Brambolt í mölbrotnu kerfi

Það er ekki margt sem gleður á Íslandi í dag.  Það eru engin teikn á lofti að botni fjármálakreppunnar hérna né erlendis sé náð og það eru engin teikn á lofti um að stjórnarfar hérna á Íslandi fari skánandi. Þvert á móti þá virðist það fara versnandi með hverjum deginum.

Það er ekkert í íslensku stjórnarfari sem gerir hugsandi og upplýstu hugsjónafólki kleift að koma að stjórn þessa lands. Þvert á móti er allt upplýsingaflæði til almennings eftir hinum gömlu farvegum þar sem þeir sem ráðskuðust með  bróðurpartinn af öllu á Íslandi sögðu þeim sem áttu lítið og réðu engu hvaða skoðanir  valdalaust fólk ætti að hafa og hvernig það ætti að hylla valdhafana og dásama molana sem hnutu af gnægtaborði þeirra til fátækra.

Það er vissulega tímabært að ræða um hlut fjölmiðla. Fjölmiðlar á Íslandi hafa brugðist þjóðinni heiftarlega. Þeir hafa ekki verið neitt fjórða vald, í þeim hafa safnast fyrir sömu forarpyttir spillingar og núna valda rotnun í mörgum kerfum á Íslandi. Sumir fjölmiðlar hafa ekki verið annað en síbylja af erlendu afþreyingarefni, þar sem botninn  var sakamálaþættir þar sem konur eru brytjaðar í spað og mergsognar lifandi og ofbeldi réttlætt undir yfirskyni skemmti- og spennuþátta og sem og einhvers  konar ribbalda  radíó X poptíví  ógeðsþáttum að selja unglingum neyslustíl kartöfluflagna og bjórdrykkju, þann lífsstíl sem ól af sér þá Vormenn Íslands sem  ég lýsi í samnefndu bloggi frá árinu 2004. Sumir fjölmiðlar hafa hins vegar verið verri en þessar afþreyingarfabríkkur, þeir haft á sínum snærum snjalla fjölmiðlamenn til að búa til sannleikan og sem töluðu og tala ennþá máli eigenda sinna og þeirra sem nú gera sig líklega til að verða næstu eigendur og eru ekki annað en leigupennar.

Fjölmiðlarnir hafa  ekki verið  slæmir  af því það sé svo slæmt og illa menntað fólk og óhæft á fjölmiðlum. Sei, sei, nei.  Undanfarin ár hefur verið  krökkt að hæfileikafólki á fjölmiðlum á Íslandi og svo margir unnu við þessa fjölmiðla að það var stórundarlegt  - og er stórundarlegt - hvernig risastór miðstýrð bákn sem vinna eftir markaðsmódeli sem löngu hefur brotnað í spað hafa getað haldist uppi í íslensku samfélagi. Og þessi fyrirtæki hafa enda ekki haldist uppi af einhverju viðskiptamódeli, það er hverjum manni augljóst að þeir sem áttu fjölmiðlana áttu líka allt sem malaði eigendum gull í þessu landi og þessir eigendur gátu meðvitað sullað fé sínu til og frá  og munaði lítið um að halda uppi her fjölmiðlafólks til að mála yfir og fela þær gildu leiðslur og pumpur sem þessir aðilar höfðu til að dæla handa sér fé og  pumpa því áfram um allar álfur - fé sem núna hefur komið á daginn að þeir bjuggu mestanpartinn til vegna þess að þeim voru afhentar peningagerðarvélar samfélagsins og fengið sjálfdæmi í hvernig þeir mokuðu upp í sjálfa sig og út í lönd.

Skjár einn hefur aldrei leikið neitt hlutverk í því að auðga fjölmiðlaflóruna á Íslandi hvað varðar aðhald með stjórnvöldum. Satt að segja man ég ekki eftir neinu nema afþreygingarþáttum úr þeirri sjónvarpsstöð. Það má mín vegna vera til sjónvarpsstöð sem sinnir slíku og margir þættir ágætir Innlit-útlit, gæludýraþáttur og þættir um mannleg örlög.  

Ég veit ekki hvort þessi fjölmiðlaþáttur var góður, ég horfði ekki á hann.   Ég hef fremur lítið álit á  bæði  Illuga Gunnarssyni og  Katrínu Jakobsdóttur sem sérfræðingum um íslenska fjölmiðla en ég vona samt að eitthvað hafi verið sagt af skynsemi í þessum þætti.  Katrínu gruna ég þó ekki um græsku eða landráð, ég hef bara einfaldlega ekki heyrt hana segja neitt viturlegt eða djúpúðugt um fjölmiðla eða almennt leggja neitt það til málanna sem opinberaði fyrir mér að hún hefði einhverja innsýn í hvaða átt fjölmiðlun stefnir í heiminum á næstu áratugum. Hún virðist hafa pælt meira í sakamálasögum en framtíð fjölmiðla.

Illugi nýtur ekki trausts.  Hann tengist Sjóði 9 hjá Glitni og það sýnir annað hvort andvaraleysi  og litlið innsæi í efnahagsmál að hann hafi ekki  gert sér grein fyrir stöðu mála og gætt hagsmuna almennings betur - eða því að hann er að gæta hagsmuna annarra en almennings í því sem hann aðhafðist. Illugi var og er væntanlega ennþá málsvari þeirra sem vilja kaupa íslenskar orkuauðlindir. Illugi er málsvari þeirrar stefnu sem seldi réttinn til að veiða fisk á Íslandsmiðum til örfárra útgerðarmanna og hann er málsvari þeirrar stefnu sem afhenti peningagerðarvélar íslensks samfélags til örfárra einstaklinga sem síðan gátu með prettum og peningabólum búið til peninga bæði til að borga fyrir þá afhendingu. Hann er betri í að spila á píanó en að gæta að fjöreggi íslensku þjóðarinnar. Það er ekki í góðum höndum hjá honum.

Sú var tíðin að talað var um Illuga og Katrínu sem framtíðarleiðtoga í íslenskum stjórnmálum. Ég er ekki viss um að svo sé ennþá þó ég trúi því að ennþá séu til aðilar bæði innlendir og erlendir sem gjarnan vildu sjá stjórnmálamann eins og Illuga í fylkingarbrjósti því þeir telja að hann gæti vel hagsmuna þeirra. 

Ég held að þau sem veljast til forustu í stjórnmálum næstu áratugi þurfi að hafa mikla  þekkingu, samhygð, heiðarleika, íhugun og visku sem  mér virðist hvorki  þeir stjórnmálaleiðtogar sem flutu sofandi að feigðarósi hafa  né þau leiðtogaefni sem hafa verið að plotta sig til valda í gegnum stjórnmálaflokkana. Ég held því miður að starf í stjórnmálaflokkum á Íslandi  undanfarin ár hafi ekki haft göfgandi áhrif á nokkurn mann.

En það er brambolt á fjölmiðlamarkaði á Íslandi núna, á markaði sem er enginn markaður lengur. Það fjarar undan prentmiðlum og það er raunar eingöngu tímaspursmál hvenær slíkri útgáfu verður hætt. Sjónvarp hefur einnig breyst og afþreying er ekki eins mikilvæg í staðbundinni sjónvarpsstöð sem er bergmál og endurvarp á erlendu skemmtilefni. 

Það er táknrænt að fókusinn hjá stjórnvöldum er á auglýsingatekjur og að passa að það sé frjáls samkeppni eins og það í sjálfu sér tryggi eitthvað. Ef við lítum í kringum okkur í íslensku samfélagi í dag og lítum á tölurnar yfir skuldirnar sem einhverjir bjuggu til fyrir okkur að borga þá sjáum við verksummerkin um hverju vanhugsað  er að byggja upp samfélag þar sem útgangspunkturinn er samkeppni og séreign og að öllu sé komið í þannig kerfi að á það sé settur verðmiði.  Það er viturlegra að verja kröftu í  að byggja upp samfélag sem snýst um samvinnu og sameign.

En ég vona að við stefnum ekki inn í sams konar kerfi og áður var. 

Hér er blogg sem ég skrifaði um fjölmiðlun fyrir tveimur árum:

Brjáluð kona hringir í RÚV um hánótt

 


mbl.is Rætt um fjölmiðla á SkjáEinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef ég man rétt þá byrjaði Silfur Egils á Skjá 1, sá þáttur opnaði stjórnmála umræðu á Íslandi.

Ólafur Jón (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 15:13

2 identicon

Egill er sín eigin sjónvarpsstöð og fjölmiðill og hetja. Skjár einn er ruslakista vestrænnar menningar. Ég er sammála um að Illugi Gunnarsson eigi að halda sig fjarri pólitík um alla framtíð, hann hefur glatað trausti okkar og hugmyndafræðin sem hann aðhyllist er hættuleg.

Svo legg ég til að Valhöll verði jöfnuð við jörðu og saltað yfir þessa uppeldisstöð Davíðsblóðsugunnar, sívælandi viðbjóðs sem hengir sig á fólk gegnum fjölmiðla, eyðileggur morgunkaffið að ógleymdum pólitískri menningu heilu þjóðanna og efnahag þeirra.

Elín Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 4.12.2008 kl. 19:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband