Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Jóla hvað?

christmas_animated_gif_14Gaman ef þessi spá Árna fjármálaráðherra gengi eftir um að 2009 yrði erfiðasta árið. Það er hins vegar engin ástæða til að trúa á spásagnir Árna eða hyggjuvit. Reikniskunnátta hans virðist líka  lítil því að ekki get ég séð að bráðum komi betri tíð með blóm í haga þegar yfir íslensku þjóðinni vofir frostbitið sverð og hrímug sleggja Icesave reikninganna og jöklabréfin mara í kafi eins og borgarísjakar.

Íslenska þjóðin er kramin milli Icesave reikninga og jöklabréfa, byggingariðnaður hruninn, bankakerfið hrunið, álverð og orkuverð hrapar og svo er fiskurinn hættur að seljast. Það er þó bót í máli að Suðurlandsskjálftinn kom á undan fjármálahruninu.  

christmas_animated_gif_20Í svona framtíð verður 2009 góðæri miðað við það sem á eftir kemur. Hvers vegna sér Árni það ekki? Hugsanlega vegna þess að hann gerir ráð fyrir að Icesave fari á besta hugsanlega veg, eignir Landsbankans hafi ekki rýrnað mikið og heimskreppa umheimsins sé  bara smámótvindur og markaðsleiðrétting. Hugsanlega telur hann að þetta sé spurning um að "endurfjármagna sig" taka sífellt hærri og hærri lán til að borga upp fyrri lán.

Það er von að Árni haldi að fjármál virki þannig, svona fóru fjárglæframennirnir að, svona fóru íslensku bankarnir að og það sem verra er svona fer bandaríska ríkisstjórnin ennþá að. Það er bóla sem ekki hefur ennþá sprungið, kannski trúir fólk því að ef kerfið er nógu stórt þá geti það ekki fallið. En Sovétríkin féllu.

Svona til að draga athyglina frá öllu þessu kreppustandi og halda geðheilsunni þá er ég núna farin að skreyta og kveikja á ljósum.  Ég skreyti líka hérna inn í Netheimum og það er eiginlega miklu einfaldara, það er alls konar skreytiefni til á ýmsum jólavefsetnum, hér er slóð sem vísar á ókeypis þannig efni  19 Must-Have Collection Of Free Christmas Resources (Exclusive Designers Kit) - Opensource, Free and Useful Online Resources for Designers and Developers

Það er fínt að skreyta fyrir jólin með stafrænu föndri sem ekki eyðir neinu af okkar dýrmæta gjaldeyri.  

Ég ætla að halda mig mest við stafrænar skreytingar núna á meðan skreytiefni annað er oft dýrt og innflutt. Hins vegar bíð ég spennt eftir að tækninni fleygi fram varðandi ljósdíóður, ég held að að þar séu möguleikarnir fyrir skammdegismyrkursland eins og Ísland. Hugsa sér þegar við getum farið að merkja göngustíga með díóðuljósum sem jafnvel hlaða sig sjálf bara með sólarljósinu.  Þegar sá tími kemur þá verður sennilega að setja lög um ljósmengun, lög sem vernda fólk fyrir að vera baðað of mikilli rafmagnsbirtu. 

 

 

 


mbl.is 2009: Dýpsta ár kreppunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flautaþyrill - nafn á íslenska fjármálajólasveininum

Núna í dag eru vetrarsólstöður og upp úr þessu fer daginn að lengja. Það eru samt eftir erfiðustu mánuðir vetrarins, mánuðir þar sem frosthörkur eru mestar og veðrin verst. Þannig er það líka með efnahagslífið. Við vitum að framundan eru meiri hörkur en núna en það versta er að það er algjör óvissa hvernig ástandið verður og hvenær botni kreppunnar verður náð. Í náttúrunni vitum við að sólin mun hækka á lofti og við getum treyst því að vorið komi í maí og bræði klakann úr jörðu. En hvenær verður klakinn bræddur úr efnahagslífi heimsins?

Efnahagskerfi heimsins er lamað og stjórnvöld keppast við að bregðast við því. En gallinn er bara sá að stjórnvöld geta það ekki og margt af því sem þau gera er til þess fallið að frysta kerfið ennþá meira. Það gera líka einstaklingarnir. Allir reyna að hreyfa sig sem minnst í heimi viðskipta, fólk kaupir ekki vörur og sérstaklega ekki dýra hluti eins og fasteignir og bíla. Eyðslan sem mælist í vöruskiptahalla okkar snarminnkar og þetta eru stjórnmálamenn ánægðir með. Gallinn er bara sá að það er ekki bara að við kaupum ekki vörur, þeir sem við seldum vörur kaupa heldur ekki vörur.

Fjármálakerfi heimsins er götótt og gagnslitið og passar engan veginn fyrir það kerfi framleiðslu og lífshátta sem við erum að fara inn í - en það er  samt eins og er besta kerfið sem völ var á  til að hagnýta þekkingu - fjármálamarkaðir breyta þekkingu í verðmæti og fjármagn flyst til þangað sem mestur arður var. Þetta kerfi er bara orðið feyskið og lúið og þó það passaði vel fyrir iðnaðarsamfélag þar sem vörur flytjast frá framleiðanda til neytanda þá passar það ekki fyrir öðruvísi samfélag, samfélag öðruvísi og samantvinnaðri hnattrænna framleiðsluhátta.

Peningar hafa allt annað vægi í svoleiðis kerfi en í verksmiðjusamfélagi gærdagsins og í úttútnuðu bankakerfi heimsins sem bara bjó til peninga án þess að þeir væru nein ávísun á verðmæti þá sjóða í sífellu upp bólur og það freyðir um allt og þetta kerfi viðhelst á meðan einhver trúir á það. En bólurnar springa af sjálfu sér  og froðan skreppur saman niður í ekki neitt.

Kannski er betri myndlíking að tala um þeytta undarrennu heldur en froðu. Undanrenna var stundum þeytt til hún sýndist meiri. Það þótti harðindamatur og vont í maga. Verkfærið sem notað var til að þeyta undanrennu var kallað flautaþyrill. Það orð fékk svo aðra merkingu, er notað um þann sem baslast áfram og kúðrar. Það mætti gjarnan taka það orð upp sem sérstakt orð yfir þá sem hafa stýrt fjármálum íslensku þjóðarinnar undanfarin ár. Um flautir og flautaþyrla má lesa í  ELDAMENNSKA Í ÍSLENSKU TORFBÆJUNUM en orðið hefur tvöfalda merkingu 

1: Áhald til að fleyta þautir
2: Óstöðuglyndur maður og fljótfær maður, sá sem er með hringlandahátt

Reyndar var orðið Flautaþyrill líka nafn á jólasveini skv. jólasveinatali Árna Björnssonar.

Ástandið fyrir kreppuna einkenndist af froðu og bólum en því er  öfugt farið eftir hrunið. Núna er besta myndlíkingin fyrir ástandið frost. Þess vegna er Ísland og íslenskir jöklar svo góð myndlíking fyrir heimskreppuna sem reyndar líka frysti fyrst allt hér á klakanum. Það er margt líkt með þeirri heimskreppu sem nú er skollin á og heimskreppunni  1929. Það var þá  líka  verðhjöðnun. Það er miklu verra ástand en verðbólga.


mbl.is Hvetur til útgjalda til þess að örva hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ciudad Juarez borg í álögum

Ciudad Juarez er landamæraborg við ána Rio Grande. Hún er í Mexíkó en hinum megin við ána er El Paso í Texas í Bandaríkjunum.  Frá fátækrahverfum Ciudad Juarez má sjá yfir hæðirnar í El Paso en þar lýsir upp hlíðarnar risastór stjarna. Ég hef komið til borgarinnar og ég lýsi hughrifum mínum  í blogginu Hvíta gullið í Mexíkó

Ciudad Juarez er leikvangur raðmorðingja og glæpamanna. Þar eru fleiri konur myrtar en á stríðhráðum svæðum. Samt er ekki opinbert stríð þar og tölurnar um morðin eru ekki á hreinu. Grunur er um að kvennamorðin í borginn séu einhvers konar innvígluathafnir glæpagengja. En Cudad Juarez er borg í álögum og ástandð er sérlega slæmt núna því efnahagur USA er í frjálsu falli og margir ólöglegir innflytjendur hafa snúð aftur til Mexíkó þar sem þeir hafa ekki að neinu að hverfa.

Við lifum í þeirri blekkingu að ofbeldi og hætta á að deyja í átökum sé mest á svæðum þar sem við vitum að stórveldin heyja stríð. En það voru framin 58 morð í Mexíkó daginn áður en Obama var kjörinn forseti og eitt morðið var maður í Cuidad Juares sem var höfuðlaus skilinn eftir á umferðareyju og enginn þorði að fjarlægja líkið fyrr en myrkrið skall á. Sjá þessa frásögn: 

On Nov. 3, the day before Americans elected Barack Obama president, drug cartel henchmen murdered 58 people in Mexico. It was the highest number killed in one day since President Felipe Calderon took office in December 2006. By comparison, on average 26 people — Americans and Iraqis combined — died daily in Iraq in 2008. Mexico’s casualty list on Nov. 3 included a man beheaded in Ciudad Juarez whose bloody corpse was suspended along an overpass for hours. No one had the courage to remove the body until dark.  David Danelo: Mexico’s bloody drug war

Ástandið í Ciudad Juarez er svartur blettur á samvisku heimsins og ástandið er partur af þeirri spennu sem hefur byggst upp í heiminum og hugsanlega eru það staðir eins og Ciudad Juarez sem finna fyrst fyrir því ástandi sem nú er að magnast upp í heimskreppunni.

Núna er er Ciudad Juarez í fréttum vegna hótana um barnsrán. Talið er að glæpamenn séu að reyna að þvínga kennara til að borga jólabónusa sem kennarar fá í fyrirfram lausnargjald eða mútur til að koma í veg fyrir að reynt sé að ræna börnum. Ef það er rétt þá er ástandið orðið virkilega slæmt þarna, nánast styrjaldarástand. Sennilega hefur dópmarkaðurinn og ólöglegi lyfjamarkaðurinn hrunið eins og allt annað í hinu vestræna hagkerfi.

Ég skrifaði eftirfarandi fyrir mörgum árum um borgina og það er jafnsatt í dag:

Ég vona að þessi grein í Morgunblaðinu sé merki um að augu heimsins muni einhvern tíma opnast fyrir ástandinu í gullgrafarabæjum nútímans eins og Ciudad Juarez. Ég vona að fólk átti sig á að mannfallið og aftökurnar eru ekki mestar í skotbardögum þar sem bófagengi og góðu kúrekarnir plaffa hvern annan niður. Í þessari landamæraborg eru konur kyrktar og limlestar í svo stórum stíl að borgin hefur verið nefnd Ciudad Juarez: The Serial Killer´s Playground eða leikvangur raðmorðingja. Það er gífurlega víðfeðm leit að morðingjanum og löggæslumenn í borginni eru ásakaðir um spillingu og vanhæfni. En kannski er morðinginn ekki einn maður heldur margir og kannski eru morðin afleiðing af ástandi og spennu og viðhorfum á þessum stað. 


mbl.is Hóta barnsránum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinnukonur kerfisins og blaðafulltrúi Geirs Haarde

gudfinna-ragnhildur-ingajona.jpg

 Íslensk samfélag hefur farið á hliðina og íslensk efnahagslíf molnað niður í einhvers konar duft. Það er hrikalegt ástand og sömu stjórnvöld og sáu ekki fyrir þennan vanda eða leyndu okkur stöðunni og reyndu ekkert til að koma í veg fyrir að allt sigldi í strand eru núna alveg ófær um að koma okkur á flot aftur. Þau eru meira ófær um að verja þjóðarskútuna fyrir ræningjum sem þyrpast á strandstað.  

Hvernig gat þetta gerst? Hvar voru allir þeir Íslendingar sem höfðu púlsinn á efnahagslífinu, höfðu atvinnu sína af fjármálaeftirliti eða af því að stýra almenningshlutafélögum eða sitja í stjórn þeirra. Þessir menn verða nú að sitja fyrir svörum og segja okkur hvers vegna þeir tóku  þátt í að hilma yfir hlutum sem voru ósiðlegir og hættulegt glæfraspil.

Það voru næstum eingöngu karlmenn sem voru leikendur á þessu sviði. Valdaleysi og áhrifaleysi íslenskra  kvenna í að ráða yfir efnahagsmálum á Íslandi undanfarin ár hefur verið nánast algjört.  Það hafa fáar konur fengið að komast að þeim kvörnum sem möluðu útrásarvíkingunum og fjárglæframönnunum  það gull sem þeir hafa nú komið í lóg eða falið erlendis.Það voru þó einstaka konur sem voru í stjórn stóru almenningshlutafélaganna. Þeirra á meðal voru Guðfinna S. Bjarnadóttir sem nú er alþingismaður sem sat í stjórn Baugs árin 1998 - 2003 og í stjórn FL group , Inga Jóna Þórðardóttir eiginkona forsætisráðherra sem sat í stjórn FL Group og Ragnhildur Geirsdóttir sem var um tíma forstjóri Fl Group.

Ragnhildur hætti og fékk 130 milljónir í starfslokasamning. Hún  hætti vegna þess að hún var ósátt við vinnubrögð við kaup á Sterling en ég varð ekki var við að hún  ljóstraði  upp um hvaða vinnubrögð voru í félaginu, mér virðist þegar ég les núna fréttir um hvað raunverulega gerðist að um hafi verið að ræða ósiðlega og óheiðarlega svikamyllu og sviksamleg viðskipti í almenningshlutafélagi. 
Fyrir aðeins örfáum vikum síðan gekk forstjóri FL Group, Ragnhildur Geirsdóttir, á dyr með aðeins dags fyrirvara, þar sem hún vildi ekki taka þátt í þessum fjármunahreyfingum Hannesar án heimildar stjórnar félagsins. Hún vildi einnig ekki taka þátt í kaupunum á Sterling þar sem hún taldi kaupverðið uppá 1.5 milljarð DKK algerlega óraunhæft." (Travel People Newsletter nov 2005

 Guðfinna Helgadóttir er trú Sjálfstæðisflokknum en það er erfitt að leysa eftirfarandi orð hennar núna og trúa á að hún sé forsjál og skynsöm í fjármálum og að hún vinni fyrir þjóðarhag Íslandinga. Guðfinna sagði fyrir síðustu kosningar:

"Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins skilja vel samspil efnahagslífs, verðmætasköpunar og velferðar.Flokknum er best treystandi til þess að leggja grunn að velferð fjölskyldunnar og samfélagsins í heild og boðar ábyrga velferðarstefnu á traustum grunni.Flestir Íslendingar vilja trausta stjórn á komandi árum undir forystu Geirs H. Haarde. Um 65% landsmanna vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn áfram í stjórn og 54% landsmanna vilja að Geir H. Haarde verði áfram forsætisráðherra.Sjálfstæðisstefnan stuðlar að kraftmiklu og umburðalyndu samfélagi. Við sjálfstæðismenn viljum halda áfram í umboði þjóðarinnar að gera afburðasamfélag enn betra."(X-D)

 

Af hverju segir Guðfinna þetta? Hún sem er vel menntuð og hún sem  var rektor í viðskiptaháskóla og sem sat í stjórn Baugs og Fl Group. Ef einhver hefði átt að aðvara okkur þá er  það Guðfinna. Hún hlýtur að hafa séð öll hættumerkin, hún hlýtur að hafa áttað sig á hvað peningabólukerfi fjárglæframannanna var mikið glötunarleið. En nú er Guðfinna á Alþingi og árið sem hún fór inn á þing var hún tekjuhæsti þingmaðurinn, hún landaði háum starfslokasamningi frá viðskiptaháskólanum sem stóð í að mennta fólkið til að vinna í fjármálafyrirtækjunum.  Hún hafði það ár helmingi hærri laun en forseti Íslands sjá þessa grein: Vísir - Guðfinna fékk tugmilljónir við starfslok hjá HR

Inga Jóna Þórðardóttir er líka vel menntuð. Hún er viðskiptafræðingur, hún hefur verið þátttakendi í stjórnmálastarfi á Íslandi í áratugi og hún sat í Fl Group.  Ég hef aldrei efast um heiðarleika Ingu Jóna og ber fyllsta traust til hennar en hún hefði átt að aðvara okkur og hafa hærra um hvað henni fannst að. Ef hún og aðrir hugsandi og heiðarlegir menn á Íslandi hefðu gert það og gætt betur hagsmuna almennings og minna þess að hilma yfir með flokksbræðrum sínum og þeim sem höfðu óhefta markaðshyggju að leiðarljósi þá hefðum við ekki lent í þeirri stöðu sem við erum í núna. 

Inga Jóna sagði sig úr stjórn Fl Group. Hún gagnrýndi stjórnina þar en hún gerði það ekki með neinum látum. Af hverju gerði hún ekki meira til að bæta almenningshlutafélög á Íslandi?Það var svo alvarlegt ástand að það hefði átt að kalla á meiri viðbrögð þeirra sem þekktu til en bara að segja sig úr stjórn og flytja eina ræðu á stjórnarfundi. Inga Jóna sagði á fundi:

"Inga Jóna Þórðardóttir bað um orðið eftir að Hannes hafði lokið ræðu sinni og gerði grein fyrir brotthvarfi sínu, sem tilkynnt var á stjórnarfundi 30. júní síðastliðinn. Hún sagði að á síðustu vikum hefði henni orðið það ljóst að starfshættir innan stjórnar félagsins hefðu ekki verið með þeim hætti sem hún teldi að samþykktir félagsins og starfsreglur segðu til um. Hún benti á að í ársskýrslu Flugleiða fyrir árið 2004 kæmi fram að stjórnin legði sérstaka áherslu á að viðhalda góðum stjórnunarháttum og tilgreindar væru sérstaklega leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja sem Verslunarráð Íslands, Kauphöll Íslands og Samtök atvinnulífsins komu að.

"Í veigamiklum atriðum er verulegur misbrestur á að farið sé eftir þeim reglum, sem í gildi eru," sagði Inga Jóna sem telur nauðsynlegt að gerðar verði ákveðnar ráðstafanir til að tryggja að stjórnunarhættir verði í fullu samræmi við þann ramma sem samþykktir félagsins og starfsreglur kveða á um.

"Þegar stjórnarformaður er jafnframt í fullu starfi sem slíkur, eins og er í FL Group, er enn brýnna að þessir hlutir séu í lagi og enginn velkist í vafa um verkaskiptingu forstjóra og starfandi stjórnarformanns. Að mínu viti verður það ekki gert nema með sérstakri samþykkt stjórnar sem hluta af starfsreglum," sagði Inga Jóna.

Hún benti á að í samþykktum félagsins og í starfsreglum stjórnar væri kveðið skýrt á um hlutverk og ábyrgð stjórnar gagnvart eftirliti með reikningshaldi og meðferð fjármuna félagsins. Samkvæmt þeim skyldi félagsstjórn taka ákvarðanir í öllum málum, sem telja verði óvenjuleg eða mikilsháttar. Þá sagði hún jafnframt að það væri alveg ljóst í hennar huga að allar stærri fjárfestingar og skuldbindingar gagnvart félaginu skyldu ræddar og undirbúnar og samþykktar í stjórn félagsins." (Baugsmenn og FL Group

Það er furðulegt að þessar þrjár konur sem allar voru í aðstöðu til að aðvara okkur og unnu í eða fyrir almenningshlutafélög hafi ekki gert það. Þær voru vinnukonur þess kerfis sem núna er að hruni kominn og kóuðu með í þeirri ógnaröld sem ríkti í gróðærinu, ógnaröld ribbalda sem við erum fyrst að komast að núna.

bilde?Site=XZ&Date=20081112&Category=FRETTIR01&ArtNo=509416617&Ref=AR&Profile=1092&MaxW=260&MaxH=260&NoBorder=1

Það er líka átakanlegt núna að fylgjast með sjálfskoðun fjölmiðla sem er nánast sjálfbær, þeir tala bara um hver aðra, gera að stórfrétt einhverja hleraða upptöku af Reyni Traustasyni að segja í einhverjum grobb-mannalátastíl einhverjum strákling að það væri ekki svo fréttnæmt að Sigurjón fyrrum bankamaður fengi ennþá að leggja í gamla bílastæðið sitt og vinna að ráðgjöf um málefni sem hann þekkir út og inn. Ég vil benda þeim sem vinna í þessum innhverfa fjölmiðlaheimi að beina kastljósinu að því að skoða hversu einkennilegt er að sami maður og einu sinni stýrði Kastljósinu hoppi svo þaðan yfir í FL Group og sé þar blaðafulltrúi og valhoppi svo í því parísarhoppi á Íslandi sem krosseignatengslin og krossvaldaþræðirnir hafa búið til og sé núna sérstakur blaðafulltrúi Geirs Haarde. Hvar voru fjölmiðlar fyrir ári síðan þegar   þessi grein birtist í mbl.is? Hver var þekking þeirra og djúphygli varðandi íslensk efnahagsmál? Þessi þekking sem var svo mikil að það var valhoppað á milli Kastljóssins og almenningshlutafélaganna og  Kristján hafði  farið úr Kastljósþætti sjónvarpsins í að verða blaðafulltrúi FL Group. Gullaldaríslenskan hjá Flugleiðum grúpp

Kristján er persónugervingur þeirrar fjölmiðlun sem stunduð var í Rúv í  gróðærinu. Núna segir hann að óljóst hverjar skuldbindingar Íslendinga séu Ég held að honum og öðrum fjölmiðlamönnum þessa tímabils sem gáfust auðmönnum á vald hafi aldrei verið ljóst hverjar skuldbindingar og ábyrgð þeirra var gagnvart almenningi á Ísland.


Er von að maður treysti ekki stjórnsýslunni á Íslandi í dag? Er von að maður treysti ekki manninum og flokkinum sem hefur öllu á botninn hvolft? Það er rétt að þegar öllu er á botninn hvolft og við vitum ekki hver lífsafkoma okkar er næstu áratugina þá skipta efnahagsmálin  miklu máli. En þau eru ekki í góðum höndum hjá þeim sem hafa blekkt okkur og svikið og þeim sem hafa verið vinnukonur kerfisins og þagað yfir því sem þær áttu að hafa hátt um.

Ég hef í þessu bloggi notað orðatiltækið vinnukonur kerfisins yfir þrjár konur sem mér finnst að hafi brugðist. Raunar er orðfærið upprunalega komið frá Margéti Pálu sem notaði þetta um valdalausar konur sem væru í þjónustu ríkisins. Margir Sjálfstæðismenn tóku upp þessi orð Margrétar Pálu sem skammaryrði um okkur sem vinnum hjá ríkinu og sem fyrirheiti og lausnaryrði um betra samfélag  fyrir okkur að hætta ríkisrekstri og  fara að stofna eigin fyrirtæki. 

Guðfinna þingmaður segir á bloggi sínu fyrir kosningar:

"Því kemur ekki á óvart að um 60% kvenna á íslenskum vinnumarkaði vinna hjá ríki og sveitarfélögum.  Þessa staðreynd benti Margrét Pála Ólafsdóttir á í erindi sem hún flutti í mars sl. en hún er formaður Samtaka sjálfstæðra skóla eins og margir vita.  Margrét Pála kallaði konur í opinberum rekstri vinnukonur kerfisins.    

Á undanförnum árum hafa ríki og sveitarfélög dregið mjög úr eigin atvinnustarfsemi.  Hér er ekki lengur rekin bæjarútgerð, ekki ríkisreknir bankar eða símafyrirtæki.  Íslenskir karlmenn starfa flestir í einkageiranum, einungis um 20% þeirra starfa hjá hinu opinbera. Undanfarin ár hafa þeir í auknum mæli stofnað eigin fyrirtæki. "(Virkjum kraft og frumkvæði kvenna)

Þessi orð Guðfinnu eru nú ósönn í dag því akkúrat núna eru bankar ríkisreknir því núverandi stjórnvöld sem hafa sigld öllu í stand fylgja því leiðarhnoði  markaðshyggju að einkavæða hagnaðinn en þjóðnýta tapið.

En hversu miklu frelsi skilaði óheftur markaðsbúskapur okkur? Ekki miklu núna  þegar komið er að skuldadögunum. Ef til vill var frelsið bara blekking, sams konar blekking og sýndarhagnaðurinn sem búinn var til með því að feykja pappírspeningum fram og til baka og þyrla upp og kalla það verðmæti. þetta var alltaf frelsi hinna fáu. Gróðærið var ekki frelsistímabil kvenna á Íslandi. Gróðærið var tímabil þar sem sú hugsun náði yfirhöndinni að allt mætti réttlæta með peningum og allt væri falt.

Það er vissulega ekki gott að búa til  þjóðfélag sem fjötrar suma þjóðfélagsþegna svo mikið niður að þeir geti sig hvergi hrært. En frelsið er ekki fólgið í því að innprenta fólki að umönnunarstörf og samfélagsþjónusta sem og öll framleiðslustörf og þjónusta eigi að vera drifið áfram af gróðahvöt og einstaklingshyggju og samkeppnissjónarmiðum og markaðshyggju.

Við höfum séð hroðalegar afleiðingar af þannig samfélagi, samfélagi þar sem völdin voru gefin eftir til þeirra sem stýrðu fyrirtækjunum og fjármagninu gegnum banka sem bjuggu til peninga með fjármálagjörningum og þeir sem vissu hvað var að gerast og hefðu átt að aðvara okkur og hefðu átt að grípa í taumanna gerðu það ekki, gerðu það ekki vegna þess að þeir trúðu á þetta kerfi.

Þeir trúa því ennþá að aðalmálið sé að byggja aftur upp sams konar kerfi. Þannig er því miður ekki málið og  tilraunir til að gera það munu mislukkast hrapalega. Það þjónar ekki hagsmunum almennings á Íslandi að halda áfram að vera vinnukonur kerfisins. Það þarf  að umbylta kerfinu. Það þarf  skilning á því  að það er miklu hagkvæmara fyrir alla að vinna saman og heildin græðir á því að allir leggi saman krafta sína og búið sé til samtryggingarkerfi og samvinnukerfi en ekki kerfi einstaklingshyggju þar sem einstaklingarnir rífa hvern annan á hol. Lykilorðið á ekki að vera samkeppni heldur   samhjálp og samvinna. Það þarf líka að skilning á að kerfi sem telur peninga  eina mælikvarða á verðmæti og kerfi þar sem uppbygging samfélags sem snýst alfarið í kringum svoleiðis mæld verðmæti er kerfi sem er að molna niður.

Við skulum hætta að vera vinnukonur slíks kerfis.


 

 

 

 

 

 


mbl.is Mótmæli halda áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hleranir, afspuni, siðareglur og sjálfsblekkingar fjölmiðlafólks

Fjölmiðlar verða að spara eins og aðrar stofnanir í samfélaginu. Auðveldasta leiðin til þess er að hafa blaðamenn taki bara viðtöl hver við annan og umræðuefnið sé bara hvernig blaðamenn tali hver við annan og hvort þeir megi tala svona hver við annan. Þetta er svosem ekki ný fjölmiðlalína á Íslandi, þetta hefur alltaf verið svona. Fréttamenn að tala um fréttamenn um hvað fréttamenn eru að tala um.  Svona er hægt að halda uppi nokkrum Kastljósþáttum og svo það séu ekki talandi hausar á skjánum allan tímann þá má krydda umfjöllun með rannsóknarblaðamennsku eins og þessarri í vídeóinu hér fyrir neðan þar sem fjölmiðlamenn fylgjast með og éta upp og endursegja hvað bloggarar landsins hafa um málið að segja. Hér er stutt myndband af rannsóknarblaðamennskuhápunkti hjá Kastljósinu þar sem fylgst er með talningu Stefáns Pálssonar á hve oft leiðari DV hefur breyst yfir daginn.

Ég skil nú reyndar vel svona fjölmiðlavöktun. Ég er sjálf mjög veik fyrir svona talningum. Ég leyfði mér einu sinni að telja myndir af konum og körlum í fjölmiðlum.  Þannig talningum hefur Kastljósið og aðrir fjölmiðlar minni áhuga á. 

Afspuni

Bloggið og netumræðan ryður smám saman prentmiðlum út, dagblöð berjast fyrir lífi sínu  um allan heim og íslensk dagblöð eru í mikilli kreppu.  Því hefur verið spáð að síðasta dagblaðið í heiminum komi úr prentsmiðju árið 2040.  Það er fyndið að ennþá sýna atvinnufjölmiðlamenn hinni einstaklingslegu leikmannatjáningu bloggsins fyrirlitningu þó þaðan komi uppspretta frétta sem enda í prentmiðlum. Jónas (jonas.is) og Egill (eyjan.is/silfuregils/) skömmuðust í eina tíð báðir út í bloggara en hafa núna umhverfst  í óða kreppubloggara  og  Egill heldur að hann hafi fundið upp bloggið. Fréttamennska landsins á nú mestmegnis upptök sín í kommentakerfi Egils og kallar Egill þetta afspuna. Hér er Egill að tjá sig um afspuna á borgarafundi á Nasa:

 

 Ómerkileg frétt, ómerkilegur miðill

Það er fyndið að heyra fjölmiðlafólkið tala sín á milli um hvað þessi Sigurjóns-frétt  sé ómerkileg frétt, hún eigi uppruna sinn í ómerkilegum miðli (blogginu) og hún er  sögð (þ.e. þegar Reynir vildi ekki birta hana) á ómerkilegan hátt.

Hins vegar virðist mér fjölmiðlafólki yfirsjást í því að fréttin um hina ómerkilegu frétt er aflað á ómerkilegan hátt (með hlerun einkasamtals á vinnustað) og henni er líka dreift á ómerkilegan hátt (með því að birta óbreytt með ýmsum persónuupplýs. sem koma málinu ekki við  t.d. um lögreglumann sem framdi sjálfmorð). 

Ég velti fyrir mér hvað er að gerast með fjömiðlastétt landsins, Þóru Kristínu finnst bara allt í lagi að birta þetta hleraða samtal ritstjóra og undirmanns  opinberlega og af orðum hennar má ráða að blaðamenn ættu að baktryggja sig með svona hlerunarbúnaði þegar þeir tala við visst fólk.

Hér eru þau að tala um ómerkilegu fréttina í ómerkilega miðlinum (blogginu): 

Reyndar var þessi frétt ekkert skúbb, löngu birt á bloggi, sjá hérna Orðið á götunni 5. nóvember 2008 : Sigurjón enn í bankanum og er annars eitthvað fréttnæmt við það að fyrrum bankafólk sem bjó yfir mikilli þekkingu sé í ráðgjöf fyrir bankana eftir hrunið? Ef Sigurjón Árnason er ásakaður um eitthvað glæpsamlegt athæfi fyrir eða eftir hrunið  þá er það merkileg frétt en það er ekki frétt að hann sé fenginn til að veita ráð um hvernig hagsmunir bankans eftir hrunið eru tryggðir sem best. 

Það verður áhugavert að sjá hvernig  Mál Reynis verður  tekið fyrir hjá Blaðamannafélaginu

Það verður áhugavert hvort að þessi fréttamennska um fréttamennsku telst í samræmi við siðareglur blaðamanna - eða hvort blaðamenn koma ekki auga á það, koma ekki auga á fáránleikann við svona fullyrðingu : Agnes vill að Reynir verði rekinn úr Blaðamannafélaginu en þar er haft eftir blaðamanninum:

Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sagði í þættinum Íslandi í dag í kvöld að Blaðamannafélag Íslands ætti að reka Reyni Traustason, ritstjóra DV, úr félaginu meðal annars vegna þeirra ummæla sem hann viðhafði um nafntogaða einstaklinga á upptöku sem birt var í Kastljósi í gær.

Er þetta siðleg umræða um fjölmiðlun? Á  félag sem gætir að siðareglum blaðamanna að reka félagsmann úr félaginu vegna  birting á hleruðu einkasamtali sem hann er þáttakandi í  á vinnustað, einkasamtali sem er eðli málsins mjög viðkvæmt og alls ekki ætlað til opinberrar birtingar?

Reynir Traustason er hallærislegur í þessu hleraða samtali og það skaðar hann mikið.

Eins og ég sé málið þá er glæpur hlerunarblaðamannsins stærri. Hann tekur upp samtal við vinnuveitanda - ekki til að afla  fréttar heldur til að koma höggi á vinnuveitanda sinn og gera hann tortryggilegan.

Raunar sýnist mér hlerunarblaðamaðurinn brjóta allar siðareglur blaðamannafélagsins þegar hann tekur upp trúnaðarsamtal og afhentir það fjölmiðlum til birtingar og m.a. gætir ekki að því að þar eru með viðkvæmar upplýsingar sem tengjast persónum. Annars getur fólk kynnt sér hérna siðareglurnar: siðareglur blaðamanna.

Það er vissulega tilefni til að gera frétt um hve mikið íslenskir fjölmiðlar eru háðir eigendum sínum og þeim auðmönnum sem bljóðmjólkuðu alla íslenska sjóði og bjuggu til peningabólur í gegnum ítök sín í bönkum. Það er háð núna stríð um eignarhald á fjölmiðlum  og það urðu breytingar á eignarhaldi DV nokkrum dögum áður en Reynir neitaði að birta frétt

Þessi fréttamennska um fréttamennsku afhjúpar hins vegar heimóttarskapinn í íslensku samfélagi meira en nokkuð annað og hve fjölmiðlafólk er upptekið af fjölmiðlum, svo upptekið að það tekur ekki eftir að umfjöllunin gegnur út yfir öll mörk persónuréttinda og friðhelgi einstaklinga. Ef við samþykkjum að fjölmiðlar hegði sér svona, hvað þá með mig og þig og þau einkasamtöl sem við kunnum að eiga vegna vinnu  okkar og samskipta við fólk? Er í lagi að einhver afriti líf okkar í óleyfi og birti opinberalega okkur til háðungar og dragi með viðkvæmar upplýsingar um annað fólk?

Hvað ef hin rafræna vöktun og hlerun hefði verið á vegum lögreglu? Myndum við sætta okkur við að lögreglumenn tæku upp samtök okkar án þess að við vissum og túlkuðu þau á sama hátt og galgopaleg orðræða Reynis er núna túlkuð?Hvað ef hryðjuverkalögregla ynni á sama hátt og þessi ungi hlerunarblaðamaður? Er ekki ástæða til að staldra við og hugsa um þær aðstæður sem ríktu og hvort þetta séu vinnubrögð sem við viljum að fjölmiðlar viðhafi.

Það er reyndar gott að nú koma blaðamenn einn af öðrum og segja frá hve þröngar skorður umfjöllun um eigendur er sett:

Fyrrum blaðamaður DV: Ljóstrar upp um ritskoðun frétta um Baugsmálið. Baugur vann með Guardian

Það þarf að vera blindur til að sjá ekki að einkareknir fjölmiðlar á Íslandi undanfarin ár hafa verið gjallarhorn auðmanna. Hin gríðarlega áhersla sem auðmenn hafa lagt á að að eiga fjölmiðla sýnir hve mikilvægt þeir telja að eiga umræðuna amk tryggja að þeir fái ekki mjög neikvæða umfjöllun. Það er mjög gaman að skoða myndir í Fréttablaðinu og reyndar líka DV út frá sjónarhóli eigenda. Það sést alveg hverjum er hampað og hverjum er reynt að slátra með því að sjá hvernig myndbirting er.


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ópró DV blaðamennska um blaðamennsku og ópró Kastljósumfjöllun

Ég kipptist við að hlusta á Kastljósið áðan og ég get ekki ímyndað mér annað en þessari umfjöllun verði vísað til siðanefndar blaðamannafélagsins og hugsanlega verður þetta dómsmál líka. Þetta er viðtal við ungan fyrrum blaðamann og svo var spiluð upptaka af samtali sem hann átti við yfirmann sinn, ritstjóra á blaðinu sem hann var á. 

Það voru mörg lög brotin með þessari upptöku og afspilun í Ríkisútvarpinu og margar siðareglur brotnar. Í fyrsta lagi þá er þessi upptaka væntanlega ólögleg, það er ekki eðlilegt að undirmaður taki upp samtal milli sín og yfirmanns án vitundar yfirmannsins og í öðru lagi er kolólöglegt að birta þessa upptöku nema með samþykki beggja. 

Það gæti verið að það væru svo ríkir almannahagsmunir að það réttlætti birtingu á frétt. Svo er ekki þegar maður hlustar á upptökuna (heyrði bara í sjónvarpinu, vefútsending biluð núna), þetta virðist vera ritstjóri sem  hefur verið talinn á að birta ekki umfjöllun um ákveðinn fyrrum bankamann og er að útskýra það fyrir blaðamanninum sem skrifaði fréttina. Fyrrum bankamaðurinn var Sigurjón Árnason og ástæðan virðist vera út af manneskjulegum orsökum þ.e.  maðurinn sem átti að vera inntak fréttarinnar er við það að fara yfir um. Þannig er ástand með marga Íslendinga í dag og þá ekki síst þá sem eru í eldlínunni og skotlínu almennings og fjölmiðla. Þetta eru mannleg örlög og DV hefur ekki góða reynslu af því að keyra í gegn slíka umfjöllun. Það er ekki langt síðan DV ritstjórarnir Jónas og Mikhael þurftu báðir að hætta vegna þess að maður sem tekinn var fyrir á forsíðu fyrir meinta kynferðisglæpi framdi sjálfsmorð um leið og blaðið kom út.

Á þeim tíma þá ætlaði allt um koll að keyra í samfélaginu vegna þess að mönnum þótti DV fara yfir strikið. 

Restin af samtalinu milli ritstjórans og blaðamannsins gengur út á að ritstjórinn er að sætta blaðamanninn við að greinin sé lögð til hliðar. Mér virðist ritstjórinn gera það frekar fagmannlega en alls ekki á hátt að það sé við hæfi að taka það upp og auglýsa í útvarpi.

Það sem stakk mig verst var að ritstjórinn tekur máli sínu til stuðnings dæmi af öðru máli um lögreglumann sem fyrirfór sér, segir frá því að það mál hafi ekki verið til umfjöllun að mér finnst til að útskýra fyrir unga hlerunarblaðamanninum að öll fréttnæm mál séu ekki endilega tekin í fjölmiðlaumræðu, sum séu of viðkvæm.

Íslenskt samfélag er lítið og við þekkum hvert annað og því vill svo til að ég þekki til beggja þessara manna sem gerðir voru að umtalsefni í þessu hleraða samtali. Það er ekki dæmi um góða rannsóknarblaðamennsku að birt sé í ríkisfjölmiðli upptaka þar sem rætt er um geðræn vandamál og harmleiki í lífi tveggja manna.  Mál annars þeirra tengist meir vitanlega ekkert bankahruninu en er eingöngu með vegna þess að ritstjóri DV tekur það sem dæmi um mál sem blaðið hafi meðvitað ekki umfjöllun um.

Hvað getur verið sjálfhverfara og innantómara en rannsóknarblaðamennskuskrípaleikur þar sem birt er í fréttaskýringarþætti í ríkisfjölmiðli ólögleg hlerun á samtali blaðamanns og ritstjóra á dagblaði þar þeir eru að skeggræða sín á milli örlög Íslendinga sem eru að fara yfir um á geði eða hafa framið sjálfsmorð.

Það var nógu svekkjandi að hlusta á umfjöllunina í Kastljósi, en það var ennþá verra að lesa hve grunnt bloggarar köfuðu í þetta mál og hvernig enginn virðist átta sig á að þetta er ekki rannsóknarblaðamennska, þetta er sorpblaðamennska og ólöglegar hleranir og ribbaldaleg vinnubrögð hjá hinum unga hlerara. Satt að segja kemur Reynir DV ritstjóri frekar vel út í þessu viðtali. En Stebbifr copy-paste bloggari er sennilega naskari  á að enduróma almenningsálitið en ég  og hann segir þetta:

"Ég held að allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum hljóti að sjá að trúverðugleiki Reynis Traustasonar sem fjölmiðlamanns hefur skaddast verulega eftir uppljóstranir Jóns Bjarka Magnússonar í Kastljósi kvöldsins. Man satt best að segja ekki eftir svona skúbbi og opinberri niðurlægingu eins og þeirri sem fylgja þessari hljóðupptöku mjög lengi. Þetta er allavega fjölmiðlun sem vekur athygli - Kastljósinu tókst að slá við Kompás, sem var með mjög athyglisverða fréttaskýringu þar, sem hafði mikið verið auglýst mjög upp."

Það er á svona stundum þegar ég er alveg slegin í rot af fáránlegri og siðlausri umfjöllun í íslensku samfélagi og einhvers konar hjarðhegðun þannig að mér finnst bara búa hérna á þriðja hundrað þúsund stebbar sem allir endurtaka og enduróma sömu vitlausu siðleysuna hver upp úr öðrum - að ég hugsa um hvort ég ætti ekki líka að kaupa mér farmiða úr landi.

Hvernig er hægt að þola við í landi þar sem svona vinnubrögð eins og voru í kastljósþættinum í kvöld eru kölluð rannsóknarblaðamennska? 

Gamlir pistlar sem ég hef skrifað um DV mál: 

Þorpið 

Hvað er múgsefjun? 

Hvenær drepur maður mann? 


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar og eigendur þeirra

Núna er barist um yfirráð yfir fjölmiðlum á Íslandi. Sá sem á rödd þjóðarinnar og getur búið til sannleikann getur líka búið til þá ímynd að hann eigandinn sé góðmenni, nánast dýrlingur og það sem hann og þær kvarnir sem honum mala gull séu að vinna í þágu allrar þjóðarinnar. Á Íslandi í dag veit samt enginn neinn um hver á hvað, bæði vegna þess að krosseignatengslin liggja þvers og kruss og fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í fyrirtæki sem á í .... sem er skráð á einhverri undarlegri eyju, ekki Íslandi. Eftir bankahrunið er það ekki einu sinni þannig að fjölmiðlarnir séu í eigu eigenda sinna því mestallt sem skráðir eigendur eiga er veðsett og það er þannig að raunverulegir eigendur eru lánadrottnarnir. 

IMG_2625

Það er ekkert nýtt að fjölmiðlar gangi erinda eigenda sinna sb. þetta nýja DV-mál.  Þegar á reynir þá munu fjölmiðlar alltaf gæta hagsmuna eigenda sinna (eða þeirra sem eiga skuldir eigendanna), annars eru þeir bara lagðir af. Frægt er þegar Björgúlfur ætlaði að kaupa DV til þess eins að leggja það niður og ástæðan var umfjöllun sem honum gramdist um fjölskyldu hans.

 

Fjölmiðlar sem eiga lífsafkomu sína undir auglýsingum eru náttúrulega háðir þeim sem auglýsa og það er því augljós slagsíða á fjölmiðlum að  að þeir hampa kaupmannastéttinni og þeim sem eiga fyrirtækin og hefur Morgunblaðið í gegnum árin gengið erinda þess hóps öðrum fremur. Líka erinda þeirra sem vilja viðhalda völdunum þar sem þau eru þegar.  Þannig hefur Morgunblaðið í gegnum tíðina verið málgagn kaupmannastéttar, ættarveldis og fjármagnseigenda. Tíminn var málgagn Samvinnuhreyfingarinnar og Þjóðviljinn málgagn verkalýðshreyfingar og alþýðu. Þegar flokksblöðin lögðust af þá breyttist íslenska fjölmiðlaumhverfið en það breyttist þannig að næstum öll pressan varð málgagn þeirra sem spiluðu matador um allan heim með peninga sem þeir bjuggu til í eigin bönkum. 

 

 


mbl.is Frétt DV stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fangar og frelsið

Hvað er besta leiðin í fangelsismálum? Er það að byggja sem mest  við Litla-Hraun af rammgerðum, víggirtum fangageymslum einangruðum frá umheiminum  með tvöföldum rafmagnsgirðingum  og alls konar vöktunartækjum og afruglunartækjum? Er það að passa að engin fjarskipti og tjáskipti geti farið fram milli fangelsismúra og umhverfis? 

Ég las tvær greinar um fangelsismál í blöðum áðan. Annars vegar grein um að blokkera eigi aðgang fanga að Netinu og hins  vegar grein um að frestað hafi verið að byggja nýja viðbyggingu á Litla-Hrauni. Sú frétt var skrifuð frá sjónarhóli fangelsisyfirvalda og stjórnenda Litla-Hrauns. 

Nú veit ég vel að Litla-Hraun er stór vinnuveitandi á Eyrarbakka og nærsveitum og það er viss stærðarhagkvæmni að hafa eitt stórt fangelsi. En ég held ekki að það sé best út frá sjónarmiðum Íslendinga og því að fangelsi virki sem betrunarhús að hafa eitt stórt öryggisfangelsi hérna og sleppa svo föngum beint út úr því út í heimili eins og áfangaheimili Verndar. 

Það er nóg húsnæði á Íslandi í dag og allar líkur á að það verði ennþá meira af ónotuðu húsnæði. Það eru í því tækifæri til að reka annars konar fangelsi - fangelsi sem væru meiri  betrunarhús en Litla-Hraun er. Það eru því miður margar sögur um að fangar skaddist  mikið af dvöl sinni í fangelsum, fari inn sem þjófar og smákrimmar og komi út harðsvíraðir glæpamenn. Það er vissulega aðaltilgangur fangelsa að refsa fólki og auðvitað er það engin refsing ef fólk býr glaum og gleði í fangelsum og meiri lúxus en almenningur en þannig er bara ekki ástandið í dag. 

Það er mikið af fólki sem glímir við eitulyfja- og drykkjufíkn í fangelsum og þessi fíkn er stundum líka höfuðorsakavaldur í afbrotum. 

Það er ef til vill betra fyrir íslenskt samfélagið og tryggir meiri mannréttindi á Íslandi að fangelsi séu minni einingar og dreifðari og meira sé lagt upp úr að þau séu betrunarhús en ekki staður til að þrauka eins dofinn og hægt er. það er nú reyndar margt gott gert á Litla-Hrauni núna undir stjórn Margrétar. Ég vildi hins vegar sjá fleiri fangelsismódel og af hverju má samkeppni bara vera um eitthvað sem hægt er að mæla í peningum.  Af hverju má ekki vera samkeppni um fangelsi þar sem árangur er ekki mældur í því hve litlu þarf að kosta til gæslunnar og hve örugg hún er - heldur í því hvernig fangarnir koma út úr fangelsinu - hvernig plumma þeir sig sem manneskjur, brjóta þeir af sér aftur? 

Eitt af því sem mér skilst að sé mikilvægast fyrir fanga er að þeir hafi gott stuðningsnet af fjölskyldu sinni.  Það auðvitað helgast af því að þeir eigi fjölskyldu og hafi ekki brotið svo á henni að allir hafi ekki snúið við þeim baki. Það er þannig hugsanlegt að einhvers konar fangelsismódel þar sem meira er langt upp úr fjölskyldutengslum sé hentugra. Það kann að vera að þessi einangrun og innilokun sé afar óheppileg leið til refsinga. 

hér eru greinar sem ég hef skrifað um fangelsismál 

Mannréttindi fanga á Íslandi 

Bryggjutröllin og mannréttindi glæpamanna Metamorphoses

Fangelsið í næsta húsi

Morðinginn í næsta húsi

Hættulegir fangar í opnu fangelsi - Fangar á Vernd hafa oft brotið af sér

Rasphús Ríkisins 

Fangar tjúllast

 


mbl.is Lokað fyrir netaðgang fanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýludagur - Lúsíudegur

Á morgunn laugardaginn 13. desember er Lúsíudagurinn sem vinir og okkar og nágrannar Svíar hafa gert að árlegum hátíðisdegi og ljósahátíð. Hér á Íslandi verður hátíðin með öðru sniði. Þannig hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli og kvatt til þess að göngumenn lúti höfði og þegi í nákvæmlega 17 mínútur. Mínúturnar eru jafnmargar og valdatími Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn.

alusikatter4bLúsíuhátíðin sænska er ljósahátíð þar sem gyðja er tilbeðin og hátíðin er haldin í mesta skammdeginu. Svíarnir baka sólbrauð og dýrka sólina með ýmsum hætti. Saffran er sett í sólbrauðin sem kallast lusieklatter og sum þeirra eru formuð eins og snúðar en sum eru formuð með ævagömlu tákni, sólkrossinum.  Sólkrossinn sem er bakaður í brauð  er þó með mjúkar línur, ekki harðar beinar línur eins og Swastika Þriðja ríkisins. 

Margir af þeim ritúölum sem tengjast myrkasta skammdeginu eru einhver konar hermigaldrar sem óma þrána eftir birtu, vori og gróanda, gjörningar þar sem  hermt er á táknrænan hátt eftir sólinni með því að hengja upp í híbýlum jólaljósaseríur, skreyta sígræn tré og greinar og stilla þeim upp í stofum og svo rifja upp söguna um að allt endurfæðist, það sögð sagan um nýfædda barnið í jötunni um hver jól. Á Íslandi  vaknar líka upp ný Grýla um hver jól.

Grýla er líka tengd ljósinu og skammdeginu og vetrinum. Hún birtist um sama leyti og Lúsía vitrast Svíum.

 

Hér eru nokkrir kaflar úr ritverkinu Grýla og jólasveinar sem ég gerði fyrir meira en einum áratug.

1. kafliGrýla með poka og pott, aldur og útlit,
afkomendur, breytingar á Grýlu gegnum aldirnar.
2. kafliHvað tákna Grýlusögur?
Grimm yfirvöld, náttúra og landslag, verri hliðar móður, uppeldistæki.
3. kafliHvað tákna Grýlusögur?
Hlutskipti kvenna, eiginkonur, ómegð, dyggðir og breyskleiki.
4. kafliHvað tákna Grýlusögur?
Fullorðinsár, lífsbarátta, atvinnulíf.
Óður til óttans.
5. kafliGrýla á 20. öld
Hefur Grýla mildast?
Gamanmál og grá alvara
6. kafli

Grýlukvæði á 20.öld
Grýlukvæði Jóhannesar úr Kötlum
Grýlukvæði Ómars Ragnarssonar
Grýlukvæði Þórarins Eldjárns 

Hér e Grýla, Grýlur, Grøleks and Skeklers (Terry Gunnell) 

 


mbl.is Þögul mótmæli á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hátíðisdagur mannréttinda í dag - opinn fundur Mannréttindaráðs

Fundur mannréttindaráðs

Í morgun fór ég á morgunverðarfund hjá Mannréttindaráði Reykjavíkurborgar. Þetta var fundur sem er opinn öllum borgarbúum og vel til fundið að hafa hann sérstakan hátíðafund því einmitt í dag  er 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Mannréttindaskrifstofa Íslands verður svo með athöfn síðar í dag og Amnesty með tónleika í kvöld.

Þetta var mjög skemmtilegur og fræðandi fundur, siðfræðingarnir Vilhjálmur Árnason og Salvör Nordal fluttu erindi og svöruðu fyrirspurnum og Marta Guðjónsdóttir formaður Mannréttindaráðs stýrði fundinum og hún og  Anna Kristinsdóttir mannréttindastjóri sögðu frá starfi Mannréttindaskrifstofu og Mannréttindanefndar í Reykjavík. 

Ég er varaformaður Mannréttindaráðs og þó mér finnist alltaf mjög gaman og gefandi að vinna með ráðinu þá fannst mér þó þessi fundur sérlega skemmtilegur  því áherslan hjá okkur vanalega er meira á praktísk viðfangsefni sem snúa að mannréttindum íbúa í Reykjavík en í morgun var fjallað um mannréttindi út frá heimspekilegu og siðfræðilegu sjónarhorni. 

Ég er ekki búin að vera lengi í Mannréttindaráði, ég kom inn þegar síðustu stjórnarskipti voru í Reykjavík og Óskar Bergson fulltrúi okkar Framsóknarmanna og Hanna  Birna mynduðu meirihluta. Ég hafði því enga reynslu af nefndastarfi í borginni en nú sit ég í tveimur nefndum, Mannréttindaráði og barnaverndarnefnd. Þó að hver höndin sé upp á móti annarri í þjóðmálunum á Íslandi í dag þá virðist mér að það sé allt öðru vísi unnið núna í Reykjavíkurborg. Mér virðist þar unnið í sátt og heilindum af bæði meirihluta og minnihluta að mæta þessari nýju gjörbreyttu stöðu sem við erum í núna í Reykjavík.

Fundur mannréttindaráðs

Annars eru hér hugleiðingar mínar úr fyrirlestrum siðfræðinganna um mannréttindi. Vilhjálmur sagði að það reyndi oft mest á mannréttindi þegar úrhrök eiga í hlut.

Hér fór ég að hugsa um  að ef til vill ættum við að skoða núna hver við teljum mestu úrhrök samfélagsins og hvaða líf við teljum að þeim ætti að bjóðast. Hvernig mannréttindi viljum við að útrásarvíkingarnir hafi? Hvað með þá sem hafa framið viðurstyggileg brot og sitja fangaðir inn á Litla-Hrauni? Hvernig sjáum við mannréttindi þekktra barnaníðinga?  Finnst okkur það eðlilegt að veikir menn séu hundeltir í fjölmiðlum og af íbúum, finnst okkur að það megi réttlæta af því að viðkomandi hefur framið afbrot sem okkur finnast viðurstyggileg og þjáist af veiki sem okkur finnst viðbjóðsleg og  okkur grunar að viðkomandi gæti í framtíðinni framið önnur afbrot? Vissulega er það prófraun á okkur hvort við viljum að þessir aðilar njóti mannréttinda eða hvort við segjum - þeir gerðu þetta og þetta af sér, við skulum grilla þá á teini.

Vilhjálmur talaði um mannhelgi sem ímyndað rými - tjáningarrými  eða griðland þar sem einstaklingurinn hefur til umráða og stjórnvöld geta ekki seilst í. Hann talaði líka um mannréttindi sem gæðarétt - það verða að vera til staðar efnislegar forsendur, fólk verður að vita hvaða valkosti það hefur og mannréttindi eru réttur til afskiptaleysis en byggjast líka á efnislegum bjargráðum þ.e. að fólk geti séð fyrir sér. Hann talaði líka um rétt mannréttinda við skyldur m.a. um griðarétt í tengslum við taumhaldsskyldur annarra (tók dæmi um líknarmorð), réttur til lífs kallar á aðhlynningu, frelsisréttur kallar á menntun. Vilhjálmur nefndi að sjónarhorn frjálshyggju væri þannig að einstaklingurinn væri í varnaraðstöðu gagnvart ríkisvaldi m.a. horft á skattheimtu þannig. Sjónarhornið væri þannig ekki á samtryggingu og jöfnun í gegnum skattheimtu.

Hann ræddi um forsendur samræðusamfélags, samræðan mætti ekki vera þannig að sumir gætu ekki tekið þátt af því þeir væru niðurlægðir. Siðfræðingarnir ræddu báðir um hlutverk tungumálsins hvernig það er notað í umræðunni. Salvör líkti mannréttindum við tromp á hendi (hmmm... spilamennsku og lottókassasamfélagið íslenska er svo gegnsýrt í umræðuna að myndlíkingar siðfræðinga koma úr spilamennsku - það er áhugavert að skoða hvernig þessi myndlíking hefur áhrif á umræðuna), hún talaði líka um hvernig réttindi kallast á við skyldur og útskýrði neikvæð réttindi eða griðaréttindi en það eru t.d. kröfur á aðra að láta okkur afskiptalaus. Hún fór líka yfir grundvallarréttindi sem væru forsenda þess að við gætum notið annarra mannréttinda - við yrðu að hafa rétt til líkamlegs öryggis, lágmarks lífsviðurværi og sum frelsisréttindi. Salvör nefndi skyldur sem kallast á við réttindi s.a. skylda til að vernda fólk við réttindabrotum, skylda til að aðstoað þá sem brotið er á. Hún ræddi um mannréttindi sem hugsjón eða kröfu um hegðun og hún ræddi um tjáningarfrelsi - bæði frelsi til að afla upplýsinga og frelsi til að birta upplýsingar. Salvör ræddi einnig um þöggun og rök fyrir tjáningarfrelsi. Hún tók sem dæmi tvö svið klám og kynþáttahatursumræðu og varpaði fram spurningum um hvernig og hvort ritskoðun og höft á slíkri umræðu væru höft á tjáningarfrelsi.

Hér er svo til upprifjunar Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna. Allir ættu að lesa hana vel því hún er eins og stjórnarskrá okkar í samfélagi þjóðanna.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna

Samþykkt á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hinn 10. desember 1948.

Mannréttindayfirlýsingin er ekki þjóðréttarsamningur og því ekki bindandi að lögum fyrir aðildarríki Sameinuðu þjóðanna. Sumir fræðimenn telja þó Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna bindandi að þjóðarétti því svo títt hafi verið til hennar vísað af leiðtogum þjóða heimsins að hún hafi öðlast vægi réttarvenju.


Inngangsorð

Það ber að viðurkenna, að hver maður sé jafnborinn til virðingar og réttinda, er eigi verði af honum tekin, og er þetta undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.

Hafi mannréttindi verið fyrir borð borin og lítilsvirt, hefur slíkt í för með sér siðlausar athafnir, er ofboðið hafa samvisku mannkynsins, enda hefur því verið yfir lýst, að æðsta markmið almennings um heim allan sé að skapa veröld, þar sem menn fái notið málfrelsis, trúfrelsis og óttaleysis um einkalíf og afkomu.

Mannréttindi á að vernda með lögum. Að öðrum kosti hljóta menn að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.

Það er mikilsvert að efla vinsamleg samskipti þjóða í milli.

Í stofnskrá sinni hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfir trú sinni á grundvallaratriði mannréttinda, á göfgi og gildi mannsins og jafnrétti karla og kvenna, enda munu þær beita sér fyrir félagslegum framförum og betri lífsafkomu með auknu frelsi manna.

Aðildarríkin hafa bundist samtökum um að efla almenna virðingu fyrir og gæslu hinna mikilsverðustu mannréttinda í samráði við Sameinuðu þjóðirnar.

Til þess að slík samtök megi sem best takast, er það ákaflega mikilvægt, að almennur skilningur verði vakinn á eðli slíkra réttinda og frjálsræðis.

Fyrir því hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna fallist á mannréttindayfirlýsingu þá, sem hér með er birt öllum þjóðum og ríkjum til fyrirmyndar. Skulu einstaklingar og yfirvöld jafnan hafa yfirlýsingu þessa í huga og kappkosta með fræðslu og uppeldi að efla virðingu fyrir réttindum þeim og frjálsræði, sem hér er að stefnt. Ber og hverjum einum að stuðla að þeim framförum, innan ríkis og ríkja í milli, er að markmiðum yfirlýsingarinnar stefna, tryggja almenna og virka viðurkenningu á grundvallaratriðum hennar og sjá um, að þau verði í heiðri höfð, bæði meðal þjóða aðildarríkjanna sjálfra og meðal þjóða á landsvæðum þeim, er hlíta lögsögu aðildarríkja.


1. grein

Hver maður er borinn frjáls og jafn öðrum að virðingu og réttindum. Menn eru gæddir vitsmunum og samvisku, og ber þeim að breyta bróðurlega hverjum við annan.

2. grein

1.Hver maður skal eiga kröfu á réttindum þeim og því frjálsræði, sem fólgin eru í yfirlýsingu þessari, og skal þar engan greinarmun gera vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðernis, uppruna, eigna, ætternis eða annarra aðstæðna.

2.Eigi má heldur gera greinarmun á mönnum fyrir sakir stjórnskipulags lands þeirra eða landsvæðis, þjóðréttarstöðu þess eða lögsögu yfir því, hvort sem landið er sjálfstætt ríki, umráðasvæði, sjálfstjórnarlaust eða á annan hátt háð takmörkunum á fullveldi sínu.

3. grein

Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.

4. grein

Engan mann skal hneppa í þrældóm né nauðungarvinnu. Þrælahald og þrælaverslun, hverju nafni sem nefnist, skulu bönnuð.

5. grein

Enginn maður skal sæta pyndingum, grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

6. grein

Allir menn skulu, hvar í heimi sem er, eiga kröfu á að vera viðurkenndir aðilar að lögum.

7. grein

Allir menn skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án manngreinarálits. Ber öllum mönnum réttur til verndar gegn hvers konar misrétti, sem í bága brýtur við yfirlýsingu þessa, svo og gagnvart hvers konar áróðri til þess að skapa slíkt misrétti.

8. grein

Nú sætir einhver maður meðferð, er brýtur í bága við grundvallarréttindi þau, sem tryggð eru í stjórnarskrá og lögum, og skal hann þá eiga athvarf hjá dómstólum landsins til þess að fá hlut sinn réttan.

9. grein

Ekki má eftir geðþótta taka menn fasta, hneppa þá í fangelsi eða varðhald né gera þá útlæga.

10. grein

Nú leikur vafi á um réttindi þegns og skyldur, eða hann er borinn sökum um glæpsamlegt athæfi, og skal hann þá njóta fulls jafnréttis við aðra menn um réttláta opinbera rannsókn fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli.

11. grein

1.Hvern þann mann, sem borinn er sökum fyrir refsivert athæfi, skal telja saklausan, uns sök hans er sönnuð lögfullri sönnun fyrir opinberum dómstóli, enda hafi tryggilega verið búið um vörn sakbornings.

2.Engan skal telja sekan til refsingar, nema verknaður sá eða aðgerðarleysi, sem hann er borinn, varði refsingu að landslögum eða þjóðarétti á þeim tíma, er máli skiptir. Eigi má heldur dæma hann til þyngri refsingar en þeirrar, sem að lögum var leyfð, þegar
verknaðurinn var framinn.

12. grein

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

13. grein

1.Frjálsir skulu menn vera ferða sinna og dvalar innan landamæra hvers ríkis.

2.Rétt skal mönnum vera að fara af landi burt, hvort sem er af sínu landi eða öðru, og eiga afturkvæmt til heimalands síns.

14. grein

1.Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum.

2.Enginn má þó skírskota til slíkra réttinda, sem lögsóttur er með réttu fyrir ópólitísk afbrot eða atferli, er brýtur í bága við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.

15. grein

1.Allir menn hafa rétt til ríkisfangs.

2.Engan mann má eftir geðþótta svipta ríkisfangi né rétti til þess að skipta um ríkisfang.

16. grein

1.Konum og körlum, sem hafa aldur til þess að lögum, skal heimilt að stofna til hjúskapar og fjölskyldu, án tillits til kynþáttar, þjóðernis eða trúarbragða. Þau skulu njóta jafnréttis um stofnun og slit hjúskapar, svo og í hjónabandinu.

2.Eigi má hjúskap binda, nema bæði hjónaefnin samþykki fúsum vilja.

3.Fjölskyldan er í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins, og ber þjóðfélagi og ríki að vernda hana.

17. grein

1.Hverjum manni skal heimilt að eiga eignir, einum sér eða í félagi við aðra.

2.Engan má eftir geðþótta svipta eign sinni.

18. grein

Allir menn skulu frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar. Í þessu felst frjálsræði til að skipta um trú eða játningu og enn fremur til að láta í ljós trú sína eða játningu, einir sér eða í félagi við aðra, opinberlega eða einslega, með kennslu, tilbeiðslu, guðsþjónustum og helgihaldi.

19. grein

Hver maður skal vera frjáls skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur slíkt frjálsræði í sér réttindi til þess að leita, taka við og dreifa vitneskju og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.

20. grein

1.Hverjum manni skal frjálst að eiga þátt í friðsamlegum fundahöldum og félagsskap.

2.Engan mann má neyða til að vera í félagi.

21. grein

1.Hverjum manni er heimilt að taka þátt í stjórn lands síns, beinlínis eða með því að kjósa til þess fulltrúa frjálsum kosningum.

2.Hver maður á jafnan rétt til þess að gegna opinberum störfum í landi sínu.

3.Vilji þjóðarinnar skal vera grundvöllur að valdi ríkisstjórnar. Skal hann látinn í ljós með reglubundnum, óháðum og almennum kosningum, enda sé kosningarréttur jafn og leynileg atkvæðagreiðsla viðhöfð eða jafngildi hennar að frjálsræði.

22. grein

Hver þjóðfélagsþegn skal fyrir atbeina hins opinbera eða alþjóðasamtaka og í samræmi við skipulag og efnahag hvers ríkis eiga kröfu á félagslegu öryggi og þeim efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum réttindum, sem honum eru nauðsynleg til þess að virðing hans og þroski fái notið sín.

23. grein

1.Hver maður á rétt á atvinnu að frjálsu vali, á réttlátum og hagkvæmum vinnuskilyrðum og á vernd gegn atvinnuleysi.

2.Hverjum manni ber sama greiðsla fyrir sama verk, án manngreinarálits.

3.Allir menn, sem vinnu stunda, skulu bera úr býtum réttlátt og hagstætt endurgjald, er tryggi þeim og fjölskyldum þeirra mannsæmandi lífskjör. Þeim ber og önnur félagsleg vernd, ef
þörf krefur.

4.Hver maður má stofna til stéttarsamtaka og ganga í þau til verndar hagsmunum sínum.

24. grein

Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda, og telst þar til hæfileg takmörkun vinnutíma og reglubundið orlof að óskertum launum.

25. grein

1.Hver maður á kröfu til lífskjara, sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan hans sjálfs og fjölskyldu hans. Telst þar til matur, klæðnaður, húsnæði, læknishjálp og nauðsynleg félagshjálp, svo og réttindi til öryggis gegn atvinnuleysi, veikindum, örorku, fyrirvinnumissi, elli eða öðrum áföllum, sem skorti valda og hann getur ekki við gert.

2.Mæðrum og börnum ber sérstök vernd og aðstoð. Öll börn, skilgetin sem óskilgetin, skulu njóta sömu félagsverndar.

26. grein

1.Hver maður á rétt til menntunar. Skal hún veitt ókeypis, að minnsta kosti barnafræðsla og undirstöðumenntun. Börn skulu vera skólaskyld. Iðnaðar- og verknám skal öllum standa til boða og æðri menntun vera öllum jafnfrjáls, þeim er hæfileika hafa til að njóta hennar.

2.Menntun skal beina í þá átt að þroska persónuleika einstaklinganna og innræta þeim virðingu fyrir mannréttindum og mannhelgi. Hún skal miða að því að efla skilning, umburðarlyndi og vináttu meðal allra þjóða, kynþátta og trúarflokka og að efla starf Sameinuðu þjóðanna í þágu friðarins.

3.Foreldrar skulu fremur öðrum ráða, hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta.

27. grein

1.Hverjum manni ber réttur til þess að taka frjálsan þátt í menningarlífi þjóðfélagsins, njóta lista, eiga þátt í framförum á sviði vísinda og verða aðnjótandi þeirra gæða, er af þeim leiðir.

2.Hver maður skal njóta lögverndar þeirra hagsmuna, í andlegum og efnalegum skilningi, er leiðir af vísindaverki, ritverki eða listaverki, sem hann er höfundur að, hverju nafni sem nefnist.

28. grein

Hverjum manni ber réttur til þess þjóðfélags- og milliþjóðaskipulags, er virði og framkvæmi að fullu mannréttindi þau, sem í yfirlýsingu þessari eru upp talin.

29. grein

1.Hver maður hefur skyldur við þjóðfélagið, enda getur það eitt tryggt fullan og frjálsan persónuþroska einstaklingsins.

2.Þjóðfélagsþegnar skulu um réttindi og frjálsræði háðir þeim takmörkunum einum, sem settar eru með lögum í því skyni að tryggja viðurkenningu á og virðingu fyrir frelsi og réttindum annarra og til þess að fullnægja réttlátum kröfum um siðgæði, reglu og velferð almennings í lýðfrjálsu þjóðfélagi.

3.Þessi mannréttindi má aldrei framkvæma svo, að í bága fari við markmið og grundvallarreglur Sameinuðu þjóðanna.

30. grein

Ekkert atriði þessarar yfirlýsingar má túlka á þann veg, að nokkru ríki, flokki manna eða einstaklingi sé heimilt að aðhafast nokkuð það, er stefni að því að gera að engu nokkur þeirra mannréttinda, sem hér hafa verið upp talin

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband