Stefnir í hústökuhasar á Vatnsstíg í dag

Sá þessa auglýsingu á facebook:

Hæ öllsömul
Nú verður að bregðast skjótt við!

Hústakan á Vatnsstíg mun lenda í árekstri við lögregluna í dag! Pappírshafar hússins komu áðan og vilja fá allt út þar sem þeir vilja byrja að rífa húsið í maí til að byggja verslunarmiðstöð, en ekki hafa blómlegt non-profit félagsrými! Það er búið að hóta okkur útburði ef við verðum ekki farin kl 16:00 í dag, þriðjudaginn 14 apríl! Þeir sem eru til í að loka sig inni til að verja húsið fyrir inngöngu lögreglunnar verður hleypt inn nákvæmlega kl 13:00. Annars verða stuðningsmótmæi fyrir húsið kl 15:00 og það væri frábært að fá sem flesta til að sýna aðgerðinni stuðning! Allar upplýsingar um fyrirætlanir verktakana er hægt að sjá á heimasíðu þeirra, afhus.is, sjá verkefni í vinnslu. Og allar upplýsingar og umfjallanir um hústökuna sjálfa sem hefur verið frábær frá byrjun er að finna á dagblaðinu Nei, this.is/nei og aftöku, og fleiri fréttamiðlum.

Ég verð að segja að mér finnst það svolítið 2007 hjá eigendunum að rífa húsið núna og byggja verslunarmiðstöð. Já þið lásuð rétt, verslunarmiðstöð Grin

Mér finnst sjarmi yfir hústökunni, ég byrjaði á greininni Hústaka á íslensku wikipedia þeim til heiðurs og stefni í að bæta við hana. Mig vantar myndir af hústökunni á Vatnsstíg sem eru með frjálsu höfundarleyfi CC-BY-SA. Á einhver svoleiðis myndir? 

Þetta er fínn gjörningur hjá hústökufólkinu!

Mér finnst hið besta mál að setja kastljósið á það hve mörg hús standa nú ónotuð og engum til gagns og grotna niður. Með því er ég þó ekki að hvetja til lögbrota heldur að benda á að  eigendur húsa eiga að hafa ákveðnar skyldur við umhverfið og þeir verða að sinna eigum sínum og halda einhverri starfsemi eða búsetu í húsum, annars deyr borgarhverfið. 

Það er reyndar mjög erfitt í dag þegar húsnæðismarkaður er hruninn og atvinnulíf lamað. Það getur verið að svona framtak geti hjálpað til við að gæta að umhverfinu. Eignarhald margra bygginga er á sveimi, velkist um í einhverjum þrotabúum eða feykist í einhver skjól eignarhaldsfélaga sem eiga eignarhaldsfélög sem eiga eignarhaldsfélög sem skráð eru á undarlegum eyjum sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Evrópu sem aftur eiga í eignarhaldsfélögum sem skráð eru í Bolungarvík eða Búðardal.

Munið bara eftir að hafa öll appelsínugula borða og ekkert ofbeldi. Það er mikilvægt að lögregluyfirvöld og eigendur átti sig á því að betra er að semja frið  heldur er búa til eitthvað ungdomshus dæmi hérna á Íslandi. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Pappírshafar hússins eru væntanlega eigendur þess? Ert þú pappírshafi Salvör?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 14:00

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

já, ég á fasteign og mér þætti þetta ekki gott ef það myndi koma hústökufólk og setjast að í húseign sem ég léti standa auða mánuðum saman, öllu hverfinu til ama. Hættan á því að hústökufólk taki yfir húseignir verður vonandi til þess að húseigendur passa sig að hafa eitthvað líf í húsum sínum og láta þau ekki standa auð og grotna niður.  Það sem þá gerist verður óhjákvæmilega hústaka neyðarinnar, það muni verða brotnar rúður og óreglu- og ógæfufólk setjast þar að.

Mér virðist hústökufólkið bara vera að gera húsinu til góða, þrífa húsið og setja einhverja starfsemi í það. Þetta knýr þó eigandann til að koma á vettvang.  Hans réttur er mikill, eignarrétturinn er skýr og helg vé varin í stjórnarskrá.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 14:12

3 identicon

Mér er mjög til efs að pappírshafarnir leiki sér að því að láta húseigina standa auða. Sem pappírshöfum ber þeim jú að borga gjöld af þessari húseign sem öllum er til ama og armæðu.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 14:26

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Margir virðast láta hús vísvitandi standa auð. þannig voru mörg hús auð í Þingholtunum þrátt fyrir að flestu ungu fólki finnist mjög eftirsóknarvert að búa þar og eigendur virtust geta haft húsin í ferlegu ástandi árum saman.

Hér er mynd sem ég tók í einni ferð með menningarfylgd Birnu um lendur slömmbaróna í Þingholtunum.

IMG_3978

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 14:36

5 identicon

Þér finnst „sjarmi yfir hústökunni". - Merkilegt að til skuli fólk sem finnst ekkert athugavert við að taka eigur annarra og nýta sem sínar eigin. Líklega væri annað hljóð í strokknum, ef þú ættir húsið sem hér er um að ræða. En þá mundi málið örugglega horfa öðruvísi við.

Eiður (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 15:45

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er ekki sjarmi yfir þeirri eignaupptöku sem átti sér stað í gróðærinu á Íslandi. Það er ekki sjarmi yfir því þegar lítill hópur manna grefur sig inn í bankakerfið og gerir það með forseta Íslands sem klappstýru og  með mikilli velvild  og blessun forsætisráðherra og flokks hans og þegar stjórnmálaflokkar virðast hafa verið í vasanum á þessum hópi og þessi hópur kastaði á milli sín atvinnufyrirtækjum á Íslandi og át innan úr þeim allt eigið fé eins og hrægammar og skilur okkur svo eftir hérna eftir í rústunum með svo laskað mannorð þjóðar að við erum á hryðjuverkalista.

Það er sjarmi yfir því að til sé fólk sem áttar sig á að þær reglur sem við erum að spila eftir eru stórbilaðar og það er þörf á að rísa upp úr rústunum og til þess að byggja upp að nýju þá þarf að umbylta hér mörgu. Meðal annars hugarfarinu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 16:06

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Eiður: Það er hjákátlegt að nota orðið "taka eigur annarra" í hneykslunartón eftir að hafa aðgerðarlaus horft á menn stela og stela og stela af okkur öllu og gera það í krafti einhverrar fáránlegrar mannvonskuhugmyndafræði sem gengur út á að allt snúist um gróðafíkn og slá til riddara menn sem töluðu og möluðu um "fé án hirðis".

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 16:08

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

varðandi "fé án hirðis" þá er ég að tala um Péturs-Blöndals guðspekina, æðstiprestur og stofnandi musterisins Kaupþings.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 16:10

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mér finnst meira en sjarmi yfir þessari hústöku. Tek undir allt sem þú segir.

Sigurður Þór Guðjónsson, 14.4.2009 kl. 16:17

10 identicon

Ég skil alveg hvað þú ert að fara varðandi auðu húsin í miðbænum og er að mörgu leyti sammála þér. Hins vegar finnst mér eitthvað mjög rangt við þetta. Réttlætinu er ekki fullnægt þó að fólk komi sér fyrir í einu húsi á Vatnsstíg. (Á sama hátt er réttlætinu ekki fullnægt þó að Guðlaugur Þór verði látinn taka pokann sinn). Mér finnst ekkert réttlátt við það að einn pappírshafi (og einn stjórnmálamaður) þurfi að gjalda fyrir óstjórn og óreiðu margra.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 16:21

11 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Sláum skjaldborg um Vatnsstíginn !

Hildur Helga Sigurðardóttir, 14.4.2009 kl. 16:42

12 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Ég átti satt að segja von á betra frá þér en stuðningi við svona uppákomu. Ég átti ekki von á að þú myndir ganga fram fyrir skjöldu og styðja skrílræði.

Skammarlegt og þá er sama hver eigandi þessara húsa er.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 14.4.2009 kl. 16:56

13 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Hvort sem þér finnst það svo 2007 að byggja verslunarhúsnæði eða ekki kemur bara málinu ekkert við. Ég hefði sjálfur haldið að ef einhver er til í að skapa ný störf og styðja uppbyggingu þá bæri að fagna því en ekki að ýta undir þetta þvaður.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 14.4.2009 kl. 17:04

14 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hér er fyrri greinin sem ég skrifaði um hústökumálið

Sjarmi yfir þessari hústöku

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 18:28

15 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Elín: Mér finnst mjög mikilvægt að eigendur þessara húsa séu ekki gerðir að blórabögglum og ef þeir stíga fram og gera eitthvað við húsið þá er ekkert við því að segja, þeir geta það með fulltingi lögreglu og það er þá hið besta mál að þessi hústaka hafi hreyft við þeim. Ef hins vegar þeir hafa bara látið húsið standa og grotna niður þá er það ferlegt og mikilvægt að sporna við því að það sé gert og hafa einhverja starfsemi í húsum og reyna að pína húseigendur til þess.

Við heimtum að húseigendur borgi fasteignaskatta. Við höfum alls konar reglur um hvað má gera og hvernig starfsemi má vera í húsum. Hvers vegna ekki að hafa líka reglur um að það verði að vera starfsemi í húsum, það megi ekki láta húsnæði standa eins og dauðs manns reitir inn í borginni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 18:32

16 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ólafur: Það er nóg af verslunarhúsnæði, það er engin sjáanlegur markaður fyrir  fleiri verslanir. En það getur verið að eigendur þessa húsnæðis sjái eitthvað sem ég sé ekki.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 18:33

17 identicon

Ég vona að ég sé að misskilja þig Salvör. Er það stefna Framsóknarflokksins að pína húseigendur?

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 19:16

18 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Elín, bloggin mitt er ekki stefna Framsóknarflokksins. Farðu endilega á vef flokksins www.framsokn.is og kynntu þér stefnu flokksins. Sem nota bene er frekar borgaraleg og svona stefna athafnalífs og þar með talið að standa vörð um eignarrétt og stuðla að atvinnu s.s. nýbyggingum.

það sem ég er hins vegar að benda á með þessu hústökumáli er að ástandið er svo alvarlegt að það er betra að almenningur taki til sinna ráða og hunsi lög ef þau hin sömu lög eru að drepa samfélagið - og knýji fram umbætur. Umbætur koma ekki með því að senda bónarbréf til valdhafa, umbætur koma ef almenningur sýnir raunverulegt vald múgsins. 

ástandið er þannig í heiminum að sums staðar er þetta spurning um að láta stjórnvöld og aðra leiðandi aðila skilja að þetta er spurning um að breyta umgjörðinni (setja hústökulög, setja skuldaniðurfellingalög) eða algjört kaosástand. Þannig ástand var að myndast hérna þegar vanhæfa ríkisstjórnin féll.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 14.4.2009 kl. 22:21

19 identicon

Þannig ástand ER greinilega samkvæmt þínum pisli og á ábyrgð - væntanlega - ríkjandi stjórnvalda. Við skulum vona að það breytist.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 22:55

20 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Það skiptir bara engu hvort þú sérð markað fyrir meira verslunarhúsnæði eða ekki. Ef eigendur þessara húsa eiga fé til framkvæmda og vilja laggja það í uppbyggingu þá er það algerlega frábært og atvinnuskapandi. Má vera að nú sé lítil hreyfing í verslun en það má vona að það muni rofa til. Þegar það gerist er gott að hluturnir séu tilbúnir. Það er full seint að byrja uppbyggingu þá.

Mér finnst það stórskrítið að einstaklingur sem er að keppast eftir sæti á Alþingi skulu finnast svona framferði á einhvern hátt sjarmerandi, eða í öllu falli að leyfa sér að láta í það skína. Ef meiningin er að skírskota til ungs fólks með þessu þá er þetta afar misráðið. Þetta verður þér ekki til framdráttar.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 15.4.2009 kl. 08:40

21 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ólafur: Það skiptir ekki máli hvaða markað ég sé í einu og neinu. Byggi þeir sem vilja bygga nýjar kringlur á hverju orði. En bara að hafa hugfast þetta:

IMG_2062

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.4.2009 kl. 09:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband