Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Milljónir og grilljónir

Ég er ekki að fatta hvernig allt samfélagið núna er í þrúgandi meðvirkni með þeim sem eru við völd núna en hafa engar lausnir og þeim sem hrökkluðust frá völdum í búsáhaldabyltingunni án þess að hafa neinar lausnir þá. Það er rexað og pexað um milljónir í einhverjum prófkjörum fyrir nokkrum árum en það er ekkert talað um þær svimandi háu tölur sem eru í því hyldýpi sem íslenska þjóðin er um það bil að steypa sér út í. Við höngum á bjargbrúninni en við eigum bara fjölmiðla og stjórnmálaflokka sem kunna að tala um milljónir en verða ráðvilltir og týndir þegar talað er um grilljónir. Eina undantekningin er Framsóknarflokkurinn sem setur fram efnahagstillögur sem hagfræðingar hafa samið með stjórnmálamönnum, tillögur sem einhver von er um að geta virkað.

 

Samfylkingin æpir bara "Evra, evra, EBE strax" og Vinstri Grænir æpa "Ekkert ál".  Sjálfstæðismenn segjast ætla að taka upp evru í samstarfi við IMF þrátt fyrir að ekkert bendi til þess að það sé hægt. Ál og málmsteypuiðnaður heimsins er á hvínandi kúpunni og það er ekkert sem bendir til að einn eða neinn muni reisa hér álver á næstunni. Þó við setjum hvínandi blúss á að ganga inn í EBE þá tekur mörg, mörg ár að uppfylla skilyrði til að taka upp Evru og eins og málin standa og munu standa ef skuldabyrði verður ekki létt af íslensku þjóðinni þá munum við aldrei, aldrei geta uppfyllt þau skilyrði. 

Hér er gjaldþrota þjóð og hér eru gjaldþrota heimili. Markaðsverðmæti þeirra eigna sem fólk á hafa hraðfallið eins og allt í því gjörningaveðri fjármála sem skall á heimsbyggðina. Það er eins og stinga höfðinu í sandinn að horfa á þetta eins og hér sé spurning um að jafna tekju- og gjaldahlið fjárlaga og hegða sér eins og Geir Haarde þegar hann ár eftir ár hrósaði sér af traustri efnahagsstjórn. 

Við verðum að horfast í augu við kerfishrun þar sem öll verðmæti breytast í fljótandi miðla. Verð á orku og olíu hefur lækkað og lækkað, verð á húsnæði hefur lækkað og lækkað, verð á matvælum hefur lækkað og lækkað, verð á málmum hefur lækkað og lækkað. Fjármálakerfi heimsins hefur frosið fast. En það fastasta af öllu föstu eru skuldir. Ástandið er þannig að skuldir eru bara tala í einhverjum yfirlitum, það er engin von að stór hluti skulda og krafna sem bankar heimsins hentu á milli sín í einhverjum afleiðuboltaleik muni nokkurn tíma fást. Enda eru allar ábyrgar fjármálastofnanir löngu búnar að afskrifa þessar skuldir. 

Hvað skyldu skuldavöndlar húsnæðislána á Íslandi seljast á alþjóðlegum peningamarkaði? Fyrir 1 % af verðmæti? Fyrir 5 % af verðmæti? Örugglega ekki meira þegar undirmálslánin amerísku seljast fyrir slikk og Ísland er eins og eitur í fjármálaheiminum, orðspor landsins er þannig að enginn vill lána hingað fé.

Málið er að nú er kjörin staða til að segja: Við léttum af ykkur skuldurum ánauðinni, þið þurfið ekki að vera í skuldaánauð sem þið munuð aldrei losna úr.  Allir græða ef þið komist á fæturnar aftur og getið tekið þátt í að búa aftur til blómlegt atvinnulíf. Allir tapa ef þið Íslendingar verðið eins og ánauðugir bændur í Rússlandi fyrir tíma byltinga þar, í skuldafangelsi frá kynslóð til kynslóðar.

Kannski verðið þið ekki ánauðugir, víst getið þið Íslendingar farið úr landi og þá myndast pláss fyrir aðra uppflosnaða úr öðrum löndum þar sem ástandið er ennþá verra til að koma hingað til að flýja heimkynni sín og lifa áfram við eymd á þessari eyju sem hefur selt allt sem það átti í hendur einhverrar ósýnilegrar fjármálaelítu sem býr á öðrum eyjum sem við þekkjum bara nafnið á.

Eina leið ykkar Íslendingar út úr þessum vanda er að létta skuldaánauð af almenningi og neita að borga skuldir sem sagt er að íslenska þjóðin skuldi. 

Ég hef áfram sömu tillfinningu varandi núverandi ríkisstjórn og ég hafði gagnvart seinustu ríkisstjórn, þessari vanhæfu. Mér finnst núverandi ríkisstjórn vera að leyna einhverju mjög mikilvægu og hilma yfir einhverju, blekkja okkur til að halda að ástandið sé á stiginu "þetta bjargast" en á meðan skipið sekkur þá sé fólk önnum kafið við að koma ákveðnu undan í björgunarbátana en það séu ekki björgunarbátar fyrir alla.

Hvað verður um okkur sem komumst ekki í björgunarbátana?


mbl.is Mikilvægustu kosningarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjörið hans Gulla - Skrípaleikur í beinni útsendingu

Ég var á Nasa í gærkvöldi þegar sent var út eitthvað sem RÚV kallar borgarafund. Þetta var ekki borgarafundur fyrir fimmeyring og þetta voru ekki málefnalegar og yfirvegaðar umræður um stöðu íslensku þjóðarinnar eftir stærsta hrun nokkurs vestræns efnahagskerfis og um hvaða lausnir stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram hefðu. Þessi "borgarafundur" var keyrður eftir sama módeli og gettu-betur og mælskukeppni framhaldsskólana með klappliði og pú-liði í salnum.

Ég hugsa að RÚV hafi reynt með þessum útsendingum að ná sömu stemmingu og borgarafundirnir voru haustið 2008 og byrjun árs 2009 og öll sú atburðarás sem endaði í búsáhaldabyltingu. En það mistókst hrapalega hjá RÚV og þessi þáttur sýnir enn og aftur hve handgengið RÚV er þeim sem halda um stjórnartaumana hverju sinni og hve grunn og yfirborðsleg umræða í ríkisfjölmiðlinum er og hvern þátt fjölmiðlarnir áttu í að koma okkur í þá stöðu sem við erum í núna. Var RÚV á verðinum og fór ofan í tengsl stórfyrirtækja og stjórnmálamanna öll árin fyrir hrunið?  Lunginn úr tímanum í þættinum í gær fór í að ræða prófkjörið hans Gulla árið 2006. Vissulega er mikilvægt að allt sé upp á borði varðandi tengsl kjörinna fulltrúa fólksins og fjármagnseigenda og það er ekkert að því að  framlög í kosningasjóði  vegna prófkjöra séu birt opinberlega og að það séu settar reglur inn í flokkum um hvernig megi standa að því. 

En umræða í 45 mínútur um prófkjörið hans Gulla fyrir þremur árum er ekki umræða um stöðuna eins og hún er í dag í íslensku samfélagi og hvernig eigi að nálgast þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir, þetta er ekki krufning á íslensku samfélagi og þetta er ekki neitt innlegg í að bæta siðferði íslenskra stjórnmála. Þvert á móti þá er þetta einstaklega lúaleg atlaga að stjórnmálamanni í vonlausum flokki í vonlausri stjórnmálabaráttu fyrir vonlausan málstað. Hvort sem það var með atbeina RÚV eða ekki þá liggur Guðlaugur Þór marflatur í þessari stjórnmálabaráttu. En þessi síðasti þáttur var eins og að sparka í liggjandi mann og það segi ég ekki vegna þess að ég sé neinn talsmaður Guðlaugs Þórs. Ég er talsmaður mannréttinda og mannhelgi og persónuverndar og þess að æra fólks sé ekki fótum troðin án þess að fólk geti svarað fyrir sig.  Það er fínt að þessi prófkjörstyrkjamál komi upp á yfirborðið en þessir fólk verður að athuga að 2 milljóna styrkur í prófkjörsbaráttu fyrir einhverjum árum frá fyrirtæki var eðlileg vinnubrögð hjá mörgum stjórnmálaflokkum og söfnun framlaga í kosningasjóði fór fram fyrir opnum tjöldum.

Kúlulán til hlutafjárkaupa án nokkurrar ábyrgðar er hins vegar mjög óeðlileg vinnubrögð og það verður að upplýsa hvaða stjórnmálamenn hlutu slíka lán og slíka fyrirgreiðslu frá fjármálastofnunum, það dregur verulega úr trúverðugleika þeirra sem það gerðu. 

Hér er stutt upptaka sem ég tók á borgarafundi á NASA, ekki gullaprófkjörsfundinum í gærkvöldi heldur á rafmögnuðum fundi sem haldinn var skömmu fyrir búsáhaldabyltinguna og það var einmitt umræðan um ábyrgð fjölmiðla. Munum við þurfa annan svoleiðis fund eftir nokkur ár um ábyrgð fjölmiðla sem nú hafa skipt um vist, orðið húskarlar þeirra sem stýra hinum nýju bönkum?


mbl.is Segir 40 aðila hafa styrkt sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástþór og skrímslin- andlitsmyndum af Katrínu veifað en myndbirtingar af Steingrími kærðar

monsterjokes.jpgÉg frétti af Ástþór upp í Borgarholtsskóla í dag á fjölmennum framboðsfundi þar sem framboðin sendu öll fulltrúa. Ástþór mun hafa   bent á  fulltrúana annarra framboða þ.e.  Framsóknar, VG, Samfylkingar, Sjálfstæðismanna og Borgarahreyfingar og kallað þau skrímsli.

Þetta er virkilega leim hjá Ástþóri, hann  Einar Skúlason sem mætti fyrir hönd okkar Framsóknarmanna er ekki skrímsli. Ekki heldur Dagur Eggertsson sem mætti fyrir Samfylkinguna. Þaðan af síður er hún Álfheiður Ingadóttir neitt skrímsli en Álfheiður mun reyndar á þessum sama fundi hafa dregið upp úr pússi sínu risastóra andlitsmynd af Katrínu Jakobsdóttur og sýnt salnum, sennilega til að sýna fram á og sanna að Vinstri Grænir væru ekki skrímsli. Það segir nú sína sögu að Steingrími foringja þeirra VG-inga er lítt hampað og Álfheiður mætti ekkert með mynd af honum enda er reynt að fela Steingrím sem mest og gengur það svo langt að Vinstri grænir hafa kært myndbirtingar af Steingrími.

En Steingrímur er ekkert skrímsli heldur þó hann og Össur og Helgi Hjörvar og allur karlpeningur íslenskra stjórnmála sé nú falin eins og óhreinu börnin hennar Evu í kosningabarátt 2009 sem virðist ganga út á að tempra testósteronmagnið í karlkyns stjórnmálamönnum.

katrin-netlogga.jpgsteingrimur.jpgEn ekki átti ég von á að VG sem stjórnmálaafl myndi festast í svona útlitsdýrkun og núna reyna að ná til kjósenda með  kosningabæklingum sem líta út eins og snyrtivöruauglýsingar og senda svo fulltrúa á framboðsfundi sem sýna risaandlitmyndir af Katrínu Jakobsdóttur.

Ég spái í hvaða áttir  svona stjórnmálabarátta fer, vonandi verður Katrín ekki dómsmálaráðherra, þá verður ekki þverfótað fyrir pappírslöggum með andliti hennar á, sérstaklega verða netlöggur þá áberandi. 

En þó ég skemmti mér konunglega yfir skrímslaorðræðu Ástþórs og útlitsblæti Vinstri Grænna þá fylgir öllu gamni alvara. Ég hef hitt menn sem segjast hafa verið í launavinnu hjá Ástþór við að safna undirskriftum til stuðnings framboði hans og ég hef heyrt að hann hafi verið með ungmenni í vinnu sem véluðu fólk til að skrifa undir plögg sem sumir sem skrifuðu undir töldu eitthvað allt annað.

Núna kemur í ljós að meira segja frambjóðendur Ástþórs voru blekktir, þeir kannast ekkert við að vera í framboði.  Hvar er þessi eftirlitsnefnd með kosningunum frá ÖSE? Er ekki hreinn skrípaleikur að svona framboð skuli vera talið gilt? Af hverju eigum við að leyfa fólki sem kann enga mannasiði og virðir engar leikreglur að taka þátt? Eða er Ísland svo mikið bananalýðveldi að það skiptir engu til eða frá um einn apaköttinn í viðbót.

 


mbl.is Kannast ekki við framboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Testósteron og tækifærissinnar

3153237151_f38d92b1fa

Þú Sigmundur Ernir sem í dag skrifar bloggið  Pólitík síðasta vetrardags hvar varst þú síðasta dag ársins, ársins þegar allt hrundi á Íslandi? Þú sem í dag skrifar:  "Testósteron-stjórnmálin hafa nefnilega brugðist okkur. Já, karlarnir hafa klikkað; ofurlaunaðir, ofurvaldaðir og ofurdekraðir af úthlutunarnefnd gamla ríkisvaldsins …"

Ég get svarað því. Þú varst í þjónustu þeirra sem brugðust okkur, Þú varst ofurvaldaður og ofurdekraður, þú varst  gestgjafi þeirrar ríkisstjórnar sem við vissum að var vanhæf ríkisstjórn, þú varst innan dyra á Hótel Borg, þú varst að stýra Kryddsíldinn á Hótel Borg

Þegar þú bjóst þig undir að stýra veislunni og veisluföngin voru borin inn og fiðluómar hljómuðu um hátíðarsali þar þá var ég við stjórnarráðið og tendraði neyðarblys og reyndi á þann hátt sem ég gat að vekja athygli bæði Íslendinga og umheimsins á ástandinu á Íslandi. 

Þegar veislan hófst og útsendingin á Kryddsíldinni sem þú stýrðir innandyra þá var ég fyrir utan  og ég tók þetta  vídeó á ástandinu eins og það var utan dyra, ástandinu sem þú þá áttir þá ekki nógu sterk lýsingarorð til að fordæma, ástandi sem þú kallaðir þá skrílslæti og skemmdarverk.

Þú Sigmundur Ernir og aðrir þeir sem voru í þjónustu þeirra sem komu okkur í Hrunið og blekktu okkur og sviku, ekki treysta á að við höfum gullfiskaminni og höfum gleymt öllu og höfum þurrkað út úr minni okkar allt sem gerðist fyrir Hrunið og á tímum Hrunsins.

Við íslenska kjósendur við ég segja þetta:
Ekki gleyma  að endurnýja!

Til upprifjunar

 Úr tröllahöndum

 Búsáhaldatakturinn

 Stjórnlaust land

Kreppudagur og þegar skosku hálöndin voru rýmd

Alvarlegar og sorglegar fréttir

 Nærmynd af Bjarna Benediktssyni, nærmynd af íslensku þjóðinni

Samvinnuhugsjón er eina vitið

Oslótrésmótmælin

Mótmælahljómkviðan

Íslensk bankasaga, íslensk bankasala

  Vinnukonur kerfisins og blaðafulltrúi Geirs Haarde

Fólkið hrópaði "Vanhæf ríkisstjórn"

Ljósmyndir og vídeó frá mótmælunum

 Neyðarblys við stjórnarráðið

 Karlar sem hata konur

 Grýla í gamla hellinum er ónýtt víradrasl

 


 


mbl.is S- og V-listar bæta heldur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lobbíismi á Íslandi

Þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, Illugi Gunnarsson, Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís Óskarsdóttir verða að útskýra þessa styrki, þau eru í framboði núna.  Guðfinna Bjarnadóttir fyrrum þingmaður og Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi borgarfulltrúi eru horfin af vettvangi stjórnmála.

Ég hef aldrei velkst í vafa um að Guðlaugur Þór og Illugi gengu erinda fjármagnseigenda þannig að það kemur mér ekki mikið á óvart að þeir hafi riðið feitum gölti frá fundum við þá. Hins vegar hef ég hingað til ekki haldið að Helgi Hjörvar og Steinunn Valdís væru þar á meðal. Ég hef aldrei heyrt Steinunni Valdísi flytja mál sem þóknanleg eru sérstaklega fjármagnseigendum eða erlendum vogunarsjóðum. Hins vegar brá mér verulega þegar Helgi Hjörvar gerðist erindreki þeirra sem vildu gera auðveldara fyrir óprúttna aðila að komast yfir auðlindir Íslands. Ég skrifaði á sínum tíma varnaðarblogg   við greinum Helga Hjörvars sem þá vildi selja virkjanir, sjá hérna Sóknarfæri að selja virkjanir

Varnaðarbloggið mitt skrifaði ég 25. september 2008, það er hérna:

Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar

Ég hef margoft varað við að fara að fordæmi Raufarhafnar, það var mikið glapræði. Hér varaði ég Reykvíkinga við Raufarhafnarstemmingu 7. 10. 2007 Raufarhafnarstemming í Reykjavík

 

Hér er skrípó sem ég bjó til til útskýringar á hugmyndum Helga Hjörvars: Raufarhafnarstemming 2008

Þegar stjórnmálamenn fara að tala eins og Helgi Hjörvar um einhverja baktryggingarsjóði til að losa mikla peninga þá er voðinn vís. Það væri mjög áhugavert að lesa núna aftur greinaflokk Helga Hjörvars í ljósi efnahagshrunsins og í ljósi þess að hann var stór styrkþegi fjármálastofnana sem leyndu leynt og ljóst að komast að orkuauðlindum til að bjarga sér frá vonlausri stöðu. Helgi og Össur iðnaðarráðherra töluðu mjög undarlega á þessum tíma, eins og þeir væru í vinnu hjá Illuga við að selja orkuauðlindir Íslands. Ég hvet fólk til að rifja upp skrif þeirra.

En eftirfarandi er alvarlegt og gott að fá nánari skýringu á þessu:

"Stöð 2 sagðist einnig hafa heimildir fyrir því að margir stjórnmálamenn, jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands, aðilar tengdir þeim og forsvarsmenn lífeyrissjóða, hafi fengið óeðlilega fyrirgreiðslu hjá gömlu viðskiptabönkunum fyrir bankahrunið í haust. Stöð 2 sagði að í sumum tilvikum hefði verið um að ræða tugmilljóna króna lán til þess að kaupa hlutabréf, meðal annars í bönkunum sjálfum, án þess að lögð væru fram nein veð."


mbl.is Háir styrkir frá Baugi og FL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnugrein? Ha? Atvinnugrein?

Ég er alveg kjaftstopp að heyra þingkonu á Íslandi árið 2009 kalla vændi ATVINNUGREIN. Ég tók þetta upp og setti inn á Youtube, ég  held að þetta hljóti að vera mistök, þessi þingkona Sjálfstæðiskvenna hlýtur að hafa mismælt sig. Það er svo absúrd að kalla ömurlega örbirgð þar sem fólk hefur glatað allri reisn og selur aðgang að líkama sínum svo einhver annar geti rúnkað sér á honum, að kalla það ATVINNUGREIN.

Hmmmm.... Atvinnugrein.... skapa störf... Geiri í Goldfinger í framboði... skapa störf??
Áhugavert  væri að bera saman kosningaloforð Ástþórs með Geira í Goldfinger og kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins í atvinnumálum.... hvernig líta þessi framboð á ATVINNUGREINAR? Hvernig störf ætla þessi framboð að skapa?


mbl.is Fagna vændislögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er leiga á námsmannaíbúðum ekki lækkuð meira?

Leiga á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði á Íslandi hefur lækkar gríðarlega. Flestir sem ég þekki sem leigja út húsnæði hafa lækkað leiguna í krónum talið, ég held að leigulækkunin sé að jafnaði um 30 %. Það er þess vegna alveg út úr korti hjá Byggingafélagi námsmanna að lækka sínar íbúðir ekki nema um 10 %.

Staðan er einfaldlega þannig að það er allt of mikið af húsnæði til, mörg þúsund íbúðir standa núna auðar og engin eftirspurn er eftir húsnæði. Einfaldlega vegna þess að þó að fólk gjarnan vildi leigja þá hafa margir misst vinnuna og nánast allir lækkað í tekjum. 

Það kemur til með að verða ennþá meira af lausu húsnæði núna þegar fólk er að flytja úr landi. Reyndar eru núna miklir fólksflutningar, fólk úr Austur-Evrópu flyst hingað til lands þrátt fyrir að ástandið sé svona slæmt hérna. Það er einfaldlega miklu verra í heimkynnum þess og fólk vonar að það hafi einhver betri tækifæri hérna.

Víða býr fólk við mjög þröngan kost, margir saman í íbúð, miklu fleiri en eðlilegt er. Á sama tíma standa þúsundir íbúða auðar vegna þess að fólk hefur ekki ráð á að borga leigu og þeir sem hafa ráðstöfunarrétt yfir íbúðunum eru ekki tilbúnir að lækka leiguna í það sem leigjendur geta greitt.  Kona sem var á leigumarkaði nýlega sagði að húseigendur sem hún bað um lækkun á leigu hjá hefðu sagt að þeir gætu ekki lækkað leiguna, þeir yrðu að fá fyrir afborgunum.  Verði þeim að góðu með það. Ástandið er einfaldlega svoleiðis núna á íslenskum fasteignamarkaði að þú getur ekki einu sinni gert ráð fyrir að hafa fyrir fasteignagjöldum og öðrum lögboðnum gjöldum af húsnæði hvað þá fyrir einhverri tilbúinni ávöxtunarkröfu til að standa undir gróðærislánum.

Ég talaði í fyrradag við konu sem á verslunarhúsnæði við Laugaveg. Nokkur pláss eru í leigu, nokkur ekki. En leigan er svo lág að hún stendur ekki undir fasteignagjöldum. Þetta er kaldur veruleiki sem allir verða að skilja. Þetta er reyndar líka aðstæður sem allir leigutakar ættu að geta nýtt sér, þeir ættu að prófa að biðja sína leigusala um lækkun og segja upp óhagstæðum vísitölubundnum leigusamningum.

Varðandi námsmannaíbúðir þá held ég að þetta sé alls staðar málið, þetta eru orðnar dýrar íbúðir miðað við aðrar og það er eina sem þýðir að leigja þær ennþá ódýrar til námsmanna. Það er öllum til óþurftar að leigja þessar íbúðir á frjálsum markaði, það er ofgnótt af íbúðum þar fyrir.

Það er líka hálffurðulegt að íbúðir sem hafa verið fjármagnaðar með miklu hagstæðari kjörum en íbúðir á frjálsum markaði skuli geta verið svo leigðar hverjum sem er. Það er um að gera að láta námsmenn njóta þessara íbúða og 10 % lækkun er upp í nös á ketti.


mbl.is Námsmannaíbúðir leigðar á almennum markaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er lýðræði? Vilja skyrslettar lýðræði?

Það verður að koma yfirlýsing frá Vinstri grænum sem fullvissar okkur hin um að þau hafi ekki staðið fyrir þessari fólskulegu árás á kosningaskrifstofur annarra flokka. Ég segi fyrir mig, ég hef unnið eins og ég get að þvi að byggja hér upp nýtt samfélag og fá fólk til að skoða lausnir sem eru líklega til að virka. En mér finnst stórkostleg lítilsvirðing við okkar starf, sama í hvaða flokki sem við erum ef ribbaldalýður æðir inn á flokkskrifstofur og hræðir fólk og vinnur skemmdarverk. Eftir því sem ég heyri þá voru skemmdarverkin ekki mikil en það er verra ef almenningur er hræddur svo mikið að fólk þorir ekki að koma inn á kosningaskrifstofur. Hvað næst? Verður þetta eins og í sumum löndum að fólk þorir ekki að nýta kosningarétt sinn vegna þess að það er hrætt um að ráðist  verði á það á kjörstað? Vill fólk hafa sams konar stjórnarfar hérna og í Afganistan?

Ég vil ekki taka þátt í kosningabaráttu sem gengur út á að sletta einhverjum óhróðri og slori í andstæðinga. Ég vil taka þátt í málefnalegri og heiðarlegri umræðu þar sem við virðum andstæðinga og vitum að þeir hafa styrkleika á öðrum sviðum en við og það er best að við leggjum krafta okkar saman í púkk. 

Það eru erfiðir tímar framundan á Íslandi. En ég vil að fólk takist á við þá tíma með sömu lífsgleði og trú á lausnir og bjartari tíð framundan eins og við Framsóknarmenn heyjum okkar kosningabaráttu. Núna erum við í maður á mann baráttu og tökum þátt í ótal samræðum hvað og hvenær sem er. Hér er Björn að samfæra nokkra vegfarendur í Kringlunni.

Hér er Vigdís Hauksdóttir að útskýra skuldaleiðréttingatillögu Framsóknarflokksins í Kringlunni í dag IMG_4537

Ungir fjölskyldufeður flykktust að upplýsingaborðinu hjá okkur Framsóknarmönnum enda höfða efnahagstillögur okkar ekki síst til barnafólks, við reynum að útskýra að Framsóknarflokkurinn tekur stöðu með fjölskyldunum og atvinnufyrirtækjunum en ekki stöðu með lánardrottnunum eins og hinir flokkarnir. Börnin höfðu nú meiri áhuga á blöðrunum en efnahagstillögum okkar og Framsóknarkaffinu.

IMG_4541

Hér eru tveir hressir sem komu að heimsækja okkur. Ungi maðurinn til vinstri á 20 ára afmæli í dag. Ég óska honum innilega til hamingju með afmælið og vona að íslensk þjóð beri gæfu til að kjósa yfir sig þannig stjórn að hann og annað ungt fólk á Íslandi geti búið hér við góð lífskjör.

IMG_4543

Hér ræðir Björn við tvo unga menn. Þeir skynja vel þá alvarlegu stöðu sem Ísland er í núna og vita vel að Framsóknarflokkurinn er með skynsamlegustu stefnuna.

IMG_4538


mbl.is „Þetta var bara innrás“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt að gerast í Framsókn

Það er allt á fullu núna í Framsókn og ótrúlegur kraftur. Ég hef ekki tekið þátt í kosningabaráttu áður þannig að ég hafi verið svona ofarlega á lista. Þess vegna fylgist ég sérstaklega vel með og það er með ólíkindum hve mikill kraftur er í kosningabaráttu Framsóknar og hve margir leggja þar hönd á plóg. Dagurinn byrjar með fundum kl. 8 á morgnana, það voru um 20 manns á fundinum í morgun. Svo eru frambjóðendur í efstu sætum út um alla borg, þau eru á vinnustaðafundum og svo á fjölmiðlum og á fundum félagasamtaka. Ég fór í hádeginu í dag með Vigdísi Hauksdóttur á vinnustaðafund hjá Skeljungi,  Vigdís er þvílíkt glæsilegur fulltrúi okkar, hún flutti glimrandi framsögu og svo fékk hún margar virkilega beittar spurningar frá fólki í matsalnum og hún svaraði öllu afbragðsvel, hún svaraði málefnalega og af þekkingu þess sem veit hvað hann er að tala um og sem ætlar ekki að blekkja fólk. Það komst vel til skila að Framsóknarflokkurinn tekur stöðu með heimilum í landinu, Framsóknarflokkurinn tekur ekki stöðu með fjármagnseigendum og skilur þar á milli Framsóknarflokksins og hinna flokkanna.

4164-0Það er óhemjukraftur í Vigdísi Hauksdóttur sem er í 1. sæti í Reykjavík suður fyrir okkur Framsóknarmenn og enginn hefur lagt eins mikið undir í þessari kosningabaráttu fyrir hugsjónir sínar. Vigdísi var sagt upp hjá Alþýðusambandi Íslands (já þið lásuð rétt... einu stærsta stéttarfélagi landsins) þegar við Framsóknarmenn kusum hana til að leiða lista okkar. Við höfum ekki núna þingmann í þessu kjördæmi þannig að það er allt að vinna. En það er borgaraleg skylda en ekki brottrekstrarsök að taka þátt í að bæta stjórnarfarið á Íslandi.

Fyrir mig í 4. sæti þá er kosningabaráttan tóm gleði, mér finnst mikilvægt að taka þátt í að byggja upp Ísland og breyta stjórnarfari hérna. Ég tek þátt í kosningabaráttu núna af sömu ástæðum og ég mætti á Austurvöll á nánast hverjum laugardegi í marga mánuði og af sömu ástæðu og ég barði sleif á pott á Austurvelli í janúar síðastliðnum með svo miklum krafti að sleifin hrökk seinast í sundur.  En það sleifarlag og sá taktur sem barinn var inn í íslensku þjóðarsálina þá af þúsundum manna mun lengi óma með okkur en af því hann er ekki færður í orð þá getur verið að við gleymum of fljótt hvað gerðist, gleymum of fljótt hvernig ástandið var og hvernig við erum ennþá á brún hengiflugsins.

Það er nú tóm gleði í orðsins fyllstu merkingu að taka þátt í kosningabaráttu okkar Framsóknarmanna, ég hef staðið í Kringlunni að kynna stefnuskrá okkar og gefa litlum börnum blöðrur og foreldrum þeirra kröftuga blöndu af Framsóknarkaffi. Svo hlakka ég mikið til kvennakvöldsins sem verður á miðvikudaginn. Það verða í ekta detox stíl Grin því stjórnandinn verður Framsóknakonan framsýna hún Jónína Benediktsdóttir.  Hér er auglýsingin fyrir kvöldið

 3457811842_7a0fd08b06

 Svo var ég í veislu með alþjóðlegu ívafi í kosningamiðstöð okkar í Borgartúni 28 í gær. Hérna er myndaalbúm frá veislunni. Þar komu veislugestir með alls konar gómsæta rétti. Einar Skúlason í 2. sæti hjá okkur reyndi að slá í gegn með íslenskri kjötsúpu og hún var vissulega gómsæt. En það verður að segjast eins og er að það voru svo margir og spennandi og ofboðslega góðir réttir að ég gleymdi bara að smakka á kjötsúpunni hans Einars. 

Einn rétturinn var einhvers konar kleinur, ég held frá Lithauen. Þær voru sætar og stökkar en líktust dáldið mikið þeim Framsóknarkleinum sem ég er alin upp við, þessum sem mamma mín bakaði fyrir framsóknarvistina í Kópavogi.

Það væri skemmtilegt að taka saman uppskriftir af Framsóknarkleinum frá ýmsum löndum. Hér er lítið vídeó sem ég tók í gær af sumum sem komu með rétti í veisluna.  Ég er mjög undrandi yfir að það skuli ekki fleiri taka þátt í stjórnmálum, þetta er mestanpartinn tóm gleði og skemmtilegheit. Sérstaklega ef maður vinnur að hugsjónum sem maður trúir á.

Núna eftir vinnu ætla ég að fara í Kringluna og standa vaktina með Vigdísi Hauksdóttur og kynna kosningastefnuskrána. Svo í kvöld kl. 19 ætla ég að fara á  fund Panorama Ísland og verður Einar Skúlason þar líka en hann þarf svo að fara líka á fund hjá Samtökunum 78.  Í hádeginu kíkti ég í kosningamiðstöðina hjá okkur eftir vinnustaðafundinn og spjallaði við foreldra ungs langveiks barns sem litu þar við.  Það eru forréttindi að taka þátt í stjórnmálabaráttu og vinna með fjölda fólks og hlusta á fólk.


mbl.is Ræddu um að sprengja stjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eigendur Morgunblaðsins stýra umræðunni rétt fyrir kosningar

Hér í gamla daga þá breyttist Morgunblaðið alltaf nokkrum dögum fyrir kosningar í áróðursmaskínu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Reyndast breyttust öll fyrirtæki Reykjavíkur í maskínur í þeirri vél og skipum var stefnt að landi svo stýrimenn og skipstjórar Eimskipafélagsins gætu farið á atkvæðaveiðar.  Morgunblaðið fylltist af  lofgreinum  um afreksverk Sjálfstæðismanna og landföðurlega ímynd þeirra vakandi yfir hverju barni og Geir Hallgrímsson var stjarnan og fyrst kom svarta byltingin í Reykjavík þar sem Geir lofaði okkur malbikuðum götum, svo kom græna byltingin sem lofaði okkur útivistarsvæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn skilgreindi sem umferðareyjar og slétt slegin tún og svo kom leiftursóknin. Leiftursóknin gegn verðbólgu sem reyndar var ein háðulegasta útreið Sjálfstæðismanna rétt fyrir kosningar og átakanlegt dæmi um að þar á bæ höfðu menn hvorki  innsæi í efnahagsmál né íslensku þjóðarsálina. Leiftursóknin varð hið mesta flopp og var jafnan kallað  leiftursóknin gegn lífskjörum meðal gárunganna.

Það birtust líka í Morgunblaðinu rétt fyrir kosningar stundum neikvæðar auglýsingar, ég held að það séu fyrstu dæmin um slíkt þegar aðför var gerð að Alfreð Þorsteinssyni Framsóknarmanni sem byggði upp Orkkuveitu Reykjavíkur sem öflugt fyrirtæki í eigu borgarbúa. Það væri fróðlegt ef einhver nennti að rifja upp auglýsingarnar sem birtust rétt fyrir kjördag í fyrsta skipti sem Reykjavíkurlistinn bauð fram á sínum tíma. 

Núna síðustu daganna fyrir kosningar tekur Morgunblaðið einnig þátt í kosningunum og tekur afstöðu og en breytist núna ekki  í áróðursvél Sjálfstæðisflokksins heldur frekar svona yfirhilmingarvél þar sem mjög greinilega er forðast amk á mbl.is að hafa einhverjar pólitískar fréttir - einfaldlega vegna þess að öll umræða núna um stjórnmál er Sjálfstæðismönnum mjög í óhag. Núna í dag birtast líka nafnlausar neikvæðar auglýsingar í Morgunblaðinu. Þeim auglýsingum virðist beint gegn Samfylkingunni fyrst og fremst, þær eru í litum Samfylkingarinnar. Orðalagið er eins og runnið undan rifjum harðlínu Sjálfstæðismanna.

Þær litlu fréttir sem koma á mbl.is um stjórnmálin eru meira segja þannig að það er bannað að blogga við þær. Til dæmis er frétt um málgefni Péturs Blöndals þannig, sjá hérna Pétur Blöndal var ræðukóngur Alþingis (tók núna eftir því að það er búið að opna fyrir möguleika til að blogga við þá frétt, svo var ekki í morgun)

Jafnvel svona jákvæð frétt um að Pétur væri að vinna vinnuna sína gæti orðið til þess að einhverjir moggabloggarar rifjuðu upp fjölmiðlaumræðu um Pétur sem er góði hirðirinn í íslenskum fjármálum, maðurinn sem stofnaði Kaupþing og maðurinn sem prédikaði að hér og þar væri fé án hirðis sem þyrfti að raka saman og "láta ávaxta sig". Kannski við ættum nú að rifja upp gamla tíma og gamla slagorðið frá Silla og Valda en það var "Á ávöxtunum skuluð þið þekkja þá". Já við njótum aldeilis ávaxtanna af þeirri stefnu sem Pétur Blöndal  atti okkur út í og sem bróðir minn prédikaði líka yfir öllum landslýð.

Hvers vegna ómaði þessi stefna svona hátt? Við vorum mörg sem vissum alveg að þetta var röng leið og margir reyndu að koma boðum til almennings um það. En það tókst ekki. Boðskapurinn sem Pétur Blöndal bar fram og boðskapurinn sem bróðir minn bar fram passaði vel við hagsmuni fjársterkra aðila og passaði einstaklega vel fyrir þá fjármagnseigendur sem hafa ráðið hinni opinberu umræðu og fjölmiðlun á Íslandi eins langt og ég man.

Margir binda vonir við vefrými og umræðu á Netinu og halda að hún lúti einhverjum öðrum lögmálum, að þar fái fólk að tjá sig og allar raddir hljómi eins. Þannig er það nú ekki, þeir sem hafa yfirráð yfir þeim vefrýmum sem við tjáum okkur í  ráða umræðunni og ráða hvaða raddir þeir magna upp. Morgunblaðið er í eigu Sjálfstæðismanna eins og það hefur alltaf verið. Núna er umræðan líka í þágu Sjálfstæðisflokksins. Núna rétt fyrir kosningar eftir mesta og æðisgengnasta hrun sem verið hefur í vestrænu lýðræðislandi þá notar netútgáfa Morgunblaðsins þá taktík að deyfa umræðu, flytja ekkifréttir um atburði sem koma okkur ekki við og passa að ekkert kastljós falli á Sjálfstæðisflokkinn og engin krufning fari fram á verkum hans undanfarin ár. Þetta kallast þöggun.

Það er vel skiljanlegt og siðlegt að netmiðill sem og aðrir fjölmiðlar geri sitt til að efla siðlega og ábyrga umræðu í fjölmiðlum og umræðan undanfarna mánuði um suma Sjálfstæðismenn hefur gengið út fyrir allan þjófabálk, það hafa verið persónugerðir í einstökum mönnum  orsakir Hrunsins og þeir útmálaðir sem landráðamenn og glæpamenn. Sérstaklega hafa árásir á Guðlaug Þór síðustu daga verið hatrammar og ómanneskulegar og þær árásir hafa verið að miklu leyti órökstuddar dylgjur og rógburður. Við þurfum að hlífa stjórnmálamönnum við þannig umræðu því annars fáum við ekkert af góðu fólki til að taka þátt í stjórnmálum. En við þurfum ekki að hlífa stjórnmálamönnum við að gangast við orðum sínum og gjörðum og við ættum núna að geta rifjað upp stjórnmálasögu undanfarinna ára og séð hana öðruvísi.

Kosningaloforð Sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar "Traust efnahagsstjórn - þegar öllu er á botninn hvolft" eru átakanlegt núna. Það er líka átakanlegt að lesa núna gamlan DV en þar er Pétur Blöndal að halda því fram að illa stadd fólk  á Íslandi svindli á kerfinu. Núna löngu seinna þá held ég að það hafi verið Pétur Blöndal og skoðanabræður hans í stjórnmálum og lífsskoðun sem svindlaði á kerfinu. Eða öllu heldur bjuggu til svindkerfi til að svindla á okkur öllum.

p.s.
Ákvað að stunda sjálfsritskoðun á þessu bloggi og tók út tengingu í gamla forsíðu í DV. Ég sé að það var mjög lágkúruleg skrif hjá mér, ég vil ekki taka þátt í umræðu á þessum nótum. Ég held að við sem bloggum oft um stjórnmál ættum núna síðustu daga fyrir kosningar öll að passa að vanda skrif okkar og vega ekki of nærri fólki. 

 

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband