Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Fólkið hrópaði "Vanhæf ríkisstjórn"

 

Hér eru vídeó sem ég tók upp í kryddsíldarmótmælunum. Það var magnþrungin stemming inn í portinu við Hótel Borg, þetta var eins og hljómkviða. Sumir voru með potta og ýlur og þvottabretti og fólkið hrópaði í kór "Vanhæf ríkisstjórn" og "Valdníðsla" og að þetta væru lögleg mótmæli en ólögleg ríkisstjórn.  Ég sá ekki þegar sprautað var með piparúða. Ég heyrði bara mjög óljós í einhverjum mjög ámátlegum og máttlausum háttalara að þetta væri síðasta aðvörun, lögreglan hefði fengið heimild til að nota táragas. Það skemmdi stemminguna dáldið og mér fannst hyggilegt að koma mér langt út á Austurvöll. Nú veit ég ekki hvort að piparúði og táragas er það sama, mér finnst orðið piparúði hjóma eitthvað minna ógnvekjandi, er piparúði sama og táragas? 

En mér finnst bara hallærislegt að lögreglan sé svo illa búin að hún hafi einhver hátalaraskrapatól sem næstum heyrist ekkert í, það var bara mildi að ég heyrði þessa viðvörun lögreglunnar, hún drukknaði næstum í mótmælaskarkalanum. Svo er ég ekki frá því að mér hafi vöknað um augu, ég veit ekki alveg hvort það var út af einhverjum piparúða eða hvort það var út að  því sem einn strákurinn hrópaði að lögreglumönnunum. Hann hrópaði "Af hverju standið þið ekki með okkur? Þeir hafa rænt ykkur líka. Þið eruð í sömu sporum og við"

Eftir mótmælin leit sviðið á einum stað svona út:

 


mbl.is Mótmælin áttu að vera friðsamleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmyndir og vídeó frá mótmælunum

IMG_3029

IMG_3077

IMG_3005

 

"Ég var ekki þar, ég var að æfa lögreglukórinn" söng Bubbi einu sinni. En ég var þar og þar var líka örugglega megnið af lögreglukórnum en þeir sungu ekki. Mótmælendur sungu hins vegar við raust og reyndu að hafa hátt enda var held ég markmiðið að hafa svo hátt að það truflaði útsendinguna þar sem formenn stjórnmálaflokkanna voru að tjá sig í kryddsíldinni. Það tókst að trufla útsendinguna.

Hér eru myndasyrpa sem ég er að hlaða inn á flickr sem ég er að hlaða inn af kryddsíldarmótmælunum. Hér er myndasyrpa af tendrun neyðarblysa við stjórnarráðið.

Það tekur tíma að hlaða inn myndum þannig að ég bæti við þetta smán saman. Tók líka mikið af vídeóklippum sem ég set inn á eftir.


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarblys við stjórnarráðið

IMG_2939

IMG_2942

 Ég mætti við stjórnarráðið í dag og tendraði neyðarblys. Ég sem hef  aldrei skotið upp rakettu, ég sem hef í mesta lagi fagnað áramótunum með einni einum pakka af stjörnuljósum. En það er ástæða í ár til að senda út neyðarkall, ekki bara til umheimsins heldur líka til Íslendinga sjálfra enda er ég fyrir löngu búin að missa trúna um að nokkur bjargi okkur nema við sjálf.

Hér er myndasyrpa af neyðarblysunum við stjórnarráðið, ljósmyndir og  vídeó.

Hér er vídeó af mér með neyðarblysið 

vídeó 2 af neyðarablysum 

vídeó 3 af neyðarblysum 

Svo fór ég í göngu á Austurvöll. Ég tók myndir af látunum þar og set þær inn á eftir. Svo þegar táragasdæmið var búið þá fór ég á kaffihús en þegar ég ætlaði að fara í bílinn minn sem var í Lækjargötu þá var þar allt fullt af lögreglubílum og ég komst ekki lönd eða strönd fyrr en eftir langan tíma. 

IMG_2956

IMG_2958


mbl.is Á þriðja hundrað manns mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjáklarar og álitsgjafar

Kastljósið bauð upp á nýbreytni í áramótauppgjöri sínu, nokkrir bloggarar voru spurnir álits. Ég var ein þeirra og spókaði mig í Kastljósinu bæði í gærkvöldi og núna í kvöld. Ég finn náttúrulega mikið til mín og finnst þetta allt miða á rétta leið þegar ég er komin meðal þeirra álitsgjafa á Íslandi sem gera upp árið við áramót. Ég valdi Geir Haarde sem skúrk ársins, ég sagði Sigurð Einarsson í Kaupþingi versta viðskiptamann ársins og sagði það mesta aulahroll ársins þegar Sjálfstæðismenn í borginni dubbuðu Ólaf Magnússon upp sem borgarstjóra. Sem ummæli ársins valdi ég "Ég er með mörg hnífasett í bakinu" sem Guðjón Ólafur sagði í Kastljósi og þó ég hikaði ekki við að persónugera vandann og miða fast á einstaklinga til að fókusera á skúrkana og þá verstu og það fáránlegasta þá hafði ég soft fókus á hetjunum en í þann flokk setti ég alla þá sem skapað hafa okkur alþýðu Íslands eitthvað rými til að vinna úr og með þá stöðu sem komin er upp - hetjurnar mínar voru Hörður Torfason með sína mótmælafundi, Gunnar Sigurðsson með borgarafundi, Egill Helgason með sitt blogg og bloggkommentasamfélag og Björk Guðmundsdóttir með sitt næmi og sína skapandi atorku sem beinist að því að virkja - ekki orkuna úr fallvötnunum - heldur skapandi kraftinn sem ólgar í Íslendingum núna, kraftinn sem getur alveg farið í að brjóta allt og bramla en getur líka farið í að skapa og búa til eitthvað nýtt og öðruvísi.

Hér eru Kastljósin með bloggálitsgjöfunum:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431286/2008/12/29/5/ 

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4431287/2008/12/30/ 

Beint á bloggálitsgjafana: 

Bloggarar velja hetjur ársins

Bloggarar velja aulahroll ársins

Bloggarar velja versta viðskiptamann ársins

Skúrkar ársins að mati álitsgjafa

Ummæli ársins að mati álitsgjafa

Hneyksli ársins að mati álitsgjafa

Ég sofnaði nún í kvöld en vaknaði við skrýtið símtal úr númerinu 8494331 sem ég kannast ekki við. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi verið einhvers konar símaat tengt því að ég var í Kastljósinu en mér fannst símtalið óþægilegt, ég er ekki vön að verða skotspónn stjáklara. Annars er stjáklari annað orð fyrir stalker, ég lærði þetta af bókinni hennar Guðrúnar Evu Mínervudóttur sem ég er núna að lesa. En þetta símaat gekk sem sagt út á það að einhver maður spurði mig fyrst út í sjálfa mig og bakgrunn minn. Ég svaraði því eftir bestu getu, hélt að maðurinn vildi vita hvort hann færi mannavillt. Svo fór viðmælandinn eitthvað að rugla um að hann sjálfur væri geðlæknir og hvernig ég gæti fullyrt að einhver væri geðveikur. Ég kom nú alveg af fjöllum, ég talaði örugglega ekkert um geðveiki eins eða neins og það  að vera skúrkur, versti viðskiptamaðurinn, óhæfur borgarstjóri eða telja sig með mörg hnífasett í bakinu er nú ekki sama og vera geðveikur. Ég hvessti mig nokkur við viðmælanda í símanum þegar ég hafði áttað mig á hvað hann væri að ásaka mig um og heimtaði að vita meira um við hvern ég talaði og hvaða lægi að baki símtalinu. Viðmælandi lauk símtalinu með einhvers konar hótun, eitthvað um að símtalið væri tekið upp og sýnt í beinni, rövlaði eitthvað um einhvern skjá.

Svo sá ég rétt áðan að einhver hafði skráð sig inn á blog.is undir nafni Kristins H. Gunnarssonar alþingismanns og mynd af Kristni og  skrifað  einhverja aulalega typpalengingarfærslu sem komment við bloggið hjá mér.  Mér finnst þessi stjáklarahegðun vera alvarleg, það er í fyrsta lagi alvarlegt að falsa auðkenni annarrar áberandi persónu og tengja nafn alþingismanns við svona kommentastalkera. Í öðru lagi er alvarlegt að ráðast inn í líf fólks með símtölum og ógnandi framkomu, tala niður til fólks og saka það um eitthvers konar glæp (ég áttaði mig nú reyndar ekki á því í símtalinu hvaða glæp ég átti að hafa framið með tjáningu í Kastljósviðtölum í gær og dag) og í þriðja lagi þá gekk gjörsamlega fram af mér þegar sá sem hringdi í mig var með einhverja hótun að hann hefði tekið þetta upp og væri að spila einhvers staðar í beinni.  Þetta er mjög vondur hrekkur. Það virkar nú reyndar ekki á mig hvort eitthvað sé spilað í beinni sem ég segi, ég hef einmitt reynt að vera með sem opnasta tjáningu sjálf í ýmsum vefrýmum  í mörg ártil að prófa svona miðlun. En það er ólöglegt að taka upp einkasamtal og það er ólöglegt að birta svona einkasamtöl og það sem var verst - það virtist vera einlægur ásetningur þess sem stóð að þessu símaati að fá mig til að tala eitthvað um geðveilu nafngreindra persóna (sem ég reyndar fékkst ekki til að gera þó þetta væri einkasamtal) og að því leyti er þetta samtal siðlaust. Ég velti fyrir mér hvort löglegt er hjá mér að skrifa þetta símanúmer hérna en það var hringt í mig úr númeri 8494331 kl. 22:13 í kvöld. 

Ef einhver annar hefur fengið  sams konar símtöl úr þessu símanúmeri eða þekkir til þeirra sem að því standa þá væri gott að vita af því. 

En ég nenni ekki að gera meira í þessu máli úr því ég er búin að tjá mig um hve það pirraði mig mikið. Kannski var sami að stalka mig í kommentum og í símtali.

Smáupprifjun um álitsgjafann mig: 

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan ég hóf upp raust mína í bloggheimum þann 1. apríl 2001 með blogginu Álitsgjafar Íslands en það fjallaði einmitt um valdið sem orðræðan býr til og það er hugleiðing um hvernig eða hvort blogg muni breyta fjölmiðlun. Á þeim tíma vissu fæstir hvað blogg var og bloggsamfélagið á Íslandi var um tuttugu sjálfhverfir nördar.

En það er gaman að rifja upp það sem ég sagði um blogg og álitsgjafa og vald fyrir sjö árum.
Hér er brot af því: 

Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Það er umhugsunarefni að í þessu bloggi er ég sérstaklega að bera saman blogg og dagblöð. Ég held að á þessum tíma hafi ég verið  einna framsýnust á Íslandi um hvaða áhrif blogg myndi hafa, þetta var á tíma þar sem blogg þótti mjög óvirðulegt og ungæðingsleg tímaeyðsla og nördaiðja. Núna aðeins sjö árum seinna eru það sem áður voru dagblöð að breytast í einhvers konar blogggáttir. Þannig  er Mogginn á Netinu afar mikið tengdur blogginu og eyjan.is er blogggátt. Það er ekkert efamál að bloggsamfélagið styrkir mbl.is, það tryggir miklu meiri umræðu og lestur að hafa í kringum sig öflugt notendasamfélag. 

 

test

Sagan um Ísland (2008) og Vínland hið góða (2010)

Sagan segir að fyrir meira en þúsund árum komu forfeður Íslendinga úr Noregi, þeir voru að flýja norska hárprúða kónga sem settu skatt á þegna sína, ekki  velferðarskatta til að dreifa afrakstri vinnunnar um samfélagið og jafna lífskjörin heldur hrifsiskatta sem kóngar tóku til að geta haldið áfram að vera kóngar og snyrta hár sitt og hafa um sig hirð og halda hirðskáld sem sem skálduðu upp hetjusögum um þá.

Þúsund ár eru langur tími fyrir fólk. En í heimi þar sem lífið sem við þekkjum er bundið við  örsmáa plánetu inn í örsmáu sólkerfi sem sjálft er inn í einni af fjölmörgum vetrarbrautum, heimi þar sem sólin örsmáa er 200 milljónir ára að fara hring um okkar vetrarbraut, heimi þar sem okkar vetrarbraut er bara ein af  um 100 milljörðum  af vetrarbrautum þá eru þúsund ár dagur og einn dagur sem þúsund ár og jarðlífið  er andartak þar sem lífið lýtur dauðanum og allt byrjaði í örlitlum punkti.

Árin þúsund er hæg að setja inn í sögu og nú skálda þeir sem eftir sátu í gamla landinu upp andhetjusögur um þá sem flúðu  Noreg fyrir þúsund árum.  Nýjasta sagan er goðsaga og gleðisaga um peningaspilið sem barst um heiminn frá Íslandi og hún er birt hérna  Soga om islendingane og det store pengespelet

Hvernig grínsögur munu Norðmenn segja um Vínland hið góða árið 2010? Halda Norðmenn og Bretar og Bandaríkjamenn að ríki sín séu svo voldug og stór að ekkert muni þeim granda? Saga siðmenninga og ríkja í hinu örsmáa mannlífi á hinni örsmáu plánetu er ekki löng en samt hafa siðmenningar dáið út og borgir lagst í eyði og tíminn afmáð spor um menningu sem einu sinni var. Því flóknara og samtengdara sem samfélagið er þeim mun viðkvæmara er það fyrir því að brotna niður.

Rússar vita vel að voldug og stór menningarríki geta liðast í sundur á örskömmum tíma.  Landakort heimsins og heimsmyndin breyttist með hruni Íslands og landið færðist einhvers staðar langt út í haf, miklu lengra út en það var áður.

En hvernig lítur landakortið fyrir landið sem Leifur heppni fann á ferðum sínum fyrir þúsund árum? Verður það skráð á kort eins og þessi grein segir frá? 

As if Things Weren't Bad Enough, Russian Professor Predicts End of U.S. - WSJ.com

 

 

 



 


Prjónajól

xIMG_2810
Þetta voru prjónajól. Systir mín á Hanhóli í Bolungarvík gaf dætrum mínum í jólagjöf  prjóna og garn og skrautritað kort sem var félagsskírteini í Handverks-, hannyrða og heimslistaklúbbinn "Ásta frá Undirfelli". Á félagskírteininu stóð: 

"Elsku frænka

Þú ert hér með innvígð í Handverks-, hannyrða og heimslistaklúbbinn "Ástu frá Undirfelli. Félagsfundir eru sveigjanlegir og fara fram er formaður er í bænum eða 2 eða fleiri klúbbmeðlimir óska þess. Skilyrði fyrir veru í klúbbnum er skapandi hegðun til hugar og handa, glaðværð, kæti og kímnigáfa. Klúbbaðild getur gengið í arf eins og eiginleikar."

Svo gaf ég Kristínu bókina "Lærið að prjóna". Kristín kom svo á óvart því hún hefur haft ýmislegt á prjónunum undanfarið og hefur lært að prjóna vettlinga og gaf bæði mér og systur sinni í jólagjöf  lopavettlinga sem hún hafði prjónað sjálf. Hún er líka að prjóna sokka handa pabba sínum og hefur nú með aðstoð bókarinnar góðu náð tökum á hælúrtöku. 

Ásta Lilja á afmæli í dag. Við mæðgurnar héldum upp á það með því að fara út að borða. 


Saga Class í bankakerfi og íslensku þjóðfélagi

peningathvaetti3Fyrir um ári síðan var umræða um sérafgreiðslu ríka fólksins sem færi úr landi, það fengi sérmeðferð við vopnaleit og öryggiseftirlit. Ég skrifaði þá þetta blogg  Röð ríka fólksins - einkavædd löggæsla á flugvöllum

 Eins og allir vita þá hefur orðið miklu erfiðara fyrir okkur almenna borgara að ferðast milli landa vegna ofsaótta við hryðjuverkamenn. Sérstaklega á það við Bretland. Eins og allir vita líka þá er staðan þannig að stjórnvöld í sumum ríkjum fá sjálfdæmi í því sem þau telja hryðjuverkamenn og bresk stjórnvöld nýttu það þannig að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga og setja þannig alla Íslendinga í hóp hryðjuverkamanna.

En hverjir eru raunverulegir hryðjuverkamenn í heiminum í dag og hver eru vopn þeirra? Varðandi Ísland þá er því auðsvarað. Hryðjuverkjamennirnir eru þeir sem tóku fjöregg íslensku þjóðarinnar og léku sér að því í einhverjum kasínókapítalistaleik, menn sem settu verðmiða á það sem ekki er falt og kokkuðu upp með peningagerðarvélum sínum bönkunum einhvers konar kerfi sem réttlætti sjálftöku þeirra á öllu því sem þeir töldu verðmætt á Íslandi.

Þessir menn voru svo sannarlega í sérinnritun við öryggiseftirlit og þeir fengu saga class meðferð í öllu íslensku samfélagi, þeir fengu sérafgreiðslu í bankakerfinu, sérafgreiðslu í stjórnmálakerfinu og sérafgreiðslu í fjölmiðlum.  Þegar stefndi í hrunið fengu þeir líka sérafgreiðslu hjá peningagerðarvélum sínum bönkunum og margt bendir til að þeir fái líka sérafgreiðslu í nýju bönkunum þó þeir hafi verið þjóðnýttir. Alla vega eru margir þeim handgengnir núna að ráðskast þar, menn sem fengu brauðmola eða réttara sagt mikla brauðhleifa af borðum eigenda bankanna í formi kaupréttarsamninga og lána sem ekki þurfti að borga. 

Svo er líka viðbúið að sama saga class sérafgreiðslan fari fram í rannsókninni á hruninu. Það eru gríðarleg tengsl á allra leikenda sem nú spila um Ísland og við almenningur eru ekki að sjá nein teikn á lofti á því að eitthvað batni.  Það eru engin teikn á lofti um að ríkisstjórn undir forustu Sjálfstæðisflokksins geti breytt kúrsinum og lagt niður saga class farrýmið.  Þvert á móti bendir allt til að þar á bæ horfist menn ekki í augu við að kerfið brast vegna þess að það var fúið og það verður ekki endurreist.

Um eignatengslin: 

Vísir - Eigendur fengu 275 milljarða

Eyjan » Fyrrverandi eigendur bankanna þriggja: Skulduðu bönkunum ...

 Í greininni í Eyjunni stendur:

"Tengd félög skulduðu Glitni tæplega 31 milljarð króna. Forstjórinn svo og lykilstjórnendur skulduðu bankanum níu milljarða króna um mitt árið, en það fé mun hafa verið til  hlutabréfakaupa.

Í Kaupþingi skulduðu eigendur og aðrir beintengdir aðilar bankanum 146 milljarða króna.
Aðal eigendur Kaupþings voru Exista, sem átti fjórðung, og Egla, skráð í Hollandi, sem átti tíund. Á bak við þessi félög eru Bakkavararbræður og Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip.

36,8 milljarðar króna af þessum lánum voru til stjórnarmanna í Kaupþingi, annarra stjórnenda og þeirra fjölskyldna.

Í Landsbankanum skulduðu eigendur og aðrir tengdir aðilar rúma  64,2 milljarða króna um mitt árið. Af því voru tæplega 50 milljarðar lánaðir til stjórnarmanna og fyrirtækja þeirra."


mbl.is Gátu ekki tapað á samningunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlar sem hata konur

IMG_2884

Í sakamálasögunni Karlar sem hata konur eftir Stieg Larsson er sagan sögð gegnum augu  sporrekjandi rannsóknarblaðamanns og   tölvuhakkara  sem heita Blomkvist og Salander. Alveg eins og Salka Valka Halldórs Laxness er bók um saltfiskinn þá er bókin Karlar sem hata konur bók um fjórða valdið, bók um rannsóknarblaðamennsku  og rannsóknarnetmennsku Internetsins, bók um hvernig spor eru rakin og mynd og saga teiknuð upp og röðuð  smám saman úr táknum sem safnað er í gegnum tíma og rúm, úr því að  lesa í misgamlar myndir sem vísa á aðrar myndir og tákn, með því að ráða í slitrur af minningum. Hún er líka bók um hvernig rannsókn á glæpnum er líka leit að því hver er glæpamaðurinn og hver setur reglurnar og hverjum þær þjóna. Blomkvist er sakamaður, hann situr í fangelsi stóran hluta bókarinnar og Salander fremur tölvuglæpi og er á flótta undan kerfinu, sama kerfi og hún er að rannsaka.

IMG_2880

Af hverju dettur mér í hug þessi sakamálasaga í sambandi við mótmælin á Austurvelli?

Ég veit það ekki, kannski út af því að sagan karlar sem hata konur er um baráttu við sams konar samfélag og við erum að mótmæla og reyna að afhjúpa á Austurvelli á hverjum laugardegi. Þetta er saga um morkið ættarveldi og viðskiptaveldi og hvernig það er afhjúpað og hvernig ofboðsleg kvennakúgun og kynferðisofbeldi er partur af því feðgaveldi. Kannski af því að sagan er samfélagssaga sem fjallar um það sem hefur verið að gerast fyrir framan augun á okkur í mörgum vestrænum samfélögum, samfélögum sem eru á yfirborðinu norræn velferðarsamfélög sem hlúa að þegnum sínum en á sama tíma hafa stjórnvöld horft framhjá  mannréttindabrotum og ofbeldi og svæsnasta birtingarmyndin hefur verið kynbundið ofbeldi og ofbeldi þar sem landlaust og réttindalaust fólk sem sumt er í felum er notað sem einnota og réttlausir vinnuþrælar. IMG_2878

Sakamálasagan er bókmenntaform núsins og sumir sakamálahöfundar eins og Stieg Larsson og Lisa Marklund nota það form til þjóðfélagsrýnis,  til að segja sögu af sjúku samfélagi. En hvað er  sönn saga? Og hver trúir þeim sem segir söguna? Núna er einmitt að koma út bók um meint skrök Lisu Marklunds. Hvernig er hægt að skrökva í bókum sem eru skáldsögur? Eru skáldsögur ekki alltaf skrök?

island-eyjaSagan í sakamálasögunni Karlar sem hata konur byrjar á atburði í samfélagi  þar sem brúin yfir í umheiminn lokast  snögglega og samfélagið verður um tíma eins og eyja og á þessum tíma hverfur stúlka og rannsóknin miðar að því að finna hana. Þetta minnir mig líka á Ísland haustið 2008. Við bankahrunið varð Ísland að eyju og fjarlægðin við umheiminn varð meiri.

Ég veit vel að Ísland hefur alltaf verið eyja, það stendur í landafræðibókum en ég einhvern veginn var hætt að hugsa um eyjuna, ef til vill leit ég aldrei á Ísland sem eyju - bara stað þar sem samgöngur við umheiminn færu fram með flugi.  Samt fór ég í fyrsta skipti frá Íslandi þegar ég var 25 ára. 

En ég er ekki ein um að finnast Ísland eftir hrunið verða einangruð eyja. Eyja sem ekki varð til fyrr en við hrunið öll orðræða um kreppuna og fjármálahrunið notað svoleiðis orð, orð sem ekki voru áður notuð um staðsetningu Íslands. Ég veit líka að landakort eru hugarkort og það er sameiginlegt landakort heimsins sem teiknar upp línur og landamæri, býr til þjóðir og flytur fjöll inn í ríki.

IMG_2883

Í sögunni Karlar sem hata konur þá hefst rannsóknin á því að skoða gamlar götumyndir frá atburð og fjöldasamkomu sem gerðist fyrir mörgum áratugum. Rannsóknarblaðamaðurinn fer yfir myndirnar og reynir að ráða í hvað gerðist, hann reynir að finna stúlkuna sem hvarf.  Lykillinn að lausninni liggur líka í myndunum, hvernig myndirnar vísa hver á aðra og hvernig svipbrigði einnar persónu á einni mynd á fjöldasamkomu segir sögu af því sem hún sá eða skynjaði og hvernig ein mynd kallar á aðra mynd.

Það er líka þessi galdur myndanna sem tengir samkomurnar á Austurvelli við bókina Karlar sem hata konur, ég tek myndir af því sem þar fer fram. Skráset eitthvað sem ég veit ekki alveg hvað ég er að skrásetja og í hvaða tilgangi. Ef til vill mun einhver eftir marga áratugi nota mínar myndir af mótmælunum 27. desember sem kveikju til að ráða í hvað gerðist og er að gerast og sjá sögu sem mér er núna hulin.
Eða til að búa til nýja sögu.


mbl.is „Friðsamleg og málefnaleg“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grýla í gamla hellinum er ónýtt víradrasl

 383044896_c57c081e45

Mynd  á Flickr eftir Ásmund Shattered Dreams

Árið 1962 er gríðarleg uppsveifla í síldveiðum, síldin veður inn á firðina og skipin fylla sig jafnvel tvisvar til þrisvar á sólarhring. Aldrei áður hefur svona mikið borist á land, þrær síldarverksmiðjanna fyllast og síldarskipin þurfa að bíða sólarhringum saman eftir að fá að landa.

Árið 1962 syngur  Ómar Ragnarsson Grýlukvæði sitt um  Grýlu sem býr stórbúskap í helli, hefur mikið umleikis og notar sleggju, járnkarl og steypuhrærivél við matargerð og étur með skóflu. Hár hennar er eins og ryðgað víradrasl. Þessi Grýla sveltur ekki, hún hefur tekið tæknina í sína þjónustu, hún eldar og umbreytir einu efni í annað og framleiðir vörur ofan í hyski sitt. Endurspeglar þessi Grýla óttablandna lotningu á framkvæmdum, stóriðju, virkjun fallvatna og beislun manna á náttúrunni? Má þekkja óvættinn á ryðguðu víradrasli?

Árið 1962 var Ómar Ragnarsson ungur maður, hann var vinsæll skemmtikraftur og fór með gamanmál. Það var fátt sem benti til að mörgum áratugum seinna yrði Ómar einn af forustumönnum í náttúruvernd á Íslandi og stofnandi hreyfingar um náttúruvernd.  En gamanmál eru líka oft alvörumál og það má alveg lesa Grýlukvæðin frá 1962 öðru vísi núna næstum hálfri öld seinna.

það sem glampaði og geislaði fyrir mörgum áratugum getur núna birst okkur sem ryðgað víradrasl.

379087208_56bd744a63

 Mynd á flickr eftir Ásmund, sjá hérna International Tractor

2404477054_5de36b6728

Mynd á flickr eftir Ásmund, sjá hérna: Burning Metal 

Brot úr Grýlukvæði Ómars 

Hún hrærir deig, og stórri sleggju
slær hún buffið með.
Með járnkarli hún bryður bein
og brýtur þau í mél
og hrærir skyr í stórri og sterkri
steypuhrærivél.


Með matarskóflu mokar alltaf
matnum upp í sig.
Og ef hún greiðir á sér hárið,
er það mesta basl,
því það er reitt og rifið
eins og ryðgað víradrasl

 

Hér er kafli úr riti sem ég tók saman um Grýlu  og bar saman Grýlukvæði: 

Grýla og jólasveinar - 6. kafli Grýlukvæði á 20. öld

 hér eru textarnir við Grýlukvæði þriggja mannsaldra:

Hér eru önnur Grýlublogg frá mér:

Grýla á Bolafjalli

Grýla Ómars Ragnarssonar

 

 

Grýla er persónugering á óttanun eins og hann er hverju sinni. Það er skrýtið að ennþá hafa ekki verið kveðin nein ný Grýlukvæði sem endurspeglar óttann sem núna býr í íslensku samfélagi. Hvar er Grýla bankahrunsins, jöklabréfa og Icesave reikninga? Hvar er Grýla sem fangar okkur í skuldaánauð, rænir okkur vinnunni, hrekur okkur úr íbúðum okkar, tekur af okkur bílana og gerir okkur að hryðjuverkamönnum og ræningjum í augum heimsins?  


mbl.is Vildi ekki vera jólasveinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menntun á tímum kreppunnar

graphics_15Það er gleðilegt að ekki skuli vera settar aðgangstakmarkanir á háskólanám á sama tíma og það er eini valkostur margra annað hvort að fara á atvinnuleysisbætur eða félagslegt framfæri eða fara í háskólanám.

Það er hins vegar spurning hvort það sé rétt að halda áfram að lána til skólagjalda á sama hátt og til venjulegs náms í ríkisháskólum. Hvaða vit er í því á Íslandi í því ástandi sem við erum í núna að hafa ríkisrekna háskóla og svo einhvers konar hf-háskóla sem eru að nafninu til einkaskólar en hafa eingöngu tekjur sínar af ríkisfé. 


mbl.is HÍ: Allir teknir inn í grunnnám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband