Fangar tjúllast

Fangar tjúllast og unglingar tjúllast þegar teknar eru af þeim tölvurnar eins og þessi frétt um óeirðir í öryggisfangelsi í London segir frá. Ég er reyndar ekki að fatta hvers vegna fangar í fangelsum geta ekki haft aðgang að Netinu undir eftirliti. Þá vil ég náttúrulega undanskilja þá sem eru líklegir til að fremja glæpi sem tengjast netnotkun þ.e. fíkniefnasala og barnaperra eins og hann Ágúst sem einmitt reyndi að fremja afbrot þegar hann var að afplána í opnu fangelsi eins og Kompásþátturinn afhjúpaði svo eftirminnilega.

En Netaðgangur fanga er ekki bara verkfæri sem þeir geta notað til að fremja afbrot, leggja á ráðin um hryðjuverk, sammælast við dópsala og klæmast við börn. Netaðgangur gerir föngum líka kleift að stunda nám utan fangelsis og það má velta því fyrir sér hvort það þjóðfélag er ekki mannúðlegast sem leyfir öllum að hafa rödd, líka þeim sem lægst standa í samfélagsstiganum, líka þeim sem eru lokaðir inn á stofnunum vegna afbrota sinna. Þannig þætti mér hið besta mál að fangar gætu bloggað og lýst lífi sínu og líðan - og ekki síst sagt okkur hinum sem utan fangelsis erum hvort þar sé allt með felldu og mannréttindi virt. Ég hafði gaman af því að kíkja stöku sinnum á bloggið hjá Bryggjutröllunum en það voru nokkrir strákar á Kvíabryggju sem blogguðu saman - reyndar var það bróðir eins sem setti inn á bloggið skrif fanganna þegar hann kom í bæinn. Mér fannst þetta blogg gefa innsýn í hugarheim þeirra og hvaða ráð þeir höfðu til að umbera þær aðstæður sem þeir voru í, þeir báru sig vel, voru kokhraustir en undir niðri fann maður þá kvöl sem ég held að sé alltaf hluti af lífi þess sem sviptur er frelsinu. En blogginu þeirra var lokað.

 


mbl.is Óeirðir í fangelsi í Lundúnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst þú nú svolítið græn að halda að það gæti gengið upp.

H (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 02:34

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

ég held að þetta geti alveg gengið upp. það er alveg örugglega ekki öllum treystandi fyrir netaðgangi, það munu einhverjir reyna að misnota það. En það þurfa þá að vera fangaverðir sem kunna eitthvað á tæknina og kunna að hafa eftirlit með þessu.

Fólk ætti að hugleiða hversu illa fangagæslan virðist ráða við vandamálin jafnvel þótt fangarnir séu kyrfilega lokaðir inni. þannig er frétt í dag um að það sé verið að reyna að hafa einn fíkniefnalausan gang á Litla Hrauni - HALLÓ! er þetta eðlilegt í stofnun þar sem á alls ekki að vera neinn aðgangur að fíkniefnum!!! og svo var bara í fréttunum í síðustu viku að fangavörður þar hefði verið staðið að því að selja föngum fíkniefni.

Svona er ástandið í fangelsunum. Svo heldur fólk að það sé best að læsa fangana ennþá meira inni og gera þá einangraðri. Sennilega verður það bara til þess að líf þeirra verður óbærilegra, þeir fremja sjálfsmorð og reyna með öllum ráðum að dópa sig niður til að halda þetta út.  

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.5.2007 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband