Ópró DV blaðamennska um blaðamennsku og ópró Kastljósumfjöllun

Ég kipptist við að hlusta á Kastljósið áðan og ég get ekki ímyndað mér annað en þessari umfjöllun verði vísað til siðanefndar blaðamannafélagsins og hugsanlega verður þetta dómsmál líka. Þetta er viðtal við ungan fyrrum blaðamann og svo var spiluð upptaka af samtali sem hann átti við yfirmann sinn, ritstjóra á blaðinu sem hann var á. 

Það voru mörg lög brotin með þessari upptöku og afspilun í Ríkisútvarpinu og margar siðareglur brotnar. Í fyrsta lagi þá er þessi upptaka væntanlega ólögleg, það er ekki eðlilegt að undirmaður taki upp samtal milli sín og yfirmanns án vitundar yfirmannsins og í öðru lagi er kolólöglegt að birta þessa upptöku nema með samþykki beggja. 

Það gæti verið að það væru svo ríkir almannahagsmunir að það réttlætti birtingu á frétt. Svo er ekki þegar maður hlustar á upptökuna (heyrði bara í sjónvarpinu, vefútsending biluð núna), þetta virðist vera ritstjóri sem  hefur verið talinn á að birta ekki umfjöllun um ákveðinn fyrrum bankamann og er að útskýra það fyrir blaðamanninum sem skrifaði fréttina. Fyrrum bankamaðurinn var Sigurjón Árnason og ástæðan virðist vera út af manneskjulegum orsökum þ.e.  maðurinn sem átti að vera inntak fréttarinnar er við það að fara yfir um. Þannig er ástand með marga Íslendinga í dag og þá ekki síst þá sem eru í eldlínunni og skotlínu almennings og fjölmiðla. Þetta eru mannleg örlög og DV hefur ekki góða reynslu af því að keyra í gegn slíka umfjöllun. Það er ekki langt síðan DV ritstjórarnir Jónas og Mikhael þurftu báðir að hætta vegna þess að maður sem tekinn var fyrir á forsíðu fyrir meinta kynferðisglæpi framdi sjálfsmorð um leið og blaðið kom út.

Á þeim tíma þá ætlaði allt um koll að keyra í samfélaginu vegna þess að mönnum þótti DV fara yfir strikið. 

Restin af samtalinu milli ritstjórans og blaðamannsins gengur út á að ritstjórinn er að sætta blaðamanninn við að greinin sé lögð til hliðar. Mér virðist ritstjórinn gera það frekar fagmannlega en alls ekki á hátt að það sé við hæfi að taka það upp og auglýsa í útvarpi.

Það sem stakk mig verst var að ritstjórinn tekur máli sínu til stuðnings dæmi af öðru máli um lögreglumann sem fyrirfór sér, segir frá því að það mál hafi ekki verið til umfjöllun að mér finnst til að útskýra fyrir unga hlerunarblaðamanninum að öll fréttnæm mál séu ekki endilega tekin í fjölmiðlaumræðu, sum séu of viðkvæm.

Íslenskt samfélag er lítið og við þekkum hvert annað og því vill svo til að ég þekki til beggja þessara manna sem gerðir voru að umtalsefni í þessu hleraða samtali. Það er ekki dæmi um góða rannsóknarblaðamennsku að birt sé í ríkisfjölmiðli upptaka þar sem rætt er um geðræn vandamál og harmleiki í lífi tveggja manna.  Mál annars þeirra tengist meir vitanlega ekkert bankahruninu en er eingöngu með vegna þess að ritstjóri DV tekur það sem dæmi um mál sem blaðið hafi meðvitað ekki umfjöllun um.

Hvað getur verið sjálfhverfara og innantómara en rannsóknarblaðamennskuskrípaleikur þar sem birt er í fréttaskýringarþætti í ríkisfjölmiðli ólögleg hlerun á samtali blaðamanns og ritstjóra á dagblaði þar þeir eru að skeggræða sín á milli örlög Íslendinga sem eru að fara yfir um á geði eða hafa framið sjálfsmorð.

Það var nógu svekkjandi að hlusta á umfjöllunina í Kastljósi, en það var ennþá verra að lesa hve grunnt bloggarar köfuðu í þetta mál og hvernig enginn virðist átta sig á að þetta er ekki rannsóknarblaðamennska, þetta er sorpblaðamennska og ólöglegar hleranir og ribbaldaleg vinnubrögð hjá hinum unga hlerara. Satt að segja kemur Reynir DV ritstjóri frekar vel út í þessu viðtali. En Stebbifr copy-paste bloggari er sennilega naskari  á að enduróma almenningsálitið en ég  og hann segir þetta:

"Ég held að allir þeir sem fylgjast með fjölmiðlum hljóti að sjá að trúverðugleiki Reynis Traustasonar sem fjölmiðlamanns hefur skaddast verulega eftir uppljóstranir Jóns Bjarka Magnússonar í Kastljósi kvöldsins. Man satt best að segja ekki eftir svona skúbbi og opinberri niðurlægingu eins og þeirri sem fylgja þessari hljóðupptöku mjög lengi. Þetta er allavega fjölmiðlun sem vekur athygli - Kastljósinu tókst að slá við Kompás, sem var með mjög athyglisverða fréttaskýringu þar, sem hafði mikið verið auglýst mjög upp."

Það er á svona stundum þegar ég er alveg slegin í rot af fáránlegri og siðlausri umfjöllun í íslensku samfélagi og einhvers konar hjarðhegðun þannig að mér finnst bara búa hérna á þriðja hundrað þúsund stebbar sem allir endurtaka og enduróma sömu vitlausu siðleysuna hver upp úr öðrum - að ég hugsa um hvort ég ætti ekki líka að kaupa mér farmiða úr landi.

Hvernig er hægt að þola við í landi þar sem svona vinnubrögð eins og voru í kastljósþættinum í kvöld eru kölluð rannsóknarblaðamennska? 

Gamlir pistlar sem ég hef skrifað um DV mál: 

Þorpið 

Hvað er múgsefjun? 

Hvenær drepur maður mann? 


mbl.is Upptaka af útskýringum ritstjóra DV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Röksemdir þínar eru hárréttar. Nema þér sést yfir eitt smáatriði. Allt sem sagt er hér að ofan gildir við venjulegar aðstæður. En það eru ekki venjulegar aðstæður. Það ríkir stríðsástand hér í þjóðfélaginu. Það á sér stað stórkostleg eignatilfærsla, hugsanlegur sjálfstæðismissir. Við slíkar aðstæður skapast grundvöllur til að grípa til neyðarréttar.

Siðareglur og landslög hafa verið brotin og stofnanir þjóðfélagsins eru notaðar til að hilma yfir með hinum seku. Nú gilda lögmál stríðsins: Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu á móti okkur. (Að öðru leyti frábærlega vel skrifuð og rökstudd grein hjá þér.)

Doddi (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 02:43

2 identicon

Hérna sjáum við ágætt dæmi um það hvernig lögbrot getur stundum þjónað sannleikanum.

Lög koma ekki frá Gvuði. Þau eru mannasetningar og þau má draga í efa. Þegar mikið er í húfi getur það þjónað réttlætinu að brjóta lög.

Af hverju fann blaðamaðurinn sig knúinn til að taka þetta samtal upp? Hafði hann kannski ástæðu til að halda að auðmenn væru að misbeita valdi sínu til að hafa áhrif á fréttaflutning -og kæmust upp með það? Ef svo er þá finnst mér það hafa verið rétt ákvörðun hjá honum að taka samtalið upp.

Ég reikna með að Kastljósið hafi birt samtalið af því að þáttastjórnendur hafi talið að þarna væru ríkir almannahagsmunir á ferð. Því er ég sammála. Það er réttur minn sem þjóðfélagsþegns að fá að vita að menn geti í skjóli auðs og valda, stjórnað því hvaða fréttir eru birtar í fjölmiðlum, einkum þegar sá fjölmiðill er kynntur sem óháður.

Það eru ekki ríkir almannahagsmunir að nafngreina mann og saka hann um voðalegan glæp áður en dómstólar fjalla um mál hans.  Slík mál eiga að fara rétta leið í gegnum kerfið og ef kerfið bregst, þá er í góðu lagi að fjölmiðlar fjalli um þá hlið. Við búum hinsvegar öll við þá hættu að ákvarðanir sem varða hag þjóðarinnar allrar séu teknar án vitundar okkar og upplýsingum leynt. Það virðist nánast útilokað að koma lögum yfir auðmenn og ekki skánar það ef fjölmiðlar hylma yfir með þeim.  Það er því rétt, gott og siðlegt að segja almenningi hverjir eru að mata hann. Hvort það er löglegt er annað mál og léttvægara.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 08:07

3 identicon

En auk þess er náttúrulega óþolandi fyrir blaðamanninn þegar fyrrum yfirmenn hans halda því fram fullum fetum að hann sé að ljúga. Auðvitað hafði hann fullan rétt (allavega siðferðilegan rétt) til að reka það ofan í þá. Menn eiga ekki að komast upp með ljúga upp á aðra í skjóli trúnaðar.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 08:13

4 Smámynd: Katrín Snæhólm Baldursdóttir

Einhvern neyðarrétt hljótum við fólkið í landinu að eiga til að verja okkur á svona tímum þar sem spilling og valdníðsla eru að ná hámarki...vonandi er ekki meira eftir af spillingarsúpu til að skvetta yfir okkur...og við verðum bara að kalla þetta nauðvörn!!! Ég tek ofan fyrir unga blaðamanninum. Hann er tákn þeirra sem þora og láta ekki buga sig og réttlætistilfinningu sína með bulli og rugli. Nóg er nú komið af því.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 16.12.2008 kl. 14:23

5 Smámynd: 365

Er einhver peningalykt af þessu máli?

365, 16.12.2008 kl. 17:14

6 identicon

Ég held að réttmæt fyrirlitning þín á Stebba Fr. hafi hugsanlega blindað þér sýn á þetta málefni. Það er rosalega erfitt að sætta sig við að vera sömu skoðunar og sá maður um nokkurn skapaðan hlut. Í þessu tilviki verður samt því miður ekki komist hjá því.

Freyr Heiðar Guðmundsson (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 17:57

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Fólki er tíðrætt um neyðarrétt - að það séu þannig aðstæður að það réttlæti hlerun og afspilun í fjölmiðlum og túlkun á orðum einkasamtals þar. Er það svona sem við viljum að lögreglan starfi t.d. ef hana grunar einhvern um að vera líklegur til að fremja afbrot?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 17.12.2008 kl. 13:32

8 identicon

Nei, en Jón Bjarki er ekki lögga og það er engin löggæsla í landinu sem sér um eftirlit með auðmönnum, fjölmiðlum, embættismönnum og öðrum valdhöfum. Hlutverk lögreglunnar virðist þvert á móti vera að tryggja þeim næði til að ástunda sitt eiginhagsmunapot.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 15:13

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Sínum augum lítur hver á silfrið og sínum augum lítur hver á aðalatriði þessa máls. Í mínum huga eru mikilvægustu atriði málsins þessi:

1. Ómerkileg og ekki nýstárleg frétt um að fyrrv. bankastjóri hefur lengi verið að bauka í húsnæði bankans og að sögn á eigin forsendum veldur einhverjum óljóst tilgreindum manni þeim óróa í sálinni að hann hrekur hrokahundinn Reyni Traustason frá þeirri ákvörðun að birta fréttina. Reynir skælir utan í blaðamanninn við að segja honum að líf og framtíð blaðsins sé í hættu ef fréttin verði birt!

2. Hver var þessi maður eftir að Hreinn Loftsson hefur upplýst að það sé ekki hann og Björgúlfur segist ekkert vita um málið? 

3. Það er erfitt að trúa því að svona skelfingarástand vakni á síðdegisblaði vegna máls sem engu máli skiptir. Allir pólitíkusar og fjármálapukrarar vita að það er hættulegt að vesenast í fréttaflutningi og fátt vekur meiri tortryggni ef upp kemst en það að reyna að stöðva frétt.

Svo vil ég bara segja að lokum að mér sýnist núverandi samfélagsórói og upplausn hafa sprengt upp fleiri girðingar en nákvæmustu siðareglur blaða- og fréttamanna. 

Árni Gunnarsson, 18.12.2008 kl. 17:34

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hallgrímur: Drengur að verja eigin mannorð með því að taka upp og dreifa upptöku á einkasamtali á ekki mikið erindi í fjölmiðlun amk ekki fjölmiðlun eins og ég skil hana út frá siðareglum blaðamanna.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2008 kl. 00:02

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Eva: ég tek samanburðinn við lögreglu vegna þess að einmitt stjórnvöld hafa komið í gegn svona hlerunum og réttlætt með einhverju ástandi sem kalli á það. Það er hins vegar ekki hægt að segja að það sé í lagi að hlera einstaklinga til að gera þá að athlægi og hæðast af þeim í opinberum fjölmiðlum og lesa einhverjar ótrúlegar samsæriskenningar út úr stórkarlagrobbi þeirra og síðan sé ekki í lagi að löggan hleri einstaklinga sem hún grunar um græsku.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2008 kl. 00:05

12 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Árni: Góð greining á stöðunni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.12.2008 kl. 00:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband