Þegar Wall Steet nær Main Street

Við lifum á tímum innsprengingarinnar og hinna geysihröðu samskiptatækni,  við lifum á tímum þar sem upplýsingar dreifast með leifturhraða um heiminn og öflugar tölvur mala í sífellu og renna þessum upplýsingum gegnum stærðfræði- og hagfræðilíkön. Það  er eðli verðbréfamarkaða að vinna úr þessum upplýsingum og breyta þeim í spádóma og breyta spádómunum í peninga. Það er ástæðan fyrir að þeir virka. Breytingar á hlutabréfum byggast á væntingum - bæði væntingum um hvað muni gerast varðandi vörur og þjónustu t.d. hvort að það hafi komið næturfrost í einu landi sem skemmdi uppskeruna og muni valda því verð hækkar því framboðið verður minna - bæði svona væntingum sem eru beint tengdar einhverjum ytri aðstæðum en líka væntingum um hvernig allir hinir leikendurnir á verðbréfamarkaðnum muni hegða sér. Í þessum flókna heimi spákaupmennskunnar eru fólgnar miklar upplýsingar sem koma úr mörgum mismunandi áttum og eru túlkaðar af mismunandi aðilum en verðbréfamarkaðurinn hefur virkar svona vel einmitt út af því að þar er kerfi sem túlkar upplýsingar og breytir þeim í spásögn fyrir framtíðina og breytir þeim þannig í peninga. 

Þó að núna næði um verðbréfamarkaði þá er það kerfi sem hefur virkað og það er kerfi sem er smurningsolía og eldsneyti fyrir alþjóðlegt viðskiptaumhverfi og afleiðingarnar verða hrikalegar ef þetta kerfi leggst á hliðina.  En þetta kerfi er svo sannarlega ekki óskeikult, ef það væri það þá væri hægur leikur að vélvæða þessa hugsun heimsins sem breytir upplýsingum í spádóma og spádómunum í peninga. Sérstaklega mikil hætta er í þessu kerfi þegar það er farið að snúast um sjálft sig, farið að virka eins og pýramídaviðskipti sem búa til peninga í krafti væntinga um vöxt, væntinga sem aðeins ganga eftir á meðan nógu margir bíta á agnið og trúa á þessar væntingar og fatta ekki að þær eiga sér enga stoð í einhverjum raunverulegum áþreifanlegum verðmætum. Þannig eru gengismunaviðskipti ekki nein raunveruleg viðskipti með verðmæti heldur eins konar spilaborg sem byggir á því að það eru margs konar gjaldmiðlar í gangi á alþjóðamörkuðum  og þeir eru mjög mismunandi skráðir. Þó slík viðskipti með verðmæti sem ekki eru neins staðar til geta verið ábatasöm fyrir einstaka fjárfesta og hugsanlega stuðlað að því að markaðir nálgist hver annan þá eru þannig viðskipti eins og hávaði eða ruglingur í verðbréfaviðskiptum og auka hættuna á því að markaðurinn í heild taki mjög rangar ákvarðanir - einfaldlega vegna þess að það er minna samband milli raunveruleikans og þeirra viðskipta sem eiga sér stað innan kerfisins og svo mikið af púðri markaðarins fer í viðskipti um viðskipti um viðskipti... Ef fjármagnið flöktir líka óhindrað áfram þangað sem arðsvonin virðist mest (eða tapið minnst) og fjármagnshreyfingarnar verða á grunni þessar viðskipta um viðskipti um viðskipti... spilaborga þá er augljóst að slíkt kerfi magnar upp kreppu.

Ef ég ætti að taka dæmi til útskýringar frá íslenskri fjármálastjórn þá er nærtækast að taka dæmi frá óðaverðbólgutímanum. Þá snerist svo mikið af púðri íslenskra fjármálastjórnunar í að "ná tökum á verðbólgunni" að öll raunveruleg arðsemisviðmið fyrirtækja voru í aukahlutverki og lítt sýnileg. Það var eins og mest verðmætasköpun væri hjá þeim sem gat hegðað sem sem best í heimi óðaverðbólgu - ekki hjá þeim sem gat skapað mestan raunverulegan virðisauka í framleiðslu einhverra vara eða þjónustu.

 En nóg um hvernig Wall Street og önnur fjármálakerfi geta misreiknað sig og farið að snúast um annað en túlka upplýsingar  sem eiga sér stoð í raunverulegum verðmætum.

Því þó að Wall Street geri herfileg mistök þá virkar það kerfi að sumu leyti, það er þróaðasta kerfi í heiminum til að spá fram í tímann og breyta upplýsingum í peninga. En þó við lifum á tímum innsprengingar og  samskiptabyltingar, þó  við lifum á tímum þar sem upplýsingar dreifast með leifturhraða um heiminn þá er það ekki trygging fyrir því að fólk geti túlkað þessar upplýsingar. Það er margt sem bendir til að upplýsingarnar um hrun fjármála hafi ekki náð til almennings, hafi ekki náð úr fjármálaheiminum inn í þau viðskipti sem skipta venjulegt fólk máli. Það gerist sennilega miklu fyrr hér á landi en annars staðar. En það mun sennileg gerast víða annars staðar líka.


mbl.is Bandarísk hlutabréf lækkuðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband