Flautaþyrill - nafn á íslenska fjármálajólasveininum

Núna í dag eru vetrarsólstöður og upp úr þessu fer daginn að lengja. Það eru samt eftir erfiðustu mánuðir vetrarins, mánuðir þar sem frosthörkur eru mestar og veðrin verst. Þannig er það líka með efnahagslífið. Við vitum að framundan eru meiri hörkur en núna en það versta er að það er algjör óvissa hvernig ástandið verður og hvenær botni kreppunnar verður náð. Í náttúrunni vitum við að sólin mun hækka á lofti og við getum treyst því að vorið komi í maí og bræði klakann úr jörðu. En hvenær verður klakinn bræddur úr efnahagslífi heimsins?

Efnahagskerfi heimsins er lamað og stjórnvöld keppast við að bregðast við því. En gallinn er bara sá að stjórnvöld geta það ekki og margt af því sem þau gera er til þess fallið að frysta kerfið ennþá meira. Það gera líka einstaklingarnir. Allir reyna að hreyfa sig sem minnst í heimi viðskipta, fólk kaupir ekki vörur og sérstaklega ekki dýra hluti eins og fasteignir og bíla. Eyðslan sem mælist í vöruskiptahalla okkar snarminnkar og þetta eru stjórnmálamenn ánægðir með. Gallinn er bara sá að það er ekki bara að við kaupum ekki vörur, þeir sem við seldum vörur kaupa heldur ekki vörur.

Fjármálakerfi heimsins er götótt og gagnslitið og passar engan veginn fyrir það kerfi framleiðslu og lífshátta sem við erum að fara inn í - en það er  samt eins og er besta kerfið sem völ var á  til að hagnýta þekkingu - fjármálamarkaðir breyta þekkingu í verðmæti og fjármagn flyst til þangað sem mestur arður var. Þetta kerfi er bara orðið feyskið og lúið og þó það passaði vel fyrir iðnaðarsamfélag þar sem vörur flytjast frá framleiðanda til neytanda þá passar það ekki fyrir öðruvísi samfélag, samfélag öðruvísi og samantvinnaðri hnattrænna framleiðsluhátta.

Peningar hafa allt annað vægi í svoleiðis kerfi en í verksmiðjusamfélagi gærdagsins og í úttútnuðu bankakerfi heimsins sem bara bjó til peninga án þess að þeir væru nein ávísun á verðmæti þá sjóða í sífellu upp bólur og það freyðir um allt og þetta kerfi viðhelst á meðan einhver trúir á það. En bólurnar springa af sjálfu sér  og froðan skreppur saman niður í ekki neitt.

Kannski er betri myndlíking að tala um þeytta undarrennu heldur en froðu. Undanrenna var stundum þeytt til hún sýndist meiri. Það þótti harðindamatur og vont í maga. Verkfærið sem notað var til að þeyta undanrennu var kallað flautaþyrill. Það orð fékk svo aðra merkingu, er notað um þann sem baslast áfram og kúðrar. Það mætti gjarnan taka það orð upp sem sérstakt orð yfir þá sem hafa stýrt fjármálum íslensku þjóðarinnar undanfarin ár. Um flautir og flautaþyrla má lesa í  ELDAMENNSKA Í ÍSLENSKU TORFBÆJUNUM en orðið hefur tvöfalda merkingu 

1: Áhald til að fleyta þautir
2: Óstöðuglyndur maður og fljótfær maður, sá sem er með hringlandahátt

Reyndar var orðið Flautaþyrill líka nafn á jólasveini skv. jólasveinatali Árna Björnssonar.

Ástandið fyrir kreppuna einkenndist af froðu og bólum en því er  öfugt farið eftir hrunið. Núna er besta myndlíkingin fyrir ástandið frost. Þess vegna er Ísland og íslenskir jöklar svo góð myndlíking fyrir heimskreppuna sem reyndar líka frysti fyrst allt hér á klakanum. Það er margt líkt með þeirri heimskreppu sem nú er skollin á og heimskreppunni  1929. Það var þá  líka  verðhjöðnun. Það er miklu verra ástand en verðbólga.


mbl.is Hvetur til útgjalda til þess að örva hagkerfi heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ágætur pistill. Minnir mig á sjónvarpsfrétt sem Ómar Ragnarsson setti saman fyrir 20 árum og vel það þar sem hann fjallaði um jólaglöggina sem þá var að byrja. Í lok fréttanna kom hann svo með ný nöfn jólasveinanna í samræmi við efni fréttarinnar. Man sérstaklega að einn sveinkanna hét Glöggagægir.

sbs

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 22.12.2008 kl. 09:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband