Krugman og kreppan

Paul Krugman spáir langri kreppu og hann sér ekki neinn stað í heiminum þar sem fólk er  óhult fyrir áhrifum hennar. Hvernig mun kreppan leika Kína, landið þar sem unga fólkið heldur núna að gríðarlegur hagvöxtur sé náttúrulögmál, landið þar sem rekinn er einhvers konar kommúnískur markaðsbúskapur.  Eða hvernig mun kreppan fara með stöðnuðu svæðin í Evrópu, svæðin þar sem er mikið  atvinnuleysi, svo mikið að sums staðar hefur ekki nema helmingur af ungu fólki vinnu.

Ef til vill eru uppþotin sem núna eru í Grikklandi tengd ástandinu á þannig svæðum, ef til vill munu sams konar uppþot blossa upp á Spáni og færa sig eftir álfunni. Ef til vill mun kreppan brjóta upp samfélög Evrópu og Ameríku meira en okkar órar fyrir núna. Það er að verða snögg skerping á lífskjörum víða um lönd og öryggisleysi vofir yfir öllum. Það skiptir líka máli að þeir sem verða nú fyrir mestri skerðingu eru fólk sem hefur mikinn baráttuþrótt, það er ungt fólk sem annað hvort missir vinnu sína eða sér fram á að fá ekki vinnu og þar er oft fólk sem er vel menntað. Það er fólk sem hefur slagkraft til mótmæla ef það skipuleggur sig í hreyfingum. Það er ekki víst að öll mótmæli verði friðsamleg. Satt að segja þá eru mótmæli á Íslandi í dag tiltölulega friðsamleg. Borgarafundir og mótmælafundir eru friðsamlegir en þær aðgerðir sem minni hópar hafa efnt til eins og innrás í Seðlabankann  og upphengingar á táknum virðast frekar vera einhvers konar listrænir gjörningar og meðvituð borgaraleg óhlýðni. Ég skynja ekki ennþá hérna þá spennu sem er sums staðar erlendis t.d. á innri Nörrebro í Kaupmannahöfn, þar getur soðið upp úr hvenær sem er.

En kreppan hefur valdið því að samfélagið hrundi á Íslandi. Þetta er ekki bara bankahrun, það voru ekki bara einhverjir þrír bankar sem  fóru á hliðina. Það féll saman mestallt atvinnulíf á Íslandi og stjórnsýslan er einhvers staðar undir rústunum og allra neðst eru þeir sem mesti þunginn af hruninu lenti á, það er ungt skuldugt fólk á Íslandi, fólk sem hefur ekki mikinn hreyfanleika vegna þess að það er með ung börn og fólk sem missti vinnu eða hefur enga möguleika á að fá vinnu núna. Undir rústunum eru líka allir þjóðfélagsþegnar sem þurfa nú að taka á sig miklar skuldabyrði út af erlendum bankaskuldum sem þeir vissu ekki að væru til. "Við eigum fiskinn og við eigum orkuauðlindir, við reddum þessu" segja hinir bjartsýnu og átta sig ekki á því að leyfið til að veiða fisk við Íslandsstrendur hefur löngu verið framselt úr hendi íslenskrar alþýðu og er sennilega beint og óbeint núna í erlendri eigu og yfir orkuauðlindum hafa ginið þeir sem vildu breyta þeim í hf verðmiða svo hægt væri að selja sem fyrst í einkavæðingaræði. Það var bara skemmra komið í orkuauðlindum en í fiskinum og bönkunum. En jafnvel þó við ættum fisk til að selja og orku til að selja þá  hefur heimsmarkaðsverð á báðu farið niður. Álverðið hefur hrapað og orkuverð hefur hrapað í heiminum.

það er alls staðar verðhjöðnun. Það hljómar kannski ekki illa, allt orðið ódýrara en það er miklu meira að óttast fyrir almenning að við taki langt tímabil verðhjöðnunar og kyrrstöðu. Kreppan er að sumu leyti búin til í huga fólks - fólks sem hegðar sér einst og allt annað fólk - og af því að allir halda að sér höndum, fresta því að kaupa bíla og dýra hluti og reyna að tempra eyðslu sína - þá verður svona keðjuverkum - ótti við kreppu veldur kreppu.

En út frá umhverfissjónarmiðum eru ljósir punktar í kreppunni. Neyslusamfélag og umbúðasamfélag víkur fyrir samfélagi þar sem fólk býr til hlutina sjálft, hugsar um nýtni, sparar og reynir að stunda vöruskipti. Ef til vill mun eiga sér stað einhver kerfisbreyting á hvernig viðskipti fara fram, peningakerfið sem við höfum búið við hefur hrunið, ekki síst þegar gjaldmiðillinn sjálfur varð að einvers konar froðu. Það er ekkert sérstaklega bundið við íslensku krónuna, hún er bara svo örsmár gjaldmiðill að við sjáum og finnum betur fyrir hve gjaldmiðillinn er fáránlegur hérna.

Það verða örugglega breytingar á við hvað Íslendingar starfa. Bankastarfsemi hefur snarminnkað og það er raunar ekkert sem bendir til annars en áfram muni fækka starfsfólki í bönkum. Það kom fram í fréttum í vikunni að það væri áætlað að um þúsund manns hefðu atvinnu sína af einhvers konar bílasölu og bílastússi. Það er fáránlegt tala og það mun aldrei koma aftur sá tími að bílasala verði atvinnuvegur sem veitir mörgum vinnu.  Það er eitt sem við verðum að horfast í augu við, það er margs konar atvinna að hverfa núna og fólk verði að leita sér að atvinnu á öðrum sviðum, við iðju og þjónustu sem passar fyrir hið nýja samfélag. Við þurfum líka að endurskoða alla vinnu sem  skattgreiðendur borga - er þetta vinnuframlag að nýtast? Af hverju þarf að halda uppi 64 manns og aðstoðarfólki á valdalausu þingi sem næstum eingöngu virðist hafa það hlutverk að stimpla lög sem koma frá Evrópusambandinu?  Af hverju á smáríki eins og Ísland að halda úti sendiherrum og sendiráðsbústöðum út um allar trissur, sumum svo nálægt Íslandi að þangað eru margar ferðir á dag? Er gjaldeyri ekki ákaflega illa varið í gamaldags sendiráðsstarfsemi, að reka sendiráð sem einhver hvíldarhæli fyrir gamla pólítíkusa? Hvað með forsetaembættið? Þurfum við áfram að halda uppi einhverju  batteríi sem núna síðustu ár hefur verið alfarið í þjónustu auðmanna?  Forsetinn er svo sannarlega ekki sameiningartákn þjóðarinnar, Vigdís Finnbogadóttir var það vissulega og er það enn.  En ekki Ólafur. Hann sem klifraði áfram í íslenskri pólitík inn í Alþýðubandalaginu gerðist lagsmaður þeirra sem nú hafa steypt okkur í glötun og hann gerðist trúboði þeirra og talsmaður. Forsætisembættið varð almannatengslaskrifstofa, ekki fyrir almenning heldur fyrir útrásarspilakassaauðjöfra til að tengjast háttsettum aðilum í fjarlægum löndum. Forsetinn var auk heldur sérstakur verndari þeirrar tegundar af fjölmiðlun sem er þannig að auðmenn sem spila með Ísland eigi alla fjölmiðla.

Er ekki betra að breyta forsetaembættinu?  Annað hvort leggja það niður eða takmarka hvað  forsetinn má gera í alþjóðamálum? Eða breyta því í embætti sem snýr alfarið inn á við, embætti sem þjónustar almenning á Íslandi og vinnur eingöngu að því sem sameinar íslenska þjóð.  Er ekki betra að nýta starfsorku allra þeirra sem starfa í sendiráðum til að byggja upp aftur eftir hrunið hér á Íslandi og er ekki betra að nota gjaldeyrir sem fer núna í sendiherra og sendiráðsstarfsemi til að aðstoða þróunarlönd. 

Allir á Íslandi í dag ættu að spá í hver þörf sé fyrir þá vinnu sem þeir vinna nú fyrir íslenskt samfélag, hvort þeir séu að vinna eitthvað sem á framtíð fyrir sér í gerbreyttu samfélagi og hvort hæfileikar þeirra og reynsla getur komið að betri notum við eitthvað annað - hugsanlega eitthvað nýtt viðfangsefni og iðju sem enginn stundar í dag.


Það má færa gild rök fyrir því að betra væri fyrir Ísland að listrænir hæfileikamenn  eins og seðlabankastjórinn okkar fari úr því embætti sem hann er í núna og taki til við skriftir og leikritaskrif. Einn af þeim sem fyrir lifandis löngu söðlaði um er Ármann sem kenndur er við Ávöxtun, fjármálafyrirtæki sem fór á hausinn. Ármann var snjall fjármálamaður en nú er hann fagurkeri sem yrkir linjettur og selur sínar eigin ljóðabækur.

Það hefur verið kvartað yfir því að eftir hrunið sé enginn breyting, það sitji allir í sömu stólunum. Það er kannski lausnin að bjóða marga sem núna sitja sem fastast að um leið og þeir fari þá taki þeir með sér stóla sína og verði eins og Ármann sem fékk forstjórastóllinn sinn til baka. Þá gengur þeim kannski betur að yrkja eða gera annað sem auðgað getur hin nýja íslenska samfélag.


mbl.is Krugman óttast „glataðan áratug“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Sæmundsdóttir

Frábær pistill hjá þér Salvör

Guðrún Sæmundsdóttir, 9.12.2008 kl. 15:04

2 identicon

Ég tek undir það að þetta er góður pistill. Hér er meðal annars velt upp þeirri spurningu hvernig vinna og starfsemi mun skila raunverulegum arði í framtíðinni, nú eftir að pappíraverðmæti síðustu ára eru hrunin til grunna. Hér ættu sem flestir að hugsa sig um og íhuga hvert svarið gæti hugsanlega verið.

Varðandi heimskreppuna að þá er orsök að baki henni, en hver skyldi hún vera? Hlutir sem þessir gerast ekki af sjálfum sér, það er orsök, en annað mál er að koma auga á hana. Salvör segir að "Kreppan er að sumu leyti búin til í huga fólks" Þetta er áhugavert, er þetta skýringin?, hluti af henni?, eða er eitthvað annað að baki? Ég hvet sem flesta til að velta þessu fyrir sér.

Bjarni Hafsteinsson (IP-tala skráð) 9.12.2008 kl. 16:33

3 Smámynd: haraldurhar

   Góður pistill sem ég er að mestu leiti sammála, en skif þín um Ólaf Ragnar og gerðir hans, eru ósanngjörn í meira lagi, en hann hefur unnið frábært starf sem forseti, og þessi síendurtekna rulla um forsetan og útrásavíkingina, hljómar fyrir mér sem slitinn plata.  Ólafur hefur opnað margar dyr fyrir íslenzkum fyrirtækjum á erlendri grundu, sem hafa veitt mörgum hundruðum manna atvinnu, og skilað miklum verðmætum í þjóðarbú okkar og gera enn.   Ólafur hefur heimsótt nær alla skóla og fjölda vinnustaða hér á höfuðborgarsvæðinu, einning út á landsbyggðinni, til að ræða við fólk og styða á seinustu vikum. Eg hef ekki orðið var við að ´Frú Vigdís hafi haft neina tilburði til að ræða við né heimsækja fólk opinberlega á þessum síðustu og verstu tímum, nær að halda hún hafi bara alið manninn erlendis, og það jafnvel  á opinberri framfærslu. 

haraldurhar, 9.12.2008 kl. 22:59

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Bjarni: Það samfélag sem við búum í er að miklu leyti hugsmíð okkar, hugsmíð sem margir taka þátt í að smíða og miðla til nýrri kynslóða. Kreppan er tilbúin, hún er verk mannanna, hún er byggð upp á mismunandi og stundum misvísandi væntingum milljarða fólks. Sumir hafa mikið áhrif eins og auðjöfurinn Soros sem gat haft áhrif einn á enska pundið en sumir og reyndar flestir hafa lítil sem engin áhrif.

það versta sem út úr þessari kreppu getur komið er sams konar kerfi sem var áður. Kreppan er einmitt áfellisdómur um það kerfi. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.12.2008 kl. 14:34

5 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Haraldur: Forsetinn hefur verið tákn íslands og hann hefur verið vörumerki og almannafulltrúi útrásarvíkinga. Þannig er það nú bara. Þess vegna er hann ekki sameiningartákn núna eins og hann ætti að öllu jöfnu að vera.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.12.2008 kl. 14:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband