Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Fagradalsfjall 3. maí 1943

fagradalsfjall_855584.jpgNúna ganga kröftugar bylgjur um íslensku flekamótin. Ég sá á ruv.is að upptök skjálftanna eru teiknuð á Fagradalsfjalli.

Það  varð til að ég fletti því upp nafni fjallsins og þá fann ég út að í maí 1943 fórst þar á fjallinu flugvél. Í flugvélinni var Frank Maxwell Andrews og 13 aðrir létust en einn komst lífs af. Frank Maxwell var afar háttsettur í bandarískra hernum og heimildir segja að hann hafi átt að stýra innrásinni í Normandi Evrópu. Eftirmaður hans var Eisenhower sem síðar varð forseti Bandaríkjanna. Flugvélin mun hafa ætlað að lenda á flugvellinum í Kaldaðarnesi.

Myndir frá Fagradalsfjalli

Frank Maxwell var ötull talsmaður þess að Bandaríkjamenn kæmu sér upp góðum flugher og um hans daga voru Bandaríkjamenn  gráir fyrir járnum og sterkt herveldi. 

 


mbl.is Enn skelfur jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðbúnaður á meðgöngu

Máltækið segir "Lengi býr að fyrstu gerð" og við vitum að aðbúnaður barna fyrstu æviárin skiptir miklu máli um hverni þeim reiðir af seinna í lífinu. Það er aðalsmerki hvers samfélags að geta tryggt gott atlæti barna og fjölskyldna þeirra.  Það á líka við um aðbúnað barna í móðurkviði.  Það hefur miklar og alvarlegar afleiðingar ef mæður eru í neyslu á meðan á meðgöngu stendur. 

Neysla á fyrstu stigum meðgöngu þegar taugakerfi fósturs er að þroskast er afar hættuleg.  Það getur valdið sérstöku heilkenni Fetal alcohol syndrome

Það sem fáir virðast gera sér grein fyrir er að þetta heilkenni FAS er ein af aðalorsökum greindarskerðingar á Vesturlöndum. Talið er að  tilvik séu  0.2 til  2.0  á hverjar 1,000 lifandi fæðingar og það þýðir að verið getur að hér á landi fæðist á hverju ári nokkur börn með greindarskerðingu og önnur vandamál tengd áfengisneyslu móður á meðgöngu.

Sjá hér grein um rétt fósturs vegna reykinga móður

Vísindavefurinn: Hver er eiginlega lagalegur réttur fósturs ...

 Meira um Fetal alcohol syndrome

 Fetal alcohol syndrome: The invisible disorder

 Fetal Alcohol Spectrum Disorders  hér er lýsing á útlitseinkennum sem fylgja FAS heilkenni. 

Born on the bottle - Drunk for life


mbl.is Þunguð kona ofurölvi í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur hryllingstúrismi - 3400 kr kostar í sund

Það kostar 3400 krónur að fara einu sinni í sund í Bláa lóninu, sjá verðskrána hérna. Fyrir fjölskyldu með tvö börn kostar sundferðin um 10 þúsund krónur. Það er svo sem ekkert við því að segja, þetta var eyðihraun áður en orkuverið við Svartsengi hóf starfsemi þarna og lónið er tilbúið vatn, affall frá orkuveri. Það er hið besta mál að menn geti nýtt iðjuver á þennan hátt. En er þetta módelið sem við viljum sjá víðar á Íslandi?

Viljum við sjá fallegar náttúruperlur eins og Kerið í Grímsnesi innikróaðar í einkaeigu eigenda sem geta takmarkað aðgang að þeim og gera það til að geta selt aðgang. Eða að ríkið eða sveitarfélög afhendi nytjarétt yfir slíkum stöðum til einkaaðila? Kerið í Grímsnesi mun vera í einkaeign. Það er sumt æði undarlegt varðandi ferðamennsku á Íslandi og hvernig meira segja fé almennings er notað til að borga endurbætur og samgöngukerfi svo eigendur geti nytjað náttúruperlur og takmarkað aðgang, sjá hérna  Ríkisstyrkt Ker í einkaeigu

Það er óréttlát kosningalöggjöf á Íslandi þar sem  vægi fólks á þéttbýlissvæðum kringum höfuðborgina er miklu minna en í fámennum dreifbýlisbyggðum, sérstaklega er vægi fólks í suðvesturkjördæmi lítið. En það er fleira sem er óréttlátt misskipt en vægi atkvæði  því  nokkrir fámennir dreifbýlishreppar ráða yfir bróðurpartinum af íslenska hálendinu. Vægi almennings á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að því að hafa vald yfir Íslandi, yfir hálendi Íslands, yfir óbyggðum Íslands og yfir náttúruperlum Íslands er sárgrætilega lítið. Við þetta verður ekki unað. Það er ekki hægt að tala um réttlátt samfélag þar sem langstærsti hluti fólksins er króaður inn á litlu svæði landsins og hefur ekkert að segja um það sem þó er stærsta eign Íslendinga þ.e. landið og miðin. 

 

800px-laugarvatn1.jpg

Ég er núna stödd á Laugavatni. Ég horfi út á vatnið og beint fyrir framan mig er rústasvæði. Ég er vön rústasvæðum í Reykjavík. Ég er líka vön laugasvæðum, eiginlega hef ég búið allt mitt líf á laugasvæðum.

gomlu-laugarnar.jpgÉg er alin upp í Laugarnesinu, minningar frá sumrum bernsku minnar eru minningar af gömlu laugunum og hvernig við vorum í fyrstu oft gerðar afturreka af starfsfólk laugarinnar því við vorum svo litlar að okkur  var ekki hleypt einum ofan í laugina. Í þá daga fóru mömmur okkar fóru aldrei  með okkur börnunum í  laugar þá þó þær uppgötvuðu heilsumátt sundlauganna mörgum áratugum seinna þegar þær voru orðnar rosknar og voru þá á hverjum degi í sundleikfimi með eldri borgurum. Ég brosi að minningu frá gömlu laugunum, það var nefnilega þannig að Ágeir forseti Íslands var mikill sundmaður og fór í gömlu laugarnar á hverjum degi, alltaf á sama tíma minnir mig. Við litlu stelpurnar tókum eftir því að ef við pössuðum að vera rétt á undan fosetanum í röðinni þá var okkur hleypt athugasemdalaust í laugar, starfsfólkið var miklu liprara í þjónustu þegar forsetinn var á vettvangi.  

Ég bý núna í Sigtúni í Reyjavík á stað þar sem heita vatnið í Reykjavík var einu sinni nytjað til að rækja jurtir í gróðurhúsum sem stóðu hinu megin við götuna. Gróðurhúsin voru seinast notuð sem söluskemma til að selja allt dótið sem ameríski herinn skildi eftir þegar hann fór. Svo voru þau rifin og síðan hefur útsýnið út um stofugluggann minn verið afgirt rústasvæði í eigu Eyktar, rústasvæði þar sem einu sinni átti að byggja ennþá eitt stórhýsið í því sem þá var eins konar fjármálahverfi Reykjavíkur.

Ég horfi núna út um gluggann hér á Laugavatni, horfi á nýslegna grasflötina, horfi á gárurnar í vatninu og gufuna sem stígur upp við vatnið, alveg eins og eitthvað sé að brenna. Grasið var slegið hér í fyrradag, svo kom fólk og bankaði upp hjá mér og bað um vatn til að slökkva eldinn. Ég leit út um gluggann og sá þá að sláttutraktorinn stóð í ljósum logum.  Þau stökktu mörgum fötum af vatni á traktorinn og það gaus upp reykjarmökkur, þykkur og svartur af olíu, ekki svona  hvítur og þokukenndur eins og gufan sem kemur upp af laugum.  En laugagufan er samt merki um eld og orku, eld sem er falinn einhvers staðar langt inn í iðrum jarðar.

Þarna sem gufan stígur upp við vatnið var einu sinni gamla gufubaðið á Laugarvatni. Það var nú bara hverasvæði þar sem hús hafði verið reist yfir. En það var rifið. 

 

Þegar ég fletti á Netinu þá virðist mér að það séu einhver áform sem þó hafa sem betur fer ekki hafist um að Bláa lónið reisi hér gufubað og heilsulind. Mér virðist að menntamálaráðherra hafi framselt svæði við vatnið til 30 ára til einhverra samtaka sem ég átta mig ekki á hver á hvað í. 

800px-blue_lagoon-3-.jpg

Það er vissulega sorglegt að gamla gufubaðið hafi verið rifið hér á Laugarvatni og ekkert hafi komið í staðinn. Það er vissulega fengur í að hafa slíkt náttúrulegt gufubað hérna. En mesta hryllingsmynd sem ég get þó samt séð fyrir mér varðandi ferðamennsku á stöðum eins og Laugarvatni og Mývatni væri sams konar ferðamennska eins og í Bláa lóninu. Þar er einhvers konar heilsulind sem ég hugsa að sé ágæt. En það kostar 3400 krónur núna að fara í sund í Bláa lóninu. Það er því ekki fyrir Íslendinga og ekki fyrir auralitla náttúrutúrista að fara í sund í Bláa lóninu.  

Er það svona ferðamennska sem við viljum á Íslandi? Viljum við að Ísland verði eingöngu fyrir sterkefnað fólk og þannig aðgangstakmarkanir settar að Íslendingar séu útilokaðir frá því að njóta landsins. Viljum við að hér sé stílað inn á elítutúrisma ríks fólks? Viljum við að sífellt meira af landinu sé lokað  almenningi og aðgangur seldur í gegnum einhvers konar lúxusfyrirtæki?

Það er kannski ágætt að hugmyndir um gufubað og heilsulind hér á Laugarvatni hafi ekki gengið eftir ef það var meiningin að búa til svona Bláa lóns lúxus hérna sem er neitt að þjóna Íslendingum. Hvers vegna í ósköpunum ætti að gefa afnot af landi á fallegum stöðum til lúxuseinkafyrirtækja. Það verður í svoleiðis tilvikum að reikna fórnarkostnað, reyndar fórnarkostnað sem ekki verður metinn í peningum  heldur fórn sem felst í því að landi og náttúruaðgangi er spillt með því að girða það af fyrir einhvers konar lúxustúrisma þannig að almenningur á Íslandi hefur ekki lengur aðgang að því (m.a. vegna verðlags). 

En það er áhugavert að spá í hvað er að gerast hér á Laugarvatni. Hvaða félag er þessi Gufa ehf og hvers vegna er slíkum samtökum afhent svæði við vatn, svæði sem er í eigu ríkisins að ég best veit? Það stendur "Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns."

 Vísir - Bláa lónið: Gufubað og heilsulind á Laugarvatni byggt á ...

Tólf hundruð fermetra heilsulind rís við Laugarvatn - mbl.is

 Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. - samstarf um uppbyggingu Gufubaðsins við Laugarvatn

Bláa Lónið hf. og Gufa ehf. hafa gert með sér samstarfssamning sem lýtur að markvissri uppbyggingu og eflingu heilsulindar- og gufubaðsstarfsemi við Laugarvatn. Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og Kristján Einarsson, stjórnarformaður Gufu undirrituðu samninginn í Bláa Lóninu fyrr í þessum mánuði.

Hollvinasamtök Smíðahúss og Gufubaðs á Laugarvatni höfðu forgöngu um að stofna Gufu ehf., en félagið kemur til með að reisa og eiga ný mannvirki sem byggð verða við gufubaðið á bökkum Laugarvatns.

Bláa Lónið hf. mun sjá um rekstur aðstöðunnar og verður félagið jafnframt faglegur ráðgjafi við uppbygginguna að Laugarvatni en Bláa Lónið gegnir forystuhlutverki í heilsutengdri ferðarþjónustu á Íslandi.

Gufubaðið á Laugarvatni er náttúrulegt þar sem það er byggt yfir hver með hreinni vatnsgufu. Að auki býður staðsetning gufubaðsins alveg á vatnsbakkanum upp á möguleika til að skapa fjölbreytta og sérstaka aðstöðu fyrir gesti.

Meginmarkmið Gufu og Bláa Lónsins með uppbyggingunni er að hafa í heiðri og efla þá baðhefð sem gufubaðið við Laugarvatn hefur skapað og gera þar einstakan baðstað fyrir íslenska og erlenda gesti. Starfsemin mun skapa ný störf í Bláskógabyggð.

Að mati samstarfsaðilanna mun uppbyggingin styrkja heilsuímynd Laugarvatns og nágrennis og efla ennfremur ímynd Íslands sem heilsulands.

Áætlað er að nýja Gufubaðið við Laugarvatn hefji starfsemi á vordögum 2008.

 


Boxhanski ríkisstjórnarinnar

boxhanski_854590.jpgÞað er svindlkerfi í gangi á Íslandi í dag. Það er svindlkerfi sem safnar saman högginu af fjármálahruni Íslands í boxhanska  sem ríkisstjórnin setur upp og notar til að berja linnulaust á sama fólkinu, á atvinnulausu fólki og á fólki sem skuldar. Ríkisstjórnin gengur erinda fjármagnseigenda, eggjuð áfram af AGS og "erlendum kröfuhöfum" og erlendum ríkisstjórnum sem trampa á íslenskri þjóð og setja okkur undir hryðjuverkalög.

 

konguloarvefur.jpgHvers vegna hefur íslensk ríkisstjórn meiri áhuga á því að gæta hagsmuna erlendra fjármagnseigenda, fjármagnseigenda sem lánuðu hér áhættufjármagn í óhemjuvitleysu til fjárglæframanna og dældu hingað fjármagni í einhverju "carry trade" hringekju fáránleikans heldur en að gæta hagsmuna íslensks almennings, hagsmuna sem ekki eru fólgnir í að  festa fólk á Íslandi í kóngulóarvef ævarandi skuldafjötra, kóngulóarvef sem kallaður eru "skjaldborg utan um heimilin".

Það varð kerfishrun á Íslandi en það varð líka kerfishrun í heiminum og það gengur samdráttarbylgja yfir heiminn og ríkisstjórnin bregst við þessum aðstæðum með því  að látast ekki taka eftir þeim og í fyrsta lagi að viðurkenna ekki að kerfið sem hrundi virkar ekki og það er engin ástæða til að láta eins og það virki og það sé "business as usual", það er ekki hægt að sópa kerfishruni undir teppið og láta eins og ekkert sé, það kallar bara á ennþá stærra og alvarlegra samfélagshrun - og í öðru lagi með því að  virka ekki eins og höggdeyfir fyrir almenning með því að  deyfa og jafna út höggin heldur að breyta sér í magnara sem magnar upp höggið þannig að það safnist saman og skelli bara á skuldurum, bara á atvinnulausum, bara á ungu fólki, bara á þeim sem unnu hjá eða ráku einkafyrirtæki sem nú eru komin í þrot.

Það er skynsamlegast og affarasælast við þær aðstæður sem eru núna að jafna aðstæður sem mest, ekki búa til kerfi handahófskenndra tilfærslna á fjármunum og atvinnutækjum með brunaútsölum og hrossakaupum bak við luktar dyr. Það að jafna kjör og deila byrðum er líka að deila skuldum og áhættu.

Það er ævarandi skammarblettur á íslenskum stjórnvöldum ef það er látið viðgangast að í Hruninu á Íslandi fái eigendur fés sem var í   peningasjóðum eins og Glitnissjóðnum nánast allt sitt til baka, úr sjóði sem fólk átti að vita að var áhættusjóður sem fylgdi einhverri fjárfestingarstefnu og að margir háttsettir bankamann m.a. eiginmenn ráðherra  þurfti ekki að borga skuldir sem þeir höfðu stofnað til vegna gífurlega áhættusamra hlutafjárkaupa - að fjármagnseigendur og glæframenn í fjármálum séu vafðir inn í bómull á meðan þeir sem tóku venjuleg lán til að kaupa sér húsnæði eða í tengslum við atvinnulíf þurfi að bera gríðarlegar byrðar vegna þess að lánakjör voru miðuð við aðstæður sem alls ekkert gerðu ráð fyrir þessu kerfishruni. 

Það er líka liður í að jafna byrðarnar að deila niður vinnunni í samfélaginu, við búum í samfélagi þar sem samfélagsstaða er skilgreind í gegnum vinnu og samfélagsgerð okkar er þannig að ýmis konar aðstaða og fríðindi koma gegnum launavinnu. Það er ömurlegt samfélag sem hefur þá skipan að sumir vinni mikið en aðrir séu vinnulausir og á bótakerfi ríkisstjórnarinnar. 

Það er ennþá ömurlegra að helsta ráðið virðist núna að setja fleiri í nám sem þeir geta tekið námslán fyrir. Svoleiðis nám er oft ekki annað en dulbúið atvinnuleysi, fólk hefur enga úrkosti aðra en fara í nám eða halda áfram í námi og taka verðtryggð námslán til framfærslu sinnar. Ennþá nöturlegra er svo ef það eru helst ríkisstyrktir einkaskólar sem bjóða slíkt nám og fólk neyðist til að taka líka styrki til greiðslu skólagjalda.

Það er mjög gott í atvinnuleysi að bjóða fólki upp á nám. Það er skynsamlegt að takast á við vandann með því að auka menntunarstig þjóðarinnar á markvissan hátt. En það er ömurlegt ef það er eini valkosturinn, þá er það ekki valkostur, það er dulbúið atvinnuleysi þar sem sá atvinnulausi þarf að borga fyrir að vera atvinnulaus með að taka lán til framfærslu sinnar.

Það örlar ekki mikið á aðgerðum gegn atvinnuleysi, helstu aðgerðirnar virðast vera að byggja glanshús við hafnarbakkann í Reykjavík, tónlistar- og ráðstefnuhús sem er glanshús sem ekkert virðist vera miðað við íslenskar aðstæður, þetta er hús sem hugsað fyrir einhvers konar  elítutúrisma sem fólk sá í hillingum og bygging þessa húss skapaði ekkert mikla vinnu fyrir Íslendinga því  lenskan í dag eru starfsmannaleigur sem margar hverjar virðast bjóða erlendu farandverkafólki afarkjör og það er ekkert sem skilið er eftir í samfélaginu ef öll vinna er unnin af fólki sem bara kemur og fer. Það byggist ekki einu sinni upp verkþekking. 

Eftir Hrunið breyttist tónlistarhúsið í táknmynd kreppunnar, eins konar líkhús þeirrar hugmyndafræði sem hrundi yfir okkur. Það er því nöturlegt að einmitt áframhaldandi bygging þessa húss virðist vera stærsta "atvinnusköpunarverkefni" í Reykjavík núna. Það er líka nöturlegt að að byggingarsaga þessa líkhúss kreppunnar heldur áfram að sýna brestina í íslensku samfélagi, brestina þegar byrjað  er að Svindla á svindlkerfinu. Það er því miður þannig að kerfið mun bresta nema við höfum traust á því og það traust fáum við ekki nema við höldum að unnið sé fyrir heildina og byrðunum sé deilt jafnt og af réttsýni og skynsemi.

Það þarf að deila vinnunni og það þarf að deila skuldunum sem komu til út af Hruninu. Það þarf að deila vinnunni milli þeirra sem nú hafa vinnu og þeirra sem nú eru án vinnu og það þarf að deila skuldunum, það þarf að jafna högginu á skuldara og lánadrottna. Það er óþolandi að ríkisstjórnin gangi núna bara erinda  lánardrottna og tali eins og fulltrúi þeirra og það er líka óþolandi að ríkisstjórnin tali núna eins og hún sé bara að gæta hagsmuna og kjara þeirra sem nú hafa vinnu. 

Ég get ekki sagt að ég sé aðdáandi tónlistarhússins, ég hef skrifað nokkur blogg um þetta nýja  tákn Reykjavíkur , tákn sem er bæði tákn um kerfi sem hrundi og tákn um hvernig stjórnvöld bregðast við kerfishruninu, þau láta eins og það hafi aldrei gerst og það eigi að halda áfram að byggja elítuhús. Bara kalla þau "fjölnota menningarhús" og finna einhver fín orð, já svona svipað eins og kóngulóarvefurinn sem almenningur í Íslandi er núna veiddur í er kallaður "skjaldborg utan um heimilin"

En hér eru nokkur af mínum fyrri skrifum um stásshús bæjarins:

Betri stofur með útsýni út á Esjuna

yfir 13 milljarðar í glanshús

 Klakahöllin

Hallir nútímans eru óperuhús

 Háskólastúdentar réttlausir í kreppunni

 


mbl.is Tillaga um niðurfellingu lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóri kampalampi og síðasti þorskurinn

Gaman að heyra að því að íslenskir vísindamenn skrifi greinar í Science. Ég mátti til að herma eftir þessum vísindaskrifum á minn hátt, ekki með skrifum í vísindatímarit heldur með því að skrifa grein um stóra kamplampa í uppsláttarrit alþýðunnar, íslensku wikipedia.  Svo sá ég mér til furðu að það vantaði líka grein um rækjur almennt svo ég byrjaði á grein um rækjur.

Haeckel_AsterideaÉg dunda við það svona þegar ég get að bæta greinum um lífríki sjávar inn á íslensku wikipedíu, það er langtímaverkefni hjá mér, ég ætla að nota þetta seinna til að búa til wikibók sem tengir í wikipedia greinarnar, það er hins vegar ekki hægt að gera það ef það eru engar greinar til að tengja í. Ég hef alltaf haft sérstakan áhuga á lífríki sjávar, ég gerði lokaverkefni í meistaranámi mínu í Bandaríkjunum sem var kennsluforrit um lífríki sjávar, það hét "Life in the Open Ocean" ef ég man rétt. Ég ætlaði fyrst að skrifa bara um íslenska nytjastofna og veiðar en ég varð svo heilluð af veröld hafsins, af því hvernig hafið blómstrar á hverju ári (vorblómi plöntusvifsins) og hvernig þessar lífrænu hreyfingar í hafinu og straumamótin þegar kaldir og heitir straumar mætast eru undirstaða þessara fengsælu fiskimiða við Ísland.  Þannig að kennsluforritið mitt byrjaði með lexíu um plöntusvifið. Svo hafði ég sérstakan kafla um hafdjúpin dimmu þar sem fiskarnir eru rauðir af myrkri.


Það eru ekki miklir skógar á Íslandi, hér eru ekki frumskógar, ekki fílahjarðir, ekki gíraffar, ekki ljón og hlébarðar. En hér við landið er undraveröld, veröld sem ennþá hefur ekki verið könnuð að fullu og þessi veröld spannar mörg svæði, grunnsævið, botninn á landgrunninu og líka úthafssvæðin og svo hafdjúpin köldu og dimmu. Það getur líka leynst líf á hafsbotni sem ekki er eins og annað líf, ekki líf sem sækir orku sína til sólar heldur orku úr iðrum jarðar. 

En það er kannski ástæða til að gleðjast yfir lífinu í hafinu og huga að því að ef ekkert verður aðgert þá gæti farið svo að dætur mínar lifðu það   þegar síðasti fiskurinn dæi út í sjónum. Það gerist eftir fimmtíu ár ef ekki verður breytt fiskveiðistefnu heimsins. Sjá þessa grein á BBC. 

Nokkrar greinar sem ég hef skrifað um sjávarlíffræði á wikipedia (sjá nánar)


mbl.is Íslendingur meðhöfundur að grein í Science
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafnar Borgarahreyfingin ríkisframlögum til stjórnmálaflokka?

Eftir því sem mér skilst þá fá stjórnmálaflokkarnir framlög frá ríkinu til starfsemi sinnar. Þar að auki fá náttúrulega þingmenn kaup og svo hafa sumir  þingmenn haft aðstoðarmenn (landsbyggðarþingmenn?) og þingmenn sem eru líka ráðherrar fá alls konar fríðindi, ráðherrauppbót, einkabíl og bílstjóra og geta ráðið sér aðstoðarmenn. Þetta er komið út fyrir allan þjófabálk þetta styrkjakerfi til stjórnmálaflokka og það er ekkert að sjá að þetta skili sér í lýðræðislegu starfi á Íslandi.

Þessu verður að breyta og þetta verður að endurskoða. Það er ekki gott að þingheimur hafi sjálfdæmi í að skammta sér fé til eigin nota og við almenningur skiptum okkur ekkert af því. 

Þessi ríkisframlög til stjórnmálaflokka virðast heldur alls ekki hafa skilað sér til þess að bæta fjárhag stjórnmálaflokka, þeir virðast bara eyða meira og meira. Nú er þannig tími á Íslandi að það stefnir í kosningar eftir kosningar og ef stjórnmálaflokkar ætla að hegða sér eins og þeir gera núna, að birta heilsíðuauglýsingar í glanstímaritum og prentmiðlum þá stefnir allt í eina óstjórnlega skuldahít og eyðslu sem engir græða á nema auglýsingaskrifstofur og prentiðnaður.  Er einhver hemja að stjórnmálaflokkar skuli gefa út bæklinga eftir bæklinga og dekorera síður dagblaða og tímarita með andlitsmyndum af frambjóðendum þannig að maður veit ekki hvort þetta eru snyrtivöruauglýsingar eða stjórnmálabarátta sem byggir á málefnum?

Stjórnmálaflokkar berjast held ég allir í bökkum fjárhagslega og það hefur margt hrikalegt komið upp á yfirborðið varðandi fjármál fólks sem starfar í stjórnmálum svo sem framlög í kosningasjóði vegna prófkjöra. Þetta gerist í kerfi sem er samt þannig að stjórnmálaflokkar fá fúlgur fjár til sinna starfa. 

Það er kominn tími til að endurskoða framlag til stjórnmálaflokka. Fyrir hvað fá flokkarnir framlög? Væri ekki réttara að skilyrða þessi framlög og láta þau vera ekki endilega í formi fjárstyrkja. Núna þegar ríkið á hvort sem er allt með einum og öðrum hætti þá má vel nýta það. Þessi framlög geta t.d. vel verið ákveðinn fjöldi af útsendingartímum á RÚV, það er virkilega hættulegt að láta RÚV stjórnendur eina ráða því hvernig stjórnmálaumræða er. Við þurfum samfélag þar sem það er ekki bara Kastljós og Silfur Egils sem sést í ljósvakamiðlum.

Það er sérstaklega mikilvægt að skilyrða styrki til stjórnmálastarfs þannig að reynt sé að ná til sem flestra t.d. með því að nota tæknimiðla sem gefa fólki á landsbyggðinni, hvar sem fólk býr tækifæri til að taka þátt í stjórnmálaumræðu og fólki sem býr við einhvers konar skert aðgengi. Ef við ætlum að hafa hérna upplýsta alþýðu sem getur og vill hafa áhrif á hvernig landinu er stjórnað þá verðum við að gera eitthvað til að upplýsa fólk, ekki bara einn Silfur Egils á sunnudögum yfir vetrarmánuðina. Það er ekki fjölbreytt stjórnmálaumræða.

En það er áhugavert að heyra að Borgarahreyfingin hafi ekkert af peningum. Þýðir það að Borgarahreyfingin afsalar sér ríkisstyrk næsta ár? Það er sniðugt, maður á náttúrulega ekkert að hrósa öðrum flokkum en ég var hrifin af kosningabaráttu Borgarahreyfingarinnar, hún var ódýr og náði samt vel til fólks. Mér finnst að aðrir flokkar t.d. við Framsóknarmenn gætum vel lært af Borgarahreyfingunni ráðdeild og sparnað í kosningum.  Hins vegar held ég að margir flokkar gætu lært mikið af Framsóknarmönnum varðandi kosningabaráttu. Það var mjög samstilltur hópur Framsóknarmannahér í Reykjavík sem vann sleitulaust að framboðinu og margir voru virkjaðir til, t.d. voru átthagakvöld, kvennakvöld, fjölmenningarhátíð, fjölskylduhátíðir o.s.frv. og þingmannsefni eins og Vigdís Hauksdóttir lagði mikinn metnað í kynna sig sem flestum á þeim stöðum sem fólk kom, það skilaði líka þingmönnum í báðum kjördæmum í Reykjavík. Það var líka skemmtilegt að margir gamlir Framsóknarmenn komu aftur inn í flokksstarfið og fundu að andinn í flokknum þeirra var að breytast, núna var sterkasta táknið að Framsóknarflokkurinn er flokkur félagshyggju og samvinnu.

Framsókn er á réttri leið. En ekki komin alla leið. Það var of mikill glans á sumu í síðustu kosningum fyrir minn smekk, kosningakerran sem stóð fyrir utan kosningamiðstöðina var ekki Hummer heldur vistvænir Smartcars smábílar en satt að segja þá höfðaði það ekki nógu vel til mín. Málið er að svoleiðis bílar eru snobbbílar ennþá og rándýrir. Vonandi kemur sá dagur að rafknúin reiðhjól og léttlestir verði einkennistákn  fyrir ferðamáta Framsóknarmanna. 

Svo ég taki nú aðra flokka þá fannst mér mörg af upplýsingaritum Samfylkingarinnar vera vel heppnuð. Ekkert var nú velheppnað sem ég man hjá Sjálfstæðismönnum enda þeir í sárum núna og drungalegir og helbláir og ég vona að þeir geti tekið sig saman í andlitinu fljótlega. En talandi um andlit þá er ég ennþá að reyna að fatta þessar andlitsauglýsingar Vinstri Grænna af foringjum sínum, hvaða nýja lína er þetta? Er þetta botnlaus foringjadýrkun, er verið að reyna að búa til hetjur úr ákveðnu fólki, hvað táknar þessar rosalegu nærmyndir? Fyrir mér leit þetta út eins og snyrtivöruauglýsingar.  Og mér finnst afleitt að ríkisstyrkur fari í snyrtivöruauglýsingar.


mbl.is Lítið um völd og ekkert af peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólitískt samverkafólk og fjölbreytileiki samfélagsins

Mun Hrunið  ná að breyta stjórnsýslu á Íslandi, breyta henni úr því að vera pukur og handahóf nokkurra manna sem hafa komið sér fyrir nálægt kjötkötlum og heimta skatt af almenningi til að útdeila til sinna vildarmanna eða er  kerfið sjálft meingallað, svo gallað að þegar nýir menn komast til valda þá muni þeir hegða sér eins og þeir sem hrökkluðust frá völdum?

Mun sams konar kerfi halda áfram þó núna stýri aðrir flokkar og annað fólk? Það er alla vega athyglisvert að fylgjast með því hvaða aðstoðarmenn nýir ráðherrar velja og hvort þeir hafa sérstaka sérfræði á málefnasviði þess ráðuneytis sem þeir starfa í. Raunar má líka velta fyrir sér hvers vegna ráðherrar þurfa enga sérstaka sérfræði í sínum málaflokki, það  virðist  helst fara eftir einhverri virðingarröð þ.e. efst forsætisráðuneyti, næst utanríkisráðuneyti, þarnæst fjármálaráðuneyti o.s.frv.  

Hér er athyglisverð grein um bakgrunn aðstoðarmanna ráðherra: Þróun 1971-2005

Hér er úrdráttur:

Greinin fjallar um störf aðstoðarmanna ráðherra og hvernig bakgrunnur þeirra hefur breyst á tímabilinu 1971-2005. Skoðaðir eru m.a. eftirfarandi þættir: aldur, menntun, starfsreynsla og pólitísk þátttaka. Á grundvelli þessarar greiningar er reynt að meta hvort viðfangsefni aðstoðarmanna ráðherra hafi breyst á tímabilinu. Fram kemur að á sl. tíu árum hafi orðið umtalsverðar breytingar á bakgrunni aðstoðarmanna sem felast m.a. í því að oftar eru ráðnir einstaklingar sem hafa nýlega lokið námi og eru stutt á veg komnir á sínum starfsferli.
Fátíðara er orðið að ráðnir séu einstaklingar sem geta talist sérfræðingar á málefnasviði
ráðuneytis. Fjallað er um hugsanlegar skýringar á þessari þróun.

Í samfélagi manna eru  alls konar skilvindukerfi sem  fólk velkist í gegnum og mörg þessara kerfa virka  til að skilja að þá sem hafa völd í samfélaginu og þá sem eru valdalausir. Menntakerfið er eitt þannig skilvindukerfi svo sem í gegnum  ýmis konar embættispróf. Í eina tíð voru flestir á þingi lögfræðingar og allir voru karlar, nú endurspeglar Alþingi betur samfélagið og fjölbreytileika þess.  

Það er best að  í stjórnsýslu og stjórnmálastarf fólk veljist fólk með fjölbreytilegan bakgrunn, reyndar er það  best er að hópar séu samsettir úr sem  ólíkustu fólki,  þá verður gerjun hugmynda og sem flest sjónarmið koma fram.  Þá verður líka minni hætta á að það verði gerð óhemjualvarleg mistök. Það er ein ástæðan fyrir hve illa fór fyrir Íslandi að hér var öll skoðanamyndun í helgreipum aðila sem  allir voru af svipuðu sauðahúsi og þeir áttu fjölmiðlana og  mikið af hugsandi fólki á Íslandi var málpípur í vinnu hjá þeim eða háðir þeim með einhverja aðdrætti t.d. háskólamenn með styrki.

Það þarf ekki helling af fólki sem er allt kópíur hvern af öðru í stjórnsýsluna og stjórnmál og viðskiptalíf á Íslandi, það þarf fólk með ólíkan bakgrunn og ólíkar áherslur. Það er einmitt þess vegna sem mér finnst að þær ógnarslæmu aðstæður sem núna eru á Íslandi kalli á þjóðstjórn, einmitt til að sjónarmið og sérfræði sem flestra verði með í ráðum en ekki verði enn og aftur farið í það far að meirihlutinn kúgar minnihlutann og kemur að sínum einsleitu sjónarmiðum og ráðamenn ráða undirmenn sem eru sem líkastir þeim sjálfum og með sem svipaðastan bakgrunn og lífssýn. 

Ég hugsa að Hafdís Gísladóttir nýráðinn aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur sé ákaflega hæf kona, það sést á upptalningunni og hún hefur meistarapróf í stjórnsýslu og leikskólakennarapróf. En það vekur athygli mína hve líkur bakgrunnur hennar er bakgrunni Svandísar sjálfrar þ.e. úr starfi með heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum og það vekur líka athygli mína að ekkert er tiltekið um færni og kunnáttu á sviði umhverfismála, það hlýtur þó  að vera að viðkomandi aðstoðarmaður hafi feiknareynslu á því sviði, Vinstri grænir hafa látið umhverfismál sig miklu varða og þar eru margir sterkir einstaklingar með sérfræði í umhverfismálum.


mbl.is Hafdís Gísladóttir ráðin aðstoðarmaður umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um meðferð sláturdýra, lotningu fyrir tölfræði, Nasista og fatlað fólk

Ég les stundum  um uppgang Nasista í Þýskalandi og  reyni að skilja hvað gerðist og hvers vegna það gerðist.  Það er áhugavert í því sambandi að skoða hver setti fram upplýsingar og hvernig var þeim miðlað, hver safnaði saman upplýsingum og hvaða upplýsingum var safnað saman. Hvaða hlutverk höfðu fræðimenn og listamenn, hvaða fræðimönnum og fræðikenningum var hampað?

Við höldum oft  að tölfræðiupplýsingar séu ópólitískar, við höldum að  línurit og súlurit og ýmsar tölulegar upplýsingar sem birtast okkur séu meiri sannleikur en frásagnir sem ekki eru settar í búning talna. Við höldum líka að tilgangur þess að safna saman upplýsingum, að kortleggja stöðuna sé markmið í sjálfu sér.

Samt erum við minnt á það á hverjum jólum í jólaguðspjallinu að þannig er staðan ekki, sá sem safnar upplýsingum og gögnum  um samfélagið er sá sterki og voldugi og tilgangur þeirrar gagnasöfnunar er fyrst og fremst að tryggja áframhaldandi völd hins volduga og undirokun hinna valdalausu.  Í jólaguðspjallinu segir að  boð hafi komið  frá Ágústusi keisara um að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.  Svona keisaraleg skráning hafði aðeins þann tilgang að auka eða viðhalda valdi keisarans og kortleggja skattsvæði hans og var grundvöllur undir mögulegar skatttekjur.

Barnið sem fæddist í skrásetningarferðinni sem tímatal okkar miðast við beygði sig líka undir þetta vald þegar það óx að viti og sagði fullorðinn maður  "gjaldið keisaranum það sem keisarans er"  vitandi að  aðeins ein örlög biðu þess sem gekk í berhögg við keisarann og með svona slægvisku leið lengri tími þar til trúboðið var talið svo hættulegt  andóf að andófsmaðurinn var tekinn af lífi. Maðurinn sem boðaði að keisarinn ætti að fá sinn skerf var síðar tekinn af lífi með krossfestingu, með ægilegri pyntingu öðrum til viðvörunar.

En líflát þeirra sem óæskilegir eru taldir af valdhöfum fyrir samfélagið  hefur  ekki alltaf farið  fram með pyntingum. Stundum hefur það farið fram á laun og án þess að fórnarlömdin vissu örlög sín fyrr á dauðastundinni. Nasistar reyndu að finna upp sársaukalausar fjöldaaflífunaraðferðir með gasi og haga því þannig til að þeir sem voru teknir af lífi vissu ekki af því áður, héldu að þeir væru að fara í sturtu og vissu ekki fyrr en skrúfað var frá gasinu í gasklefunum.  Nasistar æfðu sig lengi, lengi áður en fjöldaútrýming á Gyðingum hófst.

nasistar-erbkranke1936_851718.jpg

Þeir æfðu sig á fötluðu fólki og byggðu upp hugmyndafræði þar sem genatískur hreinleiki var eitt meginþemað og þar sem réttur til lífs var skilgreindur sem eitthvað sem þegnarnir ynnu til og þess vegna hefði mikið fatlað fólk ekki rétt til lífs. Þessi hugmyndafræði var í anda fræðimanna eins og Karls Binding og Alfred Hoche sem gáfu árið 1920 út rit sem réttlætti útrýmingu þess lífs sem ekki þætti þess virði að því væri lifað.

Hér fyrir ofan er áróðursmynd frá áróðurskrifstofu þýska ríkisins árið 1936 sem segir að kostnaður við umönnun  880,000 einstaklinga með erfðatengda sjúkdóma sé 1200 milljón ríkismörk og  tvöfalt meira en það sem notað sé í stjórn ríkis- og sveitarstjórna.

Fyrir mörgum árum  kom bandarísk fræðikona í heimsókn í skólann sem ég vinn. Það koma margir fræðimenn í heimsókn en þessi var sérstök, hún sérhæfði sig í að rannsaka hvernig hægt væri að aflífa dýr á sem stresslausastan og sársaukaminnstan hátt, var að hanna einhvers konar brautir fyrir sláturdýr. Það var nú ekki það sem var sérkennilegast við hana heldur það að hún hafði sem ungt barn verið greind  einhverf en tekist með aðstoð foreldra og góðs umhverfis að ná þannig tökum á lífi sínu að hún hafði skrifað bækur og lokið doktorsnámi. Hún heitir Temple Grandin og ein bóka hennar  "Dyrnar opnast - Frá einangrun til doktorsnafnbótar" hefur verið þýdd á íslensku.

Ég hef spáð mikið í hvers vegna hún valdi að sérhæfa sig í þessu viðfangsefni. Ég las á sínum tíma viðtal við hana en skildi samt ekki alveg röksemdir hennar fyrir að  helga sig sérstaklega að hanna útbúnað fyrir  aflífun dýra. Ég  sé á myndbandinu að  hún telur samkennd milli sín og kúa vegna þess að líf hennar sem einhverfrar hafi snúist um ótta og þess vegna skilji hún kýr.  Ég held hins vegar að það geti verið  önnur ástæða, ástæða sem kemur ekki eins vel út fyrir hana að segja, ástæða sem er einhvers konar vöntun á samhygð með öðru lífi  - vöntun á samkennd með öllu sem dregur lífsanda.

Hugsanlega  er viðhorf Temple Grandin til sláturdýra af sama meiði og viðhorf Nasista voru til fatlaðs fólks.Hún skynjar ótta sláturdýranna og tilfinningar þeirra en hún finnur ekki til með þeim.

Hér eru tvö myndbönd um konuna sem hugsar eins og kú:

Heimild

Whats in the stimulus that scares me most


Er hætt að selja Vodka?

Ég vek athygli á tveimur bloggum sem ég hef skrifað á undanförnum árum þar sem ég hef gagnrýnt ferðamálayfirvöld og þá sem markaðssetja Ísland á erlendri grundu. Ég gagnrýndi þá að forseti Íslands og Ísland væri notað til að markaðssetja hluti sem mér finnst ekki hafa neina tengingu við Ísland og ýttu undir mannlega harmleiki.

mbl.is Tveimur skrifstofum Ferðamálastofu lokað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dharavi

 dharavi1.jpgDharavi er slömm í borginni Mumbai (Bombay) í Indlandi. Áætlað er að í því slömmi búi um 800 þúsund manns en í borginni allri búa 11 milljónir og er helmingur íbúanna búsettur í hinum ýmsu slömmum. Dharavi er næststærsta slömmið í Asíu. Það er frægt núna gegnum myndina Slumdog Millionaire

Það er gaman að skoða slömm á Google maps, hér má sjá hvernig slömmið umlykur skipulögðu svæðin, eitt einkenni á slömmum er að húsin þar eru reist í óleyfi fyrir utan allt skipulag:  Dharavi - Google Maps

Dharavi var einu sinni eyja þar sem áður var mangrove fenjasvæði, svæði þar sem fiskimenn af Koli stétt bjuggu. Síðan fluttu þangað margir aðrir. Flestir íbúar Dharavi eru Dalítar.

Meira um Dharavi:

Photo Essay: India's Real-World Slumdogs

Dharavi - Photo Gallery - National Geographic Magazine

 Dharavi - National Geographic Magazine

Núna er svínaflensan að stinga sér niður á Indlandi. Það getur verið að svoleiðis sjúkdómar breiðist mjög hratt út á svæðum eins Dharavi, svæðum þar sem fæstir hafa eigin salerni. Flestir hafa þó rennandi vatn og næstum allar fjölskyldur hafa sjónvarp. 

Um aldamótin 1900 herjaði farsótt í Mumbai Þetta mun hafa verið plága af sömu sort og Svarti dauði.

 


mbl.is Óttast að smitaðir séu 100.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband