Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
5.10.2008 | 10:03
Bankastjórinn sem sagði Íslendingum að rækta korn
Við treystum lítið á bankastjóra og bankastjórnir íslensku bankanna þessa daganna. Enda höfum við ærna ástæðu til að tortryggja þá, ærna ástæðu til að halda að þeir séu að blöffa til að skapa sér örlítið lengri gálgafrest. það kann samt að vera skynsamlegt fyrir okkar að hlusta á þá því jafnvel þó bankamenn hafi ekki fremur en aðrir séð fyrir hvernig heimskreppan 2008 hófst þá eru þeir sem vinna í fjármálageiranum mun meiri sérfræðingar í peningamálum en við almenningur og geta sennilega metið ástandið betur og spáð betur til hvað gerist til langs tíma. Það þarf bara að greina spádóma þeirra með hliðsjón af því hvaða hagsmuni þeir hafa af því að blöffa.
Þær upplýsingar að eignir bankanna séu traustar og að útlán séu með traustum veðum eru örugglega réttar miðað við einhverja ársreikninga, örugglega jafnréttar og þegar forsætisráðherra vor Geir Haarde segir að hér sé engin kreppa samkvæmt skilgreiningu, hér sé bara mótvindur. Ef allt væri í lagi og bankar hafi eingöngu lánað í arðsöm viðskipti og á fínum veðréttum í áþreifanlegum eignum og að öllu leyti hegðað sér eins og fjármálafyrirtæki í samkeppnisrekstri þá væri allt í stakasta lagi, fínt bara fyrir ríkið að kaupa og yfirtaka banka í einhverri lausafjárkreppu og svo bara draga sig út úr rekstrinum með hagnaði þegar eðlilegt ástand væri komið á. En þannig held ég ekki að öll lán íslenskra banka hafi verið.
Ég held að sumir íslensku bankanna hafi verið nánast spilafé stórra aðila úr eigendahópi þeirra, sjóður þar sem þeir tóku út fé til að spila með, fé til að kaupa upp stórar erlendar verslunarkeðjur og stór erlend fyrirtæki m.a. í Bretlandi og Danmörku. Ég held að vegna þess hve mikinn hluta þessir aðilar áttu í bönkunum þá hafi þeir getað fengið þar lánafyrirgreiðslu sem líklega er ekki eðlileg og ekki í samræmi við þau arðsemis- og áhættusjónarmið sem bankar starfa eftir.
Það hefur komið í ljós varðandi Glitni að einn stór lántaki bankans Stoðir (Fl group, Eimskipafélagið) riðar nú til falls. Við eigum eftir að sjá hvort við getum treyst bankastjórum sem segja núna að eignir séu á bak við útlán bankana. Til lengri tíma litið þá geta þessar eignir gufað upp, ef fyrirtæki sem bankar lána fara á hausinn þá væntanlega leysir bankinn til sín veðin. En hvers virði eru þessi veð? Kannski eru þau veð í hlutabréfum í félögum sem eiga hlutabréf í félögum.... í einhverri keðju sem bara var búin til til að skaffa peninga úr bönkum sem voru í eigu ákveðinna einstaklinga. Og jafnvel þó að sumar fjárfestingar hafi verið skynsamlegar á sinni tíð þá getur sá umsnúningur sem verður núna með þeirri heimskreppu sem núna er að skella yfir orðið til þess að verðmæti margra hlutabréfa hríðfellur.
En það var einn bankastjóri á Íslandi fyrir margt löngu sem byrjaði að prédika skrýtna hluti. Hann sagði Íslendingum að fara að rækta korn. Það þarf ekki að taka fram að hann var strax settur af og talinn veill á geði og þótti það mikil harmsaga að svona gáfaður maður hefði klikkast.
Það er ekki margt sem gleður núna þegar heimskreppan skellur á með fullum þunga en mér finnst samt svolítið fyndið að þó að bankastjórinn í Framkvæmdabankanum í gamla daga hafi kannski ekki verið að segja hluti þá sem þóttu skynsamlegir í stormi sinna tíða eru efnahagsráðleggingar hans meira viðeigandi í dag.
Ég var nefnilega að fara yfir þá sem ég þekki og reyna að finna einhvern sem ég þekki sem ekki tapar stórfé og eignum á kreppunni og væri verr stæður en áður. Eina fólkið sem ég þekki sem hugsanlega er betur sett en áður eru þau Þorkell og Linda á Víðivöllum í Skagafirði.
Á sléttum Skagafjarðar sem og annars staðar á Íslandi hefur undanfarin ár vaxið upp mikil kornrækt. Bæði hafa komið til betri kvæmi sem þola norðlægari slóðir, betri vélvæðing og svo hjálpar nú til að loftslagið er að hlýna. Núna eftir síðasta skell íslenska þjóðarbúsins þá blasir við að kornræktin er orðin miklu mikilvægari og arðsamari fyrir þjóðfélagið áður, hún er innlend ræktun sem sparar verulega innfluttan fóðurbætir sem yrði náttúrulega ekki keyptur öðruvísi en fyrir dýrmætan gjaldeyri.
Síðustu hremmingar hafa að sumu leyti breytt aðstöðu í íslenskum landbúnaði. Landbúnaður sem skapar mikil verðmæti án þess að til komi mikil aðföng sem koma erlendis frá er arðsamari en áður. Þessa daganna ættum við að þakka fyrir að framleiða okkar mjólk á Íslandi á íslenskum búum þar sem sums staðar stór hluti af fóðurbæti mjólkurkúa er ræktaður á Íslandi. Við ættum að þakka fyrir það bæði út af því að mjólk sem væri flutt hingað frá Evrópu væri núna helmingi dýrari út af gengismálum og líka út af því að núna skekja heimsbyggðina fréttir af miklu mjólkurhneyksli í Kína þar sem ungbörn deyja úr mengaðri mjólk þar sem melanin var blandað í mjólkina.
Það var kannski ekki svo vitlaust hjá bankastjóranum að segja Íslendingum að rækta korn.
![]() |
Margir bændur á barmi gjaldþrots |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.10.2008 | 12:06
Þegar Wall Steet nær Main Street
Við lifum á tímum innsprengingarinnar og hinna geysihröðu samskiptatækni, við lifum á tímum þar sem upplýsingar dreifast með leifturhraða um heiminn og öflugar tölvur mala í sífellu og renna þessum upplýsingum gegnum stærðfræði- og hagfræðilíkön. Það er eðli verðbréfamarkaða að vinna úr þessum upplýsingum og breyta þeim í spádóma og breyta spádómunum í peninga. Það er ástæðan fyrir að þeir virka. Breytingar á hlutabréfum byggast á væntingum - bæði væntingum um hvað muni gerast varðandi vörur og þjónustu t.d. hvort að það hafi komið næturfrost í einu landi sem skemmdi uppskeruna og muni valda því verð hækkar því framboðið verður minna - bæði svona væntingum sem eru beint tengdar einhverjum ytri aðstæðum en líka væntingum um hvernig allir hinir leikendurnir á verðbréfamarkaðnum muni hegða sér. Í þessum flókna heimi spákaupmennskunnar eru fólgnar miklar upplýsingar sem koma úr mörgum mismunandi áttum og eru túlkaðar af mismunandi aðilum en verðbréfamarkaðurinn hefur virkar svona vel einmitt út af því að þar er kerfi sem túlkar upplýsingar og breytir þeim í spásögn fyrir framtíðina og breytir þeim þannig í peninga.
Þó að núna næði um verðbréfamarkaði þá er það kerfi sem hefur virkað og það er kerfi sem er smurningsolía og eldsneyti fyrir alþjóðlegt viðskiptaumhverfi og afleiðingarnar verða hrikalegar ef þetta kerfi leggst á hliðina. En þetta kerfi er svo sannarlega ekki óskeikult, ef það væri það þá væri hægur leikur að vélvæða þessa hugsun heimsins sem breytir upplýsingum í spádóma og spádómunum í peninga. Sérstaklega mikil hætta er í þessu kerfi þegar það er farið að snúast um sjálft sig, farið að virka eins og pýramídaviðskipti sem búa til peninga í krafti væntinga um vöxt, væntinga sem aðeins ganga eftir á meðan nógu margir bíta á agnið og trúa á þessar væntingar og fatta ekki að þær eiga sér enga stoð í einhverjum raunverulegum áþreifanlegum verðmætum. Þannig eru gengismunaviðskipti ekki nein raunveruleg viðskipti með verðmæti heldur eins konar spilaborg sem byggir á því að það eru margs konar gjaldmiðlar í gangi á alþjóðamörkuðum og þeir eru mjög mismunandi skráðir. Þó slík viðskipti með verðmæti sem ekki eru neins staðar til geta verið ábatasöm fyrir einstaka fjárfesta og hugsanlega stuðlað að því að markaðir nálgist hver annan þá eru þannig viðskipti eins og hávaði eða ruglingur í verðbréfaviðskiptum og auka hættuna á því að markaðurinn í heild taki mjög rangar ákvarðanir - einfaldlega vegna þess að það er minna samband milli raunveruleikans og þeirra viðskipta sem eiga sér stað innan kerfisins og svo mikið af púðri markaðarins fer í viðskipti um viðskipti um viðskipti... Ef fjármagnið flöktir líka óhindrað áfram þangað sem arðsvonin virðist mest (eða tapið minnst) og fjármagnshreyfingarnar verða á grunni þessar viðskipta um viðskipti um viðskipti... spilaborga þá er augljóst að slíkt kerfi magnar upp kreppu.
Ef ég ætti að taka dæmi til útskýringar frá íslenskri fjármálastjórn þá er nærtækast að taka dæmi frá óðaverðbólgutímanum. Þá snerist svo mikið af púðri íslenskra fjármálastjórnunar í að "ná tökum á verðbólgunni" að öll raunveruleg arðsemisviðmið fyrirtækja voru í aukahlutverki og lítt sýnileg. Það var eins og mest verðmætasköpun væri hjá þeim sem gat hegðað sem sem best í heimi óðaverðbólgu - ekki hjá þeim sem gat skapað mestan raunverulegan virðisauka í framleiðslu einhverra vara eða þjónustu.
En nóg um hvernig Wall Street og önnur fjármálakerfi geta misreiknað sig og farið að snúast um annað en túlka upplýsingar sem eiga sér stoð í raunverulegum verðmætum.
Því þó að Wall Street geri herfileg mistök þá virkar það kerfi að sumu leyti, það er þróaðasta kerfi í heiminum til að spá fram í tímann og breyta upplýsingum í peninga. En þó við lifum á tímum innsprengingar og samskiptabyltingar, þó við lifum á tímum þar sem upplýsingar dreifast með leifturhraða um heiminn þá er það ekki trygging fyrir því að fólk geti túlkað þessar upplýsingar. Það er margt sem bendir til að upplýsingarnar um hrun fjármála hafi ekki náð til almennings, hafi ekki náð úr fjármálaheiminum inn í þau viðskipti sem skipta venjulegt fólk máli. Það gerist sennilega miklu fyrr hér á landi en annars staðar. En það mun sennileg gerast víða annars staðar líka.
![]() |
Bandarísk hlutabréf lækkuðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2008 | 23:29
Þjóðstjórn er það eina skynsamlega í stöðunni
Ég er svartsýn og kvíðin. Það er ástæða til að vera það. Ég verð ekki ennþá vör við að stjórnvöld aðhafist neitt að gagni í þeim miklu þrengingum sem nú dynja yfir Íslendinga. Geir forsætisráðherra benti ekki á neina lausn í ræðu sinni í þingbyrjun.
Eina sem forsætisráðherra sagði okkur er að ástandið á eftir að birtast okkur verra. Samt má alls ekki tala um hversu slæmt ástandið er því svo mikil sprengihætta ku vera núna í riktinu sem Ísland hefur í útlöndum að hver frétt og neikvæð umræða getur valdið keðjuverkum. Þess vegna hamrar efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar á því að við séum rík og þróuð. Hann segir :"Við erum iðnvætt ríki, það fimmta ríkasta í heimi miðað við landsframleiðslu á mann. Við vinnum nú að ýmsum aðgerðum til að auka lausafé í hagkerfinu.." Þetta með hvað við erum rík og iðnvædd minnir eitthvað svo mikið á forsætisráðherra okkar hann Geir sem hamraði fyrir hálfum mánuði á því að það væri engin kreppa samkvæmt skilgreiningum hagfræðinga, bara mótvindur. Þorgerður Katrín sagði á þeim tíma að ekkert hefði komið til tals að ríkisstjórnin kæmi inn í mál bankanna.
Ég hef ekki trú á íslensku ríkisstjórninni. Ég held að hún skilji ekki nógu vel hve alvarleg staðan er núna. En ég held að ástandið sé svo alvarlegt að það sé illa varið tímanum í að ráðast á ráðamenn. Það er besta leiðin að sem flestir komi að því að finna sem bærilegasta lausn.
Svona er umræðan núna um ísland í enskumælandi heimi
Iceland: When Too Big To Fail Becomes Too Big To Rescue
"Last year, Moody's briefly gave all of Iceland's major banks, including Glitnir, a triple-A rating, on the grounds that if they ever got into trouble, the Icelandic government would bail them out. After much ridicule, Moody's changed its mind. Clearly, it was silly to treat Iceland's banks as though they were just as creditworthy as the sovereign.
Fast-forward to today, and Iceland has indeed bailed out Glitnir. But here's the thing: Iceland's credit default swaps are now suggesting that the sovereign itself is a distressed credit.
Contracts on Iceland's debt jumped to 17.5 percent upfront and 5 percent a year to protect 10 million euros ($13.8 million) of bonds.
This is not how triple-A sovereigns behave. It's as though the analysts at Moody's were only able to see one step ahead, and not two: they could anticipate that Iceland would bail out its banks, but they couldn't anticipate that when a tiny country bails out a bank whose assets vastly exceed the country's own GDP, then the sovereign itself loses much creditworthiness. One scary datapoint: the assets of Kaupthing Bank amount to 623% of Iceland's GDP, which is possibly why its own credit default swaps are trading somewhere over 2500bp.
How bad can things get in Iceland? Here's what one local emailed Tom Braithwaite:
They are fighting powers that they are powerless to fight. It's like tackling a storm raging in the sea with a teaspoon.
The main supermarket can't get imported goods because they have no currency. The shops are half empty. One of the store managers has advised people to start hoarding. We're running out of oil. And winter came last night - about a month early.Received opinion has it that if Iceland backstops the Icelandic banks, then the other Nordic countries, or someone, will backstop Iceland. Which might be true: we'll find out "very soon". But there's no news yet."
![]() |
Boðar aðgerðir til að auka lausafé |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 4.10.2008 kl. 00:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.10.2008 | 13:33
Keypti rautt hjól í gær
Ég er að smitast af þessu panikástandi í samfélaginu. Ég er veik heima og get þess vegna ekki komist í bankann til að taka út minn örsmáa peningavarasjóð. Ég er dáldið stressuð , því það vill svo til að í fyrsta skipti í mörg ár þá á ég afgang á bankareikning því ég hef verið að öngla saman fyrir nýlegri bíl, bíllinn minn er árgerð 1996 og þó hann standi sig afar vel þá er hann orðinn roskinn og þolir ekki miklar ferðir út fyrir borgarmörkin úr þessu. Það er hins vegar nauðsynlegt hjá mér upp á næsta sumar að geta skotist úr bænum í skógrækt sem ég er með bæði í Borgarfirði og á Suðurlandi, mér sýnist allt benda til þess að tómstundir mínar og ferðalög verði næstu ár mestmegnis innanlands, það er ekkert útlit fyrir að ég eða aðrir Íslendingar höfum efni á að flandrast um heiminn og eyða dýrmætum gjaldeyri í það næstu misseri.
Þetta er nú ekki alvont, ég hlakka til að vera meira á Íslandi og taka þátt í að rækta upp landið og njóta þess að vera í þessu fallega landi. Hins vegar þarf ég að komast út fyrir borgarmörkin og til þess þarf bíl og bensín. En svona er lífið, kannski verður ekkert eftir af bílasjóðnum mínum eftir helgina og kannski verður ekki til neinn gjaldeyrir til að ég geti keypt bensín næsta sumar.
Þá verð ég bara fegin að hafa Öskjuhlíðina og Heiðmörkina og Esjuna hérna innan borgarmarkanna. Og að Orkuveitan ætli ekki að selja Hvammsvík.
Í gær keypti ég hjól, ég bað dóttur mína að fara í útsöluna í Markinu og hún keypti handa mér rautt fallegt hjól sem stendur nú í stofunni hjá mér eins og djásn og tákn um nýja tíma á Íslandi og tákn um hvað er að gerast akkúrat núna. Hjólið kostaði 26.320 kr íslenskar og er þriggja gíra af gerðinni Bronco Windsor.
Þetta er sem sagt plan B ef bankakerfið klikkar um helgina og allt hrynur.
Ég á rauðu hjóli.
Lífið er ekki alslæmt.
![]() |
Engin hætta á olíukreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.10.2008 | 14:57
Meiri mótvindur
Fyrir hálfum mánuði sagði forsætisráðherra vor að það væri engin kreppa, það væri bara mótvindur. Það verður athyglisvert að heyra í stefnuræðu hans í kvöld hvað hann metur mörg vindstig núna.
Það getur verið að það sé svo slæmt óveður að það sé hvergi siglingarhæft og það eina sem gildi sé að leita vars og bíða þangað til veðrinu slotar.
Annars er ég orðin leið á bankamönnum og stjórnmálamönnum sem eru að blöffa og eru eins og maður sem tekið er viðtal við fyrir framan hús sem stendur í ljósum logum og maðurinn segir "Hva, þetta er bara smáreykur, slökkviliðið er löngu búið að ná tökum á þessu".
Það er stundum gott að blöffa. Það er stundum hægt að tala gengið upp og það er stundum hægt að róa viðskiptavini með því að tala eins og ekkert sé að. En það er bara hægt ef eitthvað traust er til staðar. Viðskipti byggjast á trausti. Það traust hefur rokið út í veður og (mót)vind.
Mínar fyrri færslur um efnahagsmálin síðasta hálfa mánuðinn:
Næðingur á toppnum - Geir í mótvindi
Dauft er í sveitum, hnípin þjóð í vanda
Týndi biskupssonurinn snýr aftur
Hver er Mohammed Bin Khalifa Al-Thani? Hvaðan kemur auður hans?
Að losa peninga - Raufarhafnarstemming hjá Helga Hjörvar
Hvaða áhrif hefur greiðslustöðvum Stoða á íslenska fjölmiðla?
![]() |
Stefnuræða forsætisráðherra flutt í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 11:38
Komið að skuldadögunum
Ég hef aftur fengið áhuga á hagfræði. Það er svo mikið að gerast í fjármálaheiminum núna og það hefur sennilega áhrif á alla jarðarbúa - líka á þá sem vita ekkert af því hvað er að gerast og fylgjast ekkert með fréttum. Nú er ég að stúdera "carry trade" sem útleggst á íslensku sem vaxtamunaviðskipti og það er nú líklegasta ástæðan fyrir hve íslenskt fjármálalíf stendur illa núna.
Hér eru greinar um þetta fyrirbæri:
Carry (investment) - Wikipedia, the free encyclopedia
Why is the carry trade so dangerous? - MoneyWeek
Bara fordómar og misskilningur Economist?
Það er meira en aldarfjórðungur síðan ég útskrifaðist úr því sem þá hét þjóðhagskjarni í viðskiptadeild HÍ. Þar stúderaði ég alls kyns reiknilíkön og kenningar sem mér virtust hafa þá engan snertiflöt við íslenskt samfélag og enga tengingu í önnur félagskerfi mannanna.
Það er líka áhugavert að sjá söguna um hvað er að gerast spinnast fram úr ýmsum áttum og sérstaklega að sjá hvað útskýringar sem koma frá hagsmunaaðilum í næsta umhverfi okkar eru ótrúverðugar. Eiginlega finnst mér margir núna tala svo mikla steypu að ég held að heilt samfélag sé alveg ráðvillt og enginn viti hvað eigi að gera. Reyndar held ég að það eigi við um heimsbyggðina, það hugsa allar fjármálastofnanir um að bjarga eigin hag til skamms tíma og safna sjóðum og eðlileg viðskipti fá ekki lánsfjármagn.
En það ástand sem er á Íslandi er sennilega alvarlegra en víða erlendis og þá sérstaklega vegna umfangs bankastofnana hérna. Í myndböndunum sem hér eru fyrir neðan þá er þeirri skoðun haldið fram að íslenska efnahagsundrið í útlöndum sé til komið vegna álagsviðskipta eða vaxtamunaviðskipta "carry trade" þannig að tekin voru lán með mjög lágum vöxtum í sterkum gjaldmiðlum eins og japönskum jenum og þau lán síðan notuð til að fjárfesta í löndum þar sem annar gjaldmiðill var í gildi og þar sem vextir voru hærri. Svona virkaði sem sagt íslenska útrásinog þau miklu fjármálaundur sem fólust í skuldsettum yfirtökum þar sem skyndilega einhverjir urðu ríkir í gegnum einhvers konar díla.
Það er komin tími til að við horfumst í augu við að íslenska fjármálaútrásin var byggð á sandi.
Hér er ágætis greining og útskýringar KB banka frá október 2005 um þessa ógnarmiklu peninga sem þá streymdu inn til Íslands vegna hávaxtanna sem þá voru hér.
Ókeypis hádegisverður á skuldabréfamarkaði?
Í þessari greiningu stendur m.a. :
Útgáfa erlendra aðila á skuldabréfum í íslenskum krónum hófst í lok síðasta ágústmánaðar. Útgáfurnar hafa flestar verið á höndum erlendra verðbréfafyrirtækja, þó innlendir bankar hafi aðeins komið að slíkri útgáfu, sem hafa síðan selt til erlendra fjárfesta. Það sem einkennir allar þessar útgáfur er hins vegar að ávöxtunarkrafa útgefinna bréfa er töluvert fyrir neðan það sem þekkist á þeim skuldabréfum sem íslenska ríkið hefur gefið út hérlendis. Það þýðir að endafjárfestar hefðu að sjálfsögðu getað komið beint til Íslands og fjárfest hér á hærri vöxtum en þeim bauðst í erlendu skuldabréfaútgáfunum. En í heimi ófullkominna upplýsinga hlýst töluverður viðskiptakostnaður í því að kynna sér og fjárfesta í fyrsta skiptið í smáu og lítt þekktu hagkerfi. Í kjölfarið myndast viðskiptatækifæri fyrir milliaðilana við að greiða fyrir viðskiptunum og taka vaxtamun fyrir viðvikið.
-----------------------
Útgefandinn gefur út skuldabréf í íslenskum krónum sem boðin eru endafjárfestum, þeir greiða fyrir bréfin t.d. með evrum. Útgefandinn hefur ekki áhuga á því að skulda í krónum, enda vextir háir, og því gerir hann vaxtaskiptasamning við íslenskan aðila. Sá samningur er gerður í því augnamiði að fá tekjuflæði í krónum og verja þar með vaxtaáhættuna sem fólst í útgáfunni. Útgefandinn er því ekki í raun að fjármagna sig í krónum, heldur einungis að búa til viðskiptin og hirða vaxtamun sem af þeim hlýst, sem honum er kleift í krafti trausts lánshæfismats og þekkts nafns. T.a.m. eru flestir útgefendurnir með AAA einkunn frá Moodýs. Í kjölfarið er það því endafjárfestirinn sem tekur á sig áhættu í krónum (gengisáhættu) og fær í staðinn háa vexti á sitt fjármagn þar sem vaxtamunur við útlönd er um þessar mundir í kringum 7,7 prósent.
---------------
Íslenskir vextir eru mjög háir í erlendum samanburði, enda eru vextir í helstu nágrannalöndum í sögulegu lágmarki. Nú er nafnvaxtamunur við útlöndum um 7,7% og raunvaxtamunur verðtryggðra bréfa um 2,2%.
Hér eru tvö myndbönd sem eru á Youtube um Carry Trade og Íslenskra fjármálahrunið
Það er sárt fyrir Íslendinga að horfa á þessi myndbönd, myndin sem dregin er upp af Íslendingum er að þeir séu algjör ginningarfífl og meira segja er myndin af vormönnum Íslands, þeim sem eiga að erfa landið dregin upp sem nokkrir sauðdrukknir unglingar í trúðsgervi sem láta trúðslega og bulla, sennilega hefur myndatökumaðurinn hitt á dimmission hjá einhverjum framhaldsskóla.
![]() |
Lánshæfiseinkunn Kaupþings skuldabréfa endurskoðuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.10.2008 | 07:36
Hrun heimsveldis?
Þann 11. september 2001 var gerð innrás í Bandaríkin og heimsbyggðin horfði á turna musteris viðskipta í Bandaríkjunum hrynja. Ef til vill erum við að horfa á annars konar hrun núna, hrun Bandaríkjanna úr þeim sessi sem það ríki hefur verið í alveg frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar.
Þessi grein á BBC fjallar um breytta stöðu Bandaríkjanna:
Viðskipti byggjast á trausti og það traust skapast m.a. með því að bankinn eða sá sem lánar búi yfir þekkingu á viðskiptum lántaka sinna og geti þannig metið hæfi þeirra til að greiða aftur lán. Þegar bankar loka eða halda að sér höndum í ástandi eins og var þegar heimskreppan skall á eða í ástandi eins og er núna þá tapast þessi þekking. Ég var að lesa greinina Economic Scene: Lesson From a Crisis: When Trust Vanishes, Worry í New York Times sem ber saman ástandið núna og ástandið 1930. Í þessari grein er varpað ljósi á ástandið og það gert m.a. með því að taka dæmi um Glitnismálið á Íslandi. Í greininni stendur:
In the current environment, bankers are nervous that other banks might shut them out, out of fear, and stop extending that short-term credit. This, in a nutshell, brought about Mondays collapse of Wachovia and Glitnir Bank in Iceland. To avoid their fate, other banks are hoarding capital, instead of making seemingly profitable loans. And when capital is hoarded, further bank failures become all the more likely.
Það er reyndar fjallað um Glitnismálið á fleiri stöðum en í New York Times
Magasinejer: Islands største bankrøveri
![]() |
Öldungadeildin samþykkti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.10.2008 | 14:19
Facebook dagsins
Einu sinni ortu Íslendingar dróttkvæði og dýrt kveðnar ferskeytlur til að meitla hugsun sína. Þar draup speki af hverju orði. Núna uppfæra andans jörfrar Íslands prófílinn sinn í Facebook og þar eru margar meitlaðar hendingar. Facebook dagsins í dag er frá Pétri Gunnarssyni en hann kveður sér hljóðs á prófílnum sínum svona:
Pétur er farinn að halda að það séu tvær leiðir út úr efnahagsvandanum:
1. Icelandair.
2. Iceland Express.