Pólitískt samverkafólk og fjölbreytileiki samfélagsins

Mun Hrunið  ná að breyta stjórnsýslu á Íslandi, breyta henni úr því að vera pukur og handahóf nokkurra manna sem hafa komið sér fyrir nálægt kjötkötlum og heimta skatt af almenningi til að útdeila til sinna vildarmanna eða er  kerfið sjálft meingallað, svo gallað að þegar nýir menn komast til valda þá muni þeir hegða sér eins og þeir sem hrökkluðust frá völdum?

Mun sams konar kerfi halda áfram þó núna stýri aðrir flokkar og annað fólk? Það er alla vega athyglisvert að fylgjast með því hvaða aðstoðarmenn nýir ráðherrar velja og hvort þeir hafa sérstaka sérfræði á málefnasviði þess ráðuneytis sem þeir starfa í. Raunar má líka velta fyrir sér hvers vegna ráðherrar þurfa enga sérstaka sérfræði í sínum málaflokki, það  virðist  helst fara eftir einhverri virðingarröð þ.e. efst forsætisráðuneyti, næst utanríkisráðuneyti, þarnæst fjármálaráðuneyti o.s.frv.  

Hér er athyglisverð grein um bakgrunn aðstoðarmanna ráðherra: Þróun 1971-2005

Hér er úrdráttur:

Greinin fjallar um störf aðstoðarmanna ráðherra og hvernig bakgrunnur þeirra hefur breyst á tímabilinu 1971-2005. Skoðaðir eru m.a. eftirfarandi þættir: aldur, menntun, starfsreynsla og pólitísk þátttaka. Á grundvelli þessarar greiningar er reynt að meta hvort viðfangsefni aðstoðarmanna ráðherra hafi breyst á tímabilinu. Fram kemur að á sl. tíu árum hafi orðið umtalsverðar breytingar á bakgrunni aðstoðarmanna sem felast m.a. í því að oftar eru ráðnir einstaklingar sem hafa nýlega lokið námi og eru stutt á veg komnir á sínum starfsferli.
Fátíðara er orðið að ráðnir séu einstaklingar sem geta talist sérfræðingar á málefnasviði
ráðuneytis. Fjallað er um hugsanlegar skýringar á þessari þróun.

Í samfélagi manna eru  alls konar skilvindukerfi sem  fólk velkist í gegnum og mörg þessara kerfa virka  til að skilja að þá sem hafa völd í samfélaginu og þá sem eru valdalausir. Menntakerfið er eitt þannig skilvindukerfi svo sem í gegnum  ýmis konar embættispróf. Í eina tíð voru flestir á þingi lögfræðingar og allir voru karlar, nú endurspeglar Alþingi betur samfélagið og fjölbreytileika þess.  

Það er best að  í stjórnsýslu og stjórnmálastarf fólk veljist fólk með fjölbreytilegan bakgrunn, reyndar er það  best er að hópar séu samsettir úr sem  ólíkustu fólki,  þá verður gerjun hugmynda og sem flest sjónarmið koma fram.  Þá verður líka minni hætta á að það verði gerð óhemjualvarleg mistök. Það er ein ástæðan fyrir hve illa fór fyrir Íslandi að hér var öll skoðanamyndun í helgreipum aðila sem  allir voru af svipuðu sauðahúsi og þeir áttu fjölmiðlana og  mikið af hugsandi fólki á Íslandi var málpípur í vinnu hjá þeim eða háðir þeim með einhverja aðdrætti t.d. háskólamenn með styrki.

Það þarf ekki helling af fólki sem er allt kópíur hvern af öðru í stjórnsýsluna og stjórnmál og viðskiptalíf á Íslandi, það þarf fólk með ólíkan bakgrunn og ólíkar áherslur. Það er einmitt þess vegna sem mér finnst að þær ógnarslæmu aðstæður sem núna eru á Íslandi kalli á þjóðstjórn, einmitt til að sjónarmið og sérfræði sem flestra verði með í ráðum en ekki verði enn og aftur farið í það far að meirihlutinn kúgar minnihlutann og kemur að sínum einsleitu sjónarmiðum og ráðamenn ráða undirmenn sem eru sem líkastir þeim sjálfum og með sem svipaðastan bakgrunn og lífssýn. 

Ég hugsa að Hafdís Gísladóttir nýráðinn aðstoðarmaður Svandísar Svavarsdóttur sé ákaflega hæf kona, það sést á upptalningunni og hún hefur meistarapróf í stjórnsýslu og leikskólakennarapróf. En það vekur athygli mína hve líkur bakgrunnur hennar er bakgrunni Svandísar sjálfrar þ.e. úr starfi með heyrnarlausum og heyrnarskertum börnum og það vekur líka athygli mína að ekkert er tiltekið um færni og kunnáttu á sviði umhverfismála, það hlýtur þó  að vera að viðkomandi aðstoðarmaður hafi feiknareynslu á því sviði, Vinstri grænir hafa látið umhverfismál sig miklu varða og þar eru margir sterkir einstaklingar með sérfræði í umhverfismálum.


mbl.is Hafdís Gísladóttir ráðin aðstoðarmaður umhverfisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband