernig talað er um almenna stuðningsmenn flokksins, sér í lagi í umræðum hér á netinu.

Bestu jólakveðjur,

Reynir Þór Eggertsson

Reynir Þór Eggertsson (IP-tala skráð) 22.12.2006 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband