Siv og Óskar


Ég vona að  Siv Friðleifsdóttur gefi aftur kost á sér sem formann Framsóknarflokksins. Ég vona líka að Óskar Bergsson oddviti okkar í Reykjavík gefi kost á sér til forustu. Hann er maður sátta og samvinnu í fllokknum og hann hefur sýnt að hann getur unnið með öllum. Óskar hefur vaxið verulega sem stjórnmálamaður þann ógnarerfiða tíma sem núverandi kjörtímabil í borginni hefur verið  og sýnt að hann getur spilað vel úr afar þröngri stöðu.  Siv er þingmaður Framsóknarflokksins í Suðvesturkjördæmi og það er raunar eðlilegt að formaður flokksins sé hluti af þingliði hans, það var einmitt ástæðan fyrir að Jón Sigurðsson sagði af sér að hann komst ekki inn á þing. Það er langeðlilegast að leitað sé að næsta formanni Framsóknarflokksins innan þingliðsins. Tveir þingmanna hafa nýlega hætt og Valgerður núverandi formaður hefur tilkynnt að hún gefi ekki kost á sér. Siv er því eðlilegasti vakostur varðandi næsta formann Framsóknarflokksins.

Siv Friðleifsdóttir er  baráttukona, hún gefst ekki upp í ágjöf og vex í erfiðleikum. Margir af þeim sem hafa gefið kost á sér til forustu í Framsóknarflokknum undanfarin misseri hafa horfið á braut, oft mæddir af andbyr en stundum af því að þeim hafa orðið á hrapaleg mistök. 

Þannig hvarf Bjarni Harðarsson fyrrum þingmaður af vettvangi eftir að hafa sent út til fjölmiðla lúalegt og ósiðlegt tölvubréf,  Guðni Ágústson fyrrum formaður missti sig í ræðu á miðstjórnarfundi og tók nærri sér hvassa gagnrýni flokksmanna og sagði af sér, Jón Sigurðsson fyrrum formaður vann ekki þingsæti í Reykjavík þrátt fyrir að háð væri kosningabarátta B-lista sem var persónugerð í honum og hann sagði af sér. 

Björn Ingi oddviti okkar hér í höfuðborginni sigldi í meðbyr lengi vel og hafði einn gríðarleg völd en hann mætti þungum  mótvindi  og sagði af sér daginn sem hann missti öll völd, daginn sem Framsóknarflokkurinn var ekki lengur í stjórn Reykjavíkurborgar. Raunar er mikil eftirsjá að Birni Inga úr stjórnmálunum, hann hafði marga góða kosti. Guðjón Ólafur fyrrum þingmaður framsóknar í Reykjavík  kubbaðist niður í sjónvarpi í frægu hnífasetta-jakkafata atriði,  Árni Magnússon bróðir Páls Magnússonar sem nú býður sig fram til formanns sagði af sér sem félagsmálaráðherra. Svo hefur það líka gerst að Framsóknarforingjar hafa sagt af sér áður en þeir eru orðnir foringjar og  komnir í kosningaslaginn en eftir að þeir eru búnir að láta birta við sig drottningarviðtöl. Þannig var um Finn Ingólfsson, hann var kallaður til formannsframboðs en burtkallaðist allsnarlega.

Þannig hefur hver Framsóknarforinginn fallið í valinn og það stundum fyrir eigin hendi, vegna eigin afglapa og mistaka en stundum vegna þess að þeim var ekki fylgt að málum og þeir fengu engan hljómgrunn. Ég er mjög leið yfir að Jón Sigurðsson sagði af sér á sínum tíma. Það er maður sem ég hefði treyst til allra góðra verka. 

Mín fyrstu afskipti af málum í Framsóknarflokknum urðu í Freyjumálinu svokallaða. Það var þannig að flestir telja að það hafi verið eitthvað plott hjá Páli Magnússyni og bróður hans, eitthvað tengt því að ná undir sig öllum félögum og þar með fulltrúum á kjördæmaþing og liður í því var að gera innrás í kvenfélag Framsóknarkvenna í Kópavogi. 

Þetta var engum þeim til sóma sem stóðu að þessu tilræði við kvenfélag í Kópavogi og það kemur því nokkuð á óvart núna að Páll Magnússon skuli núna segjast leggja á það höfuðáherslu að breyta vinnubrögðum í flokkstarfi og auka lýðræði. 
Hvernig virkaði lýðræðið í Freyjumálinu í Kópavogi?
Er það þannig lýðræði sem við viljum á Íslandi?

En ég er ánægð að sjá að það skuli vera menn sem vilja bjóða sig fram til forustu í Framsóknarflokknum og ég þekki fólk sem ber Páli vel söguna.

Það eru hins vegar þrjú atriði sem mér finnst skipta nokkru máli.

Í fyrsta lagi var Páll Mangússon aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra og getur þannig ekki skotið sér undan ábyrgð á því hruni íslensks efnahagslífs sem nú er orðið að veruleika. Þótt hrunið verði haustið 2008 þá er það afleiðing óstjórnar og spillingar sem viðgengst í mörg, mörg ár.

Í öðru lagi þá tengist Páll Magnússon og Árni Magnússon innrásinni í kvenfélagið Freyju í Kópavogi og ýmsum öðrum aðgerðum í Framsóknarflokknum sem gefa okkur ekki tilefni til að halda að hann sé besti kandidatinn í að stýra flokki til breyttra vinnubragða og aukins lýðræðis. 

Í þriðja lagi hefur Páll undanfarið verið  bæjarritari í Kópavogi og staðgengill bæjarstjóra þar. Eftir því sem ég best veit stendur Kópavogskaupstaður ekki vel fjárhagslega og þar eru engar skrautfjaðrir sem þeir sem stýrðu geta státað sig af.

Á þeim tíma sem ég hef starfað í Framsóknarflokknum hef ég kynnst mörgu góðu fólki. Sérstaklega hef ég verið hrifin af því hve margar sterkar og öflugar stjórnmálakonur hafa vaxið þar upp. 

Það er gaman að núna skuli kona vera formaður Framsóknarflokksins. Ég vona að næsti formaður Framsóknarflokksins verði líka kona. Ég held að Siv Friðleifsdóttir sé mun líklegri til að byggja upp umhverfi aukins lýðræðis í flokknum heldur en Páll Magnússon og ég hugsa að hún hafi meiri framsýni og skerpu en hann. 

Það er líka miklu meiri töggur í Siv heldur en strákunum sem hurfu af vettvangi einn af öðrum.

Það eru miklir mæðutímar hjá Framsóknarflokknum núna. Staðan er hins vegar þannig núna hjá okkur í Reykjavík að það hefur aldrei verið eins gaman að vera í Framsóknarflokknum. Ég starfa núna með Framsóknarfélaginu í Reykjavík og með borgarstjórnarliði flokksins sem vinnur undir forustu Óskars Bergssonar og þar vinna menn saman á þann hátt sem Framsóknarmenn eiga að gera. Rífast töluvert og eru ekki alltaf sammála en standa saman að því að vinna að góðum málum í Reykjavík. 

Óskar Bergsson og Siv Friðleifsdóttir eru stjórnmálamenn sem þola vel mótbyr. Óskari hefur tekist undravel að vinna úr þeirri stöðu sem kom upp í Reykjavík og hann hefur lagt áherslu á að byggja upp flokksstarfið og lýðræðislega stjórnarhætti. Óskar er líka maður skynsemishyggju   eins og við Framsóknarmenn   erum gjarna og hann barðist mikið á móti því að Bitruvirkjun væri fleygt út af kortinu eða settir milljarðar í húskofarugl.

Vonandi muna Reykvíkingar eftir því við næstu kosningar að það var Framsóknarflokkurinn undir forustu Óskars Bergssonar sem frelsaði borgina úr ómögulegu ástandi - úr ástandi þar sem Ólafur Magnússon hafði verið dubbaður upp sem borgarstjóri af Sjálfstæðismönnum - svona sambærilegu ástandi eins og ef Ástþór Magnússon væri dubbaður upp sem forsætisráðherra Íslands. Og það er undir forustu Óskar sem Framsóknarflokkurinn í Reykjavík vinnur fumlaust að málefnum Reykvíkinga og að því að styrkja innviði flokksstarfsins. 


mbl.is Páll býður sig fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er draumsýn því framsóknarflokkurinn er að deyja út. Það held ég að sé staðreynd þið fenguð tækifæri og gjörsamlega klúðruðu málunum

Guðrún (IP-tala skráð) 5.12.2008 kl. 23:07

2 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Sammála þér Salvör með Jón Sig., ég hefði viljað sjá hann lengur. Verst að hann á varla endurkomu sem foringi - hann er svo hógvær og lætur örugglega fyrrum dvöl sína í bankamálaráðuneytinu stoppa sig af.

Ég er ekki viss um að Páll sé sá rétti, deili efasemdum þínum um hann.

Höskuldur kemur vel fyrir, án þess að ég þekki til hans annað en það sem hefur heyrst nú nýverið.

Óskar er fínn drengur. Ég var mjög ánægður með grein sem hann var að skrifa um Guðna í Mbl. í dag, greinin sýnir að hjartað er á réttum stað hjá honum og vitnar um skynsemi hans. Flokksmenn þurfi sáttahug og einingu fremur en að berjast eins og var gert gagnvart Guðna.

Einar Sigurbergur Arason, 6.12.2008 kl. 00:20

3 identicon

Sæl Salvör

Þetta blogg er athyglisvert að  mörgu leyti og get ég tekið undir ýmislegt sem þú segir þar m.a. það sem þú segir um Framsókn í Reykjavík, Óskar og borgarstjórnarhópinn sem ég tilheyri ásamt þér. Hins vegar finnst mér einkennilegt að sjá hjá þér að á sama tíma og þú hafnar Páli Magnússyni sem formanni Framsóknar m.a. af því að hann var aðstoðarmaður ráðherra í den og þurfi að axla ábyrgð vegna þess þá telur þú að Siv sé framtíðarleiðtogi. Þú talar um að hrunið í dag sé afleiðing margra ára óstjórnar og spillingar en ég vil benda þér á það að Siv sem var ráðherra í ríkisstjórn Íslands hlýtur að bera meiri ábyrgð á óstjórninni heldur en aðstoðarmaður sem hefur ekki atkvæðarétt í neinu máli. Siv er klár og dugleg kona en hún er ekki framtíðarleiðtogi Framsóknarflokksins. Svona er nú staðan.

Bestu kveðjur, Anna

Anna Margrét Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 6.12.2008 kl. 15:19

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna: Ef Siv hefði ekki verið umhverfisráðherra á sínum tíma þá væri hún sjálfkjörinn leiðtogi Framsóknarflokksins núna. Það er einmitt það að hún var ráðherra og ber eins og allir sem voru í ríkisstjórn sína ábyrgð sem veldur því að það má alveg skima yfir völlinn og sjá hvort einhver finnst sem hefur bæði hennar reynslu og  leiðtogahæfileika sem stendur henni framan. Það er svo sannarlega ekki Páll Magnússon, hann hefur vissulega mikla reynslu en hann var því miður ennþá tengdari því kerfi (þ.e. sem aðstoðarmaður í  viðskipta- og iðnaðarráðuneyti).

Það er ljóður á Siv að hafa verið ráðherra í ríkisstjórn sem átti sinn þátt í því hruni sem núna er orðið, það er enginn vafi í mínum huga um það. Hins vegar ber að líta á það að sá málaflokkur sem hún bar ábyrgð á (umhverfismál) var ekki nátendur því sem sem olli hruninu  og mér vitanlega tengist hún engum hneyklismálum. Þvert á móti þá er augljóst að hún hefur ekki verið í náðinni hjá þeim aðilum sem mestu klúðruðu og undarlegast höguðu sér og það hefur oft verið reynt að bregða fyrir hana fæti. 

Ég kem ekki auga á neina þá aðila sem standa Siv framar í að verða leiðtogar Framsóknarflokksins akkúrat núna.  Við eigum mjög mikið af upprennandi stjórnmálafólki en enginn hefur þessa reynslu og yfirsýn og þar að auki langa reynslu sem þingmaður. Það er mikilvægt á þessum tímum.  

Ég held hins vegar að piltarnir þrír sem núna hefa boðið sig fram til forustu séu allir hæfileikaríkir og það er auðvitað ágætt að margir keppist við að verða formenn Framsóknarflokksins. Þetta er nú ekki flokkur í neinum dauðateygjum

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.12.2008 kl. 23:44

5 Smámynd: Einar Sigurbergur Arason

Ég held að Siv hafi vissa sérstöðu, hún er að því leyti ekki alveg út úr korti þó hún hafi verið ráðherra. Mér finnst hún á hinn bóginn ekki vera hugmyndafræðilegur leiðtogi. Ég sé hana ekki alveg í því að setja kúrsinn þannig að fólk hrífist með. En Halldór hafði þennan galla að vísu líka, hún verður tæplega óvinsælli en hann..

Reynsla er kostur, þar er ég sammála. En eigum við einhvern sem sameinar reynsluna og þá leiðtogahæfileika sem þarf í hlutverkið?

Þeir sem ég sé hafa leiðtogahæfileikana eru Höskuldur og Óskar. Reynsluleysið er vissulega galli, en ég man að Hallur Magg benti á það á sínu bloggi að þegar Hermann og Eysteinn tóku við flokknum var það mikið gæfuspor - og þeir voru óvæntir leiðtogar, - höfðu þeir einhverja reynslu þegar þeir voru valdir?

Hermann kom inn á þing 1934, sama ár varð hann forsætisráðherra. Eysteinn fór inn í ríkisstjórn sama ár, eftir eitt ár á þingi. Mér fannst á Halli að Hermann hefði tekið við formennskunni 1934, en sé að það var reyndar ekki fyrr en 1944. Hann leiddi flokkinn hins vegar í ríkisstjórnum strax frá '34, en Ásgeir Ásgeirsson og Jónas frá Hriflu voru formenn í millitíðinni.

Einar Sigurbergur Arason, 8.12.2008 kl. 07:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband