Hvíta gullið í Mexíkó

Kona frá landamæraborginni Ciudad Juarez er nú stödd á Íslandi. Hún talar um kvennamorðin í borginni og hennar kenning er að morðin séu innvígsluaðferðir gengja.  Juarez er eini staðurinn sem ég hef komið til í Mexíkó og ég ferðaðist þá einmitt um fátækrabyggðirnar í hlíðunum þar sem flestar hinar myrtu bjuggu. Það var að mig minnir árið 1996.  Ég rifjaði upp þessa ferð í bloggpistli  28.11.03  og læt hann hér fylgja með:

Landamæri Texas og Mexikó El Paso og Juarez Ég hef bara farið á einn stað í Mexíkó. Það er í landamæraborgina Ciudad Juarez og þar var ég bara í tvo daga. Ég hefði viljað vera þar lengur og rölta um hlíðar sem einu sinni voru beitarlönd fyrir stórar nautgripahjarðir. Hlíðar sem voru þaktar kofum og hreysum, þetta voru íbúahverfi í þessari borg en þarna var ekkert rafmagn og ekkert vatn, ég held að vatnið hafi komið í vatnsbílum. Vegarslóðar liðuðust um hlíðarnar eins og kimar í völundarhúsi, það voru engar vegamerkingar, engin merki um áhrif frá miðstýrðu borgarskipulagi, þessi byggð virtist reist utan við lög og rétt.

Ég hef oft komið í slömm í erlendum borgum þó sjaldan hafi þau verið fátæklegri. En þetta hverfi hreif mig - mér fannst hreysin vera dulbúnar hallir og það var eitthvað við landslagið - andstæður og fegurð - það var útsýni yfir Rio Grande ána og og yfir í Texas þar sem stjarnan stóra blikar öll kvöld. Þessi stjarna hefur logað frá 1940 og þekur heila fjallshlíð, hún var fyrst vörumerki rafveitunnar í El Placo en er núna orðið tákn borgarinnar og síðustu árin hefur hún blikað á hverju kvöldi, ekki bara um jólaleytið. En séð frá fátækrabyggðum í hlíðum Ciudad Juarez er stjarnan vonarstjarna. Eða villuljós.

Sitt hvorum megin við ána Río Grande standa borgirnar El Plaso og Ciudad Juarez. Önnur er í USA og hin er í Mexíkó. Ég veit ekki við hverju ég hafði búist þegar við fórum yfir ána. Alla vega ekki þessu. Ekki svona örtröð, svona óendanlegri bílalest, bílarnir voru líka skrýtnir, margir ævagamlir og illa útlítandi, svona eins og skröltandi brotajárnshaugar. Og svo margir bílarnir voru fullir af fólki. Réttara sagt fullir af karlmönnum í vinnugöllum. Einhvers konar farandverkamenn á leið til USA. Svo voru öll uppljómuðu vegaskiltin sem blöstu við þegar komið var yfir í Mexíkó. Mörg voru að auglýsa lyf og pillur það stóð alla vega víðast hvar Drugstore.

Svo síðdegis fylltust göturnar af verksmiðjustarfsfólki á heimleið. Mér sýndist það vera mest ungar stúlkur og ég tók eftir að þær voru í einföldum klæðnaði en með litskrúðug hárskraut og eyrnalokka og hálsfestar. Á mörgum gatnamótum í Ciudad Juarez voru Indjánar stundum voru það konur með fléttu á baki og barnahóp í togi sem fetuðu milli bílanna með tusku undna í vatni og buðust til að þurrka af framrúðunni fyrir smáaura. Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar.


Það er einhver gullgrafarablær yfir Ciudad Juarez. Það sogast fólk að þessari borg og þessum landamærum í leit að betri framtíð og auðteknum gróða. En það er ekki málmurinn gull og þar er ekki jarðefnið olía sem er verðmætin og varningurinn. Þarna er hlið inn í vestrænt neyslusamfélag og skiptimyntin er vinna verkafólks. En í landamæraborginni Ciudad Juarez er dauðalínan. Það var grein um ástandið í Ciudad Juarez í Morgunblaðinu í dag (28.11.03). Þar hafa 263 konur verið myrtar frá því í janúar 1993.

Ég vona að þessi grein í Morgunblaðinu sé merki um að augu heimsins muni einhvern tíma opnast fyrir ástandinu í gullgrafarabæjum nútímans eins og Ciudad Juarez. Ég vona að fólk átti sig á að mannfallið og aftökurnar eru ekki mestar í skotbardögum þar sem bófagengi og góðu kúrekarnir plaffa hvern annan niður. Í þessari landamæraborg eru konur kyrktar og limlestar í svo stórum stíl að borgin hefur verið nefnd Ciudad Juarez: The Serial Killer´s Playground eða leikvangur raðmorðingja. Það er gífurlega víðfeðm leit að morðingjanum og löggæslumenn í borginni eru ásakaðir um spillingu og vanhæfni. En kannski er morðinginn ekki einn maður heldur margir og kannski eru morðin afleiðing af ástandi og spennu og viðhorfum á þessum stað. Um ástandið má lesa í þessari grein:
NPR : Curruption at the Gates (September, 2002).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Góð grein hjá þér Salvör, og áhugavert að lesa um upplifun þína á Ciudad Juarez. Ég bjó mörg ár í Mexíkó en kom aldrei til þessarar borgar. Aftur á móti hef ég heyrt mikið af fólki tala um hvað þetta er hættulegt svæði, og að þeir sem rétt skreppi yfir landamærin frá Bandaríkjunum fái mjög skakka mynd af Mexíkó. Einnig er mikið rætt um þetta mál í Mexíkó, og tel ég að megin ástæðan fyrir hvað lítið er gert í þessu er einmitt tengt stjórnleysi og þeirri miklu hættu sem fylgir því að vinna á þessu svæði. Venjulegt fólk verður einfaldlega ráðalaust þegar slíkir hlutir gerast. Mikið hefur verið spurt um hvað valdi þessu, og ein sterkasta kenningin snýst um að þarna séu glæpahringir að verki sem meðal annars þrífast á ofbeldisfullu klámi og barnaklámi, sem síðan er selt út um allan heim. 

En um þessa málsgrein: "Ég skil ekki alveg hver er kallaður indjáni og hver ekki á þessum slóðum, ég held helst að þeir sem eru fátækir og nýkomnir úr sveitinni á mölina séu kallaðir indjánar. Þeir sem hafa staðfest sig í borginni og klæða sig og klippa hár sitt að sið borgarbúa eru ekki indjánar." 

Innfæddir einstaklingar í Mexíkó vilja alls ekki vera kallaðir 'indjánar', það þykir niðrandi hugtak og móðgandi; rétt eins og 'niggari'. Orðið sem notað er yfir innfædda í Mexíkó er 'indijenas', sem er skyldara hugtakinu 'innfæddur' en 'indjáni'. 'Indjáni' er hugtakið sem Cortes og hans menn notuðu yfir fólkið í Mexíkó þegar þeir komu fyrst á staðinn, enda héldu þeir að þeir væru komnir til Indlands.

Hrannar Baldursson, 15.3.2007 kl. 23:16

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir upplýsingarnar Hrannar, gott að heyra frá manni sem hefur búið í Mexíkó. Landamæraborgirnar eru sérstakir staðir, það var átakanlegt hvað var mikill munur á Juarez og El Paso

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.3.2007 kl. 23:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband