Hleranir, afspuni, siðareglur og sjálfsblekkingar fjölmiðlafólks

Fjölmiðlar verða að spara eins og aðrar stofnanir í samfélaginu. Auðveldasta leiðin til þess er að hafa blaðamenn taki bara viðtöl hver við annan og umræðuefnið sé bara hvernig blaðamenn tali hver við annan og hvort þeir megi tala svona hver við annan. Þetta er svosem ekki ný fjölmiðlalína á Íslandi, þetta hefur alltaf verið svona. Fréttamenn að tala um fréttamenn um hvað fréttamenn eru að tala um.  Svona er hægt að halda uppi nokkrum Kastljósþáttum og svo það séu ekki talandi hausar á skjánum allan tímann þá má krydda umfjöllun með rannsóknarblaðamennsku eins og þessarri í vídeóinu hér fyrir neðan þar sem fjölmiðlamenn fylgjast með og éta upp og endursegja hvað bloggarar landsins hafa um málið að segja. Hér er stutt myndband af rannsóknarblaðamennskuhápunkti hjá Kastljósinu þar sem fylgst er með talningu Stefáns Pálssonar á hve oft leiðari DV hefur breyst yfir daginn.

Ég skil nú reyndar vel svona fjölmiðlavöktun. Ég er sjálf mjög veik fyrir svona talningum. Ég leyfði mér einu sinni að telja myndir af konum og körlum í fjölmiðlum.  Þannig talningum hefur Kastljósið og aðrir fjölmiðlar minni áhuga á. 

Afspuni

Bloggið og netumræðan ryður smám saman prentmiðlum út, dagblöð berjast fyrir lífi sínu  um allan heim og íslensk dagblöð eru í mikilli kreppu.  Því hefur verið spáð að síðasta dagblaðið í heiminum komi úr prentsmiðju árið 2040.  Það er fyndið að ennþá sýna atvinnufjölmiðlamenn hinni einstaklingslegu leikmannatjáningu bloggsins fyrirlitningu þó þaðan komi uppspretta frétta sem enda í prentmiðlum. Jónas (jonas.is) og Egill (eyjan.is/silfuregils/) skömmuðust í eina tíð báðir út í bloggara en hafa núna umhverfst  í óða kreppubloggara  og  Egill heldur að hann hafi fundið upp bloggið. Fréttamennska landsins á nú mestmegnis upptök sín í kommentakerfi Egils og kallar Egill þetta afspuna. Hér er Egill að tjá sig um afspuna á borgarafundi á Nasa:

 

 Ómerkileg frétt, ómerkilegur miðill

Það er fyndið að heyra fjölmiðlafólkið tala sín á milli um hvað þessi Sigurjóns-frétt  sé ómerkileg frétt, hún eigi uppruna sinn í ómerkilegum miðli (blogginu) og hún er  sögð (þ.e. þegar Reynir vildi ekki birta hana) á ómerkilegan hátt.

Hins vegar virðist mér fjölmiðlafólki yfirsjást í því að fréttin um hina ómerkilegu frétt er aflað á ómerkilegan hátt (með hlerun einkasamtals á vinnustað) og henni er líka dreift á ómerkilegan hátt (með því að birta óbreytt með ýmsum persónuupplýs. sem koma málinu ekki við  t.d. um lögreglumann sem framdi sjálfmorð). 

Ég velti fyrir mér hvað er að gerast með fjömiðlastétt landsins, Þóru Kristínu finnst bara allt í lagi að birta þetta hleraða samtal ritstjóra og undirmanns  opinberlega og af orðum hennar má ráða að blaðamenn ættu að baktryggja sig með svona hlerunarbúnaði þegar þeir tala við visst fólk.

Hér eru þau að tala um ómerkilegu fréttina í ómerkilega miðlinum (blogginu): 

Reyndar var þessi frétt ekkert skúbb, löngu birt á bloggi, sjá hérna Orðið á götunni 5. nóvember 2008 : Sigurjón enn í bankanum og er annars eitthvað fréttnæmt við það að fyrrum bankafólk sem bjó yfir mikilli þekkingu sé í ráðgjöf fyrir bankana eftir hrunið? Ef Sigurjón Árnason er ásakaður um eitthvað glæpsamlegt athæfi fyrir eða eftir hrunið  þá er það merkileg frétt en það er ekki frétt að hann sé fenginn til að veita ráð um hvernig hagsmunir bankans eftir hrunið eru tryggðir sem best. 

Það verður áhugavert að sjá hvernig  Mál Reynis verður  tekið fyrir hjá Blaðamannafélaginu

Það verður áhugavert hvort að þessi fréttamennska um fréttamennsku telst í samræmi við siðareglur blaðamanna - eða hvort blaðamenn koma ekki auga á það, koma ekki auga á fáránleikann við svona fullyrðingu : Agnes vill að Reynir verði rekinn úr Blaðamannafélaginu en þar er haft eftir blaðamanninum:

Agnes Bragadóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, sagði í þættinum Íslandi í dag í kvöld að Blaðamannafélag Íslands ætti að reka Reyni Traustason, ritstjóra DV, úr félaginu meðal annars vegna þeirra ummæla sem hann viðhafði um nafntogaða einstaklinga á upptöku sem birt var í Kastljósi í gær.

Er þetta siðleg umræða um fjölmiðlun? Á  félag sem gætir að siðareglum blaðamanna að reka félagsmann úr félaginu vegna  birting á hleruðu einkasamtali sem hann er þáttakandi í  á vinnustað, einkasamtali sem er eðli málsins mjög viðkvæmt og alls ekki ætlað til opinberrar birtingar?

Reynir Traustason er hallærislegur í þessu hleraða samtali og það skaðar hann mikið.

Eins og ég sé málið þá er glæpur hlerunarblaðamannsins stærri. Hann tekur upp samtal við vinnuveitanda - ekki til að afla  fréttar heldur til að koma höggi á vinnuveitanda sinn og gera hann tortryggilegan.

Raunar sýnist mér hlerunarblaðamaðurinn brjóta allar siðareglur blaðamannafélagsins þegar hann tekur upp trúnaðarsamtal og afhentir það fjölmiðlum til birtingar og m.a. gætir ekki að því að þar eru með viðkvæmar upplýsingar sem tengjast persónum. Annars getur fólk kynnt sér hérna siðareglurnar: siðareglur blaðamanna.

Það er vissulega tilefni til að gera frétt um hve mikið íslenskir fjölmiðlar eru háðir eigendum sínum og þeim auðmönnum sem bljóðmjólkuðu alla íslenska sjóði og bjuggu til peningabólur í gegnum ítök sín í bönkum. Það er háð núna stríð um eignarhald á fjölmiðlum  og það urðu breytingar á eignarhaldi DV nokkrum dögum áður en Reynir neitaði að birta frétt

Þessi fréttamennska um fréttamennsku afhjúpar hins vegar heimóttarskapinn í íslensku samfélagi meira en nokkuð annað og hve fjölmiðlafólk er upptekið af fjölmiðlum, svo upptekið að það tekur ekki eftir að umfjöllunin gegnur út yfir öll mörk persónuréttinda og friðhelgi einstaklinga. Ef við samþykkjum að fjölmiðlar hegði sér svona, hvað þá með mig og þig og þau einkasamtöl sem við kunnum að eiga vegna vinnu  okkar og samskipta við fólk? Er í lagi að einhver afriti líf okkar í óleyfi og birti opinberalega okkur til háðungar og dragi með viðkvæmar upplýsingar um annað fólk?

Hvað ef hin rafræna vöktun og hlerun hefði verið á vegum lögreglu? Myndum við sætta okkur við að lögreglumenn tæku upp samtök okkar án þess að við vissum og túlkuðu þau á sama hátt og galgopaleg orðræða Reynis er núna túlkuð?Hvað ef hryðjuverkalögregla ynni á sama hátt og þessi ungi hlerunarblaðamaður? Er ekki ástæða til að staldra við og hugsa um þær aðstæður sem ríktu og hvort þetta séu vinnubrögð sem við viljum að fjölmiðlar viðhafi.

Það er reyndar gott að nú koma blaðamenn einn af öðrum og segja frá hve þröngar skorður umfjöllun um eigendur er sett:

Fyrrum blaðamaður DV: Ljóstrar upp um ritskoðun frétta um Baugsmálið. Baugur vann með Guardian

Það þarf að vera blindur til að sjá ekki að einkareknir fjölmiðlar á Íslandi undanfarin ár hafa verið gjallarhorn auðmanna. Hin gríðarlega áhersla sem auðmenn hafa lagt á að að eiga fjölmiðla sýnir hve mikilvægt þeir telja að eiga umræðuna amk tryggja að þeir fái ekki mjög neikvæða umfjöllun. Það er mjög gaman að skoða myndir í Fréttablaðinu og reyndar líka DV út frá sjónarhóli eigenda. Það sést alveg hverjum er hampað og hverjum er reynt að slátra með því að sjá hvernig myndbirting er.


mbl.is Aldrei aftur mun óttinn stýra fréttaflutningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst það verði að halda því til haga, að birting þessa samtals Reynis og Jóns Bjarka, var nauðvörn hjá Jóni - eftir að Reynir hafði kallað hann lygara. Sjálfsagt hefur hann grunað að svo færi og því tekið samtalið upp, en það breytir því ekki að hann gaf Reyni fullan séns á að segja sannleikann - það er ekki fyrren hann byrjar að ljúga að Jón fer með upptökuna í fjölmiðla.

Eiríkur Örn Norðdahl (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 19:32

2 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Það hefur nú stundum verið spaugað með það meðal fjölmiðlafólks að þessi atvinnugrein gæti alveg verið sjálfbær...

Hildur Helga Sigurðardóttir, 18.12.2008 kl. 08:22

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hallgrímur: Ummæli Reynis um fólk á upptökunni eru engin ástæða til að vísa úr blaðamannafélaginu, ég hugsa að við séum mörg ansi stórorð og kotroskin þegar við erum í einkasamtölum að tjá okkur um fólk. Það hefði hins vegar verið ferlegt ef fram hefði komið eitthvað ósiðlegt eða ólöglegt, það er hins vegar ekkert að því að ritstjóri verði að gæta að ýmsu t.d. geðheilsu þeirra sem fjallað er um og að styggja ekki eigendur/hluthafa. Það er fáránlegt að halda fram að ritstjóri sé ekki í vinnu hjá þeim sem hann er í vinnu hjá. Auðvitað ráða eigendur ritstjórnastefnu þ.e.a.s. ef þeim sýnist svo. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.12.2008 kl. 23:55

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Eiríkur Örn: Það er áhugavert að skoða þessa hlerun og birtingu sem nauðvörn og skoða það frá siðareglum blaðamanna. það er ekki gert ráð fyrir að fréttir séu eitthvað sem er bara plott hjá fjölmiðlamanni til að klekkja á einhverjum sem hefur hrekkt fjölimiðlamanninn.. Það er frétt þar sem hagsmunir blaðamannsins

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.12.2008 kl. 23:57

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hildur Helga: Fyndið að kalla fjölmiðaheiminn sjálfbæran. Það er hann eiginlega. Fjölmiðlar þurfa að fjalla um lítið annað en sjálfa sig og hina fjömiðlana.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 18.12.2008 kl. 23:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband