Prófkjörið hans Gulla - Skrípaleikur í beinni útsendingu

Ég var á Nasa í gærkvöldi þegar sent var út eitthvað sem RÚV kallar borgarafund. Þetta var ekki borgarafundur fyrir fimmeyring og þetta voru ekki málefnalegar og yfirvegaðar umræður um stöðu íslensku þjóðarinnar eftir stærsta hrun nokkurs vestræns efnahagskerfis og um hvaða lausnir stjórnmálaflokkarnir sem bjóða fram hefðu. Þessi "borgarafundur" var keyrður eftir sama módeli og gettu-betur og mælskukeppni framhaldsskólana með klappliði og pú-liði í salnum.

Ég hugsa að RÚV hafi reynt með þessum útsendingum að ná sömu stemmingu og borgarafundirnir voru haustið 2008 og byrjun árs 2009 og öll sú atburðarás sem endaði í búsáhaldabyltingu. En það mistókst hrapalega hjá RÚV og þessi þáttur sýnir enn og aftur hve handgengið RÚV er þeim sem halda um stjórnartaumana hverju sinni og hve grunn og yfirborðsleg umræða í ríkisfjölmiðlinum er og hvern þátt fjölmiðlarnir áttu í að koma okkur í þá stöðu sem við erum í núna. Var RÚV á verðinum og fór ofan í tengsl stórfyrirtækja og stjórnmálamanna öll árin fyrir hrunið?  Lunginn úr tímanum í þættinum í gær fór í að ræða prófkjörið hans Gulla árið 2006. Vissulega er mikilvægt að allt sé upp á borði varðandi tengsl kjörinna fulltrúa fólksins og fjármagnseigenda og það er ekkert að því að  framlög í kosningasjóði  vegna prófkjöra séu birt opinberlega og að það séu settar reglur inn í flokkum um hvernig megi standa að því. 

En umræða í 45 mínútur um prófkjörið hans Gulla fyrir þremur árum er ekki umræða um stöðuna eins og hún er í dag í íslensku samfélagi og hvernig eigi að nálgast þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir, þetta er ekki krufning á íslensku samfélagi og þetta er ekki neitt innlegg í að bæta siðferði íslenskra stjórnmála. Þvert á móti þá er þetta einstaklega lúaleg atlaga að stjórnmálamanni í vonlausum flokki í vonlausri stjórnmálabaráttu fyrir vonlausan málstað. Hvort sem það var með atbeina RÚV eða ekki þá liggur Guðlaugur Þór marflatur í þessari stjórnmálabaráttu. En þessi síðasti þáttur var eins og að sparka í liggjandi mann og það segi ég ekki vegna þess að ég sé neinn talsmaður Guðlaugs Þórs. Ég er talsmaður mannréttinda og mannhelgi og persónuverndar og þess að æra fólks sé ekki fótum troðin án þess að fólk geti svarað fyrir sig.  Það er fínt að þessi prófkjörstyrkjamál komi upp á yfirborðið en þessir fólk verður að athuga að 2 milljóna styrkur í prófkjörsbaráttu fyrir einhverjum árum frá fyrirtæki var eðlileg vinnubrögð hjá mörgum stjórnmálaflokkum og söfnun framlaga í kosningasjóði fór fram fyrir opnum tjöldum.

Kúlulán til hlutafjárkaupa án nokkurrar ábyrgðar er hins vegar mjög óeðlileg vinnubrögð og það verður að upplýsa hvaða stjórnmálamenn hlutu slíka lán og slíka fyrirgreiðslu frá fjármálastofnunum, það dregur verulega úr trúverðugleika þeirra sem það gerðu. 

Hér er stutt upptaka sem ég tók á borgarafundi á NASA, ekki gullaprófkjörsfundinum í gærkvöldi heldur á rafmögnuðum fundi sem haldinn var skömmu fyrir búsáhaldabyltinguna og það var einmitt umræðan um ábyrgð fjölmiðla. Munum við þurfa annan svoleiðis fund eftir nokkur ár um ábyrgð fjölmiðla sem nú hafa skipt um vist, orðið húskarlar þeirra sem stýra hinum nýju bönkum?


mbl.is Segir 40 aðila hafa styrkt sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég komst að eftirfarandi niðurstöðu um þetta mál:

Menn fatta ekki að það að gera eins og allir aðrir er ekki stjórnmálamanni sæmandi. Það er ekki nóg að hafa ekkert gert rangt. Maður verður að vera fyrirmynd. Ég mun því nota útstikanir á nokkra listamenn í mínum flokki. Sjá nánar:

http://carlos.annall.is/2009-04-23/obama-mordingi-frettamenn-i-vandraedum/

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 10:55

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Carlos, þetta er ekki spurning um að gerast sjálfur leikandi í því skrípaleikriti sem bútar Guðlaug Þór niður. Þetta er spurning um að við spyrjum okkur sjálf hvers vegna er þetta á dagskrá? Hvers vegna eru teknar 45 mín. undir þetta mál á meðan RÚV neitaði stjórnmálaflokkum um að fá 10 mín. til að kynna stefnu sína. Það hefði verið miklu sniðugra að RÚV hefði skynjað skyldu sína á að koma að siðbót og meiri og betri málefnalegri umræðu í fjölmiðlum.  Siðbót í stjórnmálum fæst ekki með svona þáttum. Spurjum líka - hvað var ekki á dagskrá í þessum þætti?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.4.2009 kl. 11:04

3 identicon

Einmitt. Þarf tvo til. Atlaga er í gangi en allir voru að gera það. Guðlaugur og Össur hjálpuðu í engu til neins nema áframhaldandi bútun. Þeir kunna ekki að segja:

Við gerðum mistök og tókum þátt eins og aðrir. Næsta mál!

Það hefði verið leið til að beina þættinum á betri braut. Ónýtir stjórnmálamenn og ónýtir bankar og ónýtir fjölmiðlar.

Við búum náttúrlega bara á biluðu landi. ;)

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 11:10

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þau sem bjóða sig fram til stjórnmála verða að þola einhverja umræðu. En hvers vegna fær það 45 mín hverjir styrktu Guðlaug Þór fyrir 3 árum? Hvers vegna fær það enga umræðu að Vigdísi Hauksdóttur var sagt upp starfi hjá stærsta stéttarfélagi landsins þegar hún tekur sæti á lista okkar Framsóknarmanna? Hvers vegna fær það enga umræðu að listi Lýðræðishreyfingarinnar virðist vera eitt alls herjar feik? Fók kannast ekki einu sinni við að vera í framboði fyrir þann lista.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.4.2009 kl. 11:21

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það voru einmitt útrásarvíkingar og handbendli þeirra í stjórnmálum sem knésettu Ísland.

Sigurður Þórðarson, 23.4.2009 kl. 11:38

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sigurður, ég held að það sé ágætt að einhver tími líði til að skapa fjarlægð til að spá í hvað raunverulega gerðist. Ísland varð vogunarsjóður og fjárhættuspilavíti. Það voru stjórnmálamenn og fjölmiðlar sem virkilega trúðu á þetta sem tóku þátt í þessum skrípaleik og ríkisstjórn og forseti seldu ímynd landsins.

þetta er svona "á bjargi byggði hygginn maður hús". Húsið sem er reist á sandi er ekki að standa sig þegar á reynir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 23.4.2009 kl. 13:43

7 identicon

Þar hittir þú naglann á höfuðið, Salvör. Þetta er svona "Á sandi byggði" - "Nýju fötin keisarans" dæmi. Það er erfitt að tala um þetta án þess að horfa á sjálfan sig í spegli á sama tíma, eða sjá einhvern nákominn sér sem tók þátt í vitleysunni.

Mér finnst erfitt að horfa til nýju framboðanna og treysta þeim, þau hafa ekki sannað sig. Mér finnst líka erfitt að treysta gömlu flokkunum, sem hafa ekki tekist á við spegilmynd sína og neita að taka ábyrgð á verkum sínum. Það eru enn of margar beinagrindur í kústaskápunum, líka hjá Framsókn og Samfylkingunni. Ákafi Vinstri grænna í "I told you so" finnst mér ekki traustsvekjandi heldur.

Á meðan mikið er af fingrum sem benda og lítið af raunverulegri naflaskoðun, er þetta áframhald af "Á sandi byggði", eða það finnst mér.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 23.4.2009 kl. 16:37

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæra Salvör, þú skrifar eins og allir stjórnmálamenn séu fávitar eða í besta falli trúgjarnir kjánar. "Þeir hafi bara þegið alla þessa peninga í einfeldningshætti."

Ekki finnst mér þetta trúverðugt hjá þér.  Hitt er nær sanni að þeir keyptu upp allt vald í landinu þ.m.t. 4. og 5. valdið þ.e. fjölmiðla-og stjórnmálavaldið. 

Þú varst snögg að hlaupa í vörnina fyrir Óskar Bergsson og  núna má ekki ræða hverjir borguðu Gulla né fyrir hvað.   Er þetta erindi þitt í  pólitík?

Sigurður Þórðarson, 23.4.2009 kl. 17:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband