Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
9.5.2007 | 09:16
Laumulegar starfsauglýsingar
Starf aðstoðarríkislögreglustjóra var auglýst eingöngu í Lögbirtingarblaðinu en ekki á Starfatorgi sem er sá vettvangur sem störf hjá ríkinu eru auglýst. Það er skylda með mörg stjórnunarstörf hjá ríkinu að auglýsa eftir umsækjendum í Lögbirtingablaðinu. Það er hins vegar mér vitanlega ekkert sem bannar að störf séu auglýst á fleiri stöðum.
Í umræðum um launamun kynja verður mörgum Sjálfstæðismönnum tíðrætt um að við starfaráðningar sé mikilvægt að velja hæfasta einstaklinginn. Maður skyldi ætla að þeir sem mest halda fram slíku leggi mikla áherslu á að hafa úr sem mestu að velja og sem flestir sem gætu verið sá hæfasti hafi möguleika á að sækja og vita að verið sé að leita að manneskju í starfið. En auglýsingar sem er farið með svo heimulega að þær eru bara auglýstar í Lögbirtingablaðinu eru langt í frá dæmi um opna og lýðræðislega stjórnarhætti.
Þvert á móti verður að telja að svona auglýsingar séu bara formsatriði til að uppfylla lagaskyldur og þegar sé búið að ráða í starfið, þegar sér búið að velja "hæfasta einstaklinginn". Okkur femínistum grunar að þetta orðalag "hæfasti einstaklingurinn" sé dulmál fyrir karlmann og það úthlutunarkerfi gæða sem viðheldur karlveldinu. Svona starfaauglýsingar ýta undir þann grun.
En þar er svo sannarlega kominn tími til að rýna í hvernig ráðið er í stjórnunarstörf hjá hinu opinbera.
![]() |
Embættinu skylt að nota Lögbirtingablað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 10:36
Svo kom Kaninn, þaninn, kommúnistabaninn...
Það eru bara nokkrir mánuðir síðan bandaríski herinn kvaddi okkur hérna á Íslandi og þá héldu herstöðvaandstæðingar herkveðjuhátíð. En af hverju ekki að halda líka hátíðlegan daginn sem þeir komu en það var einmitt í dag 7. maí sem herinn kom niður úr skýjunum til Keflavíkur. Ég skoðaði Morgunblaðið, blað allra landsmanna þennan dag og hér er forsíðan. Reyndar sýnist mér Morgunblaðið á þessum tíma hafa verið meira blað "lýðræðisflokkanna" heldur en allra landsmanna, maður les milli línanna að þeir sem ekki vildu herinn væru bara rumpulýður sem ekki væri talinn með. Það er hatrammur andsovétskur áróður í Morgunblaðinu á þessum tíma og mjög harðneskulegt tal um andstæðinga markaðshagkerfis. Það er nú bara gott að Mogginn hafi mildast með árunum og orðið umburðarlyndari.
En sum skrif í Morgunblaðinu daginn sem herinn kom 7. maí 1951 eru alveg eins og þau séu skrifuð í dag og endurómi skoðanir sem notaðar eru til að réttlæta stríð í Austurlöndum. Ég gluggaði í Reykjavíkurbréf þennan og læt fylgja með hérna pistilinn Næsta skrefið í Iran þar sem útmáluð er nauðsyn þess að ráðast á Íran, það vanti olíu á Vesturlönd og svo geti sé bara hættulegt íkveikjuefni að hafa Íranina þarna afskiptalausa. Það vantar bara nýmóðins orð eins og hryðjuverk .
Herinn gerði aldrei neitt mikið hérna nema skaffa Íslendingum atvinnu og þjóðinni gjaldeyristekjur. Ég veit ekki einu sinni hver vann stríðið... kalda stríðið. Sennilega voru það Vesturveldin sem unnu, þau eru alla vega til ennþá og hafa ekki liðast í sundur eins og Sovétríkin.
En ég veit að víglínan lá í gegnum Berlín, hún var búin til í áróðursstríði og hún var líka búin til með járntjaldinu og múrnum sem skildi að austur og vestur.
Þó járntjaldið hafi fallið og múrinn verið brotinn niður þá get ég ekki séð annað en önnur tjöld og aðrir múrar hafi risið. Ég get ekki séð annað en núna sé víða þjarmað að fólki og frelsi þess skert einmitt í ríkjum og af valdhöfum sem telja sig frelsiskyndla hér á jarðkringlu.
Kaldastríðið náði hámarki þegar vesturhluti Berlínar varð eins og einangruð eyja inn í landsvæðum kommúnista.
Orð Kennedy Bandaríkjaforseta og ákall hans um frelsi og samkennd allra frelsisunnandi sem hann flutti af svölunum í ráðhúsi í Berlín eru fleyg. Hann sagði:
Two thousand years ago the proudest boast was civis romanus sum [I am a Roman citizen]. Today, in the world of freedom, the proudest boast is 'Ich bin ein Berliner'...All free men, wherever they may live, are citizens of Berlin, and, therefore, as a free man, I take pride in the words 'Ich bin ein Berliner!'
Ég fylki mér undir orð Kennedys og geri að mínum og segi "Ich bin ein Berliner" sem snarað á Framsóknaríslensku (Framsóknarflokkurinn er einnig nefndur kleinuflokkurinn) útleggst "Ég er kleinuhringur".
Kleinuhringir allra landa, sameinist!
6.5.2007 | 20:03
Forsetafréttir úr þremur löndum Ísland, Frakkland, Tyrkland
Vonandi er ekkert alvarlegt að Ólafi Ragnari forseta okkar. Hann var í Stykkilshólmi að opna vatnasafn Roni Horn .Ég hef lengi haft áhuga á list Roni Horn og pælingum hennar um vatnið og skynjunina, sjá þessi blogg:
Ég skrifaði þar m.a. þetta um Roni Horn:
Hún er mjög upptekin af því að staðsetja (to place) og hvað felist í að vera á stað og hugmynd hennar um Ísland er að það sé sögn fremur en nafnorð. Roni Horn er kannski alveg eins skáld eins og myndlistarmaður, hún er upptekin af kynleysi, þrá og eðli tungumáls og sækir efnivið í texta eftir Emily Dickinsson. Hún hefur velt fyrir sér hvernig Emily Dickinsson sá og skynjaði án þess að ferðast og hvernig Verne gat skrifað og lýst aðstæðum á Íslandi án þess að koma nokkurn tíma hingað. Hún pælir í því hvernig umhverfið verður manneskjan, hvernig eyðimörk getur ekki gefið manni neitt nema hún sé hluti af manni og hún segir "you are the weather" eða þú ert veðrið og hún hefur gert eina bók með myndum af íslenskri konu sem á að lýsa því, myndum sem eru teknar við mismunandi veður og það er ekki hægt að þekkja að það sé sama manneskja á myndunum því manneskjan verður veðrið. Hér til hliðar er forsíðumynd úr þeirri bók. Roni Horn er merkilegur listamaður og gaman að pæla í verkum hennar, þau eru ljóð eða mynd eða eitthvað sem er ekki bundið við form. Hún segir á einum stað: "The entrance to all my work is the idea of an encyclopedia of identity".
Annars var merkilegt að helstu fréttir kvöldsins eru fréttir af þremur forsetum. Forseti Íslands var fluttur frá Snæfellsnesi með þyrlu á Landsspítalann, úrslit voru kunn úr forsetakosningunum í Frakklandi - þar tapaði konan sem var í framboði en harður hægri maður vann og í Tyrklandi dró umdeildur forsetaframbjóðandi framboð sitt til baka - en konan hans gengur með slæðu.
![]() |
Forsetinn við góða heilsu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.5.2007 | 13:36
Börn alkóhólista, Youtube og Mogginn
Ég var hissa þegar ég sá frétt um þetta myndband á mbl.is. Fréttin er að sextán ára dóttir þekkts leikara tekur mynd af föður sínum dauðadrukknum og setur á Youtube. Mér fannst þetta tímamót í fjölmiðlum. Bæði að heimavídeó af einkalífi fólks á youtube væru fréttaefni á mbl.is og svo þetta gífurlega nærgöngula myndefni. Barn (16 ára er barn skv. íslenskum lögum) alkóhólista tekur vídeó af föður sínum drukknum og setur á Netið sennilega í því augnamiði að niðurlægja föður sinn - annað hvort til að hefna sín eða sem von um að niðurlægingin verði svo mikil að faðir hennar taki sig á. Þetta er sorglegt myndefni og þetta eru sorglegar heimilisaðstæður.
Því miður er ofdrykkja og alkóhólismi vandamál á nærri því hverju einasta heimili sem ég þekki til á. Því miður eru mörg þúsund börn að alast núna upp á heimilum við aðstæður þar sem foreldrar eru útúrdrukknir og vanrækja skyldur sínar sem foreldrar. Í flestum tilvikum eru það feðurnir og í flestum tilvikum er reynt að halda áfengisvandamálinu leyndu fyrir börnunum og kóa þar margir með.
![]() |
Dóttir Davids Hasselhoffs myndar útúrdrukkinn föður sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.5.2007 | 16:27
Fangar tjúllast
Fangar tjúllast og unglingar tjúllast þegar teknar eru af þeim tölvurnar eins og þessi frétt um óeirðir í öryggisfangelsi í London segir frá. Ég er reyndar ekki að fatta hvers vegna fangar í fangelsum geta ekki haft aðgang að Netinu undir eftirliti. Þá vil ég náttúrulega undanskilja þá sem eru líklegir til að fremja glæpi sem tengjast netnotkun þ.e. fíkniefnasala og barnaperra eins og hann Ágúst sem einmitt reyndi að fremja afbrot þegar hann var að afplána í opnu fangelsi eins og Kompásþátturinn afhjúpaði svo eftirminnilega.
En Netaðgangur fanga er ekki bara verkfæri sem þeir geta notað til að fremja afbrot, leggja á ráðin um hryðjuverk, sammælast við dópsala og klæmast við börn. Netaðgangur gerir föngum líka kleift að stunda nám utan fangelsis og það má velta því fyrir sér hvort það þjóðfélag er ekki mannúðlegast sem leyfir öllum að hafa rödd, líka þeim sem lægst standa í samfélagsstiganum, líka þeim sem eru lokaðir inn á stofnunum vegna afbrota sinna. Þannig þætti mér hið besta mál að fangar gætu bloggað og lýst lífi sínu og líðan - og ekki síst sagt okkur hinum sem utan fangelsis erum hvort þar sé allt með felldu og mannréttindi virt. Ég hafði gaman af því að kíkja stöku sinnum á bloggið hjá Bryggjutröllunum en það voru nokkrir strákar á Kvíabryggju sem blogguðu saman - reyndar var það bróðir eins sem setti inn á bloggið skrif fanganna þegar hann kom í bæinn. Mér fannst þetta blogg gefa innsýn í hugarheim þeirra og hvaða ráð þeir höfðu til að umbera þær aðstæður sem þeir voru í, þeir báru sig vel, voru kokhraustir en undir niðri fann maður þá kvöl sem ég held að sé alltaf hluti af lífi þess sem sviptur er frelsinu. En blogginu þeirra var lokað.
![]() |
Óeirðir í fangelsi í Lundúnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.5.2007 | 15:36
Rasphús Ríkisins
Það er verið að stækka og auka við fangelsi á mörgum stöðum á Íslandi. Það er kannski fylgifiskur góðærisins og liður í að grynnka á biðlistunum - biðlistum eftir að fá að afplána dóma fyrir afbrot.
Einhvers staðar verða vondir að vera. En það er afar óskynsamlegt að koma þeim fyrir við aðstæður þar sem þeir verða ennþá verri. Stór hluti (meirihlutinn?) þeirra sem nú gista fangelsi Islandi eru þar vegna fíkniefnabrota - í mjög mörgum tilvikum eru það fíklar sem hafa leiðst á þessa glapstigu vegna neyslu sinnar eða umkomulaust fólk sem er burðardýr og leiksoppar dópsala. Rannsókn sem var kynnt nýlega bendir til að margir fangar eigi við einhvers konar geðraskanir að stríða.
Hvernig sem á málið er litið þá er engin skynsemi í öðru en horfa á fangelsismál í samhengi við lífshlaup fanga eftir að refsivist lýkur en ekki einangraðan stað þar sem framtíðin skiptir ekki máli. Það er því miður margar, margar sögur af því hvernig fangelsin hafa verið sá staður sem steypti fólki út á glæpabrautina, þar myndaðist vina- og tengslanet aðila sem voru í sömu aðstæðum og sama lífsmynstri. Það var líka nýlega birt skýrsla um heimili unglinga í vandræðum og óreglu sem komið var fyrir í Háholti í Skagafirði. Unglingarnir létu vel af dvölinni en rannsóknin sýndi að 90% þeirra voru komnir aftur í óreglu fljótt eftir að þeir útskrifuðust af heimilinu. Það er sennilega flestum í fersku minni umræðan sem varð um unglingaheimilið á Breiðuvík og við höfum fengið að sjá hvernig dvöl þar lék drengina og merkti þá fyrir lífstíð og sumir þeirra pendla núna út og inn úr fangelsum.
Það er hægt að setja marga mælikvarða á gæði fangelsa.
Einn mælikvarði er hversu víggirt þau eru og hve erfitt er fyrir fangana að sleppa út og hve örugg við sem erum utan fangelsisins um að fangarnir gangi ekki lausir. Annar mælikvarði er hvernig föngunum líður á afplánunartímanum og hve vel mannréttindum er sinnt í fangelsinu og hvaða tækifæri fangarnir hafa til að taka sig á og bæta sig og halda sambandi við fjölskyldur sínar. Þriðji mælikvarðinn er hversu vel föngunum gengur að halda sig frá afbrotum eftir að fangelsisdvöl lýkur og hve nýtir þjóðfélagsþegnar þeir verða. Það er alveg nauðsynlegt að safnað sé gögnum um árangur og eða árangursleysi fangelsisdvalar og metið á einhvern hátt hvort þeir valkostir sem við höfum nú í fangamálum eru líklegir til að búa til forherta afbrotamenn úr smákrimmum.
Ég skrifaði pistil árið 2005 á málefnin.com í kjölfar umræðu sem þá var í Kastljósinu hjá Rúv um málefni fanga. Ég lími þennan pistil hér inn:
Kastljósið er búið að vera með ágæta umfjöllun um fangelsismál núna tvö kvöld í röð. Vonandi vekur þetta fólk til umhugsunar um þetta mikilvæga mál þ.e. hvað er að gerast í fangelsunum, hvernig er líf fanga og tengsl þeirra við fjölskyldur sínar og að hvaða leyti virka fangelsin sem betrunarhús. Ég vil hrósa Kastljósinu fyrir að hafa komið með bæði sjónarmið fanga og fangavarða og haft viðmælendur úr báðum hópum. Vonandi vekur þetta líka fólk til umhugsunar um hvernig fangelsin endurspegla þjóðfélagið og hvað þeim sem völdin hafa finnst vera glæpur og hverjum er refsað. Það er auðvelt að sjá flísina í auga náunga síns en koma ekki auga á bjálkann í sínu eigin auga. Þannig sjáum við að refsivist í öðrum löndum er einkennileg og virðast ákveðnum þjóðfélagshópum refsað meira en öðrum - þannig eru fangelsi í Bandaríkjunum full af ungum blökkumönnum - þannig er fólk af skrítinni trú eins og Falun Gong í fangelsum í Kína og þannig er fólk víða um heim í fangelsi vegna stjórnmálaskoðanna sinna. Hér á Íslandi er svo komið (það kom fram í Kastljósinu) að þriðjungurinn af þeim sem sitja í fangelsi eru þar vegna fíkniefnabrota og eru í mörgum tilvikum fíkniefnaneytendur og alkóhólistar sjálfir.
Það eru góðar upplýsingar um fangelsismál á Íslandi á vefsetrinu www.fangelsi.is og þar má m.a. lesa ársskýrslur fangelsismálastofnunar. Sú nýjasta á vefnum er frá 2003. Þar kemur fram að framlag til fangelsismála er yfir 600 millj. eftir að tekið hefur verið tillit til sértekna og það er að langmestu leyti (um 70%) launakostnaður. Fangar eru vistaðir í 42.222 daga í fangelsum, utan fangelsana voru vistunardagar 6.188 þar af um 3/4 á Vernd. Ef tekið er tillit til launakostnaðar við yfirstjórn og eingöngu litið á rekstrarkostnað við fangelsin sjálf og það skoðað og borið saman við fangelsisdaga þá sýnist mér að hver dagur sem fangi er í fangelsi á Íslandi hafi árið 2003 kostað íslenska skattborgara yfir 14 þúsund krónur eða yfir 420 þúsund á mánuði. Sennilega er þessi tala mun hærri núna tveimur árum seinna.
Út frá öllum skynsemis- og mannúðarsjónarmiðum er ástæða til að skoða vel valkosti í fangelsismálum. Borgar það sig virkilega fyrir íslensku þjóðina að loka fólk inni í langan tíma, borga fyrir það nálægt hálfri milljón á mánuði og láta það forherðast svo mikil að eftir vistina komi fólkið ennþá skaddaðra út?
Eru ekki einhverjir aðrir betri kostir í fangelsis- og betrunarmálun en að byggja fleiri og víggirtari og stærri fangelsi? Er ef til vill skynsamlegt að skoða þessi mál alveg upp á nýtt, af hverju er ekki hægt að nota sömu hugmyndafræði við fangelsi og við annað fólk sem einu sinni var staflað saman á stofnunum? Núna er t.d. mikið fatlað og þroskaheft fólk á litlum sambýlum - af hverju er ekki hægt að hafa örlitlar betrunarhúsaeiningar t.d. staðsettar út í sveit? Það er rándýrt að vista fólk á þessum fangelsum sem við höfum í dag og það er ómanneskjulegt umhverfi.
Ég bið fólk að kynna sér sögu brotamanna t.d. Vatnsberans. Hér er bloggpistill sem ég skrifaði um það mál árið 2002.QUOTE1.8.02 Salvor Gissurardottir
Íslensk sakamál - Vatnsberamálið
Ég horfði á þáttinn Íslensk sakamál í sjónvarpinu í gær, þessi þáttur var um Þórhall Ölver og Vatnsberamálið. Þetta er stórkostlega vel gerður þáttur, ég held ég bara muni ekki eftir að hafa séð svona áhrifaríkan og magnaðan íslenskan heimildaþátt áður. Vakti mig til umhugsunar um hvers konar örlagaþræðir tengja atburði saman og hvernig refsing og fangelsisdvöl geta brotið fólk niður og búið til skrímsli úr svikahröppum.
Þátturinn náði langt út fyrir að fjalla bara um sjálft sakamálið sem var morð Þórhalls á Agnari þann 14. júlí 2000. Þátturinn hófst á því að rekja hræðilega skotárás sem móðir Þórhalls og hann sjálfur lentu í þegar hann var unglingur og leitast var við að sýna hvaða áhrif sú reynsla hafði á hvernig Þórhallur brást síðar við á lífsleiðinni. Svo fjallaði þátturinn líka um íslensk atvinnulíf á ákveðnum tíma og hvernig erlendir og innlendir gullgrafarar og svikahrappar reyndu að búa til peninga úr engu og um afar litríkan og brösóttan feril Þórhalls í framkvæmdum, fjárglæfrum og fjársvikum. Þórhallur fékk árið 1995 einn þyngsta fangelsisdóm sem kveðinn hefur verið upp hérlendis fyrir auðgunarbrot en hann var dæmdur til 3 ára fangelsisvistar.
Þórhallur Ölver var framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Útflutningsfyrirtækisins Vatnsberans hf., sem var stofnað til að undirbúa útflutning á vatni. Agnar vann í bókhaldinu hjá því fyrirtæki. Fjársvikin voru framin á árunum 1992-1994 á þann hátt að skilað var vikulega röngum virðisaukaskattskýrslum.
Þórhallur Ölver krækti víða í fé, m.a. fékk hann töluvert fé frá Ábyrgðarsjóði launa vegna orlofs sem Vatnsberinn hefði átt að greiða honum, hann mun hafa hafði rætt við starfsmann sjóðsins og þá m.a. lýst því yfir að Vatnsberinn væri líknarfélag sem menn störfuðu fyrir af hugsjón. Allt féð sem svikið var út virðist hafa farið í umsvif Vatnsberans nema að Þórhallur segir að Agnar hafi komið undan fé og lagt á reikning í útlöndum, það var rót að misklíð þeirra og vígi Agnars.
Þórhallur og Agnar voru vinir. Atli Helgason og Einar Örn voru líka vinir og ráku saman fataverslun í Reykjavík. Atli var skiptastjóri í dánarbúi Agnars og sagði að í því búi hafi ekki verið sá erlendi sjóður sem Þórhallur segir Agnar hafa skuldað sér. Atli var nokkrum mánuðum seinna ákærður fyrir manndráp og fjárdrátt, m.a. fjárdrátt úr búi Agnars. Atli banaði Einari Erni 8. nóvember 2000 með því að slá hann margoft í höfuðið með hamri á bifreiðastæði í Öskjuhlíð í Reykjavík. Hann faldi líkið í Grindavík og tók sjálfur þátt í leitinni að Einari Erni.
Rúmu ári seinna eða 18. febrúar 2002 var Þór Sigurðsson á ferð um nótt á Víðimel vopnaður sveðju, slaghamri og kjötexi. Hann var í vímu og að koma úr innbrotsferð á fyrrum vinnustað sinn Hjólbarðaviðgerð Vesturbæjar og banar Braga Óskarssyni sem er að koma úr vinnu. Ekki er vitað til þess að þeir hafi þekkst.
Sennilega afplána þessir þrír morðingar núna refsingar sínar á fangelsinu á Eyrarbakka, þeirra afbrot eru stór og morðin óhugnanleg. Spurning er hvernig manneskjur þeir verða þegar þeir hafa afplánað og hvort þeir fá einhver tækifæri til að bæta fyrir glæpi sína og byggja sjálfa sig upp meðan á afplánun stendur. Þeir voru í áfengis- og fíkniefnaneyslu þegar morðin voru framin.
Það var viðtal við aðstandendur Þórhalls í þættinum í gær og það kom fram hvernig fangelsisdvölin fyrir fjármálabrotin hafði brotið Þórhall niður og hve óttaslegin þau eru um hvað tekur við eftir þegar hann hefur afplánað.
![]() |
Unnið að stækkun fangelsis á Kvíabryggju |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2007 | 09:30
Siðbót í Framsóknarflokknum
Guðjón Ólafur Jónsson er ekki minn eftirlætis stjórnmálamaður og ég hef gagnrýnt harkalega skrif hans á hrifla.is og vinnubrögð hans og fleiri aðila í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður, vinnubrögð sem mér finnst fjarri öllu því sem lýðræðislegt starf í grasrótarsamtökum eins og stjórnmálaflokkum eigi að vera. Sérstaklega hefur mér fundist miður að sum skrif Guðjóns Ólafs hafa verið þrungin kvenfyrirlitningu t.d. þessi grein sem hann skrifaði um Freyjumálið í Kópavogi. Það er heldur ekki hægt að leyna því að hann hefur reynt leynt og ljóst að vinna gegn Siv Friðleifsdóttur. Það er hið besta mál að Guðjón Ólafur þurfi að svara gagnrýni fyrir það sem hann sannarlega gerir og fyrir þau viðhorf og skoðanir sem birtast í skrifum hans og orðræðu en hann á ekki fremur en aðrir að þurfa að þola það að vera gerður ærulaus í fjölmiðlum fyrir dylgjur og gerður einn að blóraböggli fyrir starf nefndar sem hann situr í. Það er Bjarni Benediktsson formaður nefndarinnar sem á að svara fyrir starf nefndarinnar og vinnubrögð þar.
Að smala og tala
Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn bornir saman
Ég hef undanfarin ár reynt að vinna að siðbót í Framsóknarfélaginu í Reykjavík norður sem óbreyttur félagsmaður og boðið fram krafta mína til að byggja upp félagið og stuðla að vandaðri og lýðræðislegri vinnubrögðum þar. Því miður hafa þeir sem stýrt hafa félaginu ekki borið gæfu til að vilja nýta það. Ég held að það sé mikilvægt að starf í stjórnmálafélögum sé heiðarlegt og lýðræðislegt, ég held að ef fólk vinnur að alúð og hugsjón í stjórnmálafélögum og þar sé vettvangur þar sem fólk hlustar hvert á annað og kemur vitinu fyrir hvert annað og nýtir þau samlegðaráhrif sem felast í hópnum þá muni það til langs tíma skila sér í betri og viturlegri vinnubrögðum á vettvangi þjóðmálanna. Þannig þakka ég fyrir að hafa fengið að vinna í Kvennalistanum í gamla daga og lært af þeim grasrótarvinnubrögðum sem þar voru þar sem alltaf tíðkaðist að hlusta á alla og það hefði aldrei komið til mála að keyra í gegn einhverjar afgreiðslur í einhvers konar skrípaleiksatkvæðagreiðslu þar sem fólki var smalað á fundi bara til að kjósa. Það var reyndar megn andstaða við að kjósa um eitt eða neitt í Kvennalistanum, ég man aldrei eftir kosningu þar. Það var alltaf reynt að tala út um málin og komast að einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu.
Það hefur verið áhugavert að starfa með Framsóknarflokknum undanfarin ár og bera saman vinnubrögð þessara tveggja hreyfinga. Það er eins og hvítt og svart. Það er lögð ofuráhersla á kosningar og smalanir og plott í Framsóknarflokknum á sama hátt og það var lögð ofuráhersla á umræður sem gengu hring eftir hring í Kvennalistanum. Það er margt gott í Framsóknarflokknum og þar er hefð fyrir athöfnum, atorku og drift og framkvæmdum - eitthvað sem ég saknaði verulega úr Kvennalistanum - en ég er viss um að það myndi vera verulega góð blanda ef flokkur sem byggir á samhygð og samvinnuhugsjón eins og Framsóknarflokkurinn myndi tileinka sér öðru vísi vinnubrögð og taka eitthvað upp frá Kvennalistanum gamla. Ég held að mínir ágætu fyrrum samherjar í Kvennalistanum hafi einmitt smitað þessi vinnubrögð Kvennalistans út í Reykjavíkurlistasamstarfið og síðar Samfylkinguna og það hafi haft góð áhrif á þessar hreyfingar.
Nú er ég eins og vanalega búin að missa þráðinn og þetta blogg sem átti að vera varnarræða fyrir Guðjón Ólaf orðið að áróðri fyrir því að byggja upp betra grasrótarstarf og lýðræðislegri vinnubrögð í Framsóknarflokknum. En aftur Guðjóni Ólafi. Þó ég sé ekki sammála áherslum hans og vinnubrögðum eins og þau hafa birst mér í Framsóknarflokknum þá finnst mér mjög ómaklega að honum vegið núna með dylgjum í Dagblaðinu og fleiri stöðum þar sem því er haldið fram að hann hafði einn manna keyrt í gegn einhverja flýtiumsókn um ríkisborgararétt og því blákalt haldið fram að hann hafi knúið í gegn einmitt núna þessa umsókn en aðrir nefndarmenn hafi viljað setja hana í salt. Ég veit að Guðjón Ólafur er samviskusamur og trúr sínum stjórnmálaflokk og ég held að hann hafi hugsjónir í stjórnmálum og virði leikreglur lýðræðisins þó ég sé ekki alltaf sammála honum. Hann er auk þess lögfræðingur og ágætlega gefinn og veit vel hvaða vinnubrögð eru sæmandi í afgreiðslu mála. Þess vegna hef ég enga trú á því að hann hafi gert samherjum sínum í Framsóknarflokknum þann óleik að taka vitandi vits þátt í óeðlilegri fyrirgreiðslu til ættingja ráðherra Framsóknarflokksins. Það hefði verið hreint glapræði ekki síst svona skömmu fyrir kosningar. Allt þetta mál hefur verið gífurlega skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn núna á lokaspretti kosningabaráttunnar og það hefði hver maður með skynsemi getað sagt sér það fyrir. Þar að auki er málið þannig vaxið að það voru ekki miklir hagsmunir í húfi fyrir stúlkuna sem hlaut ríkisborgararéttinn hvort hún fékk hann núna eða hefði þurft að bíða ef til vill einu ári lengur eftir að fá ríkisborgararétt. Aðstæður hennar eru þannig að það var bara tímaspursmál hvenær hún fengi ríkisborgararétt. Það er þessi nefnd sem í eru Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir sem verða öll að svara fyrir þessa mjög svo greiðu afgreiðslu og ef einhver ber meiri ábyrgð en aðrir þá er það Bjarni Benediktsson formaður þessarar nefndar.
Fyrir utan hve þessar dylgjur um persónulega fyrirgreiðslu um ríkisborgararétt er skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn á viðkvæmum tíma þegar allir ráðherrar flokksins hér á höfuðborgarsvæðinu eru mjög óöruggir með að ná endurkjöri þá vil ég biðja fólk að hugleiða hve nærgöngul og ósanngjörn þessi umræða er fyrir það fólk sem er í skotlínunni. Þá á ég við Jónínu (og fjölskyldu hennar) og Guðjón Ólaf sem núna heyja óhemjuerfiða kosningabaráttu sem tekur allan þeirra tíma þó ekki bætist svo ofan á að vera rúinn ærunni dag eftir dag í hinum ýmsu fjölmiðlum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 10:12
Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðu
Ingibjörg Sólrún stóð sig vel í Kastljósinu í gærkvöldi, sérstaklega þegar hún var spurð um biðlistana eftir hjúkrununar- og dvalarrýmum fyrir aldraða og hún sagði eitthvað á þessa leið "Við erum vön að eyða biðlistum eftir Sjálfstæðismenn". Maður á náttúrulega ekki að hæla stjórnmálaleiðtogum úr öðrum flokkum svona rétt fyrir kosningar en þetta er bara svo mikill sannleikur og það verður að hrósa öllum þeim sem stóðu að Reykjavíkurlistanum og þá ekki síst forustumanni hans Ingibjörgu Sólrúnu fyrir hvernig gengið var til verks og drifið í að breyta morknu og steinrunnu borgarkerfi þar sem Sjálfstæðismenn höfðu dagað uppi eins og nátttröll og engan veginn áttað sig á samfélagsbreytingum. Þeir héldu bara áfram að malbika og þetta ár - árið sem þeir misstu völdin í Reykjavík til Reykjavíkurlistans voru þeir ekki einu sinni á hreyfingu heldur alveg kyrrstæðir sem lýsir sér best í því að það ár voru þeir aðallega í því að malbika bílastæði. Ég rifja hér upp þessa sögu í bloggi rétt yfir borgarstjórnarkosningarnar í fyrra:
Tíminn þegar Sjálfstæðismenn parkeruðuMeira segja Sjálfstæðismenn leggja núna áherslu á leikskólamálin, boða lækkun á gjaldskrá og ýmis framfaramál í leikskólum. Verður þar að segjast að batnandi flokki er best að lifa og er ekki annað en gott um það að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi loksins áttað sig á því að þetta eru brýn mál - þetta rifjar hins vegar upp fyrir mér ömurlegan tíma þegar yngri dóttir mín var á leikskólaaldri og Sjálfstæðisflokkurinn réði öllu í borginni fyrir tíma Reykjavíkurlistans. Þá var hrikalega búið að barnafólki og útilokað að fá nema hálfsdags leikskólapláss og það fyrst eftir margra ára biðlista - á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík eins og steingert tröll sem hafði dagað uppi, algjörlega blint á brýn samfélagsmál. Mig minnir að ein helstu kosningamálin hjá Sjálfstæðisflokknum árið sem hann tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum hafi verið að byggja og byggja glás af bílastæðahúsum. Þetta var táknrænt fyrir ástandið þá - í staðinn fyrir að greina vandamálin og fylgjast með kalli tímans þá parkeruðu Sjálfstæðismenn. Vonandi hefur langt tímabil í stjórnarandstöðu kennt þeim að hlusta á raddir borgarbúa og koma sér inn í 21. öldina.
Framfaraskeið í Reykjavík - ReykjavíkurlistinnÞað tímabil sem Reykjavíkurlistinn hefur verið við völd í Reykjavík hefur verið mikið framfaraskeið. Reykjavík hefur breyst í blómlega höfuðborg þar sem er gott að búa. Það var Reykjavíkurlistasamstarfið sem varð til að sá stjórnmálaflokkur sem ég tilheyrði þ.e. Kvennalistinn leið undir lok - eða öllu fremur rann inn í Samfylkinguna. En það er ekki hægt annað en fagna því hverju Kvennalistinn kom í verk inn í Reykjavíkurlistanum og ég stolt yfir þeim tveimur borgarstjórum í Reykjavík sem komu frá Kvennalistanum, þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Steinunni Valdísi og sem og af öllu því starfi sem Kvennalistakonur unnu í borgarstjórn. Það er engin eftirsjá í Kvennalistanum, það var flott að enda með því að komast til valda og að fá tækifæri til að móta stefnu og framfylgja henni í stærsta sveitarfélaginu og einu stærsta atvinnufyrirtæki á landinu.
Engan hefði grunað að allir flokkar væru nú árið 2006 með stefnu í fjölskyldumálum sem hefðu þótt týpiskar Kvennalistaáherslur á þeim tíma sem Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fyrir Reykjavíkurlistanum
2.5.2007 | 18:32
Reisupassi og griðabréf
það er ekkert að skýrast hvers vegna þessi alsherjarnefnd afgreiddi ríkisborgararétt til erlendrar stúlku þrátt fyrir skamma dvöl í landinu og að mér virðist veigalitlar ástæður í umsókn, ég veit að það eru mikilvægar ástæður fyrir alla að geta ferðast án vesens milli Íslands og annarra landa og unnið hérna að vild á meðan maður er í námi en frá sjónarhóli íslenska ríkisins þá hljóta þetta að teljast veigalitlar ástæður, ég held að það sé ekki sniðugt að ríkisborgararéttur sé svona eins konar reisupassi fyrir erlenda námsmenn.
Það er mjög undarlegt hvernig þessi nefnd starfaði, þau Bjarni Benediktsson (formaður nefndarinnar og sá sem ber mesta ábyrgð), Guðjón Ólafur Jónsson og GuðrúnÖgmundsdóttir verða að svara betur fyrir það ef þau ætla að hafa einhvern trúverðugleika í stjórnmálum.
Það kom nú ekkert nýtt fram í skýrslu frá alsherjarnefndinni, mest skjalfest það sem áður hefur komið fram. Hér er brot úr bréfinu:
Uppfylli umsækjandi ekki skilyrði laga til þess að fá íslenskt ríkisfang getur hann óskað þess að málið verði sent Alþingi til frekari skoðunar.
Umsóknir um ríkisfang fara til allsherjarnefndar til úrvinnslu. Löng hefð er fyrir því að nefndin feli þremur nefndarmönnum að fara yfir hverja og eina umsókn og fylgiskjöl. Er það gert á fundi sem boðaður er með fulltrúa dómsmálaráðuneytis og Útlendingastofnunar. Þessir aðilar hafa áður farið yfir gögn málsins og veita nefndarmönnum frekari upplýsingar og skýringar eftir því sem þörf krefur.
Að lokinni yfirferð umsókna leggja fulltrúar nefndarinnar tillögur sínar fyrir allsherjarnefnd. Við afgreiðslu málsins geta nefndarmenn fengið skýringar, aðgang að gögnum eða upplýsingar um eðli og ástæður.
Vísir er líka búinn að setja hér inn frétt um samantekt alsherjarnefndar.
Ég skil ekki þessa seinustu setningu um að nefndarmenn geti fengið skýringar, aðgang að gögnum eða upplýsingar um eðli og ástæður. Hlýtur það ekki að þýða að nefndarmennirnir geta fengið gögn sem eru hjá Útlendingastofnun? Það er nú eiginlega furðulegt ef umrædd stúlka hefur fengið ríkisborgararétt fyrir svo veigalitlar ástæður í umsókn (ef það er rétt sem kom fram í Kastljósi) nema nefndarmenn hafi kynnst sér betur aðstæður hennar. Það er mikið fjallað um hentihjónabönd og mikil tortryggni gagnvart ungum útlendingum sem giftast Íslendingum m.a. hafa verið sett sérstök lög um aldur. Það hefur eftir því sem ég best veit ekkert komið fram um að stúlkan sé gift Íslendingi. Það er því ótrúlegt að nefndarmenn hafi ekki kynnt sér aðstæður hennar vel og þar með fjölskyldu. Íslenskt þjóðfélag er nú svo lítið og fyrsta spurningin er jafnan um ættir fólks og uppruna þannig að það er bara alls ekki trúlegt að þessi nefnd hafi ekki vitað um tengsl stúlkunnar við Jónínu Bjartmarz. En nefndin vinnur afar loðið, verklagsreglurnar eru þessar: "Afgreiðsla mála byggir síðan á heildarmati á hverri og einni umsókn". Ég hef tekið eftir því að sumum finnst þetta í lagi, finnst að um leið og stjórnmálamenn eru kosnir á þing þá eigi þeir að hafa umboð kjósenda og frítt spil um hvað þeir gera. Ég held að það virki bara alls ekki vel. Ég held að við eigum að hafa stíft eftirlit með stjórnmálamönnum og hvernig þeir fara með vald sitt. Þeir virðast ekki hafa farið vel með vald sitt í þessari nefnd - alla vega ef ég gef mér það að það sé ekki hægt fyrir alla útlendinga sem hér dvelja og eru í sambandi við Íslendinga að fá sams konar fyrirgreiðslu.
En mikil vildi ég óska að allir stjórnmálaflokkar byggist samtökum um að gera Ísland að sams konar griðastað og danskir stjórnmálamenn eru að gera í sínu landi, sjá þessa frétt á Vísi:
Danir bjóða ofsóttum rithöfundum hæli
Danir hafa ákveðið að veita ofsóttum rithöfundum hæli og vernd gegn andskotum sínum. Þetta á við um blaðamenn, rithöfunda og teiknara sem hafa ástæðu til þess að óttast um hag sinn. Annaðhvort vegna ofsókna ríkisstjórna eða trúarsamtaka.
Danska ríkisstjórnin gengur þarna til liðs við samtökin ICORN, sem stendur fyrir "International City of Refuge Network."
Það var rithöfundurinn Salman Rushdie sem stofnaði ICORN eftir að hann var dæmdur til dauða af múslimadómstól fyrir bók sína Söngvar Satans. Hælislandið veitir flóttamönnunum dvalarleyfi, húsaskjól og eftir atvikum fjárhagsaðstoð.
Stuðningur er við þessa ákvörðun meðal allra stjórnmálaflokka í Danmörku.
Það má orða þetta þannig að skynsamlegra og réttlátara sé að íslenskur ríkisborgararéttur sé veittur sem griðabréf fyrir þá sem eru ofsóttir vegna skrifa sinna fremur en alsherjarnefnd úthluti reisupössum til þeirra sem þurfa að ferðast snurðulaust milli Íslands og umheimsins.
Annars í sambandi við þetta mál þá ættu þeir menn sem líta á þetta sem mesta hneykslismál í íslenskum stjórnmálum að hugleiða hve mikil forréttindi það eru að búa í landi þar sem æstustu spillingartilvikin eru af þessu tagi - að hliðrað sé til fyrir ungum útlendingi sem vill verða íslendingur og tengist íslenskri fjölskyldu og vill mennta sig meira og myndi hvort sem er hafa fengið hérna ríkisborgararétt í fyllingu tímans. Ég held að þessi unga stúlka sé ágætis Íslendingur og auðgi íslenskt samfélag. Ég vil búa í samfélagi fjölbreytileika og umburðarlyndis.
![]() |
Umsóknir um ríkisborgararétt afgreiddar ágreiningslaust innan allsherjarnefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.5.2007 | 08:47
Geta bara karlmenn talað um skatta?
Það var methallærislegt að sjá í Kastljósi gærdagsins hvernig það voru bara karlmenn sem fjölluðu um skattamál og hve kynskipt umræðan var annars vegar um heilbrigðismál þar sem voru fimm konur og einn karl og um skattamál þar sem voru sex karlar.
Það er líka magnað hve grunn og yfirborðsleg umræðan er í svona þáttum, ég velti fyrir mér hver sé ástæðan - er það vegna þess að þessi miðill sjónvarpið og sá knappi tími sem hver viðmælandi hefur þar og hve lítið af bakgrunnsupplýsingum koma fram sem veldur því?
Ég sakna þess að ekkert ítarefni sé með svona umfjöllun þannig að fólk geti betur borið saman stefnu flokkanna. Þegar ég sá um vef Femínistafélagsins þá setti ég upp sérstakan kosningavef fyrir femínista fyrir síðustu kosningar, heimsótti kosningaskrifstofur og setti inn upplýsingar um stefnu flokkanna í kvenfrelsismálum. Mér hefði ekki fundist ofverkið hjá þáttum eins og Kastljósinu að taka saman hliðarupplýsingar og setja á vef með svona þáttum, annars vegar um heilbrigðismál og hins vegar um skattamál. Það er kannski gallinn að fréttastofurnar lifa í núinu og útsendingunni og hafa ekki almennilega áttað sig á hina sítengda og margflækta og tengda samfélagi Netsins og telja kannski ekki það vera í sínum verkahring að
Eða er umræðan svona grunn út af því að þeir sem skipuleggja þessa þætti gera það frekar illa og virðast ekki hafa unnið mikla heimavinnu? Hér vil ég t.d. nefnda að í upphafi þáttarins var fjallað um stimpilgjöldin og gengið á röðina "hvað finnst þínum flokki um stimpilgjöldin?" og svo kom í ljós að allir vildu þau burt. Út af hverju var þá verið að eyða dýrmætum tíma þáttarins í þetta lítilfjörlega mál sem allir eru sammála og sem almenningur hefur sennilega afar lítinn áhuga á? Ég leyfi mér líka að efast um að allur þorri fólks viti hvað stimpilgjöld eru. Eiginlega fékk ég ekkert út úr þessari umræðu um hver skilin eru milli flokka nema helst að vinstri grænir hafa skýrari afstöðu en aðrir þ.e. vilja fjármagnstekjuskatt og hækkun á frítekjumarki í áföngum.
En hvers vegna voru bara karlmenn í þessari umræðu um skattamálin? Ekki getur það verið vegna þess að þetta var svona djúp speki og mikil sérfræði að það hefur enginn kona treyst sér í að fjalla á ábúðarmikinn hátt um þennan málaflokk. Hvað var talað um í þessum þætti? Spyrillinn hjá Kastljósi sagði í byrjun að hann vildi fara hringinn og spyrja fulltrúanna nokkrurra spurninga. þessar spurningar voru:
1. stimpligjöldin á að fella þau niður?
2. fjármagnstekjuskattur á að hækka hann eða fella hann niður eða hafa hann óbreyttan?
3. hver eiga skattleysismörk að vera í krónutölu?
4. hvernig hyggist þið borga þennan reikning? (þ.e. hækkun á skattleysismörkum)
Þetta var allt og sumt sem rætt var í þættinum. Ég held það hefði ekki þurft neinn umræðuþátt um þetta, það hefði verið best að fá flokkana til að senda inn skriflega svör og bakgrunnsupplýsingar og setja á vefsíðu RÚV. það hefði verið eins upplýsandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)