Siðbót í Framsóknarflokknum

Guðjón Ólafur Jónsson er ekki minn eftirlætis stjórnmálamaður og ég hef gagnrýnt harkalega skrif hans á hrifla.is og vinnubrögð hans og fleiri aðila í Framsóknarfélaginu í Reykjavík Norður, vinnubrögð sem mér finnst fjarri öllu því sem lýðræðislegt starf í grasrótarsamtökum eins og stjórnmálaflokkum eigi að vera. Sérstaklega hefur mér fundist miður að sum skrif Guðjóns Ólafs hafa verið þrungin kvenfyrirlitningu t.d. þessi grein sem hann skrifaði um Freyjumálið í Kópavogi. Það er heldur ekki hægt að leyna því að hann hefur reynt leynt og ljóst að vinna gegn Siv Friðleifsdóttur. Það er hið besta mál að Guðjón Ólafur þurfi að svara gagnrýni fyrir það sem hann sannarlega gerir og fyrir þau viðhorf og skoðanir sem birtast í skrifum hans og orðræðu en hann á ekki fremur en aðrir að þurfa að þola það að vera gerður ærulaus í fjölmiðlum fyrir dylgjur og gerður einn að blóraböggli fyrir starf nefndar sem hann situr í. Það er Bjarni Benediktsson formaður nefndarinnar sem á að svara fyrir starf nefndarinnar og vinnubrögð þar. 

Að smala og tala
Framsóknarflokkurinn og Kvennalistinn bornir saman

Ég hef undanfarin ár reynt að vinna að siðbót í Framsóknarfélaginu í Reykjavík norður sem óbreyttur félagsmaður og boðið fram krafta mína til að byggja upp félagið og stuðla að vandaðri og lýðræðislegri vinnubrögðum þar. Því miður hafa þeir sem stýrt hafa félaginu ekki borið gæfu til að vilja nýta það. Ég held að það sé mikilvægt að  starf í stjórnmálafélögum sé heiðarlegt og lýðræðislegt, ég held að ef fólk vinnur að alúð og hugsjón í stjórnmálafélögum og þar sé vettvangur þar sem fólk hlustar hvert á annað og kemur vitinu fyrir hvert annað og nýtir þau samlegðaráhrif sem felast í hópnum þá muni það til langs tíma skila sér í betri og viturlegri vinnubrögðum á vettvangi þjóðmálanna.  Þannig þakka ég fyrir að hafa fengið að vinna í Kvennalistanum í gamla daga og lært af þeim grasrótarvinnubrögðum sem þar voru þar sem alltaf tíðkaðist að hlusta á alla og það hefði aldrei komið til mála að keyra í gegn einhverjar afgreiðslur í einhvers konar skrípaleiksatkvæðagreiðslu þar sem fólki var smalað á fundi bara til að kjósa. Það var reyndar megn andstaða við að kjósa um eitt eða neitt í Kvennalistanum, ég man aldrei eftir kosningu þar. Það var alltaf reynt að tala út um málin og komast að einhvers konar sameiginlegri niðurstöðu. 

Það hefur verið áhugavert að starfa með Framsóknarflokknum undanfarin ár og bera saman vinnubrögð þessara tveggja hreyfinga. Það er eins og hvítt og svart. Það er lögð ofuráhersla á kosningar og smalanir og plott í Framsóknarflokknum á sama hátt og það var lögð ofuráhersla á umræður sem gengu hring eftir hring í Kvennalistanum. Það er margt gott í Framsóknarflokknum og þar er hefð fyrir athöfnum, atorku og drift og framkvæmdum - eitthvað sem ég saknaði verulega úr Kvennalistanum - en ég er viss um að það myndi vera verulega góð blanda ef flokkur sem byggir á samhygð og samvinnuhugsjón eins og Framsóknarflokkurinn myndi tileinka sér öðru vísi vinnubrögð og taka eitthvað upp frá Kvennalistanum gamla. Ég held að mínir ágætu fyrrum samherjar í Kvennalistanum hafi einmitt smitað þessi vinnubrögð Kvennalistans út í Reykjavíkurlistasamstarfið og síðar Samfylkinguna og það hafi haft góð áhrif á þessar hreyfingar. 

Nú er ég eins og vanalega búin að missa þráðinn og þetta blogg sem átti að vera varnarræða fyrir Guðjón Ólaf orðið að áróðri fyrir því að byggja upp betra grasrótarstarf og lýðræðislegri vinnubrögð í Framsóknarflokknum. En aftur Guðjóni Ólafi. Þó ég sé ekki sammála áherslum hans og vinnubrögðum eins og þau hafa birst mér í Framsóknarflokknum þá finnst mér mjög ómaklega að honum vegið núna með dylgjum í Dagblaðinu og fleiri stöðum þar sem því er haldið fram að hann hafði einn manna keyrt í gegn einhverja flýtiumsókn um ríkisborgararétt og því blákalt haldið fram að hann hafi knúið í gegn einmitt núna þessa umsókn en aðrir nefndarmenn hafi viljað setja hana í salt. Ég veit að Guðjón Ólafur er samviskusamur og trúr sínum stjórnmálaflokk og ég held að hann hafi hugsjónir í stjórnmálum  og virði leikreglur lýðræðisins þó ég sé ekki alltaf sammála honum. Hann er auk þess lögfræðingur og ágætlega gefinn og veit vel hvaða vinnubrögð eru sæmandi í afgreiðslu mála. Þess vegna hef ég enga trú á því að hann hafi gert samherjum sínum í Framsóknarflokknum þann óleik að taka vitandi vits þátt í óeðlilegri fyrirgreiðslu til ættingja ráðherra Framsóknarflokksins. Það hefði verið hreint glapræði ekki síst svona skömmu fyrir kosningar. Allt þetta mál hefur verið gífurlega skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn núna á lokaspretti kosningabaráttunnar og það hefði hver maður með skynsemi getað sagt sér það fyrir. Þar að auki er málið þannig vaxið að það voru ekki miklir hagsmunir í húfi fyrir stúlkuna sem hlaut ríkisborgararéttinn hvort hún fékk hann núna eða hefði þurft að bíða ef til vill einu ári lengur eftir að fá ríkisborgararétt. Aðstæður hennar eru þannig að það var bara tímaspursmál hvenær hún fengi ríkisborgararétt. Það er þessi nefnd sem í eru Bjarni Benediktsson, Guðjón Ólafur Jónsson og Guðrún Ögmundsdóttir sem verða öll að svara fyrir þessa mjög svo greiðu afgreiðslu og ef einhver ber meiri ábyrgð en aðrir þá er það Bjarni Benediktsson formaður þessarar nefndar. 

Fyrir utan hve þessar dylgjur um persónulega fyrirgreiðslu um ríkisborgararétt er skemmandi fyrir Framsóknarflokkinn á viðkvæmum tíma þegar allir ráðherrar flokksins hér á höfuðborgarsvæðinu eru mjög óöruggir með að ná endurkjöri  þá vil ég biðja fólk að hugleiða hve nærgöngul og ósanngjörn þessi umræða er fyrir það fólk sem er í skotlínunni. Þá á ég við Jónínu (og fjölskyldu hennar) og Guðjón Ólaf sem núna heyja óhemjuerfiða kosningabaráttu sem tekur allan þeirra tíma þó ekki bætist svo ofan á að vera rúinn ærunni dag eftir dag í hinum ýmsu fjölmiðlum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband