Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008
9.12.2008 | 14:37
Krugman og kreppan
Paul Krugman spáir langri kreppu og hann sér ekki neinn stað í heiminum þar sem fólk er óhult fyrir áhrifum hennar. Hvernig mun kreppan leika Kína, landið þar sem unga fólkið heldur núna að gríðarlegur hagvöxtur sé náttúrulögmál, landið þar sem rekinn er einhvers konar kommúnískur markaðsbúskapur. Eða hvernig mun kreppan fara með stöðnuðu svæðin í Evrópu, svæðin þar sem er mikið atvinnuleysi, svo mikið að sums staðar hefur ekki nema helmingur af ungu fólki vinnu.
Ef til vill eru uppþotin sem núna eru í Grikklandi tengd ástandinu á þannig svæðum, ef til vill munu sams konar uppþot blossa upp á Spáni og færa sig eftir álfunni. Ef til vill mun kreppan brjóta upp samfélög Evrópu og Ameríku meira en okkar órar fyrir núna. Það er að verða snögg skerping á lífskjörum víða um lönd og öryggisleysi vofir yfir öllum. Það skiptir líka máli að þeir sem verða nú fyrir mestri skerðingu eru fólk sem hefur mikinn baráttuþrótt, það er ungt fólk sem annað hvort missir vinnu sína eða sér fram á að fá ekki vinnu og þar er oft fólk sem er vel menntað. Það er fólk sem hefur slagkraft til mótmæla ef það skipuleggur sig í hreyfingum. Það er ekki víst að öll mótmæli verði friðsamleg. Satt að segja þá eru mótmæli á Íslandi í dag tiltölulega friðsamleg. Borgarafundir og mótmælafundir eru friðsamlegir en þær aðgerðir sem minni hópar hafa efnt til eins og innrás í Seðlabankann og upphengingar á táknum virðast frekar vera einhvers konar listrænir gjörningar og meðvituð borgaraleg óhlýðni. Ég skynja ekki ennþá hérna þá spennu sem er sums staðar erlendis t.d. á innri Nörrebro í Kaupmannahöfn, þar getur soðið upp úr hvenær sem er.
En kreppan hefur valdið því að samfélagið hrundi á Íslandi. Þetta er ekki bara bankahrun, það voru ekki bara einhverjir þrír bankar sem fóru á hliðina. Það féll saman mestallt atvinnulíf á Íslandi og stjórnsýslan er einhvers staðar undir rústunum og allra neðst eru þeir sem mesti þunginn af hruninu lenti á, það er ungt skuldugt fólk á Íslandi, fólk sem hefur ekki mikinn hreyfanleika vegna þess að það er með ung börn og fólk sem missti vinnu eða hefur enga möguleika á að fá vinnu núna. Undir rústunum eru líka allir þjóðfélagsþegnar sem þurfa nú að taka á sig miklar skuldabyrði út af erlendum bankaskuldum sem þeir vissu ekki að væru til. "Við eigum fiskinn og við eigum orkuauðlindir, við reddum þessu" segja hinir bjartsýnu og átta sig ekki á því að leyfið til að veiða fisk við Íslandsstrendur hefur löngu verið framselt úr hendi íslenskrar alþýðu og er sennilega beint og óbeint núna í erlendri eigu og yfir orkuauðlindum hafa ginið þeir sem vildu breyta þeim í hf verðmiða svo hægt væri að selja sem fyrst í einkavæðingaræði. Það var bara skemmra komið í orkuauðlindum en í fiskinum og bönkunum. En jafnvel þó við ættum fisk til að selja og orku til að selja þá hefur heimsmarkaðsverð á báðu farið niður. Álverðið hefur hrapað og orkuverð hefur hrapað í heiminum.
það er alls staðar verðhjöðnun. Það hljómar kannski ekki illa, allt orðið ódýrara en það er miklu meira að óttast fyrir almenning að við taki langt tímabil verðhjöðnunar og kyrrstöðu. Kreppan er að sumu leyti búin til í huga fólks - fólks sem hegðar sér einst og allt annað fólk - og af því að allir halda að sér höndum, fresta því að kaupa bíla og dýra hluti og reyna að tempra eyðslu sína - þá verður svona keðjuverkum - ótti við kreppu veldur kreppu.
En út frá umhverfissjónarmiðum eru ljósir punktar í kreppunni. Neyslusamfélag og umbúðasamfélag víkur fyrir samfélagi þar sem fólk býr til hlutina sjálft, hugsar um nýtni, sparar og reynir að stunda vöruskipti. Ef til vill mun eiga sér stað einhver kerfisbreyting á hvernig viðskipti fara fram, peningakerfið sem við höfum búið við hefur hrunið, ekki síst þegar gjaldmiðillinn sjálfur varð að einvers konar froðu. Það er ekkert sérstaklega bundið við íslensku krónuna, hún er bara svo örsmár gjaldmiðill að við sjáum og finnum betur fyrir hve gjaldmiðillinn er fáránlegur hérna.
Það verða örugglega breytingar á við hvað Íslendingar starfa. Bankastarfsemi hefur snarminnkað og það er raunar ekkert sem bendir til annars en áfram muni fækka starfsfólki í bönkum. Það kom fram í fréttum í vikunni að það væri áætlað að um þúsund manns hefðu atvinnu sína af einhvers konar bílasölu og bílastússi. Það er fáránlegt tala og það mun aldrei koma aftur sá tími að bílasala verði atvinnuvegur sem veitir mörgum vinnu. Það er eitt sem við verðum að horfast í augu við, það er margs konar atvinna að hverfa núna og fólk verði að leita sér að atvinnu á öðrum sviðum, við iðju og þjónustu sem passar fyrir hið nýja samfélag. Við þurfum líka að endurskoða alla vinnu sem skattgreiðendur borga - er þetta vinnuframlag að nýtast? Af hverju þarf að halda uppi 64 manns og aðstoðarfólki á valdalausu þingi sem næstum eingöngu virðist hafa það hlutverk að stimpla lög sem koma frá Evrópusambandinu? Af hverju á smáríki eins og Ísland að halda úti sendiherrum og sendiráðsbústöðum út um allar trissur, sumum svo nálægt Íslandi að þangað eru margar ferðir á dag? Er gjaldeyri ekki ákaflega illa varið í gamaldags sendiráðsstarfsemi, að reka sendiráð sem einhver hvíldarhæli fyrir gamla pólítíkusa? Hvað með forsetaembættið? Þurfum við áfram að halda uppi einhverju batteríi sem núna síðustu ár hefur verið alfarið í þjónustu auðmanna? Forsetinn er svo sannarlega ekki sameiningartákn þjóðarinnar, Vigdís Finnbogadóttir var það vissulega og er það enn. En ekki Ólafur. Hann sem klifraði áfram í íslenskri pólitík inn í Alþýðubandalaginu gerðist lagsmaður þeirra sem nú hafa steypt okkur í glötun og hann gerðist trúboði þeirra og talsmaður. Forsætisembættið varð almannatengslaskrifstofa, ekki fyrir almenning heldur fyrir útrásarspilakassaauðjöfra til að tengjast háttsettum aðilum í fjarlægum löndum. Forsetinn var auk heldur sérstakur verndari þeirrar tegundar af fjölmiðlun sem er þannig að auðmenn sem spila með Ísland eigi alla fjölmiðla.
Er ekki betra að breyta forsetaembættinu? Annað hvort leggja það niður eða takmarka hvað forsetinn má gera í alþjóðamálum? Eða breyta því í embætti sem snýr alfarið inn á við, embætti sem þjónustar almenning á Íslandi og vinnur eingöngu að því sem sameinar íslenska þjóð. Er ekki betra að nýta starfsorku allra þeirra sem starfa í sendiráðum til að byggja upp aftur eftir hrunið hér á Íslandi og er ekki betra að nota gjaldeyrir sem fer núna í sendiherra og sendiráðsstarfsemi til að aðstoða þróunarlönd.
Allir á Íslandi í dag ættu að spá í hver þörf sé fyrir þá vinnu sem þeir vinna nú fyrir íslenskt samfélag, hvort þeir séu að vinna eitthvað sem á framtíð fyrir sér í gerbreyttu samfélagi og hvort hæfileikar þeirra og reynsla getur komið að betri notum við eitthvað annað - hugsanlega eitthvað nýtt viðfangsefni og iðju sem enginn stundar í dag.
Það má færa gild rök fyrir því að betra væri fyrir Ísland að listrænir hæfileikamenn eins og seðlabankastjórinn okkar fari úr því embætti sem hann er í núna og taki til við skriftir og leikritaskrif. Einn af þeim sem fyrir lifandis löngu söðlaði um er Ármann sem kenndur er við Ávöxtun, fjármálafyrirtæki sem fór á hausinn. Ármann var snjall fjármálamaður en nú er hann fagurkeri sem yrkir linjettur og selur sínar eigin ljóðabækur.
Það hefur verið kvartað yfir því að eftir hrunið sé enginn breyting, það sitji allir í sömu stólunum. Það er kannski lausnin að bjóða marga sem núna sitja sem fastast að um leið og þeir fari þá taki þeir með sér stóla sína og verði eins og Ármann sem fékk forstjórastóllinn sinn til baka. Þá gengur þeim kannski betur að yrkja eða gera annað sem auðgað getur hin nýja íslenska samfélag.
Krugman óttast glataðan áratug | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.12.2008 | 08:38
Hver vaktar þitt heimili? - Ekki íslenskir fjölmiðlar
Það eru engin teikn á lofti að nokkur breyting sé að verða á neinu kerfi. Það er engin trú á þeim sem þykjast nú vera að rannsaka hvað gerðist, nema sú trú að það sé verið að sópa undir teppin, verið að hylma yfir afglöp og vafasama fjármálagerninga. Það keyrir svo um þverbak að núna séu þeir fjárglæframenn sem ég get ekki séð annað en hafi aðhafst glæpsamlega og sviksamlega blekkingarstarfsemi, starfsemi sem er verri en versta Nígeríusvindl að reyna að kaupa brunarústir þess kerfis sem einkavæddi hagnaðinn og peningagerðarvélarnar en ríkisvæddi ábyrgðina og skuldafjötrana og lagði þær á öll fædd og ófædd börn á Íslandi.
Ég spyr eins og fávís kona - af hverju eru þessir menn ekki á Litla-Hrauni eða eftirlýstir af Interpól og hundeltir af lögreglu heimsins? Er sekt þeirra minni en Lalla Jóns? Eru fjármálaglæpir þeirra og afbrot gagnvart íslensku þjóðinni minni en afbrot hans?
Einu sinni var Lalli Jóns vélaður til að skreyta auglýsingu frá öryggisvörslufyrirtæki sem varaði við innbrotsþjófum. Fólki þótti þessi auglýsing ósiðleg, það væri verið að nýta sér aumar aðstæður Lalla sem þá dvaldi á Litla-Hrauni og vantaði aur. En væri ósiðlegt núna að vara okkur við fjárglæframönnunum og endurkomu þeirra? Af hverju eru ekki auglýsingar og fréttir í fjölmiðlum sem vara okkur við að fjárglæframenn Íslands liggi í leyni og geti brotist aftur inn í íslenskt athafnalíf og þjóðlíf þá og þegar?
Um svipað leyti og auglýsingin með Lalla Jóns var birt þá kostaði Jóhannes í Bónus heilsíðuauglýsingu í einum af fjölmiðlum Baugs þar sem hann varaði almenning á Íslandi við íslenska dómsmálaráðherranum og löggæslu á Íslandi. Svona var Ísland fyrir hrunið. Svona var sú fréttamennska og auglýsingamennska sem við bjuggum við þá. Þá.
En það eru einmitt svona tímar ennþá, núna hefur Hreinn Loftsson keypt DV, Hreinn var og er barón baugspressunnar og eins og alltaf þá gengur fréttamiðill fyrst og fremst erinda eigenda sinna og s býr til þá umgjörð og lýsingu sem eigandinn þarfnast til að athafna sig við þau innbrot sem hann hyggst fara í um íslenskt athafnalíf. Það gerist ekki oft að tímarnir séu eins hagstæðir og núna, það þarf varla neitt að brjótast inn, allir lásar eru mölbrotnir og allt eftirlitskerfi í molum.
Núna grunar okkur að barist um fjölmiðlana þannig að sömu blokkirnar og stýrðu þeim fyrir hrunið vildi halda áfram að stýra þeim. Fjölmiðlar á Íslandi voru og eru margir í eigu fjárglæframanna - fjárglæframanna sem fjötruðu heila þjóð. Það gerðist rétt eftir hrunið að geðshræring rann á nokkra fjölmiðlamenn og þeir fundu sekt sína sb greinina Við brugðumst ykkur
eftir Jón Trausta DV ritstjórna en fjölmiðlamenn og skáld geta á undraskömmum hætti snúið spegli sinnar samtíðar þannig að hann endurkasti því sem þeir vilja sjá og Illugi huggaði ritstjórann með greininni "Þetta er ekki þér að kenna, Jón Trausti!"
Svo kom Hreinn Loftsson og keypti DV í sínu nafni. Hvar er ritstjórinn sem einu sinni varð hrærður af geðshræringu yfir að hafa brugðist sinni þjóð? Hvaða tékk hefur hann á því hverjir eru þeir sem raunverulega ráða þeirri rödd sem hann ómar núna? Í gróðærinu vildi Jón Trausti setja alla þá Pólverja sem hingað þvældust í leit að betri lífskjörum í sérstakt Morðingjatékk
Af hverju vilja ekki hann og aðrir ritstjórar á íslenskum fjölmiðlum í dag rýna betur í hverjir raunverulega standa á bak við þá sem reyna að tryggja sér fjölmiðla á Íslandi í dag og hvað vakir fyrir þeim?
Hér til hliðar er dæmi um ruslfréttamennsku eins og hún er núna á forsíðu DV.is í þættinum Sandkorn. Það er mjög slæmt ef satt er að seðlabankastjóri standi fyrir einhverju fjölmiðlaplotti, það er gersamlega ekki við hæfi af þeim sem stýrir því embætti en það er ömurlegur vitnisburður um ástandið á Íslandi í dag að það fái maður helst fréttir um úr öðrum fjölmiðlum sem sennilega eru í eigu þeirra afla sem steyptu okkur í glötun og skildu okkur eftir með skuldirnar - afla sem ætla sér að koma aftur að borðinu til að einkavæða hagnaðinn næst þegar þeir tímar koma að athafnalíf á Íslandi rís undir sér. Þessi umfjöllun í DV sýnir líka berlega hvers konar miðill DV er og hvaða hagsmuna er gætt þar.
Annars átti þetta blogg að vera gagnrýni mín á moggafrétt um styrkingu krónunnar. Þessi efnahagsfrétt mbl.is er ekki eins mikið ruslfréttamennska eins og sandkornspistillinn "Náhirð leitar blárra blóma" en hún er akkúrat dæmi um þá grunnu og yfirborðslegu fréttamennsku sem hefur átt þátt í hruninu amk á þann hátt að leyna því fyrir okkur hvert stefndi. Það er þannig að það er tóm tjara að tala nú um einhverja styrkingu krónunnar, gjaldeyrismarkaður er bundinn höftum og viðskipti eru lítil en það er vitað að mikið fé mun leita úr landi og það er alls ekkert eftirsóknarvert fyrir Ísland að þegar gengi krónunnar er haldið uppi. Þannig myndu gjaldeyrisvarasjóðir þ.e. lán IMf verða fljótt uppurið. Vísa ég hér t.d. til umfjöllunar Jóns Daníelssonar hagfræðings. Þessi efnahagsfrétt um styrkingu krónunnar er eins og bara ennþá ein yfirhylmingin, að slá ryki í augu almennings - þetta sé allt að batna, gengið að styrkjast og allt að verða gott aftur, besta mál. Svona er staðan ekki. Því miður á ástandið eftir að verða verra.
Eftirstöðvar gengistryggðra lána minnka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.12.2008 | 16:52
Nýja Rúgbrauðsgerðin
Við erum ekki fransbrauð, við erum rúgbrauð, sagði Gerður Kristný í ræðu á mótmælafundi á Austurvelli og benti á að við eigum fiskimiðin og auðlindirnar og annað sem við getum nýtt okkur til að koma okkur á rétta braut. En þetta er blekking. Hvorki ég né Gerður Kristný eigum neítt í fiskimiðunum þó um það séu fjálgleg orð í íslenskum lögum. Rétturinn til að nytja fiskimiðin var afhentur útgerðarmönnum og úr þessum rétti voru búnir til peningar sem skoppuðu til og frá um íslenskt hagkerfi og bólgnuðu upp og aftengjust við útgerðina og urðu bara ennþá ein peningabólugerðarvélin á Íslandi.
Hver á kvótann í dag? Eru það bankarnir í gegnum gjaldþrota útgerðir? Eru það þá ekki erlendir kröfuhafar bankanna sem raunverulega munu eiga íslenska útgerð ef þeim verður afhent þrotabú bankanna. Hvers vegna má ekki þjóðnýta fiskimiðin á Íslandi í dag á sama hátt og það mátti þjóðnýta banka á Íslandi og byggja upp áætlanir sem miða að endurreisn sams konar kasínókapítalisma kerfis með fulltingi IMF?
Og hvernig er það með aðrar auðlindir á Íslandi? Sannleikurinn er sá að undanfarna áratugi hafa fulltrúar peningaaflanna haft öll ítök í stjórnmálum á Íslandi m.a. með því að efla og styrkja sína kandidata og þá sem eru vænlegir hagsmunagæslumenn þeirra til stjórnmálabaráttu. Þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa leynt og þó aðallega ljóst unnið í einhvers konar þráhyggju einkavæðingadýrkunar að því að breyta Íslandi í vettvang verðmiðanna þar sem væri verðmiðar á öllu sem ríkið ætti og allt væri falt og eins auðvelt væri að selja Ísland í bútum eins og að láta vatn falla niður í móti í fallvatnsvirkjunum. Það er tílviljun að ekki er lengra komið í því að selja burt íslenskar auðlindir á sviði orkumála eins og að láta burt kvótann og bankakerfið. Það er enginn ástæða til að treysta þeim sem töluðu eins og þeir byðu upp á trausta efnahagsstjórn (loforð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar). Þeir buðu bara upp á yfirhylmingu og hagsmunagæslu fyrir fjármagnseigendur og núna eftir hrunið þá botnlausa og örvæntingarfulla spillingu.
Ég er hvorki franskbrauð né rúgbrauð þó Gerður Krisný haldi því fram. Þær leiðir sem við Íslendingar getum farið núna eru ef til vill bara tvær. Annars vegar að verða þurfamenn sem haldið er uppi með bónbjörgum í jaðarsvæði eða nýlendu þar sem tappað er af orku og hráefnum fyrir vinnslu og neyslu annars staðar, þurfamenn sem séð er fyrir brauði til að þeir kjósi rétt svona svipað múgurinn í Róm til forna fékk mjöl svo hann væri þægur. Eða að taka til okkar ráða og búa sjálf til okkar brauðgerð. Nýja Rúgbrauðsgerð. Gerður Kristný og allir sem lesa þetta blogg, ég er ekki rúgbrauð en ég vil fá að stýra brauðgerðarvélum samfélagsins!
Það er engin raunveruleg verðmæti í peningagerðarvélum og braski sem er ekki í tengslum við raunverulega iðju fólks og framleiðslu.
Það er áhugavert að fylgjast með þróun borga, margir enduróma núna hina einföldu hagfræðikenningu um samband milli fjölda byggingarkrana og hruns fjármálakerfis. Núna þarf ekki annað en fara um viðskiptagötur í Reykjavík t.d. Ármúla og Síðumúla til að sjá hve illa er komið, alls staðar er tómt húsnæði og athafnalíf er lamað. Í fjármálahverfinu í Borgartúni voru fyrir nokkrum misserum mölvuð niður hús til að rýma til fyrir nýjum fjármálabyggingum. Núna eru þar margar byggingar ónotaðar. En það er smán saman að verða breyting á fjármálahverfinu og hún er sýnilegust við gömlu Rúgbrauðsgerðina. Vegfarandi sem þar gengur um sér mæður koma þarna með börnin sín, nú eru þar skólar þar sem kennd er list, þar eru dansskólar og sönglistarskólar og núna hafa ýmisr hópar sem vinna að umbætum og endurreisn á Íslandi eftir hrunið sett þar upp bækistöðvar. Þarna andspænis gömlu Rúgbrauðsgerðinni er núna Neyðarstjórn kvenna til húsa og þarna rétt hjá eru líka nýopnaðar bækistöðvar þeirrar borgarahreyfingar sem hefur gengist fyrir borgarafundum. Svo er Samhjálp með sína kaffistofu fyrir útigangsfólk þarna rétt hjá og Sjálfstæðiskonur voru líka á næstu grösum í tómri nýrri skrifstofubyggingu með ráðgjafastofu fyrir gjaldþrota Íslendinga.
Á þessum slóðum, við byrjun á því sem var fjármálahverfi gamla Íslands fyrir hrunið er nú frjósamur rúgakur þeirra sem munu byggja upp nýju Rúgbrauðsgerðina.
6.12.2008 | 20:45
Austurvöllur í dag
Ég var á Austurvelli í dag og tók myndir. Hér eru nokkrar þeirra en það má sjá fleiri í myndaalbúmi mínu á Flickr um þennan atburð. Svo var viðtal við mig og Jónas Kristjánsson í kvöldfréttum um hvernig Netið er að taka við sem vettvangur þjóðfélagsumræðu, sjá hérna Netið fjölmiðlar framtíðarinnar
Eftir mótmælafundinn kom ég við á nýju aðsetri borgarafundafundar í Reykjavík á Borgartúni 3. Það er sniðugt að núna eru ýmsar hreyfingar þarna nálægt hver annarri, Neyðarstjórn kvenna er í næsta húsi.
pereat
Ábyrgðin er ekki okkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.12.2008 | 19:18
Siv og Óskar
Ég vona að Siv Friðleifsdóttur gefi aftur kost á sér sem formann Framsóknarflokksins. Ég vona líka að Óskar Bergsson oddviti okkar í Reykjavík gefi kost á sér til forustu. Hann er maður sátta og samvinnu í fllokknum og hann hefur sýnt að hann getur unnið með öllum. Óskar hefur vaxið verulega sem stjórnmálamaður þann ógnarerfiða tíma sem núverandi kjörtímabil í borginni hefur verið og sýnt að hann getur spilað vel úr afar þröngri stöðu. Siv er þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og það er raunar eðlilegt að formaður flokksins sé hluti af þingliði hans, það var einmitt ástæðan fyrir að Jón Sigurðsson sagði af sér að hann komst ekki inn á þing. Það er langeðlilegast að leitað sé að næsta formanni Framsóknarflokksins innan þingliðsins. Tveir þingmanna hafa nýlega hætt og Valgerður núverandi formaður hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér. Siv er því eðlilegasti vakostur varðandi næsta formann Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir er baráttukona, hún gefst ekki upp í ágjöf og vex í erfiðleikum. Margir af þeim sem hafa gefið kost á sér til forustu í Framsóknarflokknum undanfarin misseri hafa horfið á braut, oft mæddir af andbyr en stundum af því að þeim hafa orðið á hrapaleg mistök.
Þannig hvarf Bjarni Harðarsson fyrrum þingmaður af vettvangi eftir að hafa sent út til fjölmiðla lúalegt og ósiðlegt tölvubréf, Guðni Ágústson fyrrum formaður missti sig í ræðu á miðstjórnarfundi og tók nærri sér hvassa gagnrýni flokksmanna og sagði af sér, Jón Sigurðsson fyrrum formaður vann ekki þingsæti í Reykjavík þrátt fyrir að háð væri kosningabarátta B-lista sem var persónugerð í honum og hann sagði af sér.
Björn Ingi oddviti okkar hér í höfuðborginni sigldi í meðbyr lengi vel og hafði einn gríðarleg völd en hann mætti þungum mótvindi og sagði af sér daginn sem hann missti öll völd, daginn sem Framsóknarflokkurinn var ekki lengur í stjórn Reykjavíkurborgar. Raunar er mikil eftirsjá að Birni Inga úr stjórnmálunum, hann hafði marga góða kosti. Guðjón Ólafur fyrrum þingmaður framsóknar í Reykjavík kubbaðist niður í sjónvarpi í frægu hnífasetta-jakkafata atriði, Árni Magnússon bróðir Páls Magnússonar sem nú býður sig fram til formanns sagði af sér sem félagsmálaráðherra. Svo hefur það líka gerst að Framsóknarforingjar hafa sagt af sér áður en þeir eru orðnir foringjar og komnir í kosningaslaginn en eftir að þeir eru búnir að láta birta við sig drottningarviðtöl. Þannig var um Finn Ingólfsson, hann var kallaður til formannsframboðs en burtkallaðist allsnarlega.
Þannig hefur hver Framsóknarforinginn fallið í valinn og það stundum fyrir eigin hendi, vegna eigin afglapa og mistaka en stundum vegna þess að þeim var ekki fylgt að málum og þeir fengu engan hljómgrunn. Ég er mjög leið yfir að Jón Sigurðsson sagði af sér á sínum tíma. Það er maður sem ég hefði treyst til allra góðra verka.
Mín fyrstu afskipti af málum í Framsóknarflokknum urðu í Freyjumálinu svokallaða. Það var þannig að flestir telja að það hafi verið eitthvað plott hjá Páli Magnússyni og bróður hans, eitthvað tengt því að ná undir sig öllum félögum og þar með fulltrúum á kjördæmaþing og liður í því var að gera innrás í kvenfélag Framsóknarkvenna í Kópavogi.
Þetta var engum þeim til sóma sem stóðu að þessu tilræði við kvenfélag í Kópavogi og það kemur því nokkuð á óvart núna að Páll Magnússon skuli núna segjast leggja á það höfuðáherslu að breyta vinnubrögðum í flokkstarfi og auka lýðræði.
Hvernig virkaði lýðræðið í Freyjumálinu í Kópavogi?
Er það þannig lýðræði sem við viljum á Íslandi?
En ég er ánægð að sjá að það skuli vera menn sem vilja bjóða sig fram til forustu í Framsóknarflokknum og ég þekki fólk sem ber Páli vel söguna.
Það eru hins vegar þrjú atriði sem mér finnst skipta nokkru máli.
Í fyrsta lagi var Páll Mangússon aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra og getur þannig ekki skotið sér undan ábyrgð á því hruni íslensks efnahagslífs sem nú er orðið að veruleika. Þótt hrunið verði haustið 2008 þá er það afleiðing óstjórnar og spillingar sem viðgengst í mörg, mörg ár.
Í öðru lagi þá tengist Páll Magnússon og Árni Magnússon innrásinni í kvenfélagið Freyju í Kópavogi og ýmsum öðrum aðgerðum í Framsóknarflokknum sem gefa okkur ekki tilefni til að halda að hann sé besti kandidatinn í að stýra flokki til breyttra vinnubragða og aukins lýðræðis.
Í þriðja lagi hefur Páll undanfarið verið bæjarritari í Kópavogi og staðgengill bæjarstjóra þar. Eftir því sem ég best veit stendur Kópavogskaupstaður ekki vel fjárhagslega og þar eru engar skrautfjaðrir sem þeir sem stýrðu geta státað sig af.
Á þeim tíma sem ég hef starfað í Framsóknarflokknum hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Sérstaklega hef ég verið hrifin af því hve margar sterkar og öflugar stjórnmálakonur hafa vaxið þar upp.
Það er gaman að núna skuli kona vera formaður Framsóknarflokksins. Ég vona að næsti formaður Framsóknarflokksins verði líka kona. Ég held að Siv Friðleifsdóttir sé mun líklegri til að byggja upp umhverfi aukins lýðræðis í flokknum heldur en Páll Magnússon og ég hugsa að hún hafi meiri framsýni og skerpu en hann.
Það er líka miklu meiri töggur í Siv heldur en strákunum sem hurfu af vettvangi einn af öðrum.
Það eru miklir mæðutímar hjá Framsóknarflokknum núna. Staðan er hins vegar þannig núna hjá okkur í Reykjavík að það hefur aldrei verið eins gaman að vera í Framsóknarflokknum. Ég starfa núna með Framsóknarfélaginu í Reykjavík og með borgarstjórnarliði flokksins sem vinnur undir forustu Óskars Bergssonar og þar vinna menn saman á þann hátt sem Framsóknarmenn eiga að gera. Rífast töluvert og eru ekki alltaf sammála en standa saman að því að vinna að góðum málum í Reykjavík.
Óskar Bergsson og Siv Friðleifsdóttir eru stjórnmálamenn sem þola vel mótbyr. Óskari hefur tekist undravel að vinna úr þeirri stöðu sem kom upp í Reykjavík og hann hefur lagt áherslu á að byggja upp flokksstarfið og lýðræðislega stjórnarhætti. Óskar er líka maður skynsemishyggju eins og við Framsóknarmenn erum gjarna og hann barðist mikið á móti því að Bitruvirkjun væri fleygt út af kortinu eða settir milljarðar í húskofarugl.
Vonandi muna Reykvíkingar eftir því við næstu kosningar að það var Framsóknarflokkurinn undir forustu Óskars Bergssonar sem frelsaði borgina úr ómögulegu ástandi - úr ástandi þar sem Ólafur Magnússon hafði verið dubbaður upp sem borgarstjóri af Sjálfstæðismönnum - svona sambærilegu ástandi eins og ef Ástþór Magnússon væri dubbaður upp sem forsætisráðherra Íslands. Og það er undir forustu Óskar sem Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vinnur fumlaust að málefnum Reykvíkinga og að því að styrkja innviði flokksstarfsins.
Páll býður sig fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.12.2008 | 13:08
Krónuspil í krónubréfahagkerfi
Íslenska ríkið með fulltingi IMF stjórnar nú öllu peningamarkaðskerfi og athafnalífi á Íslandi með inngripum og ríkisforsjá sem minnir á Sovétið á tímum fimm ára áætlanabúskapar. Munurinn er hins vegar í fyrsta lagi sá að hér er engin fimm ára áætlun, hér eru bara krónufleytingar og skammtímareddingar frá degi til dags og í öðru lagi þá er þá er markmið efnahagsstjórnar á Íslandi í daga ekki að byggja upp styrkar stoðir undirstöðuatvinnuvega og ná meiri framlegð eins og Sovétstjórnin gerði í stáliðnaði á sínum tíma heldur er æðsta markmið í íslenskri peningastjórn núna að hafa áhrif á eigendur krónubréfa svo þeir æði ekki af stað úr landi eins og stormsveipur og skipti bréfum úr krónum yfir í aðrar myntir.
Hversu lengi getur svona gervihagkerfi haldist uppi?
Hver á þessi krónubréf?
Er ekki best fyrir Íslendinga til langs tíma að keyra gengið í botn núna og hafa vexti hér sem lægsta til að hrekja þetta fjármagn sem fyrst út úr íslensku efnahagslífi með sem mestu tapi fyrir þá sem eiga þessi krónubréf?
Þetta er kýli í íslensku hagkerfi sem er nauðsynlegt að stinga á sem fyrst.
Þá fyrst getum við farið að tala um alvöru uppbyggingu hérna, ekki uppbyggingu sem er byggð á bólupeningum sem þyrlað er til og frá svo verðmætin virki margfalt meiri en þau eru raunverulega.
Það er ekki slæmt í sjálfu sér að hingað komi erlend fjárfesting. Mörg verkefni t.d. virkjanir og önnur stór mannvirki eru svo stór að hin litla íslenska kerfi ræður ekki við að afla fjár á markaði innnanlands. Peningar sem notaðir eru til fjárfestinga á Íslandi eiga að vera fjárfestir hérna vegna þess að fjárfestingin sjálf gefur arð, ekki að arðurinn sé uppblásin bóla, tilkomin vegna gengismunaviðskipta og spákaupmennsku um þannig viðskipti.
Hér er ágæt grein í viðskiptablaðinu sem lýsir ástandinu og því að það er ekki gott að kætast um of vegna styrkingar á gengi núna, það getur verið mikið svikalogn.
En fyrir almenning á Íslandi þá er ömurlegt að búa í hagkerfi og samfélagi sem er miðstýrðara og niðurnjörvaðra en argasta kommúnistaríki og fjötrarnir og stýringin er tilkomin vegna þarfa og hagsmuna þeirra erlendu fjárfesta sem hér eiga fé.
Þegar lyga- og blekkingarvefur núverandi ríkisstjórnar er skoðaður fyrir hrunið þá sést vel við hverja forsætisráðherra var að tala þegar hann kom fram í íslenskum fjölmiðlum rétt fyrir hrunið og gerði lítið úr stóralvarlegri fjármálakreppu. Hann kallaði þá ástandið mótvind.
Han var ekki að tala við íslensku þjóðina.
Hann var að róa erlenda eigendur krónubréfa.
Krónan styrkist áfram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2008 | 02:46
Brambolt í mölbrotnu kerfi
Það er ekki margt sem gleður á Íslandi í dag. Það eru engin teikn á lofti að botni fjármálakreppunnar hérna né erlendis sé náð og það eru engin teikn á lofti um að stjórnarfar hérna á Íslandi fari skánandi. Þvert á móti þá virðist það fara versnandi með hverjum deginum.
Það er ekkert í íslensku stjórnarfari sem gerir hugsandi og upplýstu hugsjónafólki kleift að koma að stjórn þessa lands. Þvert á móti er allt upplýsingaflæði til almennings eftir hinum gömlu farvegum þar sem þeir sem ráðskuðust með bróðurpartinn af öllu á Íslandi sögðu þeim sem áttu lítið og réðu engu hvaða skoðanir valdalaust fólk ætti að hafa og hvernig það ætti að hylla valdhafana og dásama molana sem hnutu af gnægtaborði þeirra til fátækra.
Það er vissulega tímabært að ræða um hlut fjölmiðla. Fjölmiðlar á Íslandi hafa brugðist þjóðinni heiftarlega. Þeir hafa ekki verið neitt fjórða vald, í þeim hafa safnast fyrir sömu forarpyttir spillingar og núna valda rotnun í mörgum kerfum á Íslandi. Sumir fjölmiðlar hafa ekki verið annað en síbylja af erlendu afþreyingarefni, þar sem botninn var sakamálaþættir þar sem konur eru brytjaðar í spað og mergsognar lifandi og ofbeldi réttlætt undir yfirskyni skemmti- og spennuþátta og sem og einhvers konar ribbalda radíó X poptíví ógeðsþáttum að selja unglingum neyslustíl kartöfluflagna og bjórdrykkju, þann lífsstíl sem ól af sér þá Vormenn Íslands sem ég lýsi í samnefndu bloggi frá árinu 2004. Sumir fjölmiðlar hafa hins vegar verið verri en þessar afþreyingarfabríkkur, þeir haft á sínum snærum snjalla fjölmiðlamenn til að búa til sannleikan og sem töluðu og tala ennþá máli eigenda sinna og þeirra sem nú gera sig líklega til að verða næstu eigendur og eru ekki annað en leigupennar.
Fjölmiðlarnir hafa ekki verið slæmir af því það sé svo slæmt og illa menntað fólk og óhæft á fjölmiðlum. Sei, sei, nei. Undanfarin ár hefur verið krökkt að hæfileikafólki á fjölmiðlum á Íslandi og svo margir unnu við þessa fjölmiðla að það var stórundarlegt - og er stórundarlegt - hvernig risastór miðstýrð bákn sem vinna eftir markaðsmódeli sem löngu hefur brotnað í spað hafa getað haldist uppi í íslensku samfélagi. Og þessi fyrirtæki hafa enda ekki haldist uppi af einhverju viðskiptamódeli, það er hverjum manni augljóst að þeir sem áttu fjölmiðlana áttu líka allt sem malaði eigendum gull í þessu landi og þessir eigendur gátu meðvitað sullað fé sínu til og frá og munaði lítið um að halda uppi her fjölmiðlafólks til að mála yfir og fela þær gildu leiðslur og pumpur sem þessir aðilar höfðu til að dæla handa sér fé og pumpa því áfram um allar álfur - fé sem núna hefur komið á daginn að þeir bjuggu mestanpartinn til vegna þess að þeim voru afhentar peningagerðarvélar samfélagsins og fengið sjálfdæmi í hvernig þeir mokuðu upp í sjálfa sig og út í lönd.
Skjár einn hefur aldrei leikið neitt hlutverk í því að auðga fjölmiðlaflóruna á Íslandi hvað varðar aðhald með stjórnvöldum. Satt að segja man ég ekki eftir neinu nema afþreygingarþáttum úr þeirri sjónvarpsstöð. Það má mín vegna vera til sjónvarpsstöð sem sinnir slíku og margir þættir ágætir Innlit-útlit, gæludýraþáttur og þættir um mannleg örlög.
Ég veit ekki hvort þessi fjölmiðlaþáttur var góður, ég horfði ekki á hann. Ég hef fremur lítið álit á bæði Illuga Gunnarssyni og Katrínu Jakobsdóttur sem sérfræðingum um íslenska fjölmiðla en ég vona samt að eitthvað hafi verið sagt af skynsemi í þessum þætti. Katrínu gruna ég þó ekki um græsku eða landráð, ég hef bara einfaldlega ekki heyrt hana segja neitt viturlegt eða djúpúðugt um fjölmiðla eða almennt leggja neitt það til málanna sem opinberaði fyrir mér að hún hefði einhverja innsýn í hvaða átt fjölmiðlun stefnir í heiminum á næstu áratugum. Hún virðist hafa pælt meira í sakamálasögum en framtíð fjölmiðla.
Illugi nýtur ekki trausts. Hann tengist Sjóði 9 hjá Glitni og það sýnir annað hvort andvaraleysi og litlið innsæi í efnahagsmál að hann hafi ekki gert sér grein fyrir stöðu mála og gætt hagsmuna almennings betur - eða því að hann er að gæta hagsmuna annarra en almennings í því sem hann aðhafðist. Illugi var og er væntanlega ennþá málsvari þeirra sem vilja kaupa íslenskar orkuauðlindir. Illugi er málsvari þeirrar stefnu sem seldi réttinn til að veiða fisk á Íslandsmiðum til örfárra útgerðarmanna og hann er málsvari þeirrar stefnu sem afhenti peningagerðarvélar íslensks samfélags til örfárra einstaklinga sem síðan gátu með prettum og peningabólum búið til peninga bæði til að borga fyrir þá afhendingu. Hann er betri í að spila á píanó en að gæta að fjöreggi íslensku þjóðarinnar. Það er ekki í góðum höndum hjá honum.
Sú var tíðin að talað var um Illuga og Katrínu sem framtíðarleiðtoga í íslenskum stjórnmálum. Ég er ekki viss um að svo sé ennþá þó ég trúi því að ennþá séu til aðilar bæði innlendir og erlendir sem gjarnan vildu sjá stjórnmálamann eins og Illuga í fylkingarbrjósti því þeir telja að hann gæti vel hagsmuna þeirra.
Ég held að þau sem veljast til forustu í stjórnmálum næstu áratugi þurfi að hafa mikla þekkingu, samhygð, heiðarleika, íhugun og visku sem mér virðist hvorki þeir stjórnmálaleiðtogar sem flutu sofandi að feigðarósi hafa né þau leiðtogaefni sem hafa verið að plotta sig til valda í gegnum stjórnmálaflokkana. Ég held því miður að starf í stjórnmálaflokkum á Íslandi undanfarin ár hafi ekki haft göfgandi áhrif á nokkurn mann.
En það er brambolt á fjölmiðlamarkaði á Íslandi núna, á markaði sem er enginn markaður lengur. Það fjarar undan prentmiðlum og það er raunar eingöngu tímaspursmál hvenær slíkri útgáfu verður hætt. Sjónvarp hefur einnig breyst og afþreying er ekki eins mikilvæg í staðbundinni sjónvarpsstöð sem er bergmál og endurvarp á erlendu skemmtilefni.
Það er táknrænt að fókusinn hjá stjórnvöldum er á auglýsingatekjur og að passa að það sé frjáls samkeppni eins og það í sjálfu sér tryggi eitthvað. Ef við lítum í kringum okkur í íslensku samfélagi í dag og lítum á tölurnar yfir skuldirnar sem einhverjir bjuggu til fyrir okkur að borga þá sjáum við verksummerkin um hverju vanhugsað er að byggja upp samfélag þar sem útgangspunkturinn er samkeppni og séreign og að öllu sé komið í þannig kerfi að á það sé settur verðmiði. Það er viturlegra að verja kröftu í að byggja upp samfélag sem snýst um samvinnu og sameign.
En ég vona að við stefnum ekki inn í sams konar kerfi og áður var.
Hér er blogg sem ég skrifaði um fjölmiðlun fyrir tveimur árum:
Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt
Rætt um fjölmiðla á SkjáEinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)