Líkkistuþáttur í sjónvarpinu, geisp, geisp

Ég horfði á stjórnmálaþáttinn í sjónvarpinu áðan, mátti til því að þetta var mitt kjördæmi, kjördæmið þar sem ég kýs. Þetta var arfaleiðinlegur þáttur, það var nú bara píning að horfa á hann, mér finnst þetta grunn og yfirborðsleg umræða og ég sannfærist alltaf betur og betur um að sjónvarpsmiðlun er í dauðateygjunum.

Reyndar virtist mér stemmingin vera  eins og blautbolskeppni þar sem þátttakendum er skammtaður tími sem þeir eiga að ólmast og undir tekur lýðurinn  í salnum sem púar og hrópar og klappar í bakgrunni og þáttaspyrjendur spyrja aulalegra spurninga og eru einhvers konar valdsmenn tímans, tíminn er svo takmörkuð gæði að öllu máli skiptir að þeir sem bjóða sig fram í stærstu byggð landsins til að stýra landinu með stærstu skuldirnar eftir stærsta hrun sem nokkur þjóð hefur farið í gegnum fá nokkrar sekúndur til að tjá sig í frösum um hvað þeir ætla að skapa mörg störf og hvernig störf þau eigi að vera.

Já, það var eftir að lunginn úr þættinum fór í að velta sér upp úr einhverju 2006 dæmi um styrki til stjórnmálaflokka, dæmi sem hefur heltekið stjórnmálaumræðu síðustu daga á Íslandi og það gilda núna önnur lög þannig að þetta endurtekur sig ekki. Það er ámælisvert hjá ríkisfjölmiðli að spila svona með í  gulu-pressu fréttamennsku. Um hvað á umræðan að snúast? Hver á sviðið? Hvað skiptir máli?  Er það eina sem skiptir máli núna þegar kosið er um hvernig eigi að standa að uppbyggingarstarfi á Íslandi eftir Hrunið að halda þeirri stefnu í umræðu sem sett var af pólitískum andstæðingum Guðlaugs Þórs eða Sjálfstæðisflokksins í einhverjum hráskinnaleik sem við almenningur vitum ekki hver stýrir? 

Málið er að lausnir og valkostir og viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir núna verða ekki sett upp í frasa og verða ekki útskýrð á sekúndubroti. Það er líka ekki gæfulegt að byggja framtíð þjóðar á miðlun þar sem tilvonandi leiðtogar verða að koma boðskap sínum um hvað þeir og þeirra hreyfing standa fyrir á nokkrum sekúndum.

 

Það var líka áberandi að þetta var eins og brandarakeppni.
Kalli Valli Matt minn gamli bekkjarbróðir vann þá keppni, það var óborgarlega fyndið þegar hann byrjaði að tala um líkkisturnar, mér skildist að það væri eins konar lausn á gríðarlegu fjöldaatvinnuleysi á Íslandi að tvennt gerðist, það væri þetta: a) atvinnulaust fólk færi að smíða líkkistur, b) pólitískir andstæðingar manns dyttu dauðir niður og þar með skapaðist eftirspurn eftir líkkistum.

Það var ekki nóg með að þessi lausnamiðaða stefna Frjálslynda flokksins til að ráða við  atvinnuleysisbölið sé drepfyndin í orðsins fylllstu merkingu, það var ekstra fyndið að heyra sjálfan prestinn séra Kalla mæla þetta fram og það var ekstra fyndið að heyra þetta í líkkistuþætti sem virkaði á mig sem eins konar jarðarför pólitískrar sjónvarpsmiðlunar á Íslandi.

Þessir kjördæmaþættir eru  eins og útþynnt útgáfa af gettu betur, útsvar og mælskukeppni framhaldsskólana, eina breytingin sem ég tók eftir var að núna hafa  tímavörðurinn og spyrillinn runnið saman.  Fyrir síðustu kosningar var alveg nákvæmlega jafn grunn og innantóm umræða í Ríkisfjölmiðlinum Sjónvarpi Rúv, það var innantóm klisjumennska og froða, eini munurinn var að þá spurðu fréttamenn annarra spurninga, þeir spurðu "hver er ykkar loforðalisti?" og þá fengu fulltrúar flokkanna nokkrar sekúndur til að romsa upp úr sér öllu því góða sem þeir ætluðu að gera fyrir fólkið í landinu og sá vann þá lotu sem þurfti minnst að anda og gat þannig romsað sem flestum loforðum upp úr sér.

Þá brostu þáttastjórnendur breitt og létu skína í vígtennur og settu grimmd í svipinn og spurðu "Hvaðan  ætlið þið svo að taka peninganna til að framkvæma loforðalistann, svona nú engar undanbárur, svarið bara strax?" og þá gekk allt út á það hjá frambjóðendum að fara eins og köttur í kringum heitan graut og passa að nefnda ekkert um að það ætti að hækka skatta.  

Grunn og hlutdræg og villandi umræða fjölmiðla átti svo sannarlega sinn þátt í því hve Hrunið var snöggt og óvænt hér á Íslandi, hvernig búið var árum saman að innanéta allt eigið fé og verðmæti úr fyrirtækjum landsins og byggja upp gríðarmikið spilapeningaveldi, ekki bara til að blekkja Íslendinga heldur til að blekkja alla heimsbyggðina.

Svona grunnir þættir eins og þessi líkkistuþáttur gera ekkert til að upplýsa mál, geta ekkert fyrir lýðræðið á Íslandi. Bloggið hennar Láru Hönnu t.d þetta blogg REI-málið í máli og myndböndum er hins vegar dæmi um vitræna umræðu (megnið reyndar afritun á afar góðri blaðagrein), svoleiðis blogg sem vísar út og suður og býður upp á áframhaldandi umræðu er miklu dýpri lýðræðisumræða en þessi grínþátta- og léttmetisstemming á RÚV. Talandi um það þá er áberandi hve margir af þeim sem eru núna í framboði er fólk sem hefur látið mikið til sín taka í bloggheimum.

Það er líka miklu betra að geta fengið svona innblik í frambjóðendurna og hvað þeir standa fyrir með stuttu myndbandi eins og þessu þar sem Gunnar Bragi, efsti maður á lista í Norðvesturkjördæmi tjáir sig

Svo kostar ekki mikið í kosningabaráttunni að gera svona stutt vídeó eins og þetta þar sem Brynjar Hansson útskýrir hvernig lífið fyrir fjölskyldur er í heimi eins og efnahagstillögur ríkisstjórnarinnar ganga út á

Og það er ágætt fyrir almenning að fá útskýringu á einni af efnahagstillögu Framsóknarflokksins á myndbandi eins og þessu:

 

Það er frekar hallærislegt að fara að gefa þátttakendum í þessum Reykjavík Norður  þætti sem var á Rúv í kvöld einhver prik eftir frammistöðu með þannig stigagjöf er maður að spila með og leggja blessun sína yfir svona busl-í-grunnu-lauginni spjallþátta stjórnmálaumræðu. Minn formaður Sigmundur Davíð átti ágæta spretti en það passar ekki fyrir alvarlegar og úthugsaðar efnahagstillögur að útskýra þær í einhverjum léttmetissekúndustíl með frammiköllum frá sal og þáttastjórnendum. Efnahagtillögur Framsóknarflokksins þurfa meiri ígrundun og samræðu en er í boði í svona þáttum.

Mér fannst raunar Katrín Jakobsdóttir vera frekar heiðarleg, mér fannst flott að hún sagði hreint út að það ætti að lækka launin hjá opinberum starfsmönnum, það hefði verið gert í einkageiranum, af hverju ætti ekki að gera það líka hjá þeim sem vinna hjá ríkinu. Þetta var mjög kjarkað hjá henni að segja þetta og þora því, margir hugsanlegir kjósendur vinstri grænna eru opinberir starfsmenn á lágum launum. Okkar laun hafa náttúrulega verið eitthvað brot af því sem einkaaðilar borguðu.

En kannski líður ekki á löngu þangað til áramótaskaupið getur sýnt aftur hinn óborganlega fyndna karakter "Fúll á móti", þennan opinbera starfsmann sem var á föstu laununum í óðaverðbólgunni.

Reyndar finnst mér sjálfri ýmsar aðrar útfærslur vera til aðrar en þessi vinstri græna leið að  lækka laun opinberra starfsmanna. Það er sjálfsagt að deila byrðinni og deila vinnunni en það má líka gera með að lækka vinnuskylduna og lögleiða t.d. 4 daga vinnuviku og banna yfirvinnu. 

Annars er það athyglisvert að varla nokkur maður talar lengur um Framsóknarflokkinn í tengslum við spillingu, Blogg með titlum eins og  Spilltasti flokkur Íslandssögunnar X - D a u ð i  eru ekki um Framsóknarflokkinn, öðruvísi mér áður brá, við hljótum að vera að gera eitthvað rétt Grin


 


mbl.is Tvöföld atkvæðagreiðsla „slæmur kostur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Líkkistuþátturinn!? Big GrinConfused

EE elle (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 00:31

2 Smámynd: Karl V. Matthíasson

Elskuega bekkjarsystir.

Auðvitað er það brýnt að Íslendingar taki til óspilltar málanna og framleiði sjálfir vörur í stað þess að flytja þær inn. Þetta með líkkisturnar er nefnt sem dæmi og svo sannarlega ver eftir því tekið. Þetta var ekki hugsað sem brandari ég hefði alveg eins getað sagt að flest það fólk sem þú hittir á morgun er í fötum sem framleidd eru erlendis. Við sem búum við gjaldeyrisskort ættum að stuðlað að uppbyggingu atvinnu sem sparar gjaldeyri alveg eins og við viljum efla þær greinar sem auka gjaldeyristekjur okkar.  En um það talaði ég líka.

Annars hef ég fengið mjög góð viðbrögð símtöl og sms. Þannig að ég er ánægður eftir kvöldið.  Ég er sammála því sem þú annar segir um þessa þætti.

bestu kveðjur

Kalli Matt

ps. er ekki stórt stúdentsafmæli í vor?

km 

Karl V. Matthíasson, 15.4.2009 kl. 01:08

3 Smámynd: Alli

Sæl Salvör, og takk fyrir góða pistla.

Eitt sem mig langar að vita: hvernig var raðað á lista Borgarahreyfingarinnar í Reykjavík-Norður?  Það hlýtur að hafa farið fram prófkjör, þó ég hafi ekki orðið var við það, annars væri Þráinn Bertelsson ekki á listanum, maður sem gekk með látum úr Framsóknarflokknum af því að þar átti ekki að vera prófkjör.  Eða hvað?  Er í lagi að taka sæti á lista án prófkjörs ef maður lendir í fyrsta sæti?  Spyr sá sem ekki veit.

Alli, 15.4.2009 kl. 09:20

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Kalli: Mér fannst þú skemmtilegur að vanda í þættinum í gær og þú hefur náttúrulega alltaf þína persónutöfra og það sem þú segir er í einlægni.

En MR-ingarnir í okkar árgang ætla að hittast 15. maí og staðurinn er Iðu salir.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.4.2009 kl. 09:42

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Alli: Já, Þráinn hlýtur að hafa orðið efstur í prófkjörinu Ég ætla nú ekki að grínast meira með þetta, hann var einn af fáum sems studdi tillögu mína um prófkjör. Ég held ennþá að það hefði verið gott og svona lokað félagsmannaprófkjör með alls kyns fyrirvörum væri bara besta mál og skapaði smástemmingu.

En af því Þráinn var minn bandamaður í Framsókn í þessu máli þá kýs ég að líta á hans framboð sem klofningsframboð út úr Framsókn, þetta er að ég held líka svona samvinnuflokkur. Fínt að vinna með þeim í minnihluta ef þau ná inn manni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.4.2009 kl. 09:45

6 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Horfði á afturendann á þessum þætti og missti af líkkistusmíð skólabróður þíns. Finnst samt glósan þín til hans hljóti að vera eilítið slitin úr sambandi eða stílfærð en það gerir ekkert til.

Skil samt ekki eitt: hvers vegna er stjórnmálamönnum fyrirmunað að svara stutt og laggott með já eða nei, þegar spurningar eru orðaðar þannig að þær kalla á já eða nei?

Í staðinn þarf að koma langloka eins og : ég tel augljóst að svo muni eiga að vera. Eða: Ég get ekki með nokkru móti séð að svo muni eiga að vera.

Er það eins og Þráinn sagði: pólitík er keppni um að hafa orðið sem lengst svo keppinautarnir komist ekki að?

Sigurður Hreiðar, 15.4.2009 kl. 11:02

7 Smámynd: Alli

Sæl aftur Salvör

Ég er sammála þér með það að Framsókn í Reykjavík hefði átta að haf amk. prófkjör meðal félagsmanna. 

En að öðru.  Hvernig heldurðu að standi á því að alltaf þegar ég sé Ástþór Magnússon dettur mér í hug sjónvarpsþáttur sem er sýndur á Skjáreinn.

Þátturinn heitir: The Biggest Loser

Veistu svarið?

Alli, 15.4.2009 kl. 11:39

8 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Þetta með líkkistusmíðina er bara minn einkahúmor og að kalla borgarahreyfinguna með Þráinn fyrrum Framsóknarmann í broddi fylkinga  klofningsframboð út Framsókn er bara minn einkahúmor Þetta eru auðvitað útúrsnúningar hjá mér. En ég sé að þetta hittir í mark og stuðar félaga þar. Best ég noti þetta eftirleiðis og kalli Borgarahreyfinguna "litla framsóknarflokkinn". Maður verður að hafa gaman af stjórnmálunum líka.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.4.2009 kl. 10:38

9 identicon

Karl, ´comment´no 1 var ekki háð gegn ykkur eða neinum, vildi bara að þú vissir það.  Það vara bara orðið sem síðueigandi notaði, ´Líkkistuþáttur´, sem tók mig þarna.  Ég horfði ekki á þáttinn og dæmi ekki.

EE elle (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 10:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband