Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Loddaraskapur og hálfsannleikur í fjölmiðlum

Seinni Kastljósþátturinn  um ríkisborgararéttarmálið var góður og upplýsandi og fagmannlegur. Það má hins vegar velta fyrir sér hvaðan Kastljós fékk umsókn stúlkunnar sem lesin var upp í þættinum, því  eftir því sem ég best veit er umsóknin einkagögn sem hún lagði fram til opinberrar nefndar  (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og mér skilst að það sé eina fólkið sem fékk að lesa gögnin frá umsækjendum. Ef Kastljós hefur komist yfir þessa umsókn öðru vísi en beinlínis frá stúlkunni sjálfri og með samþykki hennar þá er sennilega ólöglegt hjá þeim að birta þessi gögn þ.e. lesa upp umsókninni. Þetta er sennilega brot á upplýsingalögum. Þeir átta sig væntanlega á því en taka áhættuna eins og fjölmiðlar gera jafnan í skúbbinu, áhættu á  að enginn ákæri þá og/eða afleiðingar dóms/ákæru verði minni en ávinningur af að koma með góða frétt. 

Mér finnst það fróðlegt að fjölmiðlar hafa upplýst  að ástæður fyrir því að umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur á svo skjótan hátt voru fremur lítilfjörlegar amk ef þetta er rétt sem fram kom í Kastljósi. Það breytir nokkuð viðhorfi mínu til þessa máls, svo ég segi bara hreinskilnislega þá er ég steinhissa og trúi þessu varla og finnst skrýtið að hægt sé að fá ríkisborgararétt á svona auðveldan hátt á Íslandi. Ég vil gjarnan að Ísland sé griðastaður fólks sem þarf að flýja heimkynni sín og ég hef skammast mín mikið hve Íslendingar hafa staðið sig illa í að taka á móti flóttamönnum þannig að ég hélt að það væri erfitt að fá ríkisborgararétt á Íslandi. Það er  einkennilegt og tortryggilegt  hvernig alsherjarnefnd afgreiddi þetta mál.  Mér finnst að þessi nefnd (Bjarni Ben. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds) verði að svara betur fyrir það. 

Kastljósumfjöllun Helga Seljan verður hins vegar seint talið dæmi um góða fréttamennsku. Ef Kastljós bjó þegar yfir þeim upplýsingum sem komu fram í þættinum á mánudagskvöldi þ.e. hafði undir höndum umsókn stúlkunnar og þetta var einhver liður í að grilla stjórnmálamenn og fylla Kastljósið af djúsí fréttaefni kvöld eftir kvöld þá er þetta dæmi um afspyrnuslæma fréttamennsku. Framganga Helga Seljan í Rúv verður ennþá siðlausari og rustalegri ef maður gerir ráð fyrir að hann hafi þegar séð þessa umsókn og viti fyrir hverjar þessar sérstöku ástæður eru sem stúlkan sótti um. 

það sem Helgi Seljan gerði vitlaust er að hann hegðaði sér eins og pólitískur andstæðingur viðmælanda síns, andstæðingur sem vill koma höggi á veikan blett á andstæðingi og knésetja hann með öllum ráðum. Helgi Seljan er á launum hjá okkur öllum, hann starfar á opinberum fréttamiðli sem vissulega á að vera fimmta valdið og veita stjórnsýslunni aðhald og fletta ofan af misfellum og skrýtnum vinnubrögðum þar. 

Þessi afgreiðsla á undanþágu sem um ræðir er hins vegar afgreiðsla alsherjarnefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og það er sú afgreiðsla sem er afar einkennileg. Jónína Bjartmarz ber ábyrgð á því sem hún ber ábyrgð á og það er sem þingmaður og sem umhverfisráðherra og sem nefndarmaður í  nefndum sem hún tekur þátt í en hún ber ekki ábyrgð á því þó fólk henni tengt hljóti einkennilega greiða fyrirgreiðslu hjá einhverri nefnd sem hún hefur ekki haft einhver afskipti að. 

Auðvitað hefur Jónína hjálpað stúlkunni að fóta sig í kerfinu og bent henni á leiðir. Skárra væri það nú.  En það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiðbeini fjölskyldum sínum hvort sem það eru þingmenn eða ekki. Það var ekkert athugavert við það að fjölmiðlar spyrðu Jónínu út í þetta mál en það er ekki hægt að kalla orðræðu Helga Seljan spurningar. Það er frekar árásir. En Helgi Seljan var að ráðast á rangan aðila og á röngum forsendum. Það er mjög hættulegt ef fjölmiðlar verða þannig og segja einhvern hálfsannleika og gangast upp í loddaraskap. 

Flest fólk er illa að sér í gangvirki stjórnsýslunnar og það er auðvelt að afvegaleiða fólk með skrípafréttamennsku og búa til sökudólga og búa til sök. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisfjölmiðils að gera það.

Í vetur hefur verið sleginn nýr tónn í fréttamennsku á Íslandi. Það er viðbúið að þessi fréttamennska teygi sig inní stjórnmálaumræðu. Þetta hófst með Byrgismálinu og teygði sig yfir í önnur sambærileg mál og varð eins konar samkeppni milli sjónvarpsstöðva. Vissulega er þetta afhjúpandi fréttamennska og við verðum margs vísari um hvernig farið var með lítilmagnann í íslensku samfélagi. En þetta hafa líka verið tímar þar sem ógæfa annarra og eymd hefur verið gerð að áfergjulegu fréttaefni - svipað eins og í sakamálaþættum þar sem kvöl fórnarlamba morðingja og kvalalostara er sýnd í nærmynd og dvalið við pyntingarsenurnar.

Þetta hefur verið vetur hinna blörruðu bölla í fjölmiðlaumræðu á Íslandi. 


Skert ferðafrelsi

Kastljósið upplýsti að stúlkan frá Guatemala hefði fengið ríkisborgararétt vegna umsóknar sem sagði frá veseni hennar við að fara í nám erlendis. Þetta vekur afar áleitnar spurningar um hvernig alsherjarnefnd þ.e. þingmennirnir Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson  og Guðrún Ögmundsdóttir störfuðu þegar þau fóru yfir þessar umsóknir. Það hlýtur að vera krafa okkar að vinnureglur Alsherjarnefndar séu gegnsæjar og réttlátar. Ég vildi svo sannarlega búa í landi það sem svo auðvelt er fyrir útlendinga að setjast hér að og verða fullgildir ríkisborgarar en ég er nokkuð viss um að svona auðvelt er ekki að verða Íslendingur fyrir flesta útlendinga.

Ég vona svo sannarlega að enginn úr alsherjarnefnd hafi talið sig vera að gera Jónínu Bjartmarz pólitískan greiða með þessari afgreiðslu og trúi ekki svoleiðis flónsku upp á neinn sem þar situr. Það hefði nú heldur betur verið bjarnargreiði. En mér finnst upplagt að nota þetta tækifæri til að benda á að við Framsóknarmenn viljum heiðarleg og fagleg vinnubrögð í stjórnsýslunni. Ég hef sjálf reynt að starfa af alefli með það að leiðarljósi  í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður en reyndar ekki orðið eins vel ágengt og ég vildi. Það er önnur saga. 


Þau afgreiddu málið: Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds


Mikil umræða er um þetta mál á moggablogginu. Það er áhugavert um stöðuna í íslenskum stjórnmálum að þetta mál vekur miklu meiri athygli en t.d. hvernig Geir Harde og Ómar Ragnarsson standa sig í Kastljósi. Ég geri ráð fyrir að flestir hraðspóli yfir þá þegar þeir hlusta á Kastljósin um ríkisborgaramálið á Netinu. Aumingja Ómar, hann á það ekki skilið. Það er svo gott sem hann er að segja. Gallinn bara að við höfum heyrt það allt áður og erum svo sammála honum. Geir Haarde var hins vegar afspyrnuleiðinlegur í Kastljósinu. Það þarf ekkert að hlusta á hann. Alveg óhætt að hraðspóla. Hann segir hvort sem er alltaf það sama, það sé sjálfsagt að athuga málið. Geir er mjög athugull maður. 

Hér eru nokkrar tengingar um ríkisborgaramálið:

Afgreiðsla máls um veitingu ríkisborgararéttar 

Brotalamir 

 Bjarni Benediktsson segir ósatt

Hvar er skandallinn?

Pólitískar pælingar um stöðu Jónínu Bjartmarz

Skiptar skoðanir á viðtalinu við Jónínu Bjartmarz

Spilling Framsóknarráðherra og/eða vinavæðing?

 Jónína Bjartmars og ríkisborgararéttur tengdadótturinnar.

 Kastljósið að girða sig í brók

 Svekktur ...

 Fréttastofa Sjónvarpsins að missa allan trúverðugleika

 Mismunandi umfjöllun Stöðvar 2 og RÚV á "Jónínumálinu"

 Nornaveiðar Helga Seljan

 Bloggrúntur

 Öðrum fórst en ekki þér, Össur

 Bloggrúntur

 Skjóta fyrst og spyrja svo


Sjö mínútur af Kastljósi Helgi Seljan versus Jónína

Setti  inn  á Youtube 7. mín. af viðtalinu í Kastljósinu seinasta þegar Helgi Seljan ræddi við Jónínu Bjartmarz.  Reyndar bara talið en það má hlusta á Kastljósið inn á vef RÚV.  Ég er búin að hlusta nokkrum sinnum á þetta viðtal  til að reyna að greina það  og  spá í hvers konar orðræða eigi sér stað. Það sem ég heyri  er  yfirmáta hrokafullur og  ruddalegur og óupplýstur fjölmiðlamaður sem  ekki hefur unnið heimavinnuna sína að ræða við reyndan, kurteisan og orðvaran lögfræðing og alþingismann um málefni sem tengjast fjölskyldu hennar og biðja hana að opinbera í sjónvarpi  persónulegar upplýsingar um fjölskyldumeðlim, upplýsingar sem hún á ekki að hafa aðgang að nema bara vegna fjölskyldutengsla. 

Þetta er fádæma ruddalegt tilræði við stjórnmálakonu og ég held að sumt af þeim tilburðum sem Helgi Seljan leyfir sér í viðtalinu sé af því að hann talar við konu. Ég hugsa að hann hefði aldrei leyft sér að tala svona til t.d. Davíðs Oddssonar eða Geirs Haarde. Helgi talar margoft til Jónínu í skipandi og niðrandi tón. 

Ég vil taka fram að mér finnst ekkert að því að fjölmiðlar velti upp máli sem þessu og gagnrýni eða leiti svara við hvers vegna eða hvort afgreiðsla erinda sem tengjast fjölskyldu ráðamanna hljóti einhverja sérmeðferð í kerfinu. Það að gera það á þennan hátt er hins vegar skrípaleikur og RÚV til háborinnar skammar. Það er alveg ljóst að Jónína tók ekki þátt í að velja á lista þá sem fengu undanþágu, það gerði sérstök undirnefnd alsherjarnefndar (Bjarni Ben., Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) og það er sú nefnd ein sem fékk að sjá gögnin sem umsækjendur lögðu fram.  Eina sem eðlilegt er að spyrja Jónínu um í þessu máli er 1) hvers vegna hún tók þátt í atkvæðagreiðslu á Alþingi og hvort og hvers vegna henni hafi þótt það viðeigandi og 2) hvort hún hafi reynt að hafa áhrif á nefndarmenn sem völdu á listann.

Helgi Seljan tönglast margoft á því að í viðtalinu að Jónína verði að svara hvaða sérstöku ástæður það eru sem valda því að þessi stúlka fékk ríkisborgararétt. Það er ekki Jónínu að lýsa því og ég hugsa reyndar að það sé brot á lögum um persónuvernd að upplýsa opinberlega um viðkvæm einkamálefni og það muni alsherjarnefnd (Bjarni, Guðjón Ólafur og Guðrún Ö.) ekki gera, ég hugsa að margar þær aðstæður sem fólk sem sækir um undanþágur séu einmitt viðkvæm persónuleg atriði.  Reyndar vissi ég ekki að það væri einhver hraðbraut fyrir afreksfólk í íþróttum að fá ríkisborgararétt, það þarf svo sannarlega að skoða þessi mál og verklagsreglur, það er óumdeilanlegt. Það er áhugavert að Helga Seljan virðist ekki setja neitt spurningamerki við þessa afreksíþróttadýrkun heldur öskar á Jónínu spurningum eins og "Er hún afrekskona í íþróttum?" alveg eins og það hefði verið eitthvað úrslitaatriði.

En það verður að vera krafa okkar til fjölmiðlamanna að þeir spyrji þá sem taka ákvarðanirnar og sem fjölluðu um málið en yfirheyri ekki  ráðamenn út af persónulegum málefnum fjölskyldna þeirra nema að því leyti að það sé grunur um að eitthvað óheiðarlegt eigi sér stað. Það að þessi umræða kemur núna rétt fyrir kosningar er þar að auki afar gróft tilræði við þingmann og það er ekki nema eðlileg og sjálfsögð krafa okkar hlustenda að RÚV upplýsi þetta mál á hlutlausan og vandaðan hátt og leyfi Jónínu og öðrum sem tengjast málinu að koma sjónarmiðum sínum á framfæri án þess að vera púaðar niður af fjölmiðlamanni eins og Helga Seljan.

 En ég hripaði niður hjá mér svolítið úr orðræðu Helga Seljan. Það verður samt að hlusta á Kastljósið til að átta sig á hversu gífurlega lítilsvirðandi og ruddaleg orðræða hans er:

leyfðu mér nú að spyrja Jónína
þetta er ekki rétt sem þú ert að segja

svaraðu spurningunn
svaraðu spurningunni
hvaða sérstöku ástæður
veistu ekki á hvaða ástæðum hún sótti um
er það rétt, er þetta eins og mál Bobby Fishers?
hlustaðu nú Jónína
er ekki þa
Mergurinn málsins er að þið eruð

Af hverju getur þú ekki útskýrt fyrir mér hvaða sérstöku ástæður ..

svaraðu spurningum
það er ég sem er að spyrja Jónína
svaraðu spurningum
finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð um það

finnst þér óeðlilegt að þú sért spurð að þessu
finnst þér óeðlilegt að þú sérð spurð að þessu
leiðbeindir þú stúlkunni?
hverjar eru þessar aðstæður Jónína?
þú vilt ekki svara
þú segist hafa leiðbeint henni með að fara með þetta inn í nefndina
hverjar voru þessar aðstæður
þú hefur ekki sagt mér hvernar þessar aðstæður eru
þú verður að svara


Rustalegt Kastljós hjá Helga Seljan

Fjölmiðlar og fréttaskýringarþættir eru vissulega vald í samfélaginu og gott aðhald fyrir stjórnmálamenn.  Það er gott að fólk sem stýrir umfjöllun þar sé ekki á mála hjá stjórnmálaflokkum og  upplýsi almenning um hvað er að í stjórnsýslunni og krefji þá aðila sem eiga að bera ábyrgð svara á gerðum sínum.

Þannig er það með Jónínu Bjartmarz. Hún ber ábyrgð á umhverfismálum sem umhverfisráðherra og hún ber ábyrgð á gerðum Alþingis sem þingmaður. En hún ber ekki ábyrgð á því sem nefnd sem hún situr ekki í gerir. Það er sjálfsögð krafa okkar til fjölmiðlafólks að það fólk þekki til eða kynni sér stjórnsýsluna og vinnureglur þar og bjóði okkur ekki upp á skrípaleik fjölmiðlafólks eins og þá tilburði sem Helgi Seljan sýndi í Kastljósinu núna áðan. Framkoma hans við Jónínu Bjartmarz var afar ruddaleg og miðlaði engu til mín sem áhorfanda.  Það er ekki Jónína sem á að svara fyrir afgreiðslu alsherjarnefndar. Það eru þeir sem stóðu að þeirri afgreiðslu. Það var fáránlegt að hlusta á fréttamanninn reyna að gera það tortryggilegt að Jónína leiðbeindi erlendri tengdadóttur um hvernig hún ætti að reyna að komast inn í íslenskt samfélag. Auðvitað hefur Jónína og/eða maður hennar (þau eru bæði lögfræðingar) hjálpað tengdadótturinni með að útbúa umsókn til alsherjarnefndar, skárra væri það ef fjölskyldan hjálpaðist ekki að við slík mál. 


Kvenna(k)völd hjá Framsókn

Ég fór á kvennakvöld hjá Framsókn í Reykjavík í gærkvöldi. Hér er mynd af þremur efstu mönnum á lista flokksins í Reykjavík suður, þeim Sæunni ritara flokksins sem er í öðru sæti, Árelíu sem er í 3. sæti og Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra sem er í 1. sæti. Þetta eru allt konur sem ég þekki af dugnaði og heiðarleika og sem öflugar talskonur fyrir mannréttindum og skynsamlegri stjórnsýslu.

Þær fluttu allar ávörp á fundinum. Jónína ræddi þar af einlægni um umfjöllun sem var í Kastljósi í gærkvöldi og tengist fjölskyldu hennar. Það var augljóst að hún tekur þessa umfjöllun mjög nærri  sér enda er hér hörð atlaga að trúverðugleika hennar sem stjórnmálamanns. Vonandi tekst henni að vinna þannig úr þessu máli að það verði henni ekki fjötur um fót. Ég held að best sé að upplýsa alla um sem flestar hliðar þessa máls, það er í sjálfu sér engu að tapa við það.  Það er ekki nema gott um það að segja að fjölmiðlar og almenningur séu á varðbergi fyrir því að einhverjir fái sérmeðhöndlun í kerfinu af því þeir séu tengdir valdsmönnum. Það er upplagt að nota þetta tækifæri til að upplýsa almenning hvernig farið er með umsóknir um ríkisborgararétt og hvaða vinnureglur þeir hafa sem yfirfara slíkar umsóknir og sérstaklega hverjum þeir hafni. Ég átta mig ekki alveg á þessu máli og reyndar sérstaklega ekki hvers vegna Jónínu er stillt upp sem sökudólgi. Eftir því sem ég skil þetta mál þá munu einstaklingar sem fengu ekki ríkisborgararétt á venjulegan hátt hafa sótt um undanþágu og því verið vísað til einhverrar nefndar. Þar munu þrír þingmenn hafa farið yfir umsóknirnar og mælt með því að 18 einstaklingar fengju ríkisborgararétt og það síðan verið lagt fyrir alþingi. Það eru nú þessir þrír þingmenn sem ættu að standa fyrir máli sínu - er þetta eðlileg afgreiðsla frá þessari þingnefnd? Formaður nefndarinnar segir nefndarmenn ekki hafa vitað um að umsækjandinn tengist fjölskyldu Jónínu sb þessa frétt:

Dómsmálaráðherra veitir íslenskt ríkisfang að fenginni umsögn frá Útlendingastofnun. Telji ráðuneytið eða Útlendingastofnun skilyrðum ekki mætt er umsókninni synjað. Þá geta umsækjendur sótt um undanþágu hjá allsherjarnefnd Alþingis.

Þrír nefndarmenn, Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir, fóru yfir umsóknirnar og lögðu til að 18 einstaklingar fengju íslenskt ríkisfang en ráðuneytið og Útlendingastofnun höfðu áður lagst gegn því í öllum tilvikum.

Fleiri myndir frá kvennakvöldi og opnun á kosningamiðstöð Framsóknarflokksins. 

 

Frambjóðendur í Reykjavík suður að plotta 

IMG_0437

Glæsilegar mægður.  


Andlitsmálunin hjá Framsókn slær allt út.
Ef græni kallinn kemst ekki áfram í vor þá er appelsínugult næst. 


Leyfið þúsund blómum að blómstra hjá sígræna flokknum.

 
Sumardagurinn fyrsti. Allt að byrja að grænka.


Kvenhetjur í Framsókn


mbl.is Nefndarmenn hafi tekið fram að þeim hafi verið ókunnugt um tengsl Jónínu og umsækjandans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teljarablogg: Sjaldgæfasta einkenni stjórnmálaleiðtoga á Íslandi

Í síðustu viku var í Fréttablaðinu umfjöllun um sýningu listakonunnar Sigríðar  og það birtist þessi stafræna mynd sem hún gerði af  formönnum stjórnmálaflokkanna á Íslandi 2007. Svona listrænar myndir fá mann til að hugsa öðruvísi og ef til vill meira um heildina heldur einstaklingana. Myndin dregur líka fram ákveðin einkenni á stjórnmálaleiðtogum á Íslandi og ég náttúrulega með mína teljara og tölfræði þráhyggju byrjaði strax að telja og reikna.

hvað eru margir sköllóttir? 2 af 6

hvað eru margir með gleraugu? 3 af 6

Hvað eru margir með bindi? 3 af 6

Hvað eru margir með skegg? 3 af 6

Hvað eru margir yfir fimmtugt? 6 af 6

Hvar eru margir karlmenn? 5 af 6

Hvað eru margar konur?  1 af 6

Það var ekki nóg með að ég rýndi í myndina og reyndi að telja allt sem mér datt í hug heldur reyndi ég líka að bera saman úrtakið (þýðið) og  heildina og giska á hvaða eiginleikar samsvöruðu sem mest heildinni og spá í hversu vel formenn stjórnmálaflokkanna endurspegluðu heildina. 

Mér sýnist langsjaldgæfasta einkennið hjá stjórnmálaleiðtogum á Íslandi að vera kona. Algengasta einkenni þeirra er að vera komnir á sextugsaldur. 

Svipur stjórnmálamanna

Teljarablogg: Grænir kallar fara áfram: Fjórir karlar, ein kona

Núna  er komin ný stjórn hjá Landsvirkjun. Framsókn yngdi upp sinn mann í stjórninni en kynjahlutfallið er það sama. Það eru fjórir karlar og ein kona í nýju stjórninni. Bæði stjórnarformaður og varaformaður eru karlmenn.

graenn-kallgraenn-kallgraenn-kallgraenn-kall

graenn-kall-bleikur


mbl.is Páll Magnússon stjórnarformaður Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarformaður Landsvirkjunar

XB í KópavogiEftir því sem ég les í fjölmiðlum mun Jón Sigurðsson iðnaðarráðherra skipa Pál Magnússon bæjarritara í Kópavogi stjórnarformann Landsvirkjunar í dag.  Páll er guðfræðingur og gerðist aðstoðarmaður Valgerðar í Iðnaðarráðuneytinu 1999 og var þar þangað til Valgerður tók við Utanríkisráðuneytinu. Hann er nú bæjarritari í Kópavogi. Aðalheiður kona Páls er núna aðstoðarmaður Valgerðar í Utanríkisráðuneytinu. Páll er bróðir Árna Magnússonar sem var félagsmálaráðherra en er núna í  banka. Bræðurnir Árni og Páll komu við sögu í Freyjumálinu í Kópavogi. 

Páll í hópi samherja við opnun á kosningamiðstöð Framsóknar í Kópavogi. 

 

   Moggabloggarar tjá sig um þessa ráðningu: 

Auðlindir Íslendinga eru fiskimiðin og orkan í fallvötnum. Það skiptir því miklu fyrir jafnrétti á Íslandi að þeir sem stýra  þessum auðlindum séu fulltrúar allra Íslendinga. Það er ekki ósanngjörn krafa að gætt sé kynjasjónarmiða í stjórn opinberra orkufyrirtækja.

Ég skoðaði núverandi stjórn Landsvirkjunar og þar má sjá að það er ein kona í stjórn Jóna Jónsdóttir viðskiptafræðingur. 

Stjórn Landsvirkjunar 2006

 


mbl.is Jóhannes Geir víkur úr stjórnarformennsku í Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Garðúrgangur...það er nú ekki aðalruslið

Gaman að sjá Villa borgarstjóra hamast með hrífuna að raka garðinn sinn. Hann hlýtur að búa í öðru hverfi en ég ef garðaúrgangur er aðalvandamálið í hans garði. Í mínum garði hérna í Laugarneshverfinu er mesta draslið í garðinum alls konar plast og pappírsdrasl sem hingað fýkur og stráist yfir garðinn í hvert skipti sem einhverjir vindar blása.  Vor í Reykjavík er tíminn þar sem runnarnir blómstra plastblómum og þar sem sígarettustubbarnir liggja eins og hráviði um allt. Það sem mér finnst átakanlegast er hvernig ástandið er við opinberar stofnanir og skóla.

Vor í Reykjavík - Plastblómin bruma á trjánum
Vor í Reykjavík. Plastblómin blómstra á runnum og trjám.

Ég átti leið framhjá Menntaskólanum í Hamrahlíð um síðustu helgi og þar blöktu plastdræsur í hverjum runna, ástandið við skólann var svona eins og að koma á vígvöll eftir útihátíð um verslunarhelgi. Það eru mörg hundruð ungmenni sem ganga (keyra?) þar um á hverjum degi, af hverju dettur engum í hug að taka til á lóðinni?  

Mesta vandamálið í sambandi við umgengni í Reykjavík eru svæði við opinberar stofnanir og fyrirtæki. Það er alveg magnað hvernig stórfyrirtæki í glæsilegum húsakynnum leyfa draslinu að flæða og þeytast um allt. Núna þegar reykingar eru víða bannaðar innanhúss þá er oft það fyrsta sem mætir manni við andyri við stofnanir einhvers konar reykingastampar og sígarettustubbar út um allt. Sem betur fer er sums staðar við skóla líka búið að banna reykingar á skólalóð, ég tók eftir að það er stórt skilti á Verslunarskóla íslands sem segir að reykingar séu bannaðar þar.

Óska svo borgarstjóranum til hamingju með afmælið í dag! 


mbl.is Vorhreinsun í Reykjavík hefst um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn og mykjudreifarinn

Það er mjög algengt að sjá í umræðunni á Netinu alls konar eitraðar pillur út í Framsóknarmenn og meinta spillingu þeirra og  þegar Framsóknarmenn leggja út í kosningabaráttu þá er það uppnefnt og kallað  að gangsetja mykjudreifarann (dæmi hérna). Svo eru endalaust einhverjir brandarar um traktora og spunameistara.

Mér finnst þetta dáldið fyndið og ég kann vel við mig að tilheyra ofsóttum minnihlutahóp sem þarf að þola hróp og háðsglósur frá lýðnum.  Ég hef líka töluverða reynslu í þessu, svona var þetta þegar ég gekk femínismanum á hönd  í netumræðunni, þá varð ég samstundis loðin og mussuleg. Það skiptir engu máli þó ég hafi alltaf haft minni hárvöxt en Njáll á Bergþórshvoli og hafi orðið að teikna á mig augabrúnir, ef maður er femínisti er maður loðinn og ef maður er framsóknarmaður er maður spilltur og það sem maður leggur til í opinberri umræðu er sagt vera út úr mykjudreifara.

Svo verður píslarvættið á okkur Framsóknarmönnum ennþá meira núna þegar meintir umhverfisverndarsinnar ganga berserksgang og skemma fínu auglýsingaskiltin sb. þessa frétt á RÚV í dag:

 

Skemmdir á Framsóknarskiltum

Skemmdir voru unnar á auglýsingaskiltum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi á Egilsstöðum í nótt sem leið.

Enska orðið "Damnation" var málað yfir mynd af frambjóðendum flokksins í kjördæminu og er einn af þeim Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra. Erlendir andstæðingar virkjana hafa notað orðið "Damnation" í aðgerðum sínum gegn Kárahnjúkavirkjun.

Framsóknarflokkurinn harmar að reynt sé að hafa áhrif á kosningabaráttuna með þessum hætti í Norðausturkjördæmi og skorar á þá sem standa fyrir þessum skemmdarverkum standa að koma fram opinberlega og mæta frambjóðendum Framsóknarflokksins í umræðum um atvinnumál, byggðamál og vistvæna orkunýtingu á málefnalegum grunni.

 

 Svona skiltaskemmdir eru nú ekki beint málefnaleg umræða.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband