Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Einar og kjötsúpan

Einar Skúlason fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, sem skipar 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, segist ætla að bjóða upp á bestu kjötsúpu í heimi í alþjóðaveislu á sunnudaginn 19. apríl kl. 16 í Borgartúni 28. Jafnframt verður hægt að gæða sér á fjölbreyttum réttum frá mismunandi heimshornum, ásamt íslenskum kökum og kruðerí.

Í alþjóðaveislunni verður hægt að kynnast af eigin raun hinu gríðarlega fjölbreytta alþjóðasamfélagi sem er við lýði á Íslandi auk þess sem tækifæri gefst til að kynna sér stefnu Framsóknarflokksins í málefnum innflytjenda. Framsóknarflokkurinn hefur verið í fararbroddi í málefnum innflytjenda en flokkurinn hafði m.a. forgöngu um stefnumótun ríkisstjórnarinnar í málefnum innflytjenda í byrjun árs 2007, gerði fyrsta þjónustusamning félagsmálaráðuneytis við Alþjóðahúsið, hafði forgöngu að taka reglubundið á móti hópum flóttamanna eftir langt hlé og vill nú taka sérstaklega á réttindum minnihlutahópa með því að innleiða tilskipanir ESB um bann við mismunun.

Myndin hér fyrir ofan er af Einari að bjóða upp á kjötsúpu í Esjugöngu Framsóknarflokksins um páskana. Einar er búinn að nota hvert tækifæri til að æfa sig í kjötsúpuelduninni. Við fylgjumst spennt með hvernig Einari gengur í dag, hver gerir bestu kjötsúpu í heimi???


Kosningarnar kosta miklu meira en 200 milljónir

 

Framkvæmd Alþingiskosninganna er áætluð 200 milljónir fyrir ríkissjóð. En síðan kosta kosningarnar alla flokkana og framboðin mikla vinnu og mikið fé. Auglýsingum rignir inn á öll heimili í landinu og sem betur fer hafa fjórflokkarnir komið sér saman um auglýsingaþak, annars væri ennþá meira um auglýsingar. Það er samt verra að núna er farnar að sjást neikvæðar auglýsingar sem ég átta mig ekki á hvernig standa að baki en virðast reyndar vera beint gegn Samfylkingunni.

Það er samt fólkið sjálft sem er dýrmætasta auðlindin í kosningabaráttu flokkanna og það eru margar vinnustundir sem fólkið leggur á sig núna. Fáir hafa lagt eins mikið undir í kosningabaráttunni eins og hún Vigdís Hauksdóttir sem er í 1. sæti fyrir okkur Framsóknarmenn í Reykjavík suður.  Vigdís vinnur núna 25 tíma á sólarhring að því að kynna framboð okkar og ræða við kjósendur. Vigdís hefur lagt allt undir, hún starfaði hjá ASÍ áður en hún var valin til að leiða lista hjá okkur með meira en 50 % atkvæða en svo undarlegt sem það nú hljómar þá var henni sagt upp hjá ASÍ þegar hún tók sæti á lista Framsóknarflokksins. En Vigdís er hugsjónamanneskja og keppnismaður

En það er líka gaman, við Framsóknarmenn stóðum vaktina í Kringlunni í gær og notuðum líka tækifærið að heilsa upp á hina flokkanna. Það var hins vegar mesta fjörið og stemingin hjá okkur. 

Hér eru myndir af því þegar við heimsóttum hina flokkana

kringlan1.jpg

kringlan3_833073.jpg


mbl.is Kosningar kosta 200 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissuferðin 25 apríl - Ætlar þú að mæta?

 Það er líf og fjör á kosningaskrifstofu okkar Framsóknarmanna í Borgartúni 28. Þar er fundað í hverju horni, spjallað um pólitíkina og hvaða leiðir eru bestar til að rétta við atvinnulíf og hag fjölskyldnanna í landinu. Aldrei hefur verið eins mikið þörf á því að allar raddir heyrist, allir leggi sitt til málanna. Aldrei hefur verið meiri ástæða til að efla lýðræði og þjóðfélagsumræðu á Íslandi. 

Við fáum margar skemmtilegar heimsóknir á á kosningaskrifstofuna og þar er alltaf heitt á könnunni og einhver til að ræða um pólitík við. Í gærkvöldi þegar við vorum að tygja okkur heim þá fengum við skemmtilega og óvænta heimsókn. Það var stór hópur fólks sem var í óvissuferð og einn áfangastaður í þeirri óvissuferð var kosningaskrifstofa Framsóknarflokksins.

Í kosningunum 25. apríl verður hins vegar stærsta óvissuferð íslensks almennings. Þá verður kosin sú stjórn sem á að vinna Ísland upp úr Hruninu og koma í veg fyrir að hér verði bresti á landflótti og gríðarlegt atvinnuleysi og hér kikni fólk undan drápsklyfjum skulda einhverra netbanka og fjárglæframanna sem fengu að skuldsetja íslenska alþýðu án þess að við vissum neitt um það.

Líf og fjör á kosningaskrifstofunni:

IMG_4475

IMG_4473


mbl.is Takk fyrir, búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tjaldborgin um heimilin, saga um þurrkklefa

Þegar ég var barn og unglingur rak faðir minn lítið innflutningsfyrirtæki. Hann flutti inn ýmsar vörur fyrir iðnfyrirtæki. þegar kreppan í kringum 1968 skall á þá hafði hann selt trésmiðju á Íslandi þurrklefa til að þurrka við. Trésmiðjan varð gjaldþrota áður en þurrkklefinn var afhentur. Faðir minn varð líka gjaldþrota eða gerði einhvers konar nauðasamninga og sat uppi með þurrklefann sem þá var kominn á hafnarbakkann á Íslandi og hann hafði leyst út úr tolli. Margir vinir hans urðu líka gjaldþrota um sama leyti, ég held að þá hafi tíðkast einhvers konar ábyrgðir þannig margir urðu gjaldþrota vegna þess að þeir höfðu skrifað upp á lán hjá öðrum sem voru gjaldfellt. Þetta varð því eins konar keðjuverkun, ef einn stóð ekki í skilum þá dró hann marga með sér niður.

Ég man að um þetta leyti þá var oft hringt dyrabjöllunni heima hjá okkur í blokkinni á Laugarnesvegi 100  og oft var það Haukur Mortens og hann heilsaði alltaf svo fallega, sagði "Sæl Salvör mín" og lét falla einhver  hlýleg orð.  Mér fannst svolítið gaman að þekkja þennan ástsælasta söngvara landsins en ástæðan var sú að  Haukur var þá stefnuvottur og fór með tilkynningar heim til fólks að því væri stefnt vegna vanskila. Stundum komu menn heim og litu í kringum sig eftir því hvort eitthvað væri til á heimilinu til að taka veð í.

Faðir minn fór að vinna verkamannavinnu og móðir mín sem kennari. Ég man að móðir mín sagði að fjárhagsaðstæður þeirra um það leyti sem þau seldu blokkaríbúðina til að grynnka á skuldum að skuldirnar væru svo miklar að tekjur þeirra beggja samanlagðar á mánuði nægðu ekki fyrir þeim dráttarvöxtum sem þau urðu þá að greiða á mánuði. Þau voru þá með fjögur börn, yngsta nokkura ára gamalt. Þetta var vonlaus staða og við vissum það börnin.

Þau seldu íbúðina til að grynnka á skuldum, það tók langan tíma því þá var nánast enginn húsnæðismarkaður. Þau keyptu svo húsnæði í byggingu í Kópavogi og við fluttum í töluvert þrengra og verra húsnæði en við höfðum búið í áður. Það var reyndar ekki annað en fokheld hæð og útgrafinn kjallari. Í kjallaranu hafði verið komið upp íbúðarrými  með klósetti og bráðabirgðaeldhúsinnréttingu sem var reyndar bara vaskur og einn skápur og það var ekki einu sinni sturta. 

Við fluttum inn í kjallarann og foreldrar mínir gátu í mörg ár ekki gert neitt nema borga niður það húsnæði en verðbólgan vann með þeim og gerði lánin að engu og svo fengum við eldri börnin og síðar faðir minn og yngri bróðir vinnu við virkjanaframkvæmdir  á hálendinu, ég vann tvo sumur upp í Þórisós og faðir minn og yngri bróðir unnu í steypustöðinni við Sigöldu.  Faðir minn fór í skóla, hann lærði trésmíði. Smán saman urðu fjárráð þeirra betri og þau gátu haldið áfram að byggja húsið. Þau kláruðu það svo um það leyti sem við fluttum að heiman eldri börnin. 

Þessi kafli í fjölskyldusögu minni rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á   á umfjöllunina Ekki einu sinni búið að slá tjaldborg utan um heimilin í landinu

Ég óska engum börnum að búa við þá angist sem svona vonlaust staða foreldra kallar yfir heimili en ég veit að því miður er staða margra ungra foreldra núna eins og staða foreldra minna var. Foreldrarnir hafa misst vinnu sína og atvinnutekjur eru litlar eða engar en skuldirnar æða áfram og húsnæði hrynur í verði og er óseljanlegt. Ég veit að núna mun enginn geta klórað sig út úr stöðunni á sama hátt og foreldrar mínir því nú eru öll lán gengistryggð eða verðtryggð. Eina sem bjargaði foreldrum mínum var að lánin þeirra urðu smán saman að engu úr af verðbólgu sem þá var mikil.  Það má segja að skuldir þeirra hafi verið afskrifaðar, verðbólgan sá um það.  

Ég man að bankinn tók veð í þurrkklefanum sem velti föður mínum um koll og geymdi hann í mörg ár til tryggingar einhverju láni.  Svo var það lán greitt upp og þá fannst enginn kaupandi. Ég man samt að það var einhvers konar sigurstund fjölskyldunnar þegar við fengum umráð yfir þurrkklefanum. Þá vissum við að við höfðum unnið.

Það gagnaðist okkur hins vegar ekkert fjárhagslega að fá þurrklefann til umráða. Hann var þungur baggi á fjölskyldunni í mörg ár eftir það. Faðir minn leigði í mörg ár bílskúr út í bæ til að geyma þennan þurrkklefa, hann var víst ógnarverðmætur einu sinni. Svo var þurrklefinn fluttur frá einu geymsluhúsnæði til annars og annað hvort fleygði tækninni svo fram að hann varð úreltur eða eitthvað týndist úr honum út af volkinu.

Ég held að þessi þurrklefi hafi kostar ógnarmikið fé, mörg ársverk verkamanns þegar hann var fluttur til landsins. En honum var hent á hauganna eftir að fyrst hafði bankinn tekið hann sem veð fyrir láni og geymt hann í mörg ár og eftir að fjölskylda mín hafði kostað undir hann geymsluhúsnæði í mörg ár.

Margar þær lausnir sem lagðar eru fyrir fólkið í landinu núna eru eins og þurrklefinn. Felast í því að kyrrsetja verðmæti  og láta þau grotna niður. Eina raunhæfa leiðin er að fella niður  hluta af lánum og sjá um að athafnalíf sé svo blómlegt hérna að fólk hafi vinnu.

Ég hugsa oft um að það hefði verið betra á sínum tíma að gefa einhverjum strax þennan þurrkklefa, strax á þeim tímapunkti sem bankinn tók hann yfir, ef til vill hefði hann þá nýst til að byggja upp atvinnu á Íslandi. En sagan varð öðruvísi. Verðmætin í þurrklefanum urðu að engu með því að taka hann ekki í notkun og ekki nóg með það, það kostaði mikið að skemma hann og láta hann grotna niður árum saman. Þau verðmæti sem eru fólgin í tækjum til framleiðslu eru einmitt eingöngu fólgin í þeim ef við nýtum þau við einhverja framleiðslu eða iðju.


mbl.is Mikill munur á íbúðaverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frá undirmálslánum í USA til húsnæðislána á Íslandi

Heimskreppan sem nú skellur yfir  allar þjóðir er bylgja sem hófst með undirmálslánum í Bandaríkjunum. Þetta voru lán sem voru veitt til íbúðarhúsnæðis án eðlilegrar varfærni banka sé gætt, það var lánað fyrir öllu og greiðslubyrði af lánum var hærri en fólk réð við. Ef húsnæðisverð fer hækkandi þá gæti svoleiðis kerfi gengið því þótt fólk hafi fengið 100% lán og geti vart ráðið við afborganir þá getur það samt hagnast ef húsnæðisverð hækkar. Hins vegar ef húsnæðisverð lækkar og fólk á ekkert nema lán þá er illt í efni. Þá fer fólk að skulda meira en það á í húsnæðinu og það kemur að því að fólk rís ekki undir afborgunum. Það er alveg nauðsynlegt í slíku kerfi að gera einhverjar ráðstafanir til að fólk flosni ekki upp, það er enginn sem græðir á því, húsnæðið skulduga er verðlaust og húsnæðisverð hrapar niður úr öllu valdi og á nauðungaruppboðum fæst ekki hátt verð fyrir eignir.

 

Það sama er að gerast hér á Íslandi þannig að hér lækka laun á sama tíma og verðbólga æðir áfram, gengið erlendra mynta margfaldast og húsnæðismarkaður hrynur.  Bilið milli þess sem húseigendur skulda í eign og hvað eignin myndi seljast á verður sífellt minna, er raunar orðið svo lítið að líklegt er að eigið fé sé neikvætt í íbúðarhúsnæði sem er með nýlegum lánum. Það er í svoleiðis aðstæðum sem Framsóknarflokkurinn setur fram skýra stefnu um að skuldir verði afskrifaðar um amk 20 %. 

Hér eru vídeó sem útskýra þessar tillögur:

 


mbl.is Húsnæði lækkar í verði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingamál og þátttökulýðræði

Svo virðist vera að umræða um meinta spillingu og mútuþægni Sjálfstæðisflokksins hafi engin áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins.  Þetta mál hefur hins vegar verið á forsíðum  fjölmiðla dag eftir dag og netumræðan hefur lagst í alls konar pælingar og samsæriskenningar um hvers vegna þessi hafi styrkt þennan.

Þessi umræða er komin út fyrir allan þjófabálk og hún snýr athygli frá því sem varðar okkur öll. Hún snýr athygli frá Hruninu mikla á Íslandi og lömuðu atvinnulífi og skelfingu losnum fjölskyldum sem sumar hverjar sjá engan kost núna í stöðunni annað en flytja  burt frá Íslandi og lausnum. Þessi umræða um spillingarmál Sjálfstæðisflokksins teppir íslensku þjóðarsálina þannig að ekki kemst að málefnaleg umræða á hvaða kostir eru í þeirri afar þröngu stöðu sem við erum í, hvaða lausnir koma til greina og hvernig á að byggja hér upp úr rústunum aftur blómlegt athafnalíf og þjóðlif.

Þessi umræða fyllir mig líka vonleysi um hvort eitthvað hafi breyst í lýðræðisátt á Íslandi. Alla vega virðist mér fjölmiðlarnir ekki sýna ábyrgð með því að breyta vettvangi stjórnmála á Íslandi í skrípaleik rétt fyrir kosningar og einhver konar eðjuslag. Það kastljós sem stjórnmálaflokkar fá í svona umræðu er afar skemmandi og mjög villandi. Það er eins og mælikvarðinn og viðmiðið sé að ganga út frá því að allir sem hafa tekið þátt í því að stýra Íslandi annað hvort í ríkisstjórn eða í borgarstjórn séu sjálfkrafa spilltir pukrarar sem hafi gengið það eitt til með stjórnmálaþátttöku sinni að skara eld að köku sinni og sinna og vera leiguþý peningamanna. Eins og mælikvarði stjórnmála sé að þetta sé spurning um að vera sem minnst spilltur og besta leiðin og eina leiðin til að sýna fram á hreinleika þinn sem stjórnmálamanns er að þú hafir  sem minnst komið að ákvörðunum.  

Mál Guðlaugs Þórs minnir mig að sumu leyti á það mál sem kom upp í kosningabaráttu Framsóknarflokksins fyrir síðustu kosningar og raunar eyðilagði þá kosningabaráttu alveg. Ég man vel þegar fjölmiðlar tóku það mál upp því að það kvöld var kvennakvöld í Framsóknarflokknum og efsti maður á lista í Reykjavík suður var Jónína Bjartmanz og hún ávarpaði okkur, þá nýkomin úr viðtali í fjölmiðlum og hún var greinilega mjög beygð og miður sín.  Næstu daga á eftir var sífellt hamrað á Jóhönnu í allri stjórmálaumræðu og hún sett upp sem einhvers konar spillingartákn.

Málið var þannig að erlend tengdadóttir Jónínu hafði fengið óvenju hraða meðferð varðandi veitingu ríkisborgararéttar. Jóhanna Bjartmanz kom ekkert að þeirri afgreiðslu. Það var alsherjarnefnd Alþingis sem sá um svona afgreiðslu. Það var Bjarni Benediktsson sem stýrði þeirri nefnd og með honum voru Guðrún Ögmundsdóttir og Guðjón Ólafur. Þessi afgreiðsla alsherjarnefndar á ríkisborgararétti var mjög umdeilanleg og eðlilegt að aðrir sem hafa beðið mjög lengi eftir ríkisborgararétti hafi furðar sig á henni og leitað réttar síns.  En í þessu máli þá var alveg ljóst að Jónína kom ekki að afgreiðslu málsins en samt var henni stillt upp af fjölmiðlum, þar á meðal ríkissjónvarpinu sem einhvers konar sakborningi. 

Það virtist ekki vera neinn vilji til þess hjá fjölmiðlamönnum að setja þetta mál fram málefnalega og vekja athygli á ýmsum geðþóttaákvörðunum stjórnvalda varðandi ríkisborgararétt m.a. til íþróttamanna sem lið vildu halda í. 

Það var ekkert kastljós þá á Bjarna Benediktssyni vegna þessa máls en hann var formaður þeirrar nefndar sem lagði til veitingu þessa ríkisborgararéttar.  

Þessi tvö mál eru lík að því leyti að kastljós fjölmiðla gerði þau að æsifrétt  í nokkra daga og bjó til sökudólga úr persónum sem voru í framlínu í kosningabaráttu þ.e. Guðlaugur Þór núna og Jónína Bjartmanz í kosningunum síðustu. Í hvoru tilvikinu þá virðist kastljósið hafa beinst að þeim sem raunverulega báru ábyrgðina þ.e. alsherjarnefnd Alþingis og forusta Sjálfstæðisflokksins og svo hefðu þessi mál átt að vera grunnur í umræðu um siðferði stjórnmálanna og styrkjamálið hefði átt að kveikja umræðu um hve alsiða er að stjórnmálabarátta sé kostuð og samantvinnuð við  hagsmunaaðila, eins konar lobbíismi fyrir ákveðna hópa eða aðila. Það geta verið fyrirtæki, það geta verið erlend ríki, það geta verið félagasamtök eða hagsmunagæsluaðilar ákveðinna stétta. 

Við þurfum að endurheimta stjórnmálin úr höndum þessarra aðila, við þurfum að búa til stjórnmál þar sem einstaklingarnir hafa áhrif, ekki stjórnmál þar sem einstaklingar eru eins og peð sem keypt eru upp og skákað fram og til baka af einhverjum huldum öflum með hulda hagsmuni.

En besta leiðin til að búa til virkt þátttökulýðræði á Íslandi er að hér verði stjórnmálabarátta heiðarleg og málefnaleg umfjöllun þar sem menn virða andstæðinga sína og skoðanir og viðhorf þeirra sem eru í minnihluta og valdalausir, stjórnmál þar sem þeir sem fara með völdin hverju sinni gera það með hagsmuni heildarinnar í huga.

Annars fann ég áðan skemmtilega ályktun sem var samþykkt á aðalfundi Framsóknarfélags R

Ég skrifaði þetta um umfjöllun Rúv um ríkisborgararéttarmálið: 

Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína 

Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan - salvor.blog.is

 

 


mbl.is Guðlaugur telur málið ekki skaða flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjörtu Samfylkingar og Framsóknar slá ekki í takt

Það er áhugavert að spá í hvernig fylgi stjórnmálaflokkar rokkar upp og niður.  Framsókn toppaði í janúar, flokksþingið þar sem var algjör endurnýjun á flokksforustu þótti tímamót og sýndi ferska vinda. Stjórnarflokkarnir í vanhæfu ríkistjórninni eru með sama fólkið nema bara oddvitarnir Ingibjörg Sólrún og Geir Haarde helltust úr lestinni vegna veikinda sinna.

Það er tvennt sem vekur athygli. Annars vegar virðist það ekki hamla Sjálfstæðisflokknum neitt að vera talinn mesta spillingarfen landsins og hafa klúðrað öllu og hvert hneyksismálið á fætur öðru komi upp sem rakið er til áhrifafólks í þeim flokki. Í öðru lagi virðist það ekki há Samfylkingunni neitt að hafa borið ábyrgð og verið gerandi í stjórninni sem stefndi okkur í hrunið og varaði okkur ekki við fyrr en allt var hrunið.

Það er skondið að stjörnur Samfylkingar eru núna t.d. Helgi Hjörvar sem blákalt hélt því fram í sjónvarpsþætti í gær að hann hefði bara verið 90 daga í stjórn, hann sem kom sem í þáttinn sem staðgengill forsætisráðherra sem hefur verið límdur við ráðherrastól síðan þessi vanhæfa ríkisstjórn var stofnuð, hún færði sig bara milli stóla.  Svo eru stjörnur Samfylkingarinnar Björgvin fyrrum bankamálaráðherra sem sagði af sér sem bankamálaráðherra þegar hann heyrði að fólk var farið að slá í potta og pönnur á Austurvelli og Sigríður Ingibjörg fyrrum stjórnarmaður í bankaráði Seðlabanka Íslands sem sagði af sér á meðan spjótin stóðu á Davíð seðlabankastjóra.

Bankaráðherra Samfylkingarinnar og seðlabankaráðsmaðurinn skutust upp sem skærar stjörnur á Samfylkingarhimninum núna í prófkjörum og næstum yfirskyggðu sól Helga Hjörvars. Annars vekur líka athygli í DV í dag hve gríðarlegur prófkjörskostnaður Helga Hjörvars er, það er alveg út úr kú miðað við aðra. Skrýtið að enginn í Samfylkingunni setji spurningamerki við það. Sérstaklega vegna þess að Helgi Hjörvar skrifaði rétt fyrir Hrunið langlokur miklar í blöðum  þar sem hann reyndi að selja íslenskum almenningi hugmyndina um að selja virkjanir og nýtingarrétt og búa til "sjóð handa komandi kynslóðum". Já takk, sjóð handa komandi kynslóðum. Sjóð sem settur væri saman  úr sams konar efni og hátæknispítalinn sem átti að byggja fyrir símaeinkavæðinguna og ofinn úr sama efni og nýju fötin keisarans og genabankapeningar Bubba kóngs.

En það er ströggl framundan hjá Framsókn og lítið fast í hendi. Gaman samt að klofningsframboðið út úr Framsókn sem nú hefur fengið listabókstafinn O virðist á fullri ferð. Leiðinlegt að hitt klofningsframboðið úr Framsókn þetta L-lista framboð skildi hætta við. Skynjuðu að sinn vitjunartími var ekki kominn og öllum sama um þetta Evrópumál. Engum meira sam um Evrópumálin en Samfylkingunni en af gömlum vana þá hrópa Samfylkingarmenn alltaf "Evra, evra" þegar þeir hittast. Þetta er nokkurs konar kveðja sem þeir kasta á fólk. Þjónar held ég engum öðrum tilgangi hjá þeim. Allir upplýstir og skynsamir Samfylkingarmenn vita að það er engin skyndilausn til á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar, evruupptaka er eitthvað sem tæki mörg ár og það skiptir miklu máli hvernig Evrópubandalagið kemur undan þeim þunga vetri og gjörningaveðri sem kreppan í heiminum hefur skapað - um hversu eða allmennt hvort fýsilegt sé fyrir smáþjóð eins og Ísland að leita þar skjóls og bandamanna.

Gaman að sjá hvernig línur Framsóknar og Samfylkingar skerast í toppum og lægðum á þessu línuriti yfir fylgi flokkanna.


mbl.is MMR: Fylgi VG eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkkistuþáttur í sjónvarpinu, geisp, geisp

Ég horfði á stjórnmálaþáttinn í sjónvarpinu áðan, mátti til því að þetta var mitt kjördæmi, kjördæmið þar sem ég kýs. Þetta var arfaleiðinlegur þáttur, það var nú bara píning að horfa á hann, mér finnst þetta grunn og yfirborðsleg umræða og ég sannfærist alltaf betur og betur um að sjónvarpsmiðlun er í dauðateygjunum.

Reyndar virtist mér stemmingin vera  eins og blautbolskeppni þar sem þátttakendum er skammtaður tími sem þeir eiga að ólmast og undir tekur lýðurinn  í salnum sem púar og hrópar og klappar í bakgrunni og þáttaspyrjendur spyrja aulalegra spurninga og eru einhvers konar valdsmenn tímans, tíminn er svo takmörkuð gæði að öllu máli skiptir að þeir sem bjóða sig fram í stærstu byggð landsins til að stýra landinu með stærstu skuldirnar eftir stærsta hrun sem nokkur þjóð hefur farið í gegnum fá nokkrar sekúndur til að tjá sig í frösum um hvað þeir ætla að skapa mörg störf og hvernig störf þau eigi að vera.

Já, það var eftir að lunginn úr þættinum fór í að velta sér upp úr einhverju 2006 dæmi um styrki til stjórnmálaflokka, dæmi sem hefur heltekið stjórnmálaumræðu síðustu daga á Íslandi og það gilda núna önnur lög þannig að þetta endurtekur sig ekki. Það er ámælisvert hjá ríkisfjölmiðli að spila svona með í  gulu-pressu fréttamennsku. Um hvað á umræðan að snúast? Hver á sviðið? Hvað skiptir máli?  Er það eina sem skiptir máli núna þegar kosið er um hvernig eigi að standa að uppbyggingarstarfi á Íslandi eftir Hrunið að halda þeirri stefnu í umræðu sem sett var af pólitískum andstæðingum Guðlaugs Þórs eða Sjálfstæðisflokksins í einhverjum hráskinnaleik sem við almenningur vitum ekki hver stýrir? 

Málið er að lausnir og valkostir og viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir núna verða ekki sett upp í frasa og verða ekki útskýrð á sekúndubroti. Það er líka ekki gæfulegt að byggja framtíð þjóðar á miðlun þar sem tilvonandi leiðtogar verða að koma boðskap sínum um hvað þeir og þeirra hreyfing standa fyrir á nokkrum sekúndum.

 

Það var líka áberandi að þetta var eins og brandarakeppni.
Kalli Valli Matt minn gamli bekkjarbróðir vann þá keppni, það var óborgarlega fyndið þegar hann byrjaði að tala um líkkisturnar, mér skildist að það væri eins konar lausn á gríðarlegu fjöldaatvinnuleysi á Íslandi að tvennt gerðist, það væri þetta: a) atvinnulaust fólk færi að smíða líkkistur, b) pólitískir andstæðingar manns dyttu dauðir niður og þar með skapaðist eftirspurn eftir líkkistum.

Það var ekki nóg með að þessi lausnamiðaða stefna Frjálslynda flokksins til að ráða við  atvinnuleysisbölið sé drepfyndin í orðsins fylllstu merkingu, það var ekstra fyndið að heyra sjálfan prestinn séra Kalla mæla þetta fram og það var ekstra fyndið að heyra þetta í líkkistuþætti sem virkaði á mig sem eins konar jarðarför pólitískrar sjónvarpsmiðlunar á Íslandi.

Þessir kjördæmaþættir eru  eins og útþynnt útgáfa af gettu betur, útsvar og mælskukeppni framhaldsskólana, eina breytingin sem ég tók eftir var að núna hafa  tímavörðurinn og spyrillinn runnið saman.  Fyrir síðustu kosningar var alveg nákvæmlega jafn grunn og innantóm umræða í Ríkisfjölmiðlinum Sjónvarpi Rúv, það var innantóm klisjumennska og froða, eini munurinn var að þá spurðu fréttamenn annarra spurninga, þeir spurðu "hver er ykkar loforðalisti?" og þá fengu fulltrúar flokkanna nokkrar sekúndur til að romsa upp úr sér öllu því góða sem þeir ætluðu að gera fyrir fólkið í landinu og sá vann þá lotu sem þurfti minnst að anda og gat þannig romsað sem flestum loforðum upp úr sér.

Þá brostu þáttastjórnendur breitt og létu skína í vígtennur og settu grimmd í svipinn og spurðu "Hvaðan  ætlið þið svo að taka peninganna til að framkvæma loforðalistann, svona nú engar undanbárur, svarið bara strax?" og þá gekk allt út á það hjá frambjóðendum að fara eins og köttur í kringum heitan graut og passa að nefnda ekkert um að það ætti að hækka skatta.  

Grunn og hlutdræg og villandi umræða fjölmiðla átti svo sannarlega sinn þátt í því hve Hrunið var snöggt og óvænt hér á Íslandi, hvernig búið var árum saman að innanéta allt eigið fé og verðmæti úr fyrirtækjum landsins og byggja upp gríðarmikið spilapeningaveldi, ekki bara til að blekkja Íslendinga heldur til að blekkja alla heimsbyggðina.

Svona grunnir þættir eins og þessi líkkistuþáttur gera ekkert til að upplýsa mál, geta ekkert fyrir lýðræðið á Íslandi. Bloggið hennar Láru Hönnu t.d þetta blogg REI-málið í máli og myndböndum er hins vegar dæmi um vitræna umræðu (megnið reyndar afritun á afar góðri blaðagrein), svoleiðis blogg sem vísar út og suður og býður upp á áframhaldandi umræðu er miklu dýpri lýðræðisumræða en þessi grínþátta- og léttmetisstemming á RÚV. Talandi um það þá er áberandi hve margir af þeim sem eru núna í framboði er fólk sem hefur látið mikið til sín taka í bloggheimum.

Það er líka miklu betra að geta fengið svona innblik í frambjóðendurna og hvað þeir standa fyrir með stuttu myndbandi eins og þessu þar sem Gunnar Bragi, efsti maður á lista í Norðvesturkjördæmi tjáir sig

Svo kostar ekki mikið í kosningabaráttunni að gera svona stutt vídeó eins og þetta þar sem Brynjar Hansson útskýrir hvernig lífið fyrir fjölskyldur er í heimi eins og efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á

Og það er ágætt fyrir almenning að fá útskýringu á einni af efnahagstillögu Framsóknarflokksins á myndbandi eins og þessu:

 

Það er frekar hallærislegt að fara að gefa þátttakendum í þessum Reykjavík Norður  þætti sem var á Rúv í kvöld einhver prik eftir frammistöðu með þannig stigagjöf er maður að spila með og leggja blessun sína yfir svona busl-í-grunnu-lauginni spjallþátta stjórnmálaumræðu. Minn formaður Sigmundur Davíð átti ágæta spretti en það passar ekki fyrir alvarlegar og úthugsaðar efnahagstillögur að útskýra þær í einhverjum léttmetissekúndustíl með frammiköllum frá sal og þáttastjórnendum. Efnahagtillögur Framsóknarflokksins þurfa meiri ígrundun og samræðu en er í boði í svona þáttum.

Mér fannst raunar Katrín Jakobsdóttir vera frekar heiðarleg, mér fannst flott að hún sagði hreint út að það ætti að lækka launin hjá opinberum starfsmönnum, það hefði verið gert í einkageiranum, af hverju ætti ekki að gera það líka hjá þeim sem vinna hjá ríkinu. Þetta var mjög kjarkað hjá henni að segja þetta og þora því, margir hugsanlegir kjósendur vinstri grænna eru opinberir starfsmenn á lágum launum. Okkar laun hafa náttúrulega verið eitthvað brot af því sem einkaaðilar borguðu.

En kannski líður ekki á löngu þangað til áramótaskaupið getur sýnt aftur hinn óborganlega fyndna karakter "Fúll á móti", þennan opinbera starfsmann sem var á föstu laununum í óðaverðbólgunni.

Reyndar finnst mér sjálfri ýmsar aðrar útfærslur vera til aðrar en þessi vinstri græna leið að  lækka laun opinberra starfsmanna. Það er sjálfsagt að deila byrðinni og deila vinnunni en það má líka gera með að lækka vinnuskylduna og lögleiða t.d. 4 daga vinnuviku og banna yfirvinnu. 

Annars er það athyglisvert að varla nokkur maður talar lengur um Framsóknarflokkinn í tengslum við spillingu, Blogg með titlum eins og  Spilltasti flokkur Íslandssögunnar X - D a u ð i  eru ekki um Framsóknarflokkinn, öðruvísi mér áður brá, við hljótum að vera að gera eitthvað rétt Grin


 


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórir borgarstjórar og okkar fólk í Reykjavík Norður

Við kvíðum engu Framsóknarmenn þó þessi skoðanakönnun sé okkur ekki hliðholl. Við skulum muna að í síðustu borgarstjórnarkosningum þá var fulltrúi Framsóknarflokksins ekki inni í skoðanakönnunum nema allra síðustu daganna en mál hafa skipast svo í Reykjavíkurborg að á þessu kjörtímabili þá var það Framsóknarflokkurinn sem réði því þegar 100 daga meirihlutinn undir forustu Dags Eggertssonar var myndaður  - og það var líka Framsóknarflokkurinn sem réði því að núverandi meirihluti undir forustu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur var myndaður. Það var Framsóknarflokkurinn sem steypti af stóli fyrsta borgarstjóra þessa kjörtímabils Vilhjálmi og það var Framsóknarflokkurinn sem steypti af stóli borgarstjóranum Ólafi F. Magnússyni. Það verður að segja hreinskilnislega að bæði Vilhjálmur og Ólafur F. voru á síðustu dögum síns valdatíma algjörlega vanhæfir og rúnir trausti og nutu ekki einu sinni stuðnings sinna eigin samherja.

Ólafur F. Magnússon var líka í lykilaðstöðu á þessu kjörtímabili en hann spilaði afar illa úr sínum kortum, svo illa að það var pínlegt fyrir alla borgarbúa að horfa upp á ástandið í borginni og mun valdatíma hans ekki verða minnst sem neins framfaraskeiðs.  Ólafur tók nú myndarlega á graffitimálum svo því sem er vel gert sé nú líka til haga haldið. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar tekist að tryggja frið og festu í Reykjavík, hluti sem svo sannarlega var ekki mikið af þegar REI málið var í algleymingi. Bæði 100 daga meirihlutinn og svo núverandi meirihluti í Reykjavík einkennast af góðum vinnubrögðum og trausti og ná að virkja þá góðu krafta sem eru í borgarfulltrúum og sýna borgarbúum að það vinna núna allir saman af hugsjón og heiðarleik að velferð borgarbúa.

Sú ríkisstjórn sem núna situr fram að kosningum gerir það vegna þess að Framsóknarflokkurinn ver hana trausti. Annars væri sennilega upplausnarástand hérna og götubardagar. Þannig tryggir Framsóknarflokkurinn núna frið bæði í borgarstjórn og ríkisstjórn. Það er svo aukabónus að fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins þá komst til valda kona sem forsætisráðherra og kona sem borgarstjóri.

En best að kynna til leiks okkar fólk í Reykjavík Norður.

Hér er myndasafn af öllum frambjóðendum okkar í Reykjavík Norður

 Framboðslisti í Reykjavík norður

1. sæti    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 34 ára, skipulagshagfræðingur
2. sæti    Ásta Rut Jónasdóttir, 35 ára, stjórnmálafræðingur
3. sæti    Þórir Ingþórsson, 32 ára, viðskiptafræðingur        
4. sæti    Fanný Gunnarsdóttir, 51 ára, kennari og starfandi námsráðgjafi       
5. sæti    Birna Kristín Svavarsdóttir, 55 ára, hjúkrunarforstjóri         
6. sæti    Edvard Börkur Edvardsson, 42 ára, framkvæmdastjóri       
7. sæti    Auður Þórhallsdóttir, 50 ára, fræðslustjóri              
8. sæti    Jónas Tryggvason, 49 ára, framkvæmdastjóri        
9. sæti    Ella Þóra Jónsdóttir, 33 ára, deildarstjóri
10. sæti  Gestur Guðjónsson, 36 ára, umhverfisverkfræðingur
11. sæti  Inga Guðrún Kristjánsdóttir, 30 ára, uppeldis- og menntunarfræðingur
12. sæti  Guðmundur Halldór Björnsson, 34 ára, markaðssérfræðingur   
13. sæti  Kristín Helga Magnúsdóttir, 19 ára, framhaldsskólanemi
14. sæti  Sóley Þórmundsdóttir, 50 ára, skrifstofumaður 
15. sæti  Eiríkur Sigurðsson, 38 ára, ráðgjafi
16. sæti  Fanný Guðbjörg Jónsdóttir, 28 ára, stjórnmálafræðinemi     
17. sæti  Ásgeir Harðarson, 50 ára, framkvæmdastjóri   
18. sæti  Magnús Þór Magnússon, 25 ára, stuðningsfulltrúi   
19. sæti  Ragnhildur Jónasdóttir, 65 ára, flugfjarskiptamaður   
20. sæti  Sæmundur Runólfsson, 53 ára, framkvæmdastjóri UMFÍ   
21. sæti  Sigrún Magnúsdótir, 65 ára, fv. borgarfulltrúi
22. sæti  Valdimar Kristján Jónsson, 74 ára, prófessor

Maður fríkkar verulega við að fara í framboð fyrir Framsóknarflokkinn, það sé ég á öllu þessu fallega fólki sem er í framboði fyrir okkur. Ég þekki sjálfa mig næstum ekki aftur á framboðsmyndinni, hér er ég og dóttir mín, ég er í framboði í 4. sæti í Reykjavík suður og hún er í 13. sæti í Reykjavík norður.

 3439780666_2c7032e0173440824530_145ae40f6e


mbl.is Samfylking stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefnir í hústökuhasar á Vatnsstíg í dag

Sá þessa auglýsingu á facebook:

Hæ öllsömul
Nú verður að bregðast skjótt við!

Hústakan á Vatnsstíg mun lenda í árekstri við lögregluna í dag! Pappírshafar hússins komu áðan og vilja fá allt út þar sem þeir vilja byrja að rífa húsið í maí til að byggja verslunarmiðstöð, en ekki hafa blómlegt non-profit félagsrými! Það er búið að hóta okkur útburði ef við verðum ekki farin kl 16:00 í dag, þriðjudaginn 14 apríl! Þeir sem eru til í að loka sig inni til að verja húsið fyrir inngöngu lögreglunnar verður hleypt inn nákvæmlega kl 13:00. Annars verða stuðningsmótmæi fyrir húsið kl 15:00 og það væri frábært að fá sem flesta til að sýna aðgerðinni stuðning! Allar upplýsingar um fyrirætlanir verktakana er hægt að sjá á heimasíðu þeirra, afhus.is, sjá verkefni í vinnslu. Og allar upplýsingar og umfjallanir um hústökuna sjálfa sem hefur verið frábær frá byrjun er að finna á dagblaðinu Nei, this.is/nei og aftöku, og fleiri fréttamiðlum.

Ég verð að segja að mér finnst það svolítið 2007 hjá eigendunum að rífa húsið núna og byggja verslunarmiðstöð. Já þið lásuð rétt, verslunarmiðstöð Grin

Mér finnst sjarmi yfir hústökunni, ég byrjaði á greininni Hústaka á íslensku wikipedia þeim til heiðurs og stefni í að bæta við hana. Mig vantar myndir af hústökunni á Vatnsstíg sem eru með frjálsu höfundarleyfi CC-BY-SA. Á einhver svoleiðis myndir? 

Þetta er fínn gjörningur hjá hústökufólkinu!

Mér finnst hið besta mál að setja kastljósið á það hve mörg hús standa nú ónotuð og engum til gagns og grotna niður. Með því er ég þó ekki að hvetja til lögbrota heldur að benda á að  eigendur húsa eiga að hafa ákveðnar skyldur við umhverfið og þeir verða að sinna eigum sínum og halda einhverri starfsemi eða búsetu í húsum, annars deyr borgarhverfið. 

Það er reyndar mjög erfitt í dag þegar húsnæðismarkaður er hruninn og atvinnulíf lamað. Það getur verið að svona framtak geti hjálpað til við að gæta að umhverfinu. Eignarhald margra bygginga er á sveimi, velkist um í einhverjum þrotabúum eða feykist í einhver skjól eignarhaldsfélaga sem eiga eignarhaldsfélög sem eiga eignarhaldsfélög sem skráð eru á undarlegum eyjum sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Evrópu sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Bolungarvík eða Búðardal.

Munið bara eftir að hafa öll appelsínugula borða og ekkert ofbeldi. Það er mikilvægt að lögregluyfirvöld og eigendur átti sig á því að betra er að semja frið  heldur er búa til eitthvað ungdomshus dæmi hérna á Íslandi. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband