Loddaraskapur og hálfsannleikur í fjölmiðlum

Seinni Kastljósþátturinn  um ríkisborgararéttarmálið var góður og upplýsandi og fagmannlegur. Það má hins vegar velta fyrir sér hvaðan Kastljós fékk umsókn stúlkunnar sem lesin var upp í þættinum, því  eftir því sem ég best veit er umsóknin einkagögn sem hún lagði fram til opinberrar nefndar  (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og mér skilst að það sé eina fólkið sem fékk að lesa gögnin frá umsækjendum. Ef Kastljós hefur komist yfir þessa umsókn öðru vísi en beinlínis frá stúlkunni sjálfri og með samþykki hennar þá er sennilega ólöglegt hjá þeim að birta þessi gögn þ.e. lesa upp umsókninni. Þetta er sennilega brot á upplýsingalögum. Þeir átta sig væntanlega á því en taka áhættuna eins og fjölmiðlar gera jafnan í skúbbinu, áhættu á  að enginn ákæri þá og/eða afleiðingar dóms/ákæru verði minni en ávinningur af að koma með góða frétt. 

Mér finnst það fróðlegt að fjölmiðlar hafa upplýst  að ástæður fyrir því að umræddri stúlku var veittur ríkisborgararéttur á svo skjótan hátt voru fremur lítilfjörlegar amk ef þetta er rétt sem fram kom í Kastljósi. Það breytir nokkuð viðhorfi mínu til þessa máls, svo ég segi bara hreinskilnislega þá er ég steinhissa og trúi þessu varla og finnst skrýtið að hægt sé að fá ríkisborgararétt á svona auðveldan hátt á Íslandi. Ég vil gjarnan að Ísland sé griðastaður fólks sem þarf að flýja heimkynni sín og ég hef skammast mín mikið hve Íslendingar hafa staðið sig illa í að taka á móti flóttamönnum þannig að ég hélt að það væri erfitt að fá ríkisborgararétt á Íslandi. Það er  einkennilegt og tortryggilegt  hvernig alsherjarnefnd afgreiddi þetta mál.  Mér finnst að þessi nefnd (Bjarni Ben. Guðjón Ólafur og Guðrún Ögmunds) verði að svara betur fyrir það. 

Kastljósumfjöllun Helga Seljan verður hins vegar seint talið dæmi um góða fréttamennsku. Ef Kastljós bjó þegar yfir þeim upplýsingum sem komu fram í þættinum á mánudagskvöldi þ.e. hafði undir höndum umsókn stúlkunnar og þetta var einhver liður í að grilla stjórnmálamenn og fylla Kastljósið af djúsí fréttaefni kvöld eftir kvöld þá er þetta dæmi um afspyrnuslæma fréttamennsku. Framganga Helga Seljan í Rúv verður ennþá siðlausari og rustalegri ef maður gerir ráð fyrir að hann hafi þegar séð þessa umsókn og viti fyrir hverjar þessar sérstöku ástæður eru sem stúlkan sótti um. 

það sem Helgi Seljan gerði vitlaust er að hann hegðaði sér eins og pólitískur andstæðingur viðmælanda síns, andstæðingur sem vill koma höggi á veikan blett á andstæðingi og knésetja hann með öllum ráðum. Helgi Seljan er á launum hjá okkur öllum, hann starfar á opinberum fréttamiðli sem vissulega á að vera fimmta valdið og veita stjórnsýslunni aðhald og fletta ofan af misfellum og skrýtnum vinnubrögðum þar. 

Þessi afgreiðsla á undanþágu sem um ræðir er hins vegar afgreiðsla alsherjarnefndar (Guðjón Ólafur, Bjarni Ben. og Guðrún Ögmunds) og það er sú afgreiðsla sem er afar einkennileg. Jónína Bjartmarz ber ábyrgð á því sem hún ber ábyrgð á og það er sem þingmaður og sem umhverfisráðherra og sem nefndarmaður í  nefndum sem hún tekur þátt í en hún ber ekki ábyrgð á því þó fólk henni tengt hljóti einkennilega greiða fyrirgreiðslu hjá einhverri nefnd sem hún hefur ekki haft einhver afskipti að. 

Auðvitað hefur Jónína hjálpað stúlkunni að fóta sig í kerfinu og bent henni á leiðir. Skárra væri það nú.  En það er ekkert óeðlilegt við að fólk leiðbeini fjölskyldum sínum hvort sem það eru þingmenn eða ekki. Það var ekkert athugavert við það að fjölmiðlar spyrðu Jónínu út í þetta mál en það er ekki hægt að kalla orðræðu Helga Seljan spurningar. Það er frekar árásir. En Helgi Seljan var að ráðast á rangan aðila og á röngum forsendum. Það er mjög hættulegt ef fjölmiðlar verða þannig og segja einhvern hálfsannleika og gangast upp í loddaraskap. 

Flest fólk er illa að sér í gangvirki stjórnsýslunnar og það er auðvelt að afvegaleiða fólk með skrípafréttamennsku og búa til sökudólga og búa til sök. Það er hins vegar ekki hlutverk ríkisfjölmiðils að gera það.

Í vetur hefur verið sleginn nýr tónn í fréttamennsku á Íslandi. Það er viðbúið að þessi fréttamennska teygi sig inní stjórnmálaumræðu. Þetta hófst með Byrgismálinu og teygði sig yfir í önnur sambærileg mál og varð eins konar samkeppni milli sjónvarpsstöðva. Vissulega er þetta afhjúpandi fréttamennska og við verðum margs vísari um hvernig farið var með lítilmagnann í íslensku samfélagi. En þetta hafa líka verið tímar þar sem ógæfa annarra og eymd hefur verið gerð að áfergjulegu fréttaefni - svipað eins og í sakamálaþættum þar sem kvöl fórnarlamba morðingja og kvalalostara er sýnd í nærmynd og dvalið við pyntingarsenurnar.

Þetta hefur verið vetur hinna blörruðu bölla í fjölmiðlaumræðu á Íslandi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir

Ég verð nú að taka undir þessi orð þín, þetta er dæmigerð umfjöllun sem pólistískur andstæðingur setur upp og hagar sér sem slíkur. Þeir sem taka undir að þetta sé gott mál og vel með farið hjá Helga eru líka pólitískir andstæðingar og myndu hvort eð er aldrei kjósa Jónínu eða flokkinn hennar. Ef fólk má ekki leiðbeina fjölskyldu sinni eins og öðrum þá er nú réttur fólks í pólitík orðinn býsna skertur, er það ekki einmitt hlutverk okkar foreldra að leiðbeina börnum okkar og tengdabörnum líka. Ég er sammála því að mér finnst þessi umfjöllun mjög til skammar fyrir Sjónvarpið og vona að svona vinnubrögð verði ekki viðhöfð áfram hver sem á í hlut. Ef eitthvað spúkí er við málið á að upplýsa það, en að sýna umsóknina hlýtur að varða við lög um persónuvernd.

Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir, 1.5.2007 kl. 15:29

2 Smámynd: Kristín Dýrfjörð

Fyrst skal tekið fram að ég er samfylkingarkona, í öðru lagi starfar spússi minn hjá ruv, svo öllu sé vel til haga haldið - En fólk sem er í stjórnmálum hlýtur að gera sér grein fyrir að með þeirra sporum er fylgst öðruvísi en mér og þér. ÞAð verður að gæta sín jafnvel sem mamma og tengdamamma. Það er nú einu sinni fylgifiskur þess að vera í opinberu lífi. Hitt skal tekið fram að mér hefði þótt afgreiðsla nefndarinnar jafnóviðeigandi ef um vensl við "mitt" pólitíska fólk hefði verið að ræða. Því miður verður venslfólk pólitíkusa að taka á sig ýmis óþægindi, og jafnvel tímabundnar skerðingar. Hefði þessi afgreiðsla átt sér stað í Bretlandi, janfvel Danmörku hefði viðkomandi ráðherra og/eða nefndarfólki verið gert að taka pokann sinn. Við aftur setjum þetta alltaf á persónulegt plan.  Nú er það bara aumingja Jónína.  Ég spyr hefði nú ekki verið skynsamlegt hjá Jónínu að benda tengadóttur sinni á að bíða. Benda henni á lögin - Jónína er jú lögfræðingur.  

Ég veit auðvitað ekkert um hvort að Kastljósið hafði þessi skjöl undir höndum - en ef svo er var það kannski von þeirra að þurfa ekki að sýna alþjóð perónulega pappíra. Annað ég veit að þegar fólk sækir um ríkisborgararétt þarf það að hafa a.mk. tvo meðmælendur - hefði verið áhugavert að sjá hverjir voru meðmælendur stúlkunnar.

Kristín Dýrfjörð, 1.5.2007 kl. 16:44

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Nú er ég hættur að skilja.

Hvað þýða þessi orð: "hinna blörruðu bölla"

Kannski er þetta bara alls  ekki íslenska heldur eitthvert nýtt tungumál,eða hvað?

Eiður Svanberg Guðnason, 1.5.2007 kl. 17:42

4 Smámynd: Grímur Kjartansson

Minni á hingað til hafa fjölmiðlar fengið send öll „trúnaðar skjöl“ sem þingmenn hafa fengið afhent.  Með þeim afleiðingum m.a. að stefnuræðu forsætisráherra er ekki lengur dreift fyrirfram til þingmanna. Venjulega viðkvæðið hjá þingmönnum er að HH sjái ekki muninn á pappírstætara og faxvél.

Grímur Kjartansson, 1.5.2007 kl. 17:51

5 Smámynd: halkatla

þetta er hreint ömurlegt mál. Fólk sem líður fyrir hörð útlendingalög þarf að horfa uppá þessa spillingu og það er hræðilegt. En mér fannst þessi niðurstaða alveg blasa við frá því að fyrst var fjallað um málið. Mér finnst aðferðafræði Kastljóssins algjör snilld, þeir höfðu örugglega öll gögn frá upphafi, seinkunin á birtingunni var ábyggilega bara til þess að lengja spennuna. En þetta er vandmeðfarið mál og hegðun Jónínu sjálfrar algerlega til skammar, hvað þá hegðun nefndarmeðlimanna þriggja... Ábyrg og siðavönd manneskja í Jónínu stöðu hefði alls ekki átt að láta stelpuna senda umsóknina svona hingað og þangað, það er óvirðing við þá sem raunverulega eiga skilið ríkisborgararétt

halkatla, 1.5.2007 kl. 18:07

6 Smámynd: halkatla

ég vil taka fram útaf fyrsta kommentinu að ég myndi aldrei kjósa fólk sem er sannanlega spillt og lygið inná þing, það er svo fyrir neðan mína virðingu á allan hátt og grefur undan lýðræðinu.

halkatla, 1.5.2007 kl. 18:09

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Góð grein hjá þér Salvör!
Þetta er gott dæmi um það sem víst heitir á blaðamannamáli "Hin nýja fréttamennska" sbr. greinarnar um gamla fólkið á Grund í tímaritinu Ísafold. Bráðsmitandi, nema menn séu vel bólusettir, sem þeir virðast ekki vera hjá RÚV. 

Júlíus Valsson, 1.5.2007 kl. 20:44

8 Smámynd: Júlíus Valsson

...ég var nærri búinn að segja "ansk. kommakjaftæði á Rúv" en stóðst þá freistingu.

Júlíus Valsson, 1.5.2007 kl. 21:02

9 identicon

Nú er það svo að ef stúlkan hefði auðveldlega getað stunda nám í Bretlandi og ferðast á milli Íslands og Bretlands og unnið hér á landi þá hefði stúlkan aldrei sótt um undanþágu og aldrei fengið undanþágu. 

Eins og ég skil málið hefði stúlkan þurft að sækja um dvalarleyfi á Bretlandi.  Hún hefði síðan þurft að sækja um dvalarleyfi og atvinnuleyfi fyrir hverja sumardvöl hér á landi.  Afgreiðslutími slíks fyrir einstaklinga utan EES er lámark 3 mánuðir miðað við það sem mér var sagt fyrir mánuði. 

Hún hefði því þurft að tryggja sér sumarvinnu og sannfæra atvinnurekenda um að það sé þess virði að standa í þessari skriffinnsku fyrir starfsmann sem vinnur í 3 mánuði að lámarki þremur mánuðum áður en hún hefði komið til landsins.  Fáir atvinnurekendur eru reiðurbúnir að standa í þessu fyrir starfsmann sem er aðeins í 3 mánuði þannig að hún hefði verið atvinnulaus hér á sumrin. 

Auk þess hefði 3 mánaða Schengen reglan tekið til hennar. Hún hefði aðeins mátt dvelja hér í samanlagt í samanlagt þrjá mánuði á hverju sex mánaða tímabili ef hún hefði dvalarleyfi í Bretlandi.  Komi hún hingað 1. júní og dvelji í 3 mánuði þá má hún ekki koma aftur fyrr en 1. des og það getur valdið óhagræði ef hún vill fylgja kærasta sínum heim til Íslands vegna jarðarfara, veikinda eða annars.

Svo talar fólk um að landið sé opið fyrir hverjum sem er.

Svona til gamans má geta þess að ég hef aldrei kosið Framsókn og mun ekki gera

nafnlaus (IP-tala skráð) 1.5.2007 kl. 22:18

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Eiður svanberg, þú spyrð um orðalagið "þetta hefur verið vetur hinna blörruðu bölla í fjölmiðlaumræðu á Íslandi". Þetta er náttúrulega óskiljanlegt öðrum en þeim sem fylgdust með kapphlaupi Kompás og Kastljóss sem byrjaði með uppljóstrunum á kynlífsathöfnum forstöðumannsins og það getnaðarlimur hans var sýndur dinglandi á sjónvarpsskjánum - blörraður. Stuttu seinna reyndi Kastljós af veikum mætti að toppa þetta með að sýna blörraðan getnaðarlim meints barnaperra á Netinu. Upp hófumst perraveiðar sjónvarpsstöðvanna og réttarhöld þar sem margir voru í viðtali og spurðir svona spurninga eins og "Hvað varst þú oft misnotaður/misnotuð í viku?". Ég er ekki að gera lítið úr þessari umfjöllun, hún var mjög fróðleg og upplýsti nýja hlið á opinberum uppeldisúrræðum og sagði söguna frá sjónarhóli þolenda. En jafnframt fór umfjöllun stundum í þann farveg að þetta varð eins konar frétta og fjölmiðlaklám þar sem verið var að velta sér upp úr afbrigðilegu kynlífi og kvalalosta og það er það sem ég á við með orðalaginu um blörraða belli -  á yfirborðinu er eins og umræðan sé um herferð gegn barnaklámi og kynferðislegru misbeitingu en undir niðri þá er þetta taumlaus völsadýrkun. Sjá bloggið hjá Guðmundi Steingríms http://www.gummisteingrims.blog.is/blog/gummisteingrims/entry/92415/

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.5.2007 kl. 07:44

11 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Salvör,  Þakka þér skýringuna. Það er kannski afskaplega gamaldags að vilja  vanda mál sitt. Slettan "blörraður" finnst mér afspyrnu ljót og ég er hreint ekki viss um að allir  skilji þetta. Hversvegna ekki nota  móðurmálið ?

Eiður Svanberg Guðnason, 2.5.2007 kl. 09:14

12 Smámynd: halkatla

nafnlaus, kærustuparið ógurlega gæti hætt saman á morgun.... þetta eru fáránleg rök fyrir því að fá ríkisborgararétt og óásættanlegt með öll einmitt af því að landið er ekki nógu opið. En svona opið á það ekki að vera, að bara hver sem er geti byrjað með einhverjum útlendingi og útlendingurinn fengið ríkisborgararétt!!! Heyr á endemi. Afhverju ætti hún að vera fylgjandi honum í jarðarfarir á Íslandi þegar hún er upptekin í námi? þetta er svo mikið bull í þér

halkatla, 2.5.2007 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband